20.12.2008 | 17:23
Olíufíkillinn
Orkubloggið hefur ítrekað dásamað möguleika sólarorkunnar. Bæði speglatæknina (CSP) og sólarsellurnar (PV). Og ekki síður verið ófeimið að lýsa hrifningu sinni á risastórum vindtúrbínum.
Bandaríkin eru olíufíkill. "Addicted to oil", svo vitnað sé í Bush sjálfan. Efnahagskerfið hefur kallað á sífellt meiri innflutning á olíu og skattaumhverfið gælt við olíufyrirtækin, meðan möguleikar í endurnýjanlegri orku hafa fengi litla athygli stjórnvalda.
Undanfarin ár hafa bjartsýnismenn engu að síður sett mikinn pening í þróun og byggingu orkuvera, sem framleiða rafmagn úr sól og vindi. Já - jafnvel vestur í Bandaríkjunum, hvar þessi iðnaður hefur nánast verið í herkví tilviljanakenndra skammtímaákvarðana þingsins. Þar vestra hafa sumir framsýnir menn leyft sér að vonast eftir breytingum. Að senn myndu pólitíkusar gera alvöru úr yfirlýsingum um mikilvægi orkusjálfstæðis Bandaríkjanna. Og hætta að láta olíuiðnaðinn hirða mest alla ríkisstyrki í orkugeiranum.
Bæði vindorkan og sólarorkan bjóða upp á mikla möguleika. Sólarorkan er að vísu ennþá mjög dýr. Í reynd er vindorkan ennþá eina tegund endurnýjanlegrar orku sem hefur einhverja burði til að keppa við gas og kol. En hingað til hefur vindorkuna illilega skort aðgang að dreifikerfi - eða öllu heldur flutningskerfi - til að geta orðið umtalsverður þáttur í rafmagnsframleiðslu Bandaríkjanna. Nú virðast loks vera að skapast aðstæður þar vestra, sem gera munu bæði vind- og sólarorku að raunverulegum valkosti. Þetta gæti valdið straumhvörfum og gríðarlegum uppgangi í þessum iðngreinum.
Nú er að sjá hvort Obama standi við stóru orðin. Og skapi endurnýjanlegri orku hagstæðara rekstrarumhverfi. Það myndi gleðja Orkubloggið. Enda er staðan einfaldlega sú, að án einhverskonar stuðnings getur endurnýjanleg orka almennt ekki keppt við rafmagnsframleiðslu frá gas- eða kolaorkuverum.
Sá stuðningur getur falist í niðurgreiðslum eða skattaívilnunum. Nú er þó líklegast að kolefnisgjald í einhverri mynd muni leika stærsta hlutverkið í orkupólitíkinni vestra. Og geri endurnýjanlega orku samkeppnishæfa við hefðbundna rafmagnsframleiðslu, sem fæst frá bruna á jarðefnaeldsneyti.
Við skulum samt ekki fagna of snemma. Munum hvernig fór með metnaðarfullar áætlanir Jimmy Carter á 8. áratugnum. Þá voru Bandaríkjamenn enn í sjokki eftir olíukreppuna og nú átti að breyta heiminum. Þetta voldugasta ríki heims skyldi sko ekki aldeilis lengur vera háð innfluttri olíu.
Í tíð Carters var orkumálaráðuneytið bandaríska stofnað og sólasellum komið fyrir á sjálfu Hvíta húsinu. En svo lækkaði olíuverðið snarlega aftur snemma á 9. áratugnum og endurnýjanleg orka féll meira eða minna í tveggja áratuga gleymsku. Loks upp úr aldamótunum skreið olíuverðið upp á ný og vindorka og sólarorka urðu aftur töfraorð í orkugeiranum.
Menn eru auðvitað óþreytandi við að bera saman kostnaðinn af mismunandi orkugjöfum og lesa þannig út hvar bestu tækifærin liggja. Þar vill hver og einn gera sem mest úr "sínum" orkugeira. Í sólarorkuiðnaðinum benda menn á, að sólin er stærsta mögulega orkuuppsprettan og að tækniframfarir muni senn gera sólarorkuna samkeppnishæfa við gas. Vindorkuiðnaðurinn hamrar á því hversu miklu ódýrari sú orka er heldur en sólarorkan. Og að vindorkan sé þroskuð og áreiðanlega tækni. Kjarnorkan dansar líka á sviðinu og hefur skyndilega fengið grænni ásýnd en áður var. Af því nú er í tísku að óttast hlýnun jarðar - en ekki hina langvarandi geislavirkni frá kjarnorkuúrganginum.
Lífmassinn er líka ein af lausnunum . En hefur ekki náð að hrista af sér það klístur, að sú orkuuppspretta stuðli að hungri í heiminum. Jarðhitinn þykir nokkuð spennandi, enda eru jarðhitafyrirtækin dugleg að benda á að rekstrarkostnaður orkuveranna þeirra er lágur. Jarðhitinn hefur samt ekki hlotið nándar nærri eins mikla athygli og sólar- eða vindorka. Kannski aðallega vegna þess að á lághitasvæðum eru jarðhitavirkjanirnar fremur litlar og stofnakostnaðurinn hár. Framtíð jarðhita við rafmagnsframleiðslu er engu að síður björt - að mati Orkubloggsins. En verður í miklu minni mæli en sólar- eða vindorka. Þá eru ónefndir fjarlægari möguleikar eins og ölduorka eða virkjun sjávarfalla.
Hvað sem öllu þessu líður, þá er það staðreynd að sólarorkan og vindorkan ljóma mest á veraldarhimni endurnýjanlegrar orku. Bæði í Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og í Kína. Í dag er vindorkan á nokkrum stöðum farin að geta keppt við rafmagn frá kolum og gasi. Það er árangur margra áratuga tækniþróunar, þar sem evrópsk fyrirtæki eins og Siemens og Vestas eru í fararbroddi. Enda hafa þau lengi notið mikils fjárhagslegs velvilja heimafyrir og innan Evrópusambandsins.
Vindur hefur ekki bara þótt fínn í Evrópu, heldur líka verið áberandi í Bandaríkjunum. Þeir eru samt talsvert á eftir Evrópu í uppsetningu stórra vindorkuvera. Þar vestra voru menn lengi vel hrifnari af sólarorkunni. Báðar þessar tegundir rafmagnsframleiðslu henta mjög vel á gríðarstórum svæðum í Bandaríkjunum; sólin í suðvesturríkjunum og vindurinn í miðríkjunum. Um 1980 blasti afar björt framtíð við bandaríska sólarorkuiðnaðinum. En svo komust Reagan og Bush eldri í Hvíta húsið, olían lækkaði á ný og einungis brjálaðir milljarðamæringar tímdu að setja pening í aðþrengdan vind- og sólarorkuiðnað.
Eftir því sem árin liðu jókst olíuinnflutningur Bandaríkjanna og menn fóru á ný að hafa áhyggjur af olíufíkninni. Samhliða þessu fengu umhverfismál æ meiri athygli og ýmis ríki Bandaríkjanna fóru að setja "græn" lög til að styðja við bakið á fyrirtækjum í endurnýjanlega orkugeiranum. Þar bar kannski mest á hinum frjálslyndu Kaliforníubúum. En í reynd var það gamla olíufylkið Texas sem fór þarna fremst. Enda eru þar á sléttunum gríðarleg tækifæri til að reka bæði sólarorkuver og ekki síður vindorkuver.
Einn frægasti Texasbúinn, fyrirtækjahrellirinn Boone Pickens, sneri baki við olíunni og tók að moka peningunum sínum í vindorku. Allt virtist á uppleið í þessum iðnaði. En svo kom kreppan. Olíuverðið hrundi - og dregur allan orkugeirann með sér í kviksyndið. Hlutabréf í endurnýjanlega orkugeiranum hafa flest lækkað hressilega upp á síðkastið. Mun sagan eftir Carter endurtaka sig og endurnýjanleg orka fá sér annan 20 ára Þyrnirósarsvefn?
Ef repúblíkanar myndu ráða Bandaríkjunum er nokkuð víst að nú mætti sjá Orkubloggið hlaupa skrækjandi með skelfingarsvip í burtu frá öllu sem heitir endurnýjanleg orka. En það er smá von í Obama. Jafnvel þótt olíuverðið haldist lágt í einhvern tíma, er bloggið bjartsýnt um að endurnýjanlegi orkugeirinn geri það gott á næstu árum. Það virðist nefnilega vera kominn upp alvöru pólitískur vilji í Bandaríkjunum til að byggja upp raunverulegan valkost lækningu við olíufíkn landsmanna. Og austan Atlantshafsins var ESB nú í vikunni sem leið, að negla niður metnaðarfulla áætlun um mikinn samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Sem er veisla fyrir bæði vind og sól.
Með kjöri Obama eru líkur á að endurnýjanlegi orkuiðnaðurinn sjái loks að baki bútasaumi repúblikananna og fái stöðugra rekstrarumhverfi. Það mun hvetja til fjárfestinga í þessum greinum - og jafnvel skapa græna fjárfestingabólu.
Vissulega sveimar nú kreppuvofan yfir iðnaðinum. En það gæti reyndar farið svo að kreppan ýti enn frekar undir uppsveiflu í endurnýjanlegri orku. Kreppu fylgja uppsagnir og atvinnuleysi í hinum hefðbundnu iðngreinum. Obama hyggst ekki einungis moka pening í endurnýjanlega orku út af fögrum fyrirheitum um orkusjálfstæði og minni gróðurhúsaáhrif. Það er nefnilega svo, að ef unnið verður t.d. að því markmiði að 20% rafmagns í Bandaríkjunum komi frá vindorkuverum, mun það eitt skapa allt að 500 þúsund ný störf. Vinna gegn kreppu og atvinnuleysi. Og um leið minnka gasþörfina um 10%. Það gas kæmi að góðum notum í að knýja vöruflutningabílaflota landsins. Tvær stórar flugur í einu höggi. Og mikilvægt skref í átt að orkusjálfstæði bandarísku þjóðarinnar.
Athyglisvert er að það helsta sem kann að standa í vegi fyrir þessari ágætu framtíðarsýn, er ekki lengur skortur á pólitískum vilja eða ónóg tækniþekking. Heldur flutningskerfið. Raflínurnar sem sjá um rafmagnsflutningana í Bandaríkjunum eru einfaldlega ekki byggðar til að flytja raforku frá fjölmörgum nýjum, stórum vind- eða sólarorkuverum. Fjárfesting í virkjunum af þessu tagi kallar því líka á miklar fjárfestingar í flutningskerfinu. Og menn eru ekki á eitt sáttir um hver eigi að borga þann brúsa. Meira um það síðar hér á Orkublogginu. Því fátt er meira spennandi þessa dagana vestur í Ameríku, en sjálf háspennan. Háspennandi!
---------------------
Annars bar það til tiðinda á Klakanum góða í dag, að Alþingi samþykkti breytingu við íslensku olíulögin. Þau heita reyndar Lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Orkubloggið hefur klórað sér i hausnum yfir því að íslenska ríkið hefur ekki sýnt neina tilburði um að taka þátt í hugsanlegri olíuvinnslu á íslenska landgrunninu. Lagatextinn er enn ekki kominn á vef Alþingis. En skv. frumvarpinu má gera ráð fyrir að Ísland verði að mestu einungis áhorfandi að olíuvinnslunni. Meðan norska ríkið varð strax öflugur þátttakandi í olíuvinnslu á norska landgrunninu. Og fyrir vikið eiga Norðmenn nú eitt öflugasta fyrirtæki heims í olíuvinnslu úr hafsbotni. StatoilHydro.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 23.12.2008 kl. 16:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.