Eru demantar eilífir?

Orkubloggið ætlar í dag að taka upp þráðinn frá því skömmu fyrir áramót. Nánar tiltekið horfa með spenningi til olíuspútniksins Angóla í Vestur-Afríku. Sem eins konar framhald af færslunni "Frá miðbaugi að Eyríki".

slave_trade_1650-1860

Þarna í hinni stríðshrjáðu Angóla eru allir innviðir ríkisins meira eða minna í molum eftir áratuga borgarastyrjöld. Nú vaða Kínverjar um landið og reyna að tryggja sér hvern einasta olíudropa sem þar er að finna. Peningalyktin er vissulega kæfandi - en eins víst að allt fari í háaloft hvenær sem er.

Það er útilokað að fjalla um olíuævintýrið í Angóla, nema skoða aðeins forsögu málsins. Fyrstu aldirnar í samskiptum Angóla við Evrópu og Ameríku einkenndust aðallega af þrælaviðskiptum. Portúgalar náðu fótfestu við ströndina þarna á 17. öld og síðar varð þetta svæði eins konar nýlenda Brasilíu (þó svo formlega séð væri Brasilía vissulega hluti af portúgalska konungsríkinu).

Salazar_Time_Cover

En hlaupum hratt yfir sögu. Meðan flestar nýlendurnar í Afríku fengu sjálfstæði eftir heimsstyrjöldina síðari, var einræðisstjórn portúgalska hægrimannsins Salazar ekki alveg á þeim buxunum að sleppa nýlendunum í álfunni svörtu. Hvorki Mósambík, Gíneu (sem í dag kallast Gínea-Bissau), Sao Tomé né Angóla.

En þá sauð upp úr. Í nýlendum spruttu upp þjóðernishreyfingar, sem hófu blóðuga baráttu fyrir sjálfstæði. Þó svo sjálfstæðisfylkingarnar þrjár í Angóla væru langt í frá að vera samstíga áttu þær sameignlegt takmark. Að koma Portúgölunum burt og stofna sjálfstætt ríki. Það gerði portúgalska hernum enn erfiðara fyrir, að ekkert stórveldanna stóð með þeim í baráttunni. Heldur studdu bæði Bandaríkin, Sovétríkin og Kína uppreisnahreyfingarnar.

Portúgalski herinn var loks kallaðar heim 1974 eftir áratuga nýlendustríð, í kjölfar þess að herforingjastjórnin í Portúgal féll í Nellikubyltingunni svokölluðu. Og "Estado Novo" hans Salazar’s var endanlega kastað á öskuhaugana.

savimbi_2

Í Angóla var nú reynt að koma á samstjórn þeirra þriggja fylkinga, sem allar höfðu barist fyrir sjálfstæði landsins. Tvær þær helstu voru UNITA-skæruliðasveitirnar hans Jónasar Savimbi og Frelsishreyfingin MPLA. En þær voru í reynd svarnir óvinir. Grimmilegt borgarastríð skall nú á landsmönnum og Angóla varð einn frægasti og blóðugasti leikvöllur kalda stríðsins.

Í reynd var borgarastríðið í Angóla þjóðernisstríð fremur en um hugmyndafræði. Og bein afleiðing af nýlendustefnunni grimmilegu. Kjarninn í UNITA mun vera af þjóðflokki sem kallast Ovimbundu, sem ku aðallega búa í miðhluta landsins. MPLA á aftur á móti rætur í öðrum þjóðflokki – Mbundu - sem er meira áberandi í strandhéruðunum og nágrenni höfuðborgarinnar Lúanda. En kalda stríðið afskræmdi þetta sem pólitískt stríð.

Leiðtogar UNITA höfðu fengið þjálfun í Kína og tóku upp maóisma - en enduðu svo sem frjálshyggjuvinir og fengu stuðning frá Bandaríkjunum. Hjá MPLA tóku menn upp á því að kenna sig við marxisma og höfðu Sovétríkin og ekki síst Kúbu sem bakhjarl. Sem sagt ein allsherjar vitleysa.

diamonds-are-forever

Hermenn frá Kúbu börðust á tímabili með MPLA, en aðskilnaðarstjórnin í Suður-Afríku sendi hersveitir til stuðnings UNITA. Meðan Ronald Reagan var við völd í Bandaríkjunum á 9. áratugnum náði borgarastríðið í Angóla nýjum hæðum, vegna mikils fjárhagsstuðnings sem UNITA fékk þá frá Bandaríkjunum og Ísrael. Um leið var MPLA bakkað upp af Gorbachev, í hressilegum dauðateygjum Sovétríkjanna.

Mikið morðæði greip nú um sig og Angóla varð eitt versta táknið um andstyggð kalda stríðsins.

Með kjöri Clinton’s og falli Sovétríkjanna missti Bandaríkjastjórn áhuga á að dæla fjármagni í þessa vitleysu. Þegar skrúfað var fyrir peningakrana Bandaríkjanna til UNITA, tók lýðræðishöfðinginn Savimbi upp á því að nýta demanta landsins til að afla fjár. Jukust þá svört demantaviðskipti stórkostlega, enda eru einhverjar mestu demantanámur heims í Angóla. Hugtakið "blóðdemantar" varð nú á hvers manns vörum.

angola_flag

Eftir nærri 30 ára borgarastríð, sem drap hundruð þúsunda landsmanna og setti milljónir á vergang, var loks samið um frið 2002. Ástæða þess að menn hættu slátruninni var líklega fyrst og fremst sú, að Jonas Savimbi hafði verið drepinn snemma þetta ár og þar með var allur vindur úr UNITA. Haldnar voru kosningar í Angóla og UNITA og MPLA slást nú um völdin á vígvelli lýðræðisins. Ömurleg fortíð landsins endurspeglast í kjánalegu þjóðartákninu, sem prýðir þjóðfána Angóla. Eins konar skrípamynd af hamri og sigð.

Þetta risastóra, stríðshrjáða land er afar ríkt af náttúruauðlindum. Í reynd ætti að ríkja óhemju velsæld meðal hinna 17 milljón íbúa. Þess í stað er Angóla eitthvert fátækasta ríki jarðar. Helsta tákn landsins í dag eru líklega útlimalaus börn, sem stigið hafa á einhverja af milljónum jarðsprengja, sem grafnar eru út um allt landið.

Endiama_Angola_logo

En hvernig var hægt að reka áratuga blóðuga borgarastyrjöld í ríki, þar sem nær allir innviðir samfélagsins voru gjörsamlega í rúst og efnahagslífið að mestu óvirkt? Hvernig gátu stríðandi fylkingar staðið undir stríðsrekstrinum?

Jafnvel mikil fjárframlög frá Bandaríkjunum og Sovétríkjunum til stríðsherranna stóðu ekki undir þessum langvarandi og rándýra hernaði. Svarið er að finna í hluta af geggjuðum náttúruauðlindum Angóla. Demöntunum.

Meðan borgarastríðið geisaði voru demantanámur landsins mikilvæg uppspretta fyrir vopnakaup stríðsherranna. Sérstaklega Coango-námurnar í norðurhluta landsins, sem UNITA réð yfir og hafa að geyma einhverja mestu hágæða demanta í heimi. Í dag, eftir að friður komst á, hefur dregið úr blóðdemantasölunni og nánast öll viðskiptin komin í hendur ríkisfyrirtækisins Endiama. Þar á bæ eru menn á blússandi skriði. Enda er Angóla í dag fimmta stærsta demantaframleiðsluland heims með um 10 milljón karöt á ári.

sonangol_logo

En demantarnir eru ekki eina auðsuppspretta Angóla. Nú eru horfur á að senn verði unnt að opna á ný miklar járnnámur, sem voru meira og minna lamaðar í borgarastríðinu. Og ofboðslegar olíuauðlindir Angóla eru orðnar aðgengilegri. Á örskömmum tíma hefur landið orðið stærsti olíuframleiðandi Afríku. Angóla flytur nú meira að segja út meiri olíu en sjálfur Afríkurisinn - Nígería - og landið er einhver bjartasta framtíðarvonin í olíubransanum.

Þeir sem stýra Angóla eru því bjartsýnir þessa dagana. Og stefna að því að opna kauphöll í Lúanda á árinu (2009), sem verði ein sú öflugasta í Afríku allri. Í dag eru það einkum kauphallirnar í Kenýa, Nígeríu og Suður-Afríku sem eitthvað kveður að þarna í álfunni svörtu. Meðal fyrirtækja sem angólska ríkið hyggst skrá á hlutabréfamarkaðnum í Lúanda, eru bæði Endiama og ríkisolíufyrirtækið Sonangol.

Angola_Rover

Augljóslega verður niðursveiflan í efnahagslífi Vesturlanda þessa dagana vart til að hjálpa Angóla að láta þennan draum sinn rætast í bráð. En þar er engan bilbug að finna á mönnum. Enda útlit fyrir ca. 10% efnahagsvöxt þar á nýbyrjuðu ári. Nú er nefnilega komin upp sú undarlega og óvænta staða að sum ríkin sunnan Sahara eru talin líklegust til að gera það best á árinu. Öðruvísi mér áður brá!

En gleymum því ekki hvernig tíminn og sagan virðast stundum fara í hringi. Eitt sinn voru löndin sunnan Sahara þekkt fyrir að vera mesta og besta tækifæri heims fyrir framsýna og djarfa menn. Munum t.d. hvernig hann Cecil Rhodes lagði grunnin að einhverjum svakalegustu fjölskylduauðæfum veraldar, þegar hann hélt til sunnanverðrar Afríku fyrir um 130 árum og varð á örskömmum tíma nær einráður í demanta-iðnaði veraldarinnar.

diamonds-blood_2

Já - ef einhvers staðar er peningalykt þess dagana, þá er það í hinu ömurlega, stríðshrjáða Angóla. Og viti Mörlandar ekkert hvað þeir eigi af sér að gera í nóvember n.k., hvernig væri þá að skella sér á World Diamod Summit? Demantaráðstefnuna, sem að þessu sinni verður einmitt haldin í Lúanda.

Þar verða örugglega mættir einhverjir ljúflingar úr Oppenheimer-fjölskyldunni góðu. Fjölskyldunni sem komst yfir demantanámurnar hans Cecil Rhodes og hafa síðustu hundrað árin nær algerlega stjórnað hinum snarruglaða demantaiðnaði heimsins. Fjölskyldunni sem kom með eitt besta sölu-slagorð nokkru sinni. "A diamond is forever!" Kannski meira um þann ljúfa bransa síðar hér á Orkublogginu.

GDP_growth_forecast_2009

En það er a.m.k. ljóst, að ef menn í leit að tækifærum lesa Economist, koma þeir vart hlaupandi til Íslands. Sbr. glóðvolgt súluritið hér til hliðar. Nei - þá er Angóla vænlegri kostur. 

http://www.economist.com/opinion/displayStory.cfm?story_id=12811290 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband