Olíuhásléttan

Eins og lesendur Orkubloggsins vita eru það bara rugludallar sem segja að olían sé senn á þrotum.

Oil_production_forecast_CERA

Olíuframleiðsla hefur aldrei verið meiri en síðustu árin. Nú á þessu herrans ári 2009, er álitið að frá upphafi olíunotkunar hafi samtals verið sóttar rúmar eitt þúsund milljarður tunna af olíu úr iðrum jarðar. Líklega um 1.200 milljarðar tunna.

Svartsýnar spár gera ráð fyrir að einungis álíka magn sé enn að finna. Rúman milljarð tunna. Þannig að við séum nú u.þ.b. hálfnuð með framleiðsluna og héðan í frá fari olíuframleiðslan minnkandi.

Þar að auki verði miklu mun dýrara að sækja þennan síðari helming af olíu heimsins. Sem vegna stóraukinnar olíunotkunar miðað við það sem áður var, muni einungis endast í örfáa áratugi.

Aðrir spámenn eru heldur bjartsýnni um tilvist olíu. Og segja að enn séu a.m.k. 1,5-2 þúsund milljarðar tunna í jörðu - og jafnvel miklu meira. Orkubloggið minnist t.d. skýrslu frá árinu 2006, frá ljúflingunum hjá CERA (Cambridge Energy Research Asscociates). Þar var sett fram talan 3,74 trilljónir tunna. Þ.e. að enn megi vinna 3.740 milljarða tunna af olíu. Sem er um þrefalt það magn sem unnið hefur verið til þessa dags. Svo sannarlega engir fjárans peak-oil-Bölmóðar þarna hjá CERA.

ng_june04_endofcheapoil

En vissulega er ekki hægt að útiloka að olíuframleiðslan hafi þegar náð toppi. Þó svo Orkubloggið sé sannfært um að tæknilega sé vel unnt að auka vinnsluna verulega, er nokkuð augljóst að sú vinnsla verður dýr. Til að viðhalda olíuframboði og mæta eftirspurninni, þarf æ meira af olíunni að koma af meira dýpi en áður hefur þekkst. Þess vegna verður vinnslan dýrari. Break-even yfir 70 dollara tunnan verður sífellt algengara. Það á t.d. almennt við um djúpvinnsluna og stóran hluta af bandaríska Bakken-svæðinu í Monatana og Norður-Dakóta. Og heimskautaolían verður ekki ódýrari!

Meðalvinnslukostnaðurinn fer sem sagt hækkandi. Þess vegna mun olíuverð líka óumflýjanlega hækka frá því sem er núna. Þ.e. meðalverðið til lengri tíma litið. Verðið núna stendur ekki undir stórum hluta vinnslunnar.

Og það er öruggt að olíueftirspurn mun halda áfram að vaxa, enn um sinn. Fyrst og fremst vegna efnahagsuppgangs og bættra lífskjara utan hinna hefðbundnu Vesturlanda. Auðvitað verður olíuverðið ekki stöðugt - við eigum eftir að upplifa ýktar sveiflur inn á milli; bæði fáránlega miklar uppsveiflur og hlægilega miklar niðursveiflur. En meðalverðið til framtíðar á eftir að verða mun hærra en hingað til hefur verið.

oil-consumption_growth_2012

Þrátt fyrir að olíuverð eigi í framtíðinni örugglega eftir að hækka umtalsvert, er fremur ólíklegt að dómsdagsspár um olíuverð um eða yfir 200 dollurum til langframa, rætist. Olían getur nefnilega aldrei lengi orðið dýrari en önnur orka, sem getur leyst hana af hólmi.

Líklega mun peak-oil því ekki beinlínis koma til vegna minnkandi olíuframboðs. Heldur mun eftirspurnin einfaldlega minnka, þegar vinnslukostnaðurinn verður orðinn "of" mikill. Þá mun eftirspurn eftir olíu ná hámarki og eftir það fara minnkandi.

Þegar kemur að því að olía verður á svipuðu verði og aðrir góðir orkugjafar, mun olíueftirspurnin sem sagt minnka. Og þá mun draga úr olíuframleiðslu. Þó svo tæknilega séð verði ennþá unnt að auka framleiðsluna. Framleiðslan mun m.ö.o. minnka jafn óðum og önnur orkuframleiðsla verður hagkvæmari. Þetta ferli mun væntanlega taka talsverðan tíma. Og eftir á munum við geta séð hvernig toppurinn á framleiðslukúrfunni var nokkuð jafn og sléttur - líklega í nokkur ár. Hér mætti etv. tala um hásléttuna í olíuframleiðslu heimsins.

OilProductionWorld

Það er óneitanlega athyglisvert að nú hefur olíuframleiðslan verið nokkuð stöðug í um fimm ár. Þess vegna er svo sem ekki skrýtið þó ýmsir vilji meina að nú séum við einmitt stödd á hásléttunni sjálfri. Orkubloggið telur þó að enn sé hásléttunni ekki náð. Þegar kreppunni lýkur mun eftirspurn eftir olíu aukast hratt. Og framleiðslan aukast. 

Tímabundin stífla gæti þó orðið í framleiðslunni. Vegna lítilla nýfjárfestina nú um stundir. Olía framtíðarinnar verður ekki tilbúin til sölu tímanlega, ef slík stífla myndast. Það gæti leitt til mikilla tímabundinna verðhækkana á olíuverði. Áður en jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar kæmist á að nýju.

Oil_future-production-2

Sökum þess að verulegur hluti "nýju" olíunnar verður mjög dýr í vinnslu, mun notkun annarra orkugjafa smám saman aukast. Loks kemur að því, að eftirspurn eftir olíu mun byrja að lækka til langframa. Það verður upphafið að hægfara endalokum olíualdar.

Hvort þessi vatnaskil renna upp 2010, 2050 eða seinna er risastóra spurningin. Sá sem getur rambað á rétta spálíkanið um þetta verður auðfundinn. Það hlýtur nefnilega að vera náunginn sem mun liggja í demantsslegnum sólstólnum sínum útí garði með ískaldan öl í hendi. Og horfa á grásprengda garðyrkjumanninn sinn, Bill Gates, mása og blása við að slá grasið. Meðan öldungurinn Warren Buffet snyrtir runnana og þurrkar svitann af andlitinu. Nei - það er ekki nokkur lifandi sála sem getur lesið rétt í olíukristallskúluna. Nema auðvitað Orkubloggið.

Wind_US_Development

Þau ríki sem taka mest tillit til umhverfisins, munu verða fyrst til að snúa sér að öðrum orkugjöfum. Af því þar mun umhverfiskostnaðurinn leggjast ofan á olíuverðið. Hvort sem það verður í formi mengunarvarnagjalda, kolefnisskatta eða annarra þess háttar kostnaðarliða.

Evrópa hefur verið leiðandi í þessari þróun. En líklega munu Bandaríkin nú setja ofurkraft í þetta og jafnvel ná forystunni í uppbyggingu endurnýjanlegrar orku. 

Þegar eftirspurn eftir olíu nær toppi mun martröð Sádanna verða að veruleika. Vesturlönd eru langstærsti olíukaupandinn. Þegar við í Vestrinu höfum beislað nægjanlega mikið af nýjum orkugjöfum til að geta dregið umtalsvert úr olíuþörf okkar, mun olíueftirspurnin fara minnkandi. Og verðið lækka og smám saman nálgast raunverulegan framleiðslukostnað. Þá munu Sádarnir ekki lengur geta rekið allt sitt þjóðfélag á olíugróðanum einum saman. Stóra spurningin er bara hversu langan - eða stuttan tíma - þessi aðlögun eða breytingar munu taka?

SAUDI_Oil

Sádarnir eru vel meðvitaðir um þessa "miklu hættu". Þess vegna eru þeir t.d. á fullu við að byggja upp nýjan iðnað. Svo sem plastverksmiðjur og annan iðnað sem mun nýta olíuna, sem ekki verður lengur hægt að selja Vesturlandabúum háu verði. Sádarnir standa bullsveittir þarna í sandinum, við að undirbúa heimflutning virðisaukans af olíunotkun. Annars gætu þeir lent í vondum málum og orðið gjaldþrota á augabragði, þegar eftirspurn Vesturlanda eftir olíu minnkar.

Þannig getur veröldin náð jafnvægi, án þess að peak-oil (peak-oil-demand!) valdi einhverri hádramatískri eða langvarandi alheimskreppu. Auðvitað mun efnahagskerfið hiksta svolítið vegna umbreytinganna. En sá hiksti getur vel orðið til góðs. Ekki síst fyrir Vesturlönd, þar sem almenningur hefur í áratugi sent stóran hluta af laununum sínum til olíuríkja Mið-Austurlanda. Í stað þess að sá aur sé nýttur heima fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru þær ekki frekar óljósar tölurnar hjá þér þarna í byrjun? þú talar um 1000 milljarða, svo milljarð svo trilljarða svo aftur 1000 milljarða. Ég missti þráðin.

En annars skemmtilegar greinar hjá þér.

Gunnar Jónsson (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 00:11

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Takk kærlega fyrir ábendinguna.

"Aðrir spámenn eru heldur bjartsýnni um tilvist olíu. Og segja að enn séu a.m.k. 1,5-2 milljarðar tunna í jörðu" LESIST "Aðrir spámenn eru heldur bjartsýnni um tilvist olíu. Og segja að enn séu a.m.k. 1,5-2 ÞÚSUNDIR milljarða tunna í jörðu". Best ég leiðrétti þetta í færslunni.

Til frekari glöggvunar er rétt að taka fram að t.d. 2,5 trilljónir eru sama og 2.500 milljarðar. Sem er líka sama og 2,5 þúsund milljarðar.

Ketill Sigurjónsson, 23.2.2009 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband