IRENA og véfréttin í 15. hverfi

Á hverju ári eru gefnar út ýmsar skýrslur um orkugeirann. Sumar þeirra eru drasl, en aðrar skyldulesning. Ein þeirra er World Energy Outlook (WEO), sem unnin er af Alþjóða orkustofnuninni í París (International Energy Agency eða IEA).

IEA_logo

IEA er stofnun, sem sett var upp af OECD-ríkjunum í kjölfar olíukreppunnar snemma á 8. áratugnum. Öll aðildarríki OECD eiga aðild að IEA - að tveimur undanskildum. Olíuríkið Mexíkó er af einhverjum ástæðum ekki þátttakandi í IEA. Og heldur ekki lítið land í norðri, kennt við ís. Þetta er engu að síður einhver þekktasta alþjóðastofnun heims á sviði orkumála. Þótt hún sé í reynd ekki alþjóðleg

Vonandi fara íslensk stjórnvöld fljótlega að sýna samstarfi þjóða í orkumálum aðeins meiri áhuga. Það mætti t.d. gera með því að verða virkur átttakandi í hinum nýstofnuðu samtökum International Renewable Energy Agency (IRENA).

IRENA á að verða eins konar IEA hinnar endurnýjanlegu orku. Nema hvað IRENA er ekki lokaður klúbbur fyrir OECD-ríkin. Heldur alvöru alþjóðastofnun.

Orkublogginu fannst satt að segja hálf dapurlegt að lesa það á vefsetri IRENA, að tilurð samtakanna megi mest þakka miklum áhuga Þýskalands, Danmerkur og Spánar. Vissulega eru þetta þau lönd Evrópu, sem standa fremst í að nýta vindorku og sólarorku. En það er hreinlega óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa nýtt sér þetta tækifæri til að vera í leiðtogahlutverki. Til að minna á þekkingu og reynslu Íslendinga á að nýta vatnsaflið og þó enn frekar minna á jarðhitann. Af því það eru gríðarlegir möguleikar á virkjun lághitasvæða í Evrópu - og víðar. En vind- og sólarorkan hafa hreinlega stolið allri athyglinni. Auðvitað hefði Ísland átt að vera drifkraftur í stofnun IRENA. Í stað þess að eyða kröftum sínum í þessa Öryggisráðsvitleysu, sem er einhver mesti fíflagangur sem íslenskir stjórnmálamenn hafa látið sér detta í hug.

irena_Conference_2009

Stofnfundur IRENA var haldinn í janúar s.l. en undirbúningurinn var hafinn af krafti 2007. Óneitanlega rennur manni í grun, að meðan verið var að undirbúa stofnun IRENA, hafi íslensk stjórnvöld ennþá verið blinduð af absúrd draumum um framtíð Íslands sem fjármálamiðstöðvar. Eða að Ísland yrði brátt lykilaðili í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna - og einhverjir raðherrar hafi jafnvel verið byrjaðir að gæla við Friðarverðlaun Nóbels! Og þess vegna hafi íslensk stjórnvöld kannski ekki litið á stofnun IRENA sem stórmál. Það gengur svona.

irena_process

Reyndar er starfsemi IRENA ekki komin almennilega í gang ennþá - einungis búið að halda stofnfundinn. Nú munu 76 ríki hafa undirritað stofnyfirlýsinguna. 

Lönd sem hafa áhuga á að vista höfuðstöðvar IRENA eiga að gefa sig fram fyrir lok apríl n.k. Kannski væri upplagt fyrir hina nýju ríkisstjórn Íslands og borgarstjórnina, að bjóða Reykjavík fram í það hlutverk? Gert er ráð fyrir að 120 manns muni starfa í aðalstöðvum IRENA og að fjárveitingin fyrsta árið verði um 25 milljónir dollara. Varla hægt að hugsa sér meira viðeigandi alþjóðastofnun á Íslandi  - og óneitanlega góður tími að landa slíkum vinningi nú um stundir!

Það verður að teljast líklegt að Þjóðverjar vilji hýsa aðalstöðvar IRENA. Líklega í Bonn. Eftir sameiningu Þýskalands flutti öll vesturþýska stjórnsýslan til Berlínar og Bonn hefur síðan verið hálfgerð draugaborg. Með endalausum röðum af tómum sendiráðsbyggingum o.s.frv. Þess vegna hafa Þjóðverjar lagt ríka áherslu á að bjóða Bonn fram sem aðalstöðvar fyrir alþjóðastofnanir. Og orðið nokkuð vel ágengt.

Þess má geta að stjórnvöld í Abu Dhabi munu vilja að IRENA eigi höfuðstöðvar í Masdarborginni. En þar sem sú framtíðardella er ennþá aðallega bara sandur og byggingakranar, er sú hugmynd Arabanna eiginlega útí kuldanum. Reykjavík gæti átt góðan möguleika.

En geymum frekari umfjöllun um IRENA að sinni. Og víkjum aftur að Alþjóða orkustofnuninni (IEA). Sem hvorki er í Reykjavík, Kaupmanahöfn, Bagdad né Bonn - heldur í 15. hverfi Parísar.

Faith_Birol

Reyndar þykir blogginu sem þeir Faith Birol og félagar hans í orkuspáteymi IEA séu stundum svolitlir sveimhugar. Sem er kannski skiljanlegt - auðvelt að gleyma sér yfir útsýninu þarna frá Rue de la Fédération yfir til Eiffel-turnsins. Ýmislegt í skrifum þeirra orkar sem sagt tvímælis. En af því skýrsla IEA um Word Energy Outlook þykir almennt ein flottasta skýrslan í bransanum, hljótum við a.m.k. að fletta þessum litskrúðuga glanspappír og skoða helstu niðurstöður.

Þó svo skýrslan sé frá 2008 er hún nánast glæný. Kom út í nóvember s.l. og ennþá nokkuð langt í WEO 2009. Oddatöluárin eru reyndar alveg sérstaklega spennandi, því þá tekur IEA einnig fyrir eitthvað afmarkað efni í WEO. T.d. var athyglinni beint að Indlandi og Kína í skýrslunni 2007.

weo2008

Í þessari nýjustu orkuspá IEA er litið fram til ársins 2030. Þar er enn gert ráð fyrir að olíuframleiðsla geti aukist mikið. IEA spáir nú að framleiðslan aukist úr núverandi 85-86 milljónum tunna á dag, í um 106 milljón olíutunnur daglega árið 2030. Þetta yrði næstum því 25% aukning. Sem sagt ekki mikil svartsýni á að peak-oil sé náð. En það kveður samt við nýjan tón í þessari árlegu skýrslu IEA!

Ljúflingarnir þar á bæ hafa nefnilega ætið spáð tiltölulega lágu olíuverði til framtíðar. Í síðustu skýrslum IEA á undan þessari, var því jafnan haldið fram að olíuverðið yrði mjög hógvært árið 2030. Nú virðast þeir hjá IEA aftur á móti hafa tekið þá ákvörðun að verðið geti hækkað umtalsvert. Og verði í kringum 120 dollarar tunnan á núvirði, árið 2030. Og þeir segja: "The world’s energy system is at a crossroads. Current global trends in energy supply and consumption are patently unsustainable — environmentally, economically, socially."

IEA_Nobuo_Tanaka

Margir trúðu vart eigin augum þegar þeir sáu svona varúðarorð frá IEA. Menn velta fyrir sér hvort þeir félagarnir Nobuo Tanaka, forstjóri IEA, og Faith Birol hafi látið viðkomandi starfsmann IEA fjúka - jafnvel strax fyrir jólin?

En það er ekki bara að IEA sé nú skyndilega búið að viðurkenna að olían er ekki ótæmandi auðlind. Heldur ganga þeir nú líka út frá því sem vísu, að mannkyninu standi ógn af kolefnislosun og yfirvofandi loftslagsbreytingum. "Preventing catastrophic and irreversible damage to the global climate ultimately requires a major decarbonisation of the world energy sources." Þessi boðskapur IEA þykir talsverð tíðindi í bransanum.

Orkubloggið er enn ekki búið að kaflesa 2008-skýrslu IEA. En hefur rennt yfir hana og svolgrað í sig línuritin og aðrar skýringarmyndir. Og fyrstu viðbrögð eru léttur hrollur. Eða kannski sæluhrollur - af því spá IEA setur mikinn þrýsting á að fjárfest verði í nýjum orkugjöfum.

Exxon_ship_peake-oil

Og það er satt að segja fremur vafasamt, að hægt verði að auka olíuframleiðsluna um þessi 25% á tveimur áratugum. Nema með gríðarlegum tilkostaði. Meðalhnignun núverandi  olíulinda er hröð og það eru einfaldlega ekki að finnast nýjar risalindir. Þess vegna læðist að manni sá grunur að þeir sem húka við skrifborðin hjá IEA séu jafnvel full bjartsýnir. Orkubloggið mun útskýra þetta sjónarmið nánar í næstu færslu

Hvað um það. Bæði Orkubloggið og IEA eru a.m.k. sammála um mikilvægi þess að nýjar orkulindir verði virkjaðar. Bloggið er á því að olíuverðið sem skýrsla IEA spáir sé hógvært, þ.e. að olíuverðið geti hækkað talsvert hraðar en þar er gert ráð fyrir. En það skiptir ekki öllu. Aðalmálið er að verðið mun hækka og það mun gera aðra orku samkeppnishæfari.

UN_Security_Council

Og kannski verður það ekki IEA heldur IRENA, sem verður senn öflugasta alþjóðastofnunin í orkumálum. Verst að hér á Klakanum góða þótti Öryggisráðið meira spennandi en IRENA.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Það er nú ekki öll von úti um að íslenskir stjórnamálamenn opni augun fyrir þessu ,Takk fyrir þetta blogg og vekja athygli á IRENA

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 22.2.2009 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband