16.2.2009 | 00:34
Var 30 - er nú 70
Undanfarið hafa dunið á okkur fréttir um metnaðarfullar áætlanir bæði ESB og Obama um stórfellda uppbyggingu í endurnýjanlegri orkuframleiðslu.
En nú óttast sumir að lækkandi olíuverð síðustu mánuðina muni hægja mjög á þessum fyrirætlunum. Slíkar framkvæmdir eru dýrar og eru varla samkeppnishæfar við olíu á svo lágu verði sem nú er. Eða eins og einn lesandi Orkubloggsins orðaði það í athugasemd við síðustu færslu bloggsins:
"Það er tómt mál að tala um aðra orku en af lágum stuðli þegar olían er USD 34,50 tunnan eins og núna!" Þetta er auðvitað staðan í hnotskurn. Enginn kaupir rafmagn fá vindorkuveri, þegar rafmagn frá gasi kostar helmingi minna! Þess vegna eru margir svartsýnir á endurnýjanlega orkugeirann þessa dagana.
Og sporin hræða. Í kjölfar olíukreppunnar snemma á 8. áratugnum settu bandarísk stjórnvöld í gang metnaðarfullar áætlanir um nýjar sólarorkuvirkjanir og ætluðu einnig að vinna fljótandi eldsneyti úr kolum og gasi (s.k. synfuel). Bæði Nixon, Ford og Carter var umhugað um að Bandaríkin þyrftu ekki að flytja inn stórfellt magn af olíu frá Mið-Austurlöndum. Miklu fjármagni var varið í þessa nýju tækni. Sólarsellum var komið fyrir á Hvíta húsinu og ný sólarorkuver risu í Mojave-eyðimörkinni. Fyrstu CSP-orkuverin.
Allt endaði þetta nýorkuævintýri með ósköpum. Það kom nefnilega lægð í efnahagslífið upp úr 1980 með tilheyrandi lækkunum á olíuverði. Og verðið hélst lágt allt fram yfir aldamótin. Afleiðingarnar voru gjaldþrotahrina meðal fyrirtækja í hinni nýju orkutækni og fjárfestar flúðu greinina eins og rottur sökkvandi skip. Loks með hækkandi olíuverði upp úr aldamótunum, tóku menn aftur að fjárfesta í stórum stíl í græna orkugeiranum.
Nú kunna ýmsir að ætla, að kreppan núna muni hafa svipuð áhrif og niðursveiflan á 9. áratugnum. Kreppan muni valda því að olíuverð haldist lengi lágt og mikill skellur sé yfirvofandi hjá fyrirtækjum sem t.d. starfa í sólarorku- eða vindorkuiðnaði. Öll framþróun í þessum atvinnugreinum komi til með að staðna í mörg ár og jafnvel áratugi.
Orkubloggið hefur litlar áhyggjur af þessu og álítur hæpið að kreppan nú muni fara mjög illa með endurnýjanlega orkugeirann. Til þess eru aðstæðurnar of ólíkar því sem var áður fyrr.
Mikil lækkun olíuverðs um og upp úr miðjum 9. áratugnum kom ekki bara til vegna efnahagslægðar. Á sama tíma streymdi nefnilega upp olía frá nýjum olíulindum í Alaska og þó einkum Norðursjó. Olíuleiðslan mikla norðan frá Prudhoe-flóa í Alaska, eldspúandi borpallar í Norðursjónum og glampandi ný kjarnorkuver voru táknmyndir um sterka orkustöðu gömlu Vesturveldanna. Olíuframboðið var mikið og OPEC gat ekki haldið verðinu háu, bæði vegna innbyrðis ágreinings og þó ekki síður vegna þess að Vesturlönd voru búin að opna nýja olíukrana heima fyrir.
Í dag er staðan allt önnur. Ekkert bendir til þess að Vesturlönd geti aukið olíuframleiðslu sína. Þvert á móti fer framleiðslan þar hratt minnkandi. Bæði framleiðslan í Bandaríkjunum (þ.m.t. Alaska) og í Norðursjó er að dragast saman. Og fáar nýjar olíulindir að finnast hér í Vestrinu. Bæði Bandaríkin og Evrópu eru háð innflutningi á olíu - og sú ógæfulega staða mun ekki skána fyrr en bílaflotinn kemst á annað eldsneyti.
Svo eru líka komnar fram vísbendingar um að gasframleiðsla Vesturlanda muni senn fara minnkandi. Gasframleiðsla í Bretlandi náði toppi fyrir nokkrum árum, sbr. grafið hér að neðan. Og það lítur út fyrir að hinar gríðarlegu gaslindir Hollendinga séu einnig komnar yfir toppinn - og muni héðan í frá fara hratt hnignandi.
Norðmenn munu enn um sinn geta aukið gasframleiðslu sína. En þó engan veginn nóg til að mæta eftirspurn Evrópu. Þess vegna er Evrópa að verða æ háðari Rússum og ríkjum í Mið-Asíu um gas. Sá baggi leggst ofan á olíuþörf Evrópu.
Óljóst er hvort Bandaríkin geta aukið gasframleiðslu sína (hún hefur verið nokkuð stöðug þar síðustu árin). En a.m.k. stendur gasframleiðsla Bandaríkjanna betur en innan ESB. Bandaríkjamenn eru í þokkalegum málum. Þar má búast við að sífellt hærra hlutfall af gasinu fari í samgöngugeirann. Og að endurnýjanleg orka muni að hluta til leysa það gas af hólmi í rafmagnsframleiðslunni.
Við þetta má bæta, að á nýliðnu ári gerðist það í fyrsta sinn í langan tíma, að gasframleiðsla Rússa minnkaði! Sem gæti þýtt að ESB lendi brátt í harðri samkeppni við Rússa um gas frá Mið-Asíuríkjunum.
Staða Evrópu og Bandaríkjanna nú er sem sagt allt önnur nú en var í síðustu stóru efnahagslægðinni. Í næstu efnahagsuppsveiflu munu þessir gömlu vinir ekki geta gengið að nýjum olíu- og gaslindum. Það er enginn nýr Norðursjór í sjónmáli og ekki heldur nýr Prudhoe-flói. Meira að segja olíuvinnslan nýja á djúpi Mexíkóflóans nægir ekki til að viðhalda olíuframleiðslu flóans alls. Þannig að Mexíkóflói er líka á niðurleið.
Barentshafið og heimskautasvæðin munu eflaust skila verulegu magni af olíu og gasi. En þær auðlindir eru ennþá að mestu langt utan sjóndeildarhringsins - munu ekki byrja að mjatlast inn á markaðinn fyrr en eftir einn til tvo áratugi.
Nei - Evrópa hefur því miður enga raunverulega möguleika til að auka olíu- eða gasframleiðslu sína á næstu árum. Bandaríkin eru sömuleiðis með hnignandi olíuframleiðslu. Síðast þegar djúp kreppa reið yfir þessa tvo gömlu vini um og upp úr 1980 stóðu þeir vel að vígi með gas- og olíulindir. Svo er ekki í dag. Í því liggur munurinn. Og þess vegna mun lágt olíuverð þessa dagana ekki stöðva uppbyggingu nýrra orkulinda.
Varla eru meira en 3-4 ár síðan flestir í olíubransanum litu á 30 dollara pr. tunnu sem eðlilegt meðalverð á olíu. Þetta var upphæð sem Norðursjávar-fyrirtækin voru sátt við, þetta var upphæð sem fékk Sádana til að brosa og þetta var upphæð sem hentaði bandarísku olíufyrirtækjunum prýðilega.
Í dag er viðhorfið gjörbreytt. Menn voru of værukærir. Áttuðu sig ekki á því að heimurinn breytist stundum hratt. Kostnaður við að viðhalda olíuframboði hefur reynst miklu meiri en menn spáðu fyrir örfáum árum. Og auðvitað sáu fæstir fyrir, hvernig stór hluti fjármagnsins í veröldinni var blekking ein og auðveldur aðgangur að lánsfé ekki kominn til að vera. Menn voru sem sagt full fljótir að gleyma því að flestar stærstu olíulindir heimsins fara hnignandi - og til að finna nýjar lindir þarf góðan tíma og rúman aðgang að viljugu fjármagni.
Það verður ekkert vandamál tæknilega séð að skaffa heiminum olíu næstu áratugina. En það veður mun dýrara en við höfum þekkt til þessa. Þess vegna talar enginn lengur um 30 dollara sem ásættanlegt verð fyrir olíu. Ekki einu sinni 40 eða 50 dollara. Í dag þurfa flestir þeir sem vinna olíu að fá hátt í 70 dollara fyrir tunnuna. Annars verða þeir að láta nægja að tappa hressilega af þeim lindum sem þeir hafa nú þegar. Og geta ekki leyft sér að ráðast í þá olíuleit og -vinnslu, sem er bæði eðlileg og ekki síður nauðsynleg til að mæta eftirspurn í framtíðinni.
Þannig er olíuiðnaðurinn núna í eins konar spennitreyju. Sem gæti valdið mikilli stíflu í bransanum. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. En þetta óvissuástand skapar ekki síður afar spennandi tækifæri. M.a. í endurnýjanlegri orku. Nú er bara að íhuga hvar bestu tækifærin liggja...
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:40 | Facebook
Athugasemdir
...talandi um stíflu í bransanum; ljúflingarnir hjá Alþjóða orkustofnuninni við Rue de la Fédération virðast líka búast við slíku:
IEA Sees Oil Crunch as Demand Rises from 2010
By: Reuters | 16 Feb 2009 | 05:57 AM ET
http://www.cnbc.com/id/29220031
Ketill Sigurjónsson, 16.2.2009 kl. 23:34
Þakka þér allar þessar góðu og yfirgripsmiklu greinar
Reinhold Richter (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 17:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.