Recovery.gov

Í gær var merkisdagur. Fyrir Bandaríkjamenn, Orkubloggið og okkur öll.
 
Obama_Reinvestment_Act_of_2009_2Upp úr hádeginu þriðjudaginn 17. febrúar 2009, settist Barack Obama við skrifborð í Náttúrufræða- og vísindasafninu vestur í Denver, Kólóradó. Tók svo upp gljáandi pennann og undirritaði nýsamþykkta löggjöf Bandaríkjaþings, sem kveður á um rífleg fjárframlög til endurreisnar efnahagslífsins (American Recovery and Reinvestment Act). Þetta var á sama tíma og draugalegt Þorramyrkrið var að færast yfir okkur í rigningunni hér á Klakanum góða.

Að baki stóð varaforsetinn Joe Biden og horfði ábúðamikill á. Mér finnst þó eitthvað annkannalegt við það hvernig Joe stendur yfir forsetanum með krosslagðar hendur. Ekki viss um að þetta sé hin eina rétta PR-stelling!

Vel þess virði að staldra við það sem menn sögðu við þetta tækifæri. Það var varaforsetinn sem hóf athöfnina. Með nokkrum fimmaura-bröndurum og stuttri kynningu. Svo tók sjálfur snillingurinn Obama við. Og vék í orðum sínum m.a. að þeim hluta pakkans, sem snýr að fjárfestingum í orkugeiranum:
 
obama-signatureBecause we know we can't power America's future on energy that's controlled by foreign dictators, we are taking big steps down the road to energy independence, laying the groundwork for new green energy economies that can create countless well-paying jobs.  It's an investment that will double the amount of renewable energy produced over the next three years.  Think about that - double the amount of renewable energy in three years.  (Klappað)  Provide tax credits and loan guarantees to companies like Namaste, a company that will be expanding, instead of laying people off, as a result of the plan that I'm about to sign.”
 
Namaste_logoÞess skal getið að fyrirtækið sem þarna fékk þann heiður að vera nefnt sérstaklega (Namasté)er ungt fyrirtæki í sólarselluiðnaðinum og er með aðalstöðvar sínar í Boulder í Kólóradó. Orkubloggarann hefur einmitt lengi langað að heimsækja þessar slóðir og horfa vestur til Klettafjallanna.

Namasté er reyndar bara lítill player í bransanum, en á athyglisverðan bakgrunn. Stofnandi þess heitir Blake Jones, er verkfræðingur og vann í olíuiðnaðinum; nánar tiltekið hjá risanum Haliburton.

Einn daginn stóð Blake Jones upp og yfirgaf þessa miklu ímynd kapítalismans og stórfyrirtækjanna. Og hélt til Nepal til að aðstoða afskekkt þorp þar við að koma sér upp rafvirkjunum. Þar stýrði hann uppsetningu á litlum sólarselluvirkjunum fyrir nepalskt fyrirtæki, sem heitir því ljúfa nafni Lotus Energy. Jones hélt aftur á heimaslóðirnar í Ameríku árið 2005 og stofnaði þá Namasté Solar. Fyrirtækið sem við þetta tækifæri, þegar Obama undirritaði Viðreisnarlögin, var nefnt sem táknmynd um þá möguleika, sem fjárveitingunni er ætlað að styðja við.  

denver-skylineLögin sem undirrituð voru í gær þarna vestur í Kólóradó, voru afgreidd frá Bandaríkjaþingi þann örlagaríka dag, föstudaginn 13. febrúar s.l. Ekki beint fýsilegt fyrir hjátrúarfulla kjána.

Lögin hljóða upp á samtals 787 milljarða dollara fjárveitingu til hinna ýmsu málaflokka. Eins og t.d. í vegaframkvæmdir, viðgerðir á járnbrautum og uppbyggingu nýrra hraðlesta, uppbyggingu nýrra raforkudreifikerfa, öflugri heilbrigðismál og betri menntastofnanir. En auðvitað eru stærstu tíðindin að umtalsverður hluti þessara peninga fer í orkumál, m.a. uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuframleiðslu.

boeing_787_dreamliner2

787 milljarðar dollara eru barrrasta nokkuð flott tala. Rímar skemmtilega við nýjasta tækniundur heimsins; Boeing 787 Dreamliner.

Sett í samhengi við fólksfjölda, jafngildir þessi fjárhæð því að Alþingi setti nú 850 milljónir dollara í uppbyggingu íslenska efnahagslífsins. Á gengi dagsins væru það tæplega 100 milljarðar íslenskra króna. Er kannski komið fram frumvarp þess efnis niðri á þingi? Eða eru þeir Birgir Ármannsson og félagar að rífast um eitthvað annað "stórmál"?

Sambærilegur pakki á Íslandi væri, sem fyrr segir, u.þ.b. 100 milljarðar ISK. Þokkaleg upphæð. En samt hreinn skítur á priki miðað við Sovétframkvæmdir ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Því þetta slefar ekki einu sinni í það sem Kárahnjúkavirkjun kostaði. Þar að auki var Kárahnjúkavirkjun byggð á tímum þegar efnahagslífið var í þokkalegum gír. En íslenskir stjórnmálamenn hafa aldrei verið sleipir í að stýra efnahagsmálum eða að skilja hagfræði.

Við þetta má bæta, að í dag mátti lesa eftirfarandi á vef Viðskiptablaðsins: "Uppsafnaðar fjárfestingar Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar á tímabilinu 1995 til 2008 eru komnar yfir 300 milljarða króna á verðlagi í janúar 2009". Athyglisvert. Our Money at Work?

Recovery_money_at_workVilji lesendur Orkubloggsins fylgjast með því, í hvað þessir 787 milljarðar dollara fara, á að verða hægt að skoða það á sérstöku vefsetri: www.recovery.gov
 
Fyrir okkur orkuþyrsta Íslendinga, er áhugavert að af þessari fjárhæð fara um 40 milljarðar dollara í orkutengd málefni. Þar af eru um 17 milljarðar dollarar eyrnamerktir þeirri deild bandaríska orkumálaráðuneytisins, sem fer með endurnýjanlega orku (Office of Energy Efficiency and Renewable Energy; EERE).

Settir eru 2,5 milljarðar dollara í þróun á rafbílatækni og nýrra rafgeyma . Í rannsóknir á loftslagsbreytingum fer 1 milljarður dollara. Og 2 milljarðar dollara fara til NASA, til rannsókna á kjarnsamrunatækni. Ef einhver alvöru grundvallarbreyting á að verða á orkuframleiðslu í heiminum, þarf miklu meira að koma til en aukin virkjun endurnýjanlegrar orku. Kjarnasamruni er sú lausn sem margir vonast eftir. En það er önnur saga.

Recovery_money_chart

Loks er vert að nefna, að af öllum milljónaþúsundunum, sem lögin kveða á um, fara 400 milljónir dollarar í jarðhitaverkefni. Kannski ekki nein ósköp - en eru þó rúmir 45 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi. Þarna gætu verið að skapast ný og áhugaverð tækifæri fyrir útflutning á íslenskri jarðhitaþekkingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband