27.2.2009 | 00:11
Vinur í Vestri?
Orkubloggið spáir því að heimurinn muni skiptast í tvennt, hvað snertir nýjar orkulindir. Ameríka og Evrópa annars vegar og restin af heiminum hins vegar. Eða kannski öllu heldur í þrennt. Því Evrópa stendur frammi fyrir mikilli óvissu.
Bandaríkin standa nokkuð vel með gasið. Bandaríkjamenn munu þar að auki leggja mikið fé í að hækka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Og jafnvel bráðlega fara fram úr Evrópu í því sambandi. Höfuðáherslan verður þó á að auka hlutfall gass sem orkugjafa. Og um leið byggja upp hreinni kolaiðnað og líklega einnig ný kjarnorkuver.
Þannig munu Bandaríkin (og Kanada) smám saman ná að minnka olíuþörf sína enn frekar - þrátt fyrir síaukna orkuþörf. Og Bandaríkin smám saman hætta að vera háð olíunni frá Mið-Austurlöndum. Í framtíðinni mun innlend bandarísk olía, ásamt innfluttri olíu frá Kanada, Mexíkó og Brasilíu hugsanlega að mestu fullnægja olíueftirspurn Bandaríkjanna. Ásamt einhverjum innflutningi frá Vestur-Afríku. Veröldin mun ganga sinn vanagang en vissulega breytast.
Kínverjar, Indverjar og Rússar munu aftur á móti fara "skítugu leiðina". Auka rafmagnsframleiðslu með nýjum brúnkolaverum og fjölda kjarnorkuvera - og sitja uppi með olíuna sem orkugjafa fyrir bílaflotann.
Orkubloggið álítur að þessar þjóðir muni ekki geta byggt upp hagkvæman og nýjan samgöngu-iðnað nema á mjög löngum tíma og því sitja fastar í gamla farinu. Ekki síst af því minnkandi eftirspurn frá Bandaríkjunum mun draga úr hækkunum á olíuverði. Það mun lengja þann tíma sem olían verður ódýrasti orkugjafinn fyrir hin vanþróaðri þjóðfélög. Sem ekki taka umhverfiskostnað inn í verðið.
Leið Bandaríkjanna verður nokkuð dýr til skamms tíma, en mun væntanlega skapa mikið af nýjum störfum og margborga sig til lengri tíma litið - bæði fyrir efnahaginn og umhverfið. Vonandi má síðar rekja upphaf bandarísku orku-endurreisnarinnar til þess að Obama varð forseti í ársbyrjun 2009. Vonandi lognast viðleitni hans til breytinga ekki út af, eins og gerðist með metnaðarfullar áætlanir Clinton-hjónanna um velferðarkerfi í heilbrigðismálum. Eða áætlanir Carter-stjórnarinnar um stóraukna nýtingu sólarorku á 8. áratugnum. Allt rann þetta út í sandinn.
Evrópa stendur mun verr að vígi en Bandaríkin. Að nánast öllu leyti. Þar á bæ er ekki jafn gott aðgengi að orkulindum, sem geta leyst olíu af hólmi. Þar að auki er Evrópa að verða æ háðari innfluttu gasi. Á meðan Bandaríkin virðast enn geta aukið gasframleiðslu sína - og hafa góðan aðgang að miklum orkuauðlindum bæði heima fyrir og í Kanada.
Það er mikið vafamál að Evrópa nái að gera eins stórfelldar breytingar á orkunotkun sinni, eins og nauðsynlegt er. Þrátt fyrir góðan vilja margra ríkja innan ESB. Framleiðsla á jarðefnaeldsneyti innan Evrópu er víðast á svo hraðri niðurleið, að stóraukinn innflutningur blasir við. Þeim mun meiri pressa er auðvitað á Evrópuríkjunum að hraða því að snúa þessari þróun við. Og reyna að styrkja orkusjálfstæði sitt. En það gæti orðið erfitt - mjög erfitt.
Sem dæmi, þá gerðist sá skuggalegi atburður fyrir fáeinum árum að gasframleiðsla Bretlands náði toppi. Og það sama virðist nú vera uppi á teningnum í Hollandi! Miklar líkur eru á að tími hollensku gashásléttunnar sé nýliðinn og að gasframleiðslan þar muni fara hratt minnkandi næstu árin. Þetta viðurkenndu hollensk stjórnvöld fyrir stuttu síðan. Og þetta er í reynd dramatískari tímamót en flestir Evrópumenn virðast átta sig á. Hinar risastóru gaslindir Hollendinga hafa haft gríðarlega þýðingu fyrir V-Evrópu í áratugi. Kannski meira um það síðar hér á Orkublogginu.
Já - það lítur út fyrir að Evrópa eigi þann eina kost í stöðunni, að flytja inn ennþá meira gas frá Rússlandi og öðrum ríkjum í Mið-Asíu. Þannig munu sífellt fleiri evrur streyma frá Evrópu til gasþjóðanna í austri. Þessi þróun verður slæm fyrir viðskiptajöfnuð Evrópu og getur ógnað velferðarkerfunum þar.
Þetta vekur upp spurningar um hvort etv. væri betra fyrir Ísland að halla sér í átt til Norður-Ameríku, heldur en ESB? Af því orkuinnflutningur Evrópu kann að valda verulegum efnahagslegum samdrætti í álfunni og auka þar pólitískan óstöðugleika.
Víðtækur samningur um fríverslun og efnahagssamstarf við Kanada gæti verið besta og einfaldasta lausnin fyrir Ísland. Orkubloggið er augljóslegra skotnara í Kanada en Bandaríkjunum - enda er íslensk þjóðfélagsuppbygging mun líkari þeirri kanadísku, en hinni bandarísku. Svo er Kanada líka áhugaverður kostur fyrir nýjar jarðvarmavirkjanir og býr yfir gríðarlegum náttúruauðlindum. Er þetta ekki barrrasta nokkuð lógískur draumur að öllu samanteknu?
Já þó svo í Orkublogginu slái heitt Evrópuhjarta og bloggið hafi lengi stutt að Ísland gerist aðili að ESB, er bloggið hugsi. Veltir því fyrir sér hvort við Íslendingar höfum nú kannski loksins gott tækifæri til að láta gamla Vesturfaradrauminn rætast. Án þess að flytja vestur! Tvær flugur í einu höggi. Verst að við skulum ekki vera í nánara viðskiptasambandi við Kanada, en raunin er.
En hvað ef allar spár Orkubloggsins fara fjandans til? Og enginn orkugjafi getur leyst olíuna af hólmi. Þá er Kanada samt dramalandið. Af því Kanadamenn hafa jú olíusandinn! Sem eru einhverjar mestu (og reyndar subbulegustu) olíubirgðir í heimi.
Bloggið gæti þá barrrasta látið drauminn um bjarndýraveiðar í Klettafjöllunum lönd og leið... og þess í stað runnið á kæfandi peningalyktina frá olíusandinum á kanadísku sléttunum. Það er einfaldlega ekki hægt að tapa á því að tengjast Kanada traustum böndum!
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.