13.3.2009 | 07:53
FPSO
Angóla! Orkubloggið minntist fyrst á þennan nýjasta olíuspútnik í færslu hér síðasta sumar. Þarna í hinni gömlu stríðshrjáðu portúgölsku nýlendu hafa demantar lengi verið mál málanna. En nú hefur skyndilega byrjað nýtt æði í Angóla. Þar hefur nefnilega fundist mikil olía, sem hefur á örskömmum tíma gert Angóla að mesta olíuframleiðsluríki Afríku.
Olíuævintýrið utan við strendur Angóla og á djúpi Gíneuflóans hefur dregið að sér tugi hungraðra erlenda olíufyrirtækja. Þarna í þessu furðulega landi, sem hýsir einhverja fátækustu þjóð í heimi en býr um leið yfir hreint geggjuðum náttúruauðlindum, blandast saman skuggalegur heimur blóðdemantanna og ofsagróði frá svarta gullinu.
Ástæður þess að olíufyrirtækin sækja mjög að komast í olíuna í lögsögu Angóla, eru í raun af tvennum toga: Mikil hagnaðarvon og lítil áhætta. Vinnslan þarna er mjög hagkvæm og nánast lygilega lítið um þurra brunna. Svarta gumsið er hreinlega út um allt og starfsemin þarna mun vænlegri til að skila hagnaði heldur en Mexíkóflóinn.
Og það sem meira er; olían úr landgrunni Angóla hefur reynst sannkallað hágæðastöff. Og hafsvæðið þarna er þar að auki ekki nærri eins áhættusamur staður eins og mörg önnur olíusvæði utan Vesturlanda. Nánast engin hætta á skemmdarverkum eða hryðjuverkum. Þetta kann að koma sumum á óvart, því Angóla er þekkt fyrir óhemju spillingu og ömurlega fátækt. Sem oft kallar á skemmdarverk og mannrán, eins og t.d. er algengt í nágrannalandi Angóla; Nígeríu. En Angóla liggur utan við hinn múslímska heim og þar er ekki að finna öfgahópa eins og í Alsír eða Nígeríu.
Loks er sáraeinfalt að sigla með olíuna frá landgrunninu og beinustu leið heim. Það er jú greið flutningsleið beint vestur um haf, frá Gíneuflóanum til olíuhreinsunarstöðvanna á austurströnd Bandaríkjanna. Það þarf ekki einu sinni að dæla olíunni í land í millitíðinni. Þess í stað er henni dælt um borð í sérstaka tankpramma eða tankskip. Sem í olíubransanum kallast FSO eða FPSO. Floating (Production) Storage and Offloading Units.
FSO eru í raun bara risadollur til að geyma birgðirnar, sem koma upp úr djúpinu. FPSO hafa að auki þann fídus, að þar er vinnslubúnaður sem skilur sjó og gas frá olíunni. FPSO-units eru því eins konar fljótandi vinnslustöðvar, sem geta bæði dælt olíunni upp, grófunnið hana og loks geymt mikið magn af olíu og verið e.k. birgðastöð. Sem olíuskipin svo tappa af í rólegheitum. Fyrir vikið verða t.d. dýrar neðansjávarlagnir frá vinnslupallinum og í land óþarfar. Þess vegna er FPSO heitasta málið í djúpvinnslubransanum um þessar mundir.
Já - líklega er það einmitt FPSO-iðnaðurinn sem er að hagnast hvað mest á djúpævintýrinu mikla í lögsögu Angóla. Fyrirtækin sem smíða þessa svakalegu hlunka.
Tankprammar (FSO) hafa lengi þekkst í olíuvinnslu á sjó. Ekki síst í Norðursjónum. Þegar Norðursjávarævintýrið hófst var vinnslan á sáralitlu dýpi. Miðað við það sem gengur og gerist í dag. Eftir því sem vinnslan færðist utar varð flóknara að koma olíunni í land. Þess vegna voru sérstök tankskip eða tankprammar notaðir til að taka við olíunni.
Svo fundu menn upp á því að byggja sérstakar fljótandi vinnslustöðvar, sem gátu tekið við mikilli olíu, unnið hana og geymt. Í dag eru þessar vinnslustöðvar FPSO einnig með hátæknilegan fjarstýrðan borunarbúnað, sem sækja olíuna í djúpið. Þessi fljótandi flykki líkjast ýmist gríðarstórum skipum eða prömmum. Á svæðum þar sem veður eru mjög válynd hentar betur að hafa skipslag á þeim. Svo hægt sé að sigla þeim í var þegar veðurofsinn geisar eða a.m.k. snúa þeim upp í ölduna og vindinn. Svo er líka tiltölulega einfalt að losa þessar vinnslustöðvar frá akkerunum og sigla þeim á ný olíuvinnslusvæði.
Hreyfanleikinn er sem sagt einn stærsti kosturinn við FPSO. Fyrsta FPSO-vinnslustöðin, var líklega pallskip sem var byggt fyrir Shell árið 1977 og notað í Miðjarðarhafinu utan við strönd Spánar. Í dag er FPSO afar mikilvægur þáttur í Norðursjávarvinnslunni og smám saman hafa vinsældir þessarar vinnsluaðferðar líka aukist í djúpvinnslunni. FPSO er þó ennþá nýjabrum í Mexíkóflóanum, enda er þar víða að finna mikið net neðansjávarleiðslna sem hefur getað tekið við olíunni. Og djúpvinnslan þar utarlega í Flóanum er enn nýjabrum.
Bandarísk stjórnvöld hafa reyndar verið svolítið hugsi yfir því hvort rétt væri að leyfa svona stórar vinnslustöðvar í Mexíkóflóanum. Ekki er óalgengt að fellibyljir valdi þar miklum hremmingum. Einn svona FPSO-vinnslupallur getur innihaldið allt að milljón tunnur af olíu - sem er svipað og risaolíuskip. Þess vegna væri ekki beint heppilegt ef slíkur pallur brotnaði í tvennt í blessuðum Flóanum. Og það hefur valdið því að bandarísk stjórnvöld hafa verið hikandi að leyfa þessa hlunka.
Með aukinni djúpvinnslu utar í Mexíkóflóanum er þó nánast öruggt að Flóinn mun verða vatn á myllu þeirra sem byggja FPSO. Brasilíumennirnir síkátu hjá Petrabras hafa nú nýlega einmitt fengið leyfi til að setja upp slíka vinnslustöð þarna í Flóanum ljúfa. Nánar tiltekið á um 2,5 km dýpi á "indíánasvæðinu" Cascade/Chinook. Geymslugetan verður 600 þúsund tunnur af olíu og framleiðslugetan 80 þúsund tunnur á dag.
Þessi fyrsta FPSO-vinnslustöð í Mexíkóflóanum á að vera tilbúin snemma á næsta ári (2010). Orkubloggið er á því, að enginn annar FPSO hafi unnið olíu af svo miklu dýpi. Metin falla hratt í djúpbransanum. Til samanburðar má hafa í huga að hafdýpið á Drekasvæðinu íslenska er einungis á bilinu 1-1,5 km. Pís of keik.
Málið er að flotpallarinir þ.e. sjálfir borpallarnir í djúpvinnslunni sem Orkubloggið hefur áður fjallað um - hafa venjulega ekki möguleika til að geyma mikið magn af olíu. Þess vegna kallar djúpvinnslutæknin á það að menn finni lausn á þeim vanda. Það er gert með því að hafa FSO - eða jafnvel enn frekar FPSO-vinnslustöð - til taks á svæðinu. Og um leið spara sér rándýra leiðslu í land.
Þetta á í raun við um alla flotapallalínuna. Hvort sem um er að ræða keðjufesta hálffljótandi borpalla (semisubmersibles) eða flothólka eins og SPAR-borpallana eða TLP (Tension Leg Platforms). Í fyrri færslum Orkubloggsins má einmitt lesa um einn af nýjustu og flottustu flothólkunum af þessu tagi; finnskættaða kvikyndið Perdido. Sem er alls ekki týndur, heldur er nú búið að draga hann þvert yfir Atlantshafið og koma fyrir á djúpinu mikla í Mexíkóflóanum. Yfir olíulindunum sem kallaðar eru Hvíti hákarlinn. Þetta meistarastykki mun í framtíðinni væntanlega fá einn myndarlegan FPSO sér til aðstoðar við vinnsluna.
Orkubloggið vill hér nota tilefnið og vara áhugamenn um olíuvinnslu við algengu rugli. Minni spámenn rugla nefnilega oft saman t.d. TLP og FPSO. Sic! Kannski gerist þetta vegna þess, að stífbundnir fljótandi borpallar (TLP) eru mjög oft tengdir FPSO-vinnslustöð. En þetta er sem sagt alls ekki eitt og hið sama. TLP-borpallur er eitt og FPSO allt annað.
Náskylt FPSO-vinnslustöðvunum eru áðurnefndir FSO (Floating Storage and Offloading units). Þá láta menn olíuborpall áfram um vinnsluna, en nota svo risastórt tankskip eða pramma sem birgðastöð. Þess háttar tankskip eru kölluð FSO, en þau eru ekki með neinn vinnslubúnað, né geta þau grófhreinsað stöffið. Eru bara gríðarstór fljótandi birgðastöð.
Gömul risaolíuskip eru gjarnan notuð í þessum tilgangi. Besta dæmið um slíkt er auðvitað Knock Nevis; stærsta skip heims. Sem er nærri hálfur km að lengd og er í dag nýtt í tengslum við olíuvinnslu utan við strendur Katar. Þessi fljótandi fituhlunkur er í eigu Fred. Olsen samsteypunnar, sem stýrt er af norska milljarðamæringnum Fredrik Olsen og Anette dóttur hans.
[Ath: Í þessari færslu stóð upphaflega að Fred. Olsen hefði grætt stórfé á olíuflutningum þegar stríðið geisaði milli Íran og Íraks. Þar varð eitthvert skammhlaup hjá Orkublogginu. Því það var jú ekki Fred. Olsen heldur landi hans, skipakóngurinn nýríki John Frederiksen, sem græddi svo svakalega á því "blessaða" stríði. Fred Olsen samsteypan eru aftur á móti "gamlir" peningar. Lesendur bloggsins eru margfaldlega beðnir afsökunar á þessum tímabundna Fredda-ruglingi, sem skyndilega sló niður í huga bloggsins við matborðið hér í kvöld yfir ítalskri kjötsósu!]
Norsararnir eru auðvitað meðal þeirra sem nýta sér þessa sniðugu FPSO-tækni. Þessa dagana eru Suður-Kóreumennirnir hjá Samsung Industries að leggja lokahönd á 800 milljón dollara risapramma fyrir norska Skarfasvæðið. Skarfurinn (og aðliggjandi Iðunnar-svæði) eru stórar olíu- og gaslindir, sem fundust undir Noregshafi 1998. Þær liggja um 3,5 km undir hafsbotninum þar sem hafdýpið er um 400 m. Þessi gríðarlegi vinnsluprammi, sem verður 300 m langur, á að vera kominn á sinn stað 2011 og verður einn afkastamesti FPSO í heimi. Norðmenn alltaf stórhuga.
Stærsta vinnslustöðin af þessu tagi í dag er Kizomba A, sem ExxonMobil er með á samnefndu svæði, tæpar 200 sjómílur vestur af strönd Angóla. Eins og unnendur afrískra dansa vita er Kizomba tilvísun í einn vinsælasta dans í Vestur-Afríku. Hlunkurinn Kizomba A er þó ekki beint til þess fallin að stunda slíkt sprell. Hann er 285 m langur og getur rúmað heilar 2,2 milljónir tunna af olíu. Dýpið á svæðinu er um 1.200 metrar.
Sá FPSO sem er nú á mesta dýpinu hlýtur aftur á móti að vera sjálfur Heilagur andi Espirito Santo þeirra hjá Shell. Hann á ættir að rekja til skipasmíðastöðvar í Singapore, en flýtur nú yfir hinum gríðarlegu brasilísku olíulindum skammt austur af draumaborginni yndislegu; Rio de Janeiro. Pallurinn er í vinnslu á um 1.800 metra dýpi.
Já - það eru bjartar horfur í FPSO-bransanum þessa dagana. Og til að afgreiða það af hverju þessi tækni hentar svo vel í olíuvinnslunni utan við Angóla, skal áréttað að vegna dýpisins og fjarlægðar frá landi er FPSO einfaldlega eins og sérhannað fyrir aðstæðurnar þar. Þar með losna menn við að byggja upp rándýrar vinnslustöðvar uppi á landi í Angóla. Olíunni er einfaldlega dælt upp, svo grófunnin um borð í vinnslustöðinni, geymd þar og loks dælt yfir í olíuskip og siglt með hana beinustu leið til olíuhreinsunarstöðva "heima" í Bandaríkjunum. Einfalt, þægilegt og ekkert vesen. En kannski myndast heldur snautlegur virðisauki af þessu meðal angólsku þjóðarnar meðan stjórnvöld þar hirða vinnslugjaldið og stinga því í ónefnda vasa.
Uppgangurinn í djúpvinnslunni síðustu árin hefur auðvitað verið sannkallaður draumur fyrir fyrirtæki, sem smíða þessar fljótandi vinnslustöðvar. Þetta þykir reyndar svo sniðug tækni að nú eru menn farnir að skoða möguleika á sömu þróun í LNG. Í vinnslu á fljótandi gasi. Í stað þess að dæla gasinu langar leiðir til lands í LNG-stöðvar þar, gæti í sumum tilvikum verið sniðugara að hafa þessar stöðvar úti á hafi og færanlegar. Þessi tækni er kölluð FLNG (Floating Liquified Natural Gas facilities).
Það magnaða er að með þessu geta menn sparað sér gaslögnina í land, í hefðbundna LNG-vinnslustöð. Það sparar ekki bara pening, heldur losar menn t.d. við umhverfismats-stússið í kringum slíkar lagnir. Hraðar ferlinu til muna. FLNG býður þar að auki upp á þann möguleika, að flytja stöðina á annað gassvæði þegar hentar.
FLNG er eflaust framtíðin í vinnslu á fljótandi gasi. En þó er ólíklegt að aðkrepptir bankar nútímans séu spenntir fyrir að fjármagna slík ný og áhættusöm verkefni þessa dagana. Það er ekkert grín að ætla sér að kæla gas niður í 160 gráður Celsius langt útá sjó. Sem sagt miklu flóknari prósess en FPSO og ennþá bara framtíðarmúsík. En þeir hjá Shell eru æstir í að láta þennan draum rætast og hreinlega slefa við tilhugsunina um FLNG. Enda mikil gróðavon á ferðinni. En FLNG er sem sagt ennþá aðallega framtíðardraumur meðan FPSO er orðinn þroskuð og afskaplega vel þekkt tækni.
Ef olía finnst á Drekasvæðinu er stóra spurningin hvort hún verði einfaldlega unnin um borð í FPSO - eða hvort menn vilji fá hana strax í land til vinnslu og hreinsunar. Þarna gætu mæst stálin stinn - hagsmunir olíufélaganna annars vegar og atvinnuhagsmunir í landi hins vegar.
Ekki virðist vera til stafkrókur um það hvaða stefnu íslensk stjórnvöld hafa í þessum málum, ef svart blóð skyldi finnast í Drekanum. Enda íslensk stjórnvöld ekki alltaf mikið fyrir að horfa fram í tímann. Vona samt að hann Össur skarpi sé búinn að hugleiða þetta og það verði gengið frá þessum álitamálum í samningum við fyrirtækin sem fá leitaleyfi á Dekasvæðinu.
Orkubloggið veðjar á að FPSO muni verða fyrir valinu, ef olía finnst á Drekasvæðinu. Bæði vegna þess að það er eiginlega útí hött að sigla með alla olíuna suðurúr og í land og svo dæla henni aftur um borð í skip til útflutnings. Og menn verða varla spenntir fyrir því að leggja rándýra olíuleiðslu í land frá Drekanum. Vert er að hafa í huga að FPSO hentar alveg sérstaklega vel þar sem olíulindirnar tæmast á tiltölulega stuttum tíma. Af því á slíkum svæðum borgar sig sjaldnast að leggja dýrar neðansjávarleiðslur í land.
Að lokum vill Orkubloggið mæla með því að menn með pening íhugi þann möguleika að fjárfesta í fyrirtækjum sem sérhæfa sig í smíði FSOP... FOSP...fpsss - ég meina FPSO! Eða fyrirtækjum sem reka slíkar fljótandi vinnslustöðvar og hafa verið forsjál að panta fleiri.
Í þessu sambandi er nærtækt að minnast aftur á olíuvinnsluna á djúpinu mikla undan ströndum Brasilíu. Þar virðast vera einhverjar mestu olíulindir í heimi og þær gætu kallað á margar nýjar fljótandi vinnslustöðvar. Enda hafa Brassarnir undanfarið hreinlega ryksugað upp stóran hluta af öllum fljótandi djúpvinnsluprömmum heimsins. Og þeir hljóta einnig að veðja sterkt á FPSO.
Á næstu þremur árum er gert ráð fyrir að smíðaðar verði allt að 125 flothlunkar af þessu tagi. Þar af verði um 80% FPSO og 20% FPS. Ekki er ólíklegt að Norsararnir hjá Aker muni ná góðri sneið af þeirri köku.
Kannski má segja, að olíu- og gasiðnaðurinn sé skemmtilegur leikur þar sem Norðmenn vinna alltaf. Sama hvert litið er og þrátt fyrir tímabundnar niðursveiflur. Heja Norge.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:49 | Facebook
Athugasemdir
Eins bjartsýn og þessi grein nú er finnst mér gríðarlega óréttlátt hversu lítinn bita Angólamenn fá af þessari köku. Þeir þurfa miklu meir á olíupeningum að halda heldur en forríkir olíurisar.
Kristján Hrannar Pálsson, 13.3.2009 kl. 16:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.