Olíutromman

Peak Oil! Það er varla að Orkubloggið þori að nefna þetta svolítið þreytandi hugtak eina ferðina enn. En af gefnu tilefni stenst bloggið ekki mátið.

HI_logo

Þannig er að Orkubloggið var nýlega viðstatt ágætan fund við Háskóla Íslands í Reykjavíkurborg, þar sem orkumál bar á góma. Þar var m.a. flutt prýðilegt erindi, þar sem komið var inn á olíuframleiðslu.

En blogginu til mikillar furðu fullyrti fyrirlesarinn, sem er einn af æðstu stjórnendum Háskóla Íslands, að olíuframboð hefði náð hámarki. Og framboðið myndi héðan í frá minnka.

Þessum orðum fylgdu prýðilega laglegar slædur. M.a. með hinni glæsilegu kúrfu, sem kennd er við Hubbert konung. Orkubloggarinn varð mjög undrandi að heyra og sjá málið sett fram með svo einhliða hætti og álítur það afar vafasamt að fullyrða að peak-oil hafi verið náð. Þ.e. að ekki verði unnt að auka framboðið, ef eftirspurnin er fyrir hendi. Slík fullyrðing er að mati bloggsins meira í ætt við trúarbrögð en vísindi.

Við nánari eftirgrennslan Orkubloggsins kom í ljós að að umræddar fullyrðingar fyrirlesarans studdust m.a. við rannsóknir nemenda í Háskólanum um þróunina í olíuvinnslu framtíðarinnar. Bloggaranum var tjáð að "heimildirnar sem  nemendurnir fundu gáfu peak oil milli 2015 og 2010". Og að "aðeins ein heimild nefndi 2020". Sem sagt að viðkomandi háskólastúdentar fundu eina heimild um að olíuframleiðsla kunni að ná hámarki um eða eftir 2020.

Peak-oil-peakalypse_now

Nú vill svo til að Orkubloggarinn hefur miklar mætur á Háskóla Íslands og þeirri starfsemi sem þar fer fram. En eitthvað hljómar þetta um heimildirnar einkennilega.

Um peak-oil eru vissulega til margar og mismunandi spár. Sá sem ætlar að kanna spár um olíuframleiðslu hefur úr svona cirka skrilljón mismunandi spám að velja. En þessi ályktun íslensku háskólanemanna getur tæplega talist mjög fagleg - eða er a.m.k. háð gríðarlegri óvissu, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Hvert skal leita til að fá þokkalegar upplýsingar um olíuspár eða þróun olíuframleiðslu til framtíðar? Ekki hefur Orkubloggið hugmynd um úr hvaða fróðleiksbrunnum umræddir háskólanemendur drukku af. Nema hvað mér var m.a. bent á Oildrum í því sambandi. Sic.

Oil_Drum_logo

Á Oildrum matreiða menn svartsýnis-spádóma sýna af mikilli list. Orkubloggið hefur ósjaldan notfært sér gullfalleg línurit þeirra ljúflinganna, sem skrifa á Oildrum. En það vekur ofurlítinn hroll ef Háskóli Íslands tekur skoðanirnar sem birtast þarna á Trommunni, sem áreiðanlega heimild. Sjaldan er meiri þörf á gagnrýnni hugsun, en þegar maður flækist inn á Olíutrumbuna.

EIA_liquids_2030

Hvar er bestu upplýsingarnar um olíuframleiðslu heimsins að finna? Bæði söguleg gögn og spádóma, byggða á frumgögnum en ekki getgátum? Fyrstu heimildirnar sem Orkubloggið myndi athuga eru eftirfarandi:

1) EIA (upplýsingadeild bandaríska orkumálaráðuneytisins;  það er fátt sem slær út bandaríska tölfræðivinnu): Í nýjustu spá EIA segir að heildarolíuframleiðsla muni líklega aukast um ca. 30% fram til ársins 2030 og nemi þá 112,5 milljón tunnum á dag (var u.þ.b. 85-86 milljón tunnur árið 2008).

Hafa ber í huga að þegar settar eru fram spár um heildarolíuframleiðslu, er oftast miðað við allt fljótandi eldsneyti með sambærilega eiginleika og olía. Þ.m.t. er ekki bara hefðbundin olía og annað olíusull, heldur einnig t.d. bæði NGL (natural gas liquids) og lífefnaeldsneyti (biofuels).

weo08_oil_produktion_reference

2) IEA (Alþjóða orkustofnunin hjá OPEC). IEA byggir niðurstöður sínar mjög á bandarískum gagnabönkum. En þeir Faith Birol og félagar í spáteyminu hjá IEA lesa samt ekki endilega það sama út úr þeim upplýsingum, eins og snillingarnir hjá EIA í Washington DC.

IEA spáir því nú að hefðbundin olíuframleiðsla hafi u.þ.b. náð hámarki og verði nokkuð stöðug næstu ár og áratugi. A.m.k. fram til 2030. En fram að þeim tíma muni heildarframleiðsla á olíu engu að síður aukast um 20-25% frá því sem nú er. Fyrst og fremst vegna mjög verulegrar aukningar á framleiðslu á NGL, sem kemur til vegna síaukinnar gasvinnslu. Spá IEA um heildarolíuframleiðslu í heiminum árið 2030 hljóðar nú upp á 105-106 milljón tunnur. Sem er töluvert lægra en spá EIA, sem getið var um hér ofar. En engu að síður talsvert hærri spá, en hjá Háskóla Íslands. 

Hér eru sem sagt komnar tvær spár, frá nokkuð svo öflugum stofnunum, sem báðar spá því að olíuframleiðsla aukist a.m.k. fram til 2030. En háskólanemarnir fundu, sem fyrr segir, bara eina einustu spá í þessa veru - og hún náði einungis til 2020. Einkennilegt.

En kíkjum nú á hvað meistararnir sem starfa í olíuiðnaðinum, segja um olíuframleiðslu framtíðarinnar.

TonyHayward_BP

3) Af einhverjum dularfullum ástæðum er tölfræðin frá Tony Hayward og félögum hans hjá BP af flestu ábyrgu fólki í olíubransanum talin einhver sú besta og áreiðanlegasta í bransanum. Töffararnir hjá BP nota ekki nákvæmlega sömu viðmiðanirnar eins og EIA eða IEA - telja t.d. hvorki lífefnaeldsneyti (biofuels) né fljótandi eldsneyti unnið úr kolum, með olíunni. Þess vegna eru tölur þeirra um heildarolíuframleiðslu eilítið lægri en hinna fyrrnefndu.

En til að gera langa sögu stutta, þá álíta þeir hjá BP að það verði ekkert vandamál að auka olíuframleiðslu verulega frá því sem nú er. Þeir eru aftur á móti handvissir um að eftirspurnin eftir olíu nái brátt hámarki - líklega fari eftirspurnin aldrei yfir 100 milljón tunnur á dag. Hvatar sem nú er verið að lögleiða, muni gera aðra orkugjafa áhugaverða fyrir fjárfesta. Þess vegna líði senn að því, að olíuneysla hætti að vaxa og nái jafnvægi. Þó svo tæknilega séð, sé unnt að framleiða langt yfir 100 milljón tunnur á dag einhverja áratugi í viðbót - ef á þarf að halda.

James_Mulva

Þess má geta að James Mulva, forstjóri bandaríska olíurisans ConocoPhillips, hefur lýst svipaðri skoðun og Tony hjá BP. Þ.e. að ólíklegt sé að eftirspurn eftir olíu muni fara yfir 100 milljón tunnur pr. dag.

Fólk sem er meðvitað um efnahagsvöxtinn sem búist er við að verði á næstu árum og áratugum í Asíu og víðar utan hins vestræna heims, kann að undrast slíka spádóma um að aldrei verði þörf a meiri olíu en max 100 milljón tunnum pr. dag. Að eftirspurn eftir olíu nái senn hámarki. Að það geti varla verið rétt!

En málið er að olíunotkun stærstu olíusvolgraranna, Bandaríkjamanna, hefur staðnað undanfarin ár. Og jafnvel heldur minnkað. Þrátt fyrir nokkuð góðan vöxt í efnahagslífinu 2002-2007.

Og það munar um minna. Sama er uppi á teningnum í Evrópu. Vissulega eu þessir heimshlutar sífellt að verða háðari innfluttri olíu, vegna þess að olíuframleiðsla þeirra heimafyrir minnkar hratt. Engu að síður hefur olíunotkun bæði Evrópu og Bandaríkjanna verið á niðurleið, þrátt fyrir efnahagsvöxt síðustu ára. Hljómar kannski lygilega - en tölfræðin sýnir þetta svo ekki verður um villst.

Það kann að vera tilefni til að lýsa hér nokkrum öðrum spám um olíuframleiðslu framtíðarinnar. T.d. ljúflinganna hjá CERA og annarra slíkra, sem þykja nokkuð flinkir í faginu. Og spá flestir verulegri framleiðsluaukningu til framtíðar. En Orkubloggið lætur hér staðar numið - að þessu sinni.

Herge_Philippulus_the_Prophet-1

Reyndar tekur bloggið ekki rassgat meira mark á fyrrgreindri heilagri þrenningu - EIA, IEA og BP - heldur en t.d. Bölmóði spámanni í Tinnabókinni góðu; Dularfulla stjarnan. Bömóður var brjálaði snillingurinn, sem reyndist ekki vera frá Stjörnuskoðunarturninum heldur hafði sloppið af vitfirringahæli. Og gekk um og spáði heimsendi, eins og allt sæmilega þroskað fólk hlýtur að muna.

Það sem Orkubloggið er að reyna að segja, er einfaldlega að það er til lítils að setja fram spár um það hvernig olíunotkun og olíuframleiðsla muni þróast í heiminum næstu ár og áratugi. Og það er vægast sagt undarlegt að heyra hátt settan starfsmann Háskólans setja fram þær fullyrðingar, sem hér var minnst á að ofan. Það þarf nánast að sýna vísvitandi viðutan vinnubrögð, ef menn finna bara eina þokkalega heimild um að olíuframleiðsla geti í mesta lagi aukist fram til 2020.

Auðvitað er ekki útilokað að olíuframleiðsla hafi náð toppi. Muni aldrei verða meiri en verið hefur allra síðustu árin. Það er a.m.k. óumdeilt að mjög hefur hægt á því að menn finni nýjar olíulindir. En óvissan er mikil; í reynd veit t.d. ekkert vestrænt kvikyndi hver staða mestu olíulinda heims er. Sérstaklega er mikil óvissa um hvað muni gerast í Saudi Arabíu. Sádarnir eru borubrattir og segjast geta aukið framleiðsluna umtalsvert og séu hvergi nærri hálfnaðir með olíuauðlindir sínar. Ýmsir í Vestrinu vefengja þetta og segja jafnvel að Ghawar - stærstu olíulindir heims - séu komnar yfir toppinn.

Peak-Oil-doomed

Það er auðvelt að falla í dómsdagsgildruna. En það sem skiptir mestu máli er líklega það hvernig efnahagslífið þróast. Ef mikill vöxtur er framundan, mun myndast hvati til að finna og sækja ennþá dýrari olíu en gert hefur verið hingað til. Enginn veit hvort eða hversu mikið olíuframleiðslan getur aukist í framtíðinni, né hversu margir áratugir eru í að lindirnar tæmist. Flest bendir þó til þess, að í jörðu séu ennþá a.m.k. 1.200-1.500 milljarðar tunna af vinnanlegri olíu. Sem er nokkru meira en öll sú olía sem hefur verið sullað upp fram til þessa. Sumir telja unnt að finna og dæla upp 2-4.000 milljörðum tunna í viðbót - og jafnvel ennþá meira!

peak-oil-economy

Hvernig sem fer verður þó varla hjá því komist að olíuframleiðsla nái toppi innan ekki svo óskaplega langs tíma. Olíuvinnslan er að verða það dýr að nýir orkugjafar eru farnir að geta keppt við olíuna. Þar liggja vatnaskilin. Orkubloggið er að sjálfsögðu vel meðvitað um þá "ógn". Sem reyndar er ekki síður frábært tækifæri. Það er sem sagt talsvert líklegt að hámark olíuframleiðslunnar komi ekki til af skorti á olíu. Heldur einfaldlega vegna þess að á vissum tímapunkti mun eftirspurn eftir olíu hætta að vaxa; vöxturinn í orkunotkun komi frá öðrum orkugjöfum.

Líklegt er t.d. að senn komi fram önnur og hagkvæmari leið til að knýja umtalsverðan hluta af bíla- og skipaflota heimsins. Og þá hættir olíueftirspurnin að vaxa; mun fyrst stabílerast og svo láta undan síga. Olíuframleiðslan mun þá hafa náð toppi - ekki beinlínis vegna þess að það vanti olíu, heldur vegna þess að menn hafa ekki lengur sama áhugann á henni eins og verið hefur fram til þessa. Peak Oil Demand.

Ghawar_dying

En þangað til mun þéttur taktur olíutrommunnar örugglega heyrast áfram úr fjarska. Meðan Ghawar blæðir út....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband