Græni kapallinn

Eru íslenskir fjölmiðlar gersneyddir allri gagnrýnni hugsun?

Þegar maður renndi yfir helstu íslensku fréttasíðurnar á vefnum í gærkvöldi, mátti víða sjá frétt um að hér standi til að reisa "græna kapalverksmiðju". Þó svo maður rekist oft á ýmislegt skrítið hjá íslenskum fjölmiðlum, er Orkubloggarinn á því að þetta sé einhver almesta bjartsýni sem lengi hefur þar sést.

Læt hér fljóta með þessa frétt, eins og hún birtist á vef Morgunblaðsins (sjá hér neðar). Myndin hér að neðan er aftur á móti tekin af vefnum amx.is - sem kallar sig "fremsta fréttaskýringavef landsins". Og birtir sams konar frétt um þessi stórtíðindi. Og fréttavefur Ríkisútvarpsins étur þetta líka upp athugasemdalaust og segir að tekjur verksmiðjunnar muni verða sem nemur helmingi af veltu allra álvera á Íslandi. 

Þetta er svo sem allt hið besta mál. Ekki ætlar Orkubloggið að finna að því, ef menn eru að vinna í metnaðarfullum hugmyndum af þessu tagi. Það ber að virða. Aftur á móti er þessi venja íslenskra fjölmiðla að birta fréttatilkynningar eins um frétt sé að ræða, ofurlítið undarleg. Og engum virðist detta í hug að spyrja sem svo, af hverju í ósköpunum svona mikill og hratt vaxandi bisness þurfi að fá sérstakan ríkisstyrk, eins og aðstandendur verkefnisins virðast gera sér vonir um. Enginn fjölmiðill virðist heldur hafa nokkurn áhuga á því að skoða hversu raunhæfar svona hugmyndir eru.

Orkubloggið ætlar að sökkva í sama dýkið og fjölmiðlarnir. Sleppa því að spá í hvort hugmyndin sé góð - eða arfavitlaus. Það verður barrrasta að koma í ljós. Aftur á móti er vel þess virði að staldra við skáldskap Friðriks Hansen. Sá var afi athafnamannsins stórhuga, sem nú er á ferðinni. Og Friðrik eldri orti m.a.:

Ætti ég hörpu hljóma þýða
hreina mjúka gígjustrengi
til þín mundu lög mín líða
leita þín er einn ég gengi.

--------------------------------

Innlent | mbl.is | 24.3.2009 | 17:46

Rís fyrsta græna kapalverksmiðja heimsins á Íslandi? 

Á næstu árum er ætlunin að hér á landi rísi fyrsta græna kapalverksmiðjan í heiminum sem framleiða mun, til notkunar innanlands en þó einkum til útflutnings, háspennukapla og sæstrengi og nota til þess rafmagn og ál sem hvoru tveggja er framleitt á Íslandi. Að þessu stendur íslenskt fyrirtæki, The North Pole Wire.

Graen_kapalverksmidja_amx

Samkvæmt upplýsingum Friðriks Þ. Guðmundssonar, fjölmiðlafulltrúa fyrirtækisins, er hér um að ræða grænan hátækniiðnað og mun kapalverksmiðja þessi veita á bilinu 300 til 500 manns vinnu þegar hún nær fullum afköstum og ámóta fjölda starfsmanna þarf til að reisa verksmiðjuna.

„The North Pole Wire vill skapa hér eitt öflugusta útflutningsfyrirtæki landsins byggt á innviðum hins íslenska atvinnulífs. The North Pole Wire vill „rísa eins og fuglinn Fönix“ upp úr öskunni og reisa á Íslandi fyrstu og einu kapalverksmiðjuna í heiminum sem framleiðir kapla með grænni orku. Ráðgert er að verksmiðjan rísi á næstu 3-4 árum, þar af tekur fyrsti áfangi 1-2 ár – en allt er þetta háð því til verkefnisins fáist tilskilin leyfi,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Staðsetning verksmiðjunnar hefur ekki enn verið ákveðin, en ýmis landsvæði hafa verið skoðuð og sum teljast mjög vænleg, að sögn.

Stofnendahópur The North Pole Wire er innanlands í umsjá Verkfræðistofu FHG (Friðriks Hansen Guðmundssonar verkfræðings), „en að baki verkefninu eru öflugir erlendir aðilar, sem ekki er að sinni tímabært að greina nánar frá – en rétt að taka fram að þeir hafa ekki áður komið að starfsemi á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

Auk áætlana um að reisa verksmiðjuna á Íslandi kemur fram að þessir aðilar hafi átt í viðræðum við erlenda kaupendur, enda hafi verkefnið verið lengi í undirbúningi. „Ef vel tekst til mun kapalframleiðslan á Íslandi ýta mjög undir að allar nýjar rafmagnslínur fari í jörð, sem og endurnýjum á eldri línum og gera lagningu sæstrengja til annarra landa fýsilega.“

Aðstandendur fyrirtækisins segja að markaður fyrir jarð- og sæstrengi muni vaxa mjög á komandi árum og áratugum. „Í dag er þessi framleiðsla að velta um 4 til 5 milljörðum bandaríkjadala á ári. Gert er ráð fyrir að þessi velta verði eftir 10 ár 40 til 50 milljarðar Bandaríkjadala. The North Pole Wire vill vera þáttakandi í þessari þróun. Í samstarfi við erlenda samstarfsaðila okkar þá viljum við, eftir 2 til 3 ár, vera komin í gang með fyrsta áfangann af slíkri kapalverksmiðju sem mun geta framleitt allar helstu gerðir hefðbundinna rafmagnskapla og strengja. Annar áfangi yrði framleiðsla á ljósleiðurum og sæstrengjum.“ Þriðji áfangi yrði þáttaka í þróun og framleiðsla á háhraða rafmagnsköplum einhvern tíma síðar.

Verksmiðjan, miðað við áfanga þrjú, er sögð þurfa 25 MW af orku og upplýst er að hún muni velta um helmingnum af veltu íslenska áliðnaðarins. „Verði þriðji áfangi að veruleika þá gæti framleiðsla á köplum orðið ein af stærstu úrflutningsgreinum Íslands.“

Bent er á að álframleiðsla sé mikil á Íslandi og hér sé hægt að kaupa ál á heimsmarkaðsverði beint frá framleiðendum. Innkaupsverð og flutningskostnaður á áli frá framleiðenda til verksmiðjunnar yrði því í algjöru lágmarki. 

Fyrirtækið The North Pole Wire hefur óskað eftir beinum styrk frá Íslenska ríkinu, sem er hugsaður sem táknrænn stuðningur „og gerir okkur kleyft að sækja til rannsóknarsjóða austan hafs og vestan. Styrkur frá Íslenska ríkinu myndi opna félaginu dyr að margfalt hærri styrkjum til væntanlegrar rannsóknar- og þróunardeildar. Óskað er eftir styrk til tveggja til þriggja ára til að greiða laun 15-20 íslenskra tæknimanna sem munu vera í starfsþjálfun hjá The North Pole Wire í þessi þrjú ár, hér heima og erlendis og taka þátt í starfi rannsóknar- og þróunardeildar fyrirtækisins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já takk fyrir "reality checkið" varðandi þessa kapalverksmiðju. Gagnrýnisleysi fjölmiðlanna er alveg hreint með ólíkindum þegar þeir birta svona fréttatilkynningu algjörlega óbreytta. Ég vona það innilega að þetta verkefni gangi eftir en hef ekki, frekar en aðrir leikmenn, aðstöðu til að meta hversu raunhæft þetta er.

En það tilkynnist þá hér með að ég og nokkrir vinir mínir ætlum að setja á stofn verksmiðju á Blönduósi sem mun framleiða vindmyllublöð úr koltrefjum. Það er mikill vöxtur í þessum geira og í samstarfi við ónefnda erlenda fjárfesta munum við stefna á að skapa 1000 störf á næstu tveimur árum. Okkur vantar hinsvegar smá pening frá ríkinu. Takk.

Bjarki (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 09:46

2 identicon

Ég er í sambandi við menn sem vilja koma hérna og setja upp vindhana verksmiðju. Þeir segja að eftir kosningar verði mikið af vönu og góðu fólki á lausu til að hanna vindhana.Þeir voru að vona að Össur Skarphéðinsson mundi verða á lausu því hann er talinn með þeim bestu í bransanum til að hanna vindhana ef ekki þá einhver annar. Þeir vonast eftir styrk frá Ríkinu

Ekki er búið að ákveða hvar verksmiðjan verður staðsett en það væri mikill kostur ef hún væri staðsett nálægt Alþingishúsinu

ingo .sk (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 18:43

3 Smámynd: Helgi Kr. Sigmundsson

Það er alltaf vafasamt þegar fólk eignar sér eitthvað eins og þetta hugtak, "grænt".  Ég tek undir gagnrýni þína þarna.  E.t.v. er þetta þó skásta leiðin til þessa en ég er auðvitað ekki sérfróður um það.  Eitt virðist ljóst að það hafi átt að mata okkur á einhverju og það er óþolandi.  Vinsamlegast, fjölmiðlamenn, spyrjið gagnrýnna spurninga þegar eitthvað er borið á borð sem hljómar of gott!

Helgi Kr. Sigmundsson, 26.3.2009 kl. 00:47

4 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Sælir allir.

Styrkurinn umræddi frá ríkinu er "táknrænn" og það kemur vel fram í því sem The North Pole Wire hefur sent frá sér. Peningar í því sambandi eru aukaatriði, en geta varðað til að mynda staðarvalskostnað. Aðal styrkurinn liggur í samþykki og velvilja stjórnvalda og þetta eiga hugsandi menn að vita.

Erlendis líta samstarfsaðilar og fjárfestar MJÖG til slíkra hluta; afstaða stjórnvalda er mikilvæg; að þau séu sátt og fús og að viljayfirlýsing liggi fyrir sem ekki er líkleg til að breytast með geðþóttaákvörðunum. Annað hvort eða bæði; ríkið og/eða það sveitarfélag sem um væri að ræða.

Hugleiðið þetta aðeins áður en þið dragið ályktanir um að "styrkurinn" snúist um einhvern ógurlegan pening!

Hvað eignarhald á orðinu "grænt" varðar þá er það einfaldlega svo, að erlendis og þá allra helst í Bandaríkjunum er þetta lykilorð núorðið. Víða er löggjöf farin að setja fyrirtækjum og einstaklingum skorður við innkaup á vöru og þjónustu; það verði að vera umhverfisvænt - grænt.

Og hvað er þetta ef ekki grænt? Hverfandi lítil mengun og losun, endurnýjanleg Íslensk raforka, úrvinnsla á áli sem framleitt er á Íslandi með sömu endurnýjanlegu Íslensku raforkunni og fleira mætti nefna. Ísland þarf á atvinnuuppbyggingu og vaxandi þjóðartekjum að halda og þetta hlýtur að geta talist bæði vænn og grænn kostur.

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.3.2009 kl. 15:57

5 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Já og því má bæta við að The North Pole Wire fólk er meira en tilbúið til að svara spurningum um verkefnið, bæði gagnrýnum og öðrum.

Hvað það varðar, að nöfn erlendra samstarfsaðila séu ekki gefin upp að sinni, þá er það alþekkt - kannski frekar erlendis en hérlendis - að menn gefa ekki upp áform sín fyrr en í lengstu lög, meðal annars vegna iðnaðarnjósna og þess að samkeppnisandstæðingar reyna að skemma fyrir góðum áformum. Staðreyndir sem þessar eru daglegt brauð erlendis en kannski fjarri Íslenskum hugsunarhætti. Aðalatriðið er, að hvað þetta varðar er ekki um pukur að ræða, hvað þá tilbúning, heldur viðskiptaleg varúðarsjónarmið. Spyrjið sjóaða alþjóðlega viðskiptamenn um þetta. Gáið að því hvað þeir segja.

Friðrik Þór Guðmundsson, 26.3.2009 kl. 16:05

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þá vitum við hvert er tískuorð dagsins: Kaplar.

Af vef RÚV:

Fyrst birt: 27.03.2009 07:15

Síðast uppfært: 27.03.2009 07:17

Stefnt að kapalframleiðslu

Áætlanir fyrirtækisins Alkaplar ehf. miða að því að framleiðsla í kapalverksmiðju á Seyðisfirði verði hafin árið 2011. Sigfinnur Mikaelsson hefur undirbúið verkefnið á Seyðisfirði undanfarin tvö ár í samráði við Þróunarfélag Austurlands og Alcoa Fjarðaál en gert er ráð fyrir að nota ál þaðan við framleiðsluna.

Ketill Sigurjónsson, 27.3.2009 kl. 08:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband