30.3.2009 | 09:16
Landsvirkjun: 40 milljarða tap
"Það er mat stjórnenda Landsvirkjunar að fyrirtækið geti mætt skuldbindingum næstu 24 mánuði þó að enginn aðgangur verði að nýju lánsfjármagni á þeim tíma."

Já - þannig segir í nýútkominni ársskýrslu Landsvirkjunar vegna ársins 2008. Nú þegar Eimskipafélagið hefur orðið leiksoppur braskara og er í dag jafnvel með neikvætt eigið fé, leyfir Orkubloggið sér að stinga upp á því að Landsvirkjun sé hið nýja óskabarn þjóðarinnar.
Og öðruvísi hafast þau að, gamla óskabarnið Eimskip og hið nýja; Landsvirkjun. Skv. ársreikningi Landsvirkjunar var eigið fé þessa öfluga orkufyrirtækis um síðustu áramót að jafngildi nálægt 1,4 milljörðum bandaríkjadala (Landsvirkjun gerir upp í dollurum). Hljómar dável.
Menn geta vissulega rifist um hversu "rétt" metnar eignir Landsvirkjunar eru. En það breytir ekki öllu. Til skemmri tíma litið - nú á tímum lánsfjárkreppu - skiptir meira máli hvort Landsvirkjun getur staðið við skuldbindingar sínar næstu misseri og ár. Að fyrirtækið hafi nægar tekjur og aðgang að fjármagni til að geta greitt afborganir af skuldum sínum, auk launa og annarra útgjalda.
Landsvirkjun er nú að öllu í eigu ríkissjóðs. Nánar tiltekið á ríkissjóður 99,9% eignarhlut og félagið Eignarhluti ehf. á 0,1%, en það félag er í eigu ríkissjóðs. Af þessu tilefni vill Orkubloggið vekja athygli á annarri "skemmtilegri" staðreynd: Ríkissjóður ber ábyrgð á 99,9% allra skuldbindinga Landsvirkjunar, sbr. lög sem um fyrirtækið gilda. Gömlu sameigendurnir, Reykjavíkurborg og Akureyri, eru reyndar ekki alveg stikkfrí. Því þessi tvö bæjarfélög eru líka í ábyrgð vegna allra skuldbindinga Landsvirkjunar sem eru eldri en frá ársbyrjun 2007 (þessi meðábyrgð gildir út árið 2011). Það er því augljóst að það er ekki bara ríkissjóður sem á allt undir vegna Landsvirkjunar. Bæði Reykvíkingar og Akureyringar eiga þarna ennþá meiri hagsmuni en aðrir landsmenn af því að fyrirtækið spjari sig og lendi ekki í greiðsluþroti.

Samkvæmt áðurnefndri tilvitnun hér í upphafi færslunnar, þá telja stjórnendur Landsvirkjunar ekki yfirvofandi hættu á ferðum. Telja að fyrirtækið ráði við skuldbindingar sínar næstu tvö árin, jafnvel þó svo enginn aðgangur verði að lánsfé. A.m.k. ef álverð lækkar ekki enn meira.
Orkubloggið hefur enn ekki gefið sér tíma til að kíkja almennilega á ársskýrsluna. Hefur rétt snuðrað af henni. Samt er ekki hægt annað en minnast strax á svolítið óþægilega staðreynd: Á síðasta ári (2008) voru fjármagnsgjöld Landsvirkjunar umfram fjármagnstekjur 660,6 milljónir dollara. Þetta er all svakaleg breyting frá árinu á undan. Árið 2007 var þessi mismunur 445,6 miljónir USD í plús, þ.e. fjármagnstekjurnar voru þá þessum hundruðum milljóna umfram fjármagnsgjöldin.
Þessi nokkuð svo hressilega neikvæða sveifla milli áranna er sem sagt 1.106,2 milljónir eða um 1,1, milljarður. Og hér erum við ekki að tala um íslenskar krónur, heldur bandaríkjadali. Í ársskýrslunni er þessi sveifla skýrð þannig að um sé að ræða breytingar "á hreinum tekjum og gjöldum af fjáreignum og fjárskuldum auk hækkunar vaxtagjalda".
Á sama tíma og fjármagnsgjöldin flæddu yfir Landsvirkjun og virði orkusölusamninga lækkaði, jókst engu að síður rekstrarhagnaður fyrirtækisins. Fór úr 181 milljónum USD 2007 og í 246 milljónir dollara 2008. Í ársskýrslunni segir að þessi aukni rekstrarhagnaður skýrist af "aukinni orkusölu með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar og hærra orkuverði". Orkubloggið stóð reyndar í þeirri trú að orkuverðið til Landsvirkjunar frá Kárahnjúkum lækkaði (í dollurum) samfara lækkandi álverði. En líklega hefur Landsvirkjun náð að verja sig að einhverju leyti gegn álverðslækkununum, með afleiðusamningum, auk þess sem afkoman á fyrri hluta ársins var væntanlega bærilegri.
Þrátt fyrir þennan þokkalega rekstrarhagnað leggur stjórn Landsvirkjunar það til, að ekki verði greiddur neinn arður til eigendanna í þetta sinn. M.ö.o. telur stjórnin bersýnilega að Landsvirkjun þurfi nú á hverri einustu krónu og hverjum einasta dollar að halda, í því undarlega árferði sem nú ríkir. Það kemur ekki á óvart. Minnumst þess að þrátt fyrir rekstrarhagnaðinn, skilaði Landsvirkjun verulegu tapi á liðnu ári. Þegar fjármagnsliðir eru teknir með, varð heildarútkoman tap upp á nærri 345 milljón dollara.

Já - Landsvirkjun tapaði meira en sem nemur 40 milljörðum ISK árið 2008. Það er súrt. Rekstrarhagnaður Landsvirkjunar jókst vissulega um 65 milljónir USD á árinu, en á meðan þyngdist fjármagnsbyrðin um 1,1 milljarð USD m.v. árið á undan. Það þætti mörgum Íslendingnum nokkuð óþægileg þróun í heimilisbókhaldinu. Á mannamáli þýðir þetta einfaldlega að Landsvirkjun stendur frammi fyrir gríðarlegri byrði vegna lánanna, sem hvíla á fyrirtækinu. Og það eru væntanlega fyrst og fremst lánin vegna Kárahnjúkastíflu og Fljótsdalsvirkjunar, sem nú eru að segja til sín.
Þeir sem hrífast af áliðnaði, stóriðju og miklum virkjanaframkvæmdum, tala gjarnan um að við Íslendingar eigum margar virkjanir sem séu nú nánast skuldlausar og mali gull fyrir þjóðina. Það má vel vera. En í ár fær ríkið ekki krónu í arð af þessari eign sinni í Landsvirkjun, sem nú er með eigið fé upp á 1,4 milljarða bandaríkjadala.
Orkublogginu finnst það barrrasta alls ekki nógu gott. Hvaða hluthafi í fyrirtæki með sem samsvarar tæpum 170 milljörðum ISK í eigið fé, væri sáttur við að fá engan arð af því fjármagni?! Þetta er hreinlega sorglegt. Að mati Orkubloggsins er eina vitið að leita eftir erlendum aðila, sem vill eignast hlut í Landsvirkjun. Og nota andvirðið sem fengist fyrir þann hlut, sem fyrsta framlagið í sérstakan orkusjóð íslensku þjóðarinnar- í anda norska olíusjóðsins. Þar með væri unnt að dreifa betur áhættunni og um leið myndi Landsvirkjun væntanlega losna við þær ásakanir að fjárfesta í óarðbærum virkjunum.
Með þessu væri sem sagt bæði unnt að losa Landsvirkjun við pólitíkina og um leið koma eggjunum í fleiri körfur. Það er orðið löngu tímabært að íslenska þjóðin fái skýrari og betri tilfinningu fyrir þeim arði, sem orkulindirnar skila. Stofnun slíks sjóðs gæti verið rétta skrefið til að skapa víðtæka samstöðu um auðlindanýtingu landsins. Þangað gætu hugsanlega líka runnið fiskveiðiheimildirnar - en það er annað og kannski flóknara mál.
Í ljósi þess sem sagt var í upphafi þessarar færslu um braskarana og Eimskipafélagið, kann það að hljóma sem þversögn hjá Orkublogginu að vilja selja hluta Landsvirkjunar. En munum að það eru ekki allir jafn ferlegir eins og nýríkir íslenskir auðmenn. Á Norðurlöndunum eru t.d. nokkur fyrirtæki, sem gætu verið heppilegur meðeigandi að Landsvirkjun ásamt íslenska ríkinu

Fyrsti mögulegi kaupandinn, sem kemur upp í huga Orkubloggarans er norska ríkisfyrirtækið Statkraft. Sem hefur fjárfest í endurnýjanlegri orku víðsvegar um heiminn. Er hugsanlegt að Statkraft vilji koma inn í íslenska orkugeirann og í framhaldinu öðlast meiri þekkingu á vatnsafli og jarðvarma? Fram til þessa hefur Statkraft verið dálítið utanveltu í jarðvarmanum - meira verið t.d. í vindorku. Með því að fá Statkraft til Íslands er enn fremur mögulegt að hér yrði farið að skoða aðra virkjanakosti af alvöru. Bæði vindorkuver og osmósavirkjanir, svo dæmi sé tekið. Eða sjávarvirkjanir. Það kann að vera tímabært að einblína ekki bara á vatnsorku og jarðvarma.
Og ef Statkraft hefur ekki áhuga má kanna með danska Dong Energi. E.t.v. væri þó nærtækast að tala við sjálfan skipa- og olíukonunginn Mærsk McKinney-Möller. Hann gæti haft áhuga á að Mærsk tengdist ekki aðeins olíuiðnaðinum, heldur færði út kvíarnar í endurnýjanlega orku. Þó svo Mærsk sé hálfgerðu basli þessa dagana, er vel þess virði að skoða slíkan möguleika. Gæti tilurð Mærsk Renewables orðið tækifæri Íslands?

En víkjum aftur að Landsvirkjun og fjármagnsþörfinni þar á bæ. Hvað mun lánsfjárkreppan standa lengi? Hvenær mun Landsvirkjun á ný geta nálgast lánsfé á vöxtum, sem eru viðráðanlegir? Er nóg að afgreiða þetta, með því að segja að þetta verði í lagi næstu 24 mánuðina? Orkubloggið hefði gjarnan viljað sjá eitthvað meira um þessa áhættu í ársskýrslunni.
Einnig er vert að hafa í huga að hlutfall bandaríkjadalsins í tekjum Landsvirkjunar hefur farið hratt hækkandi. Þetta hlutfall mun hafa verið um 50% 2006 og 2007, en var um 70% árið 2008. Samkvæmt ársskýrslunni er gert ráð fyrir að þetta hlutfall lækki eitthvað á ný og verði senn á bilinu 60-70%. Þetta er ekki útskýrt nánar, nema hvað sagt er að hlutfallið taki breytingum með þróun álverðs. Af þessu hlýtur Orkubloggið að álykta sem svo, að stjórnendur Landsvirkjunar telji að lækkun álverðs hafi nú þegar náð botni. En hafandi í huga að nú eru talsverðar líkur á enn meiri lækkun dollars, er kannski ekki heppilegt að hlutfall tekna Landsvirkjunar í dollurum skuli hafa hækkað.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú um helgina sagði fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, að líklega hefði ekki með nokkru móti verið hægt að bjarga bönkunum. Jafnvel þó svo fyrr hefði verið farið í markvissar aðgerðir, en raun varð á. Spurningin er hvort fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem situr í stól forstjóra Landsvirkjunar, sé sömu skoðunar um Landsvirkjun? Að þetta verði bara að ráðast.

Og hvað ætli stjórn Landsvirkjunar og nýi fjármálaráðherrann séu að bauka? Landsvirkjun heyrir vel að merkja undir fjármálaráðuneytið, þ.e. fjármálaráðherrann skipar stjórn Landsvirkjunar. Sökum þess að aðalfundur Landsvirkjunar á að fara fram í apríl n.k., er það Steingrímur nokkur Sigfússon, sem fær það hlutverk að skipa alla stjórn Landsvirkjunar að þessu sinni.
Fróðlegt verður að sjá hvaða fólk fjármálaráðherrann biður um að taka að sér þetta ábyrgðarmikla hlutverk, á þessum viðsjárverðu tímum. Ennþá meira brennandi spurning er sú hvort búið sé að semja nákvæma aðgerðaráætlun um það hvernig bregðast skuli við, ef Landsvirkjun lendir í greiðsluþroti? Eða ætla menn barrrasta að mæta í sjónvarpssal og segja "við borgum ekki skuldir... óreiðufyrirtækis"?

Tæplega nokkur hætta á því. Þar sem Landsvirkjun er jú í ríkiseigu og ríkið vil væntanlega helst ekki að einhverjir kröfuhafar hirði fyrirtækið - og þar með virkjanirnar. Þá myndi ríkið litlu sem engu ráða um það í hvaða hendur virkjanirnar myndu fara. Þess vegna hljóta menn að vera á tánum og vera með allt á hreinu hvað gera skuli EF illa fer hjá Landsvirkjun.
En það sem er undarlegast, er hversu lítið er um þetta fjallað á opinberum vettvangi. Fjölmiðlar virðast lítinn sem engan áhuga hafa á stöðu Landsvirkjunar. Né því hvort fyrirtækið sé að meta ástandið raunsætt, með því að segja stöðu Landsvirkjunar viðunandi og að fyrirtækið þurfi ekkert nýtt lánsfé næstu 24 mánuðina.
Menn geta kannski huggað sig við það, að enn sé allt í góðu hjá Landsvirkjun. En er það mat raunsætt - eða óskhyggja? Hvað ef álverð heldur áfram að lækka? Og lánsfjárkreppan dregst á langinn? Hversu snögglega gæti málið þróast á verri veg, ef vonir manna um hærra álverð ganga ekki eftir?
Orkubloggið vonast til þess að fólk hafi lært af reynslunni. Að nú sé þegar búið að stofna öflugt neyðarteymi, sem aðstoði starfsfólk Landsvirkjunar við að meta og takast á við þessar vægast sagt óvenjulega neikvæðu aðstæður, sem uppi eru í efnahagslífinu.
Og við treystum því að stjórn fyrirtækisins fylgist náið með þróuninni og leggi sjálfstætt og gagnrýnið mat á þær upplýsingar, sem frá fyrirtækinu koma. Við treystum því að þarna sé og verði áfram á ferðinni útvalsfólk, með nauðsynlega yfirburðarþekkingu á álmarkaðnum, fjármálageiranum og rekstrarfræði. Á endanum er það þó fjármálaráðherra, sem ber hina pólitísku ábyrgð á að Landsvirkjun farnist vel.

Jóna Jónsdóttir, viðskiptafræðingur.
Páll Magnússon, bæjarritari.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þetta er grafalvarlegt mál ef rétt er. Ef heimsmarkaðsverð á áli fer neðar, verður alkul hjá Landsvirkjun.
Þórbergur Torfason, 30.3.2009 kl. 09:47
Frábær grein Ketill mér sýnist við vera föst í smá vítahring
ef gengi krónunnar styrkist þá erum við almenningur í betri málum sérlaglega þeir sem eru með lán í erlendu en á sama tíma er það vera fyrir Landsvirkjun.
Ætli Landsvirkjun reyni að taka stöðu gen krónunni eins og bankarnir gerðu á síðasta ári til að halda uppi hagnaði?
Mr;Magoo (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 00:56
Flott og vönduð úttekt og hugleiðing! Ég ætla að bæta nokkrum punktum við fyrir áhugasama.
Lágt álverð. Landsvirkjun nýtti tímann undanfarin misseri þegar álverð var hátt til að tryggja fyrirtækinu gott framvirkt verð sem er farið að bæta upp verulegan hluta tekjutaps af lægra álverði núna. Þannig verður það næstu misseri en auðvitað er fyrirtækið ekki með tekjutryggingu mörg ár inn í framtíðina ef álverð helst svona lágt. Á móti kemur að stýrivextir eru afar lágir um allan heim (nema á Íslandi!). Landsvirkjun er með stærstan hluta lána sinna á breytilegum vöxtum þannig að samhliða lægri tekjum eru mikil lækkun á fjármagnskostnaði. Af þessum sökum bendir allt til að tekjuflæði í ár verði fyrirtækinu hagstætt þrátt fyrir lágt álverð frá seinni hluta 2008 og áfram.
1,1 milljarðs USD viðsnúningur. Það er rétt Ketill að viðsnúningurinn á fjármagnstekjum/gjöldum er gífurlegur milli 2007 og 2008. Kjarninn í þessu er svonefnd "gangvirðisbreyting á innbyggðum afleiðum". Tökum dæmi um stærstu einstöku innbyggðu afleiðuna til skýringar. Hún er sölusamningur um raforku til Fjarðaáls til næstu 39 ára. Í árslok 2007 var samningurinn talinn ákveðins virði í ljósi álverðsins þá (sem var hátt) og tekjurnar sem Landsvirkjun fengi ef álverðið héldist óbreytt samningstímann voru núvirtar og færðar sem eign fyrirtækisins. Nú var þetta endurmetið í ljósi lágs álverðs og þessi eign lækkuð þannig að gert er ráð fyrir lágu álverði næstu áratugina. Þetta lækkar eigin fé fyrirtækisins en veldur ekki aukinni skuldabyrði. Benda má á að skuldir Landsvirkjunar lækkuðu líka milli ára, raunar um 300 milljónir USD. Heildarskuldir eru nú um 3,2 milljarðar USD en voru 3,5 milljarðar í árslok 2007. Heildareignir fyrirtækisins (eigið fé og skuldir) drógust því saman milli ára.
Handbært fé frá rekstri. Handbært fé er yfirleitt talið einn besti mælikvarðinn á rekstur Landsvirkjunar. Fyrirtækið skilaði tæpum 185 milljónum dollara í handbært fé frá rekstri í fyrra og hefur árvisst skilað verulegum upphæðum. Þetta eru peningar í kassann sem hægt er að nota til að greiða niður skuldir eða fjárfesta. Auðvelt er að sjá að árviss innkoma handbærs fjár upp á vel á annað hundrað milljónir dala getur greitt upp þriggja milljarða skuldir Landsvirkjunar á vel ásættanlegum árafjölda miðað við þann langtíma atvinnurekstur sem fyrirtækið stundar.
Lausafé skiptir mestu máli núna. Landsvirkjun er vel í stakk búin til að takast á við kreppuna í heiminum vegna þess að fyrirtækið er með lausafé, öruggar tekjur og aðgang að alþjóðlegu veltiláni sem tryggir að það getur staðið við allar fjárhagslegar skuldbindingar amk út árið 2010. Það eru hagsmunir bæði fyrirtækis og eigenda að þetta gangi eftir. Það að stjórn Landsvirkjunar mæli ekki með arðgreiðslu í ár er eðlileg varúðarráðstöfun við þessar aðstæður. Það er td ekki klókt gagnvart lánveitendum að auka yfirdráttinn á veltiláninu samhliða því að greiddur er út arður. Landsvirkjun nálgast nú þann tímapunkt að fé frá rekstri standi undir öllum fjárskuldbindingum án þarfar fyrir endurfjármögnun. Það verður þörf fyrir endurfjármögnun á árunum 2011 til 2013 sem er þó að stærðargráðu mun minni en lántökur Landsvirkjunar undanfarin ár. Það er ekki ástæða til að ætla að þetta baki Landsvirkjun mikil vandamál jafnvel þótt kreppan verði viðvarandi næstu árin.
Landsvirkjun stendur traustum fótum! Eins og að ofan er rakið þá stendur Landsvirkjun vel miðað við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja bæði hér og erlendis. Í ársreikningunum kemur ekki bara fram mat Landsvirkjunar því reikningarnir eru endurskoðaðir af viðurkenndum aðilum og því kannski ekki raunsætt að velta fyrir sér hvort það sé raunsætt sem þar kemur fram! Fyrirtækið er ennfremur undir smásjá lánveitenda og lánshæfisfyrirtækja þannig að erfitt er að búa til fegraða mynd og komast upp með það. Staðreyndir er bara sú, vil ég meina, að Landvirkjun og rekstur hennar er ein af fáum góðu sögunum í efnahagslífi Íslendinga þessa dagana og við sem þar störfum tökum mjög alvarlega þa ábyrgð sem á okkur hvílir að svo verði áfram.
Landsvirkjun og krónan. Landsvirkjun er starfrækt í USD þannig að gengisfall krónunnar hefur ekki haft sömu neikvæðu áhrif á fyrirtækið og sjá má meðal margra íslenskra fyrirtækja. Tekjur og útgjöld Landsvirkjunar í ISK eru í jafnvægi þannig að gengissveiflur hafa þar lítið vægi - þess vegna er ástæðulaust að hafa áhyggjur af því að fyrirtækið reyni að "halda uppi hagnaði" með því að "taka stöðu gegn krónunni". Á undanförnum árum hefur Landsvirkjun raunar haft andstæða hagsmuni við bankana um styrkleika krónunnar þannig að ef eitthvað er hefur Landsvirkjun tekið stöðu með krónunni.
Þorsteinn Hilmarsson, 31.3.2009 kl. 12:19
Þakka fyrir þessi innlegg í umræðuna. Fróðlegt að lesa sjónarmið og skýringar Þorsteins, sem er upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.
Annars skrapp ég áðan á ársfund Orkustofnunar. Þar náði ég í síðari hluta kynningar starfsmanns Landsvirkjunar; hygg að það hafi verið Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs. Hann flutti mál sitt af raunsæi - og ég held satt að segja að umfjöllun hans um fjárhagsstöðu fyrirtækisins hafi fengið hrollinn til að hríslast um margan fundarmanninn.
Þarna var einnig flutt áhugavert erindi um Drekasvæðið og mjög skemmtileg kynning um jarðhitaverkefni á Litlu Antillaeyjum í Karíbahafi. Og eflaust voru önnur erindi þarna líka athyglisverð, en því miður hafði ég ekki meiri tíma. En gaman verður ef Íslendingar geta gert sér bissness úr jarðvarmanum í Karíbahafinu. Kannski endum við öll með því að flytja þangað í sólina?
Ketill Sigurjónsson, 31.3.2009 kl. 16:18
Fyrst birt: 31.03.2009 18:33
Síðast uppfært: 31.03.2009 18:48
Óvissa um fjármögnun skulda
Landsvirkjun getur staðið við skuldbindingar sínar til loka næsta árs, en óvíst er með framhaldið, jafnvel þótt ekkert verði fjárfest á næstu árum. Lánshæfismat fyrirtækisins hefur lækkað og erlendis er efast um að ríkissjóður geti ábyrgst skuldir fyrirtækisins. Erlendir fjárfestar og lánshæfisfyrirtæki eru þegar farin að inna stjórnendur fyrirtækisins eftir því hvernig það verði leyst.
Þetta kom fram í erindi sem Kristján Gunnarsson, deildarstjóri fjármáladeildar Landsvirkjunar hélt í dag á ársfundi Orkustofnunar. Erindið fjallaði um stöðu fyrirtækisins í ljósi breyttra efnahagsaðstæðna.
Þar kom til að mynda fram að þótt Landsvirkjun taki ekki á sig nýjar skuldbindingar og ráðist ekki í ný verkefni, þá þurfi fyrirtækið samt á nýrri fjármögnun að halda fyrir árin 2011 og 2012 - óvíst sé hvaðan það fé komi.
Landsvirkjun geti þó staðið við sínar skuldbindingar á þessu ári og því næsta - fjárhagsstaðan sé viðunandi, en veik í samanburði við erlend orkufyrirtæki. Í erindinu kom einnig fram að lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar hefur lækkað að undanförnu í takt við lánshæfismat ríkissjóðs. Núverandi lánasamningar séu ekki í hættu en óvíst hvenær markaðir með lánsfé opnist aftur. Engar nýjar framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sem er ólíkt því sem áður var.
Landsvirkjun hefur fjárfest stöðugt undanfarin þrettán ár, allar þær framkvæmdir hafa verið fjármagnaðar með rekstrarfé og lánum.
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item258377/
Ketill Sigurjónsson, 31.3.2009 kl. 19:52
Í dag er Landsvirkjun bara vogunarsjóður á álverð. Hverskonar fávitar taka eina helstu auðlind lands síns og veðja henni allri(nánast) á þróun verðs eins málms. Kanski útrásarvíkingarnir og bankamennirnir hafi lært stórar stöðutökur af Landsvirkjunarmönnum?
Kalli (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 23:17
Góð úttekt. Hvað sem menn segja á Íslandi þá eru það erlendir bankar og fjárfestar sem ákvarða um áframhaldandi fjármögnun Landsvirkjunar. Staðreyndin "Left Green Finance Minister" setur viðvörunarbjöllur í gang hjá sérfræðingum i orkufrekum fjárfestingum erlendis. Hugtakið "throwing good money after bad" gæti komið upp. Líklega munu vextir og kjör ekki batna með VG í fararbroddi. Þessu verður þá rúllað yfir á skattgreiðendur í enn hærri sköttum.
Andri Geir Arinbjarnarson, 1.4.2009 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.