Hver á skuldir HS Orku?

"Án þess að gera fyrirvara við álit okkar viljum við vekja athygli á skýringu 25 í ársreikningnum þar sem greint er frá því að félagið uppfyllir ekki ákvæði lánasamninga við lánastofnanir þar sem kveðið er á um að fari eiginfjárhlutfall og rekstrarhlutföll niður fyrir tiltekin viðmið sé lánveitendum heimilt að gjaldfella lánin."

HS_Orka_Stjorn

"Stjórnendur félagsins eru í viðræðum við lánastofnanir en þeim viðræðum er ekki lokið. Verði lánin gjaldfelld og ekki semst um endurfjármögnun þeirra ríkir óvissa um áframhaldandi rekstrarhæfi
félagsins
."

Já - nú á þessum fallega Skírdagsmorgni hefur Orkubloggið stungið sér i ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja. Eða öllu heldur hins nýja fyrirtækis; HS Orku. Og ekki verður hjá því komist að vekja sérstaka athygli á ofangreindri umsögn endurskoðendanna. HS Orka er sem sagt með svo lágt eiginfjárhlutfall að hætta er á að lánin til fyrirtækisins verði gjaldfelld. Örlög fyrirtækisins eru m.ö.o. alfarið í höndum kröfuhafanna.

GGE-Olafur_johann

Nú hlýtur að reyna á hversu góð sambönd Ólafur Jóhann Ólafsson hefur í fjármálageiranum. Ólafur Jóhann er vel að merkja stjórnarformaður Geysis Green Energy, sem er annar stærstu hluthafanna í HS Orku (hlutur GGE í fyrirtækinu er sagður vera 32%). 

Þar er enginn aukvisi á ferð. Úr því HS Orka þarf nú að endurfjármagna sig eða endursemja við kröfuhafa, er vart hægt að hugsa sér betri hluthafa í eigendahópi fyrirtækisins, en Ólaf Jóhann. Ísland er rúið trausti, en vafalítið hefur Ólafur Jóhann talsverða vigt í fjármálaheiminum vestra. Orkubloggarinn er reyndar á því að Ólafur Jóhann sé einn  vanmetnasti Íslendingur nútímans, en það er önnur saga.

En víkjum aftur að ársreikningi HS Orku. Umrædd skýring nr. 25 í ársreikningnum 2008 er svohljóðandi:

HS-orka-logo

"Á árinu 2008 veiktist gengi íslensku krónunnar umtalsvert sem leiddi til þess að skuldir félagsins tengdar erlendum gjaldmiðlum hækkuðu um 9.226 millj. kr. Ein af afleiðingum þessa er að félagið uppfyllir ekki lengur skilyrði í lánasamningum við lánveitendur sem kveða á um að eiginfjárhlutfall og að rekstrarhlutföll séu yfir ákveðnu lágmarki. Skipting á félaginu að kröfu laga getur valdið því að forsendur lánasamninga séu brostnar og veiti lánveitendum heimild til að gjaldfella lánin. Stjórn og stjórnendur vinna nú að því með lánveitendum sínum að endursemja um fjármögnun félagsins og telja að unnt verði að ljúka viðræðum innan skamms og að niðurstaða þeirra verði félaginu hagfelld".

Hér koma svo nokkrar tölur úr ársreikningnum: Niðurstaða ársins var nærri 12 milljarða króna tap. Rekstrarhagnaður nam nærri 2 milljörðum króna, en samt sem áður rýrnaði eigið fé fyrirtækisins um u.þ.b. 70%. Fór úr tæpum 20 milljörðum í árslok 2007 og niður í tæpa  6 milljarða í árslok 2008.

Gufuhverir

Rétt eins og hjá Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur voru það fjármagnsliðirnir sem fóru svo illa með fyrirtækið á liðnu ári. Hjá HS Orku varð geggjaður fjármagnskostnaðurinn til að skila þessum lið neikvæðum um alls 15,5 milljarða króna. Og fyrir vikið er eiginfjárhlutfallið komið undir lágmarksviðmiðunina í lánasamningum fyrirtækisins.

Niðurstaðan af þessu hlýtur að vera sú, að ef lánadrottnar HS Orku vilja eignast öflugt orkufyrirtæki á Íslandi, geta þeir nú notað tækifærið. Aðrir sem áhuga hafa geta sett sig í samband við kröfuhafana og boðið í skuldirnar. Sá sem á skuldir HS Orku á HS Orku. Óneitanlega væri forvitnilegt að vita hverjir stærstu kröfuhafarnir eru. Ætli einhverjir hrægammar séu þegar komnir á svæðið?

Kannski eru Suðurnesjamenn og þeir hjá GGE svo heppnir að enginn hefur áhuga á fyrirtækinu. Þ.a. kröfuhafarnir verða að gefa eitthvað eftir. En þetta er nú ljóta ástandið; það er bágt þegar vonin ein er eftir.

Margeir-87

Undarlegast þykir Orkubloggaranum þó að hann - fölur gleraugnaglámur sem finnst fátt notalegra en að að liggja í volgri sinu og tyggja strá - virðist síðustu árin hafa sýnt meira innsæi og þekkingu á fjármálum heldur en flestallir "hæfustu" forstjórar landsins.

Kannski hefur það hjálpað, að bloggarinn hefur alltaf verið svolítið hrifinn af skákstíl Margeirs Péturssonar...?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gerður Pálma

Takk fyrir þetta innlegg, vona að þú fylgir þessu eftir, mjög áhugavert og að sama skapi áríðandi ef við ætlum að halda fjöregginu heilu á meðan skessurnar leika sér.

Gerður Pálma, 12.4.2009 kl. 08:05

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ég óska þér gleðilegra páska, bloggvinur góður.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.4.2009 kl. 11:24

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Gleðilega páska, frænka.

Ketill Sigurjónsson, 12.4.2009 kl. 12:12

4 identicon

Of margar tilviljanir á ferðinni, er ekki hreinlega verið að moka hitaveitunni að fullu í einkaeigu svona bakdyramegin?

Gullvagninn (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband