Hin óbærilegu fóknu eignatengsl

bjorgolfur_gudmundsson_2

Enginn íslenskur kaupsýslumaður hefur náð viðlíka árangri eins og Björgólfur Guðmundsson. Honum tókst ætlunarverk sitt fullkomlega.

"Markmið okkar erlosa um flókin eignatengsl í félögum". Þessi orð lét Björgólfur eldri falla árið 2003 í tilefni af hinum gríðarlegu hlutabréfahrókeringum, sem menn höfðu þá farið í hér yfir eina friðsæla helgi. Þessi orð Bjögólfs voru m.a. rifjuð upp í athyglisverðri grein í viðskiptakálfi Fréttablaðsins í ágúst 2005 (sjá bls. 10 í blaðinu hér - sem er reyndar afskaplega skemmtileg heimild um veröld sem var).

unbearable_lightness_of_beingÞað tók okkur vitleysingana smá tíma að fatta hvað hann Björgólfur átti þarna við: Auðvitað að koma öllu heila klabbinu á hausinn, svo það myndi á endanum allt fara í hendur ríkisins. Já - það er svo sannarlega búið að vinda ofan af þessum óbærilega flóknu eignatengslum á Íslandi. Í reynd er bara einn eigandi að öllu draslinu; ríkið! Þetta var snjallt hjá þeim gamla Hafskipsmanni.

Líklega hafa þeir Björgólfsfeðgar komist að því austur í Rússlandi, að í reynd hafi hlutirnir barrrasta virkað langbest þegar Sovétið var og hét. Þeir lögðu bara ekki í að segja okkur frá því - fóru þess í stað smá hliðarleið til að koma á algeru eignahaldi íslenska ríkisins yfir íslenskum fyrirtækjum. Samsonarleiðina.

Og þetta var svo sannarlega skotheld leið. Landsbankinn, Eimskip, Straumur-Burðarás; allt er þetta í reynd komið í hendur ríkisins. Og ekki nóg með það. Þær skuldugu ríkislúkur fengu einnig til sín bæði Morgunblaðið bláa og hina rósrauðu Mál og menningu. Allt í sama pakkanum og allt i boði Björgólfs. Orkubloggið skilur samt ekki alveg það útspil Björgólfs að fleygja líka ensku fótboltaliði í fangið á okkur. En það er ekki nema von; Björgólfur er auðvitað með miklu meira og betra bissnessvit en vesæll Orkubloggarinn.

Joakim

Þetta var einfaldlega tær snilld hjá kallinum. Meira segja Andrés önd og frændi hans, aurapúkinn Jóakim, munu hafa siglt i þrot undir stjórn Björgólfs og hans gamla Hafskipsfélaga; Páls Braga. Ætli það sé eina dæmið í heiminum um að Disney-veldið hafi lent á vonarvöl? Það þarf a.m.k. óvenjulega hæfileika til að kaffæra endurnar yndislegu í skuldasúpu - jafnvel erfiðara en að koma Coca Cola eða Ikea á hausinn?

Verst að það náði einhver að grípa krumlunum um stélið á nánast gjaldþrota öndunum í Andabæ, áður en þær hlupu gargandi í faðm íslenska ríkisins.

Allra verst er þó að árans kjánaprikin hjá Nýja Glitni eða Íslandsbanka, föttuðu ekki snilldina í þessari allsherjar ríkisvæðingu og seldu Moggann aftur!

Aldrei hefði maður trúað því að bjórþefjandi Rússagullið gæti haft þessi töfraáhrif. Líka sniðugur sá lauflétti millileikur útrásarvíkinganna að mergsjúga öll veðmæti innan úr fyrirtækjunum, áður en þeim var fleygt í ruslakistu íslenska ríkisins. Aðdáunarvert.

Björgólfur Thor var iðinn við að líkja viðskiptareynslu sinni í Rússlandi við ígildi 3ja doktorsgráða. Orkubloggið tekur undir það sjónarmið og botnar ekkert í því af hverju þeir feðgar báðir eru ekki löngu orðnir heiðursdoktorar hjá a.m.k. Háskólanum í Reykjavík.

Bjorgolfur_i_myrkriÞessi rússneska viðskiptasnilli er samt ekkert miðað við Icesave-snilldina. Fyrir þá hugmynd ættu þeir Björgólfur eldri, stjórnarformaður Landsbankans, og Sigurjón Landsbankastjóri auðvitað að fá Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Sá lauflétti vaxtamunar-leikur var næstum því betri en seðlaprentvélar bandaríska Seðlabankans. Næstum því.

Mesta snilldin hefði þó auðvitað verið ef Dabbi kóngur Kristur hefði útvegað þetta Rússalán, sem hann var að gaspra um. En kannski er ekki öll nótt í Moskvu úti enn! Nú er bara að vona að Bjöggarnir sjálfir geti fengið Rússalánið. Og noti það til að kaupa Moggann aftur og setji hann aftur á hausinn, svo ríkið fái hann á ný. Það á aldrei að ganga frá hálfkláruðu verki. Björgólfur hreinlega verður að bregðast við því, að Glitnisálfarnir misskildu djókið. Bjánuðust til að selja Moggann, jafnskjótt og hann lá loks gjaldþrota í höndum ríkisins eins og úldinn fiskur.

glitnir_neo

Blessað Glitnisfólkið verður að átta sig á því, að með glæfrarekstri Moggans var bara verið að losa um flókin eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Og bankinn átti ekkert með það að standa í vegi fyrir því að Morgunblaðið yrði í ríkiseigu! Skilja þau Birna bankastjóri og félagar hennar ekki snilldina í þessu lauflétta plotti Björgólfs? Vilja þau kannski barrrasta að hér verði óbærilega flókin eignatengsl?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

he he afskaplega skemmtilegt sjónarhorn á hruninu

Óskar Þorkelsson, 21.5.2009 kl. 16:03

2 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Góður pistill í anda öfugmæla

Hildur Helga Sigurðardóttir, 21.5.2009 kl. 16:34

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Hm... mér er satt að segja ekki hlátur í hug.

Fall Glitnis og Kaupþings kom Orkubloggaranum ekki alveg í opna skjöldu. En það skal fúslega viðurkennt að þrot Landsbankans var í mínum huga atburður sem aldrei gæti átt sér stað.

Ég var algerlega sannfærður um að Björgólfur Thor væri ofurklár kaupsýslumaður. Hann hefði einstaka hæfileika til að meta framtíðarhorfur og takmarka áhættu.

Ég var viss um að hann hefði bæði vilja og fjárhagslega burði til að bjarga Landsbankanum frá falli, ef illa færi. Að hann myndi aldrei láta föður sinn lenda í öðru "Hafskips- og Útvegsbankamáli". Jafnvel þó svo björgunaraðgerðin myndi kosta piltinn nánast allt hans eigið fé. Enda hefur Björgólfur Thor margoft lýst því hátíðlega yfir að virðing skipti hann miklu meira máli en peningar.

Síðar kom í ljós að mér skjátlaðist hrapallega. Enda var þetta kannski kjánalegur átrúnaður. Björgólfur Thor virtist hvoki hafa vilja né getu til að bjarga Landsbankanum. Þrátt fyrir að vera metinn á 3,5 milljarða USD af Forbes og þrátt fyrir þau gríðarlegu viðskiptasambönd sem hann hlýtur að hafa aflað sér í gegnum tíðina, lét hann Landsbankann sigla seglum þöndum beint til heljar.

Það voru mér mikil vonbrigði.

Ketill Sigurjónsson, 21.5.2009 kl. 23:11

4 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Það verður bara að viðurkennast Ketill að það voru ekki miklir fagmenn við völd í þessum bönkum, það hefði hæglega verið hægt að komast hjá gjaldþroti bankanna, með agaðri stjórnun, gæðastjórnun og betri yfirstjórn væru þessir bankar enn starfandi í þeirri mynd sem við vorum með, það var bara orðið þannig að það var orðið of mikið af óhæfu fólki þarna.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 21.5.2009 kl. 23:41

5 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Ha.ha... Frábært að vanda!

Þú ert klassa bloggari og alger gullmoli!

Ásgeir Rúnar Helgason, 22.5.2009 kl. 12:27

6 identicon

Ægir, það er meira en líklegt að óhæft fólk hafi setið í bönkum, en það var meira en það sem kom okkur í þá stöðu sem uppi varð í haust.

Bankarnir voru reknir að sumu leyti eins og svikamylla; óhóflega miklar lántökur og að sama skapi óhófleg og óarðbær útlán til lengri tíma litið, til að ná sem hröðustum vexti efnahagsreiknings. Ath. ber að stærð er ekki endilega það sama og styrkur. Hlutabréfaverð var falsað í fyrirtækjum sem eigendur bankanna áttu eða höfðu tengsl við og slík bólubréf síðan sett að veði við gengdarlausan útmokstur á fé úr bönkunum. Klúður? Ég held ekki.

Að ofansögðu verður erfitt að skilgreina bankahrunið einungis sem "klúður" óhæfs fólks. Þetta fer að líta miklu frekar út sem ásetningsgerningar. Enda vitum við að "réttir" aðilar mokuðu út handa sjálfum sér rétt fyrir hrunið. Það er bara spurning hve mikið sé hægt að sækja af þessu fé, kannski er þegar búið að eyða því í einhverja vitleysu.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 13:32

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir flottan pistil!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.5.2009 kl. 19:55

8 Smámynd: Baldvin Kristjánsson

Þetta líkist Grimms ævintýrinu um flautuleikarann :-)

Baldvin Kristjánsson, 24.5.2009 kl. 13:17

9 Smámynd: Kári Harðarson

Úff, við erum með Sigurjón úr Landsbankanum í vinnu hjá HR, það verður að duga í bili...

Kári Harðarson, 28.5.2009 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband