17.4.2009 | 00:15
Sandhóla-Pétur
Eru einhverjir aðrir out-there, sem muna eftir bókunum skemmtilegu um Sandhóla-Pétur og ævintýri hans á hinni vindbörðu vesturströnd Jótlands?
Reyndar hefur Jótland aldrei þótt vera sérstaklega hot staður í huga Orkubloggsins. Enda verður manni helst hugsað til hákristinna hóglífismanna, þegar Jótland er nefnt. Svona nægjusamra ljúflinga, eins og okkur voru sýndir í skáldsögunni og myndinni frábæru; Babettes gæstebud.
En Jótarnir hógværu leyna á sér. Munum t.d prestsoninn fátæka; Villum Kann Rasmussen. Sem sagði eitt sinn í viðtali á gamals aldri "Jeg er daarlig til alt andet end at faa ideer". Og svo sannarlega fékk hann nokkrar góðar hugmyndir í gegnum tíðina.
Hann VKR- eins og Rasmussen var jafnan kallaður - fæddist í útnárabrauðinu Mandö árið 1909. Á þessum tíma var ólíklegt að slíkir piltar ættu efni á því að brjótast til mennta, nema þá helst að fara í prestaskólann. En fyrir tilstilli góðra manna gat VKR haldið til náms í Kaupmannahöfn og þar lauk hann verkfræðiprófi 1932.
Að því búnu var að reyna að vinna sér fyrir salti í grautinn þarna í kreppunni og síðar hernumdu landinu - og þá fékk VKR fyrstu góðu hugmyndina sína. Sem lagði grunninn að einhverum mesta auði, sem sögur fara af í Danaveldi.
Það er nefnilega svo að hógværð og auður geta vel farið saman. Fæstir Danir kveikja á perunni þegar hann VKR er nefndur. VKR-fjölskyldan er sem sagt það sem gjarnan er kallað svakalega low-profile. Samt er arfleifð VKR í dönsku viðskiptalífi jafnvel miklu meiri en sjálfs JR Ewingí sögu sápuóperanna. Í dag eru afkomendur hans VKR líklega næstefnaðasta fjölskylda í Danaveldi á eftir snillingnum Mærsk McKinney Möller og hans slekti.
Hugmyndin sem VKR fékk, var að hanna þakglugga til að gera lífið bærilegra fyrir fólk sem hírðist í rökkrinu undir húsþökum Kaupmannahafnar. Og þetta reyndist brilljant hugmynd. Í æpandi húsnæðisskortinum varð upplagt að innrétta íbúðir á þakhæðunum og setja þar upp Velux-glugga frá VKR. Það sem áður höfðu einungis verið myrkar kytrur fátækra vinnukvenna, urðu nú prýðilegar íbúðir fyrir áður húsnæðislausar fjölskyldur. Smám saman varð Veluxrisi á þakgluggamarkaði heimsins og ófáar lúxus-penthouse íbúðirnar eru prýddar gluggum frá Velux eða Velfac. Og ágóðinn af öllum þeim úrvalsgluggum rennur stille og roligt í digra sjóði VKR.
Ef maður rýnir í nýjustu ársskýrslu VKR Holdingkemur í jós að eigið fé fyrirtækisins var í árslok 2007 um 12,7 milljarðar DKK. Á núverandi fíflagengi reiknast það til að vera hátt í 290 milljarðar ISK. Dágott. Slær eigið fé Landsvirkjunar út og er reyndar meira en 150% af því sem LV segist eiga.
Og fólkið hjá VKR lifir sko ekki aldeilis fyrir það a gíra sig upp. Enginn útrásavíkinga-hugsanaháttur þar á ferð. Þarna er lífsfílósófían miklu heldur sú, að latir peningar séu góðir peningar. Eða kannski að einn fugl í hendi séu betri en tveir i skógi.
Þegar kíkt er á tölurnar hjá VKR kemur nefnilega í ljós að langtímaskuldir fyrirtækisins eru almennt... nálægt því að vera núll! Þarna fjármagna menn sig sjálfir og láta 290 milljarða ISK malla rólega eins og jóskan hafragraut á lágri suðu. Íslenskir útrásarvíkingar hefðu sjálfsagt þegið að komast í þennan "varasjóð VKR-sparisjóðsins".
Það er reyndar útí hött að Orkubloggarinn sé að leggja honum hr. VKR orð í munn og búa til einhver mottó fyrir þetta ofuröfluga danska fyrirtæki. Því hann VKR var sjálfur óspar á að boða lífsviðhorf sitt hverjum þeim sem vidi við hann ræða: "Den der lever stille, lever godt!" Það er ekkert flóknara.
Og það má svo sannarlega segja að hr. VKR og afkomendur hans hafi lifað eftir þessu ágæta rólyndis-mottói. Þó svo fjölskyldan stjórni sjóðum, sem eru feitari en bæði Lego, Grundfos og Novo Nordisk, er hún álíka áberandi í dönsku þjóðlífi eins og keldusvín í íslensku mýrlendi.
En nú kannski spyr einhver hvern fjárann Orkubloggið sé að eyða tíma í þetta Baunasnobb og gluggarugl? VKR-Holding er jú aðallega þekkt fyrir framleiðslu á þakgluggum, sem kannski kemur orku lítið við. En bíðið við. Fyrir nokkrum árum tók fyrirtækið upp á því að skoða aðra möguleika, sem tengjast kjarnastarfseminni. Sem hefur verið skilgreind svo, að færa ferskt loft og ljós í híbýli fólks (þessi stefna á einmitt að endurspeglast í lógói fyrirtækisins, sem sést hér á myndinni).
Þess vegna var nærtækt hvert VKR ætti að líta næst; auðvitað til sólarorku. Á allra síðustu árum hefur fyrirtækið varið ágóða sínum í að kaupa upp mörg af helstu fyrirtækjum Evrópu og víðar, sem sérhæfa sig í sólarhitakerfum. Og nú verður spennandi að sjá hvort VKR muni líka færa sig yfir í þann hluta sólarorku-iðnaðarins, sem felst í því að framleiða rafmagn úr sólarorkunni.
Já - Jótarnir eru orðnir stórtækir í sólarorku. En það makalausa er að brátt kann að vera, að á jóskum engjum megi senn sjá olíupumpur - rétt eins og svo víða á sléttum Texas. Nú eru nefnilega taldar góðar líkur á að undir hinum danska Jótlandsleir, megi finna myndarlegar olíulindir! Sem þar að auki verður líklega skítbillegt að bora eftir.
Skyldi Jótland verða hið Evrópska Texas? Með notalega "olíuasna" kinkandi kolli úti á túni? Kannski meira um það í næstu færslu Orkubloggsins.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:43 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg og áhugaverð færsla. "Easy does it"
Hildur Helga Sigurðardóttir, 17.4.2009 kl. 02:26
Takk Ketill fyrir áhugaverða færslu. Ég bjó sjálfur á Jótlandi nánar tiltekið í Álaborg um 5 ára skeið og þetta er einmitt mín kynni af jótum "stille og rolig" og ég hef oft sagt að þegar Danir leggja grunn að fyrirtæki, þá eru þeir ekki að hugsa um að verðaríkir í gær, heldur eru þeir að hugsa um börnin og barnabörnin, en og aftur takk.
kveðja
Róbert Tómasson, 17.4.2009 kl. 15:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.