Texas á Jótlandi?

Vonandi mun ekki koma styggð að ljónunum.

givskud_zoo

Það gæti nefnilega verið að olíuboranirnar þarna í nágrenni ljónadýragarðsins við Givskud á Jótlandi, muni valda titringi í jörðu - og sum dýr eru afar viðkvæm fyrir því þegar jörðin byrjar að hreyfast. Og nú fer að styttast í að fyrsti ameríski olíuborinn byrji að bora sig í gegnum jóskan leirinn, í leit að svarta gullinu sem talið er að leynist þar á 2,5 km dýpi.

Það eru ljúflingarnir frá GMT Exploration frá Denver í Kólórado, sem fengið hafa leyfi til að hefja olíuleitina. Þeir eru búnir að velja borstað úti á akri einum, rétt utan við þorpið Givskud, sem liggur skammt frá hinum fallega Vejlefirði á Jótlandi.

Givskud_Oil

Akurinn er auðvitað hluti af bújörð, en ekki mun bóndinn þar á bæ hafa hoppað hæð sína í loft upp við komu tyggjójaplandi Kólóradó-búanna. Í Danmörku er það nefnilega ríkið, sem er eigandi allra náttúruauðlinda djúpt í jörðu. Baunarnir hafa komið á þeirri leiðinda skipan mála, að eignarétturinn þar sætir meiri takmörkunum en gerist í Mekka einstaklingshyggjunnar; Íslandi. Meðan Orkubloggarinn bjó í Danmörku átti hann alltaf erfitt með að skilja þessa sterku samfélagshugsjón Baunanna. En þetta kerfi ku reyndar bara virka nokkuð vel - en það er önnur saga.

Íbúar Givskud, sem eru um sex hundruð drottinssauðir, héldu spenntir á borgarafund sem boðað var til í ráðhúsinu kl. 19, þann 19. ágúst s.l. (2008). Dagsetningin hefur væntanlega verið valin með hliðsjón af því að þetta er einmitt afmælisdagur Orkubloggarans! Þar var kynnt hvernig staðið yrði að leitinni; um 20-30 manna teymi rá GMT mun nú n.k. sumar verja nokkrum vikum í tilraunaboranir, sem gert er ráð fyrir að muni kosta skitnar 40 miljónir danskra króna eða svo.

jotland5

Það verður spennandi að fylgjast með því, hvort senn rigni svörtu gulli yfir ljónin við Givskud. Reyndar hafa nýjar vísbendingar komið fram um að olía kunni að leynast víða undir hinum danska leir. T.d. er Dong Energi nú að hefja nákvæmar rannsóknir á öðru afskaplega fallegu svæði í Danmörku; við bæinn Thisted við Limafjörðin.

Bændurnir við Limafjörðinn byrjuðu snemma að setja upp vindrafstöðvar og þær eru þarna hreinlega út um allt. Reyndar þótti Orkubloggaranum nóg um, þegar hann ók um þessar slóðir með börnum sínum og vinkonu þeirra nýlega (sbr. myndin hér að ofan af þeim Boga og Berghildi). Þarna við Limafjörðinn hafa turnarnir risið afskaplega tilviljanakennt í gegnum árum. Fyrir vikið eru þeir á víð og dreif og trufla augað verulega á þessum fallegu slóðum.

Oil_donkey

Nú er bara að bíða og sjá hvort s.k. olíuasnar muni senn líka bætast við á ökrum bændanna við Limafjörðinn. Mun Jótland senn verða Texas Evrópu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband