Í hlutverki leiðtogans

Hann stráksi minn, 8 ára, gerði mig stoltan föður um helgina.

Við skruppum á bensínstöð með nokkra fótbolta og hjól, að pumpa lofti í. Líklega hefur einhver klaufast með bensíndæluna; a.m.k. var óvenjulega sterk bensínlykt þarna á planinu. "Ummmm, hvað þetta er góð lykt!", sagði stubburinn af mikilli einlægni þegar við stigum út úr Land Rovernum. Svei mér þá - þessi drengur veit hvað máli skiptir í heiminum!

Khomeni_Time_1979

Ég held ég hafi verið 13 ára þegar ég komst að þeirri niðurstöðu að veröldin snýst aðeins um eitt. Olíu! Þetta var á þeim tímum þegar klerkabyltingin varð í Íran. Keisarinn flúði og Khomeini erkiklerkur sneri heim úr útlegð frá París. Þessu öllu fylgdi gíslatakan í bandaríska sendiráðinu í Tehran, ævintýralegur björgunarleiðangur bandaríska hersins sem endaði með skelfingu í miðri eyðimörkinni og háðuleg útreið Carter's í keppninni við Reagan. 

Khomeini var ekkert venjulegur. Maður skynjaði einhverja undarlega ógn frá þessum kuflklædda, hvítskeggjaða öldungi. Og feistaðist til að halda að Íranir væru allir snarbrjálaðir.

Löngu síðar átti ég eftir að kynnast nokkrum Persum, bæði búsettum í Tehran og landflótta Írönum. Allir virtust þeir eiga eitt sameiginlegt; sjaldan hef ég hitt gjörvilegra og ágætara fólk. Rétt að taka fram, til að forðast misskilning, að aldrei hitti ég Khomeini!

Einhvers staðar las Orkubloggarinn að aldrei hafi viðlíka mannfjöldi komið saman i sögu veraldarinnar, eins og við útför Khomeini's í Theran í júní 1989. Alls 10 milljón manns! Athyglisverð geggjun.

Khomeni_funeral

Nú virðist þó almennt viðurkennt að mannfjöldinn hafi "aðeins" verið tvær milljónir. En jafnvel það hlýtur að teljast þokkalegt.  Í múgæsingunni munaði reyndar minnstu að fólkið hrifsaði líkið úr kistunni í öllu brjálæðinu, sbr. myndin hér til hliðar.

Það óskiljanlega í þessu öllu saman, var að Bandaríkin skyldu þegjandi og hljóðalaust horfa upp á Íran lenda undir stjórn klerkanna. Landið með einhverjar mestu olíulindir heims, var látið sleppa undan áhrifavaldi Bandaríkjanna, rétt eins og þetta væri Belgía, Timbúktu eða annað álíka krummaskuð.

Þó svo ljúflingurinn Jimmy Carter snerti alltaf einhvern notalegan streng í brjósti Orkubloggarans, skal viðurkennt að líklega hefur bandaríska þjóðin sjaldan fengið slakari forseta. Hnetubóndinn frá Georgíu barrrasta skyldi ekki alþjóðamál og allra síst mikilvægi olíunnar.

Það er reyndar makalaust hvernig jafn öflugri þjóð eins og Bandaríkjamenn eru, virðist einkar lagið að kjósa hálfvita yfir sig. Í huga Orkubloggsins verðskuldar t.d. Geoge W. Bush ekkert skárra lýsingarorð en fábjáni. Og líklega var faðir hans lítið skárri.

Living_US_Presidents_2009

En inn á milli koma svo snillingar. Orkubloggarinn er þar hvað heitastur fyrir bleikfésanum Bill Clinton.

Því miður þurfti Clinton sífellt að vera að berjast við Bandaríkjaþing með repúblíkana í traustum meirihluta og fékk því litlu framgengt. Það væri betur komið fyrir Bandaríkjamönnum, ef Clinton hefði fengið meiru ráðið.

Kannski er þetta bull; kannski er ástæðuna fyrir hrifningu Orkubloggarans á Clinton barrrasta að rekja til þess að bloggarinn rakst eitt sinn á Clinton á Kaupmangaranum í Köben. Og kallinn geislaði svo af sjarma að maður hefur aldrei upplifað annað eins.

Obama_Chavez

En nú hvílir ábyrgðin á Obama. Það sýnir mikilvægi karaktersins, hvernig Obama virðist með áru sinni og hlýju brosinu, ná að bræða frosin hjörtu eins og hjá Hugo Chavez. Nú reynir á hvort Obama hafi nægjanlega persónutöfra til að skapa líka þýðu milli Bandaríkjanna og Íran. Það væri svo sannarlega óskandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála syni þínum. Meiri eðalsvökva hef ég aldrei umgengist en er bensín. Sem mótórhjóla og bílafíkill dreg ég ekki að mér ljúfari ilm en angan af bensíni.

Þú ert dómharður á George Herbert Walker Bush, forseta númer 41 í BNA. Við verðum að gefa honum prik fyrir að kalla efnahagshugmyndir Ronalds Reagans "voodoo economics" en við súpum nú seiðið af þeim gerningum núna.

George Herbert Walker Bush fær prik líka fyrir að hafa gengið á bak orða sinna (mínus) og hækkað skatta vegna þess að kringumstæður kröfðust þess (plús strikar út mínus) og ekki gripið til voodoo í staðinn (prikið).

En tvö prik gefum við George Herbert Walker Bush fyrir frammistöðu sína í Desert Storm, 1991. George H.B. Bush af viti, kunnáttu og reynslu umkringdi sig topp mönnum þar sem voru  Brent Scowcroft, James Baker III, og Dick Cheney áður en hann gekk til liðs við "The Dark Side." Frammistaða þessa liðs til að setja saman samsteypu 35 þjóða, hrekja Saddam Hussein á braut úr Kúvæt, og skila BNA $4 billion dala í ríkissjóð þegar upp var staðið tel ég til merkilegustu afreka í statesmanship á seinni hluta síðustu aldar.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband