Er kapítalisminn Júdas?

Orinoco_map

Orinoco-oliusvæðið! Þar sem græna vítið og svarta gullið mætast. Konungsríki jagúarsins.

Ein bjartasta - eða kannski svartasta - framtíðin í orkumálum heimsins er kanadíski olíusandurinn vestur í Albertafylki. En olíusandurinn leynist víðar.

Önnur svæði heimsins sem eru hvað mest spennandi í þessu sambandi, eru þar sem Orinoco-fljótið streymir gegnum frumskóga Venesúela. Þetta svarta gull gæti orðið undirstaða nýs Inkaríkis nútímans, austan Andesfjalla.

Erfitt er að spá um það hvenær olíusandvinnslan í Venesúela kemst á fullt skrið. Venesúela undir hrammi Hugo Chavez er ekkert venjulegt land. Lífsfílósófían hans Húgó's er einföld: “Sósíalisminn er Kristur; kapítalisminn er Júdas!” Þessi einfalda og athyglisverða speki virðist nú breiðast nokkuð hratt um Suður-Ameríku. Skemmst er að minnast þess sem sagði um Bólivíu og Evo Morales í síðustu færslu Orkubloggsins.

orinoco_river_bridge

Mikilvægi olíusandsins í Venesúela - Faja Petrolífera del Orinoco - er ofboðslegt. Víða standa svartsýnir spámenn á götuhornum og æpa að olían sé að verða búin. Á sama tíma hafa menn fært fram góð rök fyrir því að olíusandurinn í Alberta-fylki í Kanada hafi að geyma yfir 170 milljarða tunna af vinnanlegri olíu og að samtals séu allt að 1.700 milljarðar tunna af olíu í kanadíska olíusandinum. Orinoco er enginn eftirbátur Alberta. Það eru meira að segja dágóðar líkur á að þetta venesúelska dæmi sé jafnvel ennþá stærra og mikilvægara en kanadíski drullupotturinn norður við Athabasca-ána í Albertafylki.

Talið er að Orinoco-svæðið í Venesúela hafi að geyma a.m.k. 1.200 milljarða tunna af olíu. Hreint makalaust ef satt reynist. Þetta er álíka mikið magn og öll sú olía sem mannkynið hefur notað síðustu hundrað árin! Nýjustu áætlanir um vinnanlegt magn úr Orinoco-olíusandinum hljóða upp á litla 230-240 milljarða tunna. Til eru þeir sem spá því að þarna verði unnt að vinna allt að 300 milljarða tunna. Eftir því sem tækninni fleygir fram og olíuverð hækkar, mun þessi tala hugsanlega hækka ennþá meira.

Orinoco_map_big_oil

Hefðbundnar olíubirgðir Venesúela eru þar að auki um 80 milljarðar tunna (Oil & Gas Journal hefur reyndar áætlað birgðirnar 99 milljarða tunna). Þær einar gera Venesúela að fimmta mesta olíuveldi jarðar (olíuvinnsla Venesúela nú um stundir er ca. 2,7 milljón tunnur daglega og þar af koma nú um 600 þúsund tunnur frá Orinoco-svæðinu). Sé olíusandurinn í Orinoco tekinn með er Venesúela einfaldlega næst stærsta olíuríki veraldar, á eftir Saudi Arabíu einni. Olíusandurinn í Venesúela hefur að vísu enn ekki verið viðurkenndur sem “proven reserves”, en það er líklega einungis tímaspursmál hvenær olíubókhald veraldar verður fært með þeim hætti.

Alls er Orinoco-svæðið um 55 þúsund ferkm, en einungis er byrjað að vinna olíusandinn á litlum hluta þess. Í reynd er vinnslan ennþá nánast bara á undirbúningsstigi; svæðinu hefir verið skipt niður í sex vinnslusvæði og í dag er starfsemi aðeins hafin á fyrsta svæðinu. Þar er gert ráð fyrir að fjárfest verði fyrir um 60 milljarða bandaríkjadala fram til ársins 2012 og langstærsti fjárfestirinn verði sjálft venesúelska ríkið. Chavez og félagar eru nefnilega ekki alltof hrifnir af peningum kapítalistanna og hafa sett sér það viðmið að ríkið eigi 60% í allri olíuvinnslunni.

Chavez_PDVSA

Eitt stærsta verkefnið fyrir stjórnvöld í Venesúela er að byggja upp olíuhreinsunarstöðvar í landinu. Allt fram til þessa dags hefur stór hluti olíuhreinsunarinnar farið fram í Bandaríkjunum. Að vísu undir merkjum CITGO - sem er gamalt bandarískt olíufélag í eigu Venesúela - en engu að síður í Bandaríkjunum en ekki heima í Venesúela. Móðurfélagið sjálft - Petróleos deVenezuela SA (PDVSA) - stefnir að því að byggja upp hreinsunarstöðvar í Venesúela sem munu stórauka afkastagetuna heima fyrir.

Chavez_Rafael_Ramírez

PDVSA er algerlega í ríkiseigu og það er sjálfur orkumálaráðherrann Rafael Ramírez, sem er forstjóri fyrirtækisins.

Bandarísk og fleiri erlend olíufélög hafa löngum haft nokkuð sterka stöðu í Venesúela. En eftir að Chavez komst til valda 1998 hefur hann marvisst unnið að því að þjóðnýta olíuvinnsluna. Fyrir vikið hafa t.d. bæði risarnir  ExxonMobil og ConocoPhillips hrökklast úr landinu. Sjálfsöryggi Chavez jókst enn meira þegar olíuverðið rauk upp 2006-08; þá ætlaði hann sér að sparka öllum erlendu félögunum út og eingöngu eiga samstarf við félög frá "traustum" vinaríkjum eins og Kína og Íran!

Chavez hefur þó mildast nokkuð eftir að olíuverðið féll á ný, enda hefur þjóðnýtingarstefna hans haft alvarlega fylgikvilla. Venesúela og PDVSA hafa engan veginn getað haldið uppi eðlilegri endurnýjun í olíuiðnaði landsins. Og óstjórnin í efnahagsmálunum þar á bæ hefur orðið til þess að hagnaður af olíuvinnslunni fer aðallega í dekurverkefni og niðurgreiðslur á orku til fátækra landsmanna (kjósenda!).

venezuela-oil_production_consumption

Hátt olíuverð olli því að peningarnir flæddu í ríkiskassann, menn sofnuðu á verðinum og vanræktu skynsamlega uppbyggingu í landinu. Kunnugleg saga fyrir Íslendinga? Tæknibúnaðurinn er fljótur að úreldast og því hefur olíuframleiðsla Venesúela minnkað ótrúlega mikið á tiltölulega skömmum tíma. Mesti vandinn er þó spillingin sem peningaflóðið skapaði og ekki víst að Chavez geti leyst sig úr því sjálfskaparvíti.

Þegar Chavez varð forseti Venesúela 1998 var framleiðslan um 3,4 milljón tunnur á dag. Á síðasta ári (2008) var meðalframleiðslan í Venesúela skv. bandaríska orkumálaráðuneytinu um 2,7 milljón tunnur á dag - en einungis um 2,3 milljónir tunna skv. skýrslum OPEC. Chavez sjálfur heldur því fram að framleiðslan hafi verið 3,3, milljónir tunna, sem er ekkert annað en kjaftæði.

Chavez_fancy_uniform

Það er einfaldlega staðreynd að þjóðnýtingarstefnan hefur leitt af sér stórkostlega minnkun á olíuútflutningi Venesúela. Þar að auki hefur karlálftin hagað málum þannig að mest allur útflutningur frá Venesúela hefur hrunið; þegar Chavez varð forseti 1998 komu um 70% útflutningstekna landsins frá olíu en nú er þetta hlutfall um 93%. Og það þrátt fyrir að olíuframleiðsla landsins hafi minnkað stórlega á þessu tímabili. Stjórnarhættir Chavez hafa einfaldlega verið afspyrnu slakir og eyðilagt mest alla atvinnustarfsemi í landinu.

Þegar olíuverðið féll aftur eins og steinn á síðari hluta ársins 1998 varð Chavez að viðurkenna að hann gæti ekki verið án erlendrar tækniþekkingar. Þess vegna var mörkuð ný stefna um að erlend fyrirtæki sem vilja fjárfesta í vinnslu á Orinoco-svæðinu mega eiga allt að 40% í vinnslunni. Ekki er langt síðan stórt útboð fór fram og í ágúst n.k. (2009) verður tekin ákvörðun um það hvaða félög fá að taka þátt í vinnslu á nýju svæði innan Orinoco. Meðal þeirra sem tóku þátt í útboðinu voru BP, Chevron, kínverska CNPC, spænska Repsol, franska Total og auðvitað norska StatoilHydro. Þar að auki eru portúgölsk og japönsk félög í pottinum og loks rússnesk samsteypa.

Chavez_China

Martröð Bandaríkjanna er að Chavez semji bara við kínversk félög, sem munu einfaldlega flytja olíuna til Kína. Sá ótti er þó líklega ástæðulaus - a.m.k. meðan flestallar olíuhreinsunarstöðvar PDVSA eru einmitt CITGO-stöðvarnar í Texas og Louisiana í Bandaríkjunum.

Chavez hefur einnig talað sérstaklega fjálglega um að semja við japönsk félög. Þó svo Japan búi yfir litlum orkuauðlindum, er aðkoma Japananna fyrst og fremst tæknilegs eðlis og það myndi líklega þjóna hagmunum Bandaríkjanna prýðilega að japönsk félög fái góðan bita af Orinoco.

Hagsmunirnir þarna eru ofboðslegir - það er nánast ekkert í heiminum sem jafnast á við það að fá aðgang að Orinoco. Þegar litið er til mögulegra svæða má helst jafna þessu við það að ráða yfir hinum geggjuðu olíulindum í Írak. Næsti repúblíkanaforseti í Bandaríkjunum mun eflaust verða snöggur að láta semja lauflétta innrásaráætlun vegna Venesúela.

Chavez_Scrtaes_Portugal_2007

Það er sama hversu mikla andstyggð olíufélögin hafa á Chavez  - þau eru öll slefandi yfir því að komast undir sængina til hans. En þetta er ekki beint öruggasta starfsumhverfi í heimi, þarna í ríki hins sósíalíska höfðingja. Sem kennir sig við Krist - rétt eins og Davíð Oddsson. Alltaf gaman að smá stórmennskubrjálæði.

Líklega eru það þó Ítalirnir sem brosa breiðast þessa dagana. Stjórnvöld í Venesúela eru nú þegar búin að semja við ítalska Eni um aðkomu að Orinoco. Þeir hjá Eni eru nefnilega óvenju snjallir í alls konar olíuvinnslu, hvort sem er á landi, á miklu hafdýpi eða í olíusandsubbinu. Að öllu samanteknu er varla útlit fyrir annað en að vinnslan í Orinoco eigi senn eftir að komast vel á skrið og olíuframboðið frá Venesúela aukist umtalsvert á komandi árum. Ef bandarísku olíufélögin fá sneið af þeirri köku verður kannski ekkert af innrás - í bili.

Til að þetta allt gangi eftir mun þurfa gríðarlega fjárfestingu á Orinoco-svæðinu. Stjórnvöld í Venesúela hafa sagt frá þeirri draumsýn sinni að koma framleiðslunni, sem nú er líklega um 2,7 miljón tunnur á dag, í nærri 6 milljón tunnur 2012. Hreint dæmalaus bjartsýni - en virkar vel á kjósendur sem brosa út að eyrum við tilhugsun um hina björtsvörtu olíuframtíð. Chevron hefur metið að Venesúela þurfi ekki minna en 200 milljarða dollara fjárfestingu til að þetta geti orðið. En hvað svo sem gerist, þá er olíusandurinn þarna til staðar og næsta víst að olíuframleiðsla Venesúela getur aukist mjög mikið ef vel er haldið á spöðunum.

Jaguar

En ef og þegar fjármagnið skilar sér - í nafni framfara og aukins kaupmáttar - er nokkuð augljóst að lítill friður verður fyrir jagúarinn og vini hans á bökkum Orinoco-fljótsins. Framfarir eru stundum tvíeggja orð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Bara svona vangaveltu leikmanns, en er ekki erfitt að vinna olíuna úr þessum "olíusandi"??

Er kostnaður mikið meiri en við "hefðbundna" olíuvinnslu og veldur þetta meira jarðraski og skemdum á umhverfi??

Eiður Ragnarsson, 14.5.2009 kl. 00:21

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Jú - talsvert dýrt. Líklega er lágmarksverð til að þetta borgi sig u.þ.b. 50 dollarar tunnan. Sjá um kanadísku vinnsluna hér: http://askja.blog.is/blog/askja/entry/834430/

Ketill Sigurjónsson, 14.5.2009 kl. 07:58

3 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Við strendur Íslands hafa um milljon tonn af loðnu drepist á hverju ári og sokkið til botns í milljónir ára. Þetta hlýtur að vera slatti af kolefni.

Sigurjón Jónsson, 14.5.2009 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband