7.6.2009 | 19:10
Í jöklanna skjóli
Vernd eða nýting?. Þannig hljóðar fyrirsögn auglýsingar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag. Þar er verið að tilkynna um fund vegna rammaáætlunar íslenskra stjórnvalda þar sem unnið er að því að skilgreina virkjanakosti framtíðarinnar.
Í kjölfar erindis sem Orkubloggarinn flutti nú um helgina á málþingi Náttúruverndarsamtaka Suðurlands var bloggaranum bent á að hann hafi oftrú á vexti. Okkur sé nær að stefna að jafnvægi fremur en að leita sífellt að vaxtartækifærum.
Þetta kann að vera sanngjörn ábending. Því verður a.m.k. ekki neitað að Orkubloggarinn er vissulega á þeirri skoðun að við verðum að leita vaxtartækifæra. Áfram, hraðar, hærra! Bloggarinn er líka fullviss um að rafmagnsnotkun og þar með orkunotkun muni áfram aukast um allan heim, hvað sem líður smá kreppuhiksta. Bloggarinn er einnig handviss um að ekki líði langur tími þar til stóriðjufyrirtæki muni á ný leita eftir orkusamningum á Íslandi með það að markmiði að byggja hér nýja stóriðju.Við stöðvum ekki tímann. Og enn fjölgar Íslendingum jafn og þétt. Orkubloggarinn er á því að samkeppnin sé manninum í blóð borin og að allt hjal sumra um að Vesturlandabúar eigi að sætta sig við að hámarki velmegunar sé þegar náð, sé út í hött. Reyndar myndi það ekki skipta neinu höfuðmáli þó svo Vesturlandabúar allt í einu gerðust almennt nægjusamir og sáttir við tilveru sína. Það eru nefnilega hundruð milljóna fólks úti í hinum stóra heimi, sem ekki sætta sig við sín kjör og dreymir um betra líf. Þetta kallar á sífellt meiri iðnað, sífellt meiri orkunotkun og sífellt meira peningamagn í umferð. Vöxtur efnahagslífsins er óhjákvæmilegur og sá vöxtur mun áfram þrengja að náttúruauðlindum jarðar.
Orkubloggarinn upplifir sig oft hálfgerðan einstæðing. Vegna þess að bæði er bloggarinn yfirleitt harður talsmaður náttúruverndar - en um leið fylgjandi því að fleiri virkjanir rísi á Íslandi. Af einhverjum ástæðum virðist algengt að fólk telji sig einungis tilheyra öðrum þessara hópa. Bloggarinn álítur aftur á móti að við eigum bæði að leitast við að fara vel með náttúruauðlindirnar og varast að ofnýta þær - og um leið þurfum við áfram að að huga að nýjum virkjanakostum. Það er ekkert annað hvort eða. Og hreinn barnaskapur að segja að nú sé komið nóg; þetta sé orðið gott. Í lýðræðisþjóðfélagi - þjóðfélagi þar sem fólk er frjálst að skoðunum og að haga lífi sínu eftir eigin höfði - er samkeppni nánast náttúrulögmál. Krafan um sífellt betri lífskjör er manninum eðlileg og um leið verður sífellt meiri þörf á raforku. Orka er undirstaða þjóðfélaga nútímans og til að viðhalda velferðarþjóðfélögunum og það sem er ennþa´mikilvægara þ.e. að auka velferðina hjá fátækari þjóðum - þarf meiri orku.Það er absúrd hugmynd að mannkynið muni virða það að jörðin þoli einungis einhvern tiltekinn fjölda fólks sem takmarki neyslu sína við einhverja tiltekna viðmiðun eða tiltekið hámark. Í þessari skoðun felst alls ekki uppgjöf. Íslendingar eiga vel efni á því að t.d. taka frá tiltekin landsvæði og vernda þau líkt og Bandaríkjamenn hafa gert í Yosemite, Yellowstone og víðar. Náttúrufegurð kann að vera afstæð, en í huga Orkubloggsins er fáránlegt að t.d. Langisjór og Eldgjá skuli ekki vera vernduð svæði og hluti af þjóðgarði. Um leið er Orkubloggarinn hallur undir hugmyndir um að virkjanir rísi í einhverjum af jökulvötnunum í héruðunum suðaustan við umræddar náttúruperlur. Það er þó alger forsenda, að mati Orkubloggsins, að hið opinbera setji ekki fjármuni í slíkar virkjanir nema horfur séu á að þær skili viðunandi ávöxtun.
Vissulega er rétt að fara varlega í vatnsfallsvirkjanir á þessum svæðum landsins, þar sem vötnin eru t.d. undirstaða einstæðra veiðisvæða, þar sem skaftfellski sjóbirtingurinn er konungur ríkisins. En hjá þjóð sem mun í framtíðinni brátt þurfa meira rafmagn en hún framleiðir í dag er samt eðlilegt að horfa til þess að virkja í einhverju mæli það mikla og endurnýjanlega afl sem felst í jökulfljótunum suður af Skaftárjökli og þar austur af. Ef t.d. góðan og arðbæran virkjunarstað er að finna í Hverfisfljóti eða Skaftá hlýtur það að verða skoðað af skynsemi.Einhverjum kann að þykja þessi skoðun á skjön við fyrr yfirlýsingar Orkubloggsins um að Kárahnjúkavirkjun hafi verið misráðin. Ástæðan fyrir þeirri skoðun bloggarans er að þegar horft er til heildaráhrifa þeirrar miklu framkvæmdar, hafi ekki verið sýnt fram á réttmæti hennar. Það er t.d. með ólíkindum að við arðsemismat á Kárahnjúkavirkjun var verðmæti landsins utan eignarlanda virt að vettugi. Að auki var pólitísku valdi beitt til að hnekkja faglegu mati um umhverfisáhrif virkjunarinnar. Vísindunum var ýtt til hliðar og um leið var öll löggjöfin um umhverfismat höfð að háði og spotti. Að mati Orkubloggsins er það alvarlegt dæmi um virðingarleysi framkvæmdavaldsins við lýðræðið og dæmi um undirlægjuhátt Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Loks má líklega þakka fyrir ef skuldirnar vegna Kárahnjúkavirkjunar setja ekki Landsvirkjun á höfuðið. Þá fyrst verður Icesave bara smámál.
En nú er Orkubloggarinn sennilega bæði búinn að misbjóða náttúruverndarsinnum og virkjunarsinnum. Svo það er réttast að ljúka þessu á tilvitnun í Thor Vilhjálmsson. Maðurinn er alltaf einn Þessa dagana er reyndar vinsælla að vitna í Enar Ben: Maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur.
Að lokum má nefna að fyrirsögnin í áðurnefdri auglýsingu í Morgunblaðinu hefði auðvitað átt að vera Vernd OG nýting!
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Nei nei, þú ert ekkert einn. Hinn þögli meirihluti hlýtur eiginlega að skrifa undir það sem kemur fram í þessum pistli. Takk fyrir góð skrif.
Bjarki (IP-tala skráð) 8.6.2009 kl. 11:02
Hm... kannski erum við tveir!
Vandinn við hinn þögla meirihluta er einmitt að hann er þögull. Þess vegna er vaðið yfir meirihlutann á skítugum skónum.
Og þegar kemur að kosningum er þögli meirihlutinn líklega eitthvað utan við sig...?
Ketill Sigurjónsson, 8.6.2009 kl. 14:26
Við erum fleiri, Ketill, takk fyrir pistilinn. Ég ann t.d. jöklum landsins mjög, en finnst sjálfsagt að virkja jökulvötnin með lágmarks- umróti, fyrst jöklarnir bráðna á methraða og geta bjargað hagsæld okkar. En sannarlega eiga t.d. Langisjór og Eldgjá að fá frið.
Tæknin er líka alltaf að batna. Það er varla langt í að að hægt sé að sökkva rennslistúrbínum í straumþung jökulfljót og sjá bæjum og svæðum þannig fyrir rafmagni.
Tækifæri upp um alla veggi!
Ívar Pálsson, 8.6.2009 kl. 18:22
4!
Ólafur Eiríksson, 10.6.2009 kl. 02:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.