Síðasti tunglfarinn?

Um þessar mundir eru 40 ár síðan maður steig fyrst fæti á Tunglið. Fyrst hoppaði Neil Armstrong niður stigann frá Apollo 11 og skömmu síðar trítlaði Buzz Aldrin líka um Kyrrðarhafið; Mare Tranquillitatis. Þetta var 20. júlí það Herrans ár 1969. Reyndar vitum við öll að í reynd voru það Tinni og Kolbeinn kafteinn, sem fyrstir stigu fæti á Tunglið en það er önnur saga.

Eugene_Cernan_LRVOg nú eru 36 og hálft ár liðin frá því síðasti maðurinn yfirgaf Tunglið - í bili. Það var í desember 1972 þegar bandaríski geimfarinn Eugene Cernan  bremsaði Lunar Rovernum í tunglmölinni í síðasta sinn, klifraði upp stigann í lendingarhylki Apollo 17 og tók stefnuna stystu leið heim til Jarðar. Stóra spurningin er hvort Cernan verði í reynd síðasti maðurinn til að stíga á Tunglið?

Það er athyglisvert að mönnuðu tunglferðirnar stóðu einungis yfir í rúm þrjú ár; 1969-1972. Á þessum tíma stigu alls 12 menn á Tunglið og voru þeir þátttakendur í sex bandarískum geimferðum. Miðað við forskot Rússa í geimnum í kringum 1960 er alveg magnað hvernig Bandaríkin náðu að stela senunni. Í Washington fölnuðu menn upp þegar Sputnik fór fyrst geimfara á sporbaug um jörðu í október 1957 og árið 1966 varð rússneska geimfarið Luna 10 hið fyrsta til að fara sporbaug um Tunglið.

Meira að segja svo seint sem árið 1968 urðu Rússarnir fyrstir til að koma geimfari umhverfis Tunglið og aftur heim til jarðar heilu og höldnu (Zond 5). Það geimfar var þó vel að merkja ómannað. Muni Orkubloggarinn rétt voru farþegarnir í þessu merka Zondfari aðallega smáskjaldbökur. Sem komu allar feitar og pattaralegar aftur til Jarðar. Það hefur vafalaust verið huggun fyrir þá Neil Armstrong og félaga, sem senn áttu að halda í sína háskaför

Appollo_11_Aldrin_ModuleEn svo komu Apollo-geimförin á færibandi. Upphaf þeirra má rekja til þess þegar Kennedy forseti flutti ræðu árið 1961 þar sem hann nánast lofaði því að innan tíu ára myndu Bandaríkin senda mannað geimfar til Tunglsins... og koma geimförunum aftur heilum heim. Apollo-áætlunin var hafin.

Þessi djarfa áætlun gekk vonum framar og Bandaríkin unnu glæsilegan sigur í kapphlaupinu um Tunglið. Rússarnir áttu ekki roð við þessum mönnuðu geimflaugum NASA, sem skiluðu 12 bandarískum geimförum til Tunglsins. Og allir komu þeir aftur heilir heim. Eina slysið í Apollo-áætluninni var þegar sprenging varð í Apollo 1 á æfingu í janúar árið 1967. Þar fórust þrír geimfarar; einn þeirra var Gus Grissom, sem fékk heldur háðulega útreið í geimfaramyndinni skemmtilegu; The Right Stuff.

Constellation_LogoEkki er langt síðan NASA ákvað að hefja mannaðar tunglferðir á ný. Nú þegar geimskutlutímabilinu lýkur, verður ennþá metnaðarfyllri geimferðaáætlun ýtt af stokkunum. Hún hefur verið kölluð Constellation - Stjörnumerkjaáætlunin - og samkvæmt þeirri áætlun NASA á að koma mönnuðu geimfari ekki aðeins til Tunglsins, heldur einnig til Mars!

Planið hjá NASA er að geimfarið Orion 15 lendi með menn á Tunglinu árið 2019. Samkvæmt heimasíðu NASA  verður fyrsta geimskotið í Constellation-áætluninni þann 30. ágúst n.k. (2009). Gælt er við að menn lendi svo á Mars e.h.t. upp úr 2030. Gangi það eftir gæti Orkubloggarinn kannski á sjötugsaldri skálað fyrir nýjum Marsbúum.

Hætt er við að þessi draumur þeirra ljúflinganna hjá NASA verði heldur þyngri í vöfum en tunglferðirnar voru á sínum tíma. Þá var kalda stríðið drifkraftur þess að dæla peningum í geimferðir, en viljinn í Washington til að fjármagna Constellation er ekki alveg jafn mikill. Líklega er vafasamt að við sem nú nálgumst miðjan aldur á ógnarhraða eigum eftir að upplifa mannaferðir á Mars.

Aldrin_BuzzBuzz gamli Aldrin  er samt bjartsýnn. Í forvitnilegu viðtali við hann, sem nýverið birtist í tímaritinu frábæra Australian Geographic, lýsir hann framtíðarsýn sinni um geimferðir. Þar spáir Buzz því að mannað geimfar muni lenda á Marstunglinu Fóbos árið 2025 og að þangað muni verða farnar nokkrar ferðir fram til 2030. Að því búnu verði ekkert því til fyrirstöðu að mannað geimfar lendi á Mars - til frambúðar! Þetta verði nefnilega svo löng og ströng ferð að hún verði í anda skipsins Mayflower; tilgangurinn verði að geimfarið fari einungis aðra leiðina og snúi ekki til baka til Jarðar.

Sjónarmið Buzz Aldrin um mesta hvata Marsferða eru reyndar heldur drungaleg. Hann álítur helstu nauðsyn slíkra ferða vera þá að mannkynið verði að geta sest að á öðrum plánetum - af þeirri einföldu ástæðu að við munum ofbjóða og líklega eyða lífríki Jarðarinnar. Þetta sé eina leiðin til að koma í veg fyrir útrýmingu mannskyns. Orkubloggið sér reyndar ekki alveg til hvers að vera að sperra sig til Mars í þessum tilgangi. Ef við eyðum lífinu á Jörðinni, munum við þá ekki líka barrasta fara létt með að útrýma okkur á Mars? En kannski er Buzz þrjóskari en Orkubloggarinn og vill bjarga mannkyninu með því að eyða framtíðinni í að tipla á milli pláneta. Það er kannski ekkert verri framtíðarsýn en að reyna að hírast hér á Jörðu til eilífðarnóns.

Loks fylgir hér örstutt myndband - m.a. með hinni frægu ræðu Jack's Kennedy. Þar sem hann tilkynnir um áætlun Bandaríkjastjórnar að koma manni á Tunglið. Og aftur heim:

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Þetta eru skemmtilegar pælingar, ekki síst í ljósi gömlu geimferðamyndarinnar, sem RÚV sýndi laugardagskvöld. Sú fjallaði reyndar um misheppnaða lendingu á tunglinu, en ótrúlega velheppnaða heimferð.

Ólíkt skárri saga en Challenger-dæmið þegar heill barnaskóli og heimsbyggðin horfðu á geimfar splundrast í loftinu, nokkrum sekundum eftir flugtak. Með m.a. barnaskólakennarann innbyrðis. (Eins gott að það var ekki okkar maður, Bjarni Tryggva.)

Fyrsta kvenhetja mín var rússneski geimfarinn Valentina Thereskova; fyrsta konan sem "fékk" að fara út í geiminn. Síðan kom auðvitað Yuri Gagarin, sem var svo óheppinn að hryggbrotna í baðkarinu heima hjá sér eftir sögufræga geimferð. (Man reyndar ekki hvort var á undan).

1969 horfði ég síðan á fyrsta manninn stíga fæti á tunglið í beinni útsendingu. Ógleymanleg stund fyrir okkur börnin, sem á horfðum.

Nú væri gaman að sjá geimfara hitta þróaðar vitsmunaverur á öðrum hnöttum -í beinni...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 20.7.2009 kl. 02:47

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Ég vona innilega að menn fari fljótlega aftur til tunglsins. Við erum fær um ótrúlega hluti ef við tökum höndum saman og leggjum okkur fram.

Mig langar að benda á mjög ítarlega umfjöllun á Stjörnufræðivefnum um Apollo 11, hana er að finna hér.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 20.7.2009 kl. 09:28

3 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þar sem engin mannvera hefur hætt sér lengra en sirka 500 km. frá yfirborði jarðar sl. 37 ár - af skiljanlegum og mjög svo illviðráðanlegum ástæðum - þá á ég bágt með að trúa því að menn lendi á tunglinu eða mars næstu áratugina. En að sjálfsögðu hefur bæði fjáröflunar- og hollywoodtækninni fleygt gífurlega fram og heiladrepandi skólakerfi búið til allt að því yfirnáttúrlega trúgirni hvað opinberar ævintýrasögur varðar þannig að það er kannski hægt orðið að ljúga hvað sem er fram. Amen og kúmen.

Baldur Fjölnisson, 20.7.2009 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband