Maritza

Maritza er hvorki heiti á tyrkneskri fegurðardís né albanskri ævintýraprinsessu. Maritza er aftur á móti búlgarskur svartálfur; risastórt kolaorkuver sem er einhver stærsta yfirstandandi einkaframkvæmd innan Evrópusambandsins og líklega langstærsta erlenda fjárfestingin í allri suðaustanverðri Evrópu.

Maritza_East_1_1Maritza, sem heitir reyndar fullu nafni Maritza East 1, er 670 MW brúnkolaorkuver, sem nú er í byggingu austur í Búlgaríu og á að hefja starfsemi síðar á þessu ári (2009). Þeir sem standa að uppbyggingu og fjármögnun orkuversins eru óþreytandi að kynna þá staðreynd að þetta sé lang umhverfisvænsta kolaorkuver sem hefur verið byggt í Búlgaríu og reyndar fyrsta raforkuverið sem þar rís í meira en 20 ár.

Ljúflingarnir á bak við Maritza East 1 er eitt stærsta raforkufyrirtæki heims: bandaríska AES Corporation. Þetta 25 þúsund manna fyrirtæki rekur orkuver út um allan heim (að Íslandi undanskildu auðvitað). Þetta er reyndar orðum aukið; AES er líklega einungis með starfsemi í um 30 löndum og með framleiðslugetu (uppsett afl virkjana) eitthvað yfir 40 þúsund MW. Þar af eru um 20 þúsund MW í kolaorkuverum og um 10 þúsund MW í gasorkuverum. AES eru einnig stórir í vatnsafli með um 7.500 MW og með um 1.500 MW í vindorku. Til samanburðar þá er uppsett afl allra íslenskra virkjana nú rúmlega 2 þúsund MW. Sem sagt; AES er örlítið stærra fyrirtæki en Landsvirkjun.

Maritza_Bulgaria_1En aftur að svartálfaprinsessunni Maritza. Það er auðvitað sérstaklega skemmtilegt að þetta glæsilega brúnkolaorkuver þarna austur í Búlgaríu er einmitt nánast af nákvæmlega sömu stærð og Kárahnjúkavirkjun. Báðar þessar virkjanir eru upp á tæplega 700 MW. Aftur á móti skilur nokkuð á milli þegar litið er til kolefnislosunar og ýmissar annarrar mengunar. Maritza East 1 mun eingöngu nota brúnkol í rafmagnsframleiðslu sína, en þau teljast einhver mesta drullan í kolaiðnaðinum. Sem kunnugt er nýtir Kárahnjúkavirkjun annan og eilítið umhverfisvænni orkugjafa; blessað vatnsaflið.

Maritza_Bulgaria_2Miðað við kostnaðaráætlun Maritza, sem hljóðar upp á 1,4 milljarða bandaríkjadala, má reyndar draga þá ályktun að kostnaður vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi verið mjög hóflegur og að sú virkjun sé afskaplega hagkvæm. Þar með er Orkubloggið þó ekki að lýsa neinni skoðun á raforkusamningnum við Alcoa, sem er jú ekki opinber. Og það er til lítils að byggja ódýra virkjun ef rafmagnið er selt á verði sem ekki stendur undir fjárfestingunni.

Raforkuna frá Maritza munu þau hjá AES selja til búlgarska ríkisraforkufyrirtækisins; Natsionalna Elektricheska Kompania(NEK). Verið sjálft er staðsett við bæinn Galabavo  í sunnanverðri Búlgaríu en það er mikið kolasvæði og þar hafa lengi verið starfrækt stór kolaorkuver. Framleiðslugeta veranna á svæðinu er um 3 þúsund MW, en nýja orkuverið kemur í stað eldra vers, auk þess sem það leysir af hólmi gömul kjarnorkuver sem Búlgarar lofuðu að loka þegar þeir gengu inn í Evrópusambandið. ESB er nefnilega af einhverjum ástæðum betur við það svartasta af öllu svörtu - gígantísk brúnkolaver - heldur en mengunarlaus kjarnorkuverin (sem að vísu fylgir kjarnorkuúrgangurinn). Orkubloggið er stundum ofurlítið hugsi yfir orkustefnu ESB. En vegna inngöngunnar í ESB þurftu Búlgarar nýlega að loka tveimur kjarnorkuverum með samtals tæplega 900 MW framleiðslugetu.

AES_LogoAuk þess sem rafmagninu frá Maritza East 1 verður dreift um suðausturhluta Búlgaríu verður það einnig selt til útlanda. Eigandinn, AES, hefur reyndar dundað sér í um áratug nokkuð víða í austur-evrópska orkugeiranum. Hefur m.a. keypt nokkur orkuver í Ungverjalandi, Tékklandi og einnig í Úkraínu. Þau hjá AES hafa verið spenntust fyrir kolaverunum, en hafa einnig fjárfest lítillega í vindorku á svæðinu. Ætli þessir ljúflingar hefðu líka áhuga á að kaupa í Landsvirkjun og OR?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband