Armstrong í Öskju

Earth_Rise_-Apollo8Í gærkvöldi þegar Orkubloggarinn (grútsyfjaður) minntist 40 ára afmælis fyrstu Tunglferðarinnar gleymdi hann aðalatriðinu! Sem er auðvitað æfingaferð Apollo-geimfaranna til Íslands.

Það mun hafa verið ári fyrir fæðingu Orkubloggarans að tíu af geimförunum í Apollo-áætluninni komu hingað norður á Klakann góða. Þetta var sumarið 1965. Það var jarðfræðingurinn góðkunni, Sigurður Þórarinsson, sem var leiðsögumaður þeirra hér á landi. Skyldi hann hafa sungið með þeim Þórsmerkurljóðið? Annar geimfarahópur kom svo á sömu slóðir árið 1967. Ásamt Sigurði Þórarinssyni mun Guðmundur E. Sigvaldason, jarðfræðingur, einnig hafa verið geimförunum innan handar hér á landi.

Ástæða þess að NASA sendi geimfaraefnin til Íslands var einföld. Ljúflingarnir hjá NASA töldu Ísland nefnilega þann stað á Jörðinni, sem mest minnir á Tunglið. Farið var með þá í Öskju (www.askja.blog.is!) og héldu þeir til í Drekagili. Þar skoðuðu þeir sig vel um og sérstaklega var athyglinni beint að jarðfræði svæðisins.

Geimfarar_AskjaÝmsar samsæriskenningar eru til um að í reynd hafi aldrei nokkur maður stigið fæti á Tunglið. Þetta hafi allt verið tóm blekking. Skemmtilegasta kenningin er auðvitað sú að "myndirnar frá Tunglinu" hafi hreinlega verið teknar upp í nágrenni Öskju. Alltaf gaman að svona rugli.

Myndin hér að ofan er einmitt tekin af geimförunum í Öskju. Þarna munu bæði vera þeir Buzz Aldrin og Eugene Cernan, sem nefndir voru í síðustu færslu Orkubloggsins. Og Neil Armstrong  er líka þarna, annar frá vinstri í fremri röð. Hér að neðan er aftur á móti ljósmyndi af Buzz á tunglinu sumarið 1969, tekin af Neil Armstrong.

apollo-11_buzzLeiðin lá sem sagt frá Bandaríkjunum til Tunglsins, via Iceland. Enda var þetta á blómaskeiði Loftleiða, þegar Ísland var algeng stoppistöð Bandaríkjamanna í ævintýraleit!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Varðandi æfingar tunglfaranna í Öskju þá hef ég oftar en einu sinni heyrt þá sögu að til hafi staðið að Michael Collins sinnti því hlutverki sem Buzz Aldrin síðan gegndi, þ.e. að fljúga úr Apollo yfir á tunglið. Hann hafi hins vegar, þegar lagt var af stað, gleymt að taka íslenskan 50-kall úr vasa sínum og þar með brotið gegn reglum um að ekkert slíkt mætti fara um borð. Refsingin var sú að Collins fékk ekki að fara á tunglið.

Sel það ekki dýrar en ég keypti það en skemmtileg saga.

Guðmundur Sverrir Þór, 21.7.2009 kl. 09:57

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Önnur lífseig saga er að Neil Armstrong hafi verið fyrstur út um hlerann á Erninum, af hreinni tilviljun - því hann hafi setið nær lúgunni.

Sannleikurinn er auðvitað sá að þetta var allt þaulskipulagt.

Ketill Sigurjónsson, 21.7.2009 kl. 10:02

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Þetta er útskýrt í greininni hér. Þar segir að lúgan hafi vissulega haft áhrif. Sá sem ákvað þetta var hins vegar Deke Slayton. Hann sá um að velja áhafnirnar. Hann hafði það fyrir reglu að flugmaður stjórnfarsins, Michael Collins í þessu tilviki, þyrfti að hafa reynslu af geimferðum. Stuttu áður en þeir fóru til tunglsins kom Slayton að máli við Collins og bauð honum að halda áfram sem geimfari því þá ætti hann tækifæri á að ganga á tunglinu. Collins afþakkaði það þar sem hann hafði þegar ákveðið að hætta.

Slayton ákvað líka að leiðangursstjóri færi alltaf fyrstur út í tunglgöngu. Þar að auki var Neil reyndari geimfari en Buzz sem hafði líka áhrif. Í greininni sem ég vísa í að ofan er farið í saumana á þessu. Þetta er byggt á heimildum í geimfarana sjálfa og Deke Slayton.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 21.7.2009 kl. 10:16

4 Smámynd: Arnar Guðmundsson

GAMAN AÐESSI

Arnar Guðmundsson, 21.7.2009 kl. 14:30

5 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Ég og fjöldkylda mín vorum á ferðalagi og hittum þessa kappa í Herðubreiðarlindum 1965 - við krakkarnir vorum yfir okkur spennt að kynnast geimförum! Og þeir voru mjög elskulegir við okkur. Fékk meira að segja eiginhandaráritun þeirra flestra.

Halldóra Halldórsdóttir, 21.7.2009 kl. 17:08

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ja hérna. Ef þú átt þessar eiginhandaráritanir ennþá Halldóra, þá kemur hér fyrsta boð: 100 þúsund íslenskar krónur. Að sjálfsögðu að því gefnu að Buzz og Neil séu meðal þeirra!

Ketill Sigurjónsson, 21.7.2009 kl. 17:40

7 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Neil og Buzz komu því miður ekki árið 1965. Þeir sem komu þá voru William Anders (Apollo 8), Charles Bassett, Eugene Cernan (Apollo 17), Roger Chaffee (lést Apollo 1), Walt Cunningham, Don Eisele, Rusty Schweickart (Apollo 9), Dave Scott (Apollo 9 og Apollo 15) og Clifton Williams (átti að fara í Apollo 12 en fórst í flugslysi árið 1967, Alan Bean kom í hans stað). Buzz Aldrin kom því miður aldrei hingað til lands.

En þessar áritanir eru stórmerkilegar og verðmætar ef þær eru enn til.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 21.7.2009 kl. 19:06

8 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég hygg að myndin hér að ofan sé frá ferðinni 1967. Er ekki rétt, Stjörnufræðivefur,  að þetta sé Armstrong, sem þar er annar frá vinstri?

Ketill Sigurjónsson, 21.7.2009 kl. 19:38

9 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Sagan er öll á blogginu mínu - í mars minnir mig - og mynd af pappírnum. Ég seldi hann þá til bretlands - heldur fljót á mér en þá var ég ekki að hugsa um þessi miklu tímamót sem nú eru og upprifjunin.

Halldóra Halldórsdóttir, 21.7.2009 kl. 19:47

10 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þetta er líklega færslan sú:

http://dee.blog.is/blog/dorahalldors/entry/840875/

Ketill Sigurjónsson, 21.7.2009 kl. 20:34

11 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson, 21.7.2009 kl. 20:35

12 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Mér sýnist á myndinni að þetta sé fyrri geimfarahópurinn, þ.e. sá sem kom hingað til lands árið 1965. Sá sem er lengst til hægri í efri röðinni er Rusty Schweickart. Sá sem er annar frá hægri í neðri röðinni er Roger Chaffee sem lést í Apollo 1. Annar frá vinstri í neðri röðinni er Alan Bean. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hverjir hinir eru.

Já, og Sævar heiti ég.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 22.7.2009 kl. 08:53

13 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Sævar; við þyrftum helst að setja nöfn á alla hausana tíu á þessari mynd hér að ofan.

 Veistu um ámóta mynd af hinum geimfarahópnum, sem hingað kom?

Ketill Sigurjónsson, 22.7.2009 kl. 13:55

14 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Charlie Bassett er sá neðri lengst til hægri - hann fórst í slysi nokkru seinna. Hann hafði mestu þolinmæðina við okkur krakkana.

Halldóra Halldórsdóttir, 22.7.2009 kl. 21:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband