2.8.2009 | 00:15
Veolia og vatnið í Kína
Hver er stærsti erlendi fjárfestirinn í Kína? Ekki ætlar Orkubloggið að reyna að svara því. En bloggið fullyrðir aftur á móti að sá erlendi fjárfestir sem vex hvað hraðast þessa dagana þar í landi drekans, sé franska risafyrirtækið með ljóðræna nafnið: Veolia Environment. Í dag ætlar bloggið að beina athyglinni að Veolia og vatninu í Kína.
Höldum til borgarinnar Changzhou við Yangtze-fljót. Sem einmitt tengist síðustu færslu Orkubloggsins, sökum þess að atvinnulíf borgarinnar hefur löngum byggst á kínverska undraskipaskurðinn Beijing-Hangzhou Grand Canal.
Eftir að skipaskurðurinn sá tengdist borginni þarna 150 km frá ósum Yangtze um árið 600, varð Changzhou afskaplega mikilvæg verslanamiðstöð og m.a. þekkt fyrir að vera einn helsti markaðurinn fyrir silki, hrísgrjón og te. Í dag hefur efnahagsuppgangurinn í Kína löngu haldið innreið sína í borgina og þar byggst upp mikilvægur textíliðnaður og einnig umfangsmikill matvælaiðnaður. Úrgangurinn frá bæði verksmiðjunum og mannfólkinu rennur beint út í Yangtze og þar er allur fiskur löngu horfinn og áin umbreyst á skömmum tíma í sorapoll. Mengunin er sem sagt gríðarleg og einnig hefur snögg fólksfjölgun í borginni valdið skorti á neysluvatni.
Þetta er ekki bara vandamál í Changzhou. Léleg vatnsveitukerfi einkenna fjölda borga og bæja í Kína og stjórnvöldum alþýðunnar hefur víða gengið fjarska illa að tryggja íbúum og atvinnulífi viðunandi vatn.
En Kínverjar kunna lausn á öllu. Rétt eins og þeir sáu möguleika í því að leyfa takmarkaðan kapítalisma í sínu kommúníska hagkerfi til að örva efnahagslífið, hafa kínversk stjórnvöld nú tekið forystuna í því að einkavæða vatnsveiturnar. Eftir að yfirvöld í Changzhou hófu samstarf við erlend vatnsveitufyrirtæki fyrir fáeinum árum hafa fjölmargar aðrar kínverskar borgir fylgt í kjölfarið. Þar á meðal er sjálf Shanghai, sem er ein fjölmennasta borg heims. Og æ fleiri kínverskar borgir hafa á síðustu misserum og árum bæst í þennan ljúfa vatnsveitu-einkavæðingarhóp.
Fyrirtækið sem hefur farið fremst í að semja við kínversk stjórnvöld um vatnsveitumál er einmitt hinn fyrrnefndi franski vatnsrisi Veolia Environment. Þetta franska fyrirtæki, sem stýrt er frá glæsibyggingu í nágrenni Sigurbogans í miðri París, er í dag líklega langstærsta vatnsveitufyrirtæki heims. Eflaust svalur fílingur að stjórna kínverskum risavatnsveitum frá hundrað ára gömlu skrifborði við Avenue Kléber þarna í 16. glæsihverfinu.
Það er athyglisvert hvernig Fransmenn hafa orðið yfirburðarveldi í alþjóðlega vatnsveitubransanum. Þar að baki eru sögulegar ástæður. Frakkar hafa nefnilega löngum verið flinkir við að eiga við vatn. Upphafið má líklega rekja til franska fyrirtækisins Suez, sem hefur starfað samfleytt allt frá árinu 1822 og byggði einmitt Súez-skurðinn skömmu eftir miðja 19. öld.
Í dag er Suez Environment eitt af stærstu vatnsveitufyrirtækjum heims, þó svo það sé reyndar aðeins peð í Suez-samsteypunni og jafnist ekki á við Veolia Environment. Bæði Veolia og Suez eru jafn frönsk eins og... eins og Gérard Depardieu. Þess vegna má hiklaust segja að Frakkar séu stórveldið á þessu sérkennilega sviði viðskiptanna.
Sá ljúfi bisness er ekki einungis rekstur í anda góðu gömlu Vatnsveitu Reykjavíkur. Líka er um að ræða tæknilega flókna hreinsun á vatni og endurnýtingu þess. Þetta er sá bransi sem vex hvað hraðast í Kína þessa dagana. Vatnsveitumál eru víða í hörmulegu ástandi í hratt vaxandi borgum þessa fjölmennasta lands í heimi og þess vegna hafa kínversk stjórnvöld horft til þess að bæta ástandið með einkavæðingu. Þarna eru einfaldlega ómæld tækifæri fyrir Veolia og aðra þá sem starfa í alþjóðlega vatnsveitubransanum.
Áður en lengra er haldið er rétt að gefa smá hugmynd um stærð Veolia Environment. Svo skemmtilega vill til að starfsmannafjöldi fyrirtækisins er nánast nákvæmlega sá sami og fjöldi drottinssauða hér á Íslandi. Hjá Veolia starfa nefnilega um 320 þúsund manns. Á síðasta ári (2008) var velta þessa rótgróna franska fyrirtækis rúmlega 36 milljarðar evra, sem jafngildir um 6.500 milljörðum ISK. Til samanburðar má hafa í huga að allar tekjur Landsvirkjunar á liðnu ári voru innan við 60 milljarðar króna (m.v. núverandi gengi) og verg landsframleiðsla Íslands sama ár mun hafa verið innan við 1.500 milljarðar króna. Ársvelta Veolia er sem sagt vel rúmlega fjórum sinnum meiri en VLF Íslands.
Það er ekkert nýtt að stórfyrirtæki taki yfir vatnsveitur hingað og þangað um heiminn. Þarna fara fremur fáir leikendur með hreint gífurlega hagsmuni, sem snerta neysluvatn hundruða milljóna fólks.
Óneitanlega hræða sporin. Eitthvert þekktasta dæmið um sorgarsögu einkavæðingar á vatnsveitum, er þegar sú leið var farin í Buenos Aires og víðar í Argentínu í kjölfar efnahagsþrenginga þar fyrir all mörgum árum. Meðal þeirra sem komu að þeirri einkavæðingu, var nokkuð þekkt fyrirtæki með bandarískar rætur - fyrirtæki að nafni Enron.
Já - vatnsveitur voru á tímabili eitt af stóru áhugamálum Enron, sem stefndi á að verða stór player á því sviði. En guggnaði á því í kjölfar þess að vera nánast fleygt útúr Argentínu fyrir afspyrnulélega frammistöðu sína.
Einkavæðing af þessu tagi hefur oft verið bjargarleið ríkja sem hafa lent í djúpri kreppu og bráðvantað gjaldeyri. Veolia hefur komið að slíkri einkavæðingu víða í Suður-Ameríku, en oftast með heldur slælegum árangri. Í þeirri rómönsku heimsálfu hefur einkavæðingin jafnan leitt til stórhækkunar á vatni til neytenda og fyrirtækja. Þá hafa gæði vatnsins oft verið fyrir neðan allar hellur og ævintýrin víða endað með ósköpum; uppþotum og ofbeldi.
Í Kína er hvatinn að baki einkavæðingunni aftur á móti af eilítið öðrum toga en var í Suður-Ameríku. Kínverjana skortir ekki gjaldeyri, heldur sjá þeir annan kost við aðkomu erlendra stórfyrirtækja að vatnsveitunum. Þessi fyrirtæki hafa nefnilega tækniþekkinguna og reynsluna sem Kínverja vantar svo sárlega í stórborgirnar, hvar iðnaðaruppbyggingin hefur farið langt fram úr innviðunum.
Þó svo Kínverjarnir hafi almennt verið miklu mun skipulagðari en t.d. indversk stjórnvöld og bæði rafmagns- og símatengingar séu víðast hvar í betra horfi í Kína en á Indlandi, hefur vatnsskortur víða verið áberandi í borgum og bæjum Kína. Kínversk stjórnvöld virðast hreinlega ekki hafa séð fyrir þá gríðarlegu mengun sem fylgdi iðnaðaruppbyggingunni og þess vegna lentu vatnsveitumálin svo víða í miklum ólestri.
Lausnin hefur verið að veita Veolia og fleiri erlendum vatnsveiturisum tímabundin einkaleyfi í nokkrum borgum Kína. Þá er jafnan samið um sameiginlegt eignarhald, þar sem stjórnvöld eiga oft 50% í vatnsveitunni á móti einkafyrirtækinu. Það er kannski ekki svo galin leið í einkavæðingu.
Hin dæmigerða afleiðing hefur verið að verð á vatni hefur hækkað um léttan helming eða svo. En í staðinn hafa íbúarnir notið þess að fá mun hreinna vatn en áður - þó svo sumstaðar þurfi reyndar ennþá að sjóða vatnið til að tryggja að það sé ekki heilsuspillandi til drykkjar.
Vatnsveitusamningar Kínverjanna við Veolia hafa gjarnan verið til 50 ára þ.a. vatnið í milljónaborgum Kína á eftir að mala gull í áratugi fyrir Frakkana. En kínversk stjórnvöld eru útsmogin; sem fyrr segir eiga þau gjarnan stóran hlut í vatnsveitufyrirtækjum Veolia í Kína og njóta því líka góðs af hinum skyndilega arðbæra kínverska vatnsveitubransa.
Já - þarna eystra hefur almenningur og atvinnulífið loks fengið betra vatn. Um leið fær Veolia pening í kassann og sameiginlegir sjóðir á vegum stjórnvalda njóta líka góðs af. Kannski má segja að allir séu sigurvegarar í kínversku vatnseinkavæðingunni. Á endanum er það þó auðvitað almenningur sem borgar brúsann - sama hvort í honum er vatn eða eitthvað annað.
Nú er bara spurningin hvort Orkuveita Reykjavíkur hugleiði að fara í vatnsveituútrás. Vatn Erlendis Invest. Er ekki VEI örugglega miklu flottara en REI?
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þessi flotta grein þín sýnir bara hvað hagfræðin hefur í raun hjálpað við að pína venjulegt fólk í nafni einkavæðingar og hagræðingar. Ég er tildæmis ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir að td í Danmörku eru menn að greiða milli 250 og 500 ISK fyrir tonnið af köldu vatni sem er 3x til 7x meira en við greiðum fyrir tonnið í hitaveitum og má tengja hækkunina alla við að vatnsveiturnar voru markaðsvæddar. Hér verðum við að bakka út úr þeirri markaðsvæðingu sem þegar hefur átt sér stað í veitu, orku og fjarskiptafyrirtækjum og snúa okkur að að reka hérna mannvænt samfélag þar sem ríki og sveitafélög reka þessa þjónustu "not for profit".
Einar Þór Strand, 2.8.2009 kl. 11:26
Sæll Ketill, alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt.
Alltaf geysilega fróðlegt.
Þú talar um þekkingu Frakka við vatnsveitur og bendir á Suez fyrirtækið frá 1822. sem upphaf hennar.
Ég vil benda á skurðina Briare Canal, 1642 og þó einkum Canal du Midi (lokið 1681). Du Midi er á heimsminjaskrá og tengir saman Atlantshaf og Miðjarðarhaf.
http://en.wikipedia.org/wiki/Canal_du_Midi
Athyglisvert er að Wikipedia greinin segir að þekking á rómverskri vatnsveititækni hafi geymst meðal bændakvenna og hafi komið fram þegar um 1000 af þeim unnu við gerð skurðarins.
Kveðja, Björn Sævar
Björn Sævar Einarsson (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 13:53
Sammála VEI er miklu flottara en REI. Mikið er gott að fá að hlægja svolítið á þessum annars óvenjulegu og alvarlegu tímum.
Kína er merkilegt og verður sjálfsagt enn áhrifameira er tímar líða.
Hólmfríður Pétursdóttir, 2.8.2009 kl. 14:17
Já, Frakkarnir hafa lengi verið flinkir að grafa skurði.
Mér kemur annað í hug: Einu sinni dvaldi ég hjá vinafólki í prýðilegu miðstéttarhverfi í Bangkok í Taílandi. Þau suðu allt vatn í 10 mínútur áður en það var notað í kaffi eða matreiðslu. Og úti á götunni vantaði hlemm yfir klóak-lögn, en engin virtist kippa sér upp við það. Ó - þú dásamlegi íslenski fjallalækur!
Ketill Sigurjónsson, 2.8.2009 kl. 14:43
Alltaf gaman að lesa greinarnar þínar Ketill.
Hvert er þitt álit á Victor Schauberger og vatnspælingum hans? Maður hefur ekki heyrt mikið talað um þennan gaur í gegnum tíðina og athyglisverðar tilraunir hans. Þöggun kannski vegna hagsmuna eða var þetta kannski bara ruglukollur sem á skilið að gleymast?
Georg P Sveinbjörnsson, 2.8.2009 kl. 16:28
Þó svo ég hafi haft afar gaman af þeim Scully og Mulder í X-files, er ég skelfilega jarðbundinn og mikill raunsæismaður. Og finnst samsæriskenningar jafnan hreinn brandari. Þar af leiðandi hef ég aldrei tekið nokkurt mark á kenningum Schauberger. En ég hefði heldur aldrei trúað því að íslensku bankarnir væru þvílík svikamylla, eins og nú er komið í ljós. Kannski ætti maður aldrei að segja aldrei!
Ketill Sigurjónsson, 2.8.2009 kl. 17:15
Í gær rakst ég á umfjöllun um þetta Veolia kompaní í allt öðru samhengi. Þeir eru einnig með puttana í almenningssamgöngum víða um heim, sérstaklega í Bandaríkjunum. Það er óneitanlega nokkuð spes að í landi þar sem tortryggni er sérstaklega mikil gagnvart einkarekstri í almannaþjónustu eins og vatnsveitum og almenningssamgöngum verði til fyrirtæki sem gerir út á þessi mið í öðrum löndum. Saga Veolia finnst mér nú ekki benda til þess að "gamla" Evrópa sé dæmd til hrörnunar og samdráttar næstu áratugina eins og hefur verið svo vinsæl tískuskoðun í frjálshyggjubullinu síðustu árin.
Bjarki (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 13:03
Mikið rétt. Veolia Environment er í ýmsu öðru en bara vatni. Eins og sjá má á einni myndinni hér að ofan, þá skiptist fyrirtækið í fernt: Vatn, orku, samgöngur og loks aðra umhverfisþjónustu (sem er sorphreinsun, endurvinnsla o.fl.). Vatnshluti samsteypunnar kallast Veolia Water.
Auðvitað er alveg útí hött öll þessi neikvæða umræða gagnvart Evrópu og ESB. Barnaleg. ESB er eitthvert árangursríkasta ríkjasamband innan Evrópu, sem sögur fara af. Helsta áhyggjuefnið er hversu Evrópa er orðin háð innflutningi á orku. Ég vill sjá ESB stækka til suðurs, þ.a. N-Afríkuríkin verði aðilar. Og þar með olían í Alsír og Líbýu, sólin í Sahara, vindbarðar Atlantshafsstrendur Marokkó og auðvitað skvísurnar, fornminjarnar og baðstrendurnar Túnis!
Ketill Sigurjónsson, 3.8.2009 kl. 14:06
Það minnist enginn lengur á Miðjarðarhafsbandalagið sem var nokkuð í umræðunni fyrir ekki mjög löngu síðan.
Hólmfríður Pétursdóttir, 6.8.2009 kl. 14:16
Hér er ein af ástæðum á áhuga Frakka og fleiri Evrópuþjóða á samstarfi við ríki N-Afríku:
http://askja.blog.is/blog/askja/entry/605191/
Ketill Sigurjónsson, 7.8.2009 kl. 21:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.