16.8.2009 | 00:42
Rennur endurnýjanleg orka útí sandinn?
Því miður rættist ekki sá draumur Orkubloggsins, að aðalstöðvar IRENA - nýju alþjóðasamtakanna um endurnýjanlega orku - yrðu staðsettar á Íslandi. Enda höfðu íslensk stjórnvöld lítinn áhuga á að vinna að því markmiði.
Kannski getum við huggað okkur við það að Ísland hefði hvort sem er verið yfirboðið og hefði aldrei átt neina möguleika í að fá IRENA til sín. Meira að segja Þjóðverjarnir urðu að láta í minni pokann fyrir arabísku olíupeningunum í slagnum um aðalstöðvar IRENA.
Já - það er búið að ákveða að aðalstöðvar IRENA verði í gullna sandinum í olíuveldinu Abu Dhabi. Það er ástæðan fyrir því að þeir félagarnir Sheikh Mohammed bin Rashid Al Maktoum, varaforseti Sameinuðu Arabísku furstadæmanna og einvaldur í Dubai og hans hágöfgi Khalifa bin Zayed Al Nahyan, fursti í Abu Dhabi, ískra af kátínu þessa dagana. Þetta vitum við auðvitað öll af þeirri einföldu ástæðu að einn uppáhaldsvefurinn okkar orkufíklanna hlýtur að vera hinn safaríki vefur www.sheikhmohammed.ae!
Það voru sem sagt Arabarnir í Abu Dhabi sem unnu sigur í kapphlaupinu um aðalstöðvar IRENA. Þjóð furstadæmisins telur um eina milljón manns, en Abu Dhabi er eitt af sjö furstadæmum sem mynda ríkið Sameinuðu arabísku furstadæmin (United Arab Emirates eða UAE). Þetta ofurríka olíuveldi býr yfir einhverjum mestu olíubirgðum heims; er með um 90% af allri olíu og gasi innan UEA og því einhver almesti olíupollur veraldar. Enda átti furstinn ekki í vandræðum með að yfirbjóða önnur ríki sem þyrsti í að hýsa IRENA innan sinna landamæra. Sigraði þar ekki aðeins Þjóðverja, heldur einnig Austurríkismenn, Dani og Tékka, sem allir sóttust eftir því að fá IRENA til sín.
Með loforðum um tugmilljóna dollara styrki til orkuverkefna í þróunarríkjunum tryggði Abu Dhabi sér stuðning fjölmargra þróunarríkja á undirbúningsráðstefnu IRENA og auk þess lofuðu þeir að kosta byggingu og rekstur skrifstofunnar þarna í steikandi eyðimörkinni. Þessi gylliboð dugðu til að tryggja Abu Dhabi sigurinn.
Aðrar borgir sem sóttust eftir að fá IRENA til sín voru allar evrópskar; Bonn, Kaupmannahöfn, Prag og Vín. Þjóðverjar töldu sig lengi vel eiga hvað besta möguleikann, enda ýmis góð rök með því að gera Þýskaland (Bonn) að heimsmiðstöð endurnýjanlegrar orku:
Í fyrsta lagi hafa þýsk stjórnvöld um árabil sýnt ríka viðleitni til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku og skapað vistvænni orku nokkuð hagstætt rekstrarumhverfi í landinu. Í annan stað eru nokkur af öflugustu fyrirtækjum heims á sviði bæði vindorku og sólarorku staðsett í Þýskalandi - þó svo nánast öll raforka þýsku þjóðarinnar komi reyndar frá kolum og gasi. Í þriðja lagi hefur það gríðarlega þýðingu fyrir Bonn að fá til sín slíka alþjóðastofnun; það vita allir sem hafa gengið um gömlu sendiráðsstrætin í Bonn og horft á tómar skrifstofubyggingarnar sem þar standa í röðum. Í Bonn eru nú þegar aðalstöðvar Eyðumerkursamningsins (Desertification Convention) og Loftslagssamningsins (Climate Change Convention), Enn er þó langt í að þessi fyrrum höfuðborg Vestur-Þýskalands nái sér eftir blóðtökuna sem varð þegar stjórnsýslan og sendiráðin fluttu sig til Berlínar eftir sameiningu þýsku ríkjanna tveggja.
Eðlilega samglöddust leiðtogar hinna furstadæmanna sex meðbræðrum sínum í Abu Dhabi þegar niðurstaðan varð ljós. Það er talsvert púður í því fyrir Sameinuðu arabísku furstadæmin að fá til sín slíka alþjóðastofnun og sumir tala um að UAE hafi með þessu loks fengið viðeigandi viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Þó svo Abu Dhabi sé auðugast furstadæmanna innan UEA af olíu og gasi, hefur athygli umheimsins undanfarin ár meira beinst að öðru furstadæmi í þessu sérkennilega ríki. Nefnilega Dubai. Þar hefur um skeið ríkt nánast ævintýralegt byggingaæði og glæsilegar nýbyggingarnar fangað athygli bæði auðmanna og kvikmyndastjarna.
Kannski vonast höfðingjarnir í UAE til þess að kastljósið sem nú beinist að Abu Dhabi og UEA verði til þess að draga orkufyrirtæki að hinni nýju kauphöll Borse Dubai. Utan UAE vonast aftur á móti ýmsir til þess að staðsetning aðalstöðva IRENA í Abu Dhabi leiði til þess að olíupeningarnir frá furstadæminu verði drifkraftur í vexti endurnýjanlegrar orku um allan heim. Svo eru enn aðrir sem líkja þessari niðurstöðu við að Kínverjar myndu gerast helstu boðberar heimsins í mannréttindamálum. Logarnir sem standa upp af hinum óteljandi olíu- og gasbrunnunum í Abu Dhabi eru ekki beint í takt við ásýnd endurnýjanlegrar orku.
Hvað sem þessu líður, þá virðast olíu-shékarnir í Abu Dhabi talsvert áhugasamir um endurnýjanlega orku. Orkubloggarinn minnist t.d. heimsóknar sinnar á liðnu ári (2008) til aðalstöðva spænska sólarorkufyrirtækisins Torresol suður í Madrid. Það athyglisverða fyrirtæki, sem hyggst veðja á CSP-turntæknina, er einmitt að stórum hluta í eigu fjárfestingasjóðs stjórnvalda í Abu Dhabi. Það er einungis eitt af mýmörgum dæmum um fjárfestingar olíusjóðsins í Abu Dhabi í endurnýjanlegum orkufyrirtækjum á Vesturlöndum og víðar í heiminum.
Nú þegar olíushékarnir í Abu Dhabi hafa landað IRENA, er stefnt að því að þessi alþjóðlega miðstöð endurnýjanlegrar orku rísi senn í hinni furðulegu framtíðarborg Masdar. Takmark shékanna er sjálfsagt að IRENA verði ein af helstu táknmyndum þessarar vistvænu og grænu" framtíðarborgar þarna í steikandi sandauðum hins olíuauðuga furstadæmis.
Engu að síður efast Orkubloggið um að skrifstofa IRENA í Masdar eigi eftir að láta að sér kveða af einhverju viti. Sem sárabót fyrir Þjóðverjana var nefnilega ákveðið að tæknimiðstöð IRENA (Center of Technology and Innovation) verði staðsett í Bonn. Í reynd er sólar- og vindorkan í Abu Dhabi mest upp á punt, meðan þetta er hvort tveggja alvöru bissness í Þýskalandi. Því þykir blogginu líklegt að hin raunverulega miðstöð IRENA verði í reynd tæknisetrið í Bonn.
En það merkir ekki að starfsfólkið í aðalstöðvum IRENA í Abu Dhabi verði verkefnalaust. Það eru nefnilega líkur á að þar verði mikil áhersla lögð á að sinna einni tegund orku sem reyndar er ekkert sérstaklega endurnýjanleg. Þ.e. kjarnorkan!
Þó svo myndir af grænustu möguleikunum í raforkuframleiðslu prýði gjarnan fréttir af IRENA, þá er stofnunin þegar farin að hneigjast í átt til kjarnorkunnar. Dæmi er að nýbúið er að ganga frá ráðningu kjarnorkusérfræðings sem forstjóra stofnunarinnar. Það er hin franska Hélène Pelosse. Þótt Helena sé gjarnan titluð sem sérfræðingur í endurnýjanlegri orku hafa störf hennar fyrir frönsku stjórnina að mestu tengst kjarnorku. Enda er Frakkland stórveldi á því sviði og framleiðir næstum allt sitt rafmagn með kjarnorkuverum.
Að auki bætist svo við sú staðreynd að stjórnvöld í Abu Dhabi hafa nú uppi metnaðarfulla kjarnorkuáætlun. Og hafa í því sambandi komið á samstarfi bæði við bandarísk stjórnvöld og franska orkufyrirtækið Areva.
Þetta er reyndar hluti af risastórri franskri kjarnorku-uppbyggingu í Persaflóanum, en um það hefur sperrileggurinn Sarkozy verið sérlega áhugasamur. Í staðinn fyrir kjarnorkuþekkinguna, fá Fransararnir flotastöðvar og fleira fínerí á þessu strategíska mikilvæga svæði. Þannig klórar hver silkihúfan annarri og allir verða glaðir.
Það er þess vegna alls ekki ólíklegt að kjarnorkan komi til með að verða efst á blaði hjá IRENE í Abu Dhabi. Það er líka kannski barrrasta nokkuð lógískt. Hvað annað en kjarnorkan getur leyst núverandi orkugjafa af hólmi? Ætli hin sanna endurnýjanlega orka renni útí gulan Arabíusandinn eða drukkni þar í ofboðslegu olíugumsinu og glampandi kjarnorkuáætlunum?
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:03 | Facebook
Athugasemdir
Þakka fyrir skemmtilegan pistil.
Það er mjög líklegt að kjarnorkan verði næsti tísku endurnýjanlegi orkugjafinn. Og ekki ólíklegt að hún mengi minna en , bio diesel , vindorka og margt annað sem menn eru að skemmta sér við að þróa.
Sigurjón Jónsson, 27.8.2009 kl. 11:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.