Listagyðjan í olíubaði

Maður er nefndur Andrew Hall. Hann er að nálgast sextugt, fæddur í Bretlandi, er menntaður efnafræðingur og MBA og sést oft sitja við skrifborðið sitt í gömlu fjósi vestur í Connecticut í Bandaríkjunum. Þaðan stundar hann olíu- og önnur hrávöruviðskipti í gegnum tölvuna sína. Eins og svo fjölmargir aðrir gera út um víða veröld

Georg_Baselitz_Nude_Elke_2Vinnudagurinn hjá Andrew Hall á skrifstofunni í þessu gamla uppgerða fjósi er sem sagt ósköp svipaður eins og hjá svo mörgum öðrum vesælum drottinssauðum í óblíðri veröld kapítalismans. Starf hans er að höndla með verðbréf sem tengjast hrávörum og þá sérstaklega olíu.

Í störfum sínum reynir Hall einfaldlega að spá fyrir um þróun olíuverðs eftir bestu getu. Hann kaupir og selur samninga um olíuviðskipti til framtíðar með það einfalda leiðarljós að nota þekkingu sína og innsæi til að þessi áhættusömu viðskipti hans skili sem allra mestum gróða.

Svo virðist sem Andrew Hall sé einkar spámannslega vaxinn. Vart er ofsagt að þessi hægláti og dagfarsprúði maður sé einfaldlega einhver albesti fjárhættuspilarinn á olíumörkuðum heimsins. Meðan vinnuveitandi hans tapaði samtals næstum 19 milljörðum dollara og fékk nýverið tugi milljarða dollara fjárjagsaðstoð frá bandarískum stjórnvöldum til að forðast þrot, skilaði árangurstengdur launasamningur Hall honum 100 milljónum dollar í tekjur á síðasta fjárhagsári fyrirtækisins.

Anselm_Kiefer_artAndrew Hall starfar hjá gamalgrónu fyrirtæki sem lengi hefur sérhæft sig í hrávörumörkuðum og nefnist Phibro. Móðurfélag Phibro er öllu þekktara; nefnilega fjármálarisinn Citigroup. Gríðarlegar tekjur Hall á yfirstandandi ári bætast við 200 milljónir USD sem hann vann sér inn síðustu fimm árin þar á undan. Hann er m.ö.o. orðinn stórefnaður maður. Þrátt fyrir að vinnuveitandi hans - Citigroup - sé nánast á brauðfótum

Vegna hroðalegrar afkomu Citigroup og mikillar umræðu vestan hafs um ofurlaun, beindist kastljós fjölmiðlanna skyndilega að þessum rólynda verðbréfamiðlara. Sem reyndar er yfirmaður Phibro. Fjölmiðlaumfjöllunin um Hall tengdist ekki aðeins umræðunni um ofurlaun, heldur urðu fjölmiðlarnir líka forvitnir um hvað Andrew Hall gerði við alla þessa peninga sem hann græddi á olíuviðskiptunum.

Þeirri spurningu reyndist fljótsvarað: Launin sem Hall fær fyrir árangur sinn, notar hann hvorki í sportbíla né einkaþyrlur - heldur til að svala hrifningu sinni á þýskum nýexpressjónisma  (Neue Wilden).

Joerg_Immendorff_Cafe_DeutschlandSérstaklega er Hall sagður hrífast af verkum Þjóðverjanna Anselm Kiefer, Georg Baselitz og Joerg Immendorff. Listaverk þeirra prýða einmit þessa færslu - þó svo þetta sé heldur þungúin list að smekk Orkubloggarans. Einnig mun Andrew Hall vera skotinn í bandarískri nútímalist og er sagður safna verkum manna eins og David Salle, Bruce Nauman, Julian Schnabel og Andy Warhol.

Það er sem sagt listagyðjan sem hefur notið hinna gríðarlegu launabónusa sem Hall fékk fyrir að veðja rétt á stóraukna olíueftirspurn Kínverja upp úr 2003, fyrir að veðja á að olíuverð færi vel yfir 100 dollara á fyrri hluta 2008, fyrir að veðja á fallandi olíuverð á síðari hluta 2008 og loks veðja á hækkandi olíuverð 2009.

Schloss_Derneberg_gardenJá - Andrew Hall virðist hreinlega vera með a.m.k. einu skilningarviti meira en flestir aðrir þeir sem braska á sviði olíuviðskiptanna. Hann fer meira að segja létt með að slá Orkubloggarann út. Sem er jú nánast ómannlegt!

Líklega hefur Hall fundist óviðeigandi að hengja meistaraverkin upp á veggi skrifstofunnar sinnar í litla snobb-bænum Westport vestur í Connecticut. Því nú má berja dýrðina augum í þúsund ára gömlum kastala, sem hann festi kaup á í Þýskalandi. Nánar tiltekið Schloss Derneberg  skammt frá Hanover í Saxlandi. Þessi  sögufræga bygging mun einmitt áður hafa verið í eigu áðurnefnds listamanns Georg Baselitz!

Hall_Andrew_PhibroSjálfur er Andrew Hall aftur á móti dags daglega við skrifborðið sitt á skrifstofu Phibro. Í gamla fjósinu í smábænum fallega; Westport í Connecticut. Þar situr þessi breski flugmannssonur framan við skjáinn ásamt félögum sínum og veðjar áfram á það hvernig olíuverð muni þróast í framtíðinni. Sem er jú ein skemmtilegasta iðja sem unnt er ímynda sér - ekki satt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband