BYD og Framtíðarorka

"Íslendingar gætu sparað rúmlega einn milljarð króna í gjaldeyri í hverjum mánuði með því að hætta að nota olíu og bensín á bílaflotann og skipta yfir í innlenda orkugjafa svo sem rafmagn og metan."

Þannig byrjar frétt  sem birtist á á Eyjunni fyrr í dag. Á tímum gjaldeyrisskorts eru frétt af þessu tagi óneitanlega spennandi fyrir Íslendinga. Og á hvaða tímum sem er hlýtur það að vera áhugaverður kostur ef Ísland myndi geta framleitt sitt elgið eldsneyti.

drivingsustainability-logoFréttin tengist ráðstefnunni Driving Sustainability, sem fer fram hér á landi nú eftir helgi á vegum Framtíðarorku. Þeir innlendu orkugjafar sem þarna er einkum horft til eru annars vegar metan og hins vegar rafmagn. Þó svo Orkubloggið telji nokkuð langt í að þessir orkugjafar geti talist jafn hagkvæmir eins og olíuafurðir, verður mjög áhugavert að heyra hvað fyrirlesarar á ráðstefnunni hafa að segja.

byd-f3dmSérstaklega er bloggið spennt fyrir því hvað boðskap talsmaður kínverska rafbílaframleiðandans BYD hefur fram að færa. Sá heitir Alex Zhu, en þetta makalausa kínverska fyrirtæki  gæti orðið helsti spútnikinn í rafbílavæðingu heimsins. Þarna í Shenzhen í SA-horni Kína hófu menn í árslok 2008 að bjóða fyrsta fjöldaframleidda tengil-tvinnbílinn. Sá er kallaður er BYD F3DM, en DM stendur fyrir Dual Mode.

Fyrirtækjaheitið BYD er sagt standa fyrir "build your dreams". Þetta er sannkallað risakompaní með um 130 þúsund starfsmenn! Og á sér stutta en merkilega sögu; dæmi um ameríska drauminn í Kína.

BYD_wang-chuanfuÞað var kínverski bóndasonurinn Wang Chuanfu  sem stofnaði BYD árið 1995 með peningum sem hann fékk lánaða frá ættingjum og vinum. Fyrstu árin einbeitti fyrirtækið sér að framleiðslu búnaðar fyrir farsíma og náði miklum árangri í að þróa endurhlaðanlegar rafhlöður í slíka síma. Rafhlöðurnar frá BYD eru nokkuð frábrugðnar hefðbundnari liþíum-jóna rafhlöðum, en reyndust svo vel að fyrirtækið varð á skömmum tíma einn stærsti farsímarafhlöðu-framleiðandi í heimi. Það er einmitt sú verðmæta tækni sem skapaði grunninn að því að BYD ákvað að hella sér í rafbílavæðinguna.

Framleiðslan á F3DM árið 2009 er sögð verða 350 þúsund bílar. Og BYD hyggst byrja bílasölu í Bandaríkjunum árið 2011. Það er ekki bara Orkubloggið sem er spennt fyrir BYD. Sjálf véfréttin frá Omaha - Warren Buffet- hefur keypt myndarlegan hlut í BYD. Buffet virðist hafa mikla trú á því að F3DM verði einn af fyrstu sigurvegurunum í rafbílavæðingunni sem senn mun fara af stað í Bandaríkjunum og víðar um heiminn.

Bissnessmódel Kínverjanna er svolítið spes. Í dag eru flestir bílaframleiðendur heimsins í reynd bara samsetningarverksmiðjur. En hjá BYD smíða menn hlutina sjálfir. Þarna er einfaldlega á ferðinni mjög óvenjulegt og forvitnilegt fyrirtæki.

Buffet_Electric_CarÞar sem rafbílavæðing er einn af hornsteinum orkustefnu Obama, eru gríðarleg tækifæri fyrir rafbílaframleiðendur í Bandaríkjunum. Nú standa stóru bandarísku bílarisarnir frammi fyrir því að Kínverjarnir nái forskoti á þeim risamarkaði. Þess vegna er nú hafið mikið kapphlaup í bransanum. Það ásamt ýmsum efnahagslegum hvötum kann að flýta fyrir því að rafbílavæðing verði loksins að veruleika.

Þarna er þó vissulega mikil óvissa uppi. En það væri risastór vinningur fyrir Ísland ef næðist að framleiða hagkvæman rafbíl. Þar með kæmist  umtalsverður hluti íslenska bílaflotans á innlent rafmagn. Þess vegna verður spennandi að fylgjast með þessari ráðstefnu Framtíðarorku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Þessa umræðu styð ég heilshugar. Í almennri umræðu hingað til er gengið útfrá því hvernig við getum virkjað mest til að selja ódýra orku til iðnaðar. Hér eru tækifæri bæði til að spara innlenda orku og nýta hana til sparnaðar. Tvær flugur í einu höggi. Einar Vilhjálmsson bloggari hér er til fyrirmyndar vegna áhuga og málefnalegrar framsetningar.

Gísli Ingvarsson, 10.9.2009 kl. 06:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband