Landsvirkjun laus úr tröllasal?

I.

Þegar Orkubloggarinn var snáði var einn föstu liðanna á dagskránni svohljóðandi: Alltaf á lokasprettinum þegar ég var á leið heim að Kirkjubæjarklaustri með foreldrum mínum úr kaupstaðnum (Reykjavík) þurfti ég að fá að heyra sömu frásögnina. Söguna um tröllskessuna í Holtsborginni sem fór að heimsækja vinkonu sína sem bjó austur í Orrustuhól. Skessuna sem sat of lengi yfir næturkaffinu hjá hinni ófrýnilegu vinkonu og varð að steini á heimleiðinni þegar fyrstu geislar sólarinnar birtust yfir Öræfajökli.

eldhraun_3Alltaf var þessi saga jafn skemmtileg og spennandi. Það var föst venja þegar komið var austur í Eldhraun og Holtsborgin kom í ljós, að þá minnti ég mömmu á tröllskessurnar og fékk söguna. Það stytti síðustu kílómetrana á grófum og seinförnum malarveginum uns Systrastapi blasti við rétt vestan við Klaustur. Og alltaf leið mér jafn vel að koma heim og vorkenndi vesalings börnunum sem bjuggu í kaupstaðnum!

Á þessari leið áður en komið er að Klaustri var ekið framhjá merkum raforkuslóðum. Vegna þess að bæði lá leiðin þá framhjá afleggjaranum að Svínadal vestan við Eldvatn og svo auðvitað framhjá Hólmi   í Landbroti. Á báðum þessum bæjum átti sér stað stórmerkilegt framtak, sem var þýðingarmikið skref á leið Íslendinga til nútímans og eins konar undanfari í rafvæðingu Íslands.

Þarna austur í núverandi Skaftárhreppi voru í áratugi smíðaðar túrbínur (hverflar) fyrir heimarafstöðvar bænda. Þetta ævintýri byrjaði löngu áður en íslensk stjórnvöld hófu af alvöru að reisa virkjanir. Lengi vel var Elliðaárstöð eina umtalsverða íslenska virkjunin (byggð 1920-21, með aflgetu upp á u.þ.b. 1 MW). Það var svo ekki fyrr en 1937 að Ljósafossstöð kom í gagnið (með tæplega 9 MW framleiðslugetu). Rafmagnið frá báðum þessum virkjunum var fyrst og fremst ætlað Reykvíkingum. Rafvæðingin á landsbyggðinni byggðist aftur á móti á framtaki hugvitsmanna í héraði, sem reistu heimarafstöðvar með skaftfellskum túrbínum víða um land. Það var svo loks á 6. áratugnum að almennileg hreyfing komst á virkjanaframkvæmdir stjórnvalda, þegar Írafossstöð og fleiri virkjanir voru reistar.

Svolitid_rafmagnVið byggingu heimarafstöðvanna fóru fremstir í flokki þeir Bjarni Runólfsson í Hólmi og Svínadalsbræðurnir Eiríkur og Sigurjón Björnssynir. Þetta voru miklir hagleiksmenn og nánast með ólíkindum hversu vel þeir náðu tökum á þeirri verklist að smíða túrbínur og setja upp virkjanir við jafnvel ótrúlega litla bæjarlæki.

Í dag er óneitanlega rólegra yfir þessum tveimur sveitabæjum heldur en var hér á árum áður þegar þetta voru sannkölluð tæknisetur. Svínadalur er kominn í eyði og í Hólmi er líkt og tíminn hafi staðið í stað í áratugi. Enn má þó sjá minjar frá þessum merku tímum bæði í Svínadal og Hólmi.

Svinadalur_jardbor_01Í Svíndal má líka ennþá sjá gamla jarðborinn í litla gilinu ofan við bæinn. Hvar Orkubloggarinn tók meðfylgjandi ljósmynd af bornum fyrir fáeinum dögum. Þessi heimasmíðaði jarðbor þeirra Svínadalsbræðra mun hafa verið notaður til að bora eftir vatni, en minnir mest á olíuborana frá fyrstu kynslóð olíualdarinnar vestur í Bandaríkjunum. Þeir Eiríkur og Sigurjón hefðu eflaust orðið olíubarónar, hefðu þeir fæðst vestur í Texas!

Margar af gömlu heimarafstöðvunum eru ennþá starfandi - aðrar hafa lokið hlutverki sínu. Stærri virkjanir þykja almennt hagkvæmari kostur í dag. Nefna má að þarna eystra er nú á dagskrá virkjun í Hverfisfljóti. Upphaflega var hún hugsuð sem nett rennslisvirkjun upp á örfá MW. En svo var gerð krafa um umhverfismat, sem er ansið kostnaðarsamt fyrir ekki stærri virkjun, og í framhaldinu var ákveðið að virkjunin yrði mun öflugri. Byrjað var að vinna út frá hugmynd um 15 MW virkjun, en á allra síðustu vikum hefur verið til skoðunar ennþá aflmeiri virkjun á vatnsaflinu í Hverfisfljóti. Þarna eru hugsanlega á ferðinni metnaðarfyllstu virkjanaáform einstaklinga á Íslandi. A.m.k. síðan Einar Ben og Fossafélagið Títan var og hét.

 

II.

Menn bíða enn eftir hvaða plön Landsvirkjun hefur vegna Skaftár. Eða eins og einn landeigandi í Skaftártungu orðaði það við mig nýlega: „Ef Landsvirkjun ákveður að virkja þá bara kemur hún og tekur landið sem hún vill af fólki og virkjar. Við fáum engu ráðið". Sennilega ekki óalgengt viðhorf gagnvart þessu mikilvæga fyrirtæki, sem hefur ekki beinlínis náð að starfa í sátt við umhverfi sitt. 

Thorolfur_ungurÞað verður spennandi að sjá hvernig nýr forstjóri mun móta ásýnd Landsvirkjunar. Þegar forstjórastaðan var auglýst um daginn, var Orkubloggarinn reyndar að vona að einhver alflinkasti, heiðarlegasti og mest sjarmerandi stjórnandinn úr verkfræðingahópi Íslands myndi sækja um starfið. Sem auðvitað er Þórólfur Árnason.

Orkubloggarinn minnist þess þegar Þórólfur - þá kornungur verkfræðinemi- dvaldi um skeið austur á Klaustri og var þar að skoða gömlu vatnsaflsvirkjanirnar sem hugvitsmenn í héraðinu smíðuðu á fyrstu áratugum 20. aldar. Þó svo skemmtilegast væri að sparka fótbolta með Þórólfi úti á túni (hann var ofboðslega flinkur með boltann) var samt líka gaman að lesa það sem hann skrifaði um muninn á Francistúrbínum, Kaplantúrbínum og Peltontúrbínum. Sem Skaftfellingarnir smíðuðu löngu áður en íslenska ríkið fór að huga að virkjun vatnsaflsins.

Í huga Orkubloggarans lauk þessum þætti eldhuganna í virkjanasögu Íslands að sumu leyti nú í sumar. Þegar minn gamli nágranni Jón Björnsson úr Svínadal lést í hárri elli, en hann bjó alla mína barnæsku ásamt Ingibjörgu konu sinni örstutt vestan við okkur; hinum megin við túnið. Þarna átti ég lengi heima undir hlíðinni á Kirkjubæjarklaustri - þar sem ilmurinn frá birkiskóginum er hvað sterkastur og hamingjusamur tjaldurinn vakti mann um bjartar sumarnætur með gleðiköllum sínum í ánamaðkaveislu á nýslegnu túni.

Klausturvirkjun_inntakslonJón var einmitt bróðir áðurnefndra Eiríks og Sigurjóns Björnssona úr Svínadal og var um áratugaskeið frystihússtjóri og umsjónarmaður heimarafstöðvarinnar á Klaustri. Vatnið í rafstöðina er tekið ofan af heiðinni úr Systravatni, en lítið inntakslón er þar við vatnið. Rörið liggur svo frá inntakslóninu og niður hlíðina á þeim slóðum sem göngustígurinn sveigist milli trjánna upp á fjallsbrúnina.

Fallhæðin er tæpir 80 metrar og lengd rörsins mun vera um 170 metrar. Þegar ég var lítill var skúrinn þar sem rörið kemur upp hjá inntakinu stundum ólæstur (hengilásinn brotinn). Þá freistaðist maður til að kíkja inn og horfa í sogandi hringiðuna, þar sem vatnið svolgraðast ofan í rörið. Og einstaka sinnum jafnvel feta sig eftir örmjórri steyptri bríkinni í kringum hringiðuna. Það var í senn dáleiðandi og ógnvekjandi.  "Hvað ef maður dettur!" Svo var hlaupið að sjálfu Systravatni og sullað þar í endalausri blíðu bernskuáranna.

Systrafoss_2Margir ferðamenn ganga á sumri hverju eftir stígnum í gegnum birkiskóginn og upp á fjallsbrúnina á þeim slóðum sem rörið liggur niður hlíðina. Þarna má í dag sjá glitta í hálfs metra breitt ryðlitt rörið undir mosanum efst í brekkunni ef vel er gáð. Þessar virkjunarframkvæmdir fóru fram á stríðsárunum - í upphafi 5. áratugarins. Mannvirkin eru sem sagt orðin hátt í sjö áratuga gömul. Sjálf túrbínan var smíðuð af Sigurjóni, bróður Jóns, og hefur snúist allan þennan tíma nánast viðhaldsfrí. Stöðin getur framleitt um 110 kW, en túrbínan mun vera ein sú stærsta sem smíðuð hefur verið á Íslandi. Sem sagt mikill merkisgripur.

Sjálft stöðvarhúsið liggur í gömlu húsaþyrpingunni sem sjá má við malarplanið vestast á Kirkjubæjarklaustri. Þar var jafnan mikill hávaði þegar maður leit við hjá Jóni og smurolíuangan í loftinu. Þaðan fengum við alla tíð rafmagnið heima hjá okkur. Jón var með litla afstúkaða skrifstofuaðstöðu inni í stöðvarhúsinu og ekki man ég betur en að þar hafi hann oft lumað á góðgæti handa okkur krökkunum. Og ég minnist margra ljúfra stunda sem smápatti heima hjá þeim Jóni og Imbu, hvar ég var svo oft í saltfiski í hádeginu á laugardögum og horfði á Stundina okkar á sunnudögunum. Alltaf notalegt að rifja upp þessar hlýju minningar.

 

III.

En aftur að Landsvirkjun. Orkubloggarinn hefur ekki hugmynd um hvort Þórólfur Árnason hafði áhuga á starfi forstjóra Landsvirkjunar. Enda var ekki gefið upp hverjir umsækjendurnir voru. En nú er alla vega búið að ganga frá ráðningu Harðar Arnarsonar  í starfið. Hann er líklega kunnastur fyrir það að hafa verið forstjóri Marel og nú síðast önnum kafinn við að bjarga því sem bjargað varð hjá sukkfyrirtækinu Sjóvá.

Holmur_taekiRifja má upp að í árslok 2006 varaði Hörður við peningastefnu Seðlabankans og stjórnvalda, sem hann sagði misheppnaða. Og þarna í desemberlok 2006 hafði Hörður einnig á orði, að íslenskir stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök þurfi að taka upp málefnalega umræðu um mögulega aðild Íslendinga að ESB og upptöku evru. Þessar varfærnu ábendingar Harðar um að ekki væri allt í stakasta lagi í íslensku efnahagslífi, í hinu alræmda áramótablaði Markaðarins við árslok 2006, eru athyglisverðar í ljósi þess sem nú hefur gerst. Orð hans voru óneitanlega nokkuð á skjön við hástemmdar yfirlýsingar og hlægilegt froðusnakk nánast allra annarra viðmælenda blaðsins um styrkar stoðir íslensks efnahagslífs og einstaka meðfædda ákvarðanasnilld Íslendinga. Vonandi mun Hörður áfram lesa glöggt í framtíðina og ná að stýra Landsvirkjun í farsæla höfn.

Systravatn_hvonnÞað sem er sérstaklega athyglisvert í sambandi við ráðningu Harðar sem forstjóra Landsvirkjunar, er að hann vann með Framtíðarlandinu. Sem fær suma virkjunarsinna til að sjá rautt. Þetta hlýtur að boða nokkuð afgerandi tímamót í sögu Landsvirkjunar. Að þar komi forstjóri, sem tengist þeim sem harðast hafa gagnrýnt Kárahnjúkavirkjun og ýmislegt annað í starfsemi Landsvirkjunar. T.d. hvernig fyrirtækið lét markaðssetja Ísland sem Álparadís með orkuútsölu, eins og lýst er í bók Andra Snæs.

Miðað við þann farsæla rekstur sem oft er sagður hafa einkennt flestar virkjanir Landsvirkjunar gegnum tíðina, er fjárhagsstaða fyrirtækisins í dag heldur nöturleg. Nú er svo komið að skuldir Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar gætu komið fyrirtækinu í veruleg vandræði. Reyndar ætti ríkið að hætta þessari vitleysu að gefa stóriðju afslátt  á grundvelli ríkisábyrgðar á virkjanaframkvæmdir. Ef raforkuframleiðsla fyrir stóriðju getur ekki staðið undir sér án slíkrar ábyrgðar, þá er eitthvað athugavert við bissness-módelið. Það er ekkert flóknara.

Hordur_Arnarson_4En hvað sem því líður, þá boðar aðkoma Harðar Arnarsonar vonandi bjarta tíma hjá Landsvirkjun. Og að fyrirtækið verði til framtíðar í ríkara mæli rekið í takt við bæði samfélagið og eðlileg viðskiptasjónarmið. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld líka að hætta með ríkisábyrgðina og láta Landsvirkjun að standa á eigin fótum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

fjallaði um síðustu færslu þína  á www.kristinnp.blog.is

Kristinn Pétursson, 9.11.2009 kl. 13:06

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Minni á að á fundi Viðskiptaráðs sem ég sat í aðdraganda kosninganna 2007 stóð Hörður upp og tætti niður fjármála- og virkjanastefnu Landsvirkjunar með sterkum rökum. Spennandi að hann skuli vera orðinn forstjóri fyrirtækisins.

Ómar Ragnarsson, 9.11.2009 kl. 15:40

3 Smámynd: Bjarni G. P. Hjarðar

Það verður að selja Landsvirkjun meðan hún er einhvers virði.

Bjarni G. P. Hjarðar, 9.11.2009 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband