Ylurinn frá Saudi Arabíu

Sádunum tókst að koma olíuverðinu aftur upp í 70 dollara. Með því að draga hressilega úr framleiðslunni. Þetta verð er viðmiðunin þeirra - ef verðið er lægra lenda þeir í halla á ríkissjóði. Svo bíða þeir bara eftir að kreppunni linni og munu þá horfa í að fá a.m.k. 90 dollara fyrir tunnuna.

al_naimi_bangHvatarnir að baki 70 dollara olíuverði eru reyndar margbreytilegri og flóknari en svo að þetta sé bara undir Sádunum komið. Olíuverð ræðst ekki bara af framleiðslumagni Sádanna og hinna ljúflinganna í OPEC. Inn í þetta spila fjölmörg önnur atriði; ekki síst sveiflur á dollar gagnvart öðrum helstu gjaldmiðlum og svo einnig hinn ægilega sveiflukenndi áhrifavaldur; spákaupmennskan!

Víða er fullyrt að það sé fyrst og fremst spákaupmennska sem valdi því að olíuverð hefur hækkað svo hressilega á ný. Það var komið niður í um 30 dollara tunnan fyrir nokkrum mánuðum Mögulegar ástæður fyrir miklum áhuga spákaupmanna á olíu nú um stundir eru eflaust af ýmsum og mismunandi toga. Sumir þeirra eru að veðja á að kreppunni muni brátt ljúka og olíueftirspurn þá aukast hratt með tilheyrandi verðhækkunum. Aðrir óttast verðbólgu og telja þess vegna sé best að koma aurunum sínum í hrávöru svo þeir brenni ekki á verðbólgubáli. T.d. setja peninginn í gull... eða olíu.

En hvað gerist ef snögglega mun draga úr ótta við verðbólgudrauginn? Eða upp komi vísbendingar um að enn sé langt í almennilegan efnahagsbata? Í báðum tilvikum gæti olíverð hreinlega hrunið. Í 30 dollara, 20 dollara, 10 dollara... Það er ekki víst að Sádarnir gætu gripið nógu fljótt inn í; það tekur dágóða stund að minnka framboðið til að vega upp á móti hratt lækkandi olíuverði. Þess vegna gæti olíuverð lækkað mikið og snögglega.

Saudi_Arabia_Oil_ShaybahFæstir virðast þó trúaðir á slíkt verðfall. Í flestum nýlegum könnunum þar sem „sérfræðingar" eru spurðir um olíuverð árið 2010 eru algeng meðaltöl í ágiskunum „sérfræðinganna" á bilinu 70-75 dollarar.

Orkubloggarinn er á því að þarna séu menn reyndar heldur bjartsýnir um stöðu efnahagsmála. Batinn í Bandaríkjunum er hugsanlega of hægur til að réttlæta núverandi verð. Og þar að auki er Kína ennþá með snert af efnahags-hiksta. Vissulega bendir tölfræðin til þess að Kína sé að rétta úr kútnum. En vegna þess hversu ástandið er viðkvæmt myndi Orkubloggarinn fremur veðja á að meðalverð olíu 2010 verði undir 70 dollurum. Nema ef Sádarnir draga meira úr framleiðslunni.

Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Óvissuþættirnir eru óteljandi. En það er athyglisvert að olíutunna upp á 70-90 dollara hefur þau áhrif að að draumurinn um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er fjær en nokkru sinni. Olíuverð yfir 50 dollara - tala nú ekki um 70 eða 90 dollara - gerir það nefnilega hagkvæmt að framleiða olíu úr ýmsum öðrum kolvetnisgjöfum. Jafnvel þó svo það sé orkufrek og dýr framleiðsla. Með olíverð hátt yfir 50 dollurum eins og nú er, er að verða ansið líklegt að senn muni framleiðsla á t.d. olíu úr kolum aukast umtalsvert. Hvernig heimurinn ætlar að höndla þá þróun og minnka kolefnislosun um leið, er vandséð.

Sasol_synfuelEn kannski skiptir litlu hvaða hagsmunir muni ná yfirhöndinni: Að Sádarnir fái sína 70 dollara fyrir tunnuna og ýti óvart um leið undir meiri framleiðslu á synfuel  og meiri losun gróðurhúsalofttegunda - eða að olíuverðið haldist lágt sem mun koma hjólum efnahagslífsins betur í gang með tilheyrandi aukningu á losuninni. Sama hvernig olíuverðið þróast mun kolvetnisbruni fara vaxandi. Við losnum aldrei við ylinn frá Sádunum og erum í reynd öll pikkföst í spennitreyju olíu, kola og gass.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband