Græna kolaorkulandið

Taugarnar voru þandar til hins ýtrasta í vikunni sem leið við hina vindbörðu strönd Jótlands í Danaveldi. Gott ef ekki mátti sjá svitann spretta fram á enni þeirra Friðriks Danaprins, Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og Anders Eldrup, forstjóra danska ríkisorkufyrirtækisins Dong Energi.

Wind_Horns_Rev2_1Þessi ljúfa þrenning var að víga stærsta vindorkuver heims á hafi úti. Það nefnist Horns Rev 2  og er glæsilegur skógur af 2,3 MW Siemens-vindrafstöðvum. Alls standa þarna 91 turnar u.þ.b. hundrað metra upp úr sjónum og aflið er samtals heil 209 MW. Fyrir er Horns Rev 1  á sömu slóðum með 160 MW uppsett afl. Samtals geta því allar þessar túrbínur við Horns Rev, nokkrar sjómílur utan við Esbjerg, fræðilega séð framleitt 369 MW. Sem er óneitanlega talsvert.

Þó verður að minnast þess að meðalnýtingin vindorkuvera er ekkert í líkingu við t.d. vatnsaflsvirkjanir. Vindurinn er óstöðugur orkugjafi. Raunhæft er að ætla að nýtingin hjá Horns Rev vindorkuverunum sé jafnvel innan við 1/3 m.v. uppsett afli. Þarna er meðalvindurinn um 10 m/s, sem er nokkuð gott en samt langt frá því sem skilar fullum afköstum.

Horns_Rev2_02Horns Rev 2var sem sagt formlega vígt fyrir fáeinum dögum. Það var Friðrik krónprins sem ýtti á start-takkann; einhverjir spaðar tóku að hreyfast en svo varð allt kyrrt. Líklega misstu einhver hjörtu slag þegar sekúndurnar liðu og allt virtist pikkfast - fólk var farið að gjóa augum hvert á annað með spurnarsvip. Þeim mun meiri varð gleðin þegar spaðarnir skriðu loksins af stað eftir u.þ.b. hálfa mínútu. Sumir segja að feginsbylgja hafi þá farið um viðstadda, enda talsvert í húfi.

Horns Rev 2 mun vera fjárfesting upp á 3,5 milljarða danskra króna, sem í dag jafngildir meira en 70 milljörðum ISK. Það er óneitanlega hressilegt þegar haft er í huga að líklega skilar þetta vindorkuver álíka mikilli raforku eins og 75 MW vatnsaflsvirkjun. Enn sem komið er eru þessi vindorkuver á hafi úti miklu dýrari en á landi. Næstum milljarður á megawattið!

Horns_Rev_mapDanir fögnuðu því líka nú í vikunni sem leið að öflugasta vindorkufyrirtæki Bandaríkjanna horfir til þess að framleiða stórar og öflugar vindrafstöðvar sínar í Danmörku. Af þeirri einföldu ástæðu að Danmörk sé líklega besta land Evrópu til að stunda slíka framleiðslu í.

Þar er á ferðinni GE Wind. Sem er eitt af fyrirtækjum General Electric. Rætur GE Wind liggja reyndar hjá Enron, sem hugðist á sínum tíma hasla sér völl í vindorkuiðnaðinum. Eftir gjaldþrot Enron keypti GE vindarm þessa alræmda spillingarfyrirtækis og breytti nafninu í GE Wind. Sá bissness hefur gengið blómlega undir merkjum GE, sem m.a. hefur horft mjög til markaðarins í Kína. Markmið ESB um að hækka hlutfall endurnýjanlegrar raforkuframleiðslu í 20% fyrir 2020 gerir Evrópu spennandi fjárfestingarkost fyrir GE Wind.

Danir eru eðlilega upp með sér yfir því að GE skuli vera skotið í Danmörku. Og það er kannski verðskuldað. Danmörk er það land sem hefur náð mestum árangri í að byggja stór vindorkuver á hafi úti. Enn er þó ekki endanlega víst að GE Wind velji Danmörku sem sinn nafla í Evrópu. Annað konunglegt eyríki gæti reynst ennþá meira spennandi í augum GE. Bretar hafa sett sér afar metnaðarfull markmið um uppbyggingu nýrra vindorkuvera og þar gætu reynst bestu tækifæri fyrir fyrirtæki í vindorkuiðnaðinum.

Jack-Steinberger_1Það er ekki alltaf meðvindur með danskri vindorku. Fyrr í þessum mánuði móðgaði hinn aldni Nóbelsverðlaunahafi Jack Steinberger alla dönsku þjóðina þegar hann lýsti því yfir að það sé nákvæmlega ekkert vit í vindorku. Vindorka geti aldrei orðið það umfangmikil að hún leysi kol og gas af hólmi svo einhverju nemi. Þar verði menn að horfa til sólarorkunnar.

Steinberger, sem fékk Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1988, veðjar sem sagt á sól og gegn vindi. Um leið lýsti hann frati á mikla uppbyggingu vindorkuvera í löndum eins og Danmörku, Bretlandi og Þýskalandi. Steinberger nýtur víða mikils álits og því var þetta talsvert sárt fyrir Dani og aðrar vindorkuþjóðir.

Vindurinn blæs sem sagt úr mörgum áttum. Hvort dönsk vindorka mun í framtíðinni njóta meðbyrs eða mótvinds verður barrrrasta að koma í ljós. Ennþá geta Danir a.m.k. glaðst yfir því að stærsta vindorkufyrirtæki heims er danskt. Þó svo markaðshlutdeild Vestas  í heiminum sé nú öllu minni en var fyrir fáeinum árum, er Vestas ennþá af flestum álitið fremsta vindorkufyrirtæki í heimi. Þann sess munu Danir auglýsa grimmt þegar athygli heimsins beinist að Kaupmannahöfn í vetur - þegar ríki heims munu reyna að koma sér saman um ný markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Það á að gerast á 15. fundi  aðildarríkja Loftslagssamnings(FCCC) í desember. Danir vona að þá muni ný tímamótabókun í alþjóðalögum líta dagsins ljós; Köben-bókunin sem leysi Kyoto-bókunina af hólmi. Og að vindorkan fái mesta athygli sem hinn græni framtíðarorkugjafi heimsins.

GE_EnergySamkeppnin í vindorkuiðnaðinum er gríðarlega hörð. Siemens hefur á síðust árum komið eins og hvirfilbylur inn á markaðinn með risastórar vindrafstöðvar sínar og nú hyggst GE  ná stærri sneið af kökunni. Þetta verður ekki auðveld barátta hjá Vestas, jafnvel þó svo fyrirtækið hafi breiðfylkingu danskra stjórnmálamanna á sínu bandi.

Í reynd er Danmörk eins og kleyfhugi þegar kemur að endurnýjanlegri orku. Vel hefur tekist til með danska vindorku og fyrir vikið líta bæði ríkisstjórnir og almenningur um víða veröld á Danmörku sem fyrirmyndarríki í grænni orku. Raunveruleikinn er samt svolítið svartari. Í reynd fá Danir langstærstan hluta raforku sinnar frá kolaorkuverum - og danska ríkisorkufyrirtækið Dong Energi  er bullsveitt við að reisa fjölda nýrra kolaorkuvera um alla Evrópu. Að auki dæla Dong og Mærsk upp ógrynni af olíu og gasi úr danska landgrunninu; þessi vinnsla er meiri heldur en nemur gas- og olíunotkun Dana sjálfra. Danir eru sem sagt olíuþjóð sem hefur sérhæft sig í kolaorkuverum. Engu að síður er orkuásýnd Dana græn í gegn! Þetta hlýtur að vera eitt besta dæmið um snilldar markaðssetningu.

Olafur_Ragnar_natturaÞað verður ekki af Dönum tekið; þeir eru seigir. Við ættum kannski að fá danska spunameistara til að lappa upp á skaddaða ímynd Íslands á alþjóðavettvangi?

Það verður að halda því á lofti að Ísland nýtur algerrar sérstöðu í orkumálum. Engin önnur þjóð á jafn geggjaða möguleika í hagkvæmri framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Vonandi kemur Ólafur Ragnar þessu til skila á orkuráðstefnunni í Washington DC nú í komandi viku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband