Drekinn mun snúa aftur

Er þetta í alvöru rétti tíminn að bjóða út leit á Drekasvæðinu? Tæplega."

Þannig sagði í einni færslu Orkubloggsins í janúar s.l. Bloggarinn taldi lágt olíuverð geta valdið áhugaleysi á Drekasvæðinu. Þó svo verðið hafi hækkað nú í sumar er samt ennþá mikil óvissa á markaðnum, þ.a. þessi röksemd er enn ekki orðin marklaus. Í febrúar bætti Orkubloggið um betur og varaði við því að fjármálakreppa væri afleitur tími fyrir slíkt útboð. Þar að auki væru óraunsæjar skattareglur í íslensku útboðsskilmálunum mögulega til þess fallnar að draga úr áhuga öflugra olíuleitarfyrirtækja á svæðinu. Sem sagt væri margt sem mælti með því að slá útboðinu á frest.

Aker_Sagex_logoSvo fór að einungis tvær umsóknir um leitarleyfi á Drekasvæðinu bárust áður en umsóknarfresturinn rann út í maí. Báðar frá minni spámönnum úr bransanum. Þegar það lá fyrir benti  Orkubloggið á að hvorugur umsækjendanna gæti talist áhugaverður. Og óneitanlega fylltist bloggarinn talsverðri kjánatilfinningu þegar iðnaðarráðherra lýsti  yfir ánægju sinni með niðurstöðuna og talaði um „stóran dag í íslenskri orkusögu". Þegar öllum sem til þekktu mátti vera ljóst að niðurstaða útboðsins var einfaldlega gríðarleg vonbrigði. En kannski var henni Katrínu Júlíusdóttur vorkunn; svona eiga pólitíkusar líklega að tala og fylla fólk bjartsýni á erfiðum tímum. Sannleikurinn er oft óttalega leiðinlegur.

Í sumar dró annar umsækjandinn umsókn sína til baka. Það var því miður áhugaverðari umsækjandinn; Aker Exploration. Og hefur hinn umsækjandinn sömuleiðis dregið sína umsókn til baka. Það var reyndar alltaf augljóst að Sagex  hefði vart nokkra burði til að fara í raunverulega olíuleit á Drekasvæðinu nema með aðkomu öflugra samstarfsaðila. Umsókn þeirra hjá Sagex var því frá upphafi afar veik og hefði væntanlega verið hafnað.

Áhugaleysið á Drekasvæðinu er m.a. komið til vegna alls þess sem Orkubloggarinn hafði varað við. Of háir skattar, erfitt árferði í að fjármagna leit á nýjum og áhættusömum olíusvæðum og óvenjumikil óvissa um þróun olíuverðs. Af samtölum sínum við hátt sett fólk hjá nokkrum öflugustu olíufyrirtækjum heims í djúpvinnslubransanum, verður bloggarinn þó að bæta hér einni ástæðu við: Allt of lítilli kynningu á Drekasvæðinu.

DrekasvaedidÁ allra síðustu árum hafa opnast möguleikar til olíuleitar á mörgum nýjum og mjög áhugaverðum olíusvæðum. Drekasvæðið er nýtt og lítt þekkt og er í samkeppni við ýmis önnur svæði þar sem leitaráhættan er mun minni og líkur á góðum ávinningi miklu meiri. Þar má t.d. nefna olíusvæðin utan við strendur Angóla og víðar við Vestur-Afríku, svæði í Kaspíahafi og í utanverðum Mexíkóflóa.

Til að vekja áhuga alvöru fyrirtækja í djúpvinnslubransanum þarf einfaldlega miklu meiri og betri kynningu á svæðinu. Stjórnvöld verða að horfast í augu við það að slíkt er bæði tímafrekt og kostar peninga. Það er út í hött að halda að menn geti fengið fyrirtæki til að leggja milljarða í olíuleit á Drekanum með nokkrum power-point kynningum á fáeinum olíuleitarráðstefnum. Þetta er erfið þolinmæðisvinna.

Hugsanlega hafa menn hér heima blindast af góðærinu, þegar þeir voru að undirbúa Drekaútboðið. Og haldið að Drekinn væri í augum allra æsispennandi - beztur í heimi - ekki síst þegar olíuverð rauk í næstum 150 dollara um mitt ár 2008.

Hvað um það. Verum ekki að nöldra yfir fortíðinni. Enda fyllsta ástæða til að brosa. Það er í reynd miklu betri niðurstaða að ekkert leitarleyfi sé gefið út á Drekasvæðinu, heldur en að gefa út leyfi til fyrirtækis sem myndi klúðra leitinni. Það hefði verið versta niðurstaðan.

Katrin_Juliusdottir_2Nú geta iðnaðarráðherra og Orkustofnun stokkað spilin upp á nýtt og horft björtum augum fram á veginn. Lært af reynslunni og undirbúið ennþá vandaðra útboð. Útboð sem mun skila alvöru umsækjendum, sem hafa mikla reynslu af olíuleit og vinnslu á erfiðum og djúpum hafsvæðum.

Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld m.a. að gæta þess að tímasetja útboðið vel. Þarna þarf bæði þekkingu og útsjónarsemi. Skynsamasti kosturinn væri auðvitað að ráða Orkubloggarann til að skipuleggja það ferli!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Halldórsson

Þarf ekki olíuverð að vera í sæmilegri þriggja stafa tölu  til að menn taki við sér   ?

Hörður Halldórsson, 23.9.2009 kl. 21:18

2 identicon

var ekki líka verið að bjóða RISUNUM í Íraskar auðlindur á sama tíma ? þar sem beðið er í röðum eftir þeim gígatísku lindum ?

annað með okkur og Olíu , tekur því ? munu ekki líða eitthver 30-40 ár þar til Drekinn skilar af sér ? svo um það leiti þegar olía hefur fallið vegna þass að þá verður loksinns komin lausn á samgöngum jarðar ? búin að banna mikið magn af plast efnum og ýmislegt sem lækkar ávinninng olíuvinslu verulega.

ég held að mun meiri ávininngur fást meða að sameinast Nor-Fær og Grænlandi til að verja norður norður atlandshafið fyrir öllum mögulegum mengunnarvöldum, og td einbeita okkur að sjáfarfalla virkjunum ?

en gefa þá afstöðu okkar skíra að við sniðgöngum mengunnar möguleikana, það er neffnilega veruleg lífríkisógn af olíu vinnslu og fluttningum. svo ekki séu nú nefndar olíuhreynsistöðarnar sem þarf að reysa nálægt byggðum landsinns.

og því td munum við gjaldfella þá Grænu orku sem búið verður að finna leið til að miðla um allan heim eftir þennan árafjölda, hvernig veit ég ekki en mikið verður breytt eftir 30-40 ár og þótt við förum ekki nema 10 fram í tíman þá erum við að horfa á gífurlegar breytingar miðað við nútíman. 

Grétar Eir (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 07:34

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Ég er þér afar sammála um það að betri niðurstaða er að frá sé horfið en að skjóta framhjá sökum umkomuleysis of lítils aðila. Skýringin um að skattarálögurnar hafi skýrst nánar í ferlinu eru etv. sannar, en ótrúverðugar samt.

Væri það í mínu valdi fengir þú starfið

Haraldur Baldursson, 24.9.2009 kl. 08:18

4 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Það er sennilega hárrétt ábending í athugasemd hér að ofan að lítið mun þýða að bjóða Drekasvæðið út fyrr en bransinn verður endanlega farinn að trúa því að verðið eftir 10-15 ár verði a.m.k. 100 dollarar tunnan m.v. núverandi verðlag. 

Og þó svo margir og jafnvel flestir séu kannski farnir að trúa því, er ennþá mikil óvissa uppi og enn mikið af öðrum áhættuminni vinnslusvæðum í boði.

Þar að auki eru sumir sem telja að olíueftirspurn í Bandaríkjunum hafi náð hámarki (peak oil demand). Og að eftirspurnin frá Kína muni jafnvel ekki vaxa eins hratt og hún dragist saman vestra. Gangi slíkar spár eftir er óvíst að olía hækki jafn mikið eins og sumir hafa verið að spá. Þess vegna eru margir í bransanum, sem telja rétt að staldra aðeins við með að fara í ný og áhættusöm svæði.

Ketill Sigurjónsson, 24.9.2009 kl. 09:22

5 Smámynd: Haraldur Baldursson

Ég hef að vísu gælt við það í huganum að tala við Kínverja...selja þeim réttinn (með skilyrðum um umgengni o.s.fr.v). Þeir eru á fullu í því að nota Dollarasjóði sína í að kaupa upp málma unna og óunna. Miðað við bjartsýnustu spár var gengið ú frá 20 milljarða tunna (sem sjálfsagt er afar bjartsýnt). Ef við fengjum 1% af því að selja vinnsluréttinn gerði það 17 þúsund milljaðra (miðað við $70/tunna).
Þó það sé mikið hugarflug er gaman að velta þessu fyrir sér :
http://haddi9001.blog.is/blog/haddi9001/entry/890568/

Haraldur Baldursson, 24.9.2009 kl. 09:42

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Kínverjar á orkuveiðum - færsla frá 28. ágúst:
http://askja.blog.is/blog/askja/entry/935849/

"Hér heima á Klakanum góða er fólk eitthvað að rífast út af því að verið sé að selja útlendingum orkuauðlindir landsins. Það sorglega er að upphæðirnar sem þar er verið að tala um eru soddan tittlingaskítur. Í stað þess að vera að eyða tíma í þennan kanadíska Silfurref  frá Magma Energy og aurana sem hann þykist ætla að borga fyrir HS Orku, væri nær að gera þetta almennilega. Munum hvað Kínverjar eru hrifnir af drekum. Nú er barrrasta að nota tækifærið og einfaldlega selja þeim vinnsluréttindin á Drekasvæðinu.

Verðið fyrir Drekann íslenska? Til dæmis sama upphæð og Kínverjarnir borga fyrir ástralska gasið frá Gorgon-lindunum: 40 milljarðar dollara. Það eru rúmir 5 þúsund milljarðar ISK á druslugengi dagsins. Ætti að bjarga okkur yfir versta hjallann eftir dýrasta viðskiptaævintýri sögunnar."

Ketill Sigurjónsson, 24.9.2009 kl. 16:14

7 Smámynd: Haraldur Baldursson

Ketill myndi ekki bein sala að nýtingunni, með lágri prósentu af verðmætum (tunnum) umfram ákveðið magn vera leiðin. Uppboð jafnvel ? [svo setur maður í textann alltaf umhverfis-sjónarmið og gæðakröfur...]

Haraldur Baldursson, 25.9.2009 kl. 10:44

8 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Mikið er ég fegin að ekkert varð af olíuævintýri að sinni. Ef olía er þarna þá er hún ekki á förum en vonandi er margt að skírast um það hvernig fólk leysir orkuvandann í framtíðinni. Sjálfri finnst mér að allt eigi að nýta sem hugsanlega hægt að nýta á hverjum stað fyrir sig.

Af hverju er metangas brennt þar sem sorp er urðað, þó það séu líka til sölustaðir fyrir það? Ættu sveitarfélögin ekki að sjá hag sinn í að láta eigin bilaflota og vélar nota metan?

Skyldu bílar Lýsis hf. ennþá ganga fyrir fiskiolíu.

Hólmfríður Pétursdóttir, 25.9.2009 kl. 13:39

9 Smámynd: Björn Emilsson

Fór í kjörbúðina í dag, sem ekki er í frásögu færandi. Keypti norskar lýsispillur... PCB/Heavy Metal Free. varan heitir Norwegian Cod Liver Oil. Mér hefur ekki tekist að finna islenskt lýsi eða lýsispillur. Haldið er fram að lambakjöt sé hollast kjöt. Ekkert íslenskt lambakjöt að fá hér í westrinu, frekar en aðrar íslenskar vörur. Harðfiskur er sú fiskvara sem sem mest selst í heimi hér. Eg reyndi að selja íslenska skreið í Chicago, frábæra vöru frá Vestfjörðum. Tilraunin mistókst. Norðmenn sátu að þeim markaði, eins og lýsispillunum . Ný Sjálendingar sjá mönnum fyrir lambaketi og hafa varla undan. Smáglæta er þó í sölu a islenskum fiski. United Gorcers hafa í mörg ár selt fisk frá Iceland Seafood á Austurströndinni. Fimm punda ýsan hefur ferið vinsælust, en hefur ekki sést hér í langan tíma.

Þessi skrif eiga kannske ekkert erindi í umræður um stórvirka olíuvinnslu á Drekanum. En ég held að islendingar geti unað glaðir við sitt, unnið sína olíu úr þorskalifur og boðið mönnum uppá harðfisk og úrvals náttúruvænt lambakjöt, ásamt öðrum gæðavörum, svosem tömötum og öðru grænmeti. Skolað svo góðgætinu niður með hreinu íslensku vatni, þeirri einu vöru íslenskri sem sést hér í verslunum.

Björn Emilsson, 27.9.2009 kl. 04:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband