TvöfaltWaff

Ali_Jungle_2Eftir snöggt hægri handar högg lætur ægilegur boxari gjarnan fylgja þungan vinstri. Eða öfugt. Stundum reynist þetta rothögg. Er þetta líka að gerast í efnahagslífinu? Er ný niðursveifla á hlutabréfamörkuðum á næsta leiti? Eða ný afskriftarbylgja? Og dollarinn kannski að falla fram af bjargbrúninni? Kannski. Kannski ekki.

Í sumar virtist sem aukin bjartsýni breiddist út á fjármálamörkuðunum. Menn voru farnir að brosa að nýju á Wall Street og víðar. Hlutabréf hækkuðu umtalsvert í verði og margir „sérfræðingar" sögðu kreppuna hafa náð botni og að bati væri innan seilingar. Olíuverð hækkaði um 50% á nokkrum mánuðum og virðist ekkert ætla að gefa eftir þrátt fyrir að birgðageymslur séu orðnar troðfullar. Og Orkubloggarinn virðist satt að segja hafa verið hálf utangátta í varkárni sinni.

Recovery_shapeBjartsýnismennirnir segja þetta vesen frá síðasta vetri hafa verið dæmigerða snögga V-laga kreppu og að ný uppsveifla sé nú byrjuð. Meira að segja sumir þeirra sem töldu þetta verða U-laga kreppu hafa eftir því sem leið á sumarið færst nær Vaffinu. Jafnvel Bölmóðarnir sem hafa boðað langvarandi L-laga kreppu hafa snúið baki við svartsýninni og byrjað að nálgast U og eru þar með ekki jafn fjarri Vaffinu eins og var.

Var þetta þá bara skammvinn V-laga kreppa? Orkubloggarinn hefur ekki aldeilis verið á því - heldur miklu fremur að í þetta sinn verði það tvöfaldavaffið sem muni hafa yfirhöndina. W-laga kreppa! Að önnur mjög slæm niðursveifla sé yfirvofandi. Við erum enn stödd útí hringnum og Ali heldur áfram að berja á okkur - leiftursnöggur og fallegur.

Orkubloggarinn er vanur því að vera svolítill lóner; á skjön við skoðanir hins háværa fjölmiðlaflugnagers.  En á síðustu dögum hefur reyndar skyndilega borið talsvert á röddum í fjölmiðlum sem virðast sama sinnis og bloggarinn! T.d. mátti á mánudaginn sem leið, lesa viðvörunarorð frá Michael Geoghegan, forstjóra risabankans HSBC. Hann varar nú við „ second economic downturn" sem muni kalla á ennþá meiri afskriftir og ennþá meira tap hjá bönkum heimsins.

Aðrir eru farnir að verða kvíðnir yfir því hvað muni gerast þegar áhrif fjármálainnspýting Bandaríkjastjórnar fer að fjara út. Hún hafi eðlilega haft jákvæð áhrif á markaðina, en nú virðast æ fleiri farnir að efast um að raunverulegur bati sé í sjónmáli. Jafnvel þó svo Bernanke og fylgismenn hans tali um að botninum sé náð og hananú.

meredith_whitney_2Þetta er þó ekki það sem Orkubloggaranum þykir skuggalegast. Heldur það að fyrir rétt um viku síðan geystist stjörnufjármálastelpan Meredith Whitney  enn á ný fram á skjánn og fullyrti að nú sé önnur gríðarleg afskriftarbylgja u.p.b. að skella á bandarísku efnahagslífi.

Varnaðarorð hinnar fertugu Meredith Whitney beinast að þessu sinni ekki síst að krítarkortaskuldunum - og fá marga til að sperra eyrun. Meredith varð nánast heimsfræg á einni nóttu í fjármálaheiminum í vetrarbyrjun 2007 þegar hún spáði djarflega en af fullu sjálfsöryggi fyrir um yfirvofandi stórvandræði hjá Citigroup- aðallega vegna vaxandi vanskila á húsnæðislánaum. Þegar sú spá gekk eftir var fjárhagsleg framtíð Meredith sem snilldarráðgjafa tryggð.

Einnig var hún var dugleg að hamra á þeirri skoðun sinni, að viðskiptavild hafi afbakað efnahagsreikninga margra fyrirtækja og búið til massíva hlutabréfabólu byggða á sandi og lélegri dómgreind stjórnenda fjármálafyrirtækja. Hún reyndist svo sannarlega sannspá.

Nú spáir Meredith Whitney því að næsta holskefla skelli senn á bandarísku fjármálalífi. Að innan ársloka 2010 þurfi bandarísk fjármálafyrirtæki að afskrifa 1.500 milljarða USD vegna kreditkortaskulda. Það muni höggva enn meira í bandaríska bankakerfið, sem rétt er að byrja að jafna sig eftir afskriftir á húsnæðistengdum verðbréfum.

Orkubloggarinn er á því að fjármálaheimurinn og aðrir eigi að hlusta á þessar viðvaranir. Enda er bloggarinn svolítið veikur fyrir Meredith, sem hóf starfsferil sinn hjá fjármálafyrirtækinu Oppenheimer, sem ráðgjafi á sviði olíu- og gasiðnaðarins. Þar reyndist hún ansið slyng að sjá fyrir markaðsþróunina.

Meredith_Whitney_Fortune_CoverÍ dag rekur Meredith sitt eigið fyrirtæki; Meredith Whitney Advisory Group. Og hefur það mikla vigt að viðtöl við hana í fjölmiðlum hafa bein og umtalsverð áhrif á hlutabréfaverð þeirra fyrirtækja sem hún gefur álit sitt á. Fjölmiðlarnir elska það sem stundum er kölluð grimmd eða miskunnarleysi Meredith - en er auðvitaða bara hreinskilni. Þann 18. ágúst 2008 komst hún á forsíðu Fortune  þegar hún boðaði æpandi svartsýna spá sína um stöðu nokkurra stærstu banka Bandaríkjanna. Varla var mánuður liðinn frá þeirri forspá Meredith þegar Merrill Lynch og Lehman Brothers riðuðu skyndilega til falls. Sem hafði víðtæk áhrif og svipti m.a. hulunni af íslensku bankaræningjabælunum.

Fortune notaði auðvitað tækifærið til að selja aðeins fleiri eintök af sjálfu sér og útnefndi Meredith eina af fimmtíu „Most Powerful Women in Business" jafnskjótt og Lehman var fallinn. Það er einungis ein af ótalmörgum viðurkenningum sem rignt hefur yfir stelpuna síðasta árið. Og hún virðist svo sannarlega eiga heiðurinn skilinn. En nú talar Meredith sem sagt fyrir Waffinu. W-laga kreppa! Ekki beint gæfulegt ef satt reynist.

Orkubloggarinn er þannig gerður að hann telur sérstaklega mikilvægt og árangursríkt að hlusta á klárar konur. Konur hafa eitthvað töfrainnsæi sem okkur karlana skortir. Það er a.m.k. trú bloggarans og varla neitt „verri trú en aðrar trúr". Þess vegna er Orkubloggarinn satt að segja skíthræddur um að Waffið sé óumflýjanlegt.

Saxo_foundersLíklega eru strákarnir hjá danska töffarabankanum Saxo sama sinnis. Því þeir eru nýbúnir að gefa út þá yfirlýsingu að hlutabréf séu nánast holdsveik þessa dagana. Að koma inn á hlutabréfamarkaðinn núna sé það vitlausasta sem fjárfestar geti gert. Þar sé nefnilega önnur djúp niðursveifla yfirvofandi. En hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá...!

Þetta lítur ekki alltof vel út. Nú síðast í dag var haft eftir Karlinum Ichan að ný dýfa sé leiðinni og "blóðbað" sé yfirvofandi. Það er sem sagt barrrasta allt í einu eins og skoðanir Orkubloggsins njóti grunsamlega mikils fylgis. Það eitt út af fyrir sig er kannski svolítið skuggalegt. En bloggarinn er sem sagt farinn að búa sig undir waffið.

Kronan_sekkurStóra spurningin er bara hvað maður á að sjorta. Bankahlutabréf? Olíu? Endurnýjanlega orkugeirann? Dollarann? Það er a.m.k. líklega alltof seint að fara að þeim góðu ráðum, sem kunningi Orkubloggarans búsettur í Texas, gaf bloggaranum um mitt ár 2008: "Shorten Iceland!"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fléttan, sem þú talar um er nefnd 1-2 í hnefaleikum og oftast er hún þannig að fyrst kemur bein vinstri og síðan hægri á eftir.

Ali, á myndinni hér að ofan, sést koma með langan "hægri-kross" eða "yfirhandar hægri" eftir atvikum á eftir beinni vinstri á undan.

1-2 af þessu tagi færði til dæmis Ingemar Johansson heimsmeistaratitil 1959 og rak endahnútinn á sigur Lennox Lewis yfir Mike Tyson 2002.

Oft eru flétturnar lengri. Muhammad Ali notaði tólf högga fléttu á 2,9 sekúndum til að afgreiða Brian London 1966 með lokahöggi, sem var yfirhandar hægri í kjölfar ellefu högga á undan sem opnuðu leiðina fyrir lokahöggið.

Ómar Ragnarsson, 10.10.2009 kl. 16:11

2 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég veit náttlega ekkert um box - en rosalega var "Rumble in the Jungle" skemmtileg mynd.

Ketill Sigurjónsson, 10.10.2009 kl. 16:13

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Myndin sú hét reyndar "When We Were Kings".

Ketill Sigurjónsson, 10.10.2009 kl. 16:21

4 identicon

Ég er algerlega sammála.  Reyndar ertu ekki einn.  Ég er t.a.m. skoðanabróðir þinn, Peter Schiff, Nouriel Roubini, og um tíma Paul Krugman.  Wolfgang Munchau trúir á L-laga kreppu, og flestir sjálfsstæðir hagrýnar, einkum í vogunarsjóðum, reikna með annarri og jafnvel alvarlegri kreppu.  Deiluefnið er meira hvort óðaverðbólga eða verðhjöðnun verði ofan á.

Gunnar Kristinn Þórðarson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 17:03

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég minni á að árið 1938 kom niðursveifla í bandarísku efnahagslífi þegar áhrif aðgerða New Deal fóru að fjara út.

Vopnakapphlaupið í Evrópu sem hófst fyrir alvöru 1939 virkaði sem vítamínsprauta fyrir Bandaríkin sem voru skilgreind sem "Arsenal og the Democrazy" eða vopnabúr lýðræðisins.

Ómar Ragnarsson, 10.10.2009 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband