Orkuskattar

Nú hefur umræða um auðlinda- og umhverfisskatta sprottið upp í þjóðfélaginu. Sbr. t.d. þessi forvitnilega grein eftir Jón Steinsson, hagfræðing. Það eru þó sérstaklega orkuskattar sem stjórnmálamönnunum þykja spennandi, enda ein af þessum einföldu leiðum til að fá glás af viðbótarpening í ríkiskassann.

Straumsvik_raflina_masturSjálfur hefur Orkubloggarinn talið vera ýmsar vísbendingar um að álfyrirtækin séu að fá raforkuna á óeðlilega lágu verði og orkulindirnar ekki að skila þjóðinni þeim arði sem eðlilegt væri. En er rétta leiðin til að laga þetta, sú að leggja nýjan "orkuskatt" á stóriðjuna?

Nú vill svo til að stóriðjan er ekki sjálf í auðlindanýtingu hér á landi. A.m.k. ekki enn sem komið er. Það eru Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki sem nýta orkulindirnar og selja raforkuna. Ef leggja á nýjan "orkuskatt", er kannski eðlilegast að sá skattur leggist á þá sem fá að virkja orkuna! Slíkar álögur myndu svo vissulega enda á kaupendum raforkunnar í formi hærra raforkuverðs.

Rafmagnið er ekki aðeins selt til stóriðjunnar, heldur að sjálfsögðu til annarra fyrirtækja og alls almennings. Ef umræddur "orkuskattur" á að vera sérsskattur sem leggst á orkukaupendur er þetta einfaldlega sama og hækkun á raforkuverði.

Það er sem sagt nokkurn veginn sama hvernig pólitíkusarnir útfæra "orkuskatt". Hann merkir í raun hærra raforkuverð. Og kannski væri hið besta mál að orkukaupendur og þó einkum stóriðjan borgaði eitthvað meira fyrir raforkunotkun sína.

jon_SteinssonOrkubloggarinn tekur að mestu undir orð Jóns Steinssonar á Deiglunni.  En bloggarinn óttast samt að orkuskattur yrði einfaldlega skref að nýrri og lúmskri leið ríkissjóðs að því að skattleggja landsmenn í stórum stíl. Fáum við bráðum öll nefskatt sökum þess að við megum ganga um landið, drekka vatn úr læk eða fyrir að anda frá okkur hinu ógurlega koltvíildi? 

Bloggarinn aðhyllist fyrst og fremst einfalt skattkerfi. Og fær grænar bólur þegar ríkið hleður endalaust nýjum sköttum í fjárlögin, með þeim afleiðingum að öll yfirsýn hefur glatast og skattkerfið orðið ruglingskennt og æpandi ósanngjarnt. Hugmyndin um auðlinda- og umhverfisskatt er áhugaverð - en getur jafnframt verið varhugaverð vegna hættunnar á að henni verði misbeitt.

Gagnvart stóriðjunni hlýtur aðalatriðið að vera sanngirni. Að stóriðjufyrirtækin greiði eðlilegt verð fyrir raforkuna og eðlilega skatta af tekjum sínum - frá upphafi. En ekki að mislukkaðir stjórnmálamenn dulbúi íslenska orkulindir eins og ódýra mellu til að laða stóriðju að landinu - afsakið orðbragðið - og laumi svo nýjum "sköttum" inn á fyrirtækin. Það er einmitt sú bútasaums-skattastefna sem við ættum að forðast. Einfalt, skiljanlegt, sanngjarnt og tiltölulega stöðugt skattkerfi, vinsamlegast.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

& dittó, eftir efninu.

Steingrímur Helgason, 9.10.2009 kl. 00:19

2 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Já það er erfitt að skilja þessa pólitíkusa og alla þeirra óransakanlegu vegi.

Einu sinni var settur á skattur á bensín sem átti að fara til vegagerðar, það eru allir búir að gleyma því, en skatturinn er enn til staðar, svo voru sett á fasteignagjöld tila að standa undir kostnaði sveitarfélaga af sorphirðu og annari þjónustu vegna fasteigna, svo kom bara nýtt sorphirðugjald þó þjónustan hefði ekkert breyst. Og svo koll af kolli.

Sorphirðu gjaldið er nú nokkurs konar umhverfisskattur, eða gjald fyrir að bæjarfélögin halda umhverfinu hreinu.

Hvers vegna að koma með nýjan umhverfisskatt?

En svo kom stóra plottið "koltvíildis skattur" Til hvers skyldi hann nú vera?

Minnka útblástur CO2

Eða gera þeim einum kleift að stunda stóriðju sem eiga peninga.

Ég sé ekki fleiri möguleika, og ég hallast að þeim síðari.

Nú er ekki nóg að eiga orku , þú þarft líka að eiga losunarheimild.

Og hverjir koma til með að eignast þær.

Þið megið geta tvisvar.

Lönd í Afríku og á Norðurhjara sem eiga orku?

Eða Bankar og stórfyrirtæki.?

Sigurjón Jónsson, 9.10.2009 kl. 12:10

3 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Ekkert hræðir erlend fyrirtæki frá fjárfestingum í öðrum löndum en óvissa í skattamálum.  Það er engin furða að Írar í sínu fjárlagafrumvarpi hreyfðu ekki við fyrirtækjasköttum einmitt af ótta við að það fældi erlenda fjárfesta frá landinu. 

Eðlilegt verð fyrir orkuna verður að fást með samningum en ekki skattlagningu.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 9.10.2009 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband