Funheit íslensk jarðhitaþekking í US

Einn hinna föllnu íslensku banka, Glitnir, lagði lengi vel áherslu á málefni sem Íslendingar þekkja vel. Fjármálaþjónustu á sviði sjávarútvegs og jarðhita.

Það var skynsamleg strategía hjá Glitni. Því miður þróaðist bankinn útí tóma vitleysu og féll. En Glitnir náði engu að síður að skapa sér merka sérstöðu, ekki síst í jarðhitanum. Það er sama hvar borið er niður í bandaríska jarðhitaiðnaðinum; jarðhitateymi Glitnis naut bersýnilega talsvert mikils álits í jarðhitageiranum vestra.

Glacier_BannerEftir að bankinn féll var þessi jarðhita-armur Glitnis seldur og í dag hefur fyrirtækið Glacier Partners  yfirtekið það hlutverk sem Glitnir hafði skapað sér í Bandaríkjunum. Ekki er Orkubloggaranum kunnugt hver er eigandi Glacier Partners, en fyrirtækið tengist Capacent á Íslandi og þar fer fremstur í flokki Magnús Bjarnason, sem áður var hjá Glitni.

Þess má geta að Orkubloggarinn varð nokkuð undrandi yfir því að Orkuveita Reykjavíkur skyldi ekki fá Glacier Partners til að matreiða hlut OR í HS Orku fyrir fjárfesta. Sú vinna kom í hlut Arctica Finance, sem mun eiga rætur sínar í gamla Landsbankanum. Magnús og félagar hljóta að hafa mun betri sambönd í jarðhitageiranum heldur en strákarnir hjá Arctica Finance - og Glacier Partners því væntanlega mun líklegri en Arctica til að geta fundið fleiri áhugasama kaupendur.

Pritchard Capital Partners LogoReyndar má nefna að Glacier Partners tengist bandarísku ráðgjafafyrirtæki sem heitir Pritchard Capital Partners, en það fyrirtæki vann einmitt að hlutafjárútboði Magma Energy  s.l. sumar. Svona er þetta nú lítill heimur. Skemmtilegt. Og Glacier Partners unnu einmitt með Pritchard að því þegar Magma keypti fyrst hlut í HS Orku af Geysi Green Energy í sumar. Þeim mun undarlegra að þeir hafi látið Arctica hreppa stóra dílinn nú í haust. Hlýtur að hafa verið smá spæling fyrir Jöklafélagana.

us_geothermal_potentials_2Hvað um það. Bandaríski jarðhitageirinn virðist fylgjast vel með því hvað Glacier Partners (GP) eru að bauka. Í gær birti hinn nýstofnaði jarðhitavefur Geothermal Digest  t.d. frétt um nýútkomna skýrslu GP um það sem við getum kallað hagfræði jarðhitans. Sjálfir nefna þeir hjá GP útgáfu sína Geothermal Economics 101, en þar er einfaldlega útskýrt hvað það kostar að byggja jarðhitavirkjun og hvaða arðsemi megi vænta af slíkri fjárfestingu.

Þar er lýst kostnaði á 35 MW jarðhitavirkjun, sem byggir á því sem Orkubloggarinn kallar varmaskiptatækni upp á íslensku (binary cycle). Þessi stærð er sögð vera meðalstærðin á dæmigerðu jarðhitaverkefni vestra. Í þessari stuttu en hnitmiðuðu úttekt eru forsendurnar vel útskýrðar og sömuleiðis sú óvissa sem gera verður ráð fyrir. Forsendur GP eru sagðar taka tillit til reynslunnar af jarðvarmavirkjunum í Nevada, en lesendur Orkubloggsins geta sjálfir nálgast umrædda úttekt á vef fyrirtækisins.

Orkubloggarinn hefur í gegnum tíðina lagt talsvert mikla vinnu í að setja upp módel fyrir hina ýmsu virkjunarkosti. En er ekki jafn gjafmildur eins og GP og hefur haldið þeim úttektum fyrir sjálfan sig. Bloggarinn telur sig hafa góðan samanburð á því hvaða virkjanakostir eru hagkvæmari en aðrir. Þó svo slíkir útreikningar séu jafnan háðir mikilli óvissu, gefa þeir samt þokkalegan samanburð. Og þetta er satt að segja ákaflega skemmtilegt og áhugavert rannsóknaefni.

Geothermal_NevadaJarðhitinn kemur vel út í slíkum samanburði. En ef kostnaðarlækkanir verða áfram jafn hraðar í vindorkunni, eins og verið hefur undanfarin ár, gæti vindorkan jafnvel þótt álitlegri fyrir áhættufælna. Ef hinir sömu treysta blint á uppgefnar meðaltölur um vindstyrk og nýtingu vindrafstöðvanna! Enn sem komið er, eru einungis tvær tegundir endurnýjanlegrar orku fjárhagslega skynsamar; jarðvarmi og vatnsafl. En vindorka og ekki síður CSP-sólarorkuver eiga mikil framtíðartækifæri.

Í þeim mikla gagnahaug sem bloggarinn hefur pælt í gegnum, er því miður fremur óvenjulegt að sjá jafn skýra framsetningu eins og í umræddri úttekt Glacier Partners. Hversu rétt þar er farið með tölur verður hver að meta fyrir sig. En þessi úttekt GP verður vonandi til þess að vekja enn meiri athygli á fyrirtækinu hjá jarðhitageiranum vestra.

Þar eru mikil tækifæri; jarðhitinn er einn af þeim virkjunarkostum sem njóta góðs af umtalsverðum fjárstuðningi  Obama-stjórnarinnar til endurnýjanlegrar orku. Þess vegna kann að verða fjárfest talsvert mikið í nýjum jarðhitavirkjunum í Bandaríkjunum á komandi árum. Vonandi mun íslensk þekking njóta góðs af þeirri þróun.

CSP_Spiegel_1Og ef Glacier Partners vilja bæta öðrum geira endurnýjanlegrar orku við sig, væri besta ráðið líklega að fókusera einnig á CSP. Sá iðnaður byggir á vel þekktri og tiltölulega einfaldri tækni - en hefur engu að síður fallið í skuggann af vindorkunni og rándýrri PV-vitleysunni.

Segja má að CSP-tæknin sé ekki jafn fjarskyld jarðhitanum eins og ætla má við fyrstu sýn. Þarna er nefnilega búið til gufuafl - með aðstoð sólar. Jarðhitinn hefur það umfram CSP að vera í gangi allan sólarhringinn, en þetta hefur verið leyst með því að geyma sólarhitann í saltlausn og nota hann svo eftir sólarlag. Vegna nýrra fjöldaframleiddra parabóluspegla, hagstæðra skattareglna í löndum eins og Spáni og Ítalíu og orkustefnu bæði ESB & Obama, er líklegt að CSP verði sú orkutækni sem vaxa mun hraðast á næstu árum. En það er auðvitað allt önnur saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

Flott grein og áhugaverð. Vert að rýna Excel skjalið frá þeim GP...

Haraldur Baldursson, 17.10.2009 kl. 09:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband