Biocrude: Orkusjálfstætt Ísland

Það er athyglisvert að öll íslensku olíudreifingarfyrirtækin hafa "valið" sér framtíðareldsneyti. Skeljungur tók þátt í vetnisverkefni, OLÍS ætlar að vinna með CRI að metanóleldsneyti  og N1 er bæði í metanævintýrinu og að vinna með fyrirtæki í Sandgerði að því að umbreyta fiskúrgangi í lífdísil.

Þetta er allt saman afskaplega áhugavert. Enda myndi skipta miklu máli ef Ísland gæti leyst innflutt eldsneyti af hólmi með íslensku eldsneyti.

World_Oil_Consumption_pr_CapitaEins og sjá má á á myndinni frá tölfræðiteymi BP, hér til hliðar, er notkun á olíuafurðum (m.v. fólksfjölda) mest í þremur nokkuð svo ólíkum löndum. Sem eru Saudi Arabía, Kanada og Ísland. Íslendingar eru sem sagt meðal þeirra þjóða sem nota allra mest af olíuafurðum.

Það er auðvitað ljúft að vera í hópi með blessuðum Sádunum og kanadísku ljúflingunum.  En það sem verra er fyrir Ísland: Saudi Arabía og Kanada búa yfir mestu olíuauðæfum veraldar. Öll bensín- og olíukaup Íslendinga - hver einasti dropi - eru aftur á móti í formi innflutnings. Þessi gríðarlegu eldsneytiskaup Íslands eru ekkert annað en gapandi gjaldeyrishít og varla nokkur þjóð jafn illa stödd að þessu leyti eins og við.

Það sem bjargar orkubúskap okkar Íslendinga er að við framleiðum eigið rafmagn. Og þar erum við alveg á hinum vængnum; engin önnur þjóð á viðlíka möguleika í framleiðslu á endurnýjanlegri raforku m.v. fólksfjölda. Það breytir því ekki að skorturinn á íslensku eldsneyti fyrir samgöngutækin er hið versta mál.

En nú vinna sem sagt nokkur metnaðarfull íslensk fyrirtæki í samstarfi við íslensku olíudreifingarfyrirtækin, að framleiðslu ýmissa tegunda af eldsneyti, sem ætlað er að minnka þörfina á hefðbundnu innfluttu eldsneyti. Þetta er auðvitað hið besta mál. Vandinn er bara sá að vetnisvæðing er ennþá í órafjarlægð, metanól er ekki unnt að nota nema í mjög lágu blöndunarhlutfalli (veldur annars tæringu) og mikil óvissa er um að íslenskt metan eða lífdísilframleiðsla geti nokkru sinni náð því umfangi og þ.m.t. þeirri hagkvæmni að geta keppt við olíu - nema með umtalsverðum niðurgreiðslum eða styrkjum.

Þetta á eflaust eftir að koma betur í ljós á næstu árum. En það sem er eftirtektarvert, er að hér á landi virðist enginn vera að skoða einn allra forvitnilegasta möguleikann í eldsneytisiðnaðinum. Sem er að framleiða hér lífhráolíu  (biocrude).

biocrude_coverSá möguleiki felst í því að byggja upp íslenskan lífhráolíuiðnað á grundvelli endurnýjanlegrar orku og nýta sér um leið sömu hagkvæmni og gerist í hinum hefðbundna og vel þekkta hráolíuiðnaði. Já - Íslendingar eiga raunhæfan möguleika á að framleiða allt sitt eldsneyti sjálfir; eldsneyti sem er algerlega sambærilegt við olíuafurðirnar sem við eyðum milljörðum króna og dýrmætum gjaldeyri í að kaupa frá útlöndum.

Slík tækifæri virðist nákvæmlega ekkert hafa verið skoðuð á Íslandi. A.m.k. ekki af hálfu stjórnvalda eða þeirra fyrirtækja sem sérhæfa sig í framleiðslu á raforku eða leita möguleika í íslenskri eldsneytisframleiðslu. Snögg athugun bendir til þess að hugtakið lífhráolía hafi einungis verið nefnt einu sinni á íslenskum netsíðum - að undanskildu Orkublogginu - en það var á vef Viðskiptablaðsins árið 2007).

Í dag ætlar Orkubloggið að beina sjónum að þessum tækifærum Íslands. Að Íslendingar framleiði lífhráolíu og verði þar með nánast algerlega orkusjálfstæð þjóð - ekki aðeins í raforkuframleiðslu heldur einnig í eldsneytisgeiranum. Það besta er auðvitað að þetta orkusjálfstæði myndi byggjast á 100% endurnýjanlegri orku og afurðirnar (sjálft eldsneytið) eru jafn orkuríkar og praktískar eins og hefðbundið bensín, díselolía og aðrar olíuafurðir.

Of gott til að vera satt? Kannski - kannski ekki. Þetta er vissulega iðnaður sem er ennþá á tilraunastigi. Það sker engu að síður í augu að áhugaleysið á þessum möguleika virðist algert hér á Íslandi, meðan íslensk  fyrirtæki og fjárfestar hella sér í dýrar eða takmarkaðar lausnir eins og framleiðslu á lífdísil eða óraunsæja framtíðardrauma um vetnissamfélag.

Vissulega er um að gera að skoða vel alla möguleika - hvort sem er íslenskt vetni, lífdísill, etanól, metan eða metanól. En fyrir land með svo mikla endurnýjanlega orku, er framleiðsla á lífhráolíu hugsanlega miklu áhugaverðari kostur. Það er staðreynd að hækkandi olíuverð, aukin áhersla margra ríkja á innlenda orku og umhverfishvatar hafa skapað grundvöll að nýjum eldsneytisiðnaði; lífhráolíuiðnaði. Þar er um að ræða orkuríkt, hagkvæmt og samkeppnishæft fljótandi eldsneyti - hefðbundið bensín og díselolíu úr lífhráolíu.

Bæði í Bandaríkjunum og Evrópu hefur lífhráolía fengið aukna athygli á síðustu árum. Og þetta er iðnaður sem myndi líklega henta Íslandi afskaplega vel. Hér eru í gangi ýmis verkefni í eldsneytisiðnaði, t.d. verkefni með styrkjum upp á nokkrar milljónir frá Rannís, um að framleiða etanól úr lúpínu. Sniðugur möguleiki - en allir sem hafa kynnt sér slíka eldsneytisvinnslu vita að langlíklegast er að þetta sé vitavonlaust peningalega.
 
Lífhráolía hefur aftur á móti margvíslega yfirburði gagnvart öllu öðru tilbúnu fljótandi lífrænu eldsneyti. Lífhráolía hefur nefnilega alla sömu eiginleika eins og hefðbundið bensín, díselolía og flugvélaeldsneyti. Þar að auki hentar slíkur iðnaður ákaflega vel fyrir þjóð sem býr yfir miklum endurnýjanlegum orkuauðlindum. Þetta er mögulega besta og áhugaverðasta tækifæri Íslands í orkumálum.


Eftirfarandi eru tíu áherslupunktar sem lýsa hugmyndinni í hnotskurn:
 
1. Í framleiðsluna er notaður lífmassi og endurnýjanleg orka.
 
2. Unnt er að nota hvaða lífmassa sem er í þessa framleiðslu (hvaða plöntur sem er og þ.á m. sellulósa, lífrænt sorp og annan lífrænan úrgang). Þetta skapar aukna möguleika á að nálgast ódýr hráefni í lífhráolíuvinnsluna og er snjall valkostur til að minnka þörf á innfluttu eldsneyti umtalsvert.
 
3. Framleiðslan skiptist í tvö meginstig:
Annars vegar yrðu litlar vinnslustöðvar víða um land þar sem lífmassi er unnin í fljótandi lífmassaþykkni. Hins vegar er stór olíuhreinsunarstöð  (biorefinery) sem vinnur olíuafurðir úr lífmassaþykkninu.
 
4. Þetta tvískipta ferli sparar flutningskostnað á lífmassanum umtalsvert og eykur þannig hagkvæmnina (tankbílar flytja fljótandi lífmassaþykknið í hreinsunarstöðina).
 
5. Lokaafurðirnar eru hefðbundnar olíuafurðir, þ.m.t. bensín, díselolía, svartolía, flugvélabensín og aðrar verðmætar olíuafurðir. Afurðir lífhráolíu hafa reyndar að nokkru leyti reynst mun betri að gæðum en afurðir út jarðolíu og eru því orkuríkasta fljótandi eldsneyti sem fáanlegt er m.v. rúmmál. Þetta er því bæði orkuríkara og væntanlega hagkvæmara eldsneyti en t.d. etanól, lífmetan, metanól eða DME.
 
6. Afurðirnar flokkast sem endurnýjanlegar vegna þess að þær byggja á endurnýjanlegri orku og lífmassa - og ferlið er kolefnishlutlaust.
 
7. Ekki þarf að gera neinar breytingar á vélbúnaði samgöngutækjanna, núverandi skattkerfi né dreifikerfi eldsneytis.
 
8. Þetta er eldsneyti sem hentar neytendum mjög vel og kallar ekki á niðurgreiðslur né skattaafslætti af hálfu ríkissjóðs.
 
9. Afurðirnar eru samkeppnishæfar við hefðbundið jarðefnaeldsneyti svo lengi sem verð á hráolíu er yfir tiltekinni viðmiðun (sem er mun lægra olíuverð en nú er). Flestir sérfræðingar í orkumálum telja líklegt að meðalverð á olíu næstu áratugina verði mun hærra, þ.a. áhættan af lækkandi olíuverði virðist ekki mikil.
 
10. Þetta er bæði fjárhagslega hagkvæm og tæknilega raunhæf leið til minnka verulega þörfina á innfluttu eldsneyti, spara gjaldeyri, byggja upp nýja og mikilvæga stoð í íslenskum iðnaði, auka tækifæri í landbúnaði, auka fjölbreytni í orkugeiranum, minnka kolefnislosun, skapa mörg ný störf á Íslandi og verða þýðingarmikill þáttur í íslensku efnahagslífi.
 
 
 
Hvatar:
 
Hátt olíuverð, umhverfishvatar, síaukin þörf á innfluttu eldsneyti og hagsmunir tengdir auknu orkusjálfstæði hafa á örfáum árum skapað ný og mjög áhugaverð tækifæri í eldsneytisiðnaði bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_02Sökum þess að lífefnaeldsneyti eins og t.d. etanól eða lífdísill er með mun minna orkuinnihald pr. rúmmálseiningu en hefðbundið jarðefnaeldsneyti, þarf beina fjárhagslega hvata til að slíkur eldsneytisiðnaður geti borið sig. Þetta á aftur á móti ekki við um lífhráolíu. Hún er jafn orkurík eins og hefðbundið eldsneyti og er reyndar að eilítið meiri gæðum og oktanríkari.
 
Afurðir lífhráolíu geta því keppt við hefðbundið jarðefnaeldsneyti án tillits til umhverfishvata - að því gefnu að meðalverð á hráolíu úr jörðu sé yfir tilteknu lágmarksverði. En þar að auki gera umhverfishvatar lífhráolíuna eftirsóknarverða lausn í eldsneytismálum. Lífhráolíuafurðir eru unnar úr lífmassa og fyrir tilstilli endurnýjanlegrar orku og eru því skilgreindar sem kolefnishlutlaust eldsneyti og endurnýjanlegur orkugjafi.
 
 
 
Markaðurinn og samkeppni:
 
Afurðir úr lífhráolíu og reyndar allt annað eldsneyti keppir við bensín, díselolíu og annað hefðbundið eldsneyti. Þó svo margvíslegir hvatar eins og t.d. umhverfishvatar og orkusjálfstæði kalli á nýjar lausnir í eldsneytisiðnaðinum, er hækkandi olíuverð meginástæðan fyrir því að lífhráolíuiðnaður er að líta dagsins ljós nú. Undanfarin 3-4 ár hafa orðið verulegar kostnaðarhækkanir í olíuvinnslu og vaxandi líkur eru á að meðalverð á hráolíu til langframa komi til með að vera talsvert hærra en þekkst hefur lengst af. Gangi slíkar spár eftir þýðir það gjörbreytingu í olíuiðnaðinum frá því sem var fyrir einungis nokkrum árum og gerir lífhráolíu samkeppnishæfa til frambúðar án nokkurra styrkja né umhverfishvata. 
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_03Og þar sem lífhráolía er orkuríkari en bæði metanól, DME og hefðbundið lífefnaeldsneyti eins og t.d. etanól eða lífdísill - og býður upp á meiri möguleika til umfangsmikillar eldsneytisframleiðslu sem getur nýtt hefðbundnar olíuhreinsunarstöðvar - hefur lífhráolíuiðnaður óneitanlega talsvert forskot á allt þetta lífefnaeldsneyti.
 
Sem hráefni (kolefnisgjafa) í lífhráolíuþykkni má nota hvaða tegund lífmassa sem er (öfugt við það sem gerist í lífeldsneytisiðnaði, þar sem annars vegar er byggt á sykrum og hins vegar á olíuríkum plöntum eins og t.d. repju eða dýraslógi). Fyrir vikið keppir lífhráolíuiðnaður ekki við fæðuframboð og framleiðandinn getur einfaldlega valið ódýrasta lífmassa sem býðst (þ.á m. grös og hvaða lífræna úrgang sem er, svo dæmi sé tekið). Þetta skiptir miklu til að draga úr kostnaði - og getur einnig orðið til þess að forðast megi samkeppni við matvælaframleiðslu.
 
Öfugt við annað lífrænt eldsneyti eins og t.d. etanól eða lífdísil, má nota afurðir lífhráolíu í hvaða blöndunarhlutfalli sem er með venjulegu bensíni eða díselolíu og nota óblandað ef vill. Ekki þarf að gera neinar breytingar á vélbúnaði samgöngutækjanna. Lífhráolíuiðnaður er þess vegna hagkvæmasti, einfaldasti og raunhæfasti kosturinn sem getur komið í stað eldsneytis úr hefðbundinni hráolíu úr jörðu.
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_04Að auki er vert að hafa í huga að ennþá er tæknilega langt í að vetni verði nothæfur orkugjafi og einnig munu líða margir áratugir þar til rafmagnsbílar verða mjög útbreiddir. Önnur leið er að framleiða hefðbundið fljótandi eldsneyti úr kolum eða gasi (s.k. synfuel). Sú tækni er mjög vel þekkt, en þeirri framleiðslu fylgir því miður mikil kolefnislosun og hún hefur því afar neikvæð umhverfisáhrif.
 
Það eru m.ö.o. heldur litlar líkur á að vetni, rafmagn, hefðbundið lífefnaeldsneyti (biofuel) eða synfuel komi til með að hafa víðtæk áhrif í eldsneytisiðnaði veraldarinnar næstu áratugina. Nærtækasta lausnin virðist allt önnur. Lausnin er lífhráolía (biocrude).
 
 
 
Styrkur og sérstaða:
 
Þessi framleiðsla byggir í grunninn á vel þekktri tækni og kallar ekki á neinar breytingar á núverandi samgöngukerfi, nýtir sama dreifingarkerfi og stendur undir sama verðuppbyggingarkerfi á eldsneyti sem er afar mikilvæg tekjulind fyrir ríkissjóð.
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_05Enn er ónefndur einn stærsti hvatinn til að þessu verði komið í framkvæmd hér á Íslandi. Engin þjóð í heiminum á jafn góða möguleika í þessum iðnaði eins og Íslendingar. Hvergi annars staðar er jafn mikið af vinnanlegri endurnýjanlegrar orku m.v. fólksfjölda. Og þar er um að ræða ódýrustu tegundir endurnýjanlegrar orku; vatnsafl og jarðvarma. Erlendis er þessi iðnaður að verða til þrátt fyrir að þar verði notuð margfalt dýrari orka frá sólarorkuverum.
 
Í þeim löndum þar sem mest vinna hefur verið lögð í þróun og framleiðslu á lífhráolíu hefur gas verið nýtt sem orkugjafi í framleiðsluferlinu - en horft til þess að í framtíðinni verði sólarorka nýtt í þessu skyni. Sólarorkan er allt að fimm sinnum dýrari orkuframleiðsla en t.d. jarðvarmi. Þess vegna er augljóslega skynsamlegt að nýta þessa tækni fyrst á jarðvarmasvæðum.
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_06Þetta veitir Íslandi tækifæri á því að stytta sér leið. Að sækjast eftir samstarfi við þau fyrirtæki sem eru komin með bestu og hagkvæmustu tæknina til þessarar eldsneytisframleiðslu. Slíkt samstarf er líklegt til að flýta fyrir tækniframförum í þessum iðnaði og veita viðkomandi fyrirtæki / fyrirtækjum samkeppnisforskot á keppinauta sína.

Til að styrkja stöðu okkar er þó um að gera að nýta sér þekkinguna sem fyrir hendi er hér á Íslandi. Og smíða íslenska frumgerð (prótótýpu) sem sannar bæði tæknina og fyrirliggjandi þekkingu hér á landi.
 
Þetta myndi verða nýr, samkeppnishæfur og öflugur íslenskur iðnaður, sem bæði myndi auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi, skapa ný störf og draga úr áhættu sem einhæf stóriðja skapar. Þetta myndi ekki aðeins verða til auka fjölbreytni í stóriðju (olíuhreinsunarstöð) og byggja upp nýjan iðnað víða um land (forvinnslustöðvar). Heldur líka skapa ný tækifæri í íslenskum landbúnaði, sökum þess að  nýta má hvaða tegund lífmassa sem (þ.m.t. hvaða gróður sem er) er í framleiðsluna.
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_07Síðast en ekki síst myndi þetta íslenska eldsneyti bæði leysa af hólmi innflutt eldsneyti (hefðbundið bensín, díselolíu og flugvélabensín, auk annarra verðmætra olíafurða) og verða til útflutnings. Þar með bæði sparar þessi leið gjaldeyri og gæti jafnframt skapað nýjar gjaldeyristekjur.
 
Þetta er leiðin sem getur gert Ísland nánast 100% orkusjálfstætt og er einfaldlega einhver áhugaverðasti kosturinn í orkumálum Íslendinga. 
 
 


Veikleikar:
 
Það sem helst gæti ógnað iðnaði af þessu tagi er eftirfarandi:
- Annars vegar mikil og langvarandi lækkun á olíuverði. Skammvinn veruleg olíuverðlækkun getur orðið en langvinn lækkun er ólíkleg.
- Hins vegar er tæknin ekki fullþroska! Það skapar reyndar einnig eitt mesta tækifærið til vaxtar. Þetta er engu að síður helsti veikleiki hugmyndarinnar. Lífhráolíuiðnaður er m.ö.o. ennþá á tilraunastigi og þó svo mörg athyglisverð frumkvöðlafyrirtæki hafi sprottið upp á þessu sviði eru ennþá nokkur ár í að lífhráolíuframleiðsla hefjist í stórum stíl. En tæknin hefur þróast hratt á síðustu árum og ódýr endurnýjanleg orka á Íslandi er sérstaklega vel til þess falllin að vekja áhuga þeirra sem fremst standa í þessari tækni.
 
 
 
Tæknin og framkvæmdin:
 
Þetta er iðnaður sem byggir á sömu innviðum og sömu grunnhugmynd eins og hefðbundið eldsneyti unnið úr hráolíu úr jörðu. Lífhráolíu (biocrude) má, sem fyrr segir, vinna úr hvaða lífrænum efnum sem er og hana má hreinsa í venjulegum olíuhreinsunarstöðvum. 
 
Orkusjalfstaett_Ísland_slide_08Í dag þekkjum við hráolíu fyrst og fremst sem jarðolíu sem myndast hefur í jörðu á milljónum ára. Vinnsluaðferð lífhráolíuiðnaðar felst einmitt í því að nýta orku til að búa til samskonar kolefniskeðjur eins og orðið hafa til djúpt í jörðu vegna mikils þrýstings og hita. Þetta má orða sem express-vinnslu á olíu úr lífrænum efnum. 
 
Minnt skal á að það að umbreyta lífmassa í fljótandi eldsneyti eru engar töfrakúnstir, heldur þvert á móti afar vel þekkt tækni . Fischer-Tropsch aðferðin hefur lengi verið nýtt í þessu skyni, en þá er gösun (gasification) t.d. notuð til að vinna díselolíu úr kolum eða lífdísil úr lífmassa. Gallinn við þessa vinnslu er að hún nýtir fremur lítinn hluta af lífmassanum. Á síðustu árum hafa aftur á móti verið þróaðar aðrar aðferðir þar sem unnt er að nota nánast allan lífmassann. Þannig hefur náðst mun meiri hagkvæmni í eldsneytisvinnslunni og það er einmitt þessi nýja tækni sem kallast lífhráolíuvinnsla (biocrude process).
 
Þá er s.k. hraðhitasundrun (flash pyrolysis) notuð til framleiða orkuríkt fljótandi lífmassaþykkni úr hvaða lífmassa sem er. Sú aðferð er vel þekkt efnafræðilega og ekki dýrari eða flóknari en svo að hafa mætti slíkar forvinnslustöðvar dreifðar um landið. Þar sem flutningur á lífmassa er einn helsti kostnaðarliðurinn í framleiðslu á eldsneyti úr lífmassa, er forvinnslan lykilatriði til að ná fram hagkvæmni. Lífmassaþykkninu er svo safnað saman í stóra olíuhreinsunarstöð. Þessi lífhráolíuvinnsluaðferð er líklega raunhæfasta aðferðin til að framleiða fljótandi eldsneyti sem jafnast á við olíuafurðir úr jarðolíu að orkuinnihaldi og hagkvæmni.
 
Biomass_Processing_UOPLífhráolíuvinnsla með hraðhitasundrun er raunhæfur kostur til að framleiða umhverfisvænt fljótandi eldsneyti sem nýta má með nákvæmlega sama hætti eins og eldsneyti unnið úr jarðolíu. Lífhráolía er eina fljótandi eldsneytið sem mun geta keppt við bensín, díselolíu eða flugvélaeldsneyti og/eða leyst slíkt eldsneyti af hólmi, án styrkja eða annarra sértækra efnahagslegra stuðningsaðgerða.

Hvorki etanól, lífmetan, metanól né DME eiga slíka möguleika nema með umtalsverðum niðurgreiðslum, styrkjum eða skattaafslætti. Þar að auki skilar lífhráolíuframleiðsla mörgum öðrum verðmætum efnasamböndum, sem nýtt eru í margvíslegum iðnaði. Með slíkri eldsneytisvinnslu verða því til verðmæti og virðisauki umfram það sem þekkist í annarri lífrænni eldsneytisframleiðslu.
 
Sökum þess að lífhráolíuvinnsla krefst umtalsverðrar orku er hún ekki álitleg fyrir tilstilli hefðbundinna kolvetnisorkugjafa (hvort sem er kol eða gas). Þess vegna hafa rannsóknir einkum beinst að því að nýta sólarorku til þessarar framleiðslu. Ísland er aftur á móti í þeirri einstöku aðstöðu að búa yfir mikilli endurnýjanlegri orku - meira að segja umtalsverðri afgangsorku á næturnar án nýrra virkjana. Þess vegna er lífhráolíuframleiðsla óvíða raunhæfari en einmitt á Íslandi.
 
Lífhráolíuiðnaður getur nýtt sér sömu stærðarhagkvæmni eins og þekkist svo vel í jarðolíuiðnaðinum. Meginmunurinn felst í því að í stað þess að safna saman olíu úr borholum og í olíuhreinsistöðvar, er safnað saman lífrænum efnum (eins og plöntuafurðum eða lífrænu sorpi), þau forunnin í kolvetnisþykkni sem síðan eru unnar olíuafurðir úr í olíuhreinsunarstöð, eins og áður var lýst.
 
Til að koma þessu í framkvæmd hér á landi er hugsanlega skynsamlegast að leita samstarfs við fyrirtæki sem standa fremst í þessari tækni nú þegar og eru með nokkra fremstu frumkvöðla heims sem bakhjarla. Í þessu sambandi er unnt að kynna Ísland sem áhugaverðan kost til að nýta þessa tækni fyrir tilstilli hagkvæmrar endurnýjanlegrar orku og laða þannig öflugustu fyrirtækin í lífhráolíuiðnaðinum til Íslands. Aðkoma slíkra fyrirtækja að því að gera Ísland 100% orkusjálfstætt væri mikilvæg auglýsing fyrir viðkomandi fyrirtæki og gæti hjálpað því á þessum markaði heima fyrir, hvort sem er í Bandríkjunum eða Evrópu. 
 
biocrude_total-refinery_gasolinu_ethyl_tertiary_butyl_ether-etbe_2Þannig má nýta sérstöðu Íslands í endurnýjanlega orkugeiranum til að hraða uppbyggingu þessa iðnaðar á Íslandi. Um leið yrði stuðlað að tugmilljarða króna erlendri fjárfestingu á Íslandi og fjöldi nýrra starfa myndu skapast.

Engu að síður er æskilegt að sýna fram á hversu vel tæknin virkar hér á landi. Það yrði gert með því að smíða og setja upp frumgerð (prótótýpu) að slíkri vinnslu. Tekið skal fram að þekking til að framkvæma þetta er fyrir hendi hér á Íslandi - vilji og fjármagn er allt sem þarf.
 
Í tengslum við uppbyggingu á íslenskum lífhráolíuiðnaði mætti t.d. horfa til orkunnar á Þeistareykjum. Um erlendan samstarfsaðila verður ekki fjallað hér. Þó skal tekið fram að Orkubloggarinn hefur að sjálfsögðu skýra mynd af því hvaða tækni hefur þarna reynst best og hvaða fyrirtæki eru þar áhugaverðust. Er einnig með tölur á hraðbergi um fjárfestingarþörfina, mannafla og orkuþörfina - en vill halda því út af fyrir sig að svo stöddu.
 
 
 
Að grípa tækifærið:
 
Rétt eins og farsímatækni Nokia hefur orðið táknmynd fyrir Finnland og vindorkutækni Vestas táknmynd fyrir Danmörku, gæti lífhráolía (bicrude) orðið táknmynd fyrir Ísland. Ísland yrði nánast 100% orkusjálfstætt og ynni alla sína orku úr endurnýjanlegum auðlindum. Og með því að íslenskt fyrirtæki einbeitti sér að þessari tegund eldsneytisframleiðslu, eru líkur á að viðkomandi fyrirtæki myndi ná forskoti í þessari ungu iðngrein, sem hefur mikil vaxtartækifæri.
 
Jafnvel án tillits til ímyndarinnar er augljóst að það hefði mikla efnahagslega þýðingu ef hér myndi byggjast upp nýr og umfangsmikill iðnaður. Tækifærið hefur sjaldan verið betra en núna þegar heiminn hungrar í endurnýjanlega orku og jafnvel hörðustu talsmenn jarðolíunnar eru farnir að tala um að dagar hinnar ódýru hráolíu úr jörðu séu senn taldir (end of cheap oil).

 
 
 
Af hverju hefur þetta ekki löngu verið framkvæmt?
 
Sem fyrr segir hefur olíuverð lengst af ekki verið nægilega hátt til að framleiðsla af þessu tagi gæti borgað sig. Síðustu 3-4 ár hafa aftur á móti orðið vatnaskil í olíuiðnaðinum, sem gera þennan kost nú í fyrsta sinn fjárhagslega hagkvæman. 
 
Biocrude_pyrolysisÞó svo tæknin sé þekkt í flestum grundvallaratriðum er framleiðsla af þessu tagi enn á tilraunastigi. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að einungis örfá ár eru síðan fjárfestar tóku að laðast að þessum möguleika. Horfur eru á að fyrstu lífhráolíustöðvarnar muni skila af sér afurðum á næstu 2-4 árum.
 
Næsta skref mun verða að þróa tækni til að vetnisbæta lífmassann og ná þannig enn meiri hagkvæmni. Slíkar rannsóknir eru þegar byrjaðar en árangur ennþá óljós. Þó svo vetnisbæting sé ekki forsenda þess að þessi iðnaður verði hagkvæmur, mun það styrkja mjög samkeppnisstöðu lífhráolíufyrirtækja og minnka áhættuna ef hráolíuverð úr jörðu lækkar umtalsvert. Vegna lægri nýtingar á íslenskum raforkuverum yfir nóttina yrði sáraeinfalt að stunda þessa vetnisframleiðslu hér án mikils tilkostnaðar (einnig væri mögulegt að nýta vindorku í vetnisframleiðsluna ef orkuþörfin yrði mikil).
 
Það eru sem sagt efnahagsleg skilyrði sem fyrst og fremst valda því að þessi iðnaður er fyrst að fara af stað nú. Réttu hvatarnir hafa ekki verið til staðar fyrr en á allra síðustu árum.
 
Með þeim vaxandi áhuga sem nú er þessum iðnaði er líklegt að kostnaðarlækkanir munu verða nokkuð örar á næstu árum - og mikilvægt að vera snemma á ferðinni til að ná tæknilegu forskoti. Þar með gæti íslensk þekking á þessum iðnaði orðið mikilvæg útflutningsþjónusta.

Orkusjalfstaett_Ísland_slide_10Að mati Orkubloggarans er þarna á ferðinni tækifæri sem kann að reynast mjög áhugavert fyrir Íslendinga og íslenskt atvinnulíf. Vegna hroðalegrar íhaldssemi í íslensku stjórnkerfi og skorts á áhættufjármagni, er því miður líklegast að ekki nóg verði gert til að láta það rætast að Ísland verði orkusjálfstætt og framleiði eigið eldsneyti fyrir samgöngutækin. Heldur mun orka Íslands halda áfram að fara í fleiri álver, íslenskt atvinnulíf þar með verða ennþá einhæfara en nú er, og dýrmætur gjaldeyrir halda áfram að fara í stórfelldan innflutning á bensíni og olíu. Nema einhver duglegur maður eða kona taki að sér að vinna þessari hugmynd brautargengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka fyrir stórmerkilega og áhugaverða grein.

Þessu þarftu sannarlega að koma á framfæri við alla ráðamenn þjóðarinnar og einnig inní háskólasamfélagið og rannsóknarstofnanirnar, en ekki síst útí atvinnulífið og til forsvarsmanna landbúnaðarins og olíufélaganna.

Gangi þér vel.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 08:34

2 identicon

Góður póstur hjá þér. Þetta er afar áhugaverður möguleiki sem þyrfti að skoða. Það væri t.d. hægt að staðsetja hreinsistöðina á Álfsnesi hjá Sorpu og taka alla nothæfa "waste streams" beint inn þar. Það mætti jafnvel hugsanlega pumpa úr holræsakerfi höfuðborgarsvæðisins í verksmiðjuna.

Árni (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 12:41

3 identicon

Fróðlegur og góður pistill um áhugavert efni, ég ætla bara að vona að orkumálaráðherrann lesi pistilinn, því hér er um að ræða efni sem verður að komast inn í umræðuna. Tækifærin leynast víða ef að er gáð og best gæti ég trúað að ef þetta gengur upp þá yrði atvinnuleysið fljótt að hverfa, fyrir nú utan það að hér myndi skapast atvinna fyrir tæknimenntað fólk á fjölmörgum stigum þeirrar menntunar, ásamt því að hægt yrði að virkja góðan hóp af viðskiptafræðingum sem því miður hafa ekki allir feitan gölt að flá þessa dagana.

Ingimundur Bergmann (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 18:51

4 identicon

Sæll Ketill

Þetta er akkúrat það sem Þorbjörn Á Friðriksson kynnti fyrir okkur í sumar en hann í lét nemendur sína gera hluta af þessu fyrir 30 árum. Það er í raun ekki svo margt í þessu sem er óþekkt og t.d. Þjóðverjar nýttu hluta þessarar þekkingar í stríðsrekstri fyrir mörgum áratugum. En ástæðan fyrir því að þetta hefur ekki fyrr verið gert er að erlendis er ekki völ á jafn mikilli hreinni raforku og hér auk þess sem olíuverðlag hefur ekki boðið upp á það. Atli Gíslason hefur í undirbúningi að leggja fram þingsályktunartillögu til að láta rannsaka kosti þessarar hugmyndar. Það er ljóst að hér gæti verið um að ræða tækifæri aldarinnar fyrir Íslendinga.

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 19:52

5 identicon

Frábær pistill hér sem allir pólitískir og peningalegir valdhafar landsins þurfa að sjá. Við lesturinn vaknaði sú hugsun hjá mér hvort að lífhráolíuiðnaður og möguleg olíuvinnsla á Drekasvæðinu og undan austurströnd Grænlands séu ekki fullkomin hjón? Þar sem í raun er um sama infrastrúktúrinn að ræða varðandi hreinsun og dreifingu hljóta að vera hellings samlegðaráhrif í dæminu.

Bjarki (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 02:20

6 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Lífrhráolíuiðnaður yrði auðvitað brilljant undanfari olíuvinnslu. Ef vinnanleg olía finnst e.h.t. á Drekasvæðinu, mun sú vinnsla vart hefjast fyrr en eftir u.þ.b. 15 ár. Hér gæti aftur á móti verið risin olíuhreinsunarstöð fyrir lífhráolíu eftir örfá ár.

Ketill Sigurjónsson, 16.11.2009 kl. 05:21

7 Smámynd: Magnús Jónsson

Ketill: Góður min núna, en hvernig er biocrude gert, þarf stóra tanka til að brugga í mánuðum eða árum saman, hvernig fer frumvinnslan fram í raun, er hér um að ræða eitthvað sem einstaklingar gætu ráðist í eða þarf öflugan bakhjarl í grunvinnsluna. Til að mynda er eitt stærsta ræktaða tún á íslandi umferðareyjar Reykjavíkur, og gras þaðan er urðað vegna mengunar mörg hundruð ef ekki þúsundir tonna á ári hverju svo lítið eitt sé talið, hvernig yrði ferli á vinnslu háttað á slíku magni??   

Magnús Jónsson, 20.11.2009 kl. 20:56

8 identicon

Ég sakna þess að ekki sé vikið einum stafkróki að vinnu Þorbjörns Á. Friðrikssonar í þessari annars ágætu samantekt.  Stór hluti hennar nánast bergmálar kynningu Þorbjörns á þrjátíu ára vinnu sinni, sem ég hlýddi á fyrir um ári síðan og nú kemur í ljós að orkubloggarinn hafði einnig gert áður en greinin var skrifuð.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 21.11.2009 kl. 10:58

9 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Sanngjörn ábending vegna Þorbjörns. Enda var það hann sem fyrstur benti Orkubloggaranum á að menn væru að vinna að því að vetnisbæta lífmassa til að gera hann orkuríkari.

Það að vinna kolvetniseldsneyti úr lífmassa með hitasundrun er aftur á móti ekki íslensk uppfinning. Og það er einungis á allra síðustu árum að aðstæður hafa skapast til að slíkt eldsneyti geti verið samkeppnishæft við hefðbundið bensín og díelsolíu.

Að Þorbjörn skuli hafa skoðað þessar hugmyndir í áratugi ber greinilega vott um framsýni. En um leið hefur eflaust verið ákaflega erfitt að koma slíkum hugmyndum á framfæri meðan olíuverð var umtalsvert lægra en nú er.

Vegna hækkandi olíverðs og síaukinnar innflutningsþarfar Bandaríkjanna á olíu, eru nú sprottin upp fjöldi nýsköpunarfyrirtækja á þessu sviði þar vestra - og nokkrir olíurisanna eru einnig að vinna að þessari tækni.

Þetta er sem sagt loksins að verða raunhæft hér og nú. Og þess vegna álítur Orkubloggið að Íslendingar eigi að grípa tækifærið strax. Líklega væri eðlilegast að iðnaðarráðherra tæki þetta upp í samstarfi við rannsóknastofnanir og háskólana. En kannski er það ofurbjartsýni í Orkubloggaranum að slíkt frumkvæði komi frá stjórnvöldum.

Ketill Sigurjónsson, 22.11.2009 kl. 03:03

10 identicon

Fróðlegur pistill þarna Ketill, gaman að lesa hann. Það er ekki spurning að við eigum að skoða alla möguleika í sambandi við að nýta hráefni sem til fellur og gera úr þeim verðmæti. Ég tala nú ekki um sjálfbærni.

Matthildur Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband