24.11.2009 | 02:23
Óveðursský yfir Bæjarhálsinum
Hver var helsta orsökin fyrir falli fjármálakerfisins og hruni bankanna?
Menn eru eflaust með mörg og mismunandi svör við því. En eitt svarið hlýtur að vera að bankarnir hafi smám saman misst alla tilfinningu fyrir áhættu og fjármagnað langtímaskuldbindingar um of með skammtímalánum. Það er kannski einfaldasta skýringin- pent orðað.
Vítavert virðingarleysi fyrir áhættu var a.m.k. helsta orsökin fyrir falli Lehman Brothers- og margra annarra bandarískra banka og fjármálastofnana. Jafnskjótt og loftið tók að leka úr húsnæðisblöðrunni kom í ljós að efnahagsreikningur Lehman var byggður á sandi. Og engin veð lengur fyrir hendi til að viðhalda fjármögnunarrúllettunni, sem gekk út á uppblásinn efnahagsreikning og nánast óheftan aðgang að skammtímalánum.
Þetta kemur upp í hugann núna þegar fréttir berast af því að Orkuveita Reykjavíkur hafi tekið upp viðskiptahætti ekki alveg ósvipaða eins og bandarísku fjárfestingabankarnir. Að fjármagna jarðhitaverkefni sín með skammtímalánum. Þetta veldur Orkubloggaranum talsverðum áhyggjum. Þessi litla frétt um skammtímafjármögnun Orkuveitunnar til að fjármagna framkvæmdir sínar gæti verið slæmur fyrirboði.
Jarðhitavirkjanir eru þess eðlis að fjármögnunarþörfin í upphafi er gríðarleg. Þær einkennast sem sagt af miklum föstum kostnaði, sem svo þarf að greiða upp á löngum tíma með tekjunum af raforkusölunni. Sé ekki unnt að fjármagna slíkar framkvæmdir með hagstæðum langtímalánum myndi oftast vera skynsamlegast að doka við með slíkar framkvæmdir. Nema menn sækist eftir mikilli áhættu og skelli´sér í skammtímafjármögnun. Það getur skapað talsvert vesen, því sífellt þarf að vera að endurfjármagna með nýjum skammtímalánin. Þá er eins gott að keðjan rofni ekki - eins og gerðist í tilviki Lehman.
Skammtímafjármögnun í íslenska jarðhitageiranum kann þó að vera í besta lagi. Ef úr rætist á fjármálamörkuðum og bankar verði brátt á ný fúsir til að lána íslenskum fyrirtækjum peninga á þokkalegum kjörum. En ef það dregst umtalsvert, þá er sú fjármögnunaraðferð að taka dýr skammtímalán nú hreint út sagt háskaleg.
Með þessu er bersýnilega verið að auka áhættuna hjá OR. Þarna virðist skilja á milli Orkuveitunnar og Landsvirkjunar. Þegar íslensku bankarnir féllu og fárviðrið skall á, tók Landsvirkjun strax þá stefnu að hægja á öllum áætlunum um nýjar virkjanir. Orkuveita Reykjavíkur heldur aftur á móti ótrauð áfram.
En það sem er kannski sérstaklega skuggalegt við afkomu Orkuveitunnar, er að reksturinn virðist ekki að vera að skila neinum hagnaði þessa dagana. Gróflega sagt þá hefur Orkuveitan verið með þetta 4-4,5 milljarða króna í rekstrarhagnað á ári hverju síðustu árin. En nú bregður svo við að rekstrarhagnaðurinn fyrstu sex mánuðina 2009 var einungis tæplega einn milljarður. Og þar af einungis um 29 milljónir króna á 2. ársfjórðungi! Nú bíður Orkubloggið milli vonar og ótta eftir 3ja árshlutauppgjöri OR. Á síðasta ári var það dagsett 21. nóvember, þ.a. það hlýtur að vera að bresta á.
En gluggum aðeins í þær tölur sem liggja fyrir um afkomu OR. Þetta ágæta fyrirtækið, sem var með eigið fé upp á 48 milljarða króna um síðustu áramót og 37 milljarða í lok júní s.l., skilaði 29 milljónum króna í rekstrarhagnað í síðasta 3ja mánaða uppgjöri. Maður þorir nú barrrasta ekki að reikna út hvaða ávöxtun á eigin fé það reynist vera. Og hér er vel að merkja einungis verið að tala um rekstrarhagnaðinn. Fjármagnsliðirnir eru þessu óviðkomandi!
Skv. upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur eru ástæður versnandi rekstrar á 2. ársfjórðungi af ýmsum toga. M.a. hafi kostnaður vegna orkukaupa OR frá Landsvirkjun hækkað mikið (sem er þá væntanlega ekki að skila sér til baka með hækkun á orkuverði frá OR). Einnig hefur OR nefnt að umtalsverð hækkun rekstrarútgjalda sé vegna hækkunar á tryggingu virkjana, auk nokkurra fleiri orsaka. Í fljótu bragði virðist sem sagt að ýmislegt hafi orðið til þess að þrengja að hagnaði af rekstri OR og kostnaðarhækkunum hafi ekki verið velt út í raforkuverðið frá Orkuveitunni.
Hvað sem þessu líður, þá er bersýnilegt að rekstur OR hefur alls ekki verið viðunandi síðustu misserin. Og fjármagnsliðirnir gera stöðu Orkuveitunnar ennþá svartari, en ef bara er litið til rekstrarafkomunnar. Þetta sést berlega á því hvernig u.þ.b. 11 milljarðar af eigin fé fyrirtækisins brunnu upp fyrstu sex mánuði ársins. Það er væntanlega fyrst og fremst tilkomið vegna gengisbreytinga.
Það er kannski eins gott að Orkuveitan sé ekki hlutafélag skráð á markaði. Bréfin væru væntanlega í frjálsu falli þessa dagana með tilheyrandi áhrifum á lánasamninga og ekkert annað en gjaldþrot myndi blasa við. Til allrar hamingju fyrir OR og eigendur þess er fyrirtækið ekki leiksoppur fjárhættuspilara hlutabréfamarkaðarins. En Orkuveitan er engu að síður í veseni. Og enn eru lánakjör fyrirtækisins að versna. Þetta er einfaldlega grafalvarlegt mál.
Það er líka sérkennilegt að stjórnarformaður Orkuveitunnar virðist ekki skilja alvöru málsins. Sbr. þessi frétt Viðskiptablaðsins:
"Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir Guðlaugi G. Sverrissyni, stjórnarformanni Orkuveitunnar, að fyrirtækið hefði fengið þær upplýsingar að opinber fyrirtæki væru alltaf einum matsflokki fyrir neðan það ríki sem þau tilheyrðu. Við áttum aldrei séns, segir Guðlaugur."
En þetta stenst bara ekki, eins og réttilega er bent á í fréttinni: "Miðað við lánshæfismatseinkunn Landsvirkjunar og Íbúðalánasjóðs þá er það ekki rétt fullyrðing hjá Guðlaugi að opinber fyrirtæki séu alltaf einum lánshæfisflokki neðar en viðkomandi ríki." Það var nefnilega svo að Moody's setti Landsvirkjun og Íbúðalánasjóð í sama flokk eins og íslenska ríkið, en OR var ein um að fara í ruslflokkinn.
Orkuveitan átti víst "séns". En þarna er því miður einfaldlega á ferðinni fyrirtæki sem er nánast búið að glata öllu eigin fé og skuldirnar að draga það á kaf. Sennilega bjargaði innkoma Ross Beaty HS Orku; kröfuhafarnir virðast nú treysta á að HS Orka geti unnið sig út úr vandræðunum og ætla ekki að yfirtaka fyrirtækið. En hver á að bjarga Orkuveitu Reykjavíkur undan hrammi kröfuhafanna?
Kannski er það bara smámál að formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur átti sig ekki á lánsfjármati á alþjóðlegum mörkuðum og þýðingu þess. Það vita hvort eð er allir að stjórnarformennska í OR er bara þægilegur pólitískur bitlingur og ekki nokkur ástæða til að fólk sem situr í stjórn Orkuveitunnar hafi víðtæka þekkingu á orkumálum né því sem snýr að fjármögnun virkjana eða áhættusamri stefnumótun. Og þetta kunna vissulega bara að vera tímabundin vandræði hjá Orkuveitunni - ef allt fer á besta veg og lánsfjármarkaðir opnast íslenskum fyrirtækjum á ný. Og Orkuveitan er jú nýbúin að tryggja sér lán frá Evrópska fjárfestingabankanum og vonast til að íslenskir lífeyrissjóðir fjárfesti í skuldabréfum Orkuveitunnar - jafnvel þó svo skuldabréf fyrirtækisins séu komin í ruslflokk. En það er satt að segja varla sjálfgefið að þeir sem eiga peningana í lífeyrissjóðunum vilji endilega lána þá til OR. Á aðeins 4,65% vöxtum. Er eitthvað vit í því fyrir eigendur lífeyrissparnaðar að veita fyrirtæki í þessari stöðu lán á slíkum kjörum?
Orkuveitan virðist bera sig vel. En að mati Orkubloggsins er það engu að síður raunhæft áhyggjuefni hvort rekstur OR næstu misserin standi undir afborgunum lána - jafnvel þó svo hlutfall skammtímaskulda fyrirtækisins sé kannski ekkert svo óskaplega hátt. Þegar ofan á slaka rekstrarafkomu bætist, að Orkuveitan stendur líka frammi fyrir fjárþörf vegna umtalsverðra framkvæmda, er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að dökk óveðursský hafi hrannast upp yfir Bæjarhálsinum.
Stóra spurningin í huga Reykvíkinga hlýtur að vera þessi: Hvernig gat það skeð að þetta fjöregg borgarbúa, undir stjórn kjörinna fulltrúa sem hljóta að hafa að leiðarljósi að forðast að OR ráðist í of áhættusama skuldsetningu, er komið í þessari skuggalegu stöðu?
Og Íslendingar almennt ættu kannski að hugleiða hvort það sé áhættunnar virði að gera efnahagslíf þjóðarinnar ennþá háðara alþjóðlegum álmörkuðum en orðið er. Sjálfur telur Orkubloggarinn ástæðu til að staldra við með ný álver og leggja alla áherslu á meiri fjölbreytni í atvinnulífinu.Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:07 | Facebook
Athugasemdir
Skv. tilvitnaðri frétt á Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, að hafa talað um "opinber fyrirtæki".
Orkublogginu hefur nú borist ábending þess efnis að mismunandi viðmiðanir gildi um opinber fyrirtæki, eftir því hvort þau njóta ríkisábyrgðar eða ábyrgðar sveitarfélaga. Fyrirtæki sem ekki njóti ríkisábyrgðar, lendi alltaf a.m.k. einum flokki neðar en sjálft ríkið. Þegar Moody´s metur lánshæfi.
Sé þetta rétt er væntanlega eðlilegt að OR lendi flokki neðar en Íbúðalánasjóður og Landsvirkjun, sem njóta ríkisábyrgðar.
Ekki væri verra að fá staðfestingu um þetta frá einhverjum sem gjörþekkir til viðmiðana Moody's.
Ketill Sigurjónsson, 25.11.2009 kl. 14:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.