Beaty, HS Orka og ESB

Það var að koma út skýrsla um erlendar fjárfestingar á Íslandi.

Capacent_glacier_logoÞað er Capacent Glacier  sem stendur að útgáfunni og þykir Orkubloggaranum þarna hafa tekist nokkuð vel til. Hér ætlar bloggarinn þó að láta nægja að vekja sérstaklega athygli á því sem kemur fram á bls. 5 í umræddri skýrslu, um afstöðu Íslendinga gagnvart erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi og orkuframleiðslu (skv. könnun Capacent Gallup í september s.l.). Þar kemur fram að um 56% svarenda eru hlynntir erlendri fjárfestingu í orkuframleiðslu á Íslandi og 58% hlynntir erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi.

Tekið skal fram að líklega er þarna eingöngu litið til þeirra sem töku afstöðu í könnuninni. Og Orkubloggarinn gat í fljótu bragði ekki séð á skýrslunni hvert svarhlutfallið var, né úrtakið. En satt að segja varð bloggarinn nokkuð undrandi að sjá hversu margir Íslendingar virðast hlynntir fjárfestingu útlendinga í þessum grunnstoðum efnahagslífsins. Miðað við þessar niðurstöður ætti leiðin að ESB að verða tiltölulega greið. Enda er það líklega eina vitið fyrir Íslendinga.

Samt sýna skoðanakannanir nú mikla andstöðu við ESB-aðild Íslands. Auðvitað væri gaman ef Ísland gæti staðið á eigin fótum, þyrfti aldrei að hlusta á útlendinga og samt notið alls þess besta sem frá útlöndum kann að koma og átt fullan aðgang að t.d. menntun erlendis og að selja þangað vörur og þjónustu. Slík hugmyndafræði er bara dálítið absúrd. Og satt að segja veit Orkubloggarinn ekki til þess að erlendar fjárfestingar hafi valdið okkur tjóni. Þvert á móti var það lánsfé sem Íslendingar sjálfir sóttu sér, sem gerði okkur mestan grikk.

Ross_Beaty_rockUmrædd skýrsla var kynnt á ráðstefnu Capacent fyrr í dag. Meðal ræðumanna var einn af þessum voðalegu mönnum, sem vilja leggja fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf: Kanadíski jarðfræðingurinn Ross Beaty, sem nýverið stóð að kaupum Magma Energy á stórum hlut í HS Orku. Þó svo hann reyndist ekki sami töffarinn og Orkubloggarinn hafði ímyndað sér af ljósmyndum og eyddi kannski óþarflega mörgum orðum í að smjaðra fyrir dugnaði Íslendinga, verður að segjast eins og er: Það er erfitt að ímynda sér af hverju í ósköpunum fjármálaráðherra vor hafi beinlínis lagst gegn því að Magma eignist HS Orku.

Vissulega geta menn haldið því fram að Magma, sem lagði út 30% kaupverðsins og greiddi 70% með skuldabréfi, hafi fengið góðan díl. En hafa ber í huga að Magma hefur líka skuldbundið sig til að leggja fram verulegt fjármagn í tengslum við nýjar framkvæmdir á vegum HS Orku. Ekkert bendir til annars en þarna sé á ferðinni einlægur langtímafjárfestir, sem vill veg HS Orku sem mestan og um leið að fyrirtækið verði að sem allra mestu gagni fyrir samfélagið.

Til eru þeir sem botna hreinlega ekkert í því hversu rausnarlegur Ross Beaty var í þessum viðskiptum, m.v. helstu kennitölur í reikningum HS Orku. Hrista t.d. höfuðið yfir því að hann skuli hafa greitt vel yfir tuttugufalt EBITDA. Fyrir hlut í fyrirtæki sem líklega sé ennþá rekstrarlega blindað af áður auðfengnum tekjum frá bandaríska hernum og var orðið nánast á framfæri kröfuhafanna. Þegar upp verði staðið megi Beaty þakka fyrir ef Magma nær 3% arðsemi af þessari fjárfestingu sinni. Þetta sé svo fáránleg fjárfesting að það eina sem geti vakað fyrir Beaty, sé að eignarhlutur í íslensku jarðhitafyrirtæki sé góð leið til að opna meiri möguleika í alþjóðlega jarðhitageiranum. Þetta sé sem sagt frekar snjöll taktík hjá Beaty, heldur en að þetta sé hugsað sem arðbær leikur. Segja sumir.

svartsengi_steamSjálfur telur Orkubloggarinn reyndar að sjálft verðið sem Magma greiddi fyrir HS Orku hafi verið lágt. Án þess að ætla að rökstyðja þá skoðun hér og nú. Hreinlega reyfarakaup. En að vera á móti því að Beaty og Magma eignist stóran eða jafnvel ráðandi hlut HS Orku - bara af því hann er ekki með íslenskt ríkisfang og Magma útlenskt fyrirtæki - er algerlega útí hött.

Slík pólitík er einungis til þess fallin að verða enn eitt lóðið á einhverja misskilda og skemmandi þjóðernisrembu. Sem virðist því miður þjaka alltof marga Íslendinga og mun sennilega koma í veg fyrir að við getum nýtt okkur náið og vinsamlegt samstarf flestra annarra ríkja Evrópu. Þó svo Orkubloggarinn sé æpandi reiður hollenskum og breskum stjórnvöldum vegna framkomu þeirra í Icesave-málinu, mun raunsæi stýra atkvæði bloggarans. Þegar og ef til þess kemur að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Stóra vandamálið í viðræðunum verður líklega sjávarútvegsstefnan. ESB mun vonandi skilja rök þess efnis að fiskveiðilögsaga Íslands snertir hvergi lögsögu annarra ESB ríkja og því algerlega útí hött að láta sér detta í hug að færa ákvarðanir um kvóta á Íslandsmiðum til stofnana ESB. Við eigum að geta náð réttri niðurstöðu um fiskveiðistjórnunina. Aftur á móti verðum við að gefa eftir sérreglur um fjárfestingar í sjávarútvegi. Og það yrði auðvitað súrt að kyngja því t.d. að Ísland missi umboð til að gera sjálft viðskiptasamninga við ríki utan ESB. En eins og í öllum samskiptum milli þjóða byggist raunhæfur samningur á því að litið sé til hagsmuna beggja aðila.

globe-europeÞó svo sjálfstæðisdraumur Bjarts í Sumarhúsum búi í brjósti bloggarans, telur hann yfirgnæfandi líkur á því að aðild Íslands að ESB myndi einfaldlega skapa börnum okkar betri framtíðarmöguleika og enn meiri tækifæri. Það hlýtur að vera lykilatriðið. Þess vegna mun bloggarinn segja já við aðild.

Það breytir því þó ekki að Orkubloggarinn á von á því að meirihluti íslenskra kjósenda muni hafna aðild. Og er óhræddur að takast á við það - með hinum ævintýralegu dýfum á krónunni og ofsfengnu sveiflum í íslensku efnahagslífi. Innst inni hefur bloggarinn alltaf haft svolítið gaman af þessum fáránlega óstöðugleika, sem hefur einkennt íslenskt efnahagslíf allt frá fæðingu hans - og auðvitað miklu lengur. Það er nefnilega einhver dularfullur sjarmi yfir þessari þrjósku og þrautseigu þjóð hér í norðri. Sem kannski gerir það þess virði að við berjumst áfram ein á báti við bæði náttúruöflin og alþjóðasamfélagið - með krónuna að vopni. Sama hver niðurstaðan gagnvart ESB verður, mun Orkubloggarinn horfa bjartsýnn fram á veginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

"Bjartsýni" eða Bjart-sýni?

Þar er efinn!

Ketill Sigurjónsson, 12.11.2009 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband