Flugumferð

Orkubloggarinn átti sér eitt sinn þann draum að verða flugmaður. Eins og lesa má um hér.

Hartsfield–Jackson-DeltaFyrir vikið er bloggarinn nokkuð meðvitaður um hvernig flugumferð er háttað og umferðarstjórnun í nágrenni flugvalla. Og verður stundum hugsað til þeirrar geggjuðu umferðar sem er við fjölförnustu flugvelli heimsins. Eins og t.d. Heathrow við London eða flugvöllinn við Frankfurt í Þýskalandi, svo dæmi séu tekin um stóra evrópska flugvelli.

Eru þá ótaldir fjölförnustu flugvellirnir í N-Ameríku og Asíu, eins og t.d. í Los Angeles, Chicago, Tokyo og Hong Kong. Reyndar mun fjölfarnasti flugvöllur veraldar vera Hartsfield–Jacksonvið Atlanta í Georgíufylki í Bandaríkjunum. Um hann fóru 90 milljónir farþega árið 2008 og næstum milljón flugvélar.

Air traffic in 24 hoursÞessi gríðarlega umferð um Atlanta-flugvöll stafar af því að hann er einhver mikilvægast miðstöð innanlandsflugsins í Bandaríkjunum. Sem er kannski táknrænt fyrir það hvernig Bandaríkjamenn nota flugvélar nánast sem almenningsfarartæki. Sennilega er floti Delta-flugfélagsins með um 500 farþegaþotur stærsti notandi Hartsfield–Jackson og eflaust einhverjir Íslendingarnir sem hafa notað Delta í innanlandsflugi vestra.

Myndina að ofan, þar sem hver flugvél er ljós punktur, má sjá hér  með hreyfingu. Sams konar mynd í meiri slow motion sést á myndbandinu hér að neðan. Gott að hugsa til þessa t.d. rétt fyrir lendingu á dásamlega tómum Keflavíkurflugvelli.

Það er líka athyglisvert að sjá hversu sáralítil flugumferð er um Suðurhluta Kyrrahafs. Sem skýrir t.d. af hverju hann Chuck "FedEX" Noland átti ekki séns á að finnast, í kvikmyndinni Cast Away. Sama má segja um flug yfir sunnanvert Atlantshaf og yfir Indlandshaf; þetta virðast fáfarnar slóðir farþegaflugvéla.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband