30.11.2009 | 00:39
Hywind
Það eru merkilegir hlutir að gerast í Noregi þessa dagana.
Nú í vikunni sem leið voru Norsararnir að ræsa aðra af tveimur fyrstu osmósuvirkjunum heimsins (eða fyrstu, allt eftir því hvar skilin liggja á milli hreinna tilrauna og raunveruleikans). Virkjunin er reyndar enn á algeru tilraunastigi og langt í að þarna hefjist raunveruleg og umfangsmikil raforkuframleiðsla. Orkubloggaranum þykir sumir hérlendis hafa verið heldur hástemmdir um gríðarlega möguleika slíkra virkjana hér á Íslandi. En vissulega er þetta mjög áhugavert verkefni hjá Norsurunum.
Norðmenn horfa ótrauðir til framtíðar og eru svo sannarlega ekki hræddir við að reyna nýja hluti. Nú í haust var t.a.m. fyrstu fljótandi vindrafstöð veraldar komið fyrir utan við norsku ströndina. Hún er umfjöllunarefni Orkubloggsins í dag.
Það er nýorkuteymi StatoilHydro sem stendur að baki þeirri brautryðjendatilraun, í samstarfi við þýska Siemens. Verkefnið felst í því að taka flotpall eins og nýttir eru í olíuvinnslunni og festa við hann turn með vindrafstöð. Vindurinn á hafi úti er almennt mun sterkari og stöðugri en á landi og þess vegna er heppilegt að geta staðsett vindrafstöðvar utan við ströndina. Að auki sparar það landrými, sem ella færi undir turnana, og veldur líka minni sjón- og hávaðmengun vegna fjarlægðar frá landi.
Það er vissulega búið að reisa nokkur stór vindorkuver útí sjó. Slík offshore vinorkuver þekkjast t.d. utan við strendur Danmerkur og víðar við strendur nokkurra ríkja í N-Evrópu. Bandaríkjamenn hafa einnig verið spenntir fyrir slíkum vindorkuverum, en eru skemmra á veg komnir en Evrópuþjóðirnar við Norðursjóinn.
Öll eiga þessi vindorkuver það sameiginlegt að turnarnir standa á hafsbotni, skammt utan við ströndina. Til að þetta verði ekki alltof dýrt má dýpið ekki vera of mikið. Þess vegna hafa framsæknir menn nú horft til þess möguleika að nýta flotpallatæknina til að staðsetja stórar vindrafstöðvar djúpt útaf ströndinni, þar sem vindurinn er mun sterkari og stöðugri. Slík fljótandi vindorkuver gætu mögulega verið mun hagkvæmari heldur en þau sem við þekkjum í dag og opnað nýja og umfangsmikla möguleika í framleiðslu á umhverfisvænni raforku.
StatoilHydro er með meira en þriggja áratuga reynslu af því að athafna sig með olíuborpalla á norska landgrunninu. Smám saman færðist olíuleitin á dýpri svæði og tækniframfarirnar birtust m.a. í fljótandi borpöllum. Statoil varð meðal fremstu fyrirtækja heimi í að hanna slíka flotpalla og nú hyggst fyrirtækið nýta sér þessa þekkingu til að setja upp fljótandi vindrafstöðvar.
Norðmenn skortir ekki raforku. En öfugt við íslensku orkufyrirtækin telja hin norsku sjálfsagt að horfa út fyrir boxið. Þess vegna eru Norðmenn t.d. mjög framarlega í að gera sólarsellur fyrir sólarorkuver. Og þeir eru heldur ekki feimnir við að flytja út raforku. Þeir vita sem er, að það er miklu betri bissness í því að selja orkuna á góðum prís, fremur en að gefa hana til álvera. Og nú telja Norðmenn tímabært að skoða betur þann möguleika að nýta afl vindsins, sem nóg er af við vesturströnd Noregs.
Til eru þeir sem sjá rafmagnsútflutningi allt til foráttu og telja slíkt einkennast af nýlenduarðráni. En í reynd er útflutningur á endurnýjanlegri raforku allt annað mál en útflutningur á hrávöru, eins og t.d. silfri eða banönum. Í endurnýjanlegri orku fara saman uppbygging á verðmætri hátækniþekkingu og sköpun nýrra arðsamra útflutningsgreina. Norðmenn gera sér grein fyrir því að í framtíðinni mun verðmæti endurnýjanlegrar raforku verða ennþá meira en er í dag. Útflutningur á slíkri raforku er líklegur til að efla margs konar tækni- og verkþekkingu í landinu og skapa grunn að enn fleiri hugbúnaðarfyrirtækjum og þjónustu af ýmsu tagi.
Þess vegna eru Norsararnir nú að skoða ýmsa nýja möguleika í að flytja út rafmagn. Þ.á m. er samstarfið við vindorkuarm þýska iðnaðarrisans Siemens, um að hanna fljótandi vindorkuver, í því skyni að kanna hvort slík raforkuframleiðsla til útflutnings sé raunhæfur kostur. Hér á Íslandi fæst aftur á móti ekki einu sinni pólitískur stuðningur til að mæla vindinn í nauðsynlegri hæð, til að meta hagkvæmni vindrafstöðva á Íslandi. Status quo eða jafnvel afturhvarf til fátæktar virðist vera helsta áhugamál íslenskra stjórnvalda nú um stundir. Eins og Spaugstofan lýsti svo skemmtilega nú á laugardaginn.
Þessi fljótandi vindrafstöð þeirra StatoilHydro og Siemens, sem nefnd er Hywind, er hugsuð sem fyrsta skrefið í því að framleiða þúsundir MWh af rafmagni fyrir meginland Evrópu. Orkustefna ESB mun skapa síaukna eftirspurn efir raforku frá endurnýjanlegum auðlindum og ríki sem eiga tækifæri til að framleiða mikið af slíku rafmagni munu njóta góðs af.
Fyrsta vindrafstöð Hywind felst í nettri 2,3 MW vindtúrbínu frá Siemens, sem stendur á tiltölulega hefðbundnum sívölum flotpalli sem lengi hafa þekkst í olíuvinnslunni í norsku lögsögunni. Flotpallurinn er frá franska risaverkfræðifyrirtækinu Technip, sem einmitt nýverið hóf samstarf á sviði jarðhitatækni við íslensku verkfræðistofuna Mannvit. Herlegheitin voru sett saman í Åmøyfirðinum nágrenni olíubæjarins Stavanger í sumar sem leið og þaðan var dótið dregið út á sjó. Þar skoppaði dollan í öldunum í nokkra mánuði meðan á endanlegum frágangi stóð.
Þarna er sjávardýpið um 220 m og halda þrjú þung og mikil akkeri sívalningnum á sínum stað, en hann nær um 100 metra undir yfirborðið. Sjálfir spaðarnir eru um 80 m í þvermál
Raflínan í land kemur frá öðrum frönskum iðnaðarrisa; fyrirtækinu Nexans, en það er raforkufyrirtækið Haugaland Kraft sem tekur rafmagnið inn á kerfið sitt. Þess er vænst að þessi 2,3 MW virkjun geti skilað 9 GWh árlega gegnum þann ágæta rafmagnskapal. Það gerir 3,9 GWh á hvert uppsett MW, sem væru svo sannarlega mjög viðunandi afköst hjá vindrafstöð.
Almennt er nýting vindrafstöðva (m.v. uppsett afl) ca. 1/3 af því sem gerist hjá hagkvæmum vatnsaflsvirkjunum. En skv. áætlunum Hywind virðist gert ráð fyrir nærri helmingi betri nýtingu en gerist og gengur í vindorkunni! Ef það gengur eftir mun þetta hugsanlega marka talsverð tímamót.
En hvað með kostnaðinn? Fjárfestingin í Hywind mun vera um 400 milljónir norskra króna, sem samsvarar u.þ.b. 10 milljörðum ISK á núverandi gengi. Það gera nokkurn veginn 1,1 milljarð íslenskra króna pr. GWh á ári (Hywind á að skila 9 GWh árlega). Það þætti óneitanlega nokkuð hressilega mikið í íslenska orkugeiranum og fær Orkubloggarann gjörsamlega til að tapa þræðinum. En minnumst þess að hér er tilraunastarfsemi á ferðinni. Þar að auki er íslenska krónan jú í algerum skít, en sú norska firnasterk þessa dagana. Þannig að samanburður þarna á milli á núverandi gengi er eiginlega alveg útí hött.
Já - Hywind er enn á tilraunastigi og eflaust nokkuð langt í að hagkvæmar fljótandi vindrafstöðvar verði að veruleika. Markmið Norsaranna er að upplýsingar um hagkvæmni þessa ævintýris liggi fyrir eftir tvö ár og þá verður hægt að taka ákvörðun um framhaldið. Draumur Statoil er að í framtíðinni muni þeir geta framleitt þúsundir ef ekki tugþúsundir kílóvattstunda af hreinni og tiltölulega ódýrri vindorku úti á sjó og flutt hana um sæstreng til raforkuþyrstra Evrópubúa.
Vert er að minnast þess að Norðmenn eru löngu orðnir stórútflytjendur á rafmagni. Í Noregi eru nú framleiddar um 143 þúsund GWh á ári og þar af fara um 17 þúsund GWh til útlanda (sem er nánast sama magn af rafmagni eins og framleitt var á Íslandi þetta sama ár; 2008 framleiddu allar íslensku virkjanirnar samtals 16.467 GWh).
Norðmenn flytja sem sagt út gríðarlega mikið rafmagn. Og leita leiða til að geta boðið Evrópusambandinu ennþá meira grænt rafmagn í framtíðinni. Hywind er einn þáttur í því. Þetta ætti að gefa Íslendingum tilefni til huga betur að slíkum tækifærum. Á síðustu árum hafa nefnilega orðið straumhvörf í rafmagnsflutningum um kapla eftir hafsbotni. Meira um það í næstu færslu Orkubloggsins.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Ég þakka fyrir þennan pistil og þann næsta líka, svona fyrirfram. Vindorkan og útflutningur hennar til Evrópu um sæstrengi er einn áhugaverðasti kosturinn sem Ísland á til framtíðar. Ég hef veitt því athygli að samkvæmt vindakortunum hjá vedur.is og belgingur.is er nánast viðvarandi norðaustan vindstrengur úti fyrir Vestfjörðum. Þarna er einnig nokkuð grunnt, 50 metra dýptarlínan er svona 15-20 kílómetra úti fyrir ströndinni. Ef tæknin býður einhverntíman upp á það að nýta þennan vind til raforkuframleiðslu þá verður það sannkölluð gullnáma.
Bjarki (IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 17:26
Sæll Ketill,
Mér finnst þessir orkupóstar þínir mjög áhugaverðir og kemur oft með góða punkta.
Ég er samt ekki alveg að fatta þennan póst, veit ekki hversu mikil alvara þér er með þetta, en ef maður t.d. skoðar Kárahnjúka þá er verðið á GWh þar um 35 milljónir svo þó NKK væri jafnvirði 1 ISK þá myndi GWh samt kosta 45 milljónir með þessari fljótandi vindorku. Þannig hagkvæmnin þyrfti að aukast helvíti mikið áður en þetta er einhver kostur fyrir íslendinga nema ég sé með einhverja meinvillu sem ég sé ekki.
Ég hef að auki heyrt að vindorka við strendur Íslands séu erfiðar í besta falli, ómögulegar í versta falli vegna sterks vinds. Er það ekki rétt?
Ingi (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 14:46
Takk fyrir þetta, Ingi. Kannski einfaldast að svara þessu þannig að miðað við kostnaðinn á Hywind þá er ég ekki heldur alveg að skilja hvað Norsararnir eru að pæla.
En þetta er vel að merkja tilraun með nýja tækni á sviði vindorku og ekki sanngjarnt að reikna út framleiðsluverð til langframa miðað við þessa fyrstu dýru tilraun.
Það er hárrétt hjá þér að þessar stóru vindrafstöðvar eru hannaðar fyrir aðrar aðstæður en eru á Íslandi og þarf að slökkva á þeim í sterkum vindi til að þær skemmist ekki.
Þar með er ekki sagt að ekki sé unnt hanna hagkvæmar vindrafstöðvar fyrir íslenskar aðstæður. Þetta þarf einfaldlega að skoða og rannsaka miklu betur.
Ketill Sigurjónsson, 9.12.2009 kl. 17:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.