Renewable Deal

Norðmenn flytja út jafn mikið rafmagn eins og öll sú raforka sem framleidd er á Íslandi í dag. Um 17 þúsund GWh.

HVDC_EuropeLengst af fór raforkan frá Noregi til Evrópu, um raflínur gegnum Svíþjóð og kapla sem liggja eftir hafsbotninum milli Noregs og Danmerkur. En nú er búið að leggja nýjan rafmagnskapal neðansjávar frá Noregi og alla leið til Hollands. Hann er í dag lengsti neðansjávarrafstrengur í heimi. Og kallast NorNed.

NorNed er um 580 km langur og liggur eftir botni Norðursjávar frá smábænum Feda á suðurströnd Noregs og til hollenska bæjarins Eemshaven. Hann var lagður á árunum 2005-07 og í maí 2008 byrjuðu formleg viðskipti með rafmagn um kapalinn.

Það eru norska Statnett og holenska TenneT sem reka kapalinn, en hann var smíðaður af sænsk-svissneska iðnaðarrisanum ABB. Skv. fréttum um rekstur kapalsins virðist hann vera að skila mun meiri tekjum en áætlað var og þau tæknivandamál sem komið hafa upp hafa reynst óveruleg. Enda eru menn farnir að plana ýmsar fleiri nýjar raftengingar með slíkum köplum hingað og þangað um bæði Norðursjó, Eystrasalt og Miðjarðarhaf.

Auk NorNed eru nú uppi áætlanir af hálfu Norðmanna um að leggja fleiri rafstrengi frá Noregi til bæði meginlands Evrópu og Bretlands. Það eru nýju jafnstraums-háspennustrengirnir (HVDC) sem gera þennan möguleika raunhæfari en nokkru sinni. Rafmagnsflutningar langar leiðir eftir hafsbotni eru sem sagt orðnir að veruleika. Og þó svo leiðin frá Íslandi til Evrópu sé öllu lengri en milli Noregs og Hollands og dýpið miklu meira, sýnir þessi magnaði rafmagnskapall NorNed að Ísland á sennilega prýðilegan möguleika á að verða rafmagnsútflytjandi.

Desertec_plan_mapÞetta vita framsýnir menn. Það er athyglisvert að hjá Desertec-verkefninu, sem rekið er af einhverjum alklárustu verkfræðingum Evrópu og á rætur sínar hjá evrópsku geimferðastofnuninni, er t.a.m. gert ráð fyrir því að í framtíðinni muni rafmagn frá íslenskum vindorkuverum streyma um neðansjávarkapla til Evrópu. Það kann jafnvel að vera bæði raunhæfari og skynsamlegri möguleiki en að Evrópa verði háð sólarorku frá heldur vafasömum stjórnvöldum á Arabíuskaganum og í N-Afríku, eins og Desertec-verkefnið horfir hvað mest til. Það er a.m.k. augljóst að innan ESB ætti að vera mikill áhugi á íslenskri raforku.

Að baki Desertec standa nokkur af öflugustu stórfyrirtækjum álfunnar. Einnig er framkvæmdastjórn ESB áhugasöm um verkefnið og það nýtur pólitísks stuðning margra stærstu aðildarríkja sambandsins.

Fyrirtækin sem hyggjast koma Desertec í framkvæmd hafa stofnað til þess sérstakt félag (D II). Þ.á m. eru áðurnefnt ABB, orkufyrirtækin E ON og RWE, Deutsche Bank, þýska Munich Re Group (Münchener Rück, sem er stærsta endurtryggingafyrirtæki heims), spænska iðnaðarsamsteypan Abengoa, þýski bankinn HSH Nordbank, og þýski verkfræðirisinn M+W Zander. Það er einfaldlega borðleggjandi að kynna þessum glæsta hópi Ísland sem áhugasaman þátttakanda í mótun orkustefnu Evrópu.

HVDC_Siemens_ABBMenn eiga ekki að óttast þá hugmynd að selja íslenskt rafmagn til annarra landa. Þvert á móti er skynsamlegt að nýta sér tækifærin sem skapast vegna orkuþorsta ESB og stefnu sambandsins um að auka hlutfall endurnýjanlegrar raforku í orkuneyslu ESB-ríkjanna. Framleiðsla og sala á raforku af þessu tagi til ESB yrði lykill að meiriháttar nýjum íslenskum hátækni-iðnaði.

Nú er tækifæri fyrir forsætisráðherra Íslands, ríkisstjórnina og Alþingismenn að taka af skarið. Og sýna Evrópuþjóðunum að þrátt fyrir glórulausa og óafsakanlega áhættufíkn íslenskra útrásarsukkara, er gott samband við íslenska sérþekkingu og íslenskar auðlindir miklu verðmætara en að fá borgaða þessa Icesave-aura í beinhörðu.

Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga gæti hér líka tekið frumkvæðið. Forræði á skipulagsmálum er á hendi sveitarfélaganna og þau hafa því miklu hlutverki að gegna um hvernig nýta eigi orkuauðlindirnar innan lögsögu þeirra. Þar sem verulegur hluti af þeim auðlindum eru innan þjóðlendna er þó bersýnilega mikilvægt að eiga gott samstarf við ríkið. Varla ástæða til að vænta áhugaleysis þaðan; uppbygging á nýrri stoð í íslenska orkugeiranum yrði jú allra hagur.

Landvernd_keppni_11Umbreytum Icesave-málinu yfir í öflugan endurreisnarsamning! Bjóðum Evrópusambandinu til viðræðna um umfangsmikla uppbyggingu nýrra jarðhitavirkjana og vindorkuvera í þágu bæði Íslands og Evrópu. Og að slíkar framkvæmdir verði hluti af því að leysa deiluna um Icesave. Innst inni vill ESB örugglega leysa Icesave-málið í góðu og sá pakki er bara smámunir þegar byrjað er að tala um möguleikana sem felast í endurnýjanlegri íslenskri orku.

ESB vill draga úr þörf sinni á rússnesku gasi og minnka bruna á kolvetniseldsneyti. Ísland vill fjölbreyttara og styrkara atvinnulíf. Uppbyggilegt samkomulag af þessu tagi er rétta leiðin, í stað þess að þvinga skuldum einkafyrirtækis ofan í kokið á þjóðinni.

Einu sinni sköpuðu menn New Deal. Nú er rétti tíminn til að ýta af stokkunum ekki síður merkilegu verkefni; Renewable Deal!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef minnst á þennan NorNed streng í athugasemdum við nokkur blogg á undanförnu ári.  Viðbrögð þeirra sem vilja ekkert sjá nema álver hafa verið þau að kalla þetta fáránlega hugmynd, að ekki mætti flytja út orkuna það yrði að nota hana innanlands til atvinnuuppbyggingar.  Verðið sem fæst fyrir raforkuna virðist ekki skiptan álverssinna nokkru máli sem skýrir kanski þá slæmu stöðu sem stóru orkufyrirtækin okkar eru komin í enda hafa þessi sjónarmið verið allsráðandi hjá þeim sem ráðið hafa þessum málum.  Annars fer NorNet strengurinn nokkuð djúpt þar sem hann er lagður dýpst eða um 420m þannig að dýpið milli Íslands og Evrópu verður ekki vandamál að  ég held.  Það sem er kanski áhugaverðast við NorNet strenginn er að töpin eru ekki nema um 4% en þetta er háspenntur(450KV) jafnstraumsstrengur með um 700MW burðargetu. Sjá nánar um strenginn á slóðinni: www.abb.com/cawp/gad02181/8c5558c304d0eb13c1256f77003a33a1.aspx

kalli (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 01:46

2 identicon

en einnig verður að geta þess að eftir að norðmenn fóru að flytja út rafmagn,hefur raforkuverð til heimilla hér snarhækkað. Mér sýnis á mínum rafmagnsreiknum að rafmagnsverð hafi þrefaldast síðustu 8 ár. Þegar raforkufyrirtækin eru spurð um þetta er alltaf svarið, jú nú erum við komin á evrópska rraforkumarkaðinn og verðum að miða okkar verð við það.

anton (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 07:29

3 identicon

Hefur farið fram arðsemismat nýlega á því að selja rafmagn gegnum streng til meginlands Evrópu.

Sigurður Markússon (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 09:13

4 identicon

Ég er einn af þeim sem hef ekki séð ljósið þegar kemur að flutningi raforku frá Íslandi til Evrópu um sæstreng. Hvorki greinin né athugasemdirnar við hana hafa breitt neinu um það.

Ef tapið er 4% í 500 km streng má ekki gera ráð fyrir að tapið í 4-falt lengri streng sé fjórfalt meira eða 16%? Það er gríðarleg sóun á orku að nota hana til þess að hita upp sjávarbotninn!

Útflutningur á orku er hreinn og klár hráefnisútflutningur. Störfin sem ekki verða til innanlands eru ekki bara í álframleiðslu(sbr. athugasemd frá kalla) heldur hvaða framleiðslu sem er sem kallar á  raforku, hvort sem það er kísill eða annað.

Tenging við raforkumarkað í Evrópu leiðir óhjákvæmilega til hækkunar orkuverðs innanlands (sbr. athugasemd Antons að ofan), enda er orkuframleiðsla frjáls á Íslandi og við hluti af EES. Það myndi þíða að sá iðnaður sem við höfum í dag og notast við raforku myndi líklega hverfa, t.d. framleiðsla í gróðurhúsum, mjölframleiðsla með rafmagni, aflþynniverksmiðjan osfrv.

Ísland hefur ekki hlutfallslega yfirburði yfir aðrar þjóðir í neinu sem máli skiptir nema fiskveiðum og grænni orku. Þar gjöldum við fjarlægðar okkar frá mörkuðum og því óhagkvæmt að staðsetja framleiðslu hér nema þá sem nýtir sér þessa þætti þar sem við höfum yfirburðina, þ.e. í orkunni.

Þessvegna er t.d. hagkvæmt að flytja fiskinn óunninn úr landi. Við höfum yfirburðina í veiðunum en ekki í vinnslunni. Það er stundum sagt í gríni að vinnslan á fiskinum eyði verðmætum en skapi þau ekki.

Í ljós þessa tel ég skynsamlegt að halda rafmagninu innanlands og reyna að skapa iðnað sem byggir á því, r.d. gagnaver. Hver veit...kannski flytjum við orku út í öðru formi í framtíðinni, t.d. vetni, etanól, metanól osfrv.

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 10:46

5 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Það má sem sagt ekki flytja orkuna út af því betra er að nýta hana hér á Íslandi; láta orkuna skapa störf hér. Sbr. álverin. Og vegna þess að ef möguleiki væri á útflutningi gæti það þýtt hærra raforkuverð til almennings hér á Íslandi. Og þá væntanlega einnig til stóriðjunnar og þar með fæla álverin burt.

Með sömu rökum ætti kannski að banna útflutning á fiski. Að hann verði eingöngu seldur hér á landi og verði þá ódýrari fyrir landsmenn. Eða a.m.k. banna að óunninn fiskur sé fluttur út. Virðisaukinn við vinnsluna eigi að verða eftir í landinu.

Í mínum huga er aftur á móti lítill efi um það að uppbygging á raforkuútflutningi myndi hafa jákvæð áhrif á íslenskt atvinnulíf.  Meira myndi ávinnast en tapast. Einangrunarstefna skilar aldrei ávinningi til lengri tíma litið, nema fyrir þröngan hagsmunahóp. En um þetta er vissulega óvissa og menn verða líklega seint sammála um hvort sé hið rétta. Kannski er fjarlægð okkar frá raforkumarkaðnum of mikil til að geta notið ávaxtanna - kannski njóta Norðmenn ávinnings af sínum raforkuútflutningi sem við munum aldrei geta notið vegna ólíkra aðstæðna.  Það kann að vera. Þetta þarf allt saman að skoða gaumgæfilega. En ég er ekki alveg að kaupa þau rök, að það sé vont að flytja út raforku af því svo óskaplega hátt verð muni fást fyrir hana.

Auðvitað ætti ekki að ráðast í svona lagað nema það sé fjárhagslega hagkvæmt. Mér er ekki kunnugt um neina mjög nýlega hagkvæmnisathugun um þetta. En hef verið að skoða sögu íslenska rafstrengjamálsins og verð eflaust fljótlega með færslu um hana.

Ketill Sigurjónsson, 1.12.2009 kl. 11:46

6 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Það er vissulega mjög áhugavert að flytja út rafmagn um sæstreng. En kjarni málsins verður alltaf sá að okkur ber að skapa góð lífskjör fyrir fólkið í landinu.

Það gerum við með því að skapa áhugaverð og vel launuð störf. Störf sem skila miklu til samfélagsins og skila miklu til fólksins.

Pistlarnir þínir Ketill er einhverjir þeir bestu sem ég les á netinu, og ekki spillir frásagnarmátinn og létta skapið sem maður finnur að kraumar undir.

En ég hef vissar efasemdir um að semja við breta og hollendinga með því að bjóða þeim raforku.

Hver ætti að vera í samninganefndinni? Landsvirkjunar menn? Stjórnmálamenn? 

Þeim hefur nú ekki gengið vel að semja um orkusölu hingað til.

Varðandi það sem Anton sagði hér að ofan, get ég staðfest að það er rétt, því bróðir minn sem býr í Noregi hefur alveg sömu sögu að segja. Það er ansi hart að fólkið sem er búið að byggja upp raforkuverin í Noregi skuli vera látið borga okurverð, bara vegna þess að einhverjum datt í hug að selja umframorkuna til ESB

Sigurjón Jónsson, 1.12.2009 kl. 11:47

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Jamm - það er vandlifað hér á Klakanum þessa dagana, þegar allt traust á stjórnvöldum er endanlega rokið út í veður og vind.

Vegna athugasemdar Magnúsar hér að ofan: Ég get tekið undir það að best væri að geta notað orkuna til að framleiða hér fljótandi eldsneyti. Og held að menn þurfi að huga miklu betur að slíkum tækifærum. Sbr. þessi færsla um lífhráolíuna.

Ketill Sigurjónsson, 1.12.2009 kl. 12:07

8 Smámynd: Magnús Birgisson

Aðeins meira í sama knérunn...

Það er varhugavert að bera saman verð á orku til stóriðju á Íslandi og smásöluverð til endanotenda í Evrópu annarsvegar og draga þá ályktun að við séum að ,,gefa" orkuna til stóriðjunnar einsog kalli virðist vera að gera.

Staðreyndin er að undir öllum venjulegum kringumstæðum er ágætis hagnaður af orkusölu til stóriðju á Íslandi og ekkert sem bendir til þess að samningamenn okkar hafi samið af af sér. Við græðum ef áltonnið er yfir 1400USD og stórgræðum ef það er hærra en það. Það er mikill fylgni á milli álverðs og orkuverðs almennt þannig að ef við höfum trú á því að orkuverð hækki í framtíðinni þá hækkar álið líka og við græðum og græðum....vonandi. Núverandi vandræði orkufyrirtækjanna á ekki orsök sína í rekstrarreikning fyrirtækjanna heldur efnahagsreikning þeirra og sjóðsstreymi, stöðu krónunnar, lánshæfismati Íslands og áhrifa þess á áhættumati lánveitanda á Íslandi, stöðu afleiðusamninga um gengisvarnir osfrv....osfrv...osfrv. M.ö.o...þáttum sem fyrirtækin sjálf hafa litla sem enga stjórn á. 

Sjálfur er ég frjálshyggjumaður og það kann að vera mótsagnakennt á ég sé á móti því að tengja okkur við Evrópu og að orkuverð ráðist í frjálsi samkeppni.

En ef hrunið hefur kennt okkur eitthvað er það það að maður á ekki að vera kaþólskari en páfinn.

Orkan okkar er ekki vara sem er framleidd og seld á markaði. Hún er náttúruauðlind sem er endurnýjanleg en ekki óendanleg. Það þýðir í mínum huga að við verðum að nýta hana með þeim hætti að það sé þjóðhagslega hagkvæmt en ekki útfrá þröngu hagsmunamati orkuframleiðandans sem slíks.

Það þýðir þá að við yrðum að draga frá hagnaðinum við orkusölu erlendis þær tekjur sem við verðum af við það að nýta ekki orkuna innanlands.

Þetta er nú þegar gert, bæði í stóru og smáu, á Íslandi og erlendis. Orkan okkar er t.d. í samkeppni við olíu en olíuverðinu er m.a. handstýrt af Opec. Við takmörkum veiðar útlendinga í íslenskri lögsögu jafnvel þó við gætum látið þá borga fyrir í samkeppni við íslensk fyrirtæki. Til skamms tíma máttu útlendingar ekki kaupa bújarðir. Flest olíuframleiðslulönd (fyrir utan Noreg) selja olíu ódýrt til innanlandsnota jafnvel þó betra verð fáist erlendis. Mörg lönd banna fjárfestingar útlendinga i vinnslunni.

Og því segi ég ekki ,,Ísland fyrir íslendinga" heldur ,,Orkan fyrir íslendinga" og útlendingar eru velkomnir hingað til að nýta hana með okkur í formi erlendrar fjárfestingar.

Magnús Birgisson, 1.12.2009 kl. 12:57

9 identicon

Þú nefnir NorNed strenginn, í fyrsta lægi þá græða þeir svona mikið á honum þar sem þeir geta selt rafmagn fram og til baka. Á daginn er rafmagn selt frá Noregi til Hollands og á nóttunni er rafmagn frá Hollandi selt til Noregs. Landsvirkjun er að vinna í arðsemismati á þessu (hafa gert það reglulega undanfarna áratugi) og niðurstöður þeirra er að það er hreint glapræði að fara út í þessar framkvæmdir. Rafmagnsverð á Íslandi myndi hækka verulega við þessar framkvæmdir.

Til þess að leggja einn 600 MW streng þyrfti að fara í framkvæmdir á 5-10 virkjunum og jarðvarmaorkuverum. Sá aðili sem nær að sannfæra þessa ríkistjórn að byggja 5-10 nýjar virkjanir er guð í mínum augum. Ekki kemur til greina að virkja í Þjórsá og ríkisstjórnin vildi friða jarðhitasvæði fyrir Norðar. Segjum svo að við förum út í þessar framkvæmdir og leggjum eitt stykki HVDC streng til Bretlands (sem er ekki ný tækni, fyrsti strengurinn var lagður árið 1954) . Þá er kostnaður þess verkefnis um það bil 2000 milljónir evra eða 520 milljarðar Íslenskra króna. Liggur íslenska ríkið eða sveitarfélögin á því fjármagni?

Annar segir að það sé ekki vandamál að leggja streng til Bretlands og að dýpi verði ekki vandamál. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun myndi strengurinn liggja á allt að 1100 metra dýpi og tæknilega er það mesta dýpi sem svona strengur getur legið á. Það er ekki eina vandamálið, í dag eru eingöngu til 1 eða 2 skip sem geta lagt þennan streng, áætlað er að hægt væri að leggja 150 km af streng á ári, heildarlengdin til Bretlands eru rétt yfir 1100 km og það  tæki minnst 10 ár að leggja strenginn. Gaman að nefna að áætlaður lífstími svona strengs er um 25-27 ár. Tapið í þessari vegalengd væri um 0.3-0.4% á 100km plús spennuvirki (afriðlarastöð) það myndi gera um 8-10% tap.

Myndi strengurinn svo bila gæti notkun hans legið niðri í marga mánuði á ári þar sem þessi skip sem gætu gert við hann, væri hægt að fá þau, geta eingöngu sinnt viðhaldi á honum sé ölduhæð ekki fyrir ofan ákveðin mörk.

YggY (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 13:32

10 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Rafmagnssalan frá Hollandi til Noregs er sögð vera sáralítil. Að þetta sé aðallega einstefna.

Að sjálfsögðu verður dýpið vandamál. En ekki þar með sagt að þetta sé útí hött. Tækninni fleygir fram.

Ríkið og/eða sveitarfélögin eiga ekki að fjármagna þetta, ef af yrði. Einungis hafa frumkvæði um að kynna þennan möguleika. Framkvæmdin yrði væntanlega í höndum fyrirtækis, sem bæði erlend og innlend félög kæmu að. T.d. með NorNed eignarhaldið sem fyrirmynd.

Ketill Sigurjónsson, 1.12.2009 kl. 14:18

11 identicon

Samkvæmt mínum heilmildum frá Landsvirkjun eru eina ástæða þess að þetta gangi svo vel er vegna sölu milli landanna. Væri gaman að sjá hvort þú hafir einhverjar tölur fyrir þetta.

Eins og Landsvirkjun hefur komist að þá er þetta varla arðbært, ekki fyrir íslenska ríkið, ég er ekki að sjá að einhverjir erlendir aðilar vilji taka þátt í svona áhættusömu verkefni, allavegana eru menn í Landsvirkjun að reka sig á það.

YggY (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 16:36

12 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Mig grunar reyndar að það séu einhver ár síðan þetta var athugað síðast. Hugsanlega hafa forsendur breyst talsvert síðan þá. Ný stefna ESB um að auka markvisst hlutfall endurnýjanlegrar orku hefur líka umtalsverða þýðingu og er til þess fallin að auka áhuga fjárfesta á svona verkefni. Það er t.d. ástæðan fyrir því að fjármagn streymir nú í byggingu dýrra CSP-sólarorkuvera suður á Spáni.

Svo er vert að vekja athygli á því að þó svo ég líti ekki síst til raforku frá jarðvarma, eru möguleikarnir í vindorkunni kannski ennþá áhugaverðari. A.m.k. svona fyrst í stað til að auka orkufjölbreytnina hér á Íslandi. Raforkuframleiðsla vindorkuvera er mjög sveiflukennd og hentar illa í raforkusamfélagi eins og hér á Íslandi. Raforkusamfélag sem byggir svo svakalega á stóriðju, þarf mjög stöðugt raforkuframboð. Um þetta fjallaði ég lítillega í skýrslunni sem ég vann í vor fyrir þáverandi iðnaðarráðherra.

Vindorkuver á Íslandi gætu hins vegar mallað endalaust inn á hið stóra raforkukerfi t.a.m. Bretlands. Nefna má að vindorkuver upp á nokkur hundruð MW þekkjast víða í dag og nokkur vindorkuver með uppsett afl upp á ca. 4 þúsund MW hvert eru í bígerð. Það er alveg tímabært að framkvæma raunverulega athugun á því að reisa stór vindorkuver á Íslandi. Og beina ísilensku vindorkunni inn í rafstreng til Evrópu. Tær snilld - ef þetta væri fjárhagslega framkvæmanlegt.

Kannski er þetta útópía. Eða dystópía! En það er að mínum dómi full ástæða til að skoða slíka möguleika. Dönsk dagblöð tala nánast aldrei um Ísland nema að hnýta "den vindforblæste klippeö" í textann. Við borgum Icesave einfaldlega með rokinu - sem varla telst endanleg auðlind! Mér þætti einkennilegt að sjá evrópska pólítíkusa hafna slíkri leið - jafn viljugir og þeir eru til að dásama endurnýjanlega orku og mikilvægi þess að verða óháðari kolum og innfluttu gasi.

Ég er strax farinn að sjá rokið á Miðnesheiði "streyma niður í" nýja, fína rafstrenginn til Skotlands og þaðan áfram um Bretlandseyjar. Væri örugglega gaman að horfa yfir turnana þegar maður kæmi til lendingar á nýja alþjóðaflugvellinum við Reykjavík. Sem líka var borgaður með vindi til Bretlands.

Og sé einhver í vafa, skal tekið fram: Mér er í alvöru fúlasta alvara.

Ketill Sigurjónsson, 1.12.2009 kl. 17:25

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Umræðan hér að ofan er alveg dæmigerð fyrir hugsunarháttinn hér á landi.

Ekki er minnst einu einasta orði á það sem þyrfti að fórna af einstæðum náttúruverðmætum landsins til þess að geta virkjað allt sem virkjanlegt er og helst að lofa því öllu fyrirfram svo að hægt sé að borga herkostnaðinn af síðasta ævintýri græðgisfíkninnar.

Norðmenn eiga óvirkjað álíka mikið vatnsmagn og Íslendingar og ekki er að sjá að þar í landi sé mikil umræða um að klára að virkja allt þótt þeirra náttúruverðmæti séu hvergi nærri jafn verðmæt og okkar.

Afsakið annars að ég skuli minnast á þetta, -ég á greinilega ekki heima í umræðunni um þetta.

Ómar Ragnarsson, 1.12.2009 kl. 17:36

14 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Jú, Ómar, þú átt víst heima í þessari umræðu. Og ég er oft sammála þér um verndun íslenskra náttúruverðmæta. Og ég myndi alls ekki vilja sjá þetta gerast ef það krefst of mikilla náttúrufórna. Þess vegna m.a. er ég sérstaklega spenntur fyrir vindorkunni. Þó svo mörgum þyki slíkir turnar eyðileggja útsýni og náttúru, eru til staðir sem þetta gæti farið vel á. Ég er líka bjartsýnn um að þróun í jarðborunum muni skapa nýja möguleika á raforkuframleiðslu án mikilla náttúrufórna. Þetta eru vissulega mörg EF. Það viðurkenni ég manna fyrstur. En horfum bjartsýn fram á veginn og skoðum möguleikana.

Ketill Sigurjónsson, 1.12.2009 kl. 17:43

15 identicon

Ég er sammála Ómari, samkvæmt fyrsta áfanga rammaáætlunarinnar er hægt að fá um það bil 34.000 GWh, en það er um 10% af orkuþörf Breta á ári. Til þess þarf milli 30-40 vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir. Hvað varðar jarðvarmavirkjanir þá losa þær mjög mikið af SO2 út í andrúmsloftið, mig minnir að Hellisheiðarvirkjunin losi út árlega af brennisteini sem samsvarar heimsnotkun brennisteins á einu ári. Ekki er það ýkja umhverfisvænt, hinsvegar er Orkuveita Reykjavíkur að vinna að verkefni þar sem þeir ætla að dæla brennisteininum aftur niður þar sem hann mun bindast í jarðlögunum. Það mun eyða nánast allri losun brennisteins komi góðar niðurstöður úr þeim tilraunum.

Þú segir að einhver ár séu síðan arðsemismat var gert á lagningu strengs til Bretlands. Landsvirkjun er í þessum töluðu orðum að vinna að arðsemismati á þessu verkefni. Niðurstaða þeirra er sú að þetta er varla mögulegt.

Eitt varðandi vindorkuna. Vindorkan er mjög óstöðug, ef Ísland myndi setja upp vinorkuver og selja rafmagn til Bretlands þyrftu Bretar samt sem áður að vera með kola, gas eða kjarnorkuver til að vinna upp gegn sveiflum í raforkunni frá vindorkuverunum. Vandamálið við kola og gasorkuver að það er illmögulegt að minnka raforkuframleiðsluna í þeim, t.d. ef vindorka frá Íslandi væri mjög mikil gætu þeir ekki minnkað framleiðsluna í sínum orkuverum og öfugt ef vindorkan væri lítil. Ein leið til að leysa það vandamál er að gera það sama og Spánverjar, þeir nota mjög mikið af vindorku en þeir nota hana aðallega til þess að dæla vatni upp í lón og nota svo fallorkuna í vatninu til að framleiða orku.

YggY (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 18:08

16 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þá er bara en bíða spenntur eftir niðurstöðu Landsvirkjunar um þetta.

Bretar horfa fram á að þurfa að loka fjölmörgum kolaorkuverum til að geta mætt skuldbindingum ESB um takmörkun á losun gróðurhhúsalofttegunda. Þeir nota nú um 350 TWh (sem eru 350 þúsund GWh eða 350 milljón MWh) á ári og þar af koma einungis rúmlega 5% frá endurnýjanlegum orkulindum.

Til samanburðar framleiða Íslendingar nú um 17 TWh árlega. Það að Íslendingar myndu auka rafmagnsframleiðslu sína um 100% myndi því einungis mæta tæplega 5% af allri rafmagnsnotkun Breta. Það væri mikill bissniss fyrir Ísland en varla stórmál fyrir Breta. Tekið skal fram að þessar tölur voru reiknaðar í miklu snarhasti, en eru vonandi nokkurn veginn réttar.

Allra leiða er leitað í Bretlandi til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Þess vegna er Bretland t.d. Mekka sjávarfallavirkjanaiðnaðarins. Þrátt fyrir að sú tækni sé almennt mjög dýr. Reyndar er varla ofsagt að Bretar standi frammi fyrir gífurlegri áskorun í orkumálum.

Það virðist hreinlega vonlaust verkefni fyrir Breta að ætla að ná markmiðum um að losa sig frá kolarafmagninu nema að byggja fjölmörg ný kjarnorkuver. Til að vega upp á móti gangrýni á kjarnorkuna munu þeir líka fjárfesta mjög í vindorku. Þarna eru risatækifæri til að bjóða endurnýjanlega orku. T.d. íslenska vindorku. Nú er bara að vona að niðurstaða Landsvirkjunar um hagkvæmni rafkapals til Skotlands verði hagstæð!

Ketill Sigurjónsson, 1.12.2009 kl. 19:36

17 identicon

Þetta blogg er afar fróðlegt hjá þér Ketill, og þökk skaltu hafa fyrir það.

Það er og afar jákvætt að sjá að bollaleggingarnar eru ekki bundnar við endilega eitthvað "eitt rétt", heldur allt mögulegt. Til dæmis vindorku, og svo mismunun í verði á orkusölu, inn og út og í þetta eða hitt.

Væri nú ekki rétti tíminn til að velta þessu enn betur upp? Mismunur á orkuverði til íslenskra notenda vs stóriðju, og svo stóriðja vs kapall. Kostnaður við vindorku vs stórar vatnsaflsvirkjanir, og svo kostnaður og áhættudreifing á fleiri smærri orkueiningum, t.a.m. vindrafstöðvum vs. stærri einingum.

Ég á einhverjar tölur handa þér ef þig langar að taka þetta á reiknistokkinn.

Jón Logi (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 22:55

18 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Jón Logi; tölur eru mjög á reiki, en allar góðar upplýsingar eru vel þegnar.

Þú nærð í mig á: ketillsigurjonsson@gmail.com

Ketill Sigurjónsson, 1.12.2009 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband