5.12.2009 | 11:39
Tækifæri í rokinu
Í síðustu færslu fjallaði Orkubloggið um útflutning á raforku um sæstreng. Og fékk óvenju mikil viðbrögð. Þetta er bersýnilega talsvert hitamál og fólk með afar ólíkar skoðanir á því hvort slíkur útflutningur sé mögulegur og jafnvel hvort hann sé réttlætanlegur. Sumir tala um að slíkt væri hráefnisútflutningur án nokkurs virðisauka - og eru þá líklega að vísa í það sem algengt er í þriðja heiminum. Aðrir telja þetta snilldarleið til að efla íslenskan iðnað og muni hafa mjög jákvæð áhrif á margvíslegar þjónustugreinar hér. Eitt er víst; jafnvel þó slíkur raforkuútflutningur myndi geta borið sig yrði þetta pólitískt hitamál.
Tæknilega og pólitískt séð hefur raforkuútflutningur aldrei verið jafn raunhæfur eins og núna. Og líka fjárhagslega. A.m.k. að mati Orkubloggarans. Ætlar bloggarinn að leyfa sér að hnykkja á þessu, með því að setja hér inn nokkur atriði sem hann lét fljóta inn á athugasemdir með síðustu færslu. Sem sagt í reynd endurtekið efni!
Orkumál Evrópu eru í dag gjörólík því sem nokkru sinni hefur verið. Olíuframleiðslan innan ESB-ríkjanna minnkar hratt, ESB er orðið mjög háð innflutningi á rússnesku gasi og þar að auki er ríkur vilji innan ESB að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Allt er þetta sem vindur í segl endurnýjanlegrar orku og nýtist þeim sem geta boðið ESB slíka orku. Það er sem sagt einfaldlega þannig að orkustefna ESB er til þess fallin t.d. að auka áhuga fjárfesta á verkefnum af því tagi sem lýst var í síðustu færslu Orkubloggsins; að flytja raforku til ESB um sæstreng frá Íslandi.
Þó svo Orkubloggarinn líti ekki síst til raforku úr iðrum jarðar í þessu sambandi, eru möguleikarnir í vindorkunni kannski ennþá áhugaverðari. A.m.k. svona fyrst í stað til að auka orkufjölbreytnina hér á Íslandi. Raforkuframleiðsla vindorkuvera er mjög sveiflukennd og hentar illa í raforkusamfélagi eins og hér á Íslandi. Raforkusamfélag sem byggir svo svakalega á stóriðju, þarf mjög stöðugt raforkuframboð.
Um þetta fjallaði Orkubloggarinn lítillega í skýrslunni sem bloggarinn vann í vor fyrir þáverandi iðnaðarráðherra. Þar var sett fram sú viðmiðun að vegna þess hversu stóriðjan notar mikinn hluta íslenskrar raforku, verði raforka frá íslenskum vindorkuverum vart nokkru sinni umfram 5% af heildar-raforkuframleiðslunni á Íslandi. Er þá vel að merkja miðað við innanlandsmarkað, enda er nú ekki um neinn útflutning að ræða.
Vindorkuver á Íslandi gætu hins vegar mallað endalaust inn á hið stóra raforkukerfi Evrópu; t.a.m. Bretlands. Nefna má að vindorkuver upp á nokkur hundruð MW þekkjast víða í dag og nokkur vindorkuver með uppsett afl upp á ca. 4 þúsund MW hvert eru í bígerð. Það er alveg tímabært að framkvæma raunverulega athugun á því að reisa stór vindorkuver á Íslandi. Og beina íslensku vindorkunni inn í rafstreng til Evrópu. Tær snilld - ef þetta væri fjárhagslega framkvæmanlegt.
Kannski er þetta útópía. Eða dystópía! En að mati Orkubloggsins er full ástæða til að skoða slíka möguleika. Dönsk dagblöð tala nánast aldrei um Ísland nema að hnýta "den vindforblæste klippeö" í textann. Tökum þá á orðinu. Við borgum Icesave einfaldlega með rokinu - sem varla telst endanleg auðlind! Það væri fjarska einkennilegt ef evrópskir pólitíkusar myndu hafna slíkri leið - jafn viljugir og þeir eru til að dásama endurnýjanlega orku og mikilvægi þess að verða óháðari kolum og innfluttu gasi.
Væri ekki gaman að sjá t.d. rokið á Miðnesheiði streyma niður í nýja, fína rafstrenginn til Skotlands og þaðan áfram um Bretlandseyjar? Og horfa yfir turnana þegar maður kæmi til lendingar á nýja alþjóðaflugvellinum við Reykjavík. Sem líka var borgaður með vindi til Bretlands.
Bretar horfa fram á að þurfa að loka fjölmörgum kolaorkuverum til að geta mætt skuldbindingum ESB um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir nota nú um 350 TWh á ári - og þar af koma einungis rúmlega 5% frá endurnýjanlegum orkulindum. Til samanburðar framleiða Íslendingar nú um 17 TWh árlega. Það að Íslendingar myndu auka rafmagnsframleiðslu sína um 100% myndi því einungis mæta tæplega 5% af allri rafmagnsnotkun Breta. Það væri mikill bissniss fyrir Ísland en varla stórmál fyrir Breta.
Allra leiða er nú leitað í Bretlandi til að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Þess vegna er Bretland t.d. Mekka sjávarfallavirkjanaiðnaðarins. Þrátt fyrir að sú tækni sé ennþá almennt mjög dýr og í reynd nánast á byrjunarreit. Reyndar er varla ofsagt að Bretar standi frammi fyrir gífurlegri áskorun í orkumálum. Það virðist hreinlega vonlaust verkefni fyrir Breta að ætla að ná markmiðum um að losa sig frá kolarafmagninu nema að byggja fjölmörg ný kjarnorkuver. Til að vega upp á móti gangrýni á kjarnorkuna munu þeir líka fjárfesta mjög í endurnýjanlegri orku og grípa tækifæri á að flytja inn slíka orku.
Þarna kunna að vera áhugaverðir möguleikar fyrir Íslendinga að flytja út græna orku. T.d. íslenska vindorku. Og hugsanlega einnig rafmagn frá jarðvarma, t.d. eftir því sem djúpboranatækni fleygir fram. Það að flytja út hreinustu raforku sem þekkist hefur nákvæmlega ekkert með þriðja heims hráefnisútflutning að gera. Þvert á móti væri þetta leið til að auka bæði hagsæld og virðingu Íslands. Góða helgi!
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.