Antonio Benjamin á Litla-Hrauni

Eitt af mörgum svolítið sérviskulegum verkefnum sem Orkubloggarinn hefur tekið sér fyrir hendur, er þátttaka í lögfræðinganefnd Alþjóða náttúruverndarsambandsins (IUCN's Commission on Environmetal Law; skammstafað CEL).

cel_logoÞað kom til af því, að um árabil vann bloggarinn talsvert á sviði umhverfisréttar og hafréttar og kynntist þá m.a. tveimur áströlskum lögfræðingum, sem hafa mikið unnið á sviði alþjóðlegs umhverfisréttar. Þeir heita Ben Boer og Ian Hannam  og eru gamlir vinir frá þeim dögum þegar Orkubloggarinn vann nokkra mánuði suður í Sydney. Var þá m.a. fyrirlesari í lögfræðikúrsum við Háskólann þar í borg (University of Sydney), hvar Ben er prófessor, en dags daglega starfaði  bloggarinn með Ian í ráðuneyti sem nefndist NSW Department of Land and Water Conservation. Í framhaldi af Sydneyjar-dvölinni fékk bloggarinn svo boð um að taka þátt í þessu athyglisverða lögfæðingasamstarfi á vegum IUCN, en Ben Boer hefur einmitt lengi verið ein helsta driffjöðrin í CEL. Annars má sjá tæmandi lista yfir meðlimi CEL hér á vef IUCN.

Innan CEL hefur bloggarinn átt sæti í sérfæðinganefnd um samningu sérstaks alþjóðlegs jarðvegsverndarsamnings, sem er ennþá í vinnslu. Þannig háttar til að nokkrir af mikilvægustu þjóðréttarsamningum heimsins á vettvangi umhverfisréttar eiga einmitt upphaf sitt í vinnunni innan IUCN. Til að samningur verði að veruleika þarf hann þó auðvitað að komast inn á borð Sameinuðu þjóðanna  og fá afgreiðslu þar. Auk jarðvegsverndarsamningsins, sem enn er bara draft, hefur bloggarinn líka tekið þátt í starfi hafréttarnefndar CEL og komið að samstarfi um náttúruvernd og auðlindanýtingu á Norðurslóðum.

benjamin_antonioÞetta hefur verið fróðlegt ferli. En það allra skemmtilegast við þessi verkefni hefur verið að kynnast nokkrum af þekktustu umhverfislögfræðingum heimsins. Af því sumir þeirra eru óneitanlega ansið sterkir og litríkir karakterar.

Meðal þeirra er brasilískur ljúflingur að nafni Antonio Herman Benjamin. Þó svo bloggarinn hafi upphaflega kynnst Antonio í gegnum CEL voru þau kynni þó afar yfirborðsleg, allt þar til hann kom til Íslands haustið 2005. Tilefnið var alþjóðleg ráðstefna  um jarðvegsvernd, sem haldin var á Selfossi undir forystu Landgræðslunnar, Landbúnaðarháskólans og evrópsku stofnunarinnar Scape (Soil conservation and protection strategies for Europe).

Sao_Paulo_megapolisAntonio hafði þá starfað í tvo áratugi hjá saksóknaranum í megaborginni Sao Paulo og þar verið yfir umhverfisbrotadeildinni í 4 ár. Hann taldist á þeim tíma einn helsti lagasérfræðingur Rómönsku Ameríku í umhverfisrétti og hafði lengi starfað á þeim vettvangi innan IUCN og CEL.

Skömmu eftir ráðstefnuna bárust svo þær ánægjulegu fréttir að Lula Brasilíuforseti hefði tilnefnt Antonio sem dómara við sjálfan Hæstarétt Brasilíu. Sú tilnefning var svo staðfest um mitt ár 2006 og síðan þá hefur Antonio væntanlega m.a. verið í því hlutverki að senda delíkventa í hin alræmdu brasilísku fangelsi. Hann er þó ennþá mjög virkur í samstarfinu á vettvangi CEL. Og virðist ekki ætla að láta Hæstaréttardómaraembættið koma í veg fyrir að hann geti áfram unnið að því að styrkja og efla alþjóðlegan umhverfisrétt.

Hæstiréttur í Brasilíu er í raun tvær stofnanir. Annars vegar er ellefu manna stjórnskipunardómstóll, sem nefnist Supremo Tribunal Federal og hins vegar er svo æðsti dómstóll í öðrum áfrýjunarmálum og nefnist sá Superior Tribunal de Justiça. Þar sitja um þrjátíu dómarar og einn þeirra er sem sagt Antonio Benjamin.

Antonio_Benjamin_3Þessa ljúfu haustdaga um miðjan september 2005 vissi enginn okkar að Antonio væri um það bil að forframast svo mjög í hinu risastóra og fjölmenna heimalandi sínu. En það kom svo sannarlega ekki á óvart að þessi litlu kubbur skyldi hljóta þetta mikla embætti. Sjaldan hefur Orkubloggarinn hitt mann sem sameinar jafn vel greind, hæfileika í mannlegum samskiptum, ákveðni og alúðleika. Hrein perla.

Það er ekki alltaf gaman á ráðstefnum. Eins og sjá má af myndinni hér til hliðar, sem tekin er af Antonio á einu af allsherjarþingum IUCN. En það voru allir í góðu stuði þarna á Selfossi haustið 2005.

Við þetta tækifæri fór Orkubloggarinn í smá bíltúr á Land Rovernum í nágrenni Selfoss, með Antonio ásamt þremur öðrum gestum af umræddri ráðstefnu. Með okkur í för voru áðurnefndur Ástrali - Ben Boer frá Sydney - ásamt konu hans og síðast en ekki síst Sheila Abed, þrautreyndur lögfræðingur frá Paraguay, en hún er í fararbroddi þeirra sem sinna málefnum náttúruauðlinda í Suður-Ameríku.

Sheila_Abed_CELÞar er svo sannarlega af nógu að taka, með einhverja mestu frumskóga og fjallgarða veraldar, stærstu sléttur heimsins og nokkur mestu vatnsföllin. Það má líka nefna að það var talsvert dramatískt þegar þau Sheila og Suður-Ameríkumennirnir náðu völdum innan CEL og losuðu nefndina undan gömlu klíkunni, en það er önnur saga. Sheila er núna stjórnarformaður CEL.

Veðrið þennan dag var milt og óhemju fallegt; miðseptemberdagur eins og þeir gerast bestir. Ég byrjaði á því að renna með þennan góða hóp vestur fyrir Selfoss og stoppa í Kömbunum. Þar lagðist allur hópurinn í mjúkan haustmosann og gæddi sér á ógrynni krækiberja úr lynginu. Antonio kunni vel að meta að liggja þarna í grámosanum og horfa upp í heiðan íslenskan himin. Líklega talsvert ólíkt hversdeginum suður í milljónaþvögunni í Sao Paulo. Eftir nokkra stund var svo haldið til baka  niður brekkurnar og beygt suður á Þorlákshafnarveginn. Og ekið þaðan yfir á Eyrarbakka og loks endað "heima" á Hótel Selfossi eftir góðan síðdegistúr.

litla_hraun_1Þegar við vorum í þann mund að aka framhjá afgirtu fangelsinu á Litla Hrauni spurði Antonio hvað í ósköpunum þessi bygging hefði að geyma. Það stóð auðvitað ekki á svari frá Orkubloggaranum, sem freistaðist til að dramatísera: "Þetta er fangelsi. Þarna geyma íslensk stjórnvöld alla hættulegustu glæpamenn landsins".

Antonio horfði á mig nokkrar sekúndur forviða á svip, en sprakk svo úr hlátri. Enda staða fangelsismála suður í Brasilíu eilítið önnur og ógnvænlegri en á Íslandi. Helstu fangelsin þar margvíggirt og minna mest á hervirki, enda eru fangauppreisnir og blóðug átök þar nánast daglegt brauð. Svo hringdi gemsinn hjá Antonio og þar var sjálfur Lula Brasilíuforseti, sem bauð honum sæti í Hæstarétti landsins. Svona til að færa í stílinn! En hvað sem því líður, þá mun Orkubloggarinn aldrei gleyma einlægum undrunarsvipum á Antonio Benjamin, núverandi Hæstaréttardómara suður í Brasilíu, þarna í græna Land Rovernum við Litla-Hraun haustið 2005.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband