12.12.2009 | 00:05
Svona var það... og er það enn
Raforkuútflutningur um sæstreng gæti orðið eitt stærsta hagsmunamál Íslendinga í framtíðinni. Eftirspurn eftir umhverfisvænni orku, sem kemur frá endurnýjanlegum auðlindum, fer í vöxt á meginlandi Evrópu. Margt bendir til, að verkefnið sé framkvæmanlegt og íslenzk raforka geti orðið samkeppnishæf á markaði í Evrópu. Umsvif við virkjanir myndu stóraukast, ef útflutningur raforku hæfist, og því er spáð, að hagvöxtur gæti aukizt hér um 2% á ári, ef af lagningu sæstrengs yrði. Atvinna myndi aukast og ný leið væri fundin til að breyta orkunni í fallvötnum Íslendinga í útflutningstekjur.
Nei - þetta er ekki innlegg frá Orkubloggaranum. Þetta er aftur á móti orðrétt úr ritstjórnargrein Morgunblaðsins þann 19. nóvember. Árið 1992! Hvað eru margar zetur þarna á ferðinni?
Í áratugi hafa menn hér á Klakanum góða velt fyrir sér þeirri hugmynd að selja rafmagn um sæstreng frá Íslandi til Evrópu. Og virðast strax fyrir um 15 árum hafa vera orðnir afar trúaðir á þessa hugmynd og hagkvæmni þess að koma henni í framkvæmd.
Upp úr 1990 var hugmyndin kölluð ICENET. Þetta var samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og hollenskra fyrirtækja, sem sögð voru heita PGEM, EPON og NKF Kabel. Ef Orkubloggarinn man rétt var þetta á svipuðum tíma og fréttatímar voru uppfullir af fréttum um stórt álverkefni, sem kallað var Atlantal og átti held ég rætur sínar hjá hollensku álfyrirtæki sem nefnist Hoogovens. Þetta er náttlega allt í þoku fortíðar. Var það ekki örugglega Jón eðalkrati Sigurðsson, helsta vonarstjarna Jóns Baldvins, sem þá var iðnaðarráðherra?
Á þeim tíma rifust menn eins og alltaf um ál - en þeir rifust líka um ágæti þeirrar hugmyndar að flytja út raforku um sæstreng. Þá, rétt eins og nú, var álverð lágt og þess vegna var það svolítið þungur róður fyrir Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, að laða álfyrirtæki að Íslandi. Atlantal vildi bara borga skít og kanil fyrir rafmagnið og ekkert varð úr stórhuga áætlunum um risaálver á Íslendi - að sinni. Þrátt fyrir mikinn vilja. Kannski var það þess vegna sem menn fóru að vinna í hugmyndinni um sæstreng.
Álversmálið virtist komið í strand. Þess vegna kann raforkusala til Evrópu hafa þótt upplagður kostur. Nú skyldi ekki lengur bara veðjað á álið, heldur einfaldlega opna leið að evrópska raforkumarkaðnum.
Inn í þetta blönduðust líka hörð pólitísk átök í borgarstjórn Reykjavíkur. Borgarfulltrúar meirihlutans (Sjálfstæðismenn) sáu m.a. tækifæri í því að reist yrði sæstrengsverksmiðja við Reykjavík. Ekki er Orkubloggarinn viss um hvort sjálf orkan sem átti að fara um strenginn hafi átt að koma frá jarðhitavirkjunum í lögsögu Reykvíkinga. Sennilega var fremur horft til þess að nýjar vatnsaflsvirkjanir á vegum Landsvirkjunar á Austurlandi myndu framleiða raforkuna í sæstrenginn. Á þessum tíma var orðinn mikill spenningur fyrir því að virkja norðan Vatnajökuls, þó svo enn væri langt í að Kárahnjúkadraumurinn yrði að veruleika. Í þá daga var Reykjavík vel að merkja stór hluthafi í Landsvirkjun, þannig að sala á raforku frá Landsvirkjun hentaði hagsmunum Reykjavíkur prýðilega.
En menn voru svo sannarlega ekki á einu máli um ágæti þessarar hugmyndar. Rétt eins og nú logaði allt í illdeilum milli meirihluta og minnihluta (hvernig nenna menn að taka þátt í þessara íslensku stjórnmálavitleysu?). Hinni leiðigjörnu en raunsönnu klisju eggin mega ekki öll vera í sömu körfunni, var mikið haldið á lofti af þeim sem horfðu til raforkuútflutningsins. Aðrir sáu þessari hugmynd allt til foráttu og töldu okkur þar með fara í sama flokk og aumir hrávörubændur í þriðja heiminum.
Já - þarna tókust á stálin stinn og fullyrti hvor hópur fyrir sig að heimurinn væri hvítur... eða svartur. Þegar raunin er auðvitað sú að veröldin er bara undursamlega grásprengd og langflestir hafa einfaldlega pínulítið rangt fyrir sér en líka svolítið rétt fyrir sér. Þessi leiðindavenja hér á Klakanum og víðar, að trúa í blindni á tiltekna forystumenn eða flokka, er satt að segja frekar kjánaleg.
En höldum aftur til daganna góðu um og upp úr 1992. Þegar Orkubloggarinn var hættur að vera með jafnsítt" og Casablanca og Tunglið höfðu tekið við aðalhlutverkinu af Hollywoodinu hans Óla Laufdal. Í Casa dansaði Nilli flottasta Moonwalk á Íslandi. Og hefur haldið áfram að dansa í gegnum lífið og er nú að ég hygg einn af rafmagnsverkfræðingunum sem sjá til þess að Landsnetið streymi sem skyldi um raforkuæðar Íslands. Bragi beib var jafnan tilbúinn að kíkja á bíó á Lancernum og taka svo einn snúning á Glaumbær á eftir. Alltaf hægt að treysta á Braga, enda hefur hann slegið út alla stjórnendur Íslands og stýrt Eimskipum gegnum hvern brimgarðinn á fætur öðrum. Og væri maður heppinn gat maður jafnvel lent í skemmtilegu eftirpartýi hjá Grjóna á hlýlegu hæðinni hans í gamla húsinu við Bjarnastíg. En maður var sossem ekkert að velta fyrir sér hvað hann Sigurjón Þ. Árnason ætti eftir að afreka. Lífið var hér og nú", við Þórdís ofurástfangin og dúndrandi danstaktur þeirra Dr. Alban, C&C Music Factory og Dee Lite hljómaði undir gleðinni: "Its my life...!"
Þetta var barrrasta ansið góður tími. Orkubloggarinn nýbúinn að kaupa sér glimmerjakka í Camden, Sharon Stone dró Michael Douglas á tálar í Basic Instinct og úti bæ sátu menn og plönuðu rafstreng til Evrópu. Og notuðu undarleg orð eins og bakskautsvirki og afriðilsmannvirki. Í fúlustu alvöru og án þess að roðna hið minnsta. Enda óþarfi að skammast sín; það blautlegast við þessi sérkennilegu hugtök var að rafstrengurinn myndi liggja á hafsbotninum milli Íslands og Evrópu. Gagnkaupaviðskipti þótti líka nokkuð fínt orð í þessu sambandi. Vissara að leggja þessi ofursvölu hugtök á minnið til að geta aftur orðið gjaldgengur í ofurræðu nútímans um sæstreng.
Þetta var, sem fyrr segir, löngu fyrir daga Kárahnjúkavirkjunar og 300 þúsund tonna álvera. Gott ef Finnur Ingólfsson var ekki bara enn búðargutti í Kaupfélaginu í Vík. Menn þóttust metnaðarfullir og rætt var um að að útflutningur m.v. uppsett afl yrði 1-2 þúsund MW og rafmagnið myndi geta farið að streyma til Evrópu um aldamótin. Árið 2000 virtist ennþá í órafjarlægð og nægur tími til stefnu.
Til marks um metnaðinn, þá var lengsti rafsæstrengur heims á þessum tíma rafmagnsstrengur milli Vancouver-eyju og meginlands Kanada (ca. 240 km). Og lengsti jafnstraumsstrengur heimsins var þá smáspotti sem lá yfir Eystrasaltið milli Svíþjóðar og Finnlands. Hérlendis ætluðu menn aftur á móti að fara með strenginn frá Austfjörðum og alla leið til hins flata Hollands! Eða a.m.k. til Skotlands.
Þetta var skoðað af fullri alvöru. Ef af þessu hefði orðið hefðu Íslendingar komið að einu mesta tækniundri heims á þeim tíma. Þá var sko almennilegur metnaður hjá þjóðinni og ekki verið að væla yfir einhverju bankakvefi. Embættismenn Reykjavíkurborgar og erlendir samstarfsaðilar fullyrtu að hagkvæmnisathugun sýndi að þetta væri mjög arðbært. Þrátt fyrir að allir vissu að í reynd væri alger óvissa um að þetta væri tæknilega unnt og enginn raunverulegur samanburður fyrir hendi.
Þessi tími var einfaldlega frábær. Og menn hugsuðu í einhverju áþreifanlegu og voru ekki komnir útí þetta innihaldslausa froðukennda verðbréfarugl, sem svo heltók þjóðina.
Þó svo ekkert yrði úr þessu sæstrengsverkefni þarna á tímum Viðeyjarstjórnarinnar viðkunnanlegu, héldu menn áfram lífi í hugmyndinni. Næstu árin var nokkrum sinnum dustað rykið af sæstrengsmöppunni og allt reiknað upp á nýtt. Sú saga bíður betri tíma.
En nú er tímabært að taka upp þráðinn enn á ný. Nú er loksins runnin upp sá tími að þetta sé bæði tæknilega og pólitískt mögulegt (sleppum því að fullyrða nokkuð um fjárhagslega hagkvæmni). Ef bara stjórnmálamennirnir nenna að vinna heimavinnuna sína og stuðla að samstarfi við erlendar ríkisstjórnir og erlend orkufyrirtæki. ESB hungrar í endurnýjanlega orku. Notum tækifærið og komum þessu í framkvæmd. Það skemmtilega akkúrat núna er að hugsanlega mætti nýta þetta sem hluta af skynsamlegri lausn á Icesave.
Og ef það tekst ekki, þá getur kannski einhver annar bloggari - eftir önnur 15 ár - rifjað upp þessa ofurbjartsýnu færslu og boðað þann sannleika að NÚ sé rétti tíminn kominn fyrir sæstrenginn. Við sjáum til. Höfum þetta í huga 2024. Kannski verður bleyjustrákurinn á myndinni þá loksins laus við Icesave-hlekkina frá Bjögga frænda og Alþingi Íslendinga.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:07 | Facebook
Athugasemdir
Þú ættir að vera rithöfundur.
Men man kan ikke bli det som man er.
Sigurjón Jónsson, 13.12.2009 kl. 14:52
Held ég láti öðrum það eftir; a.m.k. að pára skáldskap.
Grunar líka stundum að Snorri Sturluson hafi nánast tæmt eilífðarbrunn Íslendinga í bæði skáldskapargáfu og stjórnmálasnilli. Best að halda sig frá hvoru tveggja!
Ketill Sigurjónsson, 13.12.2009 kl. 15:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.