19.12.2009 | 00:19
Rúlletta vindorkunnar
Út um allan heim er fjöldi fólks, sem leikur sér að því að setja fé sitt í orkugeirann. Með svo ljómandi glöðu geði og von um góðan ávinning. Sumir kaupa olíu, aðrir fjárfesta í jarðvarmavirkjunum og enn aðrir byggja vindrafstöðvar.
En þetta er sannkallað fjárhættuspil. Í reynd er frjáls samkeppni eiginlega bara aukaatriði í orkugeiranum. Hann er háður flóknu og síbreytilegu reglugerðarverki stjórnvalda og ómögulegt að segja hverju þau taka upp á næst. Við þetta bætist svo að menn hafa gjörólíkar skoðanir á því hvort orkugeirinn er það sem hann sýnist. Í þessu sambandi er t.d. forvitnilegt að skoða dönsku vindorkuna.
Lesendur Orkubloggsins eru sjálfsagt flestir með það á hreinu að Danmörk er það land sem telja má forysturíki vindorkunnar. Í dag kemur um 1/5 af allri rafmagnsnotkun Dana frá dönskum vindrafstöðvum, sem er hæsta vindorkuhlutfall í heimi. Og danska fyrirtækið Vestas er með mestu markaðshlutdeildina í sölu stórra vindrafstöðva. Allt byggist þetta á því að dönsk stjórnvöld tóku snemma þá ákvörðun að niðurgreiða rafmagn frá vindrafstöðvum. Eftir því sem tækninni fleygði fram varð danski vindorkuiðnaðurinn sífellt sterkari og náði meira að segja forystu á alþjóðavettvangi.
Þetta vakti áhuga annarra og rótgróin stórfyrirtæki eins og þýska Siemens og bandaríska General Electric helltu sér líka útí vindrafstöðvabransann. Vestas hefur á síðustu árum þurft að standa í harðri samkeppni og markaðshlutdeild þess reyndar dalað talsvert. Vestas er þó ennþá stærst á sínu sviði og virðist njóta gríðarlegrar virðingar í bæði dönsku og alþjóðlegu viðskiptalífi.
Danir eru eðlilega margir afskaplega stoltir af þessum árangri. Og dönsk stjórnvöld hafa notað árangurinn til að skapa sér græna og vistvæna ímynd. Mun grænni en Danir kannski eiga skilið, þegar litið er til þess að þeir fá ennþá langmest af raforku sinni frá kolaorkuverum og eru þar að auki stór olíuframleiðandi vegna auðlindanna undir Norðursjónum. Það að umheimurinn virðist líta á Danmörku sem fyrirmyndarríki í orkumálum, er kannski fyrst og fremst dæmi um snilldarmarkaðssetningu.
Nú síðast var það Obama Bandaríkjaforseti sem horfði til Dana sem fyrirmyndar, þegar hann kynnti framtíðarstefnu Bandaríkjanna í orkumálum. Í ræðu sinni í apríl s.l. (2009) komst Obama t.a.m. svo að orði : "Today, America produces less than 3 percent of our electricity through renewable sources like wind and solar - less than 3percent. Now, in comparison, Denmark produces almost 20 percent of their electricity through wind power." Þetta vill Obama taka til eftirbreytni og að Bandaríkin eigi að ná þessu sama hlutfalli (20%) ekki síðar en árið 2030. Obama segir að það muni bæði styrkja bandarískan orkubúskap og um leið skapa 250 þúsund ný störf innan Bandaríkjanna.
Það sem menn velta nú vöngum yfir er hvort þessi stefna Obama sé eins skynsamleg eins og kannski lítur út fyrir í fyrstu. Vissulega myndi þetta bæði minnka þörf á innfluttu gasi og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. En það sem sumir óttast er að þetta muni verða mjög dýrt og alls ekki skapa jafn mörg störf eins og áætlunin gerir ráð fyrir. Fyrr á þessu ári kom t.a.m. út skýrsla frá dönsku CEPOS, sem dregur hreinlega upp kolsvarta mynd af vindorkunni. Þar segir að nýting vindrafstöðvanna sé einfaldlega ömurleg - og að fjárstuðningurinn sem danski vindorkuiðnaðurinn hafi fengið sé svo yfirgengilegur að það sé ekki nokkurt vit í því fyrir Bandaríkjamenn að ætla að stefna að sambærilegum "árangri". Synd ef satt er (sjá má þessa skýrslu hér; 3 MB pdf skjal).
Þetta er enn einn anginn af eilífum deilum um kostnað og skynsemi í orkugeiranum. Það eina sem er víst, er að ef heimurinn ætlar að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti mun það kosta fullt af pening. Að byggja nýtt vind- eða sólarorkuver og láta það leysa af hólmi uppgreitt kolaorkuver, sem gæti auðveldlega mallað áfram í marga áratugi, er reikningsdæmi sem erfitt er að kyngja fyrir sérhvern skattgreiðanda. Að auki kallar umbreyting yfir í að framleiða mikið af endurnýjanlegri orku, víðast hvar á stórfellda uppbyggingu á nýju dreifikerfi og það er líka dýrt.
En þó svo þróunin frá kolvetnisorku yfir í endurnýjanlega orku kunni að kosta háar fjárhæðir, virðist vera mjög breiður pólitískur stuðningur við slíka þróun. Enda eru Bölmóðarnir kannski að fókusera um of á skammtímahagsmuni og virða langtímahagsmunina að vettugi.
Orkubloggarinn leyfir sér a.m.k. að veðja á endurnýjanlega orku. En er líka vel meðvitaður um það, að slíkt veðmál er ekkert mjög frábrugðið því að leggja undir á rúllettunni skemmtilegu vestur í Vegas. Það væri líka barrrasta hálf döll ef það væri ekki smá spenna í þessum lauflétta orkuleik. Þar sem óvissan er hreint æpandi mikil og allt er auðvitað sett að veði með svo ljómandi glöðu geði.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:26 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst þú gera heldur lítið úr árangri dana. Að fá 20% orku sinnar úr vindorku er ekkert annað en frábært þótt hægt sé að gera betur. Víða má sjá vindraforkuver í dönsku landlagi en samt ekki svo að það sé sjónræn mengun af því.
Mér fannst skrítið hvað tónninn í umfjölluninni var neikvæður og fór á heimasíðu Cepos, sem þú vísaðir á sem heimild. Þá kemur í ljós að Cepos er samtök sem minna á Viðskiptráð hér heima. Cepos er haldið uppi af hagsmunaaðilum í þjóðfélaginu og berst fyrir "frelsi, ábyrgð, einkaframtaki og takmörkun á ríkisvaldi". Þetta kemur beint upp úr Milton Friedman og vopnabúri frjálshyggjunnar. Eins og við höfum ekki séð nóg af því, takk fyrir. Ég mun lesa skýrsluna sem þú nefndir, en það er nokkuð ljóst að það hefur verið greitt fyrir ákveðna niðurstöðu af hagsmunaaðilum í olíu- og gasiðnaði í Norðursjó svo og fyrirtækjum og einstaklingum með ákveðna pólitíska sannfæringu.
Karl Pálsson (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 12:37
Karl; kannski má segja að tónninn gagnvart Dönum hafi verið helst til neikvæður í þessari færslu. Ef menn skoða fyrri færslur mínar um vindorkuna, sést fljótt að ég er spenntur fyrir henni. Og kæri mig alls ekki um að vera bendlaður við Friedman! Er bara svolítið pirraður útí Dani þessa dagana og finnst þeir gera helst til mikið úr því hvað þeir séu "grænir". Þeir byggja jú iðnað sinn fyrst og fremst á kolabrennslu. En innst inni þykja mér Danirnir auðvitað mikið ágætisfólk og að þeir hafi sýnt mikilvægt frumkvæði í að breyta orkubúskapnum til hins betra. Betur ef fleiri færu að fordæmi þeirra.
Ketill Sigurjónsson, 19.12.2009 kl. 12:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.