Trúarbrögð og heimsendaspár

gasoline-shortages_1973.jpg

Olíuframleiðsla í heiminum hefur aukist jafn og þétt.  Mannkynið hefur í meira en hundrað ár þurft sífellt meiri olíu til að knýja samgönguflotann og efnahagskerfið. Ávallt hefur verið unnt að mæta eftirspurninni. Í þau tvö skipti sem borið hefur á ónógu framboði (1973 og 1979) var það í bæði skiptin vegna mikils óróa tengdum Persaflóa-svæðinu og eingöngu um skammtíma vandamál að ræða.

Engu að síður er það auðvitað svo að hver einasta olíulind tæmist smám saman, jafnóðum og olíunni er dælt upp. Hingað til hefur jafnan verið hægt að snúa sér að nýjum lindum þegar hinar fyrri fara að slappast. En ef - eða kannski öllu heldur þegar - að því kemur að ekki verður lengur unnt að finna nógu margar nýjar lindir til að taka við þeim sem tæmast, hlýtur að draga úr olíuframleiðslu.

Þó ber að hafa það í huga, að það er alls ekki útilokað að hámark olíuframleiðslu veraldarinnar muni ekki koma til af því að framleiðslan geti ekki mætt eftirspurninni. Heldur muni ástæðan einfaldlega verða sú að eftirspurn eftir olíu staðni - eða taki jafnvel að minnka. Vegna nýrra orkughafa og nýrrar tækni. Þá myndi um leið draga úr framleiðslunni hjá olíuríkjunum, til að forðast offramboð og verðfall. Þar með hefði olíuframleiðsla náð hámarki - vegna þess einfaldlega að eftirspurnin hefði náð hámarki.

world_fuels_consumption_nov2009_2002-2010_944323.gif

Olíuframleiðslan árið 2009 verður talsvert minni en metárið 2008. Þó telja fæstir að hámarki olíueftirspurnar hafi verið náð. Olíuframleiðslan muni þurfa að vaxa á ný, þegar efnahagslífið tekur að hjarna við. Og þá telja sumir að framleiðslan geti jafnvel ekki annað eftirspurninni. Það myndi augljóslega hafa alvarlegar afleiðingar um allan heim. Umframeftirspurn eftir olíu myndi fjótlega þrýsta verðinu upp og þá gæti hátt olíverð virkað sem bremsa hagvöxt. 

Sá tímapunktur þegar olíuframleiðsla heimsins nær toppi er á ensku nefnt Peak Oil. Almennt er þetta hugtak eingöngu notað yfir þann framleiðslutopp þegar framleiðslan mun ekki lengur geta annað eftirspurninni.

Ef aftur á móti olíuframleiðsla toppar og svo dragi úr henni, einfaldlega vegna minni eftirspurnar, er ekki um að ræða hið klassíska Peak Oil - heldur er þá gjarnan talað um Peak Demand. Munurinn er sá, að þá skapar toppurinn ekki umframeftirspurn.

Slík þróun olíueftirspurnar myndi eiginlega gjöreyðileggja hin dramatíska svartsýnisspádóm Bölmóðanna, sem trúa á hið sótsvarta Peak Oil. Samt gæti auðvitað komið að því síðar, að olíuframleiðsla næði ekki lengur  að standa undir eftirspurninni. Þá yrði í reynd komin upp samskonar staða eins og fram til þessa hefur fyrst og fremst verið tengd Peak Oil. Að upp komi viðvarandi framboðs-skortur á olíu með þeim afleiðingum að olíuverð hækki mjög og valdi mögulega mikilli kreppu. En er þetta raunveruleg hætta?

oil-production-2004-2009.jpg

Fram til þessa hefur ávallt verið unnt að mæta olíueftirspurn veraldar án vandræða. Með örstuttri undantekningu í tengslum við Súez-deiluna 1973 og 1979 vegna valdaráns klerkanna í Íran.

Og þrátt fyrir marga svartsýnisspádóma um olíuskort - ekki aðeins síðustu árin heldur með reglulegu millibili í hundrað ár - er ennþá fátt ef nokkuð sem bendir til þess að skortur verði á olíu næstu áratugina - eða jafnvel ennþá lengur.

Það er nefnilega gríðarlega mikið til af olíu. Enn er af mikilli olíu að taka á Persaflóasvæðinu og víðar þar sem hefðbundin olíuvinnsla á sér stað. Þar að auki eru góðar líkur á að vinna megi nokkur hundruð milljarða tunna af olíu úr olíusandinum í Kanada og Venesúela. Jafnvel miklu meira; sumir segja eitt þúsund milljarða tunna bara í Kanada. Sem sagt eina trilljón tunna af olíu - sem slagar vel í alla þá olíu sem heimurinn hefur notað síðustu hundrað árin! Og þetta er bara olíusandurinn.

Þá er ótalið olíugrýtið (oil shale) vestur í Kólórado og víðar í Bandaríkjunum. Sem líklega er annað eins magn eins og olíusandurinn. Samtals erum við husanlega að tala um nokkur þúsund milljarða tunna af olíu úr olíusandi og olíugrýti (til samanburðar þá hefur heimurinn fram til þessa dags notað samtals u.þ.b. 1,2-1,3 þúsundir milljarða olíutunna).

Þetta yrði ekki umhverfisvæn olía - en nógu ódýr til að mæta olíuþörf mannkyns langt inn í framtíðina. Ef og þegar hnignun verður viðvarandi í hefðbundnu olíuframleiðslunni, er því líklega af nógu öðru að taka.

Loks væri unnt að framleiða óhemju magn af olíu úr kolabirgðum veraldarinnar. Vissulega hvorki grænt né vænt, en allt gerir þetta hina svartsýnu Peak Oil kenningu ótrúverðuga. Það er miklu líklegra að draga fari úr olíuframleiðslu af þeirri einföldu ástæðu, að menn snúi sér að öðrum orkugjöfum - af eigin frumkvæði!

peak_oil_exxon_desert.jpg

Samt er fullt af skynsömu og vel menntuðu fólki óþreytandi við að boða yfirvofandi Peak Oil; olíuskort með tilheyrandi himinháu olíuverði og efnahagskreppu. Í huga Orkubloggarans byggir slíkur boðskapur á fátæklegum rökum. Og er meira í takt við trúarbrögð en vísindi.

Þar með er bloggarinn ekki að fullyrða að þetta muni aldrei gerast. Þvert á móti mun olíuframleiðsla (eða olíueftirspurn) auðvitað einhverntíma ná toppi - og það jafnvel fyrr en seinna. En sé litið til staðreynda, lært af fortíðinni og skoðað hvaða möguleikar eru í olíuvinnslu, er bara afskaplega ólíklegt að svarsýnisspárnar um alvarlegar efnahagslegar afleiðingar Peak Oil gangi eftir. Ekki útilokað - en ólíklegt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Eru þessar mýtur ekki runnar undan rifjum olíuframleiðendanna sjálfra, sem og kolefniskvótasvikamyllan.  Allt til að fá sem mest fyrir sem minnst með hræðsluáróðri.  Mér sýnist það. Allt slíkt tal virðit styrkja stöðu þeirra, hækka verð og halda fólki við hæfileg efnahagsmörk.

Spin er sannleikur dagsins. Ekkert er eins og það sýnist og ekkert er fyllilega sannleikanum samkvæmt. Double speak Orwells, er orið tungumál fjölmiðla í dag, enda er það sama elítan sem á allt helvítins draslið.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.1.2010 kl. 07:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband