27.12.2009 | 01:02
Villihænsnaveiðar og bandaríska gasbyltingin
Á örfáum árum hefur orðið hljóðleg en afar þýðingarmikil tækniþróun í bandaríska orkugeiranum. Sumir myndu kalla þetta byltingu - gasbyltingu sem kann að breiðast hratt út um heiminn og hafa afgerandi áhrif á þróun orkumála.
Upphaf 21. aldarinnar kann í hugum flestra að markast af sprunginni Netbólu og hryðjuverkaárásunum á Tvíburaturnana í New York. Fyrir dramatíska orkubolta er stóri atburðurinn í aldarbyrjun þó allt annar: Nefnilega sá að þá tók bandaríska þunnildisgasið að streyma útá markaðinn. Það gæti jafnvel farið svo að rétt eins og 20. öldin hefur verið nefnd olíuöldin, verði sú 21. kölluð gasöldin.
Af einhverjum ástæðum er bara afskaplega lítið talað um þessa gasbyltingu. Kannski af því sumir óttast að sannleikurinn muni samstundis ganga frá vindorku og sólarorku dauðri, rétt eins og gerðist þegar olíuverð hrundi í upphafi 9. áratugarins. Eða af því fjölmiðlar hafa engan áhuga á einhverju leiðindagasi, heldur vilja frekar segja frá safaríkum framtíðarspádómum Bölmóða um yfirvofandi hörmungar vegna hlýnunar jarðar eða olíukreppu sem brátt muni skella á okkur Jarðlingum.
Orkuskorturinn í Kaliforníu upp úr aldamótunum var að minnstu leyti lævísi Enron að kenna. Þrátt fyrir ýmis bellibrögð Enron-manna, er staðreyndin sú að gasframleiðsla í Bandaríkjunum náði einfaldlega ekki að halda í við vaxandi eftirspurn góðærisins. Meira að segja þrátt fyrir stóraukinn innflutning á gasi til Bandaríkjanna frá jafn ólíkum löndum eins og Kanada og Katar var hreinlega farið að stefna í gasskort í Bandaríkjunum.
En þegar þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Einmitt þegar bandaríski gasorkugeirinn virtist vera á hraðleið í meiriháttar vandræði með að anna eftirspurninni, opnaðist óvæntur krani og nýtt bandarískt gas tók að streyma á markaðinn. Það skemmtilega er, að þar var ekki aldeilis um að ræða gas frá nýjum gassvæðum. Þvert á móti kom nýja gasið frá gamalreyndum gasvinnslusvæðum, sem höfðu virst á góðri leið með að vera fullnýtt.
Þannig hagar til á gasvinnslusvæðunum í Texas og víðar um Bandaríkin að gasið hefur verið sótt úr stórum gaslindum, sem eru aðgengilegar með því einfaldlega að bora beint niður í sandsteinshvelfingarnar og láta gasið streyma upp. En í nágrenni við stóru gaslindirnar eru ókjör af gasi, sem er samanþjappað milli þröngra og grjótharðra laga af sandsteini. Með því að bora beint niður í slík þunnildi næst kannski upp smáræði af gasi. En svo þarf að flytja borinn til að berjast á ný við sandsteininn. Þetta borgar sig alls ekki og fyrir vikið er ógrynni af þessu þunnildisgasi í jörðu, sem hefur enn ekki verið sótt. Og þar til fyrir skömmu töldu flestir að þetta óaðgengilega gas myndi aldrei verða sótt vegna tækniörðugleika og kostnaðar.
Bandaríska gasbyltingin fólst í því að snjöllum mönnum tókst að þróa nýja og tiltölulega ódýra tækni til að nálgast þessi þunnu lög af gasi, sem liggja klemmd milli sandsteinslaganna. Með láréttri bortækni og háþrýstivatni tókst framtakssömum frumkvöðlum það sem öll stærstu olíu- og gasvinnslufyrirtæki Bandaríkjanna höfðu löngu afskrifað: Að bora þvert inn í gasþunnildin og nota háþrýstivatn til að þvinga gasið þaðan út og upp á yfirborðið. Með vel viðráðanlegum tilkostnaði.
Í daglegu tali nefna menn þetta gas oftast shale gas. Orkubloggarinn hefur vel að merkja áður sagt frá upphafi þessarar nýju gasvinnslutækni, sem sumir segja að þýði ekkert minna en byltingu í bandaríska orkugeiranum. Afleiðingin er sú að gasþunnildin sem liggja klemmd í sandsteininum í Texas og víðar um Bandaríkin urðu skyndilega uppspretta ofsagróða. Þessi nýja tækni virkar nánast eins og gullgerðarvél og nýja gasæðið breiddist auðvitað út með leifturhraða. Sem eldur í sinu bárust tíðindin frá Texas og Louisiana til flest allra fylkjanna frá Arkansas til Pennsylvaníu og reyndar alla leið til bæði New York fylkis og Bresku Kólumbíu í Kanada. Á öllum þessum svæðum eru horfur á að nýja vinnslutæknin komi til með að stórauka gasframleiðsluna og veitir ekki af.
Um leið jukust mjög birgðir Bandaríkjanna af þekktu vinnanlegu gasi. Til marks um mikilvægi nýju vinnslutækninnar, þá voru sannreyndar birgðir af vinnanlegu gasi í Bandaríkjunum árið 2000 sagðar vera 177 þúsund milljarðar teningsfeta (177 Tcf sem jafngilda um 5 þúsund milljörðum teningsmetra), en 2008 var talan komin í 245 þúsund milljarða teningsfeta (7 þúsund milljarðar teningsmetra). Og það þrátt fyrir að á þessu átta ára tímabili hafði 165 þúsund milljörðum teningsfeta (4,7 þúsund milljörðum teningsmetra) af gasi verið dælt upp í Bandaríkjunum!
Árið 2008 jukust sannreyndar gasbirgðir Bandaríkjanna sem sagt um 68 þúsund milljarða teningsfeta (tæplega 2 þúsund milljarða teningsmetra). Sem jafngildir t.d. öllum sannreyndum gasbirgðum Kína. Eða Noregs.
Það vill einmitt svo skemmtilega til að undanfarið hefur norskt flotgas (LNG) streymt með tankskipum vestur yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna. Norsararnir eru að gera það gott í heimskautagasinu og þaðan sigla gasflutningaskipin non-stop vestur um haf, hlaðin fljótandi gasi. Rétt eins og Arctic Princess, sem var einmitt á ferðinni um efnahagslögsögu Íslands fyrr í dag, sbr. þessi frétt Moggans..
Slíkir flutningar á fljótandi gasi hafa vaxið mikið undanfarin ár, vegna nýrra gasvinnslusvæða langt frá mestu gasnotendunum. Fljótandi gas er t.d. líka flutt með skipum frá Ástralíu og Katar og fleiri Persaflóaríkjum til landa eins og Bandaríkjanna og Japan. En nú er skyndilega útlit fyrir að Bandaríkjamenn þurfi ekki að vera jafn háðir fjarlægu gasi eins og þeir voru farnir að óttast. Miðað við núverandi þekktar vinnanlegar gaslindir, eiga Bandaríkin kannski allt að hundrað ára birgðir af gasi í jörðu! Og þar sem þunnildisævintýrið er bara rétt að byrja, eru góðar líkur á að gasbirgðir Bandaríkjanna eigi enn eftir að aukast umtalsvert.
Hugsanlega er einhver mesta umbreyting orkugeirans til þessa, allt frá því olíuöldin hófst vestur í Pensylvaníu, núna að hefjast vestur í Bandaríkjunum. Bylting sem felst í því að gasið verði í síauknum mæli nýtt sem eldsneyti í bæði samgöngum og raforkuframleiðslu. Ný vind- og sólarorkuver munu halda áfram að rísa. En hinir raunverulegu risapeningar munu streyma í gasiðnaðinn. Gasbrennsla losar miklu minna koldíoxíð en kolabrennsla og gas er einfaldlegasta ódýrasta og hagkvæmasta leið Bandaríkjanna til þess bæði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda OG minnka þörf sína á innfluttri orku frá vafasömum ríkjum.
Til marks um þessa þróun má nefna nýlegar fréttir um að ExxonMobil sé að kaupa XTO Energy. XTO er einmitt í fararbroddi þeirra sem hvað best virðast ráða við þunnildisgasið. Með þessum viðskiptum er Exxon einfaldlega að horfa til framtíðar og tryggja sér sterka aðkomu að þunnildisgasiðnaðinum.
Og eins og gildir um öll skemmtileg viðskipti, munu þessi hafa komist á undir notalegum kringumstæðum. Þannig var að Rex Tillerson, forstjóri ExxonMobil, bauð Bob Simpson, stofnanda og stjórnarformanni XTO, nýverið á villihænsnaveiðar á búgarð fyrirtækisins suður í Texas. Og þar sem þeir röltu um sléttuna og svipuðust um eftir kjánalegum Texas-rjúpunum, bar auðvitað ýmislegt á góma. Þessi ljúfa skemmtiferð endaði svo á því, að þeir Rex og Bob handsöluðu nettan 40 milljarða dollara díl um kvöldið - eflaust með koníaki framan við arininn.
Þannig gerast "kaupin á eyrinni" vestur í Texas. Og þannig mótast orkuframtíð veraldarinnar á fuglaveiðum og í þægilegum leðurstólum langt útí sveit. Í vinsamlegu spjalli einstaklinga, svo órafjarri þingsölum, ráðuneytum eða Loftslagsráðstefnum.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:15 | Facebook
Athugasemdir
Í því samhengi má benda á norsku fyrirtækin Questerre energy (QEC) og Norse energy corp (NEC) sem bæði eiga gríðarleg landflæmi á shale svæðinu á og við New York og eru talin kandidatar til uppkaupa eins og XTO. Auk gaslinda eru þau líka með olíuvinnslu, m.a. við strendur Brasilíu og því líka með tekjustreymi. Verandi á norska hlutabréfamarkaðnum eru þau, að mínu mati, öruggara en margt annað þar sem jú norska krónan berst gegn straumnum og mun sennilegast gera áfram. Fyrirtækin eru bæði talin hræódýr miðað við allt gasið sem þau eiga.
Hins vegar átta ég mig ekki á því hvort þessi shale gasbóla muni lækka gasverðið svo mikið að fyrirtækin teljist eiga "mikið en ódýrt" eða hvort þau verði verðlögð m.t.t. þess að þau eiga gas sem mun seljast tugi ára fram í tímann...
Takk fyrir frábæra pistla á árinu!
Davíð Þórisson (IP-tala skráð) 27.12.2009 kl. 09:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.