Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Gashagsmunir í Úkraínu

Árið 1938 réttlætti ónefndur þýskur stjórnmálaleiðtogi hernaðarafskipti þýska hersins innan Tékkóslóvakíu og Austurríkis með því að gæta þyrfti þýskra hagsmuna og vernda fólk af þýskum ættum. Sambærilegt gerðu serbneskir leiðtogar löngu síðar gagnvart héruðum í Króatíu og Bosníu. Og nú tala leiðtogar í Rússlandi um mikilvægi þess að verja rússneska hagsmuni og fólk af rússnesku bergi brotið á Krímskaga og víðar innan Úkraínu

Ukraine-Political-and-Cultural-Situation-Map

Já, enn og aftur bankar óhugnaðurinn uppá innan Evrópu. Tvær risastórar Evrópuþjóðir, Rússar og Úkraínumenn, virðast á barmi styrjaldar. Innan Úkraínu hafa rússneskar hersveitir nú þegar haft sig í frammi á Krímskaga og samkvæmt nýjustu fréttum búast stjórnvöld í Úkraínu við hinu versta. 

Undanfarin ár hafa fréttir af Úkraínu mjög tengst annars vegar gaskaupum Úkraínu af Rússum og hins vegar flutningi á rússnesku gasi í gegnum Úkraínu og til Evrópuríkjanna vestan Úkraínu. Fyrir áhugafólk um orkumál hlýtur ástandið í Úkraínu núna að beina kastljósinu að gasinu. Því það er jú svo að ef flutningur á rússnesku gasi til Evrópu gegnum Úkraínu stöðvast er örstutt í alvarlegan orkuskort innan fjölmargra Evrópulanda.

Í Mið-Evrópu eru mörg ríki sem reiða sig svo mjög á rússneskt gas að alvarlegur orkuskortur gæti orðið innan 2-3ja vikna. Og stórþjóðir á borð við Þjóðverja og Frakka myndu sennilega lenda í vandræðum innan 2ja mánaða. Verst er þó auðvitað staða Úkraínumanna sjálfra, sem samstundis myndu finna fyrir alvarlegum orkuskorti.

Úkraína er mjög háð rússnesku gasi

Úkraínumenn eru afar fjölmenn þjóð (um 45 milljónir) og fyrir vikið er Úkraína meðal þeirra ríkja í heiminum sem flytur inn hvað mest af jarðgasi og þarf að eyða geysilegum fjárhæðum í kaupin á öllu því gasi. Það gas er svo til allt fengið frá Rússlandi.

Ukraine-gas_imports-gdpÚkraínumenn framleiða reyndar stóran hluta raforku sinnar með kjarnorkuverum. Í landinu eru starfræktir fimmtán kjarnaofnar, sem útvega Úkraínumönnum um helming allrar raforkunnar sem notuð er þar í landi. Afgangur raforkunnar kemur einkum frá kola- og gasorkuverum. Að auki er gas mikið notað til eldunar og upphitunar.

Tvær stærstu gasleiðslurnar til Úkraínu frá Rússlandi kallast þeim notalegu nöfnum Samband (Soyuz) og Bræðralag (Bratstvo). En samband Rússa og Úkraínumanna einkennist þó ekki beint af bræðralagi þessa dagana.

Úkraína er mikilvægasti aðgangur Evrópu að rússnesku gasi 

Úkraína er ekki bara háð rússnesku gasi, heldur gegnir landið afar mikilvægu hlutverki í flutningi á gasi frá Rússlandi til Evrópulandanna vestan Úkraínu. Nær helmingur af öllu því gasi sem Evrópuríki fá frá Rússlandi kemur um gasleiðslur sem liggja gegnum Úkraínu. Þetta er geysihátt hlutfall - ekki síst þegar haft er í huga að löndin vestan Úkraínu uppfylla mörg á bilinu 40-100% af gasþörf sinni með innfluttu rússnesku gasi. Meira að segja Ítalir og Frakkar fá á bilinu 15-25% af gasinu, sem þar er notað, frá Rússlandi. Og eins og áður sagði kemur langmest af þessu rússneska gasi gegnum Úkraínu.

Ukraine-Gas-Pipes-Map-1

Fyrirtækið sem höndlar með þessa gasflutninga gegnum Úkraínu er  annað af tveimur stærstu fyrirtækjum landsins; orkufyrirtækið Naftogaz. Naftogaz var stofnað árið 1991 þegar Úkraína lýsti yfir sjálfstæði og er alfarið í eigu úkraínska ríkisins. Þetta gríðarstóra úkraínska orkufyrirtæki sér sem sagt um að flytja rússneskt jarðgas gegnum Úkraínu til Evrópu. Stærstu leiðslurnar þarna liggja yfir til Slóvakíu, en þaðan fer gasið áfram til Þýskalands, Austurríkis, Ítalíu, Frakklands og víðar.

Úkraína er á barmi gjaldþrots 

Naftogaz og þar með Úkraína hafa miklar tekjur af gasflutningum Rússa gegnum landið. En þær tekjur duga skammt til að vega á móti kostnaði Úkraínu vegna gaskaupa af Rússum. Inní þetta blandast svo sú stefna Gazprom að draga úr mikilvægi Úkraínu með því að ætla að leggja nýja gasleiðslur vestur til Evrópu framhjá Úkraínu. Í því skyni stendur bæði til að leggja aðra gasleiðslu eftir botni Eystrasalts og nýja gasleiðslu eftir botni Svartahafsins. 

Ukraine-pipelines-mapUndanfarin ár hafa einkennst af deilum Úkraínumanna við Gazprom og rússnesk stjórnvöld um verðlagningu á því gasi sem Úkraína kaupir af Rússunum. Og um leið hefur verið deilt um það hvað Gazprom eigi að greiða Naftogaz fyrir gasflutninginn gegnum Úkraínu. Jafnvel þó svo núverandi pólitískur ágreiningur milli landanna leiði kannski ekki til vopnaðra átaka, munu Rússar áfram hafa efnahagslegt kverkatak á Úkraínu. Og það tak virðist mun sterkara en ótti Rússa við að verða tímabundið af einhverri gassölu til Evrópu.

Fyrir liggur að Úkraína skuldar Gazprom háar fjárhæðir vegna ógreiddra gasreikninga (talan er á reiki en virðist liggja nú á bilinu 1-2 milljarðar USD). Að auki verja úkraínsk stjórnvöld geysilegum fjárhæðum í niðurgreiðslur á gasi, því almenningur í Úkraínu ekki efni á að greiða fullt verð fyrir gasið

Ukraine-Kiev-Maidan-protest-feb-2014

Þetta ásamt öðrum erfiðleikum í efnahagslífi Úkraínu veldur því að landið er á barmi gjaldþrots. Og gæti þurft tugi milljarða USD í neyðarlán til að halda sér á floti. Efnahagsleg staða landsins er sem sagt vægast sagt afar erfið.

Til framtíðar er þó von um að unnt verði að stórauka gasframleiðslu innanlands - því Úkraína er talin hafa að geyma mikið af þunnum lögum af jarðgasi sem unnt verði að nálgast með sama hætti og verið hefur að gerast vestur í Bandaríkjunum. En þessi von skiptir litlu þessa dagana. Úkraína á sér litla von nema vestrænu lýðræðisríkin styðji nú af alefli við sjálfstæði Úkraínu. Fróðlegt verður að sjá hvort sú lýðræðishugsjón sé ennþá jafn sterk og staðföst hér á Vesturlöndum eins og var á tímum kalda stríðsins. Eða hvort það viðhorf sé kannski að verða útbreitt að gælur við einræðisöfl í austri séu mun ábatasamari og skemmtilegri?


Rússland býr yfir mestu orkuverðmætum veraldarinnar

Á síðustu árum hefur listinn yfir þau lönd sem búa yfir mestu orkubirgðum veraldarinnar breyst nokkuð.

Canada-Oil-Sands-View-from-Air

Eftir því sem olíuverð hefur hækkað hefur orðið hagkvæmt að vinna olíu úr olíusandi. Þar með var eðlilegt að taka geysilegar olíubirgðir sem þar er að finna með í reikninginn. Afleiðingin var einkum sú að olíubirgðir Kanada og Venesúela jukust mjög.

Svipað hefur gerst vegna nýrra vinnsluaðferða við að nálgast bæði olíu og gas sem liggja í þunnum lögum innklemmd í sandsteini (sem stundum er líka nefndur leirsteinn í skrifum um þetta á íslensku - og þá gjarnan talað um leirgas en sjaldnar um leirolíu; á ensku er talað um shale gas og tight oil). Þær vinnsluaðferðir (hydrologic fracturing eða fracking) hafa enn sem komið er fyrst og fremst aukið gasvinnslu í Bandaríkjunum. En talið er líklegt að þetta opni á aukna gas- og olíuvinnslu í mörgum öðrum löndum, t.d. í Rússlandi, Kína og Argentínu.

Mestu orkubirgðirnar liggja þó í kolum. Gífurleg eftirspurn eftir raforku í Kína og fleiri nýmarkaðslöndum hefur meira að segja valdið því að síðustu árin hefur verið algengt að mestur hlutfallslegur vöxtur í nýtingu orkuauðlinda hafi verið í kolum! Kolanotkunin hefur þannig stundum vaxið ennþá hraðar hlutfallaslega heldur en nýting á endurnýjanlegum auðlindum eins og sól eða vindi!

Venezuela-Orinoco-Future-Oil-1

Fjölmiðillinn Business Insider var að birta nýjan lista yfir þau lönd sem búa yfir mestu orkubirgðunum (þar er sem sagt verið að fjalla um olíu-, gas- og kolavinnslu framtíðarinnar). Listinn byggir á gögnum frá BP Statistical Review 2013, sem er oft talin ein besta heimildin um orku í veröldinni. Þessi listi Business Insider tekur ekki til endurnýjanlegra orkuauðlinda, enda er nýting þeirra afar lítil miðað við allt jarðefnaeldsneytið. Og kjarnorkan er líka utan þessa samanburðar. Þetta er sem sagt eingöngu listi yfir jarðefnaeldsneytið (olíu, jarðgas og kol) sem lönd búa yfir.

Business Insider ákvað að leggja mat á verðmæti þessara auðlinda. Þar var i fyrsta lagi miðað við olíuverð á Brent-markaðnum, í öðru lagi var miðað við kolaverð á áströlskum kolum (sem mjög oft er miðað við í viðskiptum með kol) og í þriðja lagi var miðað við meðalverð á gasi í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Japan (gasverð er afar misjafnt í heiminum, enda miklu flóknara að flytja gasið langar leiðir heldur en olíu eða kol).

Listinn yfir fimm verðmætustu orkuríkin lítur þannig út (til samanburðar má t.d. hafa í huga að árleg verg þjóðarframleiðsla (GDP) í Bandaríkjunum er nú um 16 þúsund milljarðar USD og sama er að segja um Evrópusambandslöndin öll til samans):

1. Rússland. Heildarverðmæti rússnesku kolvetnislindanna er um 41 þúsund milljarðar USD. Landið býr yfir um 87 milljörðum tunna af olíu (8. mestu olíubirgðirnar), tæplega 34 þúsund milljörðum teningsmetra af jarðgasi (2. mestu gasbirgðirnar; einungis Íran býr yfir meira af jarðgasi) og 157 milljónum tonna af kolum (2. mestu kolabirgðirnar; einungis Bandaríkin búa yfir meiru af kolum). Orkuútflutningur er langmikilvægasta tekjulind Rússlands, sem fær meira en helming útflutningstekna sinna með þeim hætti. 

2. Íran. Heildarverðmætið er um 35 þúsund milljarðar USD. Landið býr yfir um 157 milljörðum tunna af olíu (4. mestu olíubirgðirnar) og 34 þúsund milljörðum teningsmetra af jarðgasi (mestu gasbirgðirnar í víðri veröld!). Kolavinnsla er aftur á móti lítil í Íran alþjóðlegu samhengi.

3. Venesúela. Heildarverðmætið er um 35 þúsund milljarðar USD. Með olíusandinum er Venesúela talið búa yfir um 298 milljörðum tunna af vinnanlegri olíu! Það eru mestu olíubirgðir heimsins - meira en Saudi Arabía. Ennþá er reyndar nokkuð umdeilt hvort réttlætanlegt sé að áætla olíubirgðir Venesúela svo miklar. En það sama má segja um uppgefnar birgðir margra annarra landa. Veruleg og raunar aukin óvissa er talin vera um olíubirgðir í heiminum - vegna þess að stjórnvöld sumra ríkja eru grunuð um að kynna tölur sem byggja á of litlum rannsóknum. Umrædd tala um olíubirgðir í Venesúela eru þó viðurkenndar sem viðmiðunartölur. Venesúela er líka álitið búa yfir miklu jarðgasi eða um 6 þúsund milljörðum teningsmetrum (8. mestu í heiminum). Einnig er mikið af kolum í Venesúela eða um 480 milljónir tonna (15. mestu kolanámur veraldarinnar).

4. Saudi Arabía. Heildarverðmætið er um 33 þúsund milljarðar USD. Stutt er síðan Saudi Arabía var álitin búa yfir mestri oliu i jörðu í heimi hér. Í dag hefur Venesúela tekið það efsta sæti. Olíubirgðir í jörðu í Saudi Arabíu eru metnar um 266 milljarðar tunna (2. mestu í heiminum). Þar er líka að finna geysilegt magn af jarðgasi eða um 8 þúsund milljarðar teningsmetrar (6. mestu í heiminum). Kol eru aftur á móti ekki umtalsverð í alþjóðlegu samhengi. Það er athyglisvert að samtals eru olíubirgðirnar í Saudi Arabíu og Venesúela um 40% allrar olíu sem álitið er að vinna megi í heiminum öllum!

5. Bandaríkin. Heildarverðmætið er um 29 þúsund milljarðar USD. Þar að baki eru um 35 milljarðar tunna af olíu (11. mestu olíubirgðir í heiminum), um 9 þúsund milljarðar teningsmetrar af jarðgasi (5. mestu gasbirgðir í heiminum) og um 237 milljónir tonna af kolum (sem eru mestu kolabirgðir sem nokkurt ríki býr yfir). Bandaríkin eru sem sagt mesta kolastórveldið. Vegna aukinnar olíuvinnslu (vegna fracking) gætu Bandaríkin orðið mesti olíuframleiðandi heims innan fárra ára. Það er þó fremur ólíklegt að svo yrði lengi og Bandaríkin munu því áfram þurfa að flytja inn verulegt magn af olíu og/eða olíuafurðum. Þess vegna má gera ráð fyrir því að Bandaríkin munu áfram leitast við að halda áhrifum sínum við t.d. Persaflóann, þar sem flestar stærstu olíulindirnar eru.

----------------- 

Kína er í dag orðið mesti orkunotandi heimsins. En er einungis í 10. sæti yfir þau lönd sem búa yfir verðmætustu orkuauðlindunum. Innflutningsþörf Kínverja á orku er geysileg og það gæti til framtíðar skapað togstreitu milli Kína og Bandaríkjanna. En það er önnur saga.


Orkusveitarfélög njóti aukinnar arðsemi

Í desember s.l. var athyglinni hér á Orkublogginu beint að því hvernig áherslan og umræðan um íslenska orkugeirann snýst oft ansið mikið um að hið opinbera beiti sér til að útvega sem allra ódýrasta orku til handa stóriðju. Í tali íslenskra stjórnmálamanna (og ýmissa annarra) um orkumál heyrist af einhverjum ástæðan lítið um mikilvægi arðseminnar. Þeim mun meira er talað um að „koma framkvæmdum í gang" og „að skapa störf".

Oftast er þetta beintengt við uppbyggingu á stóriðju. Því má segja að orkustefnan hér hafi löngum einkennst mjög af stóriðjustefnu. Gallinn er bara sá að það að skapa störf og koma framkvæmdum í gang á ekki endilega samleið með því að ná eðlilegri eða skynsamlegri arðsemi af fjárfestingum í raforkuvinnslu. Þvert á móti er það óhjákvæmilegur fylgifiskur stóriðjustefnunnar að raforkusalan skilar botnarðsemi.

Ísland er mesti raforkuframleiðandi heimsins (miðað við stærð þjóða) og mestöll raforkuframleiðslan er í höndum fyrirtækja í opinberri eigu. Aukin arðsemi í raforkuframleiðslunni hér er því eitthvert mesta hagsmunamál þjóðarinnar. Við eigum að skoða vandlega alla möguleika til að auka langtímaarðsemi af fjárfestingum opinberu orkufyrirtækjanna og draga úr áhættu þeirra með fjölbreyttari kaupendahópi.

Skynsamlegt kann að vera að koma á sérstökum hvötum sem geta hjálpað til við að ná slíkum markmiðum. Hanna mætti kerfi sem myndi hvetja til þess að hugað verði í ríkari mæli að aukinni arðsemi í raforkuvinnslunni. Hér á Orkublogginu í dag verður athyglinni beint að þessum möguleika - og horft til þess sérstaklega að virkja nágrannasveitarfélög orkulindanna í þessum tilgangi. Það gæti orðið mikilvægt skref í raunverulegu fráhvarfi frá áhættusamri og arðlítilli stóriðjustefnunni og leitt okkur til aukinnar arðsemi í raforkuvinnslunni.

Frá rafvæðingu til aukinnar verðmætasköpunar     

Á sínum tíma var eðlilegt að viðhorf okkar til vatnsaflsins og jarðvarmans byggðist fyrst og fremst á því að ná að nýta þessar náttúruauðlindir til rafvæðingar og húshitunar. Á tímabili átti stóriðjustefnan góða samleið með þessu viðhorfi. Þannig voru fyrstu stóru virkjanirnar í Þjórsá og víðar um land reistar fyrir stóriðju og þær framkvæmdir voru um leið mikilvægur hluti af uppbyggingu íslenska raforkukerfisins. Á þeim tíma var uppbygging raforkukerfisins skammt á veg komin og framkvæmdirnar fyrir stóriðjuna þá voru almenningi tvímælalaust til hagsbóta - jafnvel þó svo lágmarksarðsemi í raforkuvinnslu sé óhjákvæmilegur fylgifiskur slíkrar stóriðjustefnu. 

Hvammsvirkjun-Thjorsa-tolvuteikning

En þeir tímar eru löngu liðnir að við þurfum aðkomu stóriðju til að hjálpa okkur að njóta rafmagns og hita og/eða stuðla að uppbygginu öflugs dreifikerfis. Ísland er í dag langstærsti raforkuframleiðandi heimsins (miðað við fólksfjölda). Það met varð staðreynd þegar Kárahnjúkavirkjun var komin í gang. Og við erum líka með eitthvert allra öruggasta raforkuflutningskerfi sem þekkist í víðri veröld (alþjóðlegar kannanir raða Íslandi þar jafnan í eitt af efstu sætunum). Við erum sem sagt búin að byggja upp frábært raforkukerfi - sem við munum að sjálfsögðu viðhalda og styrkja með skynsamlegum hætti. En nú er orðið tímabært að huga alveg sérstaklega að því að orkuauðlindirnar skapi okkur meiri arð.

Til að svo megi vera er nauðsynlegt að við leggjum stóriðjustefnuna til hliðar eða höfum hana a.m.k. ekki í öndvegi. Því hún er dragbítur á að koma markmiðum um aukna arðsemi af raforkuvinnslunni í framkvæmd. Vandinn er bara sá að furðumargir virðast fastir í gamla farinu og jafnvel afneita nýjum tækifærum. Orsökin þar kann að vera ákveðinn kerfisgalli sem við búum við. 

Núverandi fyrirkomulag vinnur gegn aukinni arðsemi af orkuvinnslunni

Þegar umtalsverðar virkjanir eru reistar á Íslandi snýst það oft ansið mikið um það að eitthvert tiltekið sveitarfélag hreppi stóra vinninginn. Þessi stóri vinningur er líkt og tvær súlur eða stoðir stóriðjustefnunnar. Og þær súlur virðast beinlínis halda uppi viðhorfinu um að arðsemin í raforkuframleiðslunni sé aukaatriði.

Annars vegar felst umræddur „stóri vinningur" sveitarfélags í því að fá til sín sjálft stóriðjuverið (sem er forsenda virkjunarinnar). Þannig skapast störf innan sveitarfélagsins í stóriðjuverinu auk þess sem sveitarfélagið fær þar fasteignagjöld í sinn hlut frá stóriðjunni og ný störf verða til. Hins vegar er „vinningurinn" sá að fá stöðvarhús virkjunarinnar innan marka sveitarfélagsins. Því þá renna fasteignagjöld vegna virkjunarinnar til viðkomandi sveitarfélags.

iceland-aluminum-industry-winter-fjardaal.jpg

Þannig byggir stóriðjustefnan fyrst og fremst á stuttu framkvæmdatímabili, fasteignagjöldum og nýjum stóriðjustörfum. En hefur lítið sem ekkert með arðsemi raforkuvinnslunnar að gera. Hvergi í þessu ferli verður aðalatriðið að raforkuvinnslan skili góðri arðsemi. Nema hjá raforkusalanum.

En jafnvel viðleitni raforkusalans til aukinnar arðsemi getur verið til lítils. Ef það eru ekki beinlínis ráðherrar sem fara að skammast útí slíka stefnu raforkufyrirtækisins, þá koma sveitarstjórnarmenn askvaðandi og væna raforkusalann um óheilindi, tafir og/eða beinlínis að vinna gegn hagsmunum þjóðarinnar. Stíf pressa myndast á stóru orkufyrirtækin til að „útvega" orku svo unnt verði að „skapa störf". Í þeirri pressu er lítt hugað að arðsemi verkefnanna til lengri tíma litið. Enda er kjörtímabil bæði þingmanna og sveitarstjórnarmanna stutt.

Óheppilegur kerfisgalli 

Allar orkuauðlindirnar (vatnsaflið og jarðvarminn) eru að sjálfsögðu innan lögsögumarka sveitarfélaga. En sveitarfélög sem búa yfir orkuauðlindum innan sinna marka hafa furðulítinn hag af því að sem hæst verð fáist fyrir orkuna. Þvert á móti virkar kerfið hér þannig, að sveitarfélögin virðast jafnvel telja það henta sér best að sem allra lægst verð fáist fyrir orkuna. Af því þá er líklegra að risaframkvæmdir í formi stóriðju með tilheyrandi virkjunum verði innan sveitarfélagsins.

Helguvik-alver-kerskali

Hætt er við að afleiðing þessa sé sú að mikill þrýstingur skapist um að Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki einbeiti sér að því að útvega sem ódýrasta orku til handa stóriðju. Það er kallað „að skapa störf" og „koma framkvæmdum í gang".

Umræddur þrýstingur kemur ekki aðeins frá sveitarstjórnarmönnum. Hann virðist líka eiga sér marga fylgismenn á Alþingi, enda eru byggðastefnusjónarmið þar ennþá furðuáhrifamikil. Það eru þó ekki bara stjórnmálamenn sem búa til umræddan þrýsting, heldur líka verktakar og þessi viðhorf smitast líka til kjósenda sem ekki virðast átta sig á tækifærunum sem orkuauðlindirnar geta gefið okkur. Þess í stað virðast margir líta á Landsvirkjun sem einhverskonar ríkisapparat, sem hafi fyrst og fremst þann tilgang að stuðla að stórframkvæmdum með miklum lántökum.

Það að ráðast í virkjanaframkvæmdir (og skapa þannig störf og koma framkvæmdum í gang) verður að aðalatriði. En arðsemin af þessum risastóru og talsvert áhættusömu fjárfestingunum verður aukaatriði. Þessi kerfisgalli kann ekki góðri lukku að stýra fyrir þjóðina. Það er vandséð hvernig megi breyta þessu viðhorfi. Kannski skortir á einhvers konar innbyggða hvata til að auka arðsemina.

Fasteignagjöldin af virkjunum hér eru ótengd orkuverði og renna til afar þröngs hóps

Eins og áður sagði þá er fyrirkomulagið á Íslandi í dag með þeim hætti að þegar stærstu orkufyrirtækin hér reisa virkjun skiptir geysilega miklu máli fyrir sveitarfélög landsins á hvaða bletti stöðvarhúsið er staðsett. Staðsetning stöðvarhúss virkjunarinnar hefur nefnilega alger grundvallaráhrif á tekjur sveitarfélaga af virkjunum.

Aftur á móti eru nákvæmlega engin fasteignagjöld greidd af virkjunum til þeirra sveitarfélaga sem einungis hafa t.d. aðrennslisskurði, aðrennslisgöng og /eða stíflur innan sinna marka. Og þau sveitarfélög sem háspennulínurnar liggja um fá heldur engar tekjur af þeirri aðkomu sinni að raforkugeiranum. Þetta er varla sanngjarnt og ennþá síður skynsamlegt kerfi. Því afleiðingin er sú að sveitarfélög verða oft óskaplega áhugasöm um að fá stöðvarhús, en eilíft vesen getur verið að koma t.d. upp nýrri raflínu (í öðru sveitarfélagi).

karahnjukavirkjun-fljotsdalsstod-3.jpgRétt er að gefa vísbendingu um það hvaða fjárhæðum fasteignagjöld af virkjunum (stöðvarhúsum) eru að skila sveitarfélögum í tekjur. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins síðla árs 2012 fengu Ása- og Skeiða- og Gnúpverjahreppar á Suðurlandi (Þjórsár- og Tungnaárstöðvar), Fljótsdalshreppur (Fljótsdalsstöð) og Húnavatnshreppur (Blöndustöð) samtals um 370 milljónir ISK í formi fasteignagjalda vegna virkjananna (eða öllu heldur vegna stöðvarhúsanna sem liggja innan marka þessara sveitarfélaga).

Samtals eru íbúar þessara fjögurra sveitarfélaga innan við 1.200 talsins (sbr. upplýsingar á vef Hagstofunnar). Þar af eru einungis 80 íbúar í Fljótsdalshreppi, sem nýtur fasteignagjalda af langstærstu virkjuninni, sem er Kárahnjúkavirkjun (þ.e. Fljótsdalsstöð). Þegar fasteignagjöldin af virkjununum eru borin saman við íbúafjöldann sést að umrædd gjöld skila að meðaltali um 300 þúsund ISK á hvern íbúa sveitarfélaganna (Fljótsdalshreppur fékk þó meira en milljón ISK á mann).

Eflaust eru skiptar skoðanir um hvort þetta séu miklar eða litlar tekjur þegar þær eru skoðaðar í hlutfalli við þau verðmæti sem vatnsréttindi og virkjanir eru. En þessar tekjur skipta viðkomandi sveitarfélög miklu máli. Og nú er risið dómsmál þar sem nágrannasveitarfélag Fljótsdalshrepps, Fljótsdalshérað, reynir að fá viðurkenndan rétt sinn til að leggja fasteignagjöld á vatnsréttindi innan sveitarfélagsins. Það er Landsvirkjun sem er handhafi þeirra vatnsréttinda, sem Fljótsdalshérað sækist eftir að myndi stofn fasteignagjalda með svipuðum hætti eins og sjálf virkjunin (Fljótsdalsstöð). 

Umrætt dómsmal sýnir nokkuð vel að núverandi fyrirkomulag er háð ýmsum göllum eða óvissu, sem löggjafinn virðist hafa veigrað sér að taka á. Það er heldur óspennandi framtíðarsýn að sveitarfélög ráðist nú í þann leik að reyna að klípa sem mest af orkufyrirtækjunum í formi fasteignagjalda af vatnsréttindum og þannig skerða ofurlága arðsemi orkufyrirtækjanna. Skynsamlegra væri að löggjafinn myndi taka sig til og bæði skýra skattkerfi raforkufyrirtækjanna OG skapa sterka hvata fyrir sveitarfélögin og landsmenn alla til að setja arðsemi raforkuvinnslunnar í forgang.

Bein hagsmunatenging milli nærsamfélaga og arðsemi virkjana gæti verið skynsamleg

Hugsanlega væri skynsamlegt að byrja á að breyta skattareglunum á þann hátt að nærsamfélög virkjana myndu sérstaklega njóta hærra raforkuverðs og meiri arðsemi í raforkuframleiðslunni. Þannig yrði til hvati fyrir sveitarfélög, sem hafa orkuauðlindir og virkjunarmannvirki innan sinna marka, að arðsemi í raforkuvinnslunni sé hámörkuð. Í þessu sambandi er áhugavert hvernig Norðmenn hafa hannað starfsumhverfi og skattkerfi gagnvart raforkuiðnaðinum á þann hátt að ríkir hvatar myndast hjá nærsamfélögum virkjana og ríkisvaldinu til að arðsemin af orkuvinnslunni og nýtingu vatnsaflsauðlindarinnar sé sem mest.

noregur-raforka-skattar-3_1224679.pngÍ fyrsta lagi er norska löggjöfin þannig úr garði gerð að hvort sem orkulindir eru í einkaeigu eða opinberri eigu, skuli þess gætt að nýting þeirra sé þjóðinni allri til hagsbóta. Allur almenningur nýtur góðs af auknum hagnaði vatnsaflsfyrirtækjanna - bæði í formi skattgreiðslna vatnsaflsfyrirtækjanna og arðgreiðslna til eigenda fyrirtækjanna (því eigendurnir eru í langflestum tilvikum norsku sveitarfélögin, norsku fylkin og norska ríkið). Í öðru lagi eru norsku reglurnar þannig úr garði gerðar, að að þær hvetja nærsamfélög virkjana til að gæta þess að orkulindirnar innan lögsögu þeirra skili sem mestri arðsemi. Hér á landi er fyrirkomulagið aftur á móti þannig að stóriðjustefnan - sem byggist beinlínis á lágri arðsemi í raforkuvinnslunni - er svo til allsráðandi.

Þegar upp er staðið virkar norska skattkerfið sem hvati til að arðsemi sé í fyrirrúmi í raforkuvinnslunni; þannig fá sveitarfélögin til sín meiri beinharða peninga sem þau geta nýtt til góðra verka og til að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Sveitarfélögin geta t.d. notað tekjurnar til að bæta þjónustu sína og/eða til að lækka skatta á íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins. Þannig ná þau að verða samkeppnishæfari en ella væri. Um leið nýtur norska ríkið góðs af fyrirkomulaginu, því verulegur hluti skatttekna af raforkuvinnslunni rennur til þess.

Loks ber að hafa í huga að í norska kerfinu snýst ekki allt um staðsetningu stöðvarhúss. Þar er nefnilega tekið tillit til þess að orkan á rætur sínar á öllu vatnasvæði virkjunarinnar og forsendur raforkuframleiðslunnar eru ekki bara túrbínurnar, heldur líka öll önnur mannvirki virkjunarinnar. Loks er í norska kerfinu líka tekið tillit til flutningskerfisins og búið svo um hnútana að flutningskerfið geti skilað viðkomandi sveitarfélögum tekjum. Í Noregi eru það því öll nærsamfélög virkjana og orkumannvirkja sem njóta tekna vegna raforkuvinnslunnar.

Tillaga að kerfisbreytingu

Stærstur hluti orkuauðlindanna hér á landi er í eigu eða umráðum ríkisins og sveitarfélaga. Með það eignarhald fara pólitískir fulltrúar. Þeir láta ekki endilega stjórnast af arðsemissjónarmiðum, heldur jafnvel miklu fremur af því að orkuauðlindirnar séu einkum nýttar til stórframkvæmda. Þarna ráða staðbundnir byggðastefnuhagsmunir og skammtímasjónarmið um tímabundnar framkvæmdir oft miklu, en arðsemissjónarmiðin eru afgangsstærð. Enda er afar fátítt að heyra stjórnmálamenn tala um það að mestu skipti að orkuauðlindirnar séu nýttar með þeim hætti að hámarka arð af þeim fjárfestingum. 

Það væri fróðlegt að sjá áhrif þess ef hagsmunir nærsamfélaga orkumannvirkja (orkusveitarfélaga) yrðu í ríkara mæli tengdir við aukna arðsemi í raforkugeiranum. Þetta mætti gera með tiltölulega einfaldri lagasetningu. Þar gæti verið kveðið á um að sveitarfélög sem teldust til nærsamfélaga virkjunar (skv. nánari skilgreiningum) fengju fasta prósentu af hverri einustu kWst sem seld væri umfram afmarkað kostnaðarverð. Þar með myndaðist hvati fyrir umrædd nærsamfélög að orkan þar yrði ekki seld nálægt kostnaðarverði, heldur með sem mestri arðsemi.

Iceland_Thjorsa-river_1

Nærsamfélög virkjunarinnar yrðu ekki aðeins skilgreind sem sveitarfélagið sem hefði stöðvarhúsið innan sinna marka, heldur öll þau sveitarfélög sem hefðu virkjunarmannvirki og háspennulínur innan sinnar lögsögu. Hér verður ekki lagt til hvernig umræddum orkutekjum (sem t.d. mætti kalla orkuauðlindagjald) yrði skipt hlutfallslega milli viðkomandi nærsamfélaga. Mestu skiptir að þarna gæti myndast mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin, sem næmi verulegum fjárhæðum á ári hverju. Um leið væri eðlilegt að fella niður núverandi fasteignagjaldafyrirkomulag af virkjunum.

Tekjur sveiatrfélaga vegna orkuauðlindagjalds myndu verða litlar ef raforkan væri seld nálægt kostnaðarverði. En tekjurnar færu vaxandi með hækkandi raforkuverði (og aukinni arðsemi). Þannig myndi myndast hvati til aukinnar arðsemi af raforkuvinnslunni og áhuginn á hinni óarðbæru stóriðjustefnu minnka. Þetta myndi að auki valda því að fleiri sveitarfélög hér hefðu beina hagsmuni af raforkuvinnslunni heldur en er í núverandi kerfi.

Nærsamfélög virkjana og orkumannvirkja myndu geta notað orkuauðlindagjaldið til að gera viðkomandi sveitarfélög áhugaverðari til búsetu. Það gæti gerst í formi lægra útsvars, betri heilsugæslu, betri skóla o.s.frv. Að auki myndu allir landsmenn njóta þessarar þróunar, því meiri arðsemi í raforkuvinnslunni myndi þýða meiri skatttekjur fyrir ríkissjóð. Þar að auki myndu arðgreiðslur orkufyrirtækjanna vafalítið hækka (vegna aukins hagnaðar) og það koma almenningi til góða (hér er jú langmestur hluti raforkuframleiðslunnar í höndum fyrirtækja í opinberri eigu).

Þingmenn, ríkisstjórn og sveitarstjórnarmenn ættu að einbeita sér að álitamálum af þessu tagi og huga að hvatakerfi til að stuðla að meiri arðsemi í raforkuframleiðslunni hér. Í stað þess að segjast t.d. ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að álver rísi í Helguvík. Hætt er við að slík framkvæmd yrði sorgleg trygging fyrir því að raforkuframleiðslan hér skili algerri lágmarksarðsemi í margra áratuga í viðbót. Það væri afar miður fyrir þjóð sem býr yfir mestu og hagkvæmustu raforkuauðlindum í heimi. 


Áramótakveðja

north-sea-gas-flaringÞað að við Íslendingar puðrum upp nokkrum flugeldum um áramót þykir sumum illa farið með peninginn. Myndin sýnir logana frá brennandi jarðgasi á borpöllum í Norðursjó. Verðmæti alls þess jarðgass sem brennt er svona útí loftið á ári hverju í heiminum er talið jafngilda markaðsverðmæti sem nemur nokkrum tugum milljarða USD. Eða allt að 60 milljörðum USD (um 7.000 milljörðum ISK) ef miðað er við markaðsverð á gasi í Asíu. Svo koma gróðurhúsaáhrifin af þessum gasbruna með í kaupbæti. Það gengur svona. Orkubloggið óskar lesendum sínum farsæls komandi árs og þakkar samveruna á árinu sem er að liða.


Stórnmálamenn í viðjum stóriðjustefnu

Í þessum pistli er athyglinni beint að því hvernig stjórnmálaumræðan um orkageirann einkennist furðu mikið af skammtímasjónarmiðum og þröngum byggðastefnuhagsmunum. Sem sagt hinni klassísku íslensku stóriðjustefnu. 

Óheppilegur og jafnvel alvarlegur kerfisgalli

Í umræðu um virkjanaframkvæmdir á Íslandi er algengt að áherslan sé mjög á „að skapa störf" og „koma framkvæmdum í gang". Það að taka lán og virkja vatnsafl og jarðvarma - og skapa þannig störf og koma framkvæmdum í gang - verður oft að aðalatriði þegar stjórnmálamenn, verkalýðsforkólfar og fleiri tjá sig um orkugeirann og hlutverk opinberu orkufyrirtækjanna (einkum Landsvirkjunar). En arðsemin af þessum risastóru fjárfestingunum verður nánast að aukaatriði.

LV-haustfundur-idnadarradherra-2013

Gott dæmi um þetta var erindi iðnaðarráðherra á haustfundi Landsvirkjunar í nóvember sem leið (2013). Þar nánast snupraði ráðherrann stjórnendur og stjórn Landsvirkjunar fyrir það að leggja áherslu á að auka arðsemi í raforkuframleiðslunni. Í erindi sínu minntist ráðherrann ekki einu orði á mikilvægi þess að framkvæmdir Landsvirkjunar séu arðbærar. En var dugleg að lýsa óþreyju sinni á að hér fari verkefni í gang.

Ein ástæða þessarar óheppilegu forgangsröðunar eða litlu áherslu á arðsemi orkuframkvæmda, sem er furðu áberandi í tali íslenskra stjórnmálamanna, má sennilega að talsverðu leyti rekja til kerfisgalla. Kerfið hér eða lagaumhverfið er byggt þannig upp, að það eru alltof fáir sem sjá hag í því að arðsemin í orkuvinnslunni sé góð. Það virðist vanta skynsamlega hvata til handa stjórnmálamönnum og landsmönnum til að vilja auka arðsemi í raforkuvinnslunni. Þetta er bæði óheppilegt og einkennilegt. Því fjárfestingarnar í orkugeiranum eru ekki aðeins risastórar, heldur líka með ábyrgð hins opinbera og þar með skattborgara og almennings.

Stjórnmálamenn virðast margir hverjir fyrst og fremst vilja nýta orkulindirnar til að skapa snögga hagvaxtarsveiflu sem nýtist þeim til að stæra sig af í næstu kosningum. Sveitarstjórnarmenn þrýsta á um að framkvæmdir tengdar orkuvinnslu verði sem mest í þeirra heimahéraði - og hafa jafnvel ennþá minni áhuga á arðsemi fjárfestingarinnar heldur en þingmennirnir. Verkalýðsforkólfar og talsmenn atvinnulífsins virðast einnig fyrst og fremst horfa til skammtímahagssveiflunnar. Nánast enginn í hópi þessara valdamiklu eða áhrifamiklu einstaklinga gerir arðsemi fjárfestingarinnar að aðalatriði.

Iceland-HVDC-cable_Valdimar-K-Jonsson_Skuli-Jóhannsson

Og jafnvel þó svo mestar þessar framkvæmdir séu á vettvangi ríkisfyrirtækja eins og Landsvirkjunar og Landsnets, virðast ýmsir og jafnvel stór hluti almennings lítt áhugasamir um að arðsemin sé sett í forgang. Margt fólk er t.d. fljótt að hlaupa út á torg og kveina ef bent er á að sala á raforku um sæstreng til Evrópu gæti mögulega skilað okkur margfælt hærri arðsemi af orkuvinnslunni - og jafnvel gert raforkuframleiðsluna hér álíka mikilvægan eins og olían er fyrir Noreg.

Kveinin felast í því að þá muni raforkuverð til almennings og fyrirtækja á Íslandi hækka og það bæði skerði kaupmátt almennings og auki kostnað fyrirtækja. Betra sé að taka arðinn af orkulindunum út í lágu raforkuverði til almennings og fyrirtækja (og það jafnvel þó svo þá megi segja að hátt í 80% arðsins af orkulindunum fari til stóriðjunnar í formi lágs raforkuverðs). Þetta er hæpið viðhorf og hlýtur eiginlega að teljast andstætt grundvallarviðmiðunum þess hagkerfis sem við búum í.

Eins gott fyrir Noreg að hafa ekki beitt íslenskum aðferðum

Það er sem sagt svo að ofangreind sjónarmið stjórnmálamanna, sveitarstjórnarfólks, áhrifafólks í atvinnulífi og verkalýðsfélögum og verulegs hluta almennings eru fremur óskynsamleg. Til að útskýra það betur er nærtækt að taka norska olíugeirann til samanburðar.

Í Noregi er umfangsmikil olíuvinnsla stunduð á norska landgrunninu. Norska ríkið nýtur mikilla tekna af þeirri vinnslu. Þær tekjur og hagnaður væri miklu minni ef norsk stjórnvöld hefðu beitt „íslensku aðferðinni“, eins og hér virðist ennþá tíðkast gagnvart raforkuvinnslunni. Um 1960 sóttist bandarískt olíufélag (Phillips Petroleum) eftir víðtækum réttindum á norska landgrunninu, gegn greiðslu sem hefði tryggt norskum stjórnvöldum dágóðar fastar tekjur. En það fyrirkomulag hefði um leið stórlega skert möguleika Noregs til að hagnast mikið af kolvetnisvinnslu til framtíðar. 

Oil-Refinery-Exxon-Mobil-1

Norðmenn hefðu getað litið svo á að lang mikilvægast væri að fá erlenda fjárfestingu inn í landið eða lögsögu sína. Og gengið svo langt að ákveða að enginn skattur skyldi leggjast á fyrirtæki í olíuiðnaðinum umfram það sem almennt gerist hjá norskum fyrirtækjum. Norðmenn hefðu líka getað tekið þá ákvörðun að hafa lítið sem ekkert eftirlit með viðskiptaháttum olíuiðnaðarins og þ.á m. hafa lítið sem ekkert eftirlit með t.d. milliverðlagningu (transfer pricing) eða annarri mögulegri skattasniðgöngu erlendra fyrirtækja í norska olíuiðnaðinum. Aðalatriðið væri að fá erlenda fjárfestingu og sem allra minnst skyldi þrengja að henni.

Norðmenn fóru reyndar þá leið að heimila erlendum fyrirtækjum að fjárfesta í olíuleit á norska landgrunninu. En Norsararnir komu einnig á fót eigin ríkisfyrirtækjum (olíufyrirtækið Statoil og fjárfestingasjóðinn Petoro) sem nú eru þau umsvifamestu í vinnslunni á norska landgrunninu. Þrátt fyrir þessa aðferðafræði hefðu Norðmenn getað beitt „íslensku aðferðinni“. Það hefði t.d. verið hægt að tryggja að engin olía væri flutt út fyrr en að hafa verið unnin í olíuhreinsunarstöðvum í Noregi. Slíkt fyrirkomulag hefði verið í anda þess að íslensk raforka skuli helst ekki flutt út nema í formi álkubba eða s.k. barra.

Það eru reyndar nokkrar olíuhreinsunarstöðvar í Noregi (þar sem um 1/6 hluti olíunnar er unnin). En til að fylgja „íslensku aðferðinni“ sem best eftir, myndu Norðmenn hafa búið svo um hnútana að auk útflutningsbanns á óunna olíu væru allar olíuhreinsunarstöðvarnar í eigu erlendra fyrirtækja. Og þessum fyrirtækjum myndi Statoil selja olíuna á verði sem væri nálægt kostnaðarverði. Þannig væri leitast við að efla sem mest áhuga erlendra fyrirtækja á að fjárfesta á norska olíuhreinsunariðnaðinum. Að auki væri búið svo um hnútana að ein myndarleg olíuhreinsunarstöð væri í norskri ríkiseigu og hún seldi Norðmönnum bensínið, díselolíuna og aðrar olíuafurðir afar ódýrt.

Sambærilegt fyrirkomulag væri í norsku jarðgasvinnslunni. Í stað gaslagnanna, sem nú flytja norska gasið beint inn á markaði í Bretlandi og á meginlandi Evrópu, væri skylt að allt jarðgas bærist til sérstakra gasvinnslustöðva í Noregi. Þær stöðvar, sem væru allar í eigu erlendra fyrirtækja, fengju gasið nálægt kostnaðarverði, umbreyttu því í fljótandi gas (LNG) og seldu það á margföldu verði til þeirra markaða sem best borga (nú um stundir Japan og Suður-Kórea). Reyndar fengju norskir neytendur einnig að kaupa gas til upphitunar og eldunar á umræddu lágu verði, sem væri nálægt kostnaðarverði.

Oil-Workers-Sunset

Þó svo þetta fyrirkomulag myndi valda því að arðsemin af olíu- og gasvinnslu Statoil væri afar lág, væru Norðmenn samt almennt mjög ánægðir og stæðu flestir í þeirri trú að þetta væri snilldarfyrirkomulag. Því þannig væri jú búið um hnútana að norska fyrirkomulagið skapaði fullt af störfum í olíuiðnaðinum innan Noregs, laðaði að erlenda fjárfestingu og tryggði landsmönnum ódýrt eldsneyti. Norskir stjórnmálamenn myndu flestir styðja þessa stefnu á þeim grundvelli að hún skapi störf í norskum olíuhreinsunarstöðvum og í sjálfri olíuvinnslunni. Norskur almenningur myndi styðja stefnuna því eldsneytisverð í Noregi væri afar ódýrt.

Þetta kerfi myndi lágmarka arðsemi í norsku olíuvinnslunni og færa mest allan arðinn af þessari auðlindanýtingu til þeirra erlendu fyrirtækja sem ættu olíuhreinsunarstöðvarnar og gasvinnslustöðvarnar (LNG verksmiðjurnar). Svo til einu tekjurnar sem Norðmenn hefðu af olíuvinnslunni væru skatttekjur af störfum þess fólks sem ynni í iðnaðinum. Að auki myndu Norðmenn að sjálfsögðu „njóta góðs" af því að geta keypt ódýrt eldsneyti. Rétt eins og gerist í mörgum þriðja heims löndum sem hafa olíulindir innan sinnar lögsögu. Þar er nefnilega afar algengt að eldsneytisverð til almennings sé langt undir því sem gerist á hinum raunverulega heimsmarkaði. En sem fyrr segir myndi mest allur arðurinn af olíuvinnslunni á norska landgrunninu enda hjá erlendum fyrirtækjum utan lögsögu norskra skattyfirvalda. Við Íslendingar virðumst aftur á móti fremur aðhyllast þróunarlandastefnuna, þar sem stjórnmálamenn nýta sér orkulindirnar í pólitískum tilgangi og almenningur er deyfður með lágu orkuverði.

Norðmenn fóru ekki íslensku leiðina 

Eins og kunnugt er þá fóru Norðmenn ekki íslensku leiðina. Heldur aðra leið sem hefur m.a. valdið því að í dag er norski Olíusjóðurinn einhver allra stærsti ríkisfjárfestingasjóður heimsins og Statoil eitt þekktasta olíufyrirtæki veraldar og með starfsemi víða um heiminn.

Í hnotskurn þá felst norska leiðin í regluverki sem hvetur fyrirtæki til sem mestrar arðsemi (líka ríkisfyrirtækin!). En leggur um leið háa skatta á hagnað fyrirtækjanna og hefur geysilegt eftirlit með því að fyrirtækin komist ekki upp með að fela hagnað sinn - eða færa hann í skattaskjól áður en norska ríkið og norsku sveitarfélögin hafa fengið það sem þeim ber lögum samkvæmt. Þetta eru grundvallaratrið sem íslenskir stjórnmálamenn mættu veita meiri athygli.

Frá stóriðjustefnu til hvatakerfis

Norðmenn völdu þá leið gagnvart olíuiðnaðinum að hafa hámörkun arðsemi að leiðarljósi. En nú má vel vera að einhverjum þyki hæpið að bera svona saman olíuvinnsluna í Noregi og raforkuvinnsluna á Íslandi. Þess vegna er rétt að nefna hér nokkur atriði því til stuðnings að þessi samanburður sé að ýmsu leiti bæði sanngjarn og eðlilegur.

Norska aðferðin byggir á nokkrum mikilvægum meginatriðum. Í fyrsta lagi að skoða öll þau tækifæri sem geta verið í boði (fyrir íslenska raforkugeirann er eitt slíkt tækifæri mögulega að flytja út raforku um sæstreng). Í öðru lagi hafa Norðmenn forðast það að binda sig við kerfi sem valdið getur lágri arðsemi til langs tíma (íslenska stóriðjustefnan er andstæð þessu sökum þess til hversu langs tíma raforkusamningarnir við álfyrirtækin og aðra stóriðju eru).

Helguvik-alver-skoflustunga-

Stóriðjustefnan hér átti mögulega rétt á sér allt fram undir aldamótin síðustu. Þ.e. þegar raforkuverð var víðast hvar fremur lágt og afar fá tækifæri til að auka arðsemi í íslenska raforkugeiranum. En umhverfið hefur breyst mikið á síðustu tíu árum eða svo. Hér miðast kerfið þó ennþá mjög við stóriðjustefnuna. Og alltof fáir virðast átta sig á tækifærunum - og vilja jafnvel ríghalda í stóriðjustefnuna og sjá engan hag í því að arðsemin aukist.

Í næstu færslu hér á Orkublogginu verður fjallað sérstaklega um það hvernig megi breyta kerfinu hér. Og taka upp hvata sem gætu verið til þess fallnir að stuðla að jákvæðri hugarfarsbreytingu gagnvart þeirri auðlind sem orkulindarnar á Íslandi eru. Það væri afar mikilvægt að þetta myndi gerast. Það er nefnilega orðið tímabært að setja stóriðjustefnuna til hliðar. Og þess í stað gera sjálfa arðsemi raforkuvinnslunnar að aðalatriði.


Skattkerfið í norska vatnsaflsiðnaðinum

Noregur-raforka-skattar-4

Ísland og Noregur eru langstærstu raforkuframleiðendur í heimi (miðað við fólksfjölda). Bæði löndin byggja raforkuframleiðslu sína nær eingöngu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Í Noregi er vatnsaflið yfirgnæfandi og svo er einnig hér á landi, en að auki nýtum við Íslendingar jarðvarmann okkar til raforkuframleiðslu.

Það er athyglisvert að Íslendingar og Norðmenn eiga það einnig sameiginlegt að eignarhaldið á virkjununum í þessum tveimur löndum er mjög ámóta. Þ.e. yfirgnæfandi hluti þess er í opinberri eigu. Skattkerfi landanna gagnvart raforkuiðnaðinum er aftur á móti afar ólíkt.

Hér verður fjallað um norska skattkerfið. Og útskýrt hvernig það m.a. hvetur til þess að orkuauðlindirnar séu nýttar með sem mesta arðsemi í huga og hvernig nærsamfélög virkjana - og nærsamfélög annarra mannvirkja sem tengjast orkuvinnslunni - njóta margvíslegra tekna af þessari starfsemi.

Nærsamfélög í Noregi njóta virkjana

Í Noregi, rétt eins og á Íslandi, er litið svo á að vatnsföllin séu auðlind sem háð er einkaeignarétti landeiganda (þetta er ólíkt því lagalega fyrirkomulagi sem ríkir víða á meginlandi Evrópu þar sem eignaréttur landeiganda nær sjaldnast til vatnsfalla né til auðlinda djúpt í jörðu). Í Noregi er að reyndar litið svo á að þrátt fyrir þennan ríka einkaeignarétt eigi öll þjóðin rétt á að njóta verulegs hluta arðsins og ábatans af vatnsaflinu. Vatnsaflið er sem sagt að vissu leyti álitin sameiginleg auðlind þjóðarinnar, m.a. vegna þess að umtalsverðan hluta vatnsaflins er að rekja til þess vatns sem rennur ofan af hálendinu.

Noregur-raforka-skattar-5

Umrætt sjónarmið birtist t.d. í norsku reglunni um hjemfall. Sem felst í því að sá sem fær að virkja vatnsfall í Noregi hefur eftir tiltekinn árafjölda þurft að afhenda ríkinu virkjunina endurgjaldslaust. Sjónarmiðið um að öll þjóðin eiga að njóta verulegs hluta ábatans og arðsins af nýtingu vatnsaflsins kemur einnig fram í því að norski vatnsaflsiðnaðurinn er skattlagður verulega (heildarskattprósentan nálgast það sem er í norska olíuiðnaðinum!).

Í Noregi er að auki rík áhersla lögð á að nærsamfélög virkjana og vatnsfalla eigi sérstaklega rúman rétt til að njóta arðs af þeim auðlindum. Aukin arðsemi í raforkuvinnslunni skapar sem sagt ekki aðeins orkufyrirtækjunum auknar tekjur og meiri hagnað, heldur er norska kerfið þannig upp byggt að sveitarfélögum (og fylkjum) á nærsvæðum virkjana er tryggð ákveðin hlutdeild í tekjunum. Þetta kerfi virkar bæði sem hvati til að nýta orkuna og að arðsemi sé í fyrirrúmi í raforkuvinnslunni. Íslenska lagaumhverfið um orkugeirann hér virðir aftur á móti hvatann um aukna arðsemi að vettugi.

Skattkerfið í norska roforkuiðnaðinum í hnotskurn

Skipta má skattareglunum sem fjalla um norska raforkuiðnaðinn í sjö hluta. Upphæðirnar sem þetta skattkerfi skilar til hins opinbera skiptist í tvo nokkuð jafna hluta. Um helmingur fer til ríkisins og um helmingur til sveitarfélaga og fylkja (fylkin eru millistjórnsýslustig; hvert fylki samanstendur venjulega af nokkrum sveitarfélögum). Hlutfallið þarna á milli er þó ekki fast, heldur er það breytilegt.

Noregur-raforka-skattar-11

Skattkerfið er þannig hannað að það tryggi sveitarfélögum nokkuð jafnar skatttekjur af vatnsaflsiðnaðinum. Tekjur ríkisins af vatnsaflsiðnaðinum geta aftur á móti sveiflast verulega á milli ára. Þær sveiflur stafa fyrst og fremst af sveiflum í raforkuverði; í Noregi geta langvarandi þurrkar haft mikil áhrif á raforkuverðið því þar er lítið um afgangsorku og miðlun hlutfallslega minni en t.a.m. hér á landi).

Eins og áður sagði þá rennur u.þ.b. helmingur skattgreiðslnanna frá norska vatnsaflsiðnaðinum til sveitarfélaga (og fylkja). Þannig fá norsku sveitarfélögin til sín beinharða peninga sem þau geta nýtt til góðra verka og til að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi. Sveitarfélögin geta t.d. nýtt tekjurnar til að bæta þjónustu sína og/eða til að lækka skatta á íbúa og fyrirtæki sveitarfélagsins. Þannig ná þau að verða samkeppnishæfari og eftirsóttari en ella væri. Um leið nýtur norska ríkið góðs af fyrirkomulaginu, því verulegur hluti skatttekna af raforkuvinnslunni rennur til þess.

Í hnotskurn eru umæddir sjö skattar eftirfarandi: Í fyrsta lagi er innheimtur hefðbundinn tekjuskattur af raforkufyrirtækjunum (skattur af hagnaði) rétt eins við þekkjum á Íslandi. Í öðru lagi er lagður sérstakur tekjuskattur á fyrirtækin, sem er skattur á hagnað sem er umfram ákveðna viðmiðun. Í þessu sambandi er stundum talað um auðlindarentu (sem hér á landi rennur í reynd að mestu leyti til álfyrirtækjanna). Í þriðja lagi er lagður s.k. náttúruauðlindaskattur á raforkuvinnsluna í Noregi. Sá skattur er föst upphæð á hverja framleidda kWst. Í fjórða og fimmta lagi þurfa allar virkjanir að greiða sveitarfélögum árleg leyfisgjöld annars vegar og afhenda sveitarfélögum tiltekið magn af raforku á kostnaðarverði hins vegar (s.k. leyfistengd raforka). Í sjötta lagi geta norsk sveitarfélög ákveðið að leggja eignaskatt á virkjanamannvirki. Loks þurfa raforkufyrirtækin í vissum tilvikum að greiða auðlegðarskatt.

Hafa ber í huga að sérreglur gilda um norskar smávirkjanir. En meginreglurnar sem reifaðar eru hér eiga við um langstærstan hluta af norska vatnsaflsiðnaðinum. Og eins og áður sagði þá er sá iðnaður, rétt eins og íslenski raforkuiðnaðurinn, að langmestu leyti í eigu hins opinbera (í Noregi er það hlutfall um eða rétt yfir 90%). Eftirfarandi er stutt yfirlit um hvern skattanna í norska vatnsaflsiðnaðinum:

Tekjuskattur: Þetta er almennur fyrirtækjaskattur og hefur hann undanfarin ár numið 28% af hagnaði fyrirtækjanna. Upphæð tekjuskatts einstakra raforkufyrirtækja er mjög breytileg milli ára, því hagnaður fyrirtækjanna sveiflast verulega vegna mikilla sveiflna á raforkuverði (ræðst af úrkomu og fleiri atriðum). Tekjuskatturinn rennur alfarið til ríkisins. 

Grunnrentuskattur (auðlindarenta): Margar norsku vatnsaflsvirkjananna skila afar miklum hagnaði sökum þess að raforkuverð hefur farið hækkandi og virkjanirnar eru margar upp greiddar og fjármagnskostnaður því lítill. Í Noregi er talið eðlilegt að skattleggja þennan mikla hagnað með aukaskatti. Grunnrentuskatturinn er sem sagt viðbótarskattur á hagnað. Hann nemur 30% og leggst eingöngu á tekjur (hagnað) sem skilgreindar eru sem umframhagnaður eða auðlindarenta (skv. sérstökum reglum þar um). Grunnrentuskatturinn er reiknaður af hverri virkjun fyrir sig og upphæð hans getur verið afar breytileg milli ára vegna sveiflna á raforkuverði. Grunnrentuskattur rennur til ríkisins (rétt eins og tekjuskatturinn). Miðað við núverandi raforkuverð á Íslandi yrði vart um nokkurn grunnrentuskatt að ræða (skattur af þessu tagi kæmi etv. frekar til greina í íslenska sjávarútveginum). En ef t.d. raforka yrði seld um sæstreng héðan til Bretlands myndi grunnrentuskattur geta skilað Íslandi gríðarlega háum upphæðum.

Náttúruauðlindaskattur: Þetta er sérstakur skattur sem reiknast á vatnsaflsvirkjanir í Noregi. Skatturinn nemur fastri upphæð á hverja framleidda kWst (lagareglurnar um náttúruauðlindaskattinn eru óháðar því hvert raforkuverðið er á hverjum tíma). Viðtakendur náttúruauðlindaskattsins eru nærsamfélög virkjana og virkjaðra vatnsfalla. Náttúruauðlindaskatturinn rennur þó ekki eingöngu til þess sveitarfélags og fylkis þar sem sjálft stöðvarhúsið er staðsett, heldur t.d. líka til annarra sveitarfélaga og fylkja sem vatnsfallið fellur um. Um 85% skattsins rennur til sveitarféaga og um 15% skattsins rennur til fylkja. Hafa ber í huga að reglurnar um norska náttúruauðlindaskattinn hafa áhrif á upphæð tekjuskattsins og eru með þeim hætti að skatturinn skapar ekki aukaálögur á raforkufyrirtækin. Skattur af þessu tagi kann að vera óheppilegur í umhverfi þar sem lítill hagnaður er af raforkuvinnslu.

Leyfisgjöld: Sá sem fær virkjunarleyfi í Noregi þarf að sæta því að greiða sérstakt gjald á ári hverju, s.k. leyfisgjald. Leyfisgjöldin eru föst upphæð af hverri framleiddri kWst. Gjaldið rennur að stærstum hluta til sveitarfélaga. Viðtakendur eru öll sveitarfélög á vatnasvæði virkjunarinnar. Hér á landi eru leyfisgjöld í formi afar lágrar eingreiðslu við útgáfu virkjunarleyfis og íslenska fyrirkomulagið því mjög frábrugðið norsku leyfisgjöldunum.

Leyfistengd raforka: Sá sem fær leyfi til að virkja vatnsfall í Noregi þarf að sæta því að afhenda sveitarfélögum sem liggja að viðkomandi vatnsfalli allt af 10% raforkunnar á kostnaðarverði (samsvarandi skilyrði gildir um afhendingu á 5% af raforkunni til ríkisins, en því hefur ekki verið beitt). Hér á landi myndi þetta þýða að sveitarfélög hér fengju nú um 1,75 TWst af raforku afhenta á ári á kostnaðarverði, sem þau gætu síðan selt áfram. Vegna lágs raforkuverðs hér yrði þetta þó ekki jafn mikil hagnaðarlind eins og hjá sveitarfélögum í Noregi. Þetta yrði aftur á móti afar mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélögin ef tækifæri væri til að selja raforku á hærra verði (t.d. til Bretlands gegnum sæstreng).

Eignaskattur (og auðlegðarskattur): Eignarskattur á virkjanir og dreifikerfi í Noregi getur numið 0,7% af verðmæti virkjunar / dreifikerfis. Sveitarfélög þurfa að taka sérstaka ákvörðun um að leggja skattinn á. Skatturinn er víða innheimtur vegna virkjana, en einungis í helmingi tilvika vegna dreifikerfa. Viðtakendur eignarskattsins geta verið öll þau sveitarfélög sem hafa virkjunarmannvirki /dreifikerfi innan lögsögunnar. Loks má geta þess að skv. norskum lögum geta raforkufyrirtæki þurft að greiða sérstakan auðlegðarskatt. Hann nemur 1,1% miðað við tiltekna eign umfram skuldir, en leggst ekki á hlutafélög og skiptir því litlu máli í norska vatnsaflsiðnaðinum.

Hér á Íslandi skortir hvata til aukinnar arðsemi 

Ýmis atriði í norska skattkerfinu eru þess eðlis að nærsamfélög virkjana hagnast á því að raforkuverð sé sem hæst og alls ekki hagkvæmt að raforkan sé t.a.m. seld nálægt kostnaðarverði til stóriðju. Skattkerfið virkar sem sagt hvetjandi fyrir íbúa nærsamfélaga virkjana til að vandlega sé hugað að því að ekki sé léleg arðsemi af orkusölunni.

Karahnjukar-Dam-Stranded-Energy-1

Í þessu norska kerfi er ekki bara litið til virkjananna sjálfra. Því reglurnar eru þannig úr garði gerðar að sveitarfélög sem hafa önnur mannvirki en sjálft stöðvarhúsið innan sinnar lögsögu njóta einnig skattgreiðslna.

Hér á Íslandi er kerfið aftur á móti þannig að litlir sem engir hvatar eru hjá nærsamfélögum virkjana til að arðsemi aukist í raforkuvinnslunni. Hér skiptir langmestu - og nær eingöngu - hvar sjálft stöðvarhús virkjunar rís. Nánast einu beinu skatttekjur sveitarfélaga hér af virkjunum eru fasteignaskattar af virkjuninni - og þeir hafa runnið óskiptir til þess sveitafélags sem hefur stöðvarhúsið innan sinna stjórnsýslumarka. Í þessu sambandi hefur engu máli skipt hvar uppistöðulón liggja, hvar aðrennslisskurðir liggja, hvar jarðgöng liggja, hvar stíflur liggja, né hvar háspennulínur liggja. Allt snýst um stöðvarhúsið, þ.e. í hvaða sveitarfélagi það er staðsett.

Í næstu færslu Orkubloggsins verður nánar fjallað um það hvernig fyrirkomulagið hér á Íslandi beinlínis vinnur gegn sjónarmiðum um að auka arðsemi í raforkuvinnslunni. Og hvernig það virðist hreinlega hafa læst okkur í óarðbærri stóriðjustefnunni. 


Magnaður Miðjarðarhafskapall

Ef/þegar rafmagnskapall verður lagður milli Íslands og Evrópu verður hann að lágmarki u.þ.b. 1.100 km langur (og færi þá til Bretlands). Og þessi langi sæstrengur mun fara niður á allt að 1.000 m dýpi.

hvdc-cable-iceland-europe-map

Eðlilega veltir fólk fyrir sér hvort þetta sé framkvæmanlegt og hvort áhættan af t.d. bilun komi í veg fyrir að unnt verði að fjármagna svona verkefni. Íslandskapallinn yrði nær helmingi lengri en lengsti rafstrengur af þessu tagi er í dag. Þar er um að ræða NorNed, sem er 580 km langur og liggur milli Noregs og Hollands (og liggur því á miklu minna dýpi). Flest bendir þó til þess að það sé bæði tæknilega gerlegt og fjárhagslega mögulegt að ráðast í Íslandskapalinn.

Þetta má rökstyðja með ýmsum hætti. Svo sem með tilvísun til góðrar reynslu af þeim sæstrengjum sem nú þegar hafa verið lagðir. Og með tilvísun til þeirra gagna sem fjalla um þá kapla af þessu tagi sem nú eru í bígerð. Það virðist í reynd einungis tímaspursmál hvenær svona geysilega langir rafmagnskaplar neðansjávar verða að veruleika. Það kann vissulega að tefjast eitthvað. En það er fyllilega tímabært að við skoðum þessa möguleika nákvæmlega og könnum til hlítar bæði tæknilegar og viðskiptalegar forsendur.

Líklegt er að sá sæstrengur sem næst mun slá lengdarmetið verði kapall sem stendur til að leggja milli Noregs og Bretlands (hann er merktur inn á kortið hér að ofan). Þessi kapall verður á bilinu 700-800 km langur (eftir því hvaða leið verður endanlega fyrir valinu). Og flutningsgetan verður tvöföld á við NorNed!

HVDC-Euroasia-Interconnector-1

Það á þó við um „norsku“ kaplana að þeir fara um hafdýpi sem er miklu minna en það sem mest er á milli Íslands og Evrópu. Þetta er þó ekkert úrslitaatriði. Það er vel þekkt að unnt er að leggja svona neðansjávarkapla þó svo hafdýpið sé afar mikið. Þannig fer t.d. rafstrengurinn sem liggur milli Ítalíu og ítölsku Miðjarðarhafseyjarinnar Sardiníu (SAPEI kapallinn) niður á um 1.600 m dýpi. Og nú eru áætlanir um ennþá stærri og dýpri Miðjarðarhafsstreng, sem mun slá öll núverandi met.

Þessi magnaði Miðjarðarhafskapall á að tengja raforkukerfi Ísraels, Kýpur og Grikklands. Gert er ráð fyrir að orkan sem fer um kapalinn verði fyrst og fremst raforka frá gasorkuverum í Ísrael og á Kýpur. Á landgrunninu innan lögsögu þessara tveggja ríka hafa á síðustu árum fundist geysilegar gaslindir. Þær væri unnt að nýta til að framleiða raforku til stóriðju heima fyrir eða að umbreyta gasinu í fljótandi gas (LNG) og sigla með það til viðskiptavina sem greiða gott verð (t.d. Japan og Suður-Kórea). Einnig væri mögulegt að leggja gasleiðslu yfir til meginlands Evrópu, þar sem gasverð er nokkuð hátt. Fýsilegast þykir þó að nýta a.m.k. verulegan hluta gassins til að framleiða rafmagn og selja það til Evrópu um rafstreng! Þannig er talið að hámarka megi arðinn af gaslindunum.

HVDC-Euroasia-Interconnector-map-1

Þessi nýi Miðjarðarhafskapall er kallaður EuroAsia Interconnector. Gert er ráð fyrir að heildarlengd kapalsins verði á bilinu 1.000-1.500 km (eftir því hvaða leið verður fyrir valinu) og stærðin um 2.000 MW. Þetta á sem sagt að verða risastór kapall og geysilega langur. Það sem þó verður erfiðasti hjallinn er vafalítið hið mikla hafdýpi á svæðinu. 

Milli Kýpur og Krítar þarf EuroAsia sæstrengurinn að fara niður á dýpi sem er á bilinu 2.000-2.500 m eða jafnvel nokkru meira. Þessi leið milli Kýpur og Krítar er jafnframt lengsti neðansjávarleggur kapalsins. Milli þessara tveggja eyja verður kapallinn mögulega allt að 880 km langur (nokkru styttri leið er þó möguleg). Sem fyrr segir er ráðgert að heildarlengd kapalsins verði 1.000-1.500 km, en bæði endanleg lengd og dýpi kapalsins mun ráðast af leiðarvalinu.

Nú má vel vera að einhverjir hafi litla trú á því að Ísraelar, Grikkir og Kýpverjar geti staðið að þvílíkri risaframkvæmd. En í því sambandi er vert að hafa í huga að ísraelsk fyrirtæki byggja mörg yfir geysilegri hátækniþekkingu. Þar að auki nýtur verkefnið mikils velvilja innan Evrópusambandsins. Enda er þessi sæstrengur í samræmi við þá stefnu ESB-ríkjanna að fá aðgang að meiri og fjölbreyttari uppsprettum raforku og styrkja þannig orkuöryggi sitt.

eu-pci-map-2013.pngÞað er til marks um áhuga ESB að nú í október sem leið (2013) var þessi magnaði kapall settur inn á lista ESB um lykilverkefni næstu ára á sviði orkumála. Þetta er góð vísbending um að Íslandskapall muni vekja mikinn áhuga bæði stjórnvalda og fyrirtækja í Evrópu. Fyrst og fremst verða það þó auðvitað íslenskir hagsmunir sem munu ráða því hvort og hvenær Íslandskapallinn verður lagður. Á síðustu mánuðum og misserum hafa komið fram afar skýrar vísbendingar um að það verkefni geti skapað okkur íslensku þjóðinni geysilegan hagnað og fordæmalausan arð af orkuauðlindunum okkar. Um það verður brátt fjallað nánar hér á Orkublogginu.


Kínverska vistarbandið losað

China-GDP_2009-2013

Vísbendingar eru um að á næstu árum kunni að vera að hægja talsvert á efnahagsuppganginum í Kína. Undanfarin ár hefur a.m.k. dregið úr þeim ofsavexti sem þar hefur verið í vergri þjóðarframleiðslu. Stóra spurningin virðist vera sú hvort jafnvægi sé að nást - eða hvort áfram hægi þarna á?

Hversu hratt eða hægt það kann að gerast er ófyrirsjáanlegt. En þær þjóðir sem hafa notið kínversku uppsveiflunnar í hvað ríkustum mæli og stórhagnast á mikilli eftirspurn frá Kína, hafa talsverðar áhyggjur af þróuninni núna.

Þar er Ástralía sennilega besta dæmið. Hratt vaxandi eftirspurn Kína eftir kolum og járni (fyrir kínversku stáliðjuverin) hefur valdið geysilegu góðæri í Ástralíu undanfarinn áratug. En nú hefur hægt talsvert á efnahagsuppganginum þar syðra og fyrir vikið hefur t.d. nokkrum stórum áströlskum námuverkefnum verið slegið á frest.

People-Middle-Class-World_2000-2020_2012

Kólnun á hagvextinum í Kína gæti vissulega haft slæmar afleiðingar fyrir ástralskt efnahagslíf. En það er þó varla ástæða til að örvænta. Kínverjar eru fjölmennasta þjóð heims og ennþá eru mörg hundruð milljónir Kínverja sem hafa að mestu staðið utan efnahagsuppgangsins. Ekki virðist ólíklegt að á næstu tíu árum eða svo bætist u.þ.b. 200-300 milljónir Kínverja við þann hóp sem hefur aura afgangs til að setja í betra húsnæði, betra farartæki, meiri fatnað, meiri mat o.s.frv.

People-Cities-Big_World-China_1975-2025_2012

Þetta eru risavaxnar tölur! Kínverska millistéttin kann sem sagt að stækka meira næsta áratuginn en sem nemur öllum Bandaríkjamönnum eða jafnvel öllum íbúum innan Evrópusambandsins.

Í þessu sambandi er reyndar áhugavert að í Kína hafa í áratugi (og reyndar í aldir) verið í gildi ýmsar strangar reglur sem takmarka heimildir eða tækifæri fólks til að flytjast milli landshluta. Reglurnar fela í sér eins konar vistarband og hafa vafalítið haldið aftur af borgarmyndun í Kína. Eða a.m.k. leitt til mun hægari breytinga á þróun fólksflutninga þar en ella hefði verið. Nýverið slökuðu kínversk stjórnvöld á þessum reglum. Það gæti aukið enn frekar áhrif markaðsbúskapar í Kína og gæti hjálpað til að keyra upp hagvöxtinn. Þar að auki er líka nýbúið að slaka á ströngum reglum um barneignir. Sem mun örugglega valda fjölgun í ungu kynslóðinni og um leið auka eftirspurn eftir alls konar vörum sem barnafólk þarf og vill. 

China-Middle-Class_2012-2012-forecast

Í ár (2013) verður hagvöxturinn í Kína líklega á bilinu 7-8%. Sumir voru farnir að búast við því að hann myndi á næstu árum minnka jafnt og þétt. En hver veit; kannski mun hagvöxturinn þarna þvert á móti brátt taka að aukast á ný. Hvort það nægi til að koma í veg fyrir efnahagslægð í Ástralíu verður að koma í ljós. Þetta skiptir reyndar heiminn allan miklu máli, því ef hagvöxtur verður brátt lítill í Kína mun það nær örugglega valda djúpri efnahagskreppu víða um heim. En það eru sennilega óþarf áhyggjur - eða hvað?


Gámafiskur í Helguvík

Guardian-front-page-Nuclear-Nov-20-2013

Myndin hér til hliðar sýnir forsíðu Guardian í dag (miðvikudaginn 20. nóvember 2013).

Bresk stjórnvöld sömdu nýverið um byggingu nýs kjarnorkuvers í Bretlandi. Sem verður hið fyrsta sem reist verður þar í landi í áratugi. En Japanir þekkja manna best áhættuna af kjarnorkuverum. Og vara Breta við því að fara í þennan hættulega leiðangur. En Bretland þarf sárlega á meira orkuöryggi að halda og kjarnorkuverinu er ætlað að vera hluti af því.

Kjarnorkan fær 150 USD/MWst. 

Fréttir af þessu breska kjarnorkuveri eru mjög áhugaverðar fyrir Ísland. Því þarna hafa bresk stjórnvöld samið við franskt orkufyrirtæki um að reisa kjarnorkuver sem verður að verulegu leyti fjármagnað með kínverskum peningum. Og samningurinn hljóðar þannig að bresk stjórnvöld tryggja orkuverinu að fá 92,50 GBP á hverja MWst (u.þ.b. 150 USD/MWst) til 35 ára!

Ekki síður áhugavert er að nú er breska þingið að ljúka við lagasetningu sem felur í sér nýja orkustefnu sem er ætlað að hvetja til fjárfestinga í orkugeiranum. Tilgangurinn þar er fyrst og fremst sá að tryggja Bretum nægja orku. Í því sambandi er m.a. lögð rík áhersla á fjölbreytni í orkuframleiðslu og að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku.

Ný orkustefna Breta tryggir lágmarksverð til grænnar raforkuframleiðslu

Til að auka áhuga fjárfesta á að feta þá slóð sem bresk stjórnvöld telja bæði æskilega og nauðsynlega, er gert ráð fyrir að tryggja fjárfestunum tiltekna lágmarksarðsemi af orkufjárfestingum. Í því felst m.a. að bresk stjórnvöld tryggi jarðvarmaorkuverum 120-125 GBP/MWst (u.þ.b. 190-200 USD/MWst) og tryggi vatnsaflsorkuverum 95 GBP/MWst (nálægt 150 USD/MWst).

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að íslensku jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanirnar fá nú sennilega nálægt 25 USD/MWst fyrir um 3/4 af allri raforkunni sem hér er framleidd (rúmlega 70% raforkunnar hér fer til álveranna þriggja og alls fer um 80% raforkunnar til stóriðju). Og hér gengur viðskiptamódelið ekki aðeins út á það að orkuverðið er afar lágt - heldur eru samningarnir við álverin og stóriðjuna um þetta lága raforkuverð gerðir til margra áratuga. Þar að auki er svo áhætta færð af álfyrirtækjunum og yfir á raforkufyrirtækin með því að stór hluti raforkusölunnar er beintengdur við álverð.

Tekjur af vindorkunni verða á bilinu 150-250 USD/MWst

Eins og að ofan sagði á nýja kjarnorkuverið í Bretlandi að fá 150 USD/MWst, jarðhitavirkjanir eiga að fá 190-200 USD/MWst og vatnsaflsvirkjanir eiga að fá um 150 USD/MWst. Það er þó svo að bresk stjórnvöld gera ráð fyrir að langmest af nýrri endurnýjanlegri orku komi frá vindorkuverum. Enda hentar sú tækni almennt mun betur til raforkuframleiðslu í Bretlandi heldur en t.d. jarðvarmi.

lv-haustfundur-orkustefna-bretlands-verd-nov-2013_1222242.pngRaforkuverðið sem nýjum vindorkuverum er tryggt er misjafnt eftir því hvort þau eru reist á landi (onshore) eða utan við ströndina (offshore). Vindorkuver á landi eiga að fá 95-100 GBP/MWst (u.þ.b. 150-180 USD/MWst). Vindorkuver á hafi eru mun dýrari og því stendur til að tryggja þeim talsvert hærra raforkuverð eða á bilinu 135-155 GBP/MWst (sem jafngildir um 215-250 USD/MWst).

Sökum þess að vindorkan er í reynd grundvallaratriðið í orkustefnu Bretanna, má segja að viðmiðunarverðið þar gefi bestu vísbendingun um það hvaða orkuverð Bretar eru almennt tilbúnir að greiða fyrir raforku frá endurnýjanlegum auðlindum. Því er rétt að ítreka að þarna í vindorkunni er lægsta verðið 150 USD/MWst og hæsta verðið 250 USD/MWst.

Á nýlegum haustfundi Landsvirkjunar var vikið að hugmyndinni um sæstreng. Þar voru einmitt kynnt þau verð sem fjallað er um í bresku orkustefunni og þau sett í samhengi við verðlistaverð Landsvirkjunar. Sbr. myndin hér að ofan, sem er úr kynningu Landsvirkjunar og sjá má á vef fyrirtækisins. Inn á myndina er Orkubloggarinn búinn að bæta við rauðri línu, sem sýnir meðalverðið sem líklegt er að stóriðjan hér greiðir fyrir raforkuna um þessar mundir (25 USD/MWst). Hver og einn getur séð hversu fáránlega lágt það verð er - miðað við hvað fæst fyrir raforkuna í Bretlandi.

Raforka frá Íslandi gæti orðið verðlögð á a.m.k. 150 USD/MWst

Í Bretlandi er viðmiðunarverð raforku frá kjarnorku sem sagt um 150 USD/MWst og viðmiðunarverð fyrir vindorku á bilinu 150-250 USD/MWst. Ef til þess kæmi að raforka yrði seld frá Íslandi til Bretlands má velta fyrir sér hvort sú orka yrði verðlögð á þessu bili. Það virðist vera talsvert líklegt; íslenska orkan kæmi frá mjög tryggum endurnýjanlegum orkugjöfum og það gæti t.d. hentað Bretum afar vel að spara sér geysilega dýrt vindorkuver utan við ströndina með kaupum á íslenskri raforku. Það kann því að vera vel raunhæft að a.m.k. 150 USD fengjust fyrir íslensku megavattstundina. Jafnvel hærra verð.

lv-haustfundur-hvdc-strengur-raforkusala-ardsemi-nov-2013.pngÞarna má auðvitað leika sér með ýmsar forsendur. Og svo er eðlilegt að draga frá þann kostnað sem færi í flutninginn um sæstrenginn milli Íslands og Bretlands. Nýverið lagði Vilhjálmur Þorsteinsson fram það mat sitt að útflutningur á 5 TWst á ári gæti skilað okkur 500 milljónum USD árlega í framlegð. Sá sem þetta skrifar hefur áður birt útreikninga (þar sem byggt er á eilítið öðrum forsendum en Vilhjálmur gerir í umræddri grein sinni) sem benda til þess að hreinn hagnaður af sölu á 5 TWst til Bretlands gæti a.m.k. numið um 330 milljónum USD. Og þó svo enn sé mikil óvissa um það hversu arðsemin yrði mikil (einkum vegna óvissunnar um hvað rafstrengurinn eða flutningur um hann myndi kosta) eru nú margar vísbendingar komnar fram um að þetta geti verið geysilega arðbært fyrir okkur Íslendinga. Og jafnvel jafnast á við mikilvægi olíunnar fyrir Norðmenn (eins og sjá má í glærunni hér að ofan, sem er frá haustfundi Landsvirkjunar).

Það er ekki tilviljun að útflutningsstærðin er gjarnan miðuð við 5 TWst árlega. Þetta er nefnilega  raunhæft magn miðað við hvaða stærð af sæstreng myndi verða bæði hagkvæm og tæknilega möguleg (ca. 700-1000 MW strengur). Þetta miðast líka við hvað raunhæft er að við viljum og getum flutt mikið út af raforku án þess að þrengt sé að aðgangi að orku hér innanlands. 

Gámafiskurinn í Helguvík

Hér að framan var minnst á skrif Vilhjálms Þorsteinssonar, sem er nátengdur Samfylkingunni og því kunna sumir að setja skoðanir hans í pólitískt samhengi fyrst og fremst. En það er ekki aldeilis svo að viðhorf Vilhjálms verði stimplað sem eitthvert Samfylkingarviðhorf eða pólitík. Svipuð viðhorf um mikilvægi þess að hverfa frá stóriðjustefnunni hér á Íslandi má t.d. sjá í nýlegum skrifum Arnars Sigurðssonar á Fésabókarsiðunni hans og sömuleiðis i skrifum Sveins Valfells (Sveinn er reyndar ekki bara andstæður fleiri álverum hér, heldur virðist hann líka andstæður því að flytja út raforku með sæstreng - vill þess í stað nýta orkuna á þágu annarrar starfsemi hér innanlands).

lv-haustfundur-raforkunotkun-innanlands-nov-2013.pngÞað virðist því orðið nokkuð útbreitt viðhorf að það væri algerlega út í hött að virkja hér meira fyrir álver. Enda eru viðskipti orkufyrirtækjanna við álverin orðin óeðlilega mikil, þ.e. of mikil áhætta fólgin í þeim viðskiptum (eins og fjallað var um í síðustu færslu Orkubloggsins). 

En byggðastefnan og sérhagsmunir kjördæmapotaranna eru samt ennþá furðusterkir. Þannig mátti skilja orð iðnaðarráðherra á haustfundi Landsvirkjunar að meira máli skipti að Landsvirkjun virki fyrir álver í Helguvík, nánast sama hvað það kostar og sama hvert orkuverðið yrði, en að þetta mikilvæga orkufyrirtæki landsmanna reyni að auka arðsemi af raforkusölunni (ráðherrann minntist ekki einu orði á mikilvægi arðseminnar). Þetta er reyndar ekki bara undarlegt viðhorf, heldur líka ósanngjarnt að byggja þannig upp væntingar þeirra sem vonast eftir álveri í Helguvík (eins og Viðskiptablaðið benti á fyrr í vikunni). Staðan á álmörkuðum er nefnilega með þeim hætti að það er algerlega óraunhæft að hér rísi nýtt álver á næstu árum (nema kannski ef það stendur til að láta álverið hafa neðri hluta Þjórsár á kostnaðarverði).

Ennþá lengra gekk bæjarstjóri Reykjanesbæjar í byggðastefnutalinu. Þegar hann í viðtali við vikublaðið Reykjanes í aðdraganda Alþingskosninganna nú í vor sagði að ein af ástæðum þess að uppbygging álvers í Helguvík hafi tafist sé „viðhorf Landsvirkjunar um að nota eigi orku til að selja beint til útlanda eins og gámafisk fremur nota hér heima í framleiðslu".

gamafiskur-raforka-arni-sigfusson-baejarstjori.pngÞetta er mikið öfugmæli hjá bæjarstjóranum. Miklu nær væri að líkja verðlítilli raforkunni sem færi til álvers í Helguvík við gámafisk. Umrædd sjónarmið bæjarstjórans og iðnaðarráðherra einkennast ansið mikið af staðbundnum sérhagsmunum, en horfa framhjá þjóðarhagsmunum. Þau bæjarstjórinn og iðnaðarráðherra eru reyndar í sama stjórnmálaflokknum - og flokksformaðurinn þeirra er fjármálaráðherra og því sá sem skipar stjórn Landsvirkjunar. Orkubloggarinn treystir Bjarna Benediktssyni þó fullkomlega til að láta hagsmuni þjóðarinnar í forgang. Og að hann álíti rétt að leitast við að hámarka arðinn af raforkuframleiðslu Landsvirkjunar. Vonandi mun skipan hans á næstu stjórn fyrirtækisins staðfesta þetta.

Staðan er einfaldlega sú að möguleikinn á sæstreng er sennilega besta viðskiptatækifæri íslensku þjóðarinnar. Ennþá er ekki komið í ljós hvort þetta er tæknilega og fjárhagslega gerlegt. En það ættu allir að vera sammála um að þetta er tækifæri sem við eigum að skoða til hlítar og setja í forgang. Þar með er einnig skynsamlegast að bíða með að gera nýja langtíma-orkusamninga á botnverðum. Það er því miður óhjákvæmilegt að samningar um raforkusölu til Helguvíkur yrðu einmitt slíkir hrakvirðissamningar. Vonandi verður ekki hlaupið í að gera slíka samninga núna - þegar við erum svo heppin að þróun orkumála í nágrannalöndunum kunna að vera að skapa okkur margfalt betri tækifæri.


Ögurstund í íslenskum orkumálum?

Noregur-raforka-skattar-3

Ísland er mesti raforkuframleiðandi veraldar (per capita). Svo gott sem öll þessi íslenska raforka er framleidd með nýtingu afar hagkvæmra endurnýjanlegra náttúruauðlinda (mikið vatnsafl og óvenju aðgengilegur jarðvarmi). Og við höfum ennþá tækifæri til að auka þá raforkuframleiðslu verulega - án þess að skerða náttúrugæði um of.

Þrátt fyrir hinar hagkvæmu íslensku orkuauðlindir er arðsemin í raforkuframleiðslunni hér afar lág. Það stafar af því að hér fer geysilega hátt hlutfall allrar raforkunnar til álvera og annarrar stóriðju sem beinlínis þrífst á lágu raforkuverði. Nú fer um 70% allrar raforkuframleiðslunnar á Íslandi til áliðnaðarins og alls er hlutfall raforkusölu til stóriðjunnar nálægt 80%.

Stóriðjustefnan leiðir til lágrar arðsemi orkufjárfestinga OG verulegrar áhættu

Gríðarlegar fjárfestingar í raforkugeiranum hér hafa fram til þessa byggt mjög á því að selja raforkuna til álvera. Nánast allar þær virkjunarframkvæmdir eru fjármagnaðar með ríkisábyrgð eða með ábyrgð sveitarfélaga. Þarna má því tala um ábyrgð - og þar með áhættu - skattgreiðenda og reyndar almennings alls. 

Auk þess sem svo geysihátt hlutfall raforkunnar hér fer til álvera, þá er líklega u.þ.b. helmingur raforkusölunnar hér beintengdur álverði (þ.e. verðið sem álverin greiða fyrir raforkuna sveiflast í takt við álverð). Sú tenging veldur því að orkufyrirtækin og þar með almenningur á Íslandi eru í reynd þátttakendur í veðmáli um þróun álverðs.

OR-hus

Almenningur á Íslandi hefur sem sagt tekið á sig mjög umtalsverðan hluta af rekstraráhættu álveranna. Áhættan af þessu fyrirkomulagi ætti að vera öllum ljós. Þarna er veðjað stíft á einungis einn tiltekinn málm. Og það er grafalvarlegt mál fyrir Íslendinga að nú er mikið offramboð af þessum málmi í heiminum og verð á áli því lágt. Fyrir vikið var t.a.m. Landsvirkjun rekin með tapi skv. hálfsársuppgjöri 2013. Og búast má við því að afkoma orkufyrirtækjanna á þessu ári verði í daufari kantinum.

Því miður eru horfur á að kreppan á álmörkuðunum geti staðið yfir í mörg ár enn. Nýjar reglur London Metal Exchange (LME) sem lúta að því að stytta afhendingartíma á áli eru taldar munu draga enn meira úr tekjum álframleiðenda. Það mun væntanlega leiða til ennþá erfiðara rekstrarumhverfis í áliðnaðinum og gera það ennþá ófýsilegra að selja raforku til álfyrirtækja.

Og jafnvel þó svo álverð færi að skríða upp á við (vegna þess að sum álfyrirtækjanna hafa verið að draga úr framleiðslu sinni) væri það afar óskynsamlegt og eiginlega óskiljanleg ákvörðun ef orkufyrirtækin hér myndu auka raforkuframleiðslu til álvera. Því þegar horft er til komandi ára eru litlar líkur á því að raforkusala til álvera geti skilað þvílíkri arðsemi að það réttlæti áhættuna af því að skuldsetja orkufyrirtækin hér ennþá meira fyrir áliðnað.

Viðskiptamódelið gengur vart upp 

Það má reyndar gera ráð fyrir því að við núverandi markaðsaðstæður geti orkufyrirtæki almennt ekki fjármagnað virkjanir sem ættu að selja raforkuna til nýrra álbræðslna. Viðskiptalega gengur slíkt módel varla upp nú um stundir - nema þá með einhverskonar niðurgreiðslum frá ríkisvaldinu.

aluminum-qatalum-plan_1221455.jpgDæmi um slíkar niðurgreiðslur eða stuðning má sjá í sumum Persaflóaríkjunum. Í þeim tilvikum er ríkisvaldið (sem vel að merkja er þarna jafnan miklu nær því að byggja á einveldi en lýðræði) tilbúið til að nýta hluta af olíuauðæfunum til að veðja á hækkandi álverð. Og nota galopinn aðgang sinn að bæði fjármagni og ódýrri orku til uppbyggingar á risastórum álverum. Persaflóaríkin sjá þetta sem áhugaverðan kost til að koma strönduðu gasi í verð og þannig auka tekjur sínar a.m.k. til skemmri tíma - kryddað með von um að til lengri tíma litið muni álverð hækka. Að keppa við slíkt viðskiptamódel, sem segja má að einkenni áliðnað nútímans, getur ekki með nokkru móti verið æskilegt fyrir Ísland.

Annað dæmi er að finna í Kína. Þar eru markaðsaðstæður álvera með mjög sérstökum hætti, þar sem bæði ríkisvald og héraðsstjórnir nota fjármuni óspart til að styðja við uppbyggingu áliðnaðar. Nýjustu fréttir frá Kína benda til þess að lítt sé að hægja á ofboðslegum vexti í álframleiðslu þar. Og að þar sé meira að segja farið að bera á offramleiðslu í áiðnaðinum - þrátt fyrir efnahagsuppganginn og mikla eftirspurn eftir áli innanlands. Þetta gæti leitt til aukins útflutnings á áli frá Kína. Þetta er enn ein vísbendingin um að afar áhættusamt - og því óskynsamlegt - sé að auka álframleiðslu hér á Íslandi.

Tími kominn til að setja VERÐMÆTASKÖPUN í forgang

Þetta merkir þó ekki að fjárfestingin hér í orkuvinnslu fyrir álver hafi alltaf verið tóm vitleysa. Þvert á móti var þetta á sínum tíma farsæl leið til að tryggja nóg framboð af raforku til almennings og íslenskra fyrirtækja á hógværu verði. Um leið var reist öflugt flutningskerfi fyrir raforkuna og allt leiddi þetta til þess að hér byggðist upp mikil þekking innan tækni- og verkfræðigeirans.

lv-haustfundur-2013-kynning.pngEn nú er kominn tími til að horfast í augu við þau tækifæri sem breyttir tímar hafa fært okkur. Við erum svo gæfusöm að tækniþróunin í heiminum hefur orðið með þeim hætti að komin eru tækifæri til að stórauka arðinn af raforkuframleiðslunni hér. Við værum að fara afar illa með tækifærin ef við ætlum enn á ný að bæta við mörg hundruð megavöttum (MW) til handa áliðnaði. Slíkt var snjall leikur fyrr hálfri öld (Straumsvík), nokkuð skynsamlegt fyrir tæpum tveimur áratugum (Columbia Ventures; Norðurál), en fljótlega þar á eftir fór þessi stefna að verða óáhugaverðari og óskynsamari.

Og nú er svo komið að bæði er áhættan orðin óþægilega mikil og ný tækifæri hafa opnast. Þess vegna er mál að linni og ekki skynsamlegt að auka hér raforkusölu umtalsvert til áliðnaðar. Þvert a móti ættum við jafnvel strax að byrja að leita að tækifærum fyrir arðbærari verkefni fyrir orkuna þegar raforkusamningarnir við álfyrirtækin renna út.

Síðasta áratuginn hefur orðið bylting í fjarskiptamálum. Eins og líklega flestir þekkja, með smartsíma í vasanum og/eða á þráðlausa netinu í fartölvunni. En það sem kannski færri gera sér grein fyrir er að síðasta áratuginn hefur líka orðið bylting í flutningi á raforku.

UK-annual-gas-price-production-and-imports_1998-2012Sú bylting einkennist þó ekki jafn mikið af tækniframförum eins og í fjarskiptageiranum, heldur mun meira af stóraukinni eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku. Ofan á það bætist svo að nokkur afar fjölmenn og þar með orkufrek ríki í nágrenni Íslands standa frammi fyrir minnkandi orkusjálfstæði. Þar er nærtækast að nefna Bretland (þar hefur gasframleiðsla snarminnkað og innflutningsþörfin til að knýja gasorkuverin því aukist mjög). Einnig má nefna Þýskaland (þar sem stórlega hefur verið dregið úr notkun á kjarnorku af öryggisástæðum).

Þessi þróun hefur breytt miklu á fremur stuttum tíma. Bæði umrædd lönd hafa mikinn áhuga á að auka aðgang sinn að hagkvæmri og þá ekki síst tryggri og endurnýjanlegri orku. Þetta skapar Ísland algerlega einstakt tækifæri. Því þarna fæst verð sem er miklu hærra en það sem áliðnaðurinn greiðir. Og það sem öllu máli skiptir; sú verðhækkun yrði uppspretta þess hagnaðar sem eðlilegt er að orkuauðlindirnar loksins skili okkur. 

Allir sem beita skynseminni og kynna sér málin hljóta að sjá að það væri algerlega galið að næstu 200, 350 eða 500 MW sem við kunnum að virkja fari til enn eins álversins. Nú er tímabært að við setjum verðmætasköpun í forgang.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband