Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Bjargvætturinn Tight Oil

Orkumál léku talsvert stórt hlutverk í aðdragandi nýliðinna forsetakosninga vestur í Bandaríkjunum.

Romney-drill-drill-drill

Flest þeirra sem aðhyllast meiri endurnýjanlega orku fylktu liði að baki Barack Obama. Bandaríski olíuiðnaðurinn stóð aftur á móti þéttur að baki repúblíkananum Mitt Romney. Og þá ekki síst eftir að Romney útnefndi Harold Hamm sem talsmann sinn í orkumálum. 

Í dag beinir Orkubloggið sjónum að olíumanninum Harold Hamm og þeirri stefnu sem hann hefur boðað: Þess efnis að Bandaríkin geti innan örfárra ára orðið mesti olíuframleiðandi heimsins og jafnvel náð langþráðu orkusjálfstæði. Fyrst er þó rétt að setja málflutning Hamm's í samhengi við þróunina í bandaríska olíuiðnaðinum:

Fáar þjóðir eru jafn háðar olíu eins og Bandaríkjamenn

Orkumál og þá sérstaklega olíuvinnsla og olíuinnflutningur eru hápólitísk málefni vestur í Bandaríkjunum. Enda hefur olíunotkun Bandaríkjamanna (per capita) ávallt verið meiri en flestra annarra þjóða. Þessi mikla olíunotkun og stærð bandarísku þjóðarinnar hefur leitt til þess að undanfarin ár hafa Bandaríkjamenn notað um 20% af allri olíuframleiðslu heimsins. Og þar sem þeir framleiða langt frá því svo mikla olíu, hafa Bandaríkjamenn þurft að kaupa mikla olíu erlendis frá. Undanfarin ár hefur þessi innflutningur þeirra á olíu numið um 15% af allri þeirri olíu sem seld er og flutt á milli landa. Til samanburðar við þessar hlutfallstölur má hafa í huga að Bandaríkjamenn eru einungis um eða innan við 5% af mannkyni öllu.

World-top_ten_oil_importers-2011-flags

Í gegnum tíðina hefur olíunotkun og olíuinnflutningur Bandaríkjanna sveiflast talsvert - í takt við efnahagslífið. Undanfarin ár hefur olíuinnflutningurinn þar vestra numið um 60% af allri olíunotkun bandarísku þjóðarinnar.

Ekkert ríki flytur inn jafn mikla olíu og olíuafurðir eins og Bandaríkin. Kínverjar og Japanir eru í öðru og þriðja sæti, en hvort landið um sig er þó einungis u.þ.b. hálfdrættingar á við Bandaríkjamenn. Mikill olíuinnflutningur Kínverja er reyndar nýlega til kominn, en olíunotkun þeirra hefur aukist gríðarlega á stuttum tíma.

US-Oil-gross-imports-by-major-sources-2011

Bandaríkin hafa á síðustu árum aukið mjög olíuinnflutning frá Kanada. Ekkert eitt land flytur jafn mikla olíu til Bandaríkjanna eins og þessi góði nágranni þeirra. Árið 2011 nam olíuinnflutningurinn til Bandaríkjanna frá Kanada um 2,2 milljónum tunna daglega. Það segir nokkuð um þýðingu kanadísku olíunnar fyrir Bandaríkjamenn að þessi innflutningur frá Kanada er meiri en sem nemur allri olíuframleiðslu Noregs.

Mikið af olíunni sem Bandaríkjamenn nota kemur frá öðrum nágranna þeirra; Mexíkó. Stærsti hluti olíuinnflutningsins til Bandaríkjanna kemur þó frá OPEC-ríkjunum eða um 40% af öllum olíuinnflutningnum. Þar eru Sádarnir, Nígería og Venesúela með stærstan hluta. Öll þessi lönd eru sem sagt afar þýðingarmiklir olíuframleiðendur fyrir Bandaríkin.

Nixon-king-faisal-of-saudi-arabia-july-1974

Bandarískir stjórnmálamenn hafa lengi haft áhyggjur af því hversu mikla olíu Bandaríkjamenn þurfa að kaupa erlendis frá. Þessar áhyggjur eiga einkum og sér í lagi við um olíuna frá óraósvæðum og frá löndum sem eru ekki sérstaklega vinsamleg Bandaríkjunum.

Allt frá því að olíuframleiðslu i Bandaríkjunum tók að hnigna snemma á 8. áratugnum hafa forsetar Bandaríkjanna lagt áherslu á  mikilvægi þess að Bandaríkin minnki þörf sína á innfluttri olíu. Þar hefur árangurinn verið afar lítill. Þvert á móti hefur þróunin oftast verið sú að Bandaríkin hafa þurft sífellt meiri innflutta olíu. Þá sjaldan innflutningsþörfin hefur minnkað hefur það jafnan verið tímabundið - og ástæðan yfirleitt verið efnahagssamdráttur en ekki aukin innlend olíuframleiðsla. 

US-White-House-1979-Jimmy-Carter-PV-roof

Auknar áhyggjur bandarískra stjórnmálamanna af olíufíkn landsins og því að verða sífellt háðari erlendri olíu ýttu undir opinberan stuðning við ýmsa tækniþróun. Talsmenn etanólframleiðslu, vindorku, sólarorku og jarðhita brostu breitt, því nú opnuðust miklir opinberir sjóðir sem dældu fé í þessar grænu greinar orkugeirans.

Segja má að fyrsta græna uppsveiflan hafi orðið strax í tíð Nixon's og Ford. Í forsetatíð Jimmy Carter's var svo gengið enn lengra og til að sýna gott fordæmi var sólarsellum komið fyrir á þaki Hvíta hússins. Úti í Mojave-eyðimörkinni risu fyrstu stóru speglasólarorkuver heimsins (CSP) - fyrir tilstuðlan mikilla opinberra styrkja. Á þessum tíma var ekki byrjað að tala um gróðurhúsaáhrif og áherslan á endurnýjanlega orku á 8. áratugnum var eingöngu til kominn í því skyni að auka innlenda orkuframleiðslu. Meðal annarra verkefna sem bandaríska ríkið dældi fjármunum í voru tilraunir til að vinna olíu úr kolum, en það er bæði geysilega dýrt og mjög kolefnislosandi. Tilgangurinn var einfaldur; að stuðla að aukinni innlendri orkuframleiðslu í Bandaríkjunum og minnka þörfina á innfluttum orkugjöfum.

US-Oil-Potential-Federal-Lands-Continental-Shelf-2012

Bandaríski kolvetnisiðnaðurinn hefur aldrei verið mjög hrifinn af þessu grændekri. Og alla tíð frá því að olíuvinnsla í Bandaríkjunum fór að minnka, í kringum 1970, hefir bandaríski olíuiðnaðurinn barið á mönnum í Washington DC um að opna þeim leið að fleiri olíusvæðum innan bandarískrar lögsögu. Þar hefur einkum verið  horft til svæða sem njóta verndar sem alríkisland (Federal Lands) og einnig til landgrunnssvæðanna utan við bæði vesturströnd og austurströnd landsins. Einnig hefur olíuiðnaðurinn verið æstur í að komast inn á náttúruverndarsvæði norður í Alaska.

En alríkisstjórnin í Washington DC og meirihluti Bandaríkjaþings hafa aftur á móti lengst af verið treg til að hleypa olíufyrirtækjunum í þessi svæði; hvort sem eru verndarsvæði eða landgrunnið (að undanskildum Mexíkóflóa). Sú afstaða stafar ekki síst af áhyggjum um mengunarslys. Þess í stað hafa olíufyrirtækin verið hvött til að leggja enn ríkari áherslu á olíuleit á landi í einkaeigu og fengið til þess allskonar ívilnanir í formi hagstæðra skattareglna o.fl. 

Persian-Gulf-USS-Carl-Vinson-aircraft-carrier-january-2012

Mikill olíuinnflutningur Bandaríkjanna er líka ein af ástæðum sífelldra og umfangsmikilla afskipta Bandaríkjanna af Mið-Austurlöndum og mikilla umsvifa bandaríska sjóhersins þar i grennd (heimahöfn 5. flotans er einmitt í Bahrain við Persaflóa). Bandaríkin hafa talið afar mikilvægt að tryggja ótruflaða umferð olíuskipa til og frá Persaflóanum og líða engum að hindra siglingar þar.

En um afskiptin af Persaflóasvæðinu má þó sennilega segja að þar hafi skipt ennþá meira máli að Persaflóaríkin búa yfir stærstu og aðgengilegustu olíulindum framtíðarinnar. Olían þar og í löndum eins og Íran og Írak er olía sem mun vafalítið hafa mikla og vaxandi efnahagslega þýðingu eftir því sem árin líða. Í huga Bandaríkjastjórnar er nauðsynlegt að olíumarkaðir heimsins þurfi ekki að upplifa það að olíuframboð frá Persaflóanum snarminnki skyndilega vegna t.d. hernaðarátaka. Jafnvel þó svo Bandaríkin þyrftu enga olíu frá Persaflóanum myndi alvarleg (og jafnvel smávægileg) truflun á framboði þaðan snarhækka olíuverð um allan heim - og það gæti skaðað bandarískt efnahagslíf mjög. Þess vegna myndi jafnvel stóraukin olíuframleiðsla innan Bandaríkjanna vart hafa mikil áhrif á t.d. utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar gagnvart Mið-Austurlöndum.

US-presidents-hoping-for-oil-independence_1973-2012

Útgjöld vegna olíukaupa Bandaríkjamanna erlendis frá nema hundruðum milljarða USD á ári hverju. Vegna hækkandi olíuverðs hafa þessi útgjöld vaxið verulega síðustu árin. Það hefur bæði óhagstæð áhrif á vöruskiptajöfnuð landsins og veldur miklum tilflutningi fjármagns til stjórnvalda í ríkjum sem eru sum hver alls ekki vinveitt Bandaríkjunum.

Samhliða hefur hlutfall innfluttu olíunnar í olíunotkun Bandaríkjanna vaxið jafnt og þétt. Á þeim tíma sem Nixon tók að útlista áhyggjur sínar af þróuninni, snemma á 8. áratugnum, var umrætt hlutfall um 40%. Undanfarin ár hefur hlutfallið verið miklu hærra eða nálægt 60%.

Það eru því sterkir hvatar til þess að Bandaríkin reyni að draga sem mest úr olíuinnflutningi og auki framleiðsluna heima fyrir. Sennilega taka allir bandarískir stjórnmálamenn undir það. En raunveruleikinn hefur engu að síður verið sá að olíuinnflutningur Bandaríkjanna hefur farið sívaxandi.

Efnahagsveldi með hnignandi olíulindir 

Chrysler-1959-desoto

Bandaríkin eru sem sagt verulega háð innfluttri olíu og hafa lengi verið. En ekki má þó gleyma því að Bandaríkin hafa sjálf ávallt verið meðal mestu olíuframleiðsluríkja heimsins.

Í upphafi 20. aldar voru tvö lönd með yfirburðastöðu á olíumörkuðunum, þ.e. Bandaríkin (vegna olíuvinnslunnar í Oklahóma, Texas og víðar í landinu) og Rússland (vegna olíunnar frá Bakú). Brátt tóku Bandaríkin afgerandi forystu sem heimsins mesti olíuframleiðandi og langt fram eftir 20. öld voru Bandaríkin langstærsta olíuframleiðsluríkið.

US-Oil-Imports-Net_1910-2012

En þó svo Bandaríkin yrðu fljótlega mesti olíuframleiðandi heimsins olli efnahagsvöxturinn þar og stærð þjóðarinnar því að strax um 1950 voru Bandaríkin orðin nettóinnflytjandi að olíu og olíuafurðum (þ.e. framleiddu minna en sem nam notkun þjóðarinnar). Og jafnvel þó svo olíuframleiðsla innan Bandaríkjanna ykist hratt á 6. og 7. áratug 20. aldar náði sá vöxtur ekki að halda í uppganginn í efnahagslífinu og fjölgun þjóðarinnar, sem þurfti sífellt meiri olíuafurðir. Þess vegna jókst innflutningur á olíu jafnt og þétt þrátt fyrir sívaxandi olíuframleiðslu innanlands.     

World-Top-Oil-Producing-Countries_1969-2006

Svo gerðist það árið 1970 að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum náði hámarki (dagleg framleiðsla varð um 10 milljón tunnur). Og fór eftir það hnignandi. Framleiðslan tók reyndar kipp upp á við um og upp úr miðjum 8. áratugnum, þegar olía frá stórum olíulindum norður í Alaska byrjaði að streyma á markað. En almennt séð má segja að allt frá því 1970 hafi leiðin legið niður á við. 

Frá því Alaskaolían fannst hafa engar viðlíka olíulindir fundist innan lögsögu Bandaríkjanna. Hæst náði Alaskaframleiðslan að skila um 2 milljón tunna á dag, sem er geysilegt magn og t.d. meira en öll olíuframleiðsla Noregs í dag.

Alaskaolían varð ekki til þess að olíuframleiðslan innan Bandaríkjanna næði að bæta metið frá 1970. Það ár reyndist vera hið sögulega hámark bandarískrar olíuframleiðslu. Og um miðjan 8. áratuginn seig olíuframleiðsla bæði Saudi Arabíu og Sovétríkjanna (þáverandi) fram úr Bandaríkjunum. Það gerðist þrátt fyrir nýju Alaskaolíuna og þrátt fyrir að óvenju hátt olíuverð á síðari hluta 8. áratugarins væri hvati til meiri og dýrari borana í Bandaríkjunum.

US-Alaska-Oil-Production-share-of-total_1970-2007

Olíuframleiðslan í Alaska var fljót að ná toppi og þar að auki fóru flestar aðrar olíulindir innan Bandaríkjanna nú hnignandi. Þegar kom fram á miðjan 9. áratuginn varð hnignunin orðin áberandi; þá fór olíuframleiðsla Bandaríkjanna á ný að minnka nokkuð hratt.

Dapurt efnahagsástand síðustu ár áttunda áratugarins og í upphafi þess níunda varð reyndar til þess að olíunotkun í Bandaríkjunum dróst verulega saman. Sem varð til þess að olíuinnflutningur minnkaði og olíuverð lækkaði mjög (svo mikið að Sádarnir snardrógu úr sinni framleiðslu og Bandaríkin urðu tímabundið aftur stærri olíuframleiðandi en Saudi Arabía). En brátt kom að því að efnahagslífið tók við sér á ný og síðustu tvo áratugi 20. aldar jókst olíuneysla Bandaríkjanna verulega.

US-Oil-Production-Consumption-Imports_1949-2010

Þessi aukna olíuneysla samhliða minnkandi olíuframleiðslu innanlands varð til þess að olíuinnflutningur Bandaríkjanna óx nú aftur mjög hratt. Á tímabilinu 1985-2000 jókst olíuinnflutningurinn um meira en helming; fór úr u.þ.b. 5 milljónum tunna daglega og í um 11 milljónir tunna.

Á þessu sama tímabili (1985-2000) jókst hlutfall innfluttrar olíu og olíuafurða í Bandaríkjunum úr því að vera um 30% af olíunotkuninni árið 1985 og í að verða vel yfir 50% aldamótaárið 2000. Bandaríkin voru komin niður í það að framleiða minna en helming þeirrar olíu sem þjóðin notaði.

Þegar 21. öldin gekk í garð hélt olíuframleiðslan í Bandaríkjunum áfram að minnka. Rétt upp úr aldamótunum var olíuframleiðslan þar einungis um 5 milljón tunnur. Sem er um helmingur framleiðslunnar sem var árið 1970 og ámóta mikið eins og framleiðslan var um 1950, þ.e. hálfri öld fyrr! Enda stóð það ekki í bandarískum stjórnvöldum þarna í upphafi 21. aldar að fara útí tvö Persaflóastríð, sem augljóslega snérust mest um olíuhagsmuni. 

US-Oil-Imports-Share_1950-2003

Um 1950 fullnægði bandarísk olíuframleiðsla upp á 5 milljónir tunna daglega nær allri olíuþörf Bandaríkjamanna. En nú hálfri öld síðar, þegar dagsframleiðslan var aftur orðin einungis 5 milljón tunnur, voru tímarnir heldur betur breyttir. Því þarna um aldamótin þurftu Bandaríkjamenn að flytja inn um 12 milljónir tunna af olíu og olíuafurðum daglega. Og hlutfall innfluttrar olíu af allri olíuneyslunni í Bandaríkjunum var farið að nálgast 60%.

Og strax á fyrstu árum 21. aldarinnar fór bandaríska olíubókhaldið enn versnandi. Árið 2005 fór hlutfall erlendrar olíu í olíuneyslu Bandaríkjamanna í fyrsta sinn í sögunni yfir 60% og stefndi hraðbyri í að verða brátt 70%. Daglegur olíuinnflutningur landsins var kominn í tæplega 14 milljónir tunna og nettóinnflutningurinn var um 12,5 milljónir tunna. Um 40% alls olíuinnflutningsins kom frá OPEC ríkjum, eins og Venesúela og Persaflóaríkjunum. Olíuverð hækkaði líka hratt og bandarískum almenningi var orðið um og ó. Var bandaríska olían að klárast?

Hátt olíuverð er bæði kæfandi og hvetjandi!

China-Oil-Imports_2000-2010

Þarna á fyrsta áratug 21. aldarinnar var komin upp sú staða að Bandaríkjamenn þurftu að flytja inn meiri olíu en nokkru sinni fyrr. Við þetta bættist sú bagalega staðreynd að kominn var fram á sjónarsviðið nýr, stór og hratt vaxandi olíuinnflytjandi; Kína. Fyrir vikið tók olíuverð nú að hækka mjög.

Verðhækkunin varð sérstaklega áberandi um og upp úr 2003. Hækkandi olíuverðið þýddi að Bandaríkjamenn þurftu orðið að eyða sífellt meiri fjármunum í innflutta olíu. Og þrátt fyrir kreppuna sem skall á árið 2008 er olíuverð ennþá mjög hátt - sögulega séð - og hefur reyndar aldrei nokkru sinni verið jafn hátt yfir heilt ár eins og var 2011. Og það gæti farið svo að metið frá 2011 (þ.e. meðalverð yfir árið) verði slegið á árinu sem er að líða (2012). Olíuverð hefur nefnilega haldist afar hátt (sögulega séð) þrátt fyrir efnahagserfiðleikana í Evrópu og aðeins rólegri efnahagsvöxt í Kína.

Oil-Price_Annual-Average_1980-2012-with forecast-to-2040_EIA-dec-2012

Hækkandi olíuverð hefur á skömmum tíma leitt til gríðarlegra fjármagnsflutninga frá Bandaríkjunum og í vasa annarra olíuframleiðsluríkja. Síðustu árin hefur árlegur kostnaður Bandaríkjanna vegna kaupa á olíu erlendis frá verið nálægt 300 milljörðum USD (mun hafa verið 327 milljarðar USD árið 2011). Og til að bæta gráu ofan á svart fer stór hluti af þessu dollaramagni beint til olíuframleiðslulanda sem eru ekkert alltof vinsamleg Bandaríkjunum (lönd eins og Venesúela, Rússland og ýmis Persaflóaríki). Loks virðist fátt benda til þess að olíuverð lækki; þvert á móti gerir bandaríska orkumálaráðuneytið ráð fyrir því að líklegast sé að olíuverð haldi áfram að hækka næstu árin og áratugi (sbr. bláa línan á grafinu hér að ofan).

En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Fyrir bandarískt efnahagslíf er hátt olíuverð ekki endilega bara af hinu illa. Þetta háa verð er nefnilega líka hvati til að finna nýjar og hagkvæmar leiðir til að vinna meiri olíu innanlands. Mesti vandi bandarískrar olíuframleiðslu hefur ekki verið sá að engar nýjar olíulindir sé að finna - heldur kannski miklu fremur að olíuverðið var lengi vel svo lágt að fjármagnseigendur höfðu takmarkaðan áhuga á dýrri olíuleit í Bandaríkjunum. 

Oil-production_costs_break-even-2012

Hækkandi olíuverð hefur valdið því að olía sem áður var talið óhagkvæmt að vinna er allt í einu orðin dúndrandi bissness. Hækkandi olíuverð síðustu árin hefur t.d. leitt til þess að hafin er olíuvinnsla á miklu meira hafdýpi en áður þekktist (deepwater oil). Sama er að segja um olíuvinnslu úr olíusandi (oil sands). Sennilega væri nánast engin vinnsla djúpt úti í í Mexíkóflóanorður í Alberta í Kanada nema af því að menn eru fullvissir um að olíuverð muni á næstu árum og áratugum almennt haldast a.m.k. yfir 50-60 USD. Og það er ekki bara djúpvinnslan og olíusandurinn sem eru orðin áhugavert stúss. Menn eins og Harold Hamm, sem minnst var á hér í upphafi færslunnar, hafa fundið önnur og jafnvel enn betri tækifæri til að finna og vinna olíu - olíu sem fyrir einungis örfáum árum þótti alltof dýr að sækja iður jarðar.

Maðurinn sem keypti Norður-Dakóta

Umræddur Harold Hamm er í dag einn af efnuðustu mönnum í Bandaríkjunum. Hann á langa sögu að baki í bandaríska olíuiðnaðinum og er stofnandi og stærsti eigandi olíufyrirtækis sem nefnist Continental Resources.

Hamm-casual-1

Hamm er farinn að nálgast sjötugt (f. 1945) og alla tíð frá því hann byrjaði sem unglingsstrákur að vinna á bensínstöð í fæðingarbænum sínum, Lexington í gamla olíufylkinu Oklahóma, hefur hann verið viðloðandi olíu. Hamm var rétt skriðinn yfir tvítugt þegar hann byrjaði að vinna fyrir sér í olíuiðnaðinum í Oklahóma. Og áður en hann náði þrítugu hafði hann borað sinn fyrsta olíubrunn.

Næstu áratugina upplifði Hamm bæði ofsagróða og hrun. En það sem skapaði Harold Hamm sérstöðu var mikill áhugi hans á þeirri tækni að bora lárétta brunna (þ.e. bora niður og svo langt til hliðar) - til að nálgast olíu sem víða liggur í þunnum lögum, inniklemmd í sandsteininum.

Þessi tækni gengur út það að bora hreinlega út um allt; fyrst ca. 3-4 km niður og svo aðra 3-4 km lárétt og sprengja upp þétt sandsteinslögin með efnablönduðu háþrýstivatni. Þá losnar um olíu (og gas í þeim tilvikum sem það er að finna) sem liggur í þunnum og jafnvel örþunnum lögum klemmd inni í sandsteininum og þá er unnt að dæla olíunni upp á yfirborðið. Á ensku er þessi vinnsluaðferð nefnd hydraulic fracturing eða einfaldlega frackingUm láréttu boranirnar er notað hugtakið horizontal drilling.

fracking-the-bakken-0612-de

Tæknin sem felst í fracking hefur undanfarin ár verið notuð með geysigóðum árangri við gasvinnslu suður í Texas. Í því sambandi er talað um gasið sem shale gas, en sú gasvinnsla hefur á skömmum tíma stóraukið gasframboð í Bandaríkjunum (sem hefur valdið mikilli tímabundinni lækkun á gasverði og þar með líka lækkað raforkuverð vestra).

Góður árangur í þessari gasvinnslu varð til þess að fólk fór líka að horfa til þess að nota tæknina (þ.e. fracking) í olíuvinnslu. En margir voru hikandi. Þeir sem höfðu reynt fyrir sér með fracking í olíuleit suður í Texas höfðu margir brennt sig á því að eyða geysilegum fjármunum til einskis. Hver brunnur af þessu tagi er almennt margfalt kostnaðarsamari en hefðbundnir olíubrunnar - og ef menn náðu illa að hitta á olíu var fjárhagslega höggið mikið. Enn sem komið var þótti fracking því mjög áhættusöm aðferð í olíuiðnaðinum og freistaði fjárfesta lítt.

Harold Hamm var aftur á móti sannfærður um að unnt væri að ná góðum árangri í að beita fracking í olíuvinnslu og taldi þess virði að taka áhættuna. Honum varð sérstaklega hugsað til olíu sem vitað var að lá í þunnum lögum á stóru svæði djúpt undir Norður-Dakóta. Vitað hafði verið af þessari olíu í meira en hálfa öld, en vegna þess hversu erfitt og dýrt var að nálgast hana höfðu fáir séð þetta fyrir sér sem alvöru olíulindir.

bakkenmap

Svæðið nefnist Bakken og nær ekki aðeins yfir stór svæði í N-Dakóta, heldur teygir sig líka yfir til Montana og Saskatchewan í Kanada. Sem fyrr segir var ástæða þess að ekki hafði verið farið út í neina olíuvinnslu að ráði þarna á Bakken einfaldlega sú að það svaraði ekki kostnaði. Olíuverð var alltof lágt til að réttlæta útgjöldin við að bora eftir þessari olíu.

En Hamm trúði á hækkandi olíuverð og var fullviss um að Bakken gæti boðið upp á mikil tækifæri. Sagt er að einn daginn hafi hann stokkið upp í einshreyfils-flugvélina sína í Oklahóma, lent norður í Dakóta eftir fimm tíma flug og byrjað að kaupa upp vinnsluréttindi. Þetta var um aldamótin og verðið sem Hamm greiddi þá fyrir réttindin þarna norður í Dakóta var allt að hundrað sinnum lægra en gerist í dag (um leið og olíuæðið varð lýðnum ljóst snarhækkaði auðvitað verðið á slíkum vinnslurétti). Þessi kaup voru svo umfangsmikil að farið var að kalla Hamm manninn sem keypti N-Dakóta. Enn var samt nokkuð í að olíuævintýrið á Bakken færi almennilega af stað.

Töfraorðin "Tight Oil"

Oil-drilling-explained-1

Til að greina þessa olíuvinnslu frá hefðbundnum vinnsluaðferðum er olían sem liggur í þunnum lögum inniklemmd í sandsteininum djúpt undir yfirborði jarðar nefnd tight oil. Eins og minnst var á hér að ofan, þá er vinnsluaðferðin við að ná þessari tight oil upp á yfirborðið mjög svipuð þeirri sem notuð er í shale gasvinnslunni (horizontal drilling og hydaulic fracturing). Þess vegna væri kannski freistandi að nefna þessa olíu shale oil.

En sökum þess að það heiti, þ.e. shale oil, hefur löngum verið notað yfir olíumettuð grjótlög sem finna má í geysilegu magni í Kólórado og víðar í Bandaríkjunum, hafa þunn olíulögin í sandsteininum verið nefnd tight oil. Og það er sem sagt þessi olía, ásamt shale-gasinu, sem hefur á örfáum árum komið af stað nýju olíu- og gasæði vestra.

Harold-hamm-dakota-oil-rig

Sökum þess að umrædd tækni (olíuvinnsla með fracking) borgaði sig ekki nema að olíuverð væri a.m.k. 50 USD tunnan var áhuginn á tight oil ennþá lítill (meðalverð á olíu fór í fyrsta sinn yfir 50 USD árið 2005, en árin þar á undan var verðið yfirleitt að dansa í kringum 30 USD). Einungis þeir sem reyndust framsýnir... eða heppnir... létu sér detta í hug að kaupa vinnslurétt norður á Bakken.

Ennþá var altalað að "rétt" eða eðlilegt olíuverð á heimsmarkaði væri að hámarki 30 USD tunnan eða þar um bil. En það átti heldur betur eftir að breytast - á hreint undraskömmum tíma - og nú standa menn eins og Harold Hamm með pálmann í höndunum.

Já - olíuverð fór nú hækkandi og allt í einu spruttu olíuborar upp út um allt í friðsælum sveitum N-Dakóta. Fjölmargir fátækir smábændur urðu á svipstundu sterkefnaðir þegar þeir seldu olíufyrirtækjunum vinnsluréttindi á landi sínu. Continental Resources hans Harold's Hamm var þarna í fararbroddi. En brátt streymdu fleiri fyrirtæki á svæðið og meðan Bandaríkjamenn almennt sleiktu kreppusárin upp úr 2008 mokaði fólk saman fé norður í Dakóta. Og áður en Bandaríkjamenn vissu hvaðan á það stóð veðrið var olíuframleiðsla innan Bandaríkjanna hætt að minnka. Og þess í stað tekin að skríða hægt en örugglega upp á við.

Continental-Resources-Bakken-Development-Map

Árið 2007 hafði Continental Resources tryggt sér vinnslurétt á samtals meira en 1.200 ferkm svæði í N-Dakóta (síðan þá mun fyrirtækið reyndar hafa þrefaldað það land sem leyfi þeirra ná til). Vinnsla fyrirtækisins á tight oil jókst hægt og sígandi og reyndist, ásamt nýju olíunni frá djúpinu mikla á Mexíkóflóa, verða það sem þurfti til að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum hætti að dragast saman.

Svo fór að botninum í bandarísku olíuframleiðslunni reyndist vera náð árið 2008. Það ár var svo komið að dagleg olíuframleiðsla í landinu slefaði ekki í 5 milljón tunnur (að þetta væri botninn vissu menn auðvitað ekki fyrr en talsvert eftir á). Skyndilega tók framleiðslan á ný að skríða upp á við og brátt áttuðu æ fleiri sig á tækifærunum á Bakken. Þar greip um sig ekkert minna en alvöru gamaldags olíuæði og tight oil varð á allra vörum.

"Drill, drill, drill..." 

Þó svo stutt sé síðan olíuvinnslan á Bakken komst almennilega í gang hefur hún nú þegar skilað Continental Resources miklum arði og gert Hamm vellauðugan. Í dag er kallinn metinn á um 11 milljarða USD og er, eins og áður kom fram, einn af auðugustu mönnum Bandaríkjanna.

Continental-Resources-logo

En Hamm er samt ekki sáttur. Sérstaklega hefur hann verið óánægður með afskipti alríkisstofnana af umhverfismálum tengdum vinnslu Continental Resources á tight oil þarna á Bakken (við fracking er notað efnablandað háþrýstivatn og lengi vel giltu nánast engar reglur um hvaða sulli mátti blanda í vatnið en það hefur verið að breytast). Hamm bendir á að afskipti alríkisstofnananna skapi óþarfa kostnað sem standi olíuvinnslu á Bakkensvæðinu og annars staðar í Bandaríkjunum fyrir þrifum.

Oil-rig-and-tornado

Hamm fullyrðir að þarna norður í Dakóta og nágrenni séu tugþúsundir ferkm af ósnertu landi sem hafi að geyma gríðarlegt magn af tight oil. Ævintýrið sé rétt að byrja, því Bakken hafi að geyma 20-30 milljarða tunna af vinnanlegri olíu! Segir hann Hamm.

Til samanburðar þá hefur bandaríska orkumálaráðuneytið álitið að öll vinnanleg olía sem finna má í bandarískri lögsögu sé um 25 milljarðar tunna. Og að á Bakken sé í mesta lagi að finna á bilinu 3 - 4,3 milljarða tunna af vinnanlegri olíu. Hafi Harold Hamm rétt fyrir sér er næstum því helmingi meiri olíu að finna í bandarískri lögsögu en talið hefur verið. Það munar um minna!

Bakken-Oil-Production-N-Dakota_2000-oct-2012

Hamm hamrar á því að olían á Bakken geti losað Bandaríkin undan Persaflóaveseninu og stuðlað að langþráðu orkusjálfstæði Bandaríkjanna. Þess vegna eigi alríkisstjórnin í Washington DC að einbeita sér að því að meiri vinnsla komist þarna í gang. Og að farsælasta leiðin til þess sé einfaldlega sú að allar leyfisveitingar, umhverfisstaðlar, öryggismál o.þ.h. verði í höndum fylkjanna fremur en alríkisins.

Hvaða skoðun svo sem fólk hefur á þessum málflutningi hjá Hamm, þá er óumdeilt að hann er meðal þeirra manna sem eiga hvað mestan þátt í því að allra síðustu árin hefur olíuframleiðslan í Bandaríkjunum aukist verulega. Og horfur á að þetta ár (2012) verði framleiðsluaukningin jafnvel meiri en nokkru sinni áður.

US-and-Dakota-Oil-Production1990-2011

Á Bakken er framleiðslan nú komin í um 700 þúsund tunnur á dag og hefur aukist með ótrúlegum hraða. Fyrir örfáum árum var framleiðslan þarna einungis um 100 þúsund tunnur daglega. Hún hefur sem sagt u.þ.b. sjöfaldast á örskömmum tíma og er nú t.d. orðin meiri en öll framleiðsla OPEC-ríkisins Ecuador. Það er því kannski ekki skrýtið að nýverið útnefndi fréttatímaritið Time Harold Hamm sem einn af áhrifamestu mönnum samtímans.

Það er til marks um þýðingu olíunnar í N-Dakóta að slíkur kippur vegna nýrra olíulinda hefur ekki sést í Bandaríkjunum síðan menn skelltu sér í Prudhoe Bay í Alaska á 8. áratugnum. Enda hefur olíuæðið þarna í N-Dakóta nánast á svipstundu gert fylkið að einhverju mesta uppgangssvæði innan Bandaríkjanna. Atvinnuleysi hefur snarminnkað og verð á fasteignum og ýmissi almennri þjónustu hefur rokið upp úr öllu valdi á mestu olíusvæðunum. Sagt er að mánaðarleiga fyrir hjólhýsisræfil á túnbleðli sé um 2.000 USD og að þarna vinni menn allt að 16-20 tíma í striklotu við olíuboranir. Vegna verðlagsins og húsnæðisskorts sofa margir verkamennirnir einfaldlega í bílnum sínum (sbr. t.d. þetta myndband frá einum olíuverkamanninum). 

US-Tight-oil-production-versus-oil-price_2000-2012

Þessar nýju uppspretta bandarískrar olíu hefur valdið því að dagsframleiðsla Bandaríkjanna er skyndilega komin í um 6,5 milljón tunnur. Svo há tala hefur vel að merkja ekki sést þar vestra síðan um 1998.

Og horfur eru á að á þessu ári (2012) nái olíuframleiðslan í Bandaríkjunum jafnvel að fara yfir 7 milljón tunnur pr. dag. Svoleiðis tala sást síðast árið 1992! Gangi þetta eftir verður olíuframleiðsla Bandaríkjanna farin að nálgast framleiðslu Rússa og Sádanna, sem undanfarin ár hafa yfirleitt verið að framleiða á bilinu 8-10 milljón tunnur (hvort ríki um sig). Og það er einmitt þessi staðreynd sem hefur nú vakið vonir margra Bandaríkjamanna um að þeir verði senn á ný stærsti olíuframleiðandi heimsins. En til að svo verði þarf að bora ennþá meira, ennþá hraðar og ennþá víðar. Drill, drill, drill!

Barið á Obama 

Í kosningabaráttunni um bandaríska forsetaembættið nú í haust sem leið (2012) var Hamm óþreytandi við að gagnrýna styrkveitingar bandarískra stjórnvalda til endurnýjanlegrar orku. Og dásama möguleika Bandaríkjanna til að stórauka framleiðslu á olíu og gasi. Þar væri lykilatrið að alríkisstjórnin myndi hætta öllu þessu mengunarvarnastússi og afhenda fylkjunum yfirráðin og umsjón með olíuborunum á landi í eigu alríkisins (Federal Lands).

Obama-oil-rig

Alríkisstjórnin í Washington DC hefur nefnilega verið treg til að leyfa nýjar olíuboranir á alríkislandi. Þess í stað hefur Obamastjórnin lagt meiri áherslu á að styðja við tækniþróun og fjárfestingar í græna orkugeiranum.

Hamm og félagar telja aftur á móti að Bandaríkjamönnum sé afar mikilvægt að auka eigin olíuframleiðslu. Og að besta leiðin til þess sé að hefja umfangsmiklar boranir á landi í eigu alríkisins. Það muni ekki aðeins gera Bandaríkin sterkari gagnvart umheiminum, heldur skapa mikinn fjölda starfa og góðan efnahagsuppgang í landinu.

Hamm hefur nokkuð til síns máls. Með því að leyfa meiri olíuboranir á alríkislandi og líka bora bæði utan við austur- og vesturstrendur Bandaríkjanna myndi olíuframleiðsla Bandaríkjanna vafalítið aukast verulega. Á móti koma sjónarmið um mengunarvarnir, verndun lífríkisins, verndun vatnsbóla, neikvæð áhrif olíunotkunar á loftslag o.s.frv. 

US-Oil-Production-Bush-Obama_2001-2011

Sótsvartur olíubransinn er óþreytandi við að hamra á því hversu endurnýjanleg orka sé dýr og óhagkvæm. En passa sig þá líka vandlega á að skauta framhjá þeim beina og óbeina umhverfis- og heilsufarskostnaði sem fylgir notkun jarðefnaeldsneytis. 

Obama hefur viljað fara varlega í sakirnar og ekki gera stórar breytingar m.t.t. aðgengis að nýjum olíusvæðum. En það er reyndar svo að þrátt fyrir varkárni Obama hefur olíuvinnsla innan Bandaríkjanna aukist umtalsvert í hans forsetatíð. Það er því varla sanngjarnt að segja að stefna Obama-stjórnarinnar sé eitthvað ægilega óhagstæð bandaríska olíuiðnaðinum. Bransinn virðist bara pluma sig prýðilega. En auðvitað vill mikið alltaf meira.

Útspil IEA 

Olíuframleiðsla í Bandaríkjunum virðist sem sagt á traustri uppleið. Og nú er svo komið að farið er að tala um að eftir örfá ár verði Bandaríkin orðin hvorki meira né minna en mesti olíuframleiðandi heimsins! Verði stærri en Rússland og stærri en Saudi Arabía, en þessi tvö ríki hafa undanfarin ár verið að framleiða á bilinu 8-10 milljónir tunna daglega (sem er óneitanlega talsvert frá þeim 6,5 milljón tunnum sem framleiðslan í Bandaríkjunum er í dag).

IEA-US-Oil-Production-IEA-forecast_2011-2012

Slíka framtíðarsýn, um að Bandaríkin taki brátt forystuna í olíuframleiðslu heimsins, er einmitt að finna í glænýrri árlegri orkuspá Alþjóða orkumálastofnunarinnar (International Energy Agency; IEA). Þessi ágæta stofnun er reyndar alls ekki alþjóðleg, heldur samstarfsvettvangur ríkjanna í OECD. Alls eiga 28 af OECD-ríkjunum 34 aðild að IEA og Ísland er eitt af þeim sex ríkjum sem ekki eru aðilar að IEA. 

Í þessari nýjustu orkuspá IEA (World Energy Outlook 2012; WEO) urðu þau tíðindi að IEA er allt í einu komið á þá skoðun að vegna tight oil muni olíuframleiðsla í Bandaríkjunum æða upp á við á næstu árum. Og eftir einungis tæpan áratug verði olíuframleiðsla í Bandaríkjunum orðin meiri en í Rússlandi og meiri en í Saudi Arabíu!

IEA-WEO-2012_cover

IEA álítur sem sagt að innan örfárra ára verði olíuframleiðsla Bandaríkjamanna orðin meira en 10 milljón tunnur á dag. Og áður en árið 2020 renni upp verði hún orðin um 11 milljón tunnur. Gangi þetta eftir myndi olíuframleiðsla Bandaríkjanna ekki aðeins hafa tvöfaldast á innan við áratug, heldur jafnvel ná að slá gamla metið frá 1970.

IEA bendir á að þetta muni ekki aðeins hafa geysilega jákvæð áhrif á Bandarískt efnahagslíf heldur valda því að Bandaríkin muni nánast hætta að flytja inn olíu frá Saudi Aabíu og Mið-Austurlöndum (Bandaríkjunum muni nægja að flytja inn smáræði frá Mexíkó og svo auðvitað frá Kanada). Þetta muni valda því að olíuútflutningur Sádanna og nágranna þeirra til Kína stóraukist og áhrifin á þróun olíumarkaða og alþjóðastjórnmálin verði mikil.

Orðrétt segir IEA (leturbreyting er Orkubloggsins):

"The recent rebound in US oil and gas production, driven by upstream technologies that are unlocking light tight oil and shale gas resources, is spurring economic activity - with less expensive gas and electricity prices giving industry a competitive edge - and steadily changing the role of North America in global energy trade. By around 2020, the United States is projected to become the largest global oil producer".

IEA-fatih-birol-4

Og það er ekki nóg með að IEA spái því að Bandaríkin verði brátt stærsti olíuframleiðandi heimsins. Því í WEO 2012 bætir IEA því við að árið 2030 muni N-Ameríka framleiða meiri olíu en nemur eigin neyslu. Og árið 2035 verði Bandaríkin orðin orkusjálfstæð (framleiði meiri orku en sem nemur eigin notkun):

"The result is a continued fall in US oil imports, to the extent that North America becomes a net oil exporter around 2030. This accelerates the switch in direction of international oil trade towards Asia, putting a focus on the security of the strategic routes that bring Middle East oil to Asian markets. The United States, which currently imports around 20% of its total energy needs, becomes all but self-sufficient in net terms - a dramatic reversal of the trend seen in most other energy- importing countries."

US-Oil-Tight-Production_2000-2012

Þetta yrðu talsverð tíðindi. En fæst þetta staðist? Vissulega er framleiðsluaukningin í vinnslu á bandarískri tight oil mjög impressive. Sbr. grafið hér til hliðar, sem sýnir hvernig Bakken og nú síðast Eagle Ford svæðið í Texas eru nýjar og geysilegar olíuuppsprettur. En er raunhæft að þessi vöxtur geti haldið svona hratt áfram? Eru í alvöru miklar líkur á því að framleiðsla á tight oil í Bandaríkjum eigi eftir að aukast um nokkur hundruð prósent á einungis örfáum árum?

US-Oil-Production_1981-2012

Margir hafa gripið umrædda spá IEA á lofti og fagnað henni nánast sem gefnum hlut. Aðrir eru fullir efasemdar og segja að þetta sé ekki raunsætt hjá IEA. Og minna á að til að þetta geti gengið eftir þurfi langtum meiri og áhættusamari fjárfestingu en raunhæft sé.

Það er líka forvitnilegt að líta til fortíðarinnar. Þá kemur í ljós að þó svo framleiðsla á tight oil hafi vissulega aukist mjög á stuttum tíma, þá er ennþá langt í að hún jafnist á við Alaskaolíuna eða djúpið á Mexíkóflóanum (þetta sést vel á grafinu hér til hliðar).

Til að umrædd spá IEA rætist þarf olíuframleiðslan að aukast um 3-4 milljónir tunna í viðbót innan einungis nokkurra ára. Mest af þessari aukningu myndi koma frá svæðum eins og Bakken í N-Dakóta og Eagle Ford í Texas (sbr. rauði og guli liturinn á grafinu). Þegar litið er til olíusögu Bandaríkjanna yrði þetta hreint ótrúlega mikil aukning og t.d. miklu meira en aukningin sem Alaskaolían skilaði.

US-Saudi-Araba-Oil-IEA-forecast_1973-2012-2035

Eitt atriði enn er líka vert að hafa í huga - áður en maður byrjar að fagna því að Bandaríkin verði brátt nær laus undan innfluttri olíu: Það er nefnilega svo að í umræddri spá IEA er ekki bara að finna bjartsýni um hratt vaxandi olíuframleiðslu. Þar kemur nefnilega líka fram að stofnunin telur að Bandaríkin verði einungis stærsti olíuframleiðandi heims í örfá ár. Strax í kringum 2025 muni olíuframleiðslan í Bandaríkjunum aftur síga niður á við og Sádarnir (og jafnvel Rússar líka) taka forystuna á ný.

Loks er rétt að geta þess að bandaríska orkumálaráðuneytið er ekki jafn bjartsýnt eins og IEA. Hjá upplýsingaskrifstofu ráðuneytisins (EIA) álítur starfsfólkið ekki líklegt að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum aukist svo mikið eins og IEA heldur fram.

US-Oil-Production_1990-2040-2011

Í nýjustu spá EIA er vissulega að finna tölur um að olíuframleiðsla í Bandaríkjunum muni aukast verulega á næstu árum. En ekki nærri eins mikið eins og birtist í spá IEA. Samkvæmt spá EIA mun olíuframleiðsla Bandaríkjanna ekki einu sinni ná 8 milljónum tunnum áður en fjara fer undan framleiðslu á tight oil. Þessi varfærni EIA helgast m.a. af því að reynslan hefur sýnt að hver einasta olíulind með tight oil hefur reynst nokkuð fljót að tæmast. Því þarf aukningin á borholum að verða mjög hröð ef unnt á að vera að viðhalda uppganginum í þessum tight oil iðnaði. Brunnar sem skila framleiðslu þurfa ekki aðeins að vera nokkur þúsund, eins og nú er á Bakken, heldur verða tugþúsundir.

Svo mikil og hröð aukning á nýjum og árangursríkum borholum, þar sem fracking er beitt, er vart möguleg nema með geysilegri fjárfestingu - og nánast afnámi stjórnsýslunnar og leyfisferlinu í kringum olíuleitina. Þar að auki eru, að mati EIA, ekki ennþá fyrir hendi gögn sem sýna að magnið af vinnanlegri tight oil sé neitt í líkingu við það sem t.d. Harold Hamm heldur fram. Fullyrðingar Hamm virðist sem sagt byggja meira óskhyggju en vísindum.

Mannkynið er olíufíkill

Já; menn sjá framtíðna misjöfnum augum. Enda er það svo að "prediction is difficult, especially about the future." Og hvort sem það var danski eðlisfræðingurinn Níels Bohr, bandaríski hafnaboltasnillingurinn Yogi Berra, Albert Einstein eða bara Jógi björn sem mælti fyrstur þessi fleygu orð, þá er ennþá ótímabært að lofa Bandaríkjamönnum því að þeir verði senn á ný stærsti olíuframleiðandi heims. Og jafnvel þó svo fari, yrði það að öllum líkindum einungis í mjög stuttan tíma.

Oil-addicts-US-China-August-2005

Svo blasir líka við að aukin olíuframleiðsla í Bandaríkjunum mun hvorki hafa góð áhrif á græna orkugeirann né leiða til minni kolefnislosunar. Þvert á móti er þessi þróun, ásamt ofurbjartsýnum spám um nýjar olíulindir, til þess fallin að tefja enn frekar fyrir takmörkunum á kolefnislosun.

Hætt er við að nýjar olíulindir muni valda því að Bandaríkjamenn freistist til að slá því enn frekar á frest að horfast í augu við orkuvanda framtíðarinnar og þá loftslagsvá sem vísbendingar eru um að uppi sé. En athafnaleysi Bandaríkjanna á þessu svið skiptir kannski ekki öllu máli. Því það er orðið nokkuð augljóst að leiðtogar heimsins almennt hafa lítinn áhuga á að sporna af alvöru gegn notkun jarðefnaeldsneytis. Við erum í reynd öll olíufíklar.


Konungur Kaspíahafsins

Eurovision-2012-Baku-SOCAR-logo

Allt orkuáhugafólk sem horfði á Eurovosion-útsendinguna frá Bakú fyrr á þessu ári ætti að muna eftir lógóinu sem þar birtist í lokin. SOCAR!

SOCAR stendur fyrir State Oil Company of Azerbaijan Republic.Þarna er sem sagt á ferðinni ríkisolíufyrirtækið í Azerbaijan. Á frummálinu kallast félagið reyndar Azerbaycan Respublikasi Dövlat Neft Sirkati. En þetta ríkisrekna og hratt vaxandi olíufélag er hvarvetna þekkt undir heitinu og vörumerkinu SOCAR.  

SOCAR er um margt merkilegt félag. Það á dýpri og sögulegri rætur en flest önnur olífélög heimsins. Uppruna SOCAR er nefnilega að finna í olíufélögunum sem unnu olíuna við Bakú í upphafi 20. aldar. Þar voru tvö olíufélög stærst; annars vegar Shell í samkrulli með Rothschild-fjölskyldunni og hins vegar Branobel sem var að mestu í eigu Nóbel-fjölskyldunnar.

Baku-oil-fields-burning

Þegar bolsévíkkarnir náðu völdum í Bakú um og upp úr 1920 var allur olíuiðnaðurinn í Azerbaijan þjóðnýttur í nafni Sovétríkjanna og utan um herlegheitin var stofnað sovéska ríkisfyrirtækið Azerneft. Olíuiðnaðurinn í Azerbaijan hafði verið gríðarlega umsvifamikill og með yfirburðarstöðu á olíumörkuðunum í Evrópu. En í kommúnistabyltingunni var kveikt í flestum olíulindunum og olíuvinnslan við Bakú var áratugi að ná sér aftur á strik. Eftir ríkisvæðinguna lagðist olíuútflutningurinn frá Azerbaijan til Evrópu af og olían þaðan var eingöngu nýtt innan Sovétríkjanna.

Eftir því sem nýjar olíulindir fundust í Rússlandi (einkum í nágrenni Úralfjallanna) upp úr síðari heimsstyrjöldinni minnkaði áherslan á azerska olíuiðnaðinn. Þar að auki fóru olíulindirnar við Bakú nú mjög hnignandi. En það sem menn vissu ekki þá, var að undir botni hins furðulega landlukta Kaspíahafs, utan við Bakú, var að finna gríðarlegar olíu- og gaslindir. Og það eru þær lindir sem hafa gert hið nýlega sjálfstæða Azerbaijan að sannkölluðu olíuveldi. Og nú síðast að gasveldi.

Þegar Sovétríkin liðu undir lok upp úr 1990 hófst hröð einkavæðing rússneskra olíufyrirtækja. Stjórnendur hins nýsjálfstæða Azerbaijans héldu aftur á móti föstu taki um olíufyrirtækið Azerneft og annan ríkisrekstur í azerska olíuiðnaðinum.

Azerbaijan-heydar-aliyev-1

Ástandið í Bakú var reyndar afar ótryggt fyrstu árin eftir nýfengið sjálfstæðið og mikil ólga var í landinu; pólítísk átök og blóðugir bardagar. En á endanum var það gamall leiðtogi azerska kommúnistaflokksins, Heydar Aliyev, sem var kjörinn forseti landsins (1993). Fyrir tilstuðlan hans voru öll helstu orku- og gasfyrirtæki landsins (þ.á m. Azerneft) sameinuð í eitt risastórt ríkisfyrirtæki. Sem fékk nafnið Azerbaycan Respublikasi Dövlat Neft Sirkati og ensku skammstöfunina SOCAR.

Já - þannig varð SOCAR til. Og brátt var maður að nafni Ilham Aliyev orðinn aðstoðarforstjóri þessa mikilvæga ríkisorkufyrirtækis í Azerbaijan. Sá var einmitt - og er - sonur forsetans þáverandi; Heydar's Aliyev.

Azerbaijan-ilham-Mehriban Aliyeva

Ilham Aliyev gegndi stöðu aðstoðarforstjóra SOCAR í nær áratug eða allt þar til faðir hans lést árið 2003. Í forsetakosningunum sem þá fylgdu í kjölfarið var svo umræddur Ilham Aliyev kjörinn forseti landsins. Það eru því augljóslega sterk tengsl milli ríkisfyrirtækisins SOCAR og æðstu ráðamanna í Bakú og sömuleiðis að Aliyev-fjölskyldan hefur þarna afar öfluga stöðu.

Í dag er SOCAR sannkallað risafyrirtæki með meira en 60 þúsund starfsmenn og ársveltu upp á tugi milljarða dollara. Nákvæmar tölur liggja þó ekki fyrir, enda um að ræða ríkisfyrirtæki sem starfar í stórnmála- og viðskiptaumhverfi sem er nokkuð ólíkt því sem við eigum að venjast hér í norðri. Eitt er þó vist; SOCAR er geysilega umsvifamikið í efnahagslífi Azerbaijans og langmikilvægasta útflutningsfyrirtæki landsins.

Socar-Tower-Baku-night

Hátt olíuverð síðustu ár hefur skapað SOCAR miklar tekjur. Hluta af þeim auði er nú verið að nota í nýjar aðalstöðvar fyrirtækisins í Bakú. Þar mun brátt rísa gríðarlegur skrifstofuturn, sem fullkláraður mun teygja sig um 200 m yfir gömlu glæsibyggingarnar í borginni, líkt og risastór gaslogi.

Þetta verður ekki aðeins hæsta byggingin í Bakú, heldur í Kákasusríkjunum öllum. Þetta eru þó hreinir smámunir, því senn stendur til að byrja að reisa hæsta skýjakljúf heims þarna í nágrenninu. Sá er kallaður Azerbaijan Tower og verður eitt helsta táknið í nýrri milljón manna borg sem byggja á rétt suður af Bakú. Turninn sá verður um 190 hæðir, 1.050 m hár og kostnaðurinn er sagður verða um 2 milljarðar USD. Þar á líka að vera ný formúlu-1 braut og ýmislegt fleira, sem stórhuga Azerarnir eru nú að skipuleggja.

Azerbaijan-Oil-Contract-of-the-Century-signed-Azeri-Chirag-Guneshli-Caspian-Fields

Bakú er sem sagt borgin þar sem allt er að gerast. Og þar að baki stendur olíu- og gasgróðinn sem streymir um æðar SOCAR.

Hér í Vestrinu er SOCAR líklega þekktast fyrir að hafa verið lykilaðilinn í frægum samningi við nokkur vestræn olíufyrirtæki árið 1994. Samningurinn sá var um nýja olíuvinnslu djúpt úti á Kaspíahafi og var nefndur því hógværa nafni Samningur aldarinnar. Nafnið kom til af því að samtals hljóðaði fjárfestingin upp á um 13 milljarða USD. Á þeim tíma var þetta einhver allra stærsti olíuvinnslusamningur í heiminum. Erlendu félögin sem átti aðild að þessum risasamningi voru m.a. breska BP og bandaríska ExxonMobil (þá Exxon). Þar með voru vestræn olíufélög á ný komin í olíuna við Bakú - eftir um 75 ára bið!

BTC-pipeline-map

Með Samningi aldarinnar jókst mjög skriðurinn á olíuframleiðslunni í Azerbaijan og brátt tóku peningarnir að flæða um Bakú. En það var ekki bara nóg að framleiða; það þurfti líka að finna ráð til að koma þessari nýju olíu á markað. Lega Azerbaijan olli því að olíuskip geta ekki með góðu móti siglt með herlegheitin á markað og einu umtalsverðu olíuleðslurnar lágu til Rússlands. Því var gripið til þess ráðs að leggja nýja og gríðarlega langa olíuleiðslu allt vestur til Miðjarðarhafsins; Baku-Tibilisi-Ceyhan olíuleiðsluna eða BTC.

BTC-olíuleiðslan teygir sig rétt tæplega 1.800 km leið alla leið frá olíulindunum úti í lögsögu Azerbaijans í Kaspíahafinu, þvert austur yfir Azerbaijan, yfir fjalllendið til nágrannaríkisins Georgíu og loks gegnum Tyrkland og allt austur til tyrknesku hafnarborgarinnar Ceyhan við Miðjarðarhaf. Þaðan sigla svo tankskip í stríðum straumi með olíuna austur Miðjarðarhaf og til markaða á Vesturlöndum.

BTC-pipeline-construction

BTC-olíuleiðslan var sannkölluð tímamótaframkvæmd. Þetta er næstlengsta olíuleiðsla í heimi, hún kostaði heila 3 milljarða USD og getur flutt meira en milljón tunnur af olíu á dag. Síðan BTC-leiðslan opnaði árið 2006 hefur hún ekki aðeins verið afar mikilvæg fyrir tekjustreymi SOCAR, heldur er BTC einnig þokkalegasta tekjulind fyrir Georgíu og Tyrkland (sem fá greiðslur fyrir að leyfa að olíuleiðslan fari um þau lönd).

Fyrstu 15 árin hjá hinu nýsjálfstæða Azerbaijan var olían sem sagt mál málanna. En nú er annað sannkallað risaverkefni framundan í Azerbaijan. Sem er uppbygging á umfangsmikilli gasvinnslu og stóraukning í gasútflutningi.

Umrætt gasverkefni er ekki aðeins mikið áhugamál SOCAR og azerskra stjórnvalda, heldur líka eitt metnaðarfyllsta orkuverkefnið sem yfirstjórn Evrópusambandsins hefur horft til síðustu árin. Vandamálið er bara það að stjórnvöld hjá ESB í Brussel stunda hvorki gasvinnslu né leggja gasleiðslur - og allra síst austur til Mið-Asíu. Til þess þarf orkuiðnaðinn sjálfan. Og þar er ekki einungis um að ræða mögulega aðkomu evrópskra eða annarra vestrænna orkufyrirtækja. Því bæði rússnesk og kínversk ríkisfyrirtæki hafa líka mikinn áhuga á að tryggja sér aðgang að azerska gasinu úr iðrum Kaspíahafsins.

AZERBAIJAN-Shah-Deniz-Alpha-gas-production-platform-1

Gaslindirnar sem þarna er horft til liggja djúpt undir hafsbotninum utan við Kaspíahafsströnd Azerbaijan, um 70 km suðaustur af Bakú. Þarna er hafdýpið allt frá skitnum 50 m, en dýpsti hluti svæðisins er um 600 m. Svæðið hefur verið kallað því áhrifaríka nafni Konungur hafsins eða Shah Deniz á máli innfæddra.

Byrjað var að byggja upp gasvinnslu á svæðinu kennt við Shah Deniz um miðjan tíunda áratug liðinnar aldar og fyrsta áfanganum þar var lokið árið 2006. Gasframleiðslan þarna nemur nú um 8-9 þúsund milljöðrum rúmmetra á ári. Þetta gas fer að mestu til Tyrklands, eftir gasleiðslu sem byggð var samhliða fyrsta spottanum á BTC-olíuleiðslunni. Gasleiðslan sú nefnist á ensku South Caucasus Pipeline og er rekin af BP, en við landamæri Georgíu og Tyrklands tengist hún tyrkneska gasdreifingarkerfinu.

Azerbaijan-Shah Deniz-development

Eftir meiri rannsóknir kom í ljós að Shah Deniz hefur að geyma miklu meira gas en áður hafði verið talið. Það var breski risinn BP sem sannreyndi ennþá stærri gaslindir á svæðinu og þær hafa einfaldlega verið nefndar Shah Deniz II. Og það er þetta gas sem Evrópusambandinu er umhugað að berist þar inn á borð, fremur en að það fari t.d. til Rússlands eða jafnvel til Kína.

Talið er að gaslindirnar kenndar við Shah Deniz II geri það að verkum að samanlögð framleiðsla á Shah Deniz muni á fáeinum árum þrefaldast; fari úr núverandi 8-9 milljörðum rúmmetra árlega og í ca. 25 milljarða rúmmetra. Og samtals er Shah Deniz talið hafa að geyma um 1.200 milljarðar rúmmetra af vinnanlegu gasi.

Þarna úti á Kaspíhafinu hafi menn sem sagt fundið gaslind sem flokkast sem ein af þeim tíu stærstu í veröldinni! Til samanburðar má nefna að þetta eina vinnslusvæði virðist hafa að geyma vinnanlegt gas sem nemur um helmingi allra gasbirgða í norsku lögsögunni (þ.e. í Norðursjó, Noregshafi OG Barentshafi). Það er talsvert!

EIA-Azerbaijan-Natiral-Gas-Production-and-Consumption-2010

Með öllu öðru gasi í lögsögu Azerbaijan er landið skyndilega komið í hóp þeirra ríkja sem hafa hvað mestar sannreyndar birgðir af gasi í jörðu. Þetta eru talsverðar fréttir og mun væntanlega koma SOCAR afar vel þegar gasið fer að streyma á markað. Kannski ekki síst í því ljósi að útlit er fyrir að olíuframleiðsla í Azerbaijan hafi þegar náð hámarki. Í sama mund og það gerðist, er Azerbaijan að verða meiriháttar gasframleiðandi.

Fjárfestingin í sjálfri vinnslunni á Shah Deniz II er áætluð litlir 15-20 milljarðar USD. Auk SOCAR og BP samanstendur hluthafahópurinn á Shah Deniz af rússneska Lukoil, íranska ríkisorkufyrirtækinu NICO, norska Statoil, franska Total og tyrkneska TPAO. BP og Statoil eru stærstu hluthafarnir með 51% hlutafjár og bera hitann og þungann af því að koma vinnslunni af stað og sjá til þess að gasið berist á áfangastað.

En það hefur dregist að koma framkvæmdum á fullt þarna á Shah Deniz II. Ástæða þess er ekki vandræði gagnvart því hvernig vinna eigi gasið, heldur það hversu illa hefur gengið að ákveða hvernig koma eigi öllu þessu gasi á áfangastað til kaupenda.

 Azerbaijan-Shah-Deniz-pipeline-options-map

Í nokkur ár hafa menn velkst með þá risatstóru spurningu hvert allt þetta gas eigi að streyma? Það hefur gengið hreint afleitlega að ljúka þessum þætti málsins. Þarna blandast hagsmunir olíufyrirtækjanna saman við pólítíska hagsmuni nokkurra helstu risavelda heimsins.

Það eru einkum Evrópusambandið og Rússland sem þarna hafa tekist á. Inn í þá umræðu hefur blandast viðkvæmt pólítískt ástand á Kákasussvæðinu. Loks hefur Kína staðið á hliðarlínunni. Kínversk stjórnvöld og kínversk orkufyrirtæki hafa í æ ríkari mæli sýnt azerska gasinu áhuga og vilja koma að lagningu gasleiðslu þvert eftir botni Kaspíahafsins. Þar með yrði unnt að flytja gas í miklu magna alla leið frá Azerbaijan og austur til Kína, en Kínverjar hafa nú þegar lagt gasleiðslur til gasríkjanna við austanvert Kaspíahaf.

Nabucco-gas-pipeline-route-map

Evrópusambandið hefur í mörg ár stutt dyggilega við það að byggð verði stór og mikil gasleiðsla sem tengi Evrópu við gaslindirnar í Azerbaijan. Gasleiðslan sem Evrópusambandið hefur lagt áherslu á að komi til með að rísa, hefur haft vinnuheitið Nabucco. Hún á að geta tekið við öllu gasinu frá nýju gaslindum Azera á Konungi hafsins og líka gasi frá nágrannasvæðum Azerbaijan. Til framtíðar er þar bæði horft til gass frá Íran og Írak og jafnvel líka frá löndunum austan Kaspíahafsins (einkum Túrkmenistan).

Europe-Russia-Natural-Gas-Dependency

Aðalhugsunin að baki Nabucco er fjölbreyttari birgjahópur, þ.e. að losa um gashramm Rússa á Evrópu. Í dag kemur um þriðjungur af gasinnflutningi ESB-ríkjanna frá Rússlandi og mörg Evrópuríkjanna fá meira en 80% af öllu sínu gasi frá Rússlandi. Innan ESB álíta margir stjornmálamenn það vera lykilatriði í orkustefnu sambandsins og aðildarríkjanna að minnka þetta vægi Rússa og fá aðgang að gasi frá fleiri ríkjum.

Sjálfir hafa Rússarnir í Kreml lagt sig eftir því að gasið frá Shah Deniz fari ekki beinustu leið vestur um Georgíu og Tyrkland og til ESB, heldur verði gasinu fyrst beint til Rússlands. Þá myndi leiðsla milli Azerbaijan og Evrópu ekki fara suður fyrir Svartahaf, heldur þar norður fyrir og inn á rússneskt landsvæði og loks þaðan vestur til Evrópu um gaslagnir rússneska gasfyrirtækisins Gazprom (sem rússnesk stjórnvöld ráða). Strategískt séð myndi þetta gefa Kremlarverjum tækifæri til að hafa áhrif á gasflæðið frá Azerbaijan. Að auki myndi rússneska ríkið taka gjald fyrir gasflutninginn frá Azerbaijan til ESB í gegnum rússneskt landsvæði og þannig fá þægilegar aukatekjur af gasinu.

Gas-Pipelins-Central-Asia-Map

Samkeppnin um aðgang að orkuauðlindum framtíðarinnar er hörð. Sem fyrr segir eru það ekki bara Rússar og ESB sem horfa til azerska gassins. Undanfarin ár hafa Kínverjar lagt stórar leiðslur sem flytja gas til Kína frá gaslindum í Túrkmenistan, Úzbekistan og Kazakhstan. Í dag er því staðan sú að einungis vantar neðansjávarleiðslu þvert eftir botni Kaspíahafsins til að tengja Kína við gasið frá Azerbaijan - og sú leiðsla er alls enginn vísindaskáldskapur heldur raunhæfur möguleiki innan nokkurra ára.

Fyrir um tveimur árum eða svo benti margt til þess að Nabucco myndi rísa. Hún skyldi byggð gegnum Tyrkland og liggja eftir Búlgaríu, Rúmeníu, Ungverjalandi og loks tengjast gasdreifikerfi Mið-Evrópu við Baumgarten í Austurríki. Þar með yrði tryggður aðgangur Evrópu að hinum nýju gaslindum Azera og ýmsum öðrum gaslindum í nágrenni Kaspíahafsins - og þá jafnvel lögð framlenging suður á bóginn til gasvinnslusvæði innan Íran og Írak.

Natural-Gas-Pipeline-photo

Vandamálið var bara að hugmyndin um Nabucco er sennilega full metnaðarfullt fyrir nútímann. Nabucco á að vera geyistór og geysilega dýr. Flutningsgetan sem miðað hefur verið við eru rúmlega 30 milljarðar rúmmetra af gasi árlega. Það er miklu meira magn en Azerbaijan gæti boðið Evrópu. Þess vegna myndi líka þurfa að fá sem fyrst tengingu t.d. til Íran eða Írak. Það er að öllum líkindum algerlega óraunsætt enn um sinn.

Fyrst og fremst hefur þó fjarað undan Nabucco vegna gríðarlegs kostnaðar (leiðslan myndi sennilega kosta um 15 milljarða USD) og minnkandi áhuga hluthafanna í verkefninu. Þýski orkurisinn RWE gegndi þungavigtarhlutverki sem fjárfestir í Nabucco, en fyrirtækið fékk þungt högg þegar þýsk stjórnvöld fyrirskipuðu lokun allra kjarnorkuvera í Þýskalandi. Fyrir vikið virðast líkurnar á að Nabucco rísi hafa minnkað talsvert í kjölfar umræddrar ákvöðrunar þýskra stjórnvalda um lokun kjarnorkuveranna í Þýskalandi.

Nabucco-leiðslan virðist sem sagt vera komin útí kuldann. Það þýðir ekki að áhugi hafa dofnað á azerska gasinu. Þvert á móti. Fjölmörg evrópsk orkufyrirtæki hafa slegist um að ná til azerska gassins með sínum eigin hugmyndum um gasleiðslur. Þar hafa einkum þrjár hugmyndir verið á teikniborðinu:

TANAP-signature

Tyrknesk stjórnvöld hafa reynt að tryggja sína hagsmuni með því að leita eftir samningum við Azerana hjá SOCAR um að leggja sérstaka leiðslu gegnum Tyrkland, sem svo gæti tengst evrópskri gasleiðslu. Þessi tyrkneska leiðsla hefur verið nefnd TANAP, sem stendur fyrir Trans-Anatolian Gas Pipeline. Samningaviðræður þarna á milli hafa gengið vel upp á síðkastið og nú er allt útlit fyrir að þetta verkefni verði að raunveruleika. En það þarf meira til að koma gasi til Evrópu.

TAP er önnur hugmynd, en sú skammstöfun stendur fyrir Trans-Adriatic Pipeline. Hún myndi liggja til Ítalíu og fara gegnum Tyrkland, Búlgaríu, Makedóníu og Albaníu. Helstu hluthafarnir að baki TAP eru þýska EOn, norska Statoil og svissneskt orkufyrirtæki.

BP hefur aftur á móti talið heppilegast að leggja leiðslu til Baumgarten, en álítur að Nabucco sé of stór. Þess vegna hefur BP kynnt hugmynd að minni leiðslu sem kölluð er SEEP. Sú skammstöfun stendur fyrir South East Europe Pipeline.

Nabucco-West-Pipeline-Map

Allra síðasta vendingin er svo hugmynd sem virðist ætla að sameina sjónarmið margra og jafnvel flestra hagsmunaaðila og hefur verið nefnd Nabucco West. Þar er um að ræða e.k. miniútgáfa af hugmyndinni um Nabucco (með endastöð í Baumgarten), sem muni tengjast áðurnefndri TANAP.

Bæði BP og Statoil virðast styðja hugmyndina um Nabucco West, svo og hluthafarnir í Nabucco (nokkur stór þýsk orkufyrirtæki eru m.a. í þeim hópi). Og bæði SOCAR og Tyrkirnir virðast sáttir við framsetninguna (því TANAP er hluti af lausninni). Að auki hefur framkvæmdastjórn ESB fagnað þessari nýjustu hugmynd.

Turkmenistan-China-Gas-Pipeline-Deal

Ennþó er þó margt á huldu um þetta útspil. Hugmyndin virðist gera ráð fyrir því að flutningsgeta Nabucco West verði einungis um þriðjungur af því sem hin upprunalega Nabucco átti að vera (þ.e. um 10 milljarðar rúmmetra á ári í stað rúmlega 30 milljarða rúmmetra). Það er vissulega meira í takt við raunverulega framleiðslu á Shah Deniz II. En það er líka nokkuð  augljóst að hjá ESB telja menn afar mikilvægt að sem fyrst verði einnig ráðist í uppbyggingu á gasleiðslu þvert yfir Kaspíahafið, milli Azerbaijan og Túrkmenistan. Nabucco West er því kannski í reynd bara niðurstaða sem ESB fagnar til þess eins að koma einhverjum leiðsluframkvæmdum af stað í átt til Azerbaijan.

EU-Iran-Natural-Gas

Gasævintýrið í Mið-Asíu er bara rétt að byrja. Þar mun Konungur Kaspíahafsins leika stórt hlutverk. En brátt kemur að því að Evrópa mun einnig huga að tengingum við lönd austan og sunnan Kaspíahafsins og leita eftir gasviðskiptum við einræðisstjórnirnar í Túrkmenistan og Íran. Hvort þetta eru eftirsóknarverðir viðskiptafélagar fyrir Evrópu er svo önnur saga.


Vronský greifi endurborinn?

Anna-Karenina-3

Ekkert jafnast á við rússneska dramatík.

Fyrir einungis fáeinum árum var rússneska ríkisolíufélagið Rosneft bara lítið peð meðal einkavæddu rússnesku risanna. En fljótlega eftir að Vladimir Pútín varð forseti Rússlands um aldamótin snéru rússnesk stjórnvöld snarlega við blaðinu.

Í stað hraðrar einkavæðingar á rússnesku (sovésku) orkufyrirtækjunum hóf rússneska ríkið að ná aftur undir sig helstu olíufyrirtækjum landsins. Þar er um geysilega hagsmuni að ræða, því Rússland er ásamt Saudi Arabíu stærsti olíuframleiðandi heimsins.

Ofsavöxtur Rosneft

Fyrsta stóra skrefið í endurheimt rússneska ríkisins á yfirráðum í olíuiðnaði landsins var yfirtaka á olíurisanum Yukos árið 2003 (upp í meintar skattaskuldir og sektir). Helstu eignir Yukos voru í framhaldinu seldar til lítt þekkts fyrirtækis, Baikal Finance Group, sem seldi þær brátt áfram til ríkisfyrirtækisins Rosneft. Allt gerðist þetta með nokkuð sérkennilegum hætti. A.m.k. þótti sumum málið einkennast af mikilli spillingu.

En hvað sem slíkum ásökunum líður, þá varð niðurstaðan sú að skyndilega var Rosneft orðið stærsta olíufélagið í Rússlandi. Í framhaldinu var félagið svo skráð á markað í kauphöllunum í Moskvu og London. Rússneska ríkið hefur engu að síður haldið traustum meirihluta í félaginu í sínum höndum. Yukos fór í gjaldþrot og var endanlega afskráð árið 2007.

Abramovich-Putin

Skömmu eftir að rússneska ríkisvaldið réðst til atlögu gegn Yukos sá auðkýfingurinn Roman Abramovich sitt óvænna og féllst á kauptilboð frá rússneska ríkisolíufélaginu Gazprom Neft í Sibneft. Á þessum tíma var Sibneft fimmta stærsta olíufélag Rússlands. Þar kom það næst á eftir Rosneft, Lukoil, TNK-BP og félaginu dularfulla Surgutneftegas (stærstu hluthafar síðastnefnda felagsins eru óþekktir og það jafnvel þó það sé skráð í rússnesku kauphöllinni!).

Með kaupum Gazprom Neft á Sibneft styrkti rússneska ríkið enn betur stöðu sína í rússnesku olíuframleiðslunni. Ennþá voru þó bæði annað og þriðja stærsta olíufélagið í höndum einkaaðila, þ.e.a.s. Lukoil og TNK-BP. En nú í vikunni sem leið tók Rosneft enn eitt skrefið í ríkisvæðingu rússneska olíuiðnaðarins - þegar tilkynnt var að Rosneft væri búið að kaupa TNK-BP. Það eru risafréttir því ekki ber á öðru en þarna sé að verða til stærsta olífélag heimsins á hlutabréfamarkaði.

Viðskipti upp á 56 milljarða USD

Kaupverðið sem Rosneft greiðir fyrir TNK-BP er sagt vera á bilinu 54-56 milljarðar USD (jafngildir um 7.000 milljörðum ISK). Vestrænir bankar eru sagðir fjármagna kaupin að verulegu leyti.

Rosneft-Fridman-1

Helmingurinn af umræddri fjárhæð (28 milljarðar USD) rennur til olígarkanna í Alfa Group og félaga þeirra sem samtals eiga 50% í TNK-BP. Þar með er orðið augljóst að þeir Mikhail Fridman og Viktor Vekselberg eru meðal allra auðugustu manna veraldarinnar. Sem er sossum ekki ný frétt

Hinn helmingur upphæðarinnar (26-28 milljarðar USD) fer til BP, sem eignaðist 50% í TNK-BP árið 2003. Hluti kaupverðsins til BP verður greiddur með hlutabréfum í Rosneft. Ekki virðist alveg fullfrágengið hvað sá hlutur verður stór, en nefnt hefur verið 20% hlutur í Rosneft. Afgangur kaupverðsins til BP, sem mun vera á bilinu 12-13 milljarðar USD, verður í reiðufé.

Rosneft verður stærsta olíufélag veraldar á hlutabréfamarkaði

Oil-Production-largest-companies-2011

Eftir þessi viðskipti með TNK-BP eykst olíuframleiðsla Rosneft úr um 2,5 milljónum tunna á dag í um 4,6 milljón tunnur! Til samanburðar þá hefur ExxonMobil undanfarin ár framleitt á bilinu 4-4,5 milljónir tunna af olíu daglega - og þá er gasframleiðslan þeirra vel að merkja meðtalin. Með þessum viðskiptum er Rosneft því orðið stærsta olíufélag heimsins (þ.e. af þeim félögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað en Rosneft er á hlutabréfamarkaði bæði í Moskvu og London).

Já; Rosneft er orðið stærra en Shell, stærra en Chevron og meira að segja stærra en sjálfur ofurrisinn ExxonMobil. Þessar staðreyndir eru með miklum ólíkindum - sérstaklega þegar haft er í huga að fyrir einungis um áratug munaði minnstu að þáverandi litla Rosneft yrði einfaldlega látið renna inn í rússneska gasrisann Gazprom.

Og það er ekki nóg með að Rosneft sé orðið orðið stærsta olíufélag heimsins á hlutabréfamarkaði. Því með kaupum á TNK-BP er Rosneft orðið hvorki meira né minna en næststærsta olíufélag veraldarinnar.

Rosneft-Arctic-logo

Rosneft verður nú stærra en ríkisolíufélagið í Kuwait. Og stærra en ríkisolíufélagið í Abu Dhabi. Og Rosneft verður með þessu auðvitað líka stærra en ríkisolíufélögin í Indónesíu, Malasíu, Mexíkó og Brasilíu. Eina olíufélagið í heiminum sem ennþá er stærra en Rosneft er Saudi Aramco. Þ.e.a.s. rikisolíufélagið í Saudi Arabíu, sem er langstærsta olíufélag veraldarinnar með framleiðslu sem nemur hátt í 10 milljónum tunna á dag.

Enn ein skemmtileg viðmiðun er sú að Rosneft ræður núna yfir um helmingi allrar olíuframleiðslu Rússlands. Svo mikil markaðshlutdeild eins fyrirtækis í olíuframleiðslu yrði aldrei heimiluð í t.d. Bandaríkjunum eða Evrópusambandinu (vegna samkeppnislöggjafarinnar). Þetta virðist aftur á móti ekki vera vandamál í Rússlandi. Að auki er stór hluti olíuframleiðslunnar í Rússlandi í höndum annarra ríkisfyrirtækja; þ.á m. er áðurnefnt Gazprom Neft. Það er því ekki hægt að segja annað en að Pútín hafi svo sannarlega tekist að koma olíuiðnaði Rússlands aftur í hendur ríkisins. 

Sögulegt skref fyrir BP - en líka afar áhættusamt

Með þessum viðskiptum verður BP mjög stór hluthafi í Rosneft. Það eitt og sér er afar athyglisvert og verður að teljast áhugavert fyrir þetta gamalgróna breska olíufélag. Sem fimmtungs hluthafi í Rosneft fær BP óbeinan aðgang að geysilegum olíuauðlindum til að vinna úr næstu áratugina. Og það verður að telja líklegt að þessi viðskipti muni auðvelda BP sjálfu að fá beinan aðgang að rússneskum olíuauðlindum. Fyrir vikið er kannski ekki útilokað að BP taki brátt það sæti að verða stærsta vestræna olífélagið, þ.e. stærra en ExxonMobil.

Oil-super-majors-new-sisters-1

Það hefur einmitt verið eitt helsta vandamál vestrænu olíufyrirtækjanna hversu takmarkaðan aðgang þau hafa að olíulindum í stærstu olíuríkjunum. Eins og staðan er í dag eru það fyrst og fremst ríkisorkufyrirtæki OPEC-landanna og rússnesku olíufyrirtækin sem ráða yfir olíuauðlindum framtíðarinnar.

Það að vestrænt olíufyrirtæki fái stóran eignarhlut í slíku rikisfyrirtæki sem Rosneft er, er alveg nýtt í olíuiðnaðinum. Á sínum tíma réði BP yfir nær öllum olíulindum í Persíu og Írak og var einnig umsvifamikið í N-Afríku. Það er orðið ansið langt síðan þau verðmæti runnu félaginu úr greipum. Það var ekki vandamál meðan ennþá var mikið um ósnertar olíulindir í Vestrinu. Þar opnaðist Alaska, Norðursjórinn, Noregshaf og Mexíkóflóinn. En þegar litið er til framtíðarinnar liggja vaxtartækifæri vestrænu olíufélaganna einkum í því að komast í meira mæli í olíuvinnslu á svæum þar sem ríkisolíufélög ráða mestu. 

Dudley-BP-CEO_Putin

En þó svo þetta sé merkilegt skref fyrir BP, þá er þetta líka ansið áhættusamur leikur hjá fyrirtækinu. Rússneska ríkið verður áfram með traustan meirihluta í Rosneft og mun því áfram ráða fyrirtækinu í einu og öllu (BP fær tvö stjórnarsæti af níu). Gleymum því heldur ekki að olíuvinnsla í Rússlandi er talsvert dýr og svo eru kaupin ávísun á ennþá meiri skuldsetningu Rosneft. Tímabundin lækkun olíuverðs gæti skapað Rosneft lausafjárvanda og augljóst að arðsemi af fjárfestingu í fyrirtækinu er afar óviss.

Hefði BP fremur átt að halda sig við TNK-BP? 

Í bransanum velta menn því nú talsvert fyrir sér hvort svona hressileg aðkoma BP að Rosneft sé í reynd alsl ekki skynsamur leikur. BP hefur hagnast afar vel af fjárfestingum sínum í TNK-BP. Þegar TNK-BP varð til (árið 2003) mun BP hafa lagt félaginu til 8 milljarða USD. En á þeim tæpa áratug sem liðinn er síðan þá, hefur sú fjárfesting skilað BP hátt í 20 milljörðum USD í arðgreiðslur frá TNK-BP!

tnk-bp-moscow

Þetta er sem sagt einhver besta fjárfestingin sem sögur fara af hjá vestrænu olíufyrirtæki á 21. öldinni. Það hefur reyndar gustað all hressilega í yfirstjórn TNK-BP og samstarfið við olígarkana hefur oft reynst BP afar erfitt. Eflaust er BP fegið að verða laus við það rugl allt saman. En peningarnir hafa skilað sér í hús og allra síðustu ár hefur TNK-BP virst vera komið á beinu brautina. Þess vegna hlýtur eftirfarandi spurning að vakna: Af hverju vera að gera breytingar með félagið núna?

Svarið við því liggur kannski í augum uppi. Það hlýtur að vera freistandi fyrir BP að leysa þarna út um 12 milljarða USD OG um leið verða stór hluthafi í Rosneft. Stór hluthafi í næst stærsta olíuframleiðanda veraldarinnar - í landi sem býr yfir gríðarlegum birgðum af óunninni olíu (áætlað er að Rússland hafi að geyma fimm sinnum meiri olíu en Bandaríkin og jafnist t.d. á við sum Persaflóaríkin).

Russia-sakalin-1-platform

Rosneft á góða möguleika á að vaxa og þá kannski ekki síst með olíuvinnslu á rússnesku heimskautasvæðunum. BP hefur einmitt mikla reynslu af slíkri olíuvinnslu, m.a. frá Alaska. Og þarna hefur BP óneitanlega slegið ExxonMobil ref fyrir rass. Því hætt er við að samstarfsáhugi Rosneft gagnvart ExxonMobil muni dvína með aðkomu BP að Rosneft. Varla er liðið ár síðan tilkynnt var um náið samstarf Rosneft og ExxonMobil. Sá samningur hefur óneitanlega misst mesta ljómann nú eftir fréttirnar um kaup Rosneft á TNK-BP. Og nú í kjölfar frétta af kaupum Rosneft á TNK-BP er jafnvel talað um að þetta muni útiloka önnur vestræn olíufélög frá Rússland. BP hafi sigrað í því kapphlaupi. En BP gæti svelgst á þeim sigri.

Fingraför Pútín's 

Rosneft-CEO-Igor-Sechin

Að baki þessum tilfæringum öllum er hinn gamli vinur Pútín's og forstjóri Rosneft; Igor Sechin

Það er reyndar athyglisvert að sjá hvernig rússneska ríkið virðist tilbúið að veðja öllu á orkugeirann. Þó svo olíuframleiðslan í Rússlandi hafi undanfarin ár yfirleitt verið rekin með þokkalegasta hagnaði er varla heppilegt að tekjustreymi rússneska ríkisns verði ennþá háðara olíuverði en verið hefur. Ef upp kæmi sú staða að olíuverð lækkaði verulega og héldist lágt í dágóðan tíma er hætt við að Rosneft fengi mikið högg - og þá myndi rússneska ríkið eflaust lenda í vandræðum með sínar eigin skuldir.

Russia-Oil-vladimir-putin-igor-sechin-whispering

En þeir félagarnir Igor Sechin, forstjóri Rosneft, og Vladimir Putin, forseti Rússlands, virðast hvergi bangnir. Þvert á móti stefna þeir leynt og ljóst að því að rússneska ríkið verði alveg jafn umsvifamikið í olíuiðnaðinum eins og það er í gasiðnaðinum. Með tögl og haldir rússneska ríkisins í bæði Gazprom og Rosneft er væntanlega ekki orðum aukið að Pútín sé einhver allra valdamesti maðurinn í orkugeira heimsins.

Er græðgin jafn blind eins og ástin? 

Nú er bara að sjá hvort þessi innkoma BP í ríkisrekna olíurisann Rosneft reynist hinu gamla og þaulreynda breska félagi vel. Sumir sjá þetta sem snjallan leik sem muni gera bæði Rosneft og BP kleift að vaxa með því að fara á fullt í rússnesku heimskautaolíuna. Aðrir segja að svona stór félög hafi ekki áhættusæknina sem þarf til að ná árangri á svoleiðis virgin-territory. Þar að auki séu rússneska ríkið og stjórnendur Rosneft óútreiknanalegir og BP eigi á hættu að sitja uppi sem óvirkur hluthafi í gríðarstóru en illa reknu félagi.

Anna-Karenina-1

Jamm - kannski er BP búið að steypa sér í hlutverk sjálfrar  Önnu Karenínu. Og þá er auðvitað átt við að Rosneft sé enginn annar en Vronský greifi. En þetta eru nú bara laufléttar vangaveltur einfalds Orkubloggara með helgarfiðring. Eitt er þó víst; ekkert er jafn dramatískt eins og raunveruleiki olíuiðnaðarins. Og það á auðvitað einkum og sér í lagi við um rússneska olíubransann.


Auðlindapistlar

Hér er ábending til lesenda Orkubloggsins:

Nýverið bauð Morgunblaðið Orkubloggaranum að skrifa pistla fyrir viðskiptasíðu mbl.is. Sem ég ákvað að þiggja. Gera má gera ráð fyrir að ný grein komi þar inn á ca. 6 vikna fresti eða þar um bil (gæti þó orðið mun óreglulegra). Í dag eru pistlarnir þarna orðnir tveir:

Uppgangur á Norðurslóðum (frá 3. sept. 2012).

Dauflegt útboð í skugga Noregs (frá 10. okt. 2012).

Þrátt fyrir þennan nýja vettvang mun Orkubloggið halda áfram göngu sinni hér á askja.blog.is.

 


Afródíta heillar

Fyrir nokkrum árum hitti breska olíufélagið Cairn Energy beint í mark suður á Indlandi. Það vel heppnaða olíuævintýri skilaði félaginu nokkrum milljörðum USD í vasann. Í framhaldinu ákvað Cairn að nú skyldi haldið á gjörólíkar slóðir og tók stefnuna á Baffinsflóa vestan Grænlands. Þar var borað af miklum móð í tvö sumur - alls átta tilraunabrunnar - en án árangurs.

Mediterranean-Sea-Countries

Þessir þurru brunnar Cairn Energy á Baffinsflóanum gleyptu rúman milljarð USD af eigin fé fyrirtækisins. Og nú hefur þetta geysilega fjársterka olíufélag ákveðið að minnka áhersluna á Grænland og þess í stað einbeita sér aftur að hlýrri slóðum. Undanfarið hefur Cairn Energy nefnilega verið að selja hluta af rannsóknaleyfum sínum við Grænland og fjárfesta í nýjum olíuleitarsvæðum á Miðjarðarhafi.

Það virðist reyndar svo að Miðjarðarhafið geti senn orðið eitt heitasta olíu- og gasleitarsvæðið hér í Evrópu. Síðustu misseri og ár hafa ríki allt í kringum Miðjarðarhaf - og þá ekki sist við austan- norðanvert Miðjarðarhaf - verið að bjóða út ný leitarsvæði af miklum móð. Og áhugi manna í olíubransanum á olíuleit þarna í sól og sumaryl virðist vera að aukast hratt.

Sum löndin sem liggja að sunnanverðu Miðjarðarhafi eiga sér langa sögu sem mikil olíusvæði. Þar er um að ræða lönd eins og Alsír, Líbýu og Egyptaland. Olíuvinnslan þar við Afríkustrendur hefur þó mestöll verið á landi eða á grunnum svæðum rétt utan við ströndina. Sjálft ægidjúp Miðjarðarhafsins hefur aftur á móti verið nánast ósnert - allt þar til núna á allra síðustu árum.

Israel-Gas-Areas-1

Ástæða aukins á huga á Miðjarðarhafi er einföld; hækkandi olíuverð hefur freistað áhættusækinna olíufélaga til að leggja út á djúpið utan hinna hefðbundnu vinnslusvæða. Og það jafnvel þrátt fyrir mikla pólítiska óvissu og óróa víða á svæðinu. Þessi þróun byrjaði fyrir einungis örfáum árum. En árangurinn lét ekki á sér standa. Segja má að ævintýrið hafi byrjað fyrir alvöru þegar bandaríska olíufyrirtækið Noble Energy hitti í mark á ísrealska landgrunninu árið 2009. Og fann þar risastóra gaslind, sem kölluð hefur verið Tamar - eins og Orkubloggið hefur áður sagt frá.

Það var svo 2010 að allt varð endanlega vitlaust á nýju Miðjarðarhafssvæðunum. Þá rambaði Noble á aðra ennþá stærri gaslind í ísraelsku lögsögunni. Hún er kennd við sæskrímslið Levíaþan. Þessi góði árangur Noble og gríðarlegu gaslindir skipta auðvitað mestu máli fyrir Ísrael, sem fram til þessa hefur þurft að flytja inn bæði allt gas og alla olíu (og það frá lítt vinsamlegum nágrönnum!). Nánast í einu vetfangi hefur gasið úr ægidjúpi Miðjarðarhafsins (hafdýpið þarna er 1.500-1.800 m) orðið til þess að Ísrael stefnir nú hraðbyri á orkusjálfstæði. Þessar tvær umræddu gaslindir, Tamar og Levíaþan, munu á endanum skila sem samsvarar nokkrum milljörðum olíutunna. Sést hafa tölur um að vinnanlegt magn þessara tveggja svæða slagi hátt í sem nemur 4,5 milljörðum tunna! Ísrael verður því ekki einungis orkusjálfstætt næstu áratugina, heldur líklega einnig stór gasútflytjandi.

Cyprus-Oil-Gas-Map-1

En þettu eru ekki aldeilis einu stóru fréttirnar af nýjum kolvetnissvæðum á Miðjarðarhafi. Risafundurinn i ísraelsku lögsögunni gaf vonir um að önnur lönd við austanvert Miðjarðarhaf geti gert sér vonir um að verða brátt þátttakendur í kolvetnisiðnaði veraldarinnar. Og nýverið gerðist það að enn ein risalindin fannst undir austanverðu Miðjarðarhafi og nú í lögsögu Kýpur.

Þar var það líka Noble Energy sem átti heiðurinn. Gaslindin við Kýpur fannst á svæði sem nefnist Afródíta og er einungis um 20 sjómílum vestan við ísralesku gaslindirnar kenndar við Levíþan. Rétt eins og Ísraelsmegin er hafdýpið þarna ansið mikið eða um 1.700 m. Talið er að svæðið hafi að geyma um 200 milljarða rúmmetra af gasi, sem jafngildir um 1, 2 milljörðum tunna af olíu. Afródíta er því ekki bara tákn um ást og fegurð, heldur er ástargyðjan um það bil að gera Kýpur að olíuríki. Eða öllu heldur gasríki.

Cyprus-northern-oil-dispute-a

Nú á bara eftir að koma í ljós hvernig mun ganga að byggja upp vinnsluna. Bæði ísraelsku og kýpversku svæðin eru á pólítískt eldfimum landgrunnssvæðum. Á tímabili leit út fyrir að Líbanon myndi jafnvel gera innrás í Ísrael vegna gaslindanna og ágreinings um lögsögumörk. Ekki síður harkaleg viðbrögð komu frá tyrkneskum stjórnvöldum vegna fyrirhugaðrar gasvinnslu Kýpverja. Tyrknesk stjórnvöld viðurkenna ekki lögsögumörk Kýpur og líta á norðurhluta eyjunnar sem svæði sem hafi verið hernumið af grískumælandi Kýpverjum. En þrátt fyrir hótanir og herskip á sveimi hélt Noble sínu striki og nú stefnir allt í að vinnsla muni brátt hefjast bæði á Afródítu og ísraelsku svæðunum.

Turkey-TPAO-Shell-Oil-deal-1

Það er nokkuð augljóst að gróðavonin á Miðjararhafi er sterkari en stríðsóttinn. Upp á síðkastið hafa fjölmörg olíufélög lýst yfir vilja til að reyna reyna fyrir sér úti á ægidjúpi Miðjarðarhafsins. Nýlega var t.d. tilkynnt um stóran samning milli Shell og tyrneska ríkisolíufélagsins TPAO um umfangsmikla olíuleit sunnan við strendur Tyrklands.

Grænlandsvinirnir í Cairn Energy virðast einnig vera komnir með mikinn áhuga í Miðjarðarhafi. Cairn var nefnilega nýlega að festa sér leyfi til olíuleitar í lögsögu Spánar; nánar tiltekið skammt frá sólareyjunni Ibiza. Og Cairn er einnig sagt sækjast eftir sérleyfum til leitar við bæði Kýpur og Möltu. Því miður heillaði íslenska Drekasvæðið aftur á móti ekki ljúflingana hjá fjárhagslega ofursterku Cairn.

Noble-Cyprus-Oil-Rig-1

Fjölmörg önnur Miðjarðarhafsríki hugsa sér gott til glóðarinnar. Auk Ísrael, Líbanon, Kýpur, Spánar og Möltu virðist nú vera góð hreyfing á tilvonandi olíuleit utan við strendur landa eins og Marokkó, Túnis, Frakklands, Ítalíu, Grikklands og Tyrklands. Það er til marks um svartagullæðið þarna á leitarsvæðunum í Miðjarðarhafi að grísk stjórnvöld hafa lýst því yfir að innan grísku lögsögunnar sé að finna 20-30 milljarða tunna af vinnanlegri olíu! Og ólíuiðnaðurinn virðist ekki telja það útí hött, því um tugur félaga tók þátt í nýlegu olíuleitarútboði grískra stjórnvalda. Það er óneitanlega öllu meiri áhugi en var í dauflegu Drekaútboðinu hér á Klakanum góða fyrr á þessu ári.

Það er ekki ofsagt að stórskuldugir ríkissjóðir þjóðanna við norðanvert Miðjarðarhaf bindi miklar vonir við fyrirhugaða olíuleit. Enn er alltof snemmt að fullyrða nokkuð um hver árangurinn verður á nýju leitarsvæðunum í Miðjarðarhafi. En hreint magnaður árangurinn í lögsögu Ísraels og Kýpur gefur vissulega góð fyrirheit. Og mikill áhugi olíufélaga á nýju leitarsvæðunum í Miðjarðarhafi mun vafalítið tryggja mikla og vandaða olíuleit. Hver veit nema Miðjarðarhafið verði brátt hinn nýi Norðursjór.


Falklandseyjar og Ghana

Í undanförnum færslum hefur Orkubloggið velt fyrir sér hvaða fjárhagslega getu þarf til að leita olíu á Drekasvæðinu. Þar var viðruð sú hugmynd að einkaleyfishafi þurfi að lágmarki að ráða við rannsóknir sem gætu kostað nálægt 200 milljónum USD. Og að jafnvel sé ólíklegt að gera ráð fyrir árangri af olíuleitinni fyrr en eftir a.m.k. nokkra tilraunabrunna, sem gætu kostað nálægt milljarði USD.

Borders & Southern_Falklands-map

Í þessu sambandi hefur Orkubloggið vísað til rannsókna og olíuleitar á nýjum olíuleitarsvæðum við Grænland og Kanada. Og einnig nefnt olíuleit á djúpum svæðum við Ghana, Falklandseyjar og víðar á hafsbotninum. Til að skýra þetta nánar er rétt að skoða aðeins nánar það sem hefur verið að gerast á umræddum svæðum við Ghana og Falklandseyjar.

Þarna er báðum tilvikum um að ræða ný olíluleitarsvæði á djúpum hafsbotnssvæðum, þar sem sérleyfishafar hafa þurft að framkvæma rannsóknir fyrir nokkur hundruð milljónir dollara. Og eins og búast má við á nýjum og áhættusömum svæðum, urðu umrædd sérleyfi á endanum ýmist til að vekja gleði eða sorg hjá sérleyfishöfunum. 

Þurr brunnur við Falklandseyjar 

Borders Share Price

Djúpt suður í Atlantshafi var einn sérleyfishafinn nýverið að átta sig á því að tilraunabrunnurinn sem þótti svo álitlegur virðist vera skraufþurr. Þetta er á svæði við Falklandseyjar sem nefnt er Stebbing og er sýnt á kortinu hér fyrir ofan. Þarna á Stebbing standa menn nú frammi fyrir því að gefast upp og yfirgefa brunninn. Eða að kýla á það að bora nokkur hundruð metra í víðbót með tilheyrandi kostnaði með þá veiku von í brjósti að enn neðar sé eitthvað alvöru að finna.

Af nýlegum fréttum að dæma er reyndar búið að loka brunninum þarna og afskrifa nokkur hundruð milljónir USD sem tapað fé. Eðli málsins samkvæmt var það ansið þungt högg fyrir viðkomandi sérleyfishafa; breska Borders & Southern Petroleum. Hluthafarnir máttu horfa upp á virði félagsins hrynja um 70% á hlutabréfamarkaðnum - nánast á augabragði.

Ljónheppni í Ghana 

Ghana_jubilee_map

Við Afríkustrendur hitti annað breskt olíufélag, Tullow Oil, aftur á móti hreint ótrúlega vel í mark (í samstarfi við Kosmos Energy). Eftir 3ja ára leit á nýju og djúpu leitarsvæði utan við Ghana kom borinn niður á sannkallaða risalind, sem nefnd hefur verið Jubilee.

Kostnaðurinn við þá árangursríku olíuleit er sagður hafa verið í kringum 300 milljónir USD, þ.e. kostnaðurinn sem fór í olíuleitina eina og sér. Um leið og búið var að finna lindina bættu fjárfestarnir þarna litlum 500 milljónum USD við til að kanna svæðið betur og staðfesta olíumagnið. Samtals hafa nú verið settir nokkrir milljarðar dollara í Jubilee til að koma olíuvinnslunni þar í gang.

Drekinn verður líka dýr 

Í báðum þessum tilvikum - við Ghana og Falklandseyjar - kostaði olíuleit umrædra féaga sem nemur nokkur hundruð milljónum USD. Ekkert gefur tilefni til að ætla að kostnaðurinn verði minni á Drekasvæðinu. Og sá sem tekur áhættuna þar þarf að gera ráð fyrir að sú olíuleit geti farið á hvorn veginn sem er. Að lokum má hér nefna að Orkubloggarinn mun brátt fjalla um hinar raunverulegu ástæður þess að olíufélög hafa sýnt Drekasvæðinu svo lítinn áhuga sem raun ber vitni.


Hvað gerir Orkustofnun?

Til að öðlast einkarétt til rannsókna og kolvetnisvinnslu á Drekasvæðinu þarf viðkomandi umsækjandi lögum samkvæmt að uppfylla bæði fagleg og fjárhagsleg skilyrði. Í dag verður haldið áfram umfjöllun um fjárhagslegu skilyrðin, þaðan sem frá var horfið í síðustu færslu Orkubloggsins.

Byrjað verður á að svara í stuttu máli þeim spurningum sem settar voru fram í lok þeirrar færslu. Að því búnu er svo fjallað nánar um það álitaefni hvaða skilyrði líklegt er að Orkustofnun setji gagnvart þeim sem sækjast eftir einkaleyfi til rannsókna og vinnslu - bæði með hliðsjón af þeim ákvæðum olíulaganna að einkaleyfishafar skuli hafa fjárhagslegt bolmagn til starfseminnar og með hliðsjón af því sem gengur og gerist í olíubransanum. Einnig verður skoðað sérstaklega hvort núverandi umsækjendur séu líklegir til að uppfylla þau fjárhagslegu skilyrði, sem búast má við að Orkustofnun miði við.

A)  Hvaða fjárhagslegu kröfur mun Orkustofnun gera til einkaleyfishafa á Drekasvæðinu?

Skilyrðin í olíulögunum eru ekki nákvæm og Orkustofnun hefur því verulegt svigrúm um það hvernig hún túlkar þau. En þegar litið er til ekki aðeins lagaskilyrðanna, heldur líka þess sem gerist í tengslum við útboð á sambærilegum kolvetnisleitarsvæðum erlendis, má leiða líkum að því hvaða kröfur Orkustofnun muni gera. Og hvaða fjárhagslega bolmagn umsækjandi þarf að hafa til að geta fengið einkaleyfi til  rannsókna og vinnslu á afmörkuðum reitum á Drekasvæðinu.

Nokkuð augljóst er að einkaleyfishafi þarf að geta látið framkvæma nokkuð þéttar hljóðendurvarpsmælingar og ýmsar aðrar almennar grunnsrannsóknir. Slíkar framkvæmdir geta kostað allt frá fáeinum milljónum USD og upp í nokkra tugi milljóna USD. Að auki má ætla að Orkustofnun muni setja það skilyrði að handhafi einkaleyfis geti fjármagnað borun á a.m.k. einum tilraunabrunni. Kostnaður vegna þessara framkvæmda allra myndi sennilega að lágmarki verða nálægt 200 milljónum USD. Sú upphæð er vissulega óviss; kostnaðurinn vegna framkvæmdanna gæti vel orðið ca. 50 milljónum USD meiri eða minni. En 200 milljónir USD eru engu að síður upphæð sem ætti að vera þokkaleg viðmiðun um það hvaða fjárhagslega bolmagn sé lágmark til að ráða við nokkuð vandaðar rannsóknir og kolvetnisleit á Drekasvæðinu.

B)  Eru umsækjendurnir þrír um einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu tilbúnir að mæta kröfum um rannsóknir og prufuboranir upp á nokkur hundruð milljónir USD?

Auðvitað geta einungis umsækjendurnir sjálfir svarað því hvað þeir eru tilbúnir að leggja mikla fjármuni í kolvetnisleit á Drekasvæðinu. En hér er miðað við það, að til að öðlast einkaleyfi eða sérleyfi á svæðinu þurfi einkaleyfishafi að geta fjármagnað rannsóknir og kolvetnisleit sem myndi a.m.k. kosta 200 milljónir USD. Einnig er hér miðað við að einkaleyfishafi þurfi að mestu leiti að fjármagna umræddar rannsóknir og framkvæmdir með eigin fé. Spurningin er: Ráða umsækjendurnir við slíka skuldbindingu?

Dreki-Area-and-NE-Atlantic_hydrocarbon-licensing_areas

Orkubloggaranum þykir ólíklegt að fjárframlag íslensku aðilanna sem koma að umsóknunum skipti þarna verulegu máli. Þeir munu varla leggja mikið fé til olíuleitarinnar, heldur einungis verða þar litlir hluthafar. Hér í færslunni verður sem sagt miðað við það að megnið af kostnaðinum við olíuleitina komi frá erlendu olíufélögunum, sem eru Faroe Petroleum og Valiant Petroleum.

Þegar litið til fjárhagsstöðu erlendu félaganna virðist mögulegt að þessi tvö félög myndu ráða við rannsóknir af umræddri stærðargráðu. Faroe Petroleum og Valiant Petroleum myndu sem sagt líklega ráða við það að fjármagna grunnrannsóknir og að láta bora hvorn sinn tilraunabrunninn. Til þess þyrftu þau að vísu að taka ansið mikla áhættu með mjög stóran hluta af öllu eigin fé félaganna. Þess vegna má kannski segja að bæði Faroe Petroleum og Valiant séu á mörkum þess að uppfylla skilyrði olíulaganna um fjárhagslegt bolmagn. Um þriðja umsækjandinn, þ.e. Eykon Energy, verður að segjast að fátt bendir til þess að það félag uppfylli skilyrði um að geta lagt svo mikla fjármuni til olíuleitar (auk þess sem Eykon virðist skorta sérfræðiþekkingu og reynslu af olíuleit).

C)  Er mögulegt að Orkustofnun veiti einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu án þess að gera kröfu um einn einasta tilraunabrunn?  

Einn tilraunabrunnur á Drekasvæðinu myndi sennilega kosta á bilinu 100-150 milljónir USD og það er afar stór hluti af þeim 200 milljónum USD sem Orkubloggarinn miðar við sem nauðsynlegt fjárhagslegt bolmagn skv. olíulögunum. Það myndi augljóslega breyta miklu ef Orkustofnun mun ekki gera neina kröfu um að einkaleyfishafi skuldbindi sig til að ráðast í tilraunaboranir. Skilyrði olíulaganna eru ekki nákvæm og því er ekki útilokað að Orkustofnun muni fara þessa leið. Þ.e. að afhenda einkaleyfi til rannsókna og vinnslu gegn fremur litlum skuldbindingum. Sem myndu þá t.d. takmarkast við einhverjar hljóðendurvarpsmælingar og sýnatöku, en ekki fela í sér neinar tilraunaboranir. 

Það að gera ekki skilyrði um neinar tilraunaboranir myndi opna miklu fleirum aðgang að svæðinu en ella. Það væri þó varla hyggiilegt af Orkustofnun að fara þessa leið. Því það er nánast útilokað að unnt verði að staðreyna hvort olía (og/eða gas) sé í vinnanlegu magni á Drekasvæðinu nema með einhverjum tilraunaborunum.

Skuldbindingar um rannsóknir sem einungis myndu kosta nokkrar milljónir USD eða jafnvel nokkra tugi milljóna USD eru sem sagt ólíklegar til að geta skilað árangursríkri kolvetnisleit. Faglega og lagalega séð hlýtur því Orkustofnun að geri meiri kröfur. Vilji einhver umsækjendahópur um einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu ekki skuldbinda sig til að taka meiri fjárhagslega áhættu ætti viðkomandi etv. fremur að sækja um almennt leyfi til olíuleitar fremur en einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á afmörkuðum reitum.

---------------------------------------------------------

Ofangreint er e.k. samantekt eða summary af því sem nánar er fjallað um hér að neðan. Samantektin nægir vonandi þeim sem ekki hafa áhuga eða tíma til að lesa alla langlokuna hér á eftir. Þar er skoðað betur hvaða kröfur megi ætla að Orkustofnun geri um fjárhagslegan styrk einkaleyfishafa og hvort umsækjendurnir þrír um einkaleyfi til rannsókna og vinnslu séu líklegir til að öðlast slíkt leyfi. Þetta er nokkuð löng umfjöllun, enda kannski fullt tilefni til að einhver gefi sér tíma til að staldra við þetta mikilvæga álitaefni (íslenskir fjölmiðlar virðast t.a.m. hafa lítinn áhuga á að skoða þetta). Byrjað er á að reyna að festa hendur á hinu loðna eða matskennda skilyrði um fjárhagslegt bolmagn, en að því búnu er fjárhagsstyrkur Faroe Petroleum og Valiant Petroleum skoðaður í samhengi við það skilyrði:

Fjárhagslega skilyrðið í olíulögunum er afar matskennt

Ákvæði olíulaganna (nr. 13/2001) og reglugerðarinnar sem þarna reynir á (nr. 884/2011) kveða á um að einkaleyfishafar þurfi að hafa fjárhagslegt bolmagn til þeirrar starfsemi sem felst í rannsóknum og vinnslu. Eða eins og segir orðrétt í 7. gr. laganna (leturbreyting er Orkubloggarans):

"Orkustofnun veitir leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á tilteknum svæðum. Slíkt leyfi felur í sér einkarétt leyfishafa til rannsókna og vinnslu. Einungis má veita slíkt leyfi aðilum sem að mati Orkustofnunar hafa nægilega sérþekkingu, reynslu og fjárhagslegt bolmagn til að annast þessa starfsemi og skulu sömu skilyrði eiga við um ákvörðun Orkustofnunar um rekstraraðila [...] Einungis má veita leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis aðilum sem hafa nægilega sérþekkingu, reynslu og fjárhagslegt bolmagn til að annast þessa starfsemi."

Tvítekningin þarna í 7. greininni er svolítið sérkennileg. Látum það þó liggja á milli hluta. Samkvæmt orðanna hjóðan á umsækjandinn að hafa fjárhagslegt bolmagn til starfseminnar. Þar er vísað til bæði rannsókna og vinnslu. Olíulöggjöfin hefur aftur á móti ekki að geyma neina skilgreiningu um það hvað nákvæmlega er átt við með þessu skilyrði um fjárhagslegt bolmagn. Þess í stað er matið þar um einfaldlega lagt í hendur Orkustofnunar.

seismic_surveys_02

Ekki er unnt að fastsetja hvaða rannsóknir Orkustofnun mun gera kröfu um að einkaleyfishafar ráðist í. Þó er augljóst að þar verður um að ræða einhverjar hljóðendurvarpsmælingar, en þær eru af ýmsum toga og af mismiklum gæðum (2D og 3D). Einnig skiptir máli hversu þéttar þær mælingar eru. Miðað við önnur djúpsjávarsvæði má áætla að kostnaðurinn vegna slíkra mælinga yrði allt frá nokkrum milljónum USD og upp í nokkra tugi milljóna USD.

Gefi mælingarnar vísbendingu um að kolvetnislind kunni að vera á svæðinu er því miður nánast ómögulegt að sannreyna það nema með því að bora tilraunabrunn. Einn slíkur brunnur á svo djúpu svæði sem Drekasvæðið er, myndi að öllum líkindum kosta á bilinu 100-150 milljónir USD. Þess vegna má miða við það, að til að sá sem fær einkaleyfi til rannsókna (og vinnslu) á Drekasvæðinu geti ráðist í vandaðar rannsóknir og olíuleit, þurfi hann a.m.k. að geta kostað til þess nálægt 200 milljónum USD. Þá er vel að merkja einungis miðað við að einkaleyfishafinn ráðist í að bora einn tilraunabrunn. Hann hefur svo auðvitað tök á því, ef hann vill, að bora fleiri brunna (ekki er ólíklegt að a.m.k. þurfi að bora þrjá tilraunabrunna áður en kolvetnisleitin beri árangur). En grunnrannsóknir og einn tilraunabrunnur gæti verið það lágmarksskilyðið sem Orkustofnun setur. Og þá þarf sá sem sækist eftir einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu að hafa fjárhagslegt bolmagn til þess háttar rannsókna.

Oil-deepwater-camac-fpso

Samkvæmt olíulöggjöfinni þarf einkaleyfishafi reyndar ekki aðeins að hafa fjárhagslegt bolmagn til rannsókna heldur einnig til vinnslu. Sem fyrr segir yrði kostnaður vegna kolvetnisleitar á Drekasvæðinu varla mikið undir 200 milljónum USD og kannski miklu meiri. Kostnaðurinn við að byggja upp vinnslu yrði svo margfalt meiri. Sérfræðingar álíta að þar megi gera ráð fyrir fjárfestingu upp á 2-5 milljarða USD ef um olíuvinnslu yrði að ræða, en ennþá meira ef þetta yrði gasvinnsla.

Hér ber að hafa í huga að fjármögnun kolvetnisleitar annars vegar og kolvetnisvinnslu hins vegar er í eðli sínu afar misjöfn. Rannsóknir og kolvetnisleit á djúpu landgrunnssvæði er fjárhagslega mjög áhættusöm og almennt þurfa einkaleyfishafar að mestu eða jafnvel öllu leyti að fjármagna þetta með eigin fé. En þegar búið er að finna olíulind (eða gaslind) og staðreyna af þokkalegri nákvæmni hversu mkið vinnanlegt magn þar er á ferðinni, opnast ýmsir nýir fjármögnunarmöguleikar til að byggja upp sjálfa vinnsluna. Þess vegna gilda ólík sjónarmið um fjármögnun kolvetnisleitar annars vegar og kolvetnisvinnslu hins vegar (rétt eins og á t.d. við um fjármögnun jarðhitaleitar annars vegar og jarðhitavinnslu út jarðhitageymi sem búið er að staðreyna hins vegar).

Í íslensku olíulögunum er þetta tvennt aftur á móti spyrnt saman; lagaskilyrðið um fjárhagslegt bolmagn einkaleyfishafa til starfseminnar vísar bæði til rannsókna og vinnslu. Þetta virkar svolítið ólógískt, en er ekki einsdæmi (svipað orðalag má sjá í t.d. færeysku olíulöggjöfinni). Með hliðsjón af því sem algengt er í olíubransanum er eðlilegt að túlka þetta skilyrði þannig, að einkaleyfishafi þurfi að hafa nægjanlegt fjármagn til taks fyrir rannsóknirnar og leitina. En að með fjárhagslegu bolmagni einkaleyfishafa til vinnslu sé átt við að hann skuli vera með þá þekkingu og reynslu að hann sé líklegur til að geta fjármagnað vinnsluna þegar/ef til hennar kemur.

Seismic-ship-3D

Þetta merkir að skilyrði olíulöggjafarinnar um fjárhagslegt bolmagn hlýtur að túlkast þannig að einkaleyfishafi þarf að vera nægjanlega fjársterkur til að ráða við rannsóknir og kolvetnisleit - og þá almennt að vera með svo mikið eigið fé að það nægi sem trygging fyrir fjármagni til rannsóknanna. En hann þarf ekki að hafa fjármagn til reiðu fyrir sjálfa vinnsluna. Það er síðara tíma mál. Einkaleyfið veitir séreyfishafanum að vísu forgangsrétt til vinnslu og því er eðlilegt að gera það að skilyrði að hann sé líklegur til að geta fjármagnað vinnsluna ef/þegar til hennar kemur. Það skilyrði er faglegt fremur en fjárhagslegt. Þessi skilningur Orkubloggarans er kannski ekki alveg í samræmi við orðalagið í olíulögunum, sem spyrðir saman fjárhagslegt bolmagn til rannsókna og fjáhagslegt bolmagn til vinnslu. En þegar litið er til þess hvernig olíubransinn virkar hlýtur Orkustofnun að túlka þetta fjárhagslega lagaskilyrði með svipuðum hætti eins og hér hefur verið lýst.

Við mat á umsóknum um einkaleyfi til rannsókna og vinnslu þarf Orkustofnun því varla að gera kröfu um að einkaleyfishafi þurfi að hafa marga milljarða USD tiltæka til olíu- eða gasvinnslu. Aftur á móti þarf Orkustofnun að gæta þess að sá sem fær einkaleyfi til rannsókna og vinnslu sé í ljósi reynslu sinnar og þekkingar líklegur til að geta fjármagnað kolvetnisvinnslu ef til hennar kemur. Og Orkustofnun þarf að gera ríka kröfu um að til að öðlast svona einkaleyfi verði einkaleyfishafinn að hafa nægt áhættufé til taks til rannsóknanna, þ.e. til kolvetnisleitarinnar.

Sem fyrr segir er það þó alveg í hendi stofnunarinnar að meta hvað sé nóg til að hún álíti að skilyrðið um fjárhagslegt bolmagn sé uppfyllt. Orkubloggarinn álítur að þarna væri eðlilegt að miða við að einkaleyfishafi ráði við rannsóknir sem feli í sér a.m.k. einn tilraunabrunn og því sé fjárhagslegt bolmagn sem nemur 200 milljónum USD lágmark. En orðalag olíulaganna er mjög matskennt og ekki gott að sjá fyrir hvernig Orkustofnun mun á endanum túlka umrætt skilyrði um fjárhagslegt bolmagn.

Eðlilegt kann að vera að gera kröfu um meira en einn tilraunabrunn

Orkubloggarinn álítur sem sagt að sá einn sem getur lagt a.m.k. 200 milljónir USD í rannsóknir og olíuleit á Drekasvæðinu (plús/mínus ca. 50 milljónir USD) geti talist uppfylla lagaskilyrðið um fjárhagslegt bolmagn. Þetta er a.m.k. sú upphæð sem einkaleyfishafi þarf að geta lagt í leitina eigi hann að ráða við hefðbundnar grunnrannsóknir og að bora þó ekki sé nema einn tilraunabrunn.

Og þetta fjármagn myndi að mestu eða jafnvel öllu leyti að þurfa að vera eigið fé einkaleyfishafans. Því enginn banki lánar í svona áhættusamar framkvæmdir nema gegn tryggum veðum (nema kannski ef föllnu íslensku bankarnir hefðu enn verið á fullu - sic). Ef svo rannsóknirnar leiða til þess að olía (og/eða gas) í vinnanlegu magni finnst, opnast ýmsir möguleikar til að fjármagna meiri rannsóknir og loks sjálfa kolvetnisvinnsluna.

Songa-Venus-semi-submersible-Petronas

Hugsanlega væri skynsamlegt af Orkustofnun að gera enn meiri kröfur en þær sem Orkubloggarinn nefnir sem eðlilegt lágmark. Það er ólíklegt að einn tilraunbrunnur skili árangri. Mun líklegra er að nokkrir þurrir brunnar verði boraðir á Dreksvæðinu áður en olíuleitin ber árangur. Rétt eins og t.d. hefur gerst í lögsögu Færeyja og í lögsögu Grænlands (þar hefur olíuleitin reyndar í hvorugu tilviki borið árangur þrátt fyrir að nokkrir tilraunabrunnar hafi verið boraðir).

Algengt er að sérleyfis- eða einkaleyfishafi þurfi að kosta a.m.k. nokkur hundruð milljónum USD í olíuleit á landgrunninu og oft nálægt hálfum milljarði USD. Í sumum tilvikum er ennþá meira lagt í olíuleitina, sem samt getur orðið árangurslaus. Orkubloggið hefur t.d. áður sagt frá árangurslausri olíuleit Cairn Energy við Grænland, sem nú hefur kostað nálægt 1,3 milljörðum USD! Annað dæmi er nýlegt einkaleyfi Shell utan við austurströnd Kanada, þar sem Shell skuldbatt sig til að verja nálægt milljarði USD í olíuleitina.

Ekki er auðvelt að sjá af hverju Orkustofnun ætti að gera minni fjárhagslegar kröfur en nú er gert þarna við austanvert Kanada. Það vill reyndar svo til að umrædd skuldbinding Shell nær yfir fjögur afmörkuð leitarsvæði (reiti). Þess vegna má kannski segja að tillaga Orkubloggarans um framkvæmdir sem feli í sér skuldbindingu upp á 200 milljónir USD vegna eins einkaleyfis sé ekki fjarri lagi - að því gefnu að einkaleyfið nái yfir einn reit.

Að vísu kann einhver að halda því fram að svæðið við austurströnd Kanada sé þekktara en Drekasvæðið og því sé áhætta Shell ekki mjög mikil. Og þess vegna sé fyrirtækið tilbúið  í svona mikla skuldbindingu. En staðreyndin er sú að ómögulegt er að segja hvort Shell finni þarna einhverja vinnanlega olíu. Það má alveg eins halda því fram að ávinningsvonin á Drekasvæðinu sé ekkert minni en þarna djúpt utan við Nova Scotia. Og að þess vegna sé engin ástæða til annars en að gera ámóta kröfur um fjárhagslega skuldbindingu á Drekasvæðinu eins og í umræddu leyfi Shell. Svo er reyndar athyglisvert að Kanadamennirnir leyfðu engum að bjóða í þetta svæði þarna utan við Nova Scotia nema þeim sem gátu sýnt fram á reynslu af olíuleit á hafsvæðum þar sem dýpið er meira en 800 m. Orkustofnun virðist ekki hafa gert slíkt skilyrði í útboðunum tveimur vegna Drekasvæðisins.

Oil-Semi-submersible-rig_Eirik-Raude_Ghana-Falklands

Það að Orkustofnun myndi setja skilyrði um einungis einn tilraunabrunn er sem sagt kannski of vægt skilyrði. Hætt er við að árangurinn af olíuleitinni verði afar lítill ef einungis á að miða við einn slíkan brunn. Þess vegna hefur Orkubloggarinn sett fram þá hugmynd að einkaleyfishafi ætti að skuldbinda sig til að bora allt að þrjá brunna. Og hefur þá miðað við að kostnaðurinn gæti orðið nálægt 450 milljónum USD (þetta er alls ekki nákvæm tala; þarna mætti alveg eins miða við fjárhæð sem væri t.d. 100 milljónum dollara meiri eða minni). Svo miklar rannsóknir einkaleyfishafa, þ.e. upp á nokkur hundruð milljónir dollara, eiga sér ekki bara fyrirmynd í rannsóknum og olíuleit við Grænland og Kanada. Heldur væri þetta t.d. líka í fullu samræmi við það sem hefur nýlega átt sér stað djúpum svæðum við Ghana, Falklandseyjar og víðar í olíubransanum á hafsbotninum.

Samkvæmt þessu væri kannski eðlilegt ef Orkustofnun myndi gera kröfu um að til að öðlast sérleyfi eða einkaleyfi á Drekasvæðinu þurfi einkaleyfishafinn að hafa fjárhagslegt bolmagn til að láta framkvæma rannsóknir sem kosti á bilinu 200-450 milljónir USD. Þetta skilyrði merkir ekki endilega að einkaleyfihafinn verði að bora tilraunabrunn eða -brunna, né að hann verði að eyða allri viðmiðunarupphæðinni í olíuleitina. Ef grunnrannsóknirnar sýna að það sé afar ólíklegt að eitthvað sé að finna á svæðinu, má hugsa sér að einkaleyfishafinn gæti skilað leyfinu án frekari rannsókna. Aftur á móti væri, sem fyrr segir, eðlilegt að Orkustofnun veitti ekki einkaleyfi nema viðkomandi umsækjandi um leyfið hafi fjárhagslegt bolmagn til að ráðast í að láta bora a.m.k. einn tilraunabrunn og jafnvel þrjá brunna.

Oil-DrillShip- DeepWater -Discovery

Að mati Orkubloggarans er þó varasamt að setja alltof ströng fjárhagsleg skilyrði á Drekasvæðinu. Því þá mun hugsanlega vera afar langt í að alvöru olíuleit fari þar af stað. Drekinn er í mikilli samkeppni við fjölda annarra landgrunnssvæða. Ef við viljum ekki geyma svæðið lengur og koma olíuleitinni í gang sem fyrst, er sennilega óráðlegt að setja mjög ströng skilyrði.

Á móti kemur að við viljum væntanlega reyna að tryggja að olíuleitin skili einhverjum lágmarksárangri. Þetta á ekki að verða eitthvert pjakk eða spákaupmennska, heldur alvöru olíuleit. Þess vegna mega skilyrðin ekki vera of væg. Munum líka að með sérleyfi eða einkaleyfi er verið að veita einkarétt til olíuleitar á afmörkuðu svæði á íslenska landgrunninu og forgangsrétt til vinnslu á því svæði. Slík réttindi kunna að reynast ákaflega verðmæt. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að einkaleyfishafi taki á sig verulega fjárhagslega áhættu gegn því að fá einkaleyfið. Það væri því sérkennilegt ef Orkustofnun myndi veita einkaleyfi til rannsókna og vinnslu án nokkurra skuldbindinga um tilraunaboranir.

Hér hefur ítrekað komið fram sú skoðun að kostnaðurinn af vandaðri olíuleit á einkaleyfissvæði innan Drekans verði a.m.k. nálægt 200 milljónum USD. Og að líklega yrði kostnaðurinn talsvert meiri. Í reynd er þetta þó nokkuð flóknara. Því væntanlega myndi svona einkaleyfi eða sérleyfi á Drekasvæðinu felast í framkvæmdaáætlun þar sem einstökum verkþáttum er nánar lýst og því hvaða skuldbinding fylgir hverjum verkþætti.

Þetta eru m.ö.o. nokuð flóknir samningar, en ekki bara einhver einhver ein blaðsíða með laufléttri tölu. En það er sem sagt, að mati Orkubloggarans, líklegt að Orkustofnun miði við að heildarskuldbindingin skv. einkaleyfinu og silyrðum þess muni hljóða upp á framkvæmdir sem kosti nálægt 200 milljónum USD. Annað væri a.m.k. varla trúverðugt og varla í samræmi við ákvæði olíulaganna um fjárhagslegt bolmagn til rannsókna og vinnslu. Kannski mun Orkustofnun gera mun meiri kröfur. En varla mikið minni. Að auki þarf einkaleyfishafinn svo auðvitað líka að uppfylla skilyrði um þekkingu og reynslu af olíuleit á svona svæðum. Og hafa nægilega öflugan rekstraraðila til taks gagnvart bæði rannsóknum og vinnslu. Og að geta sýnt fram á reynslu og þekkingu á því að fjármagna vinnslu ef til hennar kemur.

Umsækjendurinir virðast á mörkum þess að uppfylla fjárhagslega skilyrðið

Þá erum við loks komin að því að fjalla um spurninguna hversu fjársterkir umsækjendurnir á Drekasvæðinu eru! Eru þeir líklegir til að geta ráðist í rannsóknir sem myndu kosta allt að 200 milljónir USD?

Um íslensku fyrirtækin meðal umsækjendanna verður ekki fjölyrt hér - því þau eru einfaldlega svo lítil. Þess í stað verður látið nægja að beina athyglinni að erlendu olíufélögunum tveimur sem eru meðal þeirra sem sækja um einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu nú í öðru útboði Orkustofnunar.

Eins og greint hefur verið frá í fyrri færslu Orkubloggsins um Drekasvæðið, þá voru erlendu umsækjendurnir tvö fremur lítil bresk olíufélög; annars vegar Faroe Petroleum og hins vegar Valiant Petroleum. Bæði félögin hafa verulega reynslu af þátttöku í olíuleit í Norðursjó og svæðum þar í kring og dæmi eru um einkaleyfissvæði þar sem viðkomandi félög eru í hlutverki rekstraraðila. Þetta má því vel kalla alvöru olíufélög. Engu að síður virðist sem bæði félögin séu að fara inn á nýjar brautir með því að ætla að ráðast í verkefni á svo lítt þekktu svæði og svo miklu dýpi sem er á Drekasvæðinu. Í dag erum við þó fyrst og fremst að skoða fjárhagslegu getuna, en ekki faglegu getuna.

Faroe-Petroleum-logo-office

Ársreikningar félaganna sýna okkur að Valiant Petroleum er með innan við 390 milljónir USD í eigið fé, þ.e. í árslok 2011. Og handbært fé félagsins var þá einungis um 18 milljónir USD. Samsvarandi tölur fyrir Faroe Petroleum voru um 360 milljónir USD í eigið fé og um 175 milljónir USD í handbæru fé.

Þessi fyrirtæki myndu því engan veginn ráða við að fjármagna rannsóknir af því tagi sem t.d. Cairn Energy hefur ráðist í í olíuleit sinni við Grænland (á tveimur sumrum eyddi Cairn vel yfir milljarð USD í árangurslausa olíuleit á Baffinsflóa). Aftur á móti myndu líklega bæði Faroe Petroleum og Valiant hvort um sig ráða við skuldbindingar um framkvæmdir sem myndu kosta nálægt 200 milljónum USD. Þá væru félögin að vísu að leggja meira en helming alls eigin fjár undir í einungis eitt verkefni og því að taka geysimikla áhættu. En fræðilega séð hafa þau sem sagt fjárhagslegt bolmagn til að ráðast í rannsóknir og olíuleit á Drekasvæðinu og er þá miðað við það sem Orkubloggarinn álítur vera lágmarksskuldbindingu um framkvæmdir.

Hér er líka vert að nefna að erlendir sérfræðingar hafa sagt Orkubloggaranum að ef Faroe Petroleum og/eða Valiant hafa í alvöru áhuga á Drekasvæðinu, sé líklegt að þá muni koma til hlutafjáraukningar. Bæði þessi félög séu með fjársterka hluthafa að baki sér, sem kunni að láta félögin fá meira úr vösum sínum. Þ.e.a.s. ef þeir álíti að ávinningsvonin á Drekasvæðinu sé svo mikil að það sé áhættunnar virði að ráðast til atlögu við Drekann. Og þá er kannski vert að minnast þess að Terje Hagevang, yfirmaður Noregsskrifstofu Valiant, hefur sagt að íslenski hluti Drekasvæðisins hafi líklega (eða a.m.k. mögulega) að geyma tíu milljarða tunna af vinnanlegri olíu. Sem er ekkert smáræði.

Valiant-Petroleum-logo

Það virðist sem sagt vera svo að bæði Faroe Petroleum og Valiant Petroleum kunna að ráða við það fjárhagslega skilyrði sem líta má á sem lágmark til að öðlast einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu. En ef Orkustofnun myndi gera kröfu um tvo tilraunabrunna eða jafnvel fleiri eru þessi félög væntanlega út úr myndinni - að óbreyttu.

Þar með er alls ekki verið að gera lítið úr þessum félögum. Bæði Faroe Petroleum og Valiant hafa góðu fagfólki á að skipa og þetta eru tvímælalaust alvöru félög í olíubransanum. Veikleiki þeirra er bara sá að fjárhagslegt bolmagn þeirra virðist á mörkum þess að geta tekist á við svo lítt þekkt og djúpt svæði sem Drekasvæðið er. Og hvorugt félagið virðist hafa umtalsverða reynslu af slíkum svæðum. Umsækjendurnir núna um einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu geta því varla talist mjög sterkir - þegar horft er til sérstöðu Drekans. En kannski samt nógu sterkir?

Hvað gerir Orkustofnun?

Orkustofnun stendur væntanlega frammi fyrir þremur valkostum (hér er eingöngu horft til fjárhaglegu hliðar málsins): 

  1. Í fyrsta lagi að stofnunin hafni öllum umsóknunum á þeim grundvelli að þær uppfylli ekki skilyrði um fjárhagslegt bolmagn (og/eða faglega getu).
  2. Í öðru lagi er mögulegt að meira hlutafé og/eða fjársterkari félag/félög bætist í hóp umsækjendanna nú í útboðsferlinu (hvort svo sem það væri t.d. Statoil eða eitthvert annað félag). Og að Orkustofnun veiti þá a.m.k. eitt einkaleyfi (þetta gæti auðvitað einnig gert þriðju umsóknina - frá Eykon Energy - raunhæfa). 
  3. Og í þriðja lagi að Orkustofnun álíti að einhver umsókn eða umsóknir uppfylli nú þegar öll skilyrðin, þ.e. skilyrði um þekkingu, reynslu og fjárhagslegt bolmagn. Og veiti a.m.k. eitt eða jafnvel fleiri einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á afmörkuðum reitum innan Drekasvæðisins.
Dreki-Seismic-2D

Miklu skiptir að þeir sem fá einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu séu líklegir til að geta staðreynt hvort á viðkomandi einkaleyfissvæðum sé finna olíu eða gas í vinnanlegu magni. Það verður afar athyglisvert að sjá hvort Orkustofnun telji núverandi umsækjendur líklega til að ráða við slíkt verkefni.

Ef vel tekst til á Drekasvæðinu gætum við átt eftir að sjá hreint ótrúleg verðmæti koma þar upp úr djúpinu. Þau verðmæti gætu gert Íslendinga að hvorki meira né minna en langríkustu þjóð veraldarinnar (per capita) og um leið skapað einkaleyfishöfunum ævintýralegan arð.

En það eru mörgi ef'in þarna. Fyrirfram má líta á Drekasvæðið sem áhættusamt og erfitt svæði til olíuleitar, sem krefjist bæði mikillar þolinmæði og mikils fjármagns. Þess vegna varð Orkubloggarinn fyrir miklum vonbrigðum þegar í ljós kom að Orkustofnun hafði enn ekki náð að draga svo mikið sem eitt einasta af stóru félögunum að borðinu. Á meðan þaulreynd og stór olíufélög eins og ChevronConocoPhillips, ExxonMobil, EniGDF SuezShellStatoil og Total hafa öll sóst eftir einkaleyfum á nýlegum olíuleitarsvæðum í nágrenni Íslands, var ekkert þeirra þátttakandi í þeim umsóknum sem nú bárust um Drekasvæðið. Og er þó útboðið núna búið að eiga sér langan aðdraganda og hefur væntanlega verið kynnt afar vel bæði í Aberdeen, Houston, London, Moskvu, Stavanger og fleiri mikilvægum olíumiðstöðvum heimsins.

Oil-Ocean-Guardian-rig-1

Forstjóri Orkustofnunar hefur sagt opinberlega að umsóknirnar núna um einkaleyfi á Drekasvæðinu séu framar björtustu vonum. Af þeirri ástæðu einni virðist ólíklegt að stofnunin hafni öllum umsóknunum. Líklegra virðist að a.m.k. eitt einkaleyfi til rannsókna og vinnslu verði veitt og jafnvel fleiri. Að vísu virðist sem umsækjendurnir séu á mörkum þess að uppfylla lagalegu skilyrðin til að öðlast einkaleyfi. En mögulega mun Orkustofnun stilla kröfum sínum í hóf þegar hún metur hversu mikið fjárhaglegt bolmagn og hversu mikla reynslu einkaleyfishafi þarf að hafa til að hann geti ráðist í starfsemi á svæðinu. Og einhver umsækjandi eða umsækjendur fái þarna einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á afmörkuðum reitum.

Erfitt er að fullyrða hvort umsókn Faroe Petroleum eða Valiant sé álitlegri. Að vísu virðist Valiant hafa sáralítið handbært fé til taks og að því leyti vera veikari kandíat en FP. Á móti kemur að meðal hluthafa Valiant eru sterkir fjárfestar, sem gætu sennilega lagt félaginu til umtalsvert meira hlutafé. Kannski fá báðar þessar umsóknir brautargengi hjá Orkustofnun? Umsóknin frá Eykon Energy virðist aftur á móti vera út úr myndinni; það hafa a.m.k. enn engar fréttir borist af alvöru olíufélagi sem eigi aðild að þeirri umsókn. Það kann auðvitað að breytast og varla ástæða fyrir aðstandendur Eykons að pirrast yfir því að Orkubloggarinn skuli ekki enn taka umsókn þeirra alvarlega.

Sigurd-Fåvnesbane-norge-stamp

Svo er bara að vona að menn verði heppnir og að alvöru tilvonandi Fáfnisbani reynist vera meðal þeirra sem nú sækja um einkaleyfi á Drekanum. Það er samt hálfpartinn eitthvað bogið við það ef Statoil ætlar ekki að vera meðal frumkvöðlanna á Drekasvæðinu. Þetta er nú einu sinni hluti af hafsvæðinu milli Íslands og Jan Mayen, þar sem Íslendingar og Norðmenn eiga gagnkvæm réttindi skv. sérstökum þjóðréttarsamningi ríkjanna. Og sjálfir hafa Norðmenn að undanförnu verið að horfa til þess að byrja að leita að olíu og gasi í lögsögu sinni suður af Jan Mayen.

Þess vegna er líka svolítið erfitt að skilja af hverju íslensk stjórnvöld hafa ekki leitað eftir meira samstarfi við Norðmenn um útboðið. Með hina geysimiklu reynslu Norðmanna í huga, hefði hugsanlega verið mun farsælla að hafa þarna nánara samstarf eða jafnvel sameiginlegt útboð á svæðinu. Þó ekki væri nema sökum þess að þá hefði kynning á svæðinu sennilega orðið miklu meiri heldur en unnt var með þeim takmarkaða mannafla og því litla fé sem Orkustofnun hefur til svona verkefna.


Þarf Drekinn billion dollars?

Þrjár umsóknir um leyfi til einkaréttar á rannsóknum og vinnslu á Drekasvæðinu (hér eftir nefnd einkaleyfi til rannsókna og vinnslu eða sérleyfi) bárust nú í öðru útboði Orkustofnunar. Í síðustu færslu var niðurstaða Orkubloggarans sú að mögulega muni Orkustofnun álíta að tvær umsóknanna uppfylli lagakröfur um faglega getu umsækjenda til að öðlast slíkt sérleyfi. En að þriðja umsóknin sé væntanlega úti, því þar skorti að öllum líkindum að lagaskilyrði um sérþekkingu og reynslu séu uppfyllt.

Auk faglegrar getu þurfa einkaleyfis eða sérleyfishafarnir einnig að hafa fjárhagslegt bolmagn til að takast á við verkefnið. Í dag beinir Orkubloggið athyglinni að þessari fjárhagslegu hlið málsins.

Hversu mikil þarf fjárhagsleg geta sérleyfishafa að vera? 

Erfitt að sjá fyrir hvaða skilyrði Orkustofnun mun nákvæmlega setja um fjárhagslegan styrk sérleyfishafa á Drekasvæðinu. Lögin kveða á um að einungis megi veita leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis til aðila "sem að mati Orkustofnunar hafa nægilega sérþekkingu, reynslu og fjárhagslegt bolmagn til að annast þessa starfsemi" (sjá. 7. gr. olíulaganna nr. 13/2001; leturbreyting er Orkubloggarans). Með starfsemi virðist þarna vísað til  þess að geta framkvæmt eða látið framkvæma viðeigandi rannsóknir og leit OG ráðist í vinnslu ef til hennar kæmi.

Ocean-Rig-Corcovado-Offshore-Brazil

Í lögunum segir einnig að við ákvörðun um veitingu rannsókna- og vinnsluleyfis skuli "einkum taka mið af fjárhagslegri [...] getu umsækjenda" (sbr. 8. gr.). Olíulögin gera það sem sagt ítrekað að skilyrði einkaleyfis að einkaleyfishafar hafi einhvern lágmarks fjárhagslegan styrk. Þetta skilyrði er þó ekki afmarkað með skýrum hætti og ekki er að finna nánari skýringar eða skýrar fjárhagslegar viðmiðanir í öðrum lögum né heldur í s.k. lögskýringargögnum. Þarna hefði löggjafinn óneitanlega mátt vera aðeins nákvæmari, því það að fá einkarétt til rannsókna og vinnslu á afmörkuðu svæði er mikill ábyrgaðarhluti og slíkt sérleyfi getur líka reynst geysilega verðmætt.

Matið um það hvenær þetta nokkuð svo óljósa skilyrði um fjárhagslegt bolmagn til starfseminnar telst vera uppfyllt, er lagt í hendur Orkustofnunar. Samkvæmt orðum laganna virðist sem sérleyfishafinn eigi bæði að hafa fjárhagslegt bolmagn til að ráðast í olíuleit og í sjálfa olíuvinnsluna (eða eftir atvikum gasvinnsluna). Slíkt myndi sennilega aldrei kosta undir nokkrum milljörðum USD og þar með væru lögin að útiloka alla frá svæðinu nema hreint gríðarlega öflug olíufélög.

Cairn-Energy-Stena Don-night-1

Hugsanlegt er að Orkustofnun túlki fjárhagslega skilyrðið aðeins vægar. Svo sem að viðkomandi umsækjandi skuli hafa nægan fjárhagslegan styrk til að fjármagna þær rannsóknir sem þarf til að geta staðreynt hvort vinnanlega olíu eða gas sé að finna á viðkomandi sérleyfissvæði. Og að sérleyfishafinn skuli að auki geta sýnt fram á reynslu af því að fjármagna olíuvinnslu (og/eða gasvinnslu) ef sérleyfissvæðið reynist hafa að geyma olíu (og/eða gas) í vinnanlegu magni.

En hversu fjársterkur þarf sérleyfishafi að vera til að uppfylla slík skilyrði? Hversu fjársterkur þarf sá að vera sem ætlar að rannsakað vandlega tiltekin afmörkuð svæði á Drekanum og ráðast þar í þær framkvæmdir sem þarf til að staðreyna hvort á svæðinu sé að finna kolvetni í vinnanlegu magn? Reynum að svara þessu með því að leyta til fordæma:

Hversu miklum útgjöldum þurfa sérleyfishafarnir að vera viðbúnir?

Ekkert eitt rétt svar er til við umræddri spurningu. Kostnaður við olíuleit undir hafsbotni og undirbúning olíuvinnslu er afskaplega misjafn. En til samanburðar er áhugavert að líta til nýlegra skuldbindinga sérleyfishafa á öðrum nýjum og áhættusömum olíuleitarsvæðum á hafsbotni í nágrenni Íslands.

Leiv-Eiriksson-Oil Rig-1

Í því sambandi má t.d. horfa til sérleyfa við Grænland og við austurströnd Kanada. Norðursjór og Noregshaf eru aftur á móti varla eins góð viðmiðun. Þau svæði eru miklu betur þekkt en Drekasvæðið og hafdýpið almennt miklu minna. Þau eru því tæplega eins áhættusöm eins og Drekinn.

Meira að segja nýju olíuleitarsvæðin í Barentshafinu eru tæplega jafn áhættusöm og erfið eins og Drekasvæðið. Dýpið í Barentshafinu er mjög hóflegt og þar mun ekki vera neitt basalt að flækjast fyrir þeim sem rannsaka svæði til vinnslu á olíu og/eða gasi.

Til að finna hafsbotnssvæði í nágrenni við Ísland sem eru jafn djúp eins og Drekinn og ennþá fremur lítt þekkt, þurfum við að fara alla leið að landgrunnsbrúninni við austurströnd Kanada. Og við Grænland eru athyglisverð dæmi um lítt þekkt landgrunnssvæði þar sem menn eru að stíga sín fyrstu skref í olíuleit. Þess vegna er freistandi að líta til þess hvaða fjárhagslegu útgjöld eða skuldbindingar þekkjast í tengslum við sérleyfin á bæði kanadíska og grænlenska landgrunninu.

Cairn-Energy-Greenland-Leiv Eiriksson-oil-rig

Byrjum á Grænlandi. Þar hefur verið úthlutað nokkrum sérleyfum. Athyglisvert er að margir sérleyfishafarnir á grænlenska landgrunninu eru meðal stærstu og þekktustu olíufyrirtækja heimsins. Þar má t.d. nefna Shell og Statoil og bandarísku risana Chevron, ConocoPhillips og ExxonMobil  (því miður sótti enginn þessara risa um sérleyfi á Drekanum). Það er þó miklu minna þekkt félag sem hefur farið hraðast í olíuleitinni við Grænland. Þar er um að ræða skoska Cairn Energy.

Cairn Energy græddi hreint ógrynni fjár þegar félagið fann risaolíulind á Indlandi árið 2004. Eftir það makalausa indverska olíuævintýri er Cairn gríðarlega fjársterkt félag og tilbúið í ný og áhættusöm verkefni. Og skemmst er frá því að segja að á einu sumri (2011) eyddi Cairn um 900 milljónum USD í rannsóknir og leit við Grænland. Og á tveimur sumrum eyddi félagið samtals um 1,2 milljörðum USD í leitina við Grænland.

Sú olíuleit var engu að síður algerlega árangurslaus. Cairn Energy fann engin merki um olíu í vinnanlegu magni þarna í Baffinsflóanum. Og sturtaði þar með niður fjárhæð sem jafngildir um 150 milljörðum ISK. En olíuleitin við Grænland er bara rétt að byrja. Það að hafa spreðað þarna rúmum milljarði dollara í árangurslausa olíuleit á 2ja ára tímabili þykir vissulega ansið fúlt - en er samt ekkert ægilegt tiltökumál í olíubransanum. Og hér er vel að merkja einungis verið að tala um olíueitina (exploration). Ef Cairn hefði fundið olíu í vinnanlegu magni þarna á Baffinsflóa hefði næsta skref verið olíuvinnsla (operation). Sem er ennþá kostnaðarsamara verkefni!

Nova-Scotia-Shell-Deepwater-License-Map

Snúum okkur þá að öðrum góðum granna í vestri, þar sem nýtt og djúpt svæði var nýlega boðið út. Sem er landgrunnssvæði út af austurströnd Nova Scotia í Kanada. Eftir útboð á svæðinu leist Kanadamönnunum best á umsóknina frá Shell. Þar litu kanadísku ljúflingarnir ekki bara til geysilegrar reynslu Shell, heldur skipti ekki minna máli að Shell skuldbatt sig til að verja samtals 970 milljónum USD í leitina næstu sex árin. Já - aftur erum við að tala um stærðargráðuna billion dollars.

Það er líka athyglisvert að í sérleyfisútboðinu þarna djúpt austur af Nova Scotia leyfðu Kanadamennirnir einungis fyrirtækjum með mikla reynslu af borunum tilraunabrunna á meira en 800 m dýpi að setja fram boð (Orkustofnun virðist ekki hafa íhugað að setja slík skilyrði í Drekaútboðinu). Þetta umrædda kanadíska svæði er um 150 sjómílur utan við ströndina og hafdýpið þar er einmitt álíka mikið eins og á Drekasvæðinu. Shell veit sem er að ómögulegt er að fullyrða nokkuð um það hvort nákvæmlega þarna finnist olía eða gas í vinnanlegu magni. En þau hjá Shell vita líka að í hinum harða heimi olíubransans á djúpinu mikla er að hrökkva eða stökkva - jafnvel þó það kosti milljarð dollara. Þetta er bransinn sem Eykon, Jón í Byko, Olís og hin fyrirtækin eru að sækjast eftir að komast í.

Eru 200 milljónir USD algert lágmark? 

Afar ólíklegt og jafnvel ómögulegt er að unnt verði að fastsetja hvort einhverja vinnanlega olíu (eða gas) sé að finna á Drekanum nema með því að framkvæma a.m.k. einhverjar boranir á alla veganna einum sérleyfisreit. Slíkt myndi sennilega kosta a.m.k. á bilinu ca. 200-450 milljónir USD, en gæti þó jafnvel kostað mun meira.

Jon-Helgi-Byko

Þessi fjárhæð er miðuð við það að boraðir séu tveir til þrír tilraunabrunnar eða -holur. Hver slíkur brunnur kostar ekki undir 100 milljónum USD og stundum nær 150 milljónum USD. Þá er vel að merkja einungis átt við exploration cost en ekki development cost. Þetta eru glænýjar kostnaðartölur, sem Orkubloggarinn fékk hjá framkvæmdastjóra olíu- og auðlindadeildar eins stærsta banka í heiminum.

Hafa ber í huga að það væri sannkölluð hundaheppni ef svo fáir brunnar myndu duga til að finna vinnanlega olíu eða gas. Hin raunsanna mynd er miklu fremur að ekkert finnist fyrr en í fyrsta lagi eftir a.m.k. nokkrar boranir á nokkrum reitum. Og þá er kostnaðurinn auðvitað orðinn ennþá meiri.

Faroe_Petroleum_logo

Það er sem sagt mögulegt að staðreyna olíu og/eða gas á Drekasvæðinu fyrir upphæð sem er talsvert langt undir milljarði dollara. Með heppni gætu ca. 200 milljónir USD jafnvel dugað til að hitta í mark. Mun líklegra er þó að kostnaðurinn yrði a.m.k. 450 milljónir USD. Og það bara vegna leitarinnar. Þá er eftir að byggja upp sjálfa vinnsluna, en til þess myndi sennilega þurfa a.m.k. 2 milljarða USD í viðbót.

Nefna má að til að fá sérleyfið umrædda á landgrunninu utan við Nova Scotia, þurfti Shell þegar í stað að greiða rúmlega fjórðung upphæðarinnar inn á bankareikning. Shell reiddi sem sagt fram u.þ.b. 250 milljónir USD sem staðfestingargjald fyrir það eitt að fá einkaleyfi til rannsókna og mögulegrar vinnslu á tilteknum reitum á svæðinu. 

Cairn-Energy_Leiv-Eiriksson-Oil-rig-5

Rétt er er að minna á hver er ástæða þess að olíufyrirtæki eru tilbúin að verja svo miklum fjármunum í óvissa olíuleit á nýjum svæðum á landgrunninu. Ástæðan er einföld: Ef stór olíulind finnst, sem myndi skila sérleyfishafanum þó ekki væri nema 20-30 USD í hagnaði á hverja tunnu, gæti sú eina olíulind gefið af sér nokkra milljarða USD í hagnað

Sá hagnaður er mögulegur ef vel tekst til á Drekasvæðinu að því gefnu að verð fyrir olíutunnu haldist a.m.k. á bilinu 90-100 USD. Fyrir slíka ávinningsmöguleika eru sumir tilbúnir að hætta miklu fé. Og hækki olíuverð meira yrði hagnaðurinn meiri og jafnvel miklu meiri.

Terje-Hagevang-Sagex-Valiant

Í þessu sambandi má minna á að Norðmaðurinn Terje Hagevang, sem kemur að tveimur umsóknanna um Drekasvæðið, hefur sjálfur ítrekað lýst því yfir að svæðið kunni að hafa að geyma hvorki meira né minna en 20 milljarða tunna af vinnanlegri olíu. Og þar af séu 10 milljarðar tunna Íslandsmegin. Reynist þessi æpandi bjartsýnisspá Hagevang eiga við rök að styðjast er eiginlega með ólíkindum hvað umsóknirnar um Drekasvæðið voru fáar. Ef spá Terje gengur eftir gæti Drekasvæðið á endanum skilað a.m.k. 200-300 milljörðum USD í hagnað til sérleyfishafanna (fyrir skatta) og mögulega miklu meira. Það súra er bara að til að svo verði, þarf allt að ganga upp. Enn sem komið er veit enginn hvort einhver vinnanleg olía (eða gas) sé á Drekasvæðinu og tölurnar sem Terje Hagevang hefur nefnt eru enn bara óskhyggja. Þó svo auðvitað sé ekki útilokað að spáin hans rætist - og vonandi gerist það!

Valiant-web

Það er sem sagt mikil ávinningsvon á djúpinu mikla. En sá sem vill leggja á djúpið þarf jafnframt að taka mikla áhættu. Miðað við orðalagið í íslensku olíulögunum virðist sem Alþingi hafi viljað setja það sem skilyrði einkaleyfis til rannsókna og vinnslu að einkaleyfishafinn ráði við rannsónir og framkvæmdir upp á a.m.k. nokkur hundruð milljóna USD og jafnvel einnig að byggja upp vinnslu (lagabreyting væri æskileg til að skýra þetta betur). Á endanum er það þó Orkustofnun sem metur hæfi umsækjenda.

Niðurstaða 

Svarið við spurningunni í fyrirsögn þessarar færslu er já; til að staðreyna hvort vinnanleg olía sé á Drekasvæðinu þarf mögulega milljarð USD og jafnvel meira. Þá er bara átt við rannsóknirnar. Svo gæti þurft tvo milljarða USD í viðbót til sjálfrar olíuvinnslunnar eða jafnvel ennþá meira.

Oil-Platform-Nautilus-dry-tow

En það er líka mögulegt að unnt verði að finna olíu og/eða gas í vinnanlegu magni á Drekasvæðinu fyrir mun lægri fjárhæð. Menn gætu orðið heppnir og leitin á Drekasvæðinu gæti t.d. orðið bæði árangursríkari og ódýrari heldur en sú við Grænland. En það er óraunhæft að minna þurfi að kosta til alvöru olíuleitar á Drekasvæðinu en sem nemur 200-450 milljónum USD. Þess vegna virðist eðlilegast að Orkustofnun setji það skilyrði að einkaleyfishafi hafi fjárhagslegt bolmagn til að leggja a.m.k. 200 milljónir USD í rannsóknirnar.

Þó er mögulegt að Orkustofnun líti allt öðruvísi á málið. Þ.e. að stofnunin sé reiðubúin til að veita einkaleyfi til rannsókna og vinnslu á afmörkuðum reitum á Drekasvæðinu gegn mjög takmörkuðum skuldbindingum.

gudni-johannesson-orkustofnun

Slíkar takmarkaðar skuldbindingar gætu t.d. verið um einhverjar ekkert mjög þéttar bergmálsmálingar og sýnatöku. Slíkt myndi kosta langt undir þeim fjárhæðum sem hér hafa verið nefndar. Það gæti þó verið erfitt fyrir Orkustofnun að rökstyðja slíka aðferðarfræði, því olíulögin virðast gera kröfu um mun meiri og strangari skilyrði.

Á hinn bóginn er líka mögulegt að Orkustofnun túlki olíulögin nær því sem orðanna hljóðan virðist vera. Þ.e. að sérleyfishafar þurfi ekki aðeins að ráða við mjög dýra olíuleit, heldur líka að hafa fjárhagslegt bolmagn til að byggja upp vinnslu á olíu og gasi. Orð forstjóra Orkustofnunar um að umsóknirnar hafi verið framar björtustu vonum benda þó ekki til þess að þetta verði niðurstaðan.

Orkubloggarinn álítur sem sagt að til að öðlast sérleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu þurfi umsækjendur að uppfylla það skilyrði að geta a.m.k. kostað til sem nemur 200 milljónum USD í rannsóknir á viðkomandi svæði. Og þar að auki geta sýnt fram á getu til að bæði fjármagna og vera rekstraraðili olíu- og/eða gasvinnslunnar ef viðkomandi svæði reynist geta borið slíka vinnslu. Það gæti þó jafnvel verið skynsamlegra að setja ennþá strangari skilyrði um fjárhagslega getu, einfaldlega til að auka líkur á árangri. 

Þá er bara stóra spurningin hvaða fjárhagslegu kröfur Orkustofnun muni gera? Og hvað Íslendingarnir og bresku Faroe Petroleum og Valiant Petrolum eru tilbúin að setja mikið fjármagn í gin Drekans? Eru þessir umsækjendur tilbúnir að mæta kröfum um rannsóknir og prufuboranir upp á milljarð USD eða a.m.k. nokkur hundruð milljónir USD? Myndu þeir ráða við slíkar skuldbindingar? Eða munu umsækjendurnir alls ekki þurfa að undirgangast slíkar skuldbindingar, því Orkustofnun hyggist gera allt aðrar og minni kröfur? Um þetta verður fjallað nánar í næstu færslu Orkubloggsins.


Hver ræður við Drekann?

Síðustu færslu Orkubloggsins lauk með þeim orðum að næst yrði spáð í það hvort umsækjendurnir um Drekasvæðið séu nógu tæknilega og fjárhagslega sterkir til að Orkustofnun veiti þeim sérleyfi til rannsókna og vinnslu.

Þessari umfjöllun Orkubloggsins um tæknilega og fjárhagslega getu þeirra sem sækast eftir sérleyfum á Drekanum, verður skipt í tvennt. Í dag verður athyglinni beint að tæknilegri/ faglegri getu. Þ.e. hvort umsækjendurnir þrír nú í öðru útboði vegna Drekasvæðisins séu líklegir til að geta tekist á við verkefnið m.t.t. reynslu sinnar og sérþekkingar. Um fjárhagslegan styrk umsækjendanna verður svo fjallað í næstu færslu.

Sérleyfi til rannsókna og vinnslu

Hér í upphafi er rétt að taka fram að hafdýpi á Drekasvæðinu er víðast hvar mjög mikið, þarna er nákvæmlega engin reynsla af olíuborunum og allir innviðir olíubransans eru víðsfjarri. Drekasvæðið er m.ö.o. bæði dýrt og áhættusamt olíuleitarsvæði. En gefur jafnframt von um mikinn ávinning ef vel tekst til. 

Það er líka vert að minna á það, að fyrirtækin sem sóttu um sérleyfi á Drekasvæðinu eru ekki að falast eftir einföldu leyfi til olíuleitar. Heldur er þarna um að ræða umsóknir um einkaréttarleyfi á rannsóknum og vinnslu á afmörkuðum reitum (hér eftir nefnt sérleyfi). Í slíku sérleyfi felst bæði einkaleyfi til rannsókna á viðkomandi svæðum og forgangsréttiur til vinnslu.

Oil-exploration-seismic-ship-2

Um olíuleitina og sérleyfin segir í lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis; lög nr. 13/2001 sem hér eftir verða einfaldlega nefnd olíulögin. Sérleyfið gildir í ákveðinn tíma og ef til gas- og/eða olíuvinnslu kemur tekur við vinnslutímabil sem einnig gildir í tiltekinn tíma.

Samkvæmt lögunum getur svona einkaleyfi eða sérleyfi verið til allt að 12 ára, sem er þá rannsókna- og olíuleitartímabilið. Heimilt er að framlengja leyfið, þ.a. það gildi í allt að 16 ár. Á þessu tímabili fara fram margvíslegar og ítarlegar rannsóknir á viðkomandi svæði, þar sem leitað er vísbendinga um olíu og/ eða gas á svæðinu. Þessar rannsóknir geta t.d. falist í hljóðendurvarps- og fjölgeislamælingum, sýnatökum, borun grunnra rannsóknahola og djúpum tilraunaborunum.

E.h.t. á þessu rannsóknatímabili rennur upp sá tímapunktur sem menn í olíubransanum nefna "drill or drop". Finnist nokkuð skýr merki um olíu á sérleyfissvæðinu er eina leiðin til að staðreyna hvort hún sé í vinnanlegu magni oft sú að bora djúpt undir hafsbotninn (drill) og þá jafnvel nokkra brunna. Sýni rannsóknirnar aftur á móti ekki merki um vinnanlega olíu er alls ekki jafn freistandi að leggjast í miklar boranir. Sérleyfið kann þá að vera látið renna út eða vera skilað (drop). Eftir atvikum gæti sérleyfishafinn framselt sérleyfið til annarra sem vilja taka upp þráðinn, en það gerist þó einungis með samþykki Orkustofnunar.

Oil-semi-submersible_Sedco-706-rig_North-Sea_winter- 2000-01

Jákvæð útkoma úr rannsóknum á vegum sérleyfishafa á Drekasvæðinu myndi þýða að eftir allt að 16 ára rannsóknatímabil tæki við vinnslutímabil. Samkvæmt olíulögunum á viðkomandi sérleyfishafi forgangsrétt til vinnslu á svæðinu til allt að 30 ára.

Sérleyfi veitir sérleyfishafanum réttindi sem geta reynst ákaflega verðmæt. Um leið tekst sérleyfishafinn ýmsar skyldur á herðar, sem lúta að bæði rannsóknunum og vinnslunni ef til hennar kemur. Þar getur verið um að ræða framkvæmdir sem fela í sér geysilega miklar fjárhagslegar skuldbindingar.

Vert er að hafa í huga að olíuleit og -vinnsla á djúphafssvæðum er alveg sérstaklega dýr og áhættusöm. Enda fóru menn ekki að horfa til olíunnar á djúphafssvæðunum fyrr en fyrir fáeinum árum, þegar olíuverð tók að hækka hratt þ.a. slík vinnsla fór að borga sig. Í dag er lágmarksolíuverð sem réttlætt getur vinnslu á djúphafssvæðum oft sagt vera í kringum 70 USD. Djúphafssvæðin eru sem sagt almennt bæði tæknilega flóknari og fjárhagslega áhættusamari verkefni heldur en hefðbundin olíuvinnsla á landgrunninu. Þess vegna er langt í frá að hvaða olíufélag sem er geti farið með svona verkefni alla leið. Það skiptir því afar miklu hverjir sérleyfishafarnir á Drekasvæðinu koma til með að verða.

Hvaða skilyrði setur Orkustofnun? 

Drekasvæðið krefst mikillar tækniþekkingarreynslu og áhættufjármagns. Því er ekki skrítið að í olíulögunum segir að Orkustofnun megi einungis veita sérleyfi til aðila sem að mati stofnunarinnar hafa nægilega sérþekkingu, reynslu og fjárhagslegt bolmagn til að annast umrædda starfsemi. Í lögunum segir einnig að við veitingu rannsókna- og vinnsluleyfis skuli einkum taka mið af fjárhagslegri og tæknilegri getu umsækjenda, að vinnsla auðlindar sé hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og á hvaða hátt framlögð  rannsóknaráætlun getur náð settu markmiði.

OS-logo-english

Þarna er Orkustofnun með sínu faglega mati falin gríðarleg ábyrgð. Af olíulögunum leiðir að við mat á sérleyfisumsóknum ber Orkustofnun að leggja ríka áherslu á bæði tæknilega og fjárhagslega getu umsækjendanna og horfa til þess hvaða reynslu þeir hafa. Skilyrðin sem Orkustofnun getur sett sérleyfishöfum eru engu að síður nokkuð sveigjanleg. Þess vegna er niðurstaðan um það hverjir fá sérleyfi á Drekasvæðinu í reynd mjög háð mati stofnunarinnar. 

Þarna vakna ýmsar spurningar. Mun Orkustofnun t.d. álíta að einungis eitt fremur lítið olíufélag ásamt fáeinum íslenskum fjárfestum/ fyrirtækjum sé fullnægjandi sterkur umsækjandi til að öðlast sérleyfi? Eða mun stofnunin gera kröfu um að til að öðlast sérleyfi þurfi sérleyfishópur að innihalda olíufélag með mikla reynslu af rannsóknum og borunum á djúphafssvæðum? 

Stena-don-3

Einnig má velta fyrir sér hvort sérleyfishöfunum verði gert skylt að bora t.d. þrjá eða fjóra brunna á hverjum úthlutuðum leitarreit? Slíkt er oft talið eðlilegt og nauðsynlegt til að ná árangri í olíuleit á á lítt þekktum landgrunnssvæðum. Eða verður bara sett skilyrði um nokkrar laufléttar bergmálsmælingar og svo sem eins og eina smávægilega tilraunaholu?

Stóra spurningin er sem sagt hversu ríkar kröfur Orkustofnun mun gera. Eðlilegast væri að stofnunin horfi þar til skilyrða sem tíðkast á svæðum sem eru í svipuðum erfiðleikaflokki eins og Drekasvæðið. Þetta myndi sennilega útiloka að notast við sambærileg skilyrði eins og sjá má í Norðursjó, hvort sem er í lögsögu Bretlands, Danmerkur eða Noregs. Í Norðursjónum er t.d. hafdýpið almennt miklu minna en á Drekasvæðinu og því kallar Norðursjórinn ekki á sömu þekkingu á djúptækninni. Með svipuðum rökum er einnig líklegt að skilyrði vegna Drekasvæðisins verði mun strangari en t.d. þau sem almennt má sjá í Noregshafi.

Dreki-Jan-Mayen-Ridge

En hvaða svæði gætu verið besta fyrirmyndin fyrir Orkustofnun við ákvörðun á skilyrðum vegna sérleyfa? Hvaða svæði minna mest á Drekasvæðið? Við þeirri spurningu er ekkert eitt einfalt svar. En þarna gæti verið freistandi að nefna djúp svæði utan við austurströnd Kanada, þar sem ný sérleyfi eru einmitt að líta dagsins ljós. Svo mætti mögulega einnig horfa til þess sem hefur verið að gerast við Grænland. Þar hófst alvöru olíuleit fyrir fáeinum árum og þó svo hafdýpið þar sé ekki nærri eins mikið eins og finnst á Drekanum, þá eru þetta hvort tveggja lítt þekkt svæði og áhættan að ýmsu leyti sambærileg. Loks er freistandi að líta til annarra djúpra svæða þar sem komin er hvað mest reynsla á olíurannsóknir og uppbyggingu á olíuvinnslu. Þar er ytri hluti Mexíkóflóans nærtækur til viðmiðunar.

Deepwater_horizon_burning_sinks

Þetta síðastnefnda leiðir hugann að slysinu sem varð á Mexíkóflóa í apríl 2002. Þegar olíuborpallurinn Deepwater Horizon nánast sprakk, þar sem hann var að bora tilraunaholu á um 1.500 m hafdýpi á reit 252 á s.k. Macondo-svæði. Fjöldi manna fórst og olíumengunin í flóanum varð svo mikil að þetta er talið eitt af allra mestu umhverfisslysum í sögu Bandaríkjanna.

Slysið hafði m.a. þær afleiðingar að víða eru nú gerðar mun ríkari kröfur um öryggi og mengunarvarnir í tengslum við svona landgrunnsboranir. Væntanlega mun Orkustofnun einmitt leggja mikla áherslu á að sérleyfishafar uppfylli bæði ströng skilyrði um öryggiskröfur og varnir gegn mengun. Það gæti orðið afar kostnaðarsamt fyrir sérleyfishafana.

Sá sem hefur með höndum rannsóknir og boranir á landgrunninu þarf sem sagt að uppfylla margvíslegar skuldbindingar og skilyrði. Hvaða skyldur Orkustofnun mun leggja á sérleyfishafana er ekki unnt að fullyrða um, enda fjalla olíulögin og reglugerð sem á þeim byggir einungis um þetta með mjög almennum hætti. En augljóslega skiptir alveg sérstaklega miklu máli hver það nákvæmlega verður sem mun sjá um reksturinn á svæðinu (í þessu sambandi er talað um rekstraraðila eða það sem nefnist operator á ensku). Þess vegna er rétt að skoða hverjir koma þar til greina, skv. þeim umsóknum sem nú liggja fyrir. Hver eða hverjir munu bera meginábyrgðina á rannsóknunum á Drekasvæðini og undirbúningi olíuvinnslu þar?

Hverjir verða operators á Drekasvæðinu? 

Skilyrðin sem Orkustofnun mun setja fyrir sérleyfum ná bæði til sérleyfishafans sjálfs og einnig til rekstraraðilans. Rekstraraðilinn er sá sem stjórnar starfseminni á svæðinu og hann gegnir því afar þýðingarmiklu hlutverki. Þó svo gerð sé krafa um að allir leyfishafarnir hafi sérþekkingu og reynslu af svona rannsóknum og vinnslu, má búast við að alveg sérstaklega ríkar kröfur verði gerðar til fyrirtækisins sem er operator.

Stena Don

Kannski er rétt að skýra þetta aðeins nánar, þ.e. af hverju sumir sérleyfishafanna koma ekkert að framkvæmdum eða rekstri olíusvæða. Í olíuvinnslu heimsins er mjög algengt það fyrirkomulag að nokkur félög standi saman að sérleyfis-umsóknum. En einungis eitt þeirra hafi umsjón með rannsóknunum og framkvæmdum á viðkomandi reit(um). Það félag er þá nefnt rekstraraðilinn (operator). Hin félögin sem eru leyfishafar eða hluthafar í viðkomandi sérleyfi eru aftur á móti nánast óvirkir fjárfestar í leyfinu (hafa þó stundum eitthvað meira hlutverk).

Ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi er m.a. sú að dreifa áhættunni. Olíufélög eiga t.d. gjarnan 10-40% hlut í fjölda sérleyfa. Þegar þannig er um hlutina búið minnka líkurnar á að það verði algert rothögg þó að sum og jafnvel mörg sérleyfi og dýrar rannsókir skili engum árangri eða mjög litlum. Nóg er að einungis fáein sérleyfanna skili mjög ábatasamri olíuvinnslu og tryggi þannig olíufélaginu bærilega arðsemi.

Oil-Gulf-of-Mexico-deepwater-operators

Oftast eru það stóru olíufélögin sem eru rekstraraðilinn á hafsbotnssvæðunum - og það er svo til algilt á djúphafssvæðunum. Þar má þó stundum sjá meðalstór og áhættusækin félög í hlutverki rekstraraðila og þá jafnvel sem stór hluthafi í sérleyfinu. Á djúphafssvæðunum eru lítil félög aftur á móti sjaldnast áberandi og sjást þá í mesta lagi sem litlir hluthafar í sérleyfum.

Á auðveldari og ódýrari svæðum kýla lítil félög aftur á móti gjarnan á það að eiga stóran hlut í fáeinum sérleyfum (jafnvel allt að 100% hlut) og eru þá stundum sjálf rekstraraðilinn. Eðli málsins samkvæmt er slíka strategíu lítilla félaga helst að finna á olíuvinnslusvæðum sem eru vel þekkt. Þ.e. á svæðum þar sem olíuvinnsla á sér langa sögu og mikil fyrirliggjandi þekking er á jarðfræði og jarðsögu svæðisins. Rannsóknir og vinnsla á nýjum reitum á slíkum svæðum er ekki eins hrikalega áhættusöm eins og t.d. á nýjum djúphafsvinnslusvæðum. Á þeim síðastnefndu eru stóru olíufélögun nær allsráðandi sem operators.

Thunder-Horse-semi-submersible-Platform-Gulf-of-Mexico

Það eru vel að merkja einungis örfá ár síðan olíubransinn fór út á djúpið mikla. En þegar olíuverð var orðið nægilega hátt jókst mjög að stóru og meðalstóru fyrirtækin færu í rannsóknir og olíuvinnslu á djúpum hafsvæðum. Eins og t.d. utarlega á Mexíkóflóa og út af ströndum Angóla.

Á slíkum svæðum er algengast að rekstraraðiliinn sé ávallt sjálfur beinn aðili að viðkomandi sérleyfisumsókn og oft er hann stærsti hluthafinn í sérleyfinu. Af íslensku olíulögunum virðist aftur á móti sem það sé ekki skilyrði að rekstraraðilinn sé beinn aðili að sérleyfinu. Þess í stað virðist nóg að sérleyfishafarnir hafi tryggt samning við rekstraraðila áður en sérleyfi er gefið út. En í reglugerð nr. 884/2011 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis er aftur á móti gert ráð fyrir að rekstraraðilinn komi beint að sérleyfinu. Þetta er svolítið óheppilegt misræmi. En Orkustofnun mun væntanlega gera þá kröfu að sérhver umsækjendahópur uppfylli það skilyrði að hafa innan sinna vébanda tilgreindan rekstraraðila, með nægjanlega þekkingu og reynslu til að ráðast í olírannsóknir og byggja upp og stunda olíuvinnslu. Þá er bara spurningin hverjir af umsækjendunum núna verða í hlutverki rekstraraðila?

Tækniþekkingin á olíurannsóknum og -vinnslu kemur utan frá 

Þrjár umsóknir bárust um einkarétt til rannsókna og vinnslu á tilteknum reitum nú í öðru útboðinu vegna Drekans. Þessar sérleyfisumsóknir voru í fyrsta lagi frá Eykon Energy, í öðru lagi frá Kolvetni ehf. og Valiant Petroleum og í þriðja lagi frá Íslensku kolvetni ehf. og Faroe Petroleum. Um það hvaða fyrirtæki þetta eru og hvaða íslensku hluthafar eru þar að baki vísast til síðustu færslu Orkubloggsins.

heidar-mar-arion_gudjonsson-oliuleit

Þegar litið er til sérþekkingar og reynslu verður ekki séð að neinn af þeim sem standa að umsókn Eykon Energy uppfylli skilyrði um að geta verið rekstraraðili. Þar er einfaldlega ekki neinn aðili með nægilega sérþekkingu og reynslu af svona starfsemi. Það eitt og sér virðist nánast útiloka að þessi sérleyfisumsókn fái brautargengi hjá Orkustofnun. Í þessu sambandi má kannski nefna að óstofnað og reynslulaust raforkufyrirtæki hefði t.d. seint fengið úthlutað virkjunarleyfi við Kárahnjúka. Og er þó áhættan þar miklu minni en í olíubransanum.

Að vísu er möguleiki á að sterkur samstarfsaðili Eykons dúkki upp meðan á umsóknarferlinu stendur. Því Heiðar Már Guðjónsson hefur sagt í fjölmiðlum að Eykon Energy sé í samstarfi við þekkta alþjóðlega fjárfesta og alþjóðleg olíuleitarfyrirtæki sem hafi reynslu af svipuðum og jafnvel erfiðari slóðum heldur en Drekasvæðið er. En hverjir þetta eru hefur ekki komið fram opinberlega og varla ósanngjarnt að segja að það dragi úr trúverðugleika umsóknarinnar.

Stena Don-2

Það er ekki bara Eykon Energy sem skortir þekkingu og reynslu á olíurannsóknum og -vinnslu. Þetta gildir í reynd um alla íslensku umsækjendurna, sem koma að umsóknunum þremur. Einhver íslensku fyrirtækjanna kunna að vísu að geta lagt til ýmsa þekkingu sem myndi nýtast við framkvæmd verkefnanna. Sbr. einkum verkfæðifyrirtækið Mannvit og kannski líka Verkís, en þau eiga aðild að tveimur umsóknanna. Fyrst og fremst virðist þó sem þátttaka íslensku umsækjendanna sé einfaldlega hugsuð sem áhættufjárfesting og/ eða tækifæri til að selja þjónustu sína til viðkomandi verkefna.

Það er sem sagt nokkuð augljóst að mestöll faglega þekkingin, sem er eitt skilyrðanna fyrir veitingu sérleyfis, þarf að koma erlendis frá. Þ.e. frá erlendu olíufélögunum sem aðild eiga að sérleyfisumsóknunum. Þar er um að ræða bresku fyrirtækin Faroe Petroleum og Valiant Petroleum. Þau félög eru því væntanlega í hlutverki rekstraraðilans í þeim tveimur sérleyfisumsóknum sem félögin eiga aðild að.

Er fagleg þekking og reynsla Faroe Petroleum og/eða Valiant nægjanleg? 

Bæði Faroe Petroleum og Valiant búa yfir töluverðri reynslu og bæði eru þessi félög þátttakendur í fjölmörgum sérleyfum t.a.m. í Norðursjó. Í flestum tilvikum eru þau reyndar aðeins hluthafar í verkefnum og þá oft einungis með lítinn hlut. Þó eru dæmi um verkefni þar sem þau eru stórir hluthafar og operators. Við fyrstu sýn kunna þetta því að sýnast bærilega sterkir umsækjendur um sérleyfi til olíurannsókna og -vinnslu á Drekasvæðinu.

Faroe-Petroleum_Maersk-Guardian_jack-up rig

Það er samt ekki hægt að horfa framhjá því að þessi tvö félög virðast aldrei hafa verið operators á jafn lítt þekktu og djúpu hafsvæði sem Drekasvæðið er. Og tjakkborarnir sem Faroe Petroleum rekur í Norðursjónum eru ansið hreint óralangt frá vísindaskáldsögulegum fljótandi djúphafspöllunum eða rándýrum djúpsjávar-borskipunum sem þarf á Drekasvæðið.

Fyrirfram hefði Orkubloggarinn aldrei búist við því að Faroe Petroleum myndi sækja um sérleyfi á Drekasvæðinu nema í samstarfi við sterkara og reyndara félag eins og t.d. Statoil. Sama má mega segja um Valiant; einnig þar virðist vera fremur takmörkuð þekking á framkvæmdum á svona djúpum og lítt þekktum svæðum.

Á endanum veltur þetta þó alfarið á því hvaða skilyrði Orkustofnun setur. Ef stofnunin hyggst einungis gera kröfu um smáræðis bergmálsmælingar og enga tilraunabrunna, þá munu bæði Faroe Petroleum og Valiant væntanlega ráða prýðilega við að koma því í kring. Að því búnu myndu félögin svo túlka niðurstöður þeirra mælinga og út frá því taka ákvörðun um hvort viðkomandi svæði sé áhugavert til borana eða hvort frekari rannsóknir séu lítt spennandi.

Gallinn er bara sá að litlar rannsóknir og lítil skilyrði gagnvart sérleyfishöfum á Dreksvæðinu myndu takmarka möguleikann á árangri og því að fá skýra mynd af viðkomandi svæðum. Til að öðlast betri skilning af því hvað raunverulega er að finna á Drekasvæðinu, væri æskilegt að Orkustofnun bindi sérleyfin því skilyrði að nokkuð umfangsmiklar tilraunaboranir fari fram á hverjum reit. Þá yrði svæðið sennilega á mörkum þess að vera viðráðanlegt fyrir Faroe Petroleum og Valiant og boða þyrfti til nýs útboðs. Orkustofnun mun varla fara þá leiðina strax, heldur skoða framkvæmdasögu þessara tveggja fyrirtækja mjög nákvæmlega og út frá því meta hvort þau séu álitleg sem sérleyfishafi og jafnvel rekstraraðili á Drekanum.

Niðurstaða 

Að mati Orkubloggarans er alls ekki augljóst að nokkurt af þeim fyrirtækjum sem eiga aðild að umsóknunum þremur hafi nægilega sérþekkingu og reynslu til að annast þá starfsemi á Drekasvæðinu sem umsóknirnar lúta að. Það hvort sérleyfi verði veitt einhverju þeirra fer þó auðvitað eftir því hvernig Orkustofnun túlkar skilyrðin í olíulögunum.

Sérstaklega er vandséð að Eykon Energy uppfylli umrædd fagleg skilyrði. Nema ef nýr og mjög öflugur aðili komi að umsókninni núna í umsóknarferlinu eða að slíkur aðili leynist að baki fyrirtækinu Dreki Holding, sem mun vera einn hluthafanna í hinu óstofnaða fyrirtæki Eykon Energy. En eins og umsókn Eykons var kynnt í fjölmiðlum virkar hún hvorki sterk né trúverðug.

Cairn- Energy_Stena Don-1

Mögulegt er að Kolvetni ehf. og Valiant Petroleum verði af Orkustofnun álitin uppfylla almennu faglegu skilyrðin. Einnig er mögulegt að Íslenskt kolvetni ehf. og Faroe Petroleum teljist af hálfu Orkustofnunar uppfylla umrædd skilyrði. Í báðum tilvikum hlýtur það þó að veikja umsóknir þessara fyrirtækja hversu litla reynslu þau hafa af hafsbotnssvæðum sem eru svo lítt þekkt og djúp.

En áður en Orkubloggarinn lætur sitt endanlega álit í ljós er auðvitað nauðsynlegt að skoða einnig fjárhagslegan styrk umsækjendanna. Auk faglegrar sérþekkingar og reynslu þurfa sérleyfishafarnir skv. olíulögunum jú einnig að hafa fjárhagslegt bolmagn til að takast á við verkefnið. Og þegar um er að ræða rannsóknir og olíuleit á djúphafssvæðum er ekki verið að tala um neinar smá upphæðir.

Hvaða fjárhagslegu skilyrði er eðlilegt að Orkustofnun setji sérleyfishöfunum? Þessi fjárhagslega hlið málsins verður skoðuð í næstu færslu Orkubloggsins.


Framar björtustu vonum?

Öðru útboði Orkustofnunar um sérleyfi til rannsókna og olíuvinnslu á Drekasvæðinu á íslenska landgrunninu lauk nú í vor. Það skýrist svo væntanlega fljótlega hvort einhver eða einhverjir af umsækjendunum fái slíkt sérleyfi.

Dreki-licensing-round-2-2012-blueFyrsta sérleyfisútboðið á Drekasvæðinu skilaði ekki árangri. Það fór fram vorið 2009, en þá bárust einungis umsóknir frá tveimur fremur litlum norskum fyrirtækjum. Bæði drógu þau umsóknir sínar um sérleyfi til baka og því þurfti Orkustofnun aldrei að taka afstöðu til umsóknanna. Núna 2012 var áhuginn aðeins meiri. Þrjár umsóknir bárust eftir annað útboðið. Þar að baki standa tvö erlend félög og þrjú íslenskt félög.

Orkustofnun virðist mjög sátt við umsóknirnar. Í fjölmiðlum var haft eftir Guðna Jóhannessyni, forstjóra Orkustofnunar, að útkoman hefði verið mjög góð og framar björtustu vonum. Þarna vísar Guðni til eftirfarandi umsókna:

1) Eykon Energy.

Eyjolfur-Konrad-1

Fyrstur umsækjandanna (í stafrófsröð) er óskráð félag, sem skv. fréttatilkynningu Orkustofnunar nefnist Eykon. Í fréttum hefur félagið verið kallað Eykon Energy, en það virðist reyndar enn ekki hafa verið skráð hjá fyrirtækjaskrá.

Eykon Energy mun vera nefnt í höfuðið á þingmanninum Eyjólfi heitnum Konráð Jónssyni, sem var áhugasamur um að tryggja landgrunnsréttindi Íslands. Samkvæmt fréttum er Heiðar Már Guðjónsson í forsvari fyrir félagið, en auk hans munu eigendur Eykon Energy vera þeir Gunnlaugur Jónsson (frkv.stjóri hjá Lindum Resources), Jón Einar Eyjólfsson (sonur Eyjólfs Konráðs), Ragnar Þórisson (einn stofnenda Boreas Capital) og Norðmaðurinn Terje Hagevang.

Terje-Hagevang-Norge

Umræddur Terje Hagevang var einmitt framkvæmdastjóri Sagex, sem sótti um rannsókna- og vinnsluleyfi í fyrsta útboði vegna Drekasvæðisins árið 2009. Sú umsókn var, eins og áður sagði, dregin til baka áður en til þess kæmi að Orkustofnun tæki formlega afstöðu til umsóknarinnar. Síðar var Sagex keypt af breska félaginu Valiant Petroleum og Terje Hagevang varð starfsmaður Valiant.

Í fréttum íslenskra fjölmiðla af útboðinu hefur ítrekað verið sagt að Hagevang sé nú forstjóri Valiant, en svo er alls ekki. Hið rétta mun vera að Hagevang sé yfirmaður Noregsskrifstofu Valiant. En Hagevang er sem sagt í samstarfi með nokkrum Íslendingum, sem kenna sig við Eykon og óska eftir sérleyfi til rannsókna- og vinnslu á Drekasvæðinu.

2) Kolvetni ehf. og Valiant Petroleum.

Terje Hagevang gerir það ekki endasleppt. Auk þess að vera með í áðurnefndri umsókn Eykon Energy mun hann einnig vera aðili að annarri umsókn um rannsókna- og vinnsluleyfi á Drekasvæðinu. Því Hagevang er sagður vera hluthafi í íslensku félagi sem nefnist Kolvetni ehf. Það félag er umsækjandi um sérleyfi í samfloti við breska félagið Valiant Petroleum. Þarna er Hagevang því hluthafi í íslensku félagi sem sækir um sérleyfi og vinnuveitandi hans er meðumsækjandi.

Gunnlaugur-Jonsson-1

Samkvæmt fréttum fjölmiðla eru hluthafar í Kolvetni ehf., auk Hagevang, þeir Jón Helgi Guðmundsson (oftast kenndur við BYKO) og áðurnefndur Gunnlaugur Jónsson, sem einnig er sagður vera hluthafi í Eykon Energy. Fjórði hluthafinn í Kolvetni ehf. er svo verkfræðifyrirtækið Mannvit.

Þeir Jón Helgi og Gunnlaugur hafa unnið saman í íslenska fjárfestingafélaginu Lindir Resources, sem var á tímabili stærsti hluthafinn í norska Sagex, hvar Hagevang var einmitt framkvæmdastjóri. Þegar svo Sagex rann inn í Valiant Petroleum hafa Lindir væntanlega orðið hluthafi þar. Þessi umsóknarhópur er því tengdur innbyrðis með ýmsum hætti, ef svo má að orði komast. Valiant Petroleum er skráð á hlutabréfamarkaðnum í London (AIM Index).

3) Íslenskt kolvetni ehf. og Faroe Petroleum.

Þá er það þriðja umsóknin. Að henni standa breska félagið Faroe Petroleum og íslenska félagið Íslenskt kolvetni ehf. Faroe Petroleum var upphaflega stofnað vegna olíuleitar á færeyska landgrunninu, en hefur upp á síðkastið meira einbeitt sér að landgrunni Bretlands. Enda hefur færeyska olíævintýrið látið á sér standa.

KNOC-logo-2

Rétt eins og Valiant þá er Faroe Petroleum skráð á hlutabréfamarkaði í London (AIM). Stærsti hluthafinn í Faroe Petroleum er breska Dana Petroleum, sem er í eigu suður-kóreaska olíufélagsins Korea National Oil Corporation. Kóreumenn eru sem sagt með talsverð olíumsvif í Norðursjó og víðar. Kóreska félagið er þó ekki beinn aðili að umræddri umsókn Faroe Petroleum og Íslensks kolvetnis ehf. um sérleyfi á Drekasvæðinu.

Íslensku kolvetni ehf. standa þrjú íslensk fyrirtæki. Þau eru verkfræðistofan VerkísOlís (Olíuverslun Íslands) og fjárfestingafélag sem nefnist Dreki Holding. Fyrirtækin Verkís og Olís eru auðvitað vel kunn öllum lesendum Orkubloggsins. En bloggarinn hefur því miður ekki upplýsingar um hverjir standa að Dreki Holding; skv. fréttum eru það einhverjir Íslendingar en t.d. ekki nein félög úr olíubransanum.

Ekkert af stóru félögunum sótti um Drekann

Velta má fyrir sér hvort þetta séu sterkir umsækjendur. Kannski jafnvel svo sterkir að þeir séu framar björtustu vonum eins og forstjóri Orkustofnunar orðaði það? Um það eru sjálfsagt deildar meiningar.

Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða hvaða félög hafa fyrst og fremst verið að fá leyfi í útboðum á færeyska og grænlenska landgrunninu og á öðrum nýjum olíuleitarsvæðum í nágrenni Íslands. Þarna eru risafélögin áberandi; olíufélög eins og bandarísku ChevronConocoPhillips, og ExxonMobil, frönsku GDF Suez og Total, ítalska Eni, bresk-hollenska Shell og síðast en ekki síst norska Statoil. En ekkert þessara félaga sótti um Drekasvæðið.

Dreki-FP-Statoil-2012

Ekki sóttust heldur dönsku nágrannar okkur hjá Mærsk Oil eða  Dong Energi eftir að komast á Drekann. Og heldur ekki ýmis þaulreynd félög sem kalla má áhættusækin, eins og t.d. Cairn EnergyLundin PetroleumNoble Energy eða Talisman.

Flest ofangreind félög eru með umtalsverða reynslu frá olíusvæðum í nágrenni Íslands. Af einhverjum ástæðum hefur fimm ára undirbúningur olíuteymis Orkustofnunar ekki ennþá náð að vekja áhuga eins einasta af þessum félögum á Drekasvæðinu. Reyndar bjuggust einhverjir við umsókn frá Statoil nú í öðru útboðinu. En þegar til kom skilaði hún sér því miður ekki. 

Hversu áhættusamt er Drekasvæðið?

Drekasvaedid-norska-islenska

Athyglisvert er að minnast þess að ítrekað hefur verið haft eftir áðurnefndum Terje Hagevang að íslenska Drekasvæðið kunni að hafa að geyma heila 10 milljarða tunna af vinnanlegri olíu! Það er því kannski ekki skrýtið að Hagevang sé hluthafi í tveimur félögum sem eru meðal umsækjenda um þessi þrjú sérleyfi sem nú er sótt um á Drekasvæðinu.

En þó svo Drekinn kunni að hafa olíu og gas í iðrum sínum og það jafnvel í miklu magni, þá gæti allt eins verið að ekki sé þarna deigan dropa að finna. Vert er að hafa í huga að Drekasvæðið er fremur lítið þekkt svæði og nokkuð fjarri öllum innviðum olíuleitar. Þarna er nákvæmlega engin reynsla af olíuborunum eða -vinnslu. Og basaltið á svæðinu mun sennilega gera leitina þar mun erfiðari og dýrari en t.d. gerist í lögsögu Noregs og Grænlands.

heidar-mar-gudjonsson

Þarna er hafdýpið líka ansið mikið, t.d. miklu meira en í Norðursjó. Og þó svo aldur jarðlaganna gefi möguleika á olíu er í reynd alger óvissa um hvort þarna sé eitthvað að hafa. Hver sá sem hyggst leggja fjármuni í olíuleit á Drekasvæðinu getur leyft sér að vonast eftir verulegum ávinningi, en verður líka að gera ráð fyrir að allt féð sem fer í olíuleitina tapist. 

Fjárfesting í alvöru olíuleit á Drekasvæðinu er sem sagt afar áhættusöm. Þess vegna er líklegt að fjármögnun fyrirtækja vegna olíuleitar og tilraunaborana á Drekasvæðinu þurfi nær alfarið að koma sem eigið fé. M.ö.o. þurfa sérleyfishafarnir væntanlega ekki aðeins að ráða við verkefnið tæknilega séð heldur líka vera afar fjársterkir.

Er líklegt að ofangreindir umsækjendur fái sérleyfi?

Eftir á að koma í ljós hvort einhver eða einhverjir umsækjandanna þriggja fái sérleyfi hjá Orkustofnun til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu. Það ræðst af því hvort stofnunin telji umsækjendurna uppfylla þau lagaskilyrði sem gilda um slík sérleyfi.

Orkustofnun-oliuleit

Miðað við þau ummæli forstjóra Orkustofnunar að umsóknirnar núna séu framar björtustu vonum, virðist reyndar nánast öruggt að a.m.k. ein eða jafnvel fleiri af þessum umsóknum hljóti að leiða til sérleyfis. Slík yfirlýsing stjórnsýsluhafa á þessum tímapunkti, þ.e. áður en stofnunin var búin að yfirfara umsóknirnar af kostgæfni, er svolítið óvænt og kannski á mörkum þess að vera viðeigandi. En það er önnur saga.

Rannsókna- og vinnsluleyfi felur það vel að merkja í sér að leyfishafi hefur einkarétt til rannsókna og vinnslu kolvetna á viðkomandi svæði. Slíkum leyfum fylgja sem sagt umtalsverð réttindi. Að fá sérleyfi til rannsókna og vinnslu getur því augljóslega verið afar eftirsóknarvert og í því geta falist umtalsverð verðmæti.

Leiv-eirikkson-OIL-RIG-Greenland

Í næstu færslu Orkubloggsins verður nánar spáð í það hvort líklegt sé að Orkustofnun muni veita umsækjendunum sérleyfi. Verður þá athyglinni m.a. beint að því hversu tæknilega og fjárhagslega sterkir umsækjendurnir eru og hvaða skilyrði megi búast við að Orkustofnun setji þeim leyfishöfum sem hljóta sérleyfi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband