Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Námuvinnsluævintýri á Grænlandi

Í eina tíð var Grænland mikilvægt námuvinnslusvæði - þó í smáum stíl væri.

Greenland-ivittuut-Cryolite_mine-old-photo-2

Þar var m.a. bæði grafið eftir zinki og kopar. En það sem mestu skipti var krýolítnáman í nágrenni við hinar fornu rústir af byggð norrænna manna á Grænlandi. Náman sú var nefnilega langstærsta krýolítnáma heimsins!

Krýolít (Na3AlF6) er nauðsynlegt í efnaferlinu þegar hreint ál er unnið úr súráli í álverum heimsins. Nær alla 20. öldina var þessi grænlenska krýolítnáma við Ivittuut á SV-Grænlandi lang mikilvægasta uppspretta alls þess krýólíts sem notað var í áliðnaði veraldarinnar. Og Grænland þar með afar mikilvægt gagnvart allri álvinnslu heimsins.

Þau sem lesið hafa Frøken Smillas fornemmelse for sne, eftir danska rithöfundinn Peter Høeg, vita auðvitað af tengslum Grænlands og krýolítsins. Sumir vilja meira að segja meina að tilvist námunnar í Ivittuut hafi verið einn þýðingarmesti þátturinn í áhuga Bandaríkjstjórnar á Grænlandi. Herstöðvarnar á Grænlandi hafi m.a. haft þann tilgang að varna því að óvinurinn kæmist yfir grænlenska krýólítið.

Greenland-ivittuut-Cryolite_mine-2

En svo gerðist það á níunda áratug aldarinnar að iðnaðarkrýolít leit dagsins ljós - og það á svo hagstæðu verði að grænlenska náman varð óþörf. Líkt og hendi væri veifað breyttist námubærinn Ivittuut á SV-Grænlandi í draugabæ.

Krýolítnámunni í Ivittuut var lokað árið 1987. Um sama leiti var einu zinknámunni á Grænlandi einnig lokað. Áður hafði fyrir löngu verið hætt bæði járn- og koparvinnslu á Grænlandi og það virtist hreinlega sem sögu námureksturs á Grænlandi væri svo gott sem lokið. Það var engu líkara en að tækniframfarir og lok kalda stríðsins væru endanlega að gera Grænland að hinum gleymda útnára heimsins.

En viti menn. Fljótlega eftir að 21. öldin gekk í garð tók hrávöruverð að hækka mjög. Á sama tíma varð námuvinnsla á hefðbundnum vinnslusvæðum í Kanada, Afríku, S-Ameríku og Ástralíu sífellt erfiðari og dýrari, vegna þess m.a. að málmaauðlindirnar var farið að þverra á mörgum bestu námusvæðunum. Þetta olli því að menn í námuiðnaðinum fóru aftur að hugsa til Grænlands og hinna ævafornu og málmríku jarðlaga sem þar er að finna. Samhliða þessu tóku grænlenskir jöklar að hopa hratt vegna hlýnandi veðurfars og sum áhugaverð námusvinnslusvæði á Grænlandi urðu aðgengilegri en verið hafði.

Nuuk-whale

Grænlensk stjórnvöld fóru brátt að finna fyrir þessum aukna áhuga. Fyrst í stað virtust menn reyndar einkum vera spenntir fyrir olíuvinnslu við Grænland. En í reynd var áhuginn á margskonar málmavinnslu og námugreftri ekkert síðri.

Þetta var einmitt á sama tíma og Grænlendingar og Danir áttu í viðræðum um aukna heimastjórn Grænlendinga. Árið 2009 gekk svo í gildi samningur þjóðanna um aukna sjálfstjórn Grænlands. Samningurinn veitir grænlensku heimastjórninni í Nuuk m.a. full yfirráð yfir nattúruauðlindum landsins, en þ. á m. eru málmar í jörðu, olía í landgrunninu o.s.frv.

Commodity Metals Price Index_1997-2012

Þó svo það sé fyrst og fremst olíuleitin við Grænland sem verið hefur í fréttum, þá er allt eins mögulegt að stóra efnahagstækifæri Grænlendinga liggi í námuvinnslu. Jafnvel þrátt fyrir efnahagskreppuna sem skall á árið 2008 hefur verð á ýmsum málmum og öðrum merkum jarðefnum haldist nokkuð hátt og er t.a.m. miklu hærra en var fyrir aldamótin. Fyrir vikið er námuvinnsla á lítt snertum málmríkum svæðum (eins og á Grænlandi) að verða mjög ahugaverð. Það er því kannski ekki skrítið að allra síðustu árin hefur umsóknum um rannsóknaleyfi nánast rignt yfir grænlensk stjórnvöld. Og nú er svo komið að allt stefnir í það að senn hefjist meiriháttar námuvinnsla á Grænlandi.

Greenland_Isua-rocks-iron

Sem dæmi má nefna fyrirhugaða járnnámu á vegum fyrirtækisins London Mining í nágrenni við Nuuk. London Mining er skráð á hlutabréfamarkaði í London og rekur járnnámu í Sierra Leone í Afriku, en er einnig með nokkur önnur verkefni í vinnslu. Þar á meðal er járnnáma á Grænlandi.

Orkubloggarinn var einmitt nýverið staddur á glæsilegum skrifstofum London Mining í Nuuk og fékk þar í hendur myndarlegt grjót frá þessu fyrirhuguða járnnámusvæði. Hnullungurinn minnti svolítið á hrafntinnu; var svarfgljáandi og í laginu eins og stórt laglegt hrafntinnugrjót. Munurinn var bara sá að bloggarinn var nærri því búinn að missa klumpinn á tærnar á sér - óvænt þyngdin var margföld á við venjulegan stein. "Grjótið" var nefnilega um 70% járn!

Greenland-isua-iron-mine-site-overview-1

Svo hátt hlutfall af járni er nær algerlega óþekkt í járnnámum nútímans. Enda telja menn hjá London Mining sig hafa fundið eina af bestu járnnámunum í heiminum.

Svæðið, sem kallast Isua, er í um 1.100 m hæð í fjalllendinu langt ofan við Nuuk, alveg upp við jökuljaðarinn. Hér ofar í færslunni sagði bloggarinn að vísu að þetta væri "í nágrenni við Nuuk", enda er Nuuk næsta byggða ból. En hér er vert að muna að við erum að tala um Grænland og þar eru vegalengdirnar ekkert smáræði. Loftlínan frá Nuuk og að námunni er um 150 km. Fyrst þarf að sigla u.þ.b.  80 km krókaleið inn fjörðinn (þar sem byggð verður höfn) og þaðan eru enn rúmlega 100 km upp að sjálfri námunni 1.100 metrum ofar - alveg upp við jaðar jökulsins.

Það hefur reyndar verið vitað af járninu þarna við jökulinn í Isua í meira en 40 ár. Rannsóknir á svæðinu hófust um 1970 og árið 1995 keypti risafyrirtækið Rio Tinto fjölda borkjarna og ýmis önnur gögn af dönsku fyrirtæki, sem hafði rannsakað svæðið. Það var svo árið 2005 að London Mining ákvað að athuga málið betur. Þeir keyptu gögnin og rannsóknaleyfið af Rio Tinto. Og þegar farið var að rannsaka svæðið ítarlegar kom í ljós að þarna væri gíðarlega mikið járngrýti og sennilega tækifæri til mjóg ábatasamrar námuvinnslu .

London-Mining-logo

Eftir að menn á vegum London Mining höfðu rannsakað svæðið við Isua í fimm sumur sýndu þúsundir bergsýna svo ekki varð um villst að þarna sé með góðu móti unnt að vinna mikið magn af járngrýti. Dýrar rannsóknir og undirbúningur London Mining hefur sem sagt skilað góðum árangri og nú er staðan sú að allt er til reiðu til að fara í uppbyggingu á námunni. Þ.e.a.s. um leið og grænlensk stjórnvöld veita vinnsluleyti og búið verður að fjármagna framkvæmdirnar. 

Greenland-Isua-iron-mine-map

Þarna er talið unnt að vinna u.þ.b. 15 milljónir tonna af hreinsuðu járngrýti á ári á 10-15 ára starfstíma. Að auki eru vísbendingar um að járngrýtið þarna við jökuljaðarinn teygi sig vel undir jökulinn og með frekari bráðnun og sprengingum megi vinna ennþá meira járngrýti en miðað er við í núverandi áætlunum. Skemmst er frá því að segja að taldar eru góðar líkur á að náman við Isua reynist svo stór að vinnslan muni standa yfir í allt að 30 ár.

Mati á umhverfisáhrifum vegna verkefnisins lauk í fyrrasumar (2011) og nú liggur umsókn um vinnsluleyfi hjá grænlenskum stjórnvöldum. Ef áætlanir ganga eftir munu framkvæmdirnar jafnvel hefjast strax á þessu ári (2012) og sjálf námuvinnslan yrði þá komin í gang 2015.

Þar verður um sannkallaða risafjárfestingu að ræða. Alls er kostnaðurinn talinn verða nálægt 2,5 milljörðum USD! Það er svipað eins og Kárahnjúkavirkjun og álverið á Reyðarfirði til samans. Byggja þarf höfn, veg, flugvöll, um 135 MW díselrafstöðvirkjun við námuna og aðra 15 MW rafstöð við höfnina. Svo þarf auðvitað að reisa íveruhúsnæði fyrir allt starfsfólkið, sem verða um 300-400 talsins (en um 1.000 manns á uppbyggingartímanum).

Mining-trucks-2

Þá er ótalinn kostnaðurinn við sjálfan námugröftinn, en þar verður beitt stórvirkum vinnutækjum. Risatrukkar flytja grjótið í mulningsverksmiðju, sem reist verður í nágrenni við námuna, en þeir taka um 250 tonn á pallinn í hverri ferð.

Auk mulningsverksmiðjunnar sem grófmylur járngrýtið verður reist önnur vinnsluverksmiðja sem hreinsar grjót frá járni. Því fínmulda jarngrýti verður svo fleytt um rúmlega 100 km vatnslögn, sem verður reist frá vinnslustöðinni og allt niður að höfninni.

Þar við sjóinn verður járninu svo mokað um borð í skip, sem líklega munu sigla með herlegheitin alla leið til Kína. Ástæðan fyrir því að Kína er líklegur áfangastaður er m.a. sú að sennilega verður verkefnið að einhverju leyti fjármagnað af Kínverjum. Það á þó eftir að koma í ljós.

london-mining-isua-greenland

Hjá London Mining eru menn bjartsýnir um að vinnsluleyfið fáist afgreitt fljótlega. Ef einhverjir íslenskir bankar (sic) hafa áhuga á að fjármagna þessa risaframkvæmd, má nefna að ætlanir gera ráð fyrir að verkefnið borgi sig upp á um 3 árum. Reyndar mun London Mining hafa hugeitt að byggja sjálfa vinnsluverksmiðjuna, sem fínvinnur járnið úr mulningnum, á Íslandi! Það hefði kallað á allstóra virkjun hér á landi, en mun hafa reynst of dýrt, þ.a. horfið var frá þeim möguleika.

Þetta verður óneitanlega nokkuð afskekkt samfélag þarna við jökuljaðarinn lengst uppi á grænlenska fjalllendinu. Gott ef vinnubúðirnar sálugu við Kárahnjúka verða ekki taldar fínasta hressingarhæli miðað við járnnámuna í Isua. Sjálf náman verður það sem kallast "open pit" á fagmáli, þ.e. einfaldlega hola í jörðina, sem mun stækka hægt og sígandi eftir því sem skurðgröfurnar moka meira grjóti upp.

Greenland-Isua-helicopter-1

Í dag eru einungis örfá fyrirtæki með námuvinnsluleyfi á Grænlandi. Allt eru það ný verkefni þar sem vinnslan er u.þ.b. að hefjast. Á allra siðustu árum hefur aftur á móti orðið ekkert minna en sprenging í rannsóknum á nýjum námuverkefnum á Grænlandi. Rannsóknarleyfin eru orðin nálægt 200 talsins og þar af bættust við 70-80 leyfi á liðnu ári (2011).

Til samanburðar má nefna að í ársbyrjun 2010 voru öll gildandi rannsóknaleyfi á Grænlandi (þ.e. vegna eðalsteina, málma og ýmissa annarra frumefna) einungis um 80 talsins samtals. Fjöldi leyfa hefur því meira en tvöfaldast á aðeins tveimur árum! Leyfin ná til allskonar málma og annarra jarðefna. Auk járns má nefna demanta, gull, nikkel, kopar, platínu, zink og ýmis fleiri efni.

Það má reyndar velta fyrir sér hvaða geggjuðu efnahagslegu áhrif það muni hafa fyrir Grænland ef mörg (eða jafnvel bara fáein) þessara námuverkefna verða að veruleika á næstu árum. Sem fyrr segir er áætluð fjárfesting vegna járnnámunnar einnar við Isua áætluð um 2,5 milljarðar USD. Annað námuverkefni sem kennt er við Kvanefjeld hljóðar upp á um 2 milljarða USD. Þ.a. bara þessi tvö námuverkefni myndu þýða um 4,5 milljarða USD fjárfestingu á fáeinum árum. Og það hjá þjóð sem er innan við 50 þúsund manns. Svo hafa tugir annarra rannsóknaleyfa jú verið veitt og a.m.k. einhver þeirra munu sjálfsagt skila jákvæðri niðurstöðu.

Graenland-Nuuk-Ketill-Sigurjonsson-mai-2012

Þó svo bara tvö eða þrjú svona verkefni verði að veruleika og bætist við yfirstandandi olíuleitarverkefni í grænlenskri lögsögu, er afar líklegt að Grænland sé að ganga inn í eitthvert mesta góðæristímabil sem sögur fara af. Þess vegna kemur það ekki á óvart að stærsta og framsæknasta verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækið á Íslandi skuli nú sjá fyrir sér að spennandi tímar séu framundan á Grænlandi. Og kannski er heldur ekki svo skrítið að nú um stundir er húsnæðisverðið í Nuuk margfalt hærra en t.a.m. í Reykjavík og meira að segja hærra en í miðborg Kaupmannahafnar!

Óneitanlega vakna grunsemdir um að boginn hafi verið spenntur heldur hátt og að væntingarnar séu orðnar heldur miklar. Í huga margra Grænlendinga ríkir engu að síður eflaust mikil bjartsýni um að senn nái þjóðin efnahagslegu sjálfstæði. Enn þann dag í dag fá Grænlendingar um helming allra fjárlaganna sem styrk frá danska ríkinu. Eðlilega hljóta flestir Grænlendingar að óska sér þess að þjóðin geti staðið á eigin fótum. Og miðað við hinar geysilegu náttúruauðlindir landsins, kann að vera að það sé alls ekki fjarlægur draumur.

Nuuk-ketill-sigurjonsson

Það er afar skemmtilegt og áhugavert að koma til Nuuk. Í stað hefðbundinna borgarferða Mörlandans ættu Íslendingar miklu fremur að sækja Grænland heim. Bæði er að Grænland er alveg dásamlega fallegt land og Grænlendingar afar gestrisnir gagnvart Íslendingum.

Það verður spennandi að fylgjast með þróuninni á Grænlandi næstu árin. Vonandi tekst þessum góðu grönnum okkar í vestri vel til. Og vonandi fara íslensk stjórnvöld, íslenskir háskólar og íslensk fyrirtæki að huga meira og betur að samskiptum okkar við Grænlendinga. Auk viðskipatækifæra mætti þar t.d. hugsa sér meiri samskipti bæði á menntasviðinu og heilbrigðissviðinu, en fram til þessa hafa Grænlendingar sótt mest alla slíka þjónustu til Danmerkur. Þangað er um helmingi lengri flugtími en til Íslands.

Með öll þessi tækifæri í huga er svolítið dapurlegt að vita til þess að fyrirhugað íslenskt-grænlenskt viðskiptaráð, sem stendur til að stofna formlega síðar á þessu ári (2012), eigi aðeins að vera undirdeild í dansk-íslenska viðskiptaráðinu. Kannski skiptir þarna máli að Grænland er ekki ennþá sjálfstætt ríki og að dönsk stjórnvöld fara enn með utanríkismál vegna Grænlands. Engu að síður hefði Orkubloggaranum þótt eðlilegt og tilhlýðilegt að framámenn í íslensku viðskiptalífi hefðu þarna óskað eftir nánara og beinu samstarfi við Grænlendinga.


Hjemfall

Ja, vi elsker dette landet,
som det stiger frem,
furet, værbitt over vannet,
med de tusen hjem. 
  

Noregur er eitt af örfáum ríkjum hins vestræna heims sem framleiðir svo til alla raforku sína með nýtingu endurnýjanlegra auðlinda. Það geta Norðmenn þakkað hinu mikla vatnsafli í landinu. Norsku vatnsaflsvirkjanirnar framleiða nú um tíu sinnum meiri raforku en allar vatnsaflsvirkjanirnar sem starfræktar eru á Íslandi. Sé litið til höfðatölu er Noregur næst stærsta vatnsaflsríki heims (á eftir Íslandi).

Upphaf vatnsaflsvirkjana í Noregi 

Það var í lok 19. aldar og þó einkum í upphafi 20. aldarinnar að Norðmenn byrjuðu af alvöru að nýta vatnsaflið til raforkuframleiðslu. Áður hafði það nýst til að knýja litlar sögunarmyllur. Fyrsta vatnsaflsvirkjunin í Noregi reis árið 1885. Fljótlega upp úr því tók að bera á s.k. Fossaspekúlöntum í Noregi. Þetta voru menn sem unnu gjarnan í umboði útlendinga og fóru um Noreg í leit að álitlegum virkjunarstöðum sem nýta mætti fyrir iðnaðarframleiðslu. En það var þó ekki fyrr en að nokkur ár voru liðin af 20. öldinni að alvara hljóp í þennan nýja iðnað.

Virkjanir einkaaðila gerðar leyfisskyldar - Noregur öðlast sjálfstæði

Á þessum tíma var Noregur fullvalda ríki (síðan 1814), en landið var ennþá í ríkjasambandi við Svíþjóð og sænski konungurinn var þjóðhöfðinginn. Til að sporna gegn því að erlendir Fossaspekúlantar næðu að kaupa norsk vatnsföll lögfesti norska Stórþingið í Osló þá reglu að engin slík kaup næðu fram að ganga nema með leyfi stjórnvalda. Þar með var unnt að koma böndum á tilþrif Fossaspekúlantanna.

Eyde-1866-1940

Það var svo árið 1905 að Noregur öðlaðist sjálfstæði. Um nákvæmlega sama leyti komu fram menn í Noregi sem vildu byrja að virkja nokkur helstu vatnsföll landsins í tengslum við umfangsmikla uppbyggingu á stóriðju. Þetta voru ekki bara hugmyndaríkir andans menn í anda Einars Benediktssonar, heldur réðu þeir yfir nýrri tækni sem gerði slíka iðnaðaruppbyggingu ennþá raunhæfari en ella.

Þarna fór fremstur í flokki norski verkfræðingurinn Sam Eyde. (sbr. myndin hér að ofan). Eyde sá einkum tækifæri til að nýta norska vatnsaflið til saltpéturframleiðslu, en brátt varð samstarf hans við norska vísindamanninn Kristian Birkeland (sem er á myndinni hér að neðan) til þess að áburðarframleiðsla varð einnig afar áhugaverður kostur.

Kristian- Birkeland-1

Birkeland hafði þá þróað aðferð til að vinna áburð með því að nýta köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Aðferðin var mjög orkufrek og upplagt að nýta norsku vatnsföllin til raforkuframleiðslunnar. Eyde gekk þegar í það að finna fjárfesta til að reisa verksmiðju og virkjun undir merkjum hins nýstofnaða fyrirtækis Norsk Hydro-Elektrisk Kvælstofaktieselskab). Sem í dag heitir einfaldlega Norsk Hydro og er eitt stærsta norska fyrirtækið (í dag er áburðarframleiðslan sem lengi var innan Norsk Hydro aftur á móti að finna hjá áburðarrisanum Yara International).

Eyde var með fleiri járn í eldinum en Norsk Hydro og samstarf við Kristian Birkeland. Því hann hafði líka kynnst öðrum Norðmanni, sem hafði þróað ekki síður merkilega iðnaðartækni

Sá hét Carl Wilhelm Söderberg og aðferðin eða efnafræðin að baki uppgötvunum hans átti eftir að verða lykilatriði í öllum  málmbræðsluofnum heimsins langt fram eftir 20. öldinni.

Söderberg fæddist reyndar í Svíþjóð en bjó nær alla sína ævi í Noregi. Nú er Orkubloggarinn ekki efnafræðingur og hættir sér því ekki útí nánari útlistanir á þessum mikilvægu uppgötvunum Norðmannanna tveggja; þeirra Birkeland og Söderberg. En líklega má segja að uppgötvun Söderberg's sé meðal merkari iðnaðaruppgötvana á 20. öldinni allri - þó svo nafn hans sé fáum tamt í munni (á ljósmyndinni hér að neðan er Söderberg ásamt lítilli dóttur sinni).

Carl-Wilhelm-Søderberg-og-dottir-hans- Gerd-1905

Til að koma aðferð Söderbergs í framkvæmd átti Eyde frumkvæðið að því að stofna annað norskt iðnfyrirtæki; Det Norske Aktieselskap for Elektrokemisk Industri. Sem í dag er þekkt undir nafninu Elkem og komst nýverið í eigu kínversk fyrirtækis. Elkem á sem kunnugt er járnblendiverksmiðjuna hér á Grundartanga í Hvalffiðri.

Einkaleyfi Söderberg's var í eigu Elkem og fyrirtækið var í lykilstöðu gagnvart stórum hluta málmbræðsluiðnaðarins mest alla 20. öld. Það eitt segir talsvert um það hversu Söderberg-ferlið var mikilvæg vinnsluaðferð.

Eyde gekk bærilega að fjármagna bæði Norsk Hydro og Elkem. Þar var fé frá sænska iðnjöfurinum Marcus Wallenberg  áberandi, en líka ýmsir stórir evrópskir bankar. Bæði voru þessi fyrirtæki alfarið í einkaeigu og þegar fréttist af tilburðum þeirra til að festa sér norsk fallvötn hrukku ýmsir norskir stjórnmálamenn við. Þar kom ekki bara til tortryggni gagnvart erlendu fjármagni, heldur jafnvel miklu fremur áhyggjur um að örfáir erlendir aðilar myndu ná tökum á alltof stórum hluta af norska vatnsaflinu og gætu jafnvel komist þar í einokunaraðstöðu. Einnig þótti mörgum stjórnmálamanninum skipta miklu að norsk raforka færi ekki aðeins í verksmiðjurekstur, heldur yrði hún jafnframt nýtt til að rafvæða byggðir og ból norsku þjóðarinnar.

Rjukanfossen-before-hydro-station

Menn áttuðu sig á því að sennilega væru norsku vatnsföllin einhver mesta og verðmætasta auðlind landsins (það var jú ennþá óralangt í olíuævintýrið). Á þessum tíma var norska þjóðin sárafátæk og hafði afar takmarkaða möguleika til að standa í stórframkvæmdum.

Áðurnefnt skilyrði um að fá þyrfti leyfi stjórnvalda til að reisa vatnsaflsvirkjun eða kaupa vatnsréttindi  átti einungis við um einstaklinga en ekki um fyrirtæki. Þegar iðnfyrirtækin Elkem og Norsk Hydro komu til sögunnar árin 1904 og 1905 varð ljóst að bæði fyrirtækin þurftu gríðarmikla raforku til starfsemi sinnar og bregðast þurfti skjótt við ef þau ættu ekki að eignast sum öflugustu vatnsföll Noregs.

Norskum stjórnvöldum umhugað um að liðka fyrir iðnaðaruppbyggingu í landinu, en þau vildu einnig varast að fyrirtækin, sem voru fyrst og fremst fjármögnuð erlendis frá, eignuðust norsk vatnsföll með húð og hári.  Því leituðu norsku stjórnmálamennirnir nú logandi ljósi að leið sem gæti opnað fyrir iðnaðaruppbyggingu, en um leið haldið vatnsaflsauðlindunum í norskum höndum og stuðlað að rafvæðingu landsins.

Hjemfall-reglan verður til 

Meðan verið var að velta fyrir sér framtíðarfyrirkomulagi gagnvart uppbyggingu virkjana, ákvað norska þingið í hinu nýsjálfstæða Noregi (Stórþingið í Osló) að búa svo um hnútana að fyrirtæki gætu ekki eignast rétt yfir norskum vatnsföllum né byggt þar virkjanir nema fá til þess sérstakt leyfi stjórnvalda. Þetta var um margt sambærileg regla og áður hafði gilt um útlendinga (einstaklinga). Reglan var lögfest í apríl 1906 og hafa þau lög jafnan verið nefnd  Panikkloven vegna hraðans við að koma þeim á.

Johan Castberg-norge

Í kjölfarið tóku norsk stjórnvöld að beita því skilyrði við veitingu virkjunarleyfa að fyrirtæki fengu ekki virkjunarleyfi nema með því skilyrði að viðkomandi virkjun myndi í fyllingu tímans verða eign norska ríkisins. Þetta er s.k. hjemfall-regla.

Þetta varð grundvallarregla gagnvart t.a.m. þeim virkjunum sem Elkem og Norsk Hydro byggðu fyrir verksmiðjur sínar. Það mun hafa verið norski stjórnmálamaðurinn og lögfræðingurinn Johan Castberg sem var helsti fylgismaður og höfundur þessa fyrirkomulags. Þar naut Castberg víðtæks stuðnings kollega sinna á Stórþinginu og þ. á m. forsætisráðherrans þáverandi, sem var hinn áhrifamikli Gunnar Knudsen.

Fyrst eftir 1906 var hjemfall-reglunni beitt með nokkuð mismunandi hætti í tengslum við veitingu virkjunarleyfa. En svo kom að því árið 1909 að Þetta skilyrði var beinlínis lögfest sem almenn forsenda þess að fá slíkt leyfi.

Rjukanfossen-norge

Hjemfall-reglan náði því til allra virkjana einkaaðila sem reistar voru frá og með 1909 og flestra sem reistar voru frá og með 1906. Þess vegna enda allar þær virkjanir í eigu norska ríkisins og það eru einungis fáeinar virkjanir einkaaðila sem eru ekki háðar hjemfall.

Hjemfall merkir sem sagt að virkjanir í einkaeigu falla til norska ríkisins að afloknum afmörkuðum nýtingartíma eða afnotatíma. Sá tími hefur í gegnum tíðina almennt verið 60 ár að hámarki. Að þeim tíma loknum færist eignarhaldið að virkjuninni og viðkomandi vatnsréttindi til ríkisins án nokkurs endurgjalds.

Vegna þessarar reglu eru margar gömlu virkjanirnar, sem einkafyrirtæki reistu snemma á 20. öldinni, nú komnar í opinbera eigu. Og svo fer einnig um þó nokkrar fleiri stórar virkjanir á næstu árum og áratugum. Það er því vel að merkja alrangt sem sagði í Skýrslu nefndar forsætisráðherra sem skipuð var samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði laga nr. 58/2008, undir forsæti Karls Axelssonar, hrl., að aldrei hafi komið til hjemfall's í Noregi og að óvíst sé hvort nokkru sinni muni koma til hjemfall's. Þetta er þvert á móti alveg kristallstært - og sáraauðvelt að nálgast lista um allar þær virkjanir sem hafa fallið til norska ríkisins og líka þær sem enn eiga eftir að falla til norka ríkisins vegna hjemfall. Orkubloggarinn er að sjálfsögðu með slíkan lista undir höndum beint frá norskum stjórnvöldum.

Auk hjemfall-skilyrðisins lögfesti Stórþingið líka þá reglu að sveitarfélög þar sem einkaaðili fékk að byggja og reka virkjun skyldu eiga rétt á að fá allt að 10% raforkunnar á kostnaðarverði. Þetta hafði mikla þýðingu fyrir almenning og stuðlaði að hraðri rafvæðingu víða í Noregi.

Svelgfoss-vandkraftverk-1

Hjemfall-reglan hefur auðvitað orðið til þess að gera hið opinbera smám saman umsvifameira í raforkuframleiðslu í Noregi. Í dag er norska ríkisfyrirtækið Statkraft langstærsti raforkuframleiðandinn í landinu. Samtals eru ríkið, norsku fylkin og sveitarfélögin nú með um 90% hlutdeild í raforkuframleiðslunni í Noregi. Hlutdeild einkaaðila er einungis um 10%.

Vegna hjemfall-reglunnar munu margar af þeim norsku vatnsaflsvirkjunum sem enn eru í einkaeigu senn líka verða eign hins opinbera. Þá verða u.þ.b. 96-97% af öllu því vatnsafli sem virkjað hefur verið í Noregi í höndum hins opinbera! Afgangurinn eru gamlar virkjanir sem einkaaðilar byggðu fyrir gildistöku hjemfall-reglunnar, en þær eru flestar í eigu norska orkufyrirtækisins Hafslund. Hafslund var stofnað árið 1898 og reisti sína fyrstu vatnsaflsvirkjun árið 1899 (í dag er Hafslund skráð á hlutabréfamarkaðnum í Osló).

Sjónarmiðin að baki hjemfall-reglunni og eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar

Samkvæmt hjemfall-reglunni geta einkaaðilar einungis átt tímabundinn rétt yfir norskum vatnsaflsauðlindum. Og þegar sá afmarkaði nýtingatími er útrunninn rennur virkjunin og vatnsréttindin sjálfkrafa til ríkisins og það án nokkurs endurgjalds. Umræddur afnotatími hefur skv. norskum lögum lengst af verið 60 ár og reglan átt við allar virkjanir stærri en 4.000 hö (fyrst í stað var þó viðmiðunin 1.000 hö).

Svartsengi-HS-Orka-Magma-Energy

Að sumu leyti minnir þessi regla á 65 ára hámarks-afnotatímann sem íslensk lög kveða nú á um vegna nýtingar á vatnsafls- eða jarðvarmaauðlindum í eigu ríkis eða sveitarfélaga til raforkuframleiðslu. Stóri munurinn er þó sá að skv. norskum lögum þarf að afhenda viðkomandi virkjun endurgjaldslaust til ríkisins í lok nýtingartímans, en í íslenskum lögum segir ekkert um hvernig fara skuli með virkjun þegar nýtingartímanum lýkur (sem er auðvitað með miklum ólíkindum og bersýnilega til þess fallið að skapa framtíðarágreining).

Þarna er einnig sá munur að skv. íslensku lögunum má framlengja afnotatímann (til allt að 60 ára í senn). En skv. norskum lögum færist eignarhaldið alltaf til ríkisins í lok afnotatímans (í nokkrum tilvikum hafa einkafyrirtæki fengið að halda áfram að reka virkjun eftir að hjemfall varð virkt með því að leigja hana eða kaupa virkjunina af ríkinu gegn nýju hjemfall-tímabili).

Oslo_Historie_fabrikkjentene

Að baki því að norsk stjórnvöld tóku upp hjemfall-regluna fyrir meira en öld síðan var, sem fyrr segir, einkum það sjónarmið að koma yrði í veg fyrir að norsku vatnsföllin yrðu eign útlendinga. Hjemfall-reglan var álitin skynsamleg leið til að samtvinna tvennskonar mikilvæga hagsmuni; annars vegar að tryggja framtíðaryfirráð stjórnvalda yfir vatnsaflinu og hins vegar heimila einkaaðilum að fjárfesta í virkjunum og liðka þannig fyrir iðn- og rafvæðingu Noregs.

Eðlilega voru þó sumir sem gagnrýndu hjemfall-regluna mjög og töldu hana hægja á fjárfestingum í norskum iðnaði. Þeir vildu að einkaaðilar fengju einfaldlega að eiga og reka sínar virkjanir ótímabundið eins og almennt gildir um eignir fyrirtækja. Almennt naut þó hjemfall-reglan víðtæks stuðnings meðal norskra stjórnmálamanna.

En stenst það eignaréttarákvæði stjórnarskrár að banna einkaaðilum að reisa vatnsaflsvirkjun nema þeir afhendi virkjunina endurgjaldslaust til ríkisins að ákveðnum tíma liðnum? Nú vill svo til að einkaeignaréttur nýtur svipaðrar stöðu í Noregi eins og á Íslandi skv. íslensku stjórnarskránni. Engu að síður töldu norsk stjórnvöld sig hafa fulla heimild til að binda virkjun fallvatna svo ströngum skilyrðum.

norway-flag.pngÞar að baki voru t.a.m. þau sjónarmið að jafnvel þó svo vatnsföll séu háð einkaeignarétti þess sem á landið þar sem vatnsfallið rennur, sé vatnsaflið í reynd sameiginleg auðlind sem öll þjóðin eigi að njóta. Vatn sem rennur um land í einkaeigu sé oftast að verulegu leyti komið frá hálendinu, sem í Noregi hefur verið skilgreint sem eign ríkisins (konungs).

Litið er svo á að einkaaðilum sé almennt heimilt að nýta vatnsfall á landi sínu til að framleiða raforku. En að þá sé eðlilegt að ríkið geti skilyrt slíka nýtingu með þeim hætti að eftir tiltekinn tíma skuli viðkomandi virkjun og rétturinn til að nýta vatnsfallið til raforkuframleiðslu, falla til ríkisins.

Sumum lesenda Orkubloggsins kann að þykja að þetta séu nokkuð harkaleg skilyrði. Og finnast að það að þrengja svo mjög að einkaaðilum hljóti að vera brot á stjórnarskrárákvæðum um vernd eignaréttarins. En í Noregi ríkti víðtæk sátt um þetta kerfi í nærri hundrað ár. Og sú sátt studdist við dóm Hæstaréttar Noregs frá árinu 1917, þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að hjemfall-skilyrðið væri ekki brot á eignaréttarvernd stjórnarskrárinnar.

Alþingi Íslendinga fór aðra leið

Rétt eins og í Noregi, þá fór fram mikil umræða á Íslandi á fyrstu árum 20. aldar um skipan vatnamála og hvernig haga ætti eignarétti í tengslum við nýtingu vatnsréttinda. Árið 1907 samþykkti Alþingi lög um takmörkun á eignar- og umráðarétti á fossum o.fl. (Fossalögin), sem koma áttu í veg fyrir að útlendingar næðu yfirráðum yfir vatnsafli hér á landi.

tjorsa-fossafelagid-titan-urridafossvirkjun_gottfred_seatersmoen_1918.jpg

Kannski má segja að íslensk lagasetning um rétt til að nýta vatnsafl hafi í gegnum tíðina einkennst af tveimur meginatriðum. Annars vegar því að sá réttur sá alfarið í höndum landseigandans. Og hins vegar að þrengja sem allra mest að því að útlendingar fjárfesti í íslenskum virkjunum. Í Noregi var aftur á móti litið svo á að opna þyrfti útlendingum leið að því að fjárfesta í virkjunum, en um leið binda virkjunarrétt einkaaðila verulegum takmörkunum og taka þar afar ríkt tillit til samfélagslegra sjónarmiða. 

Fossalögin íslensku byggðust á þeirri forsendu að fasteignareigandi eigi vatnsafl þeirra vatna sem fellur á landi hans. Engir fyrirvarar í anda hjemfall voru settir í Fossalögin og var þetta því ólíkt því fyrirkomulagi sem Norðmenn ákváðu. Með Fossalögunum var því sjónarmiðum einkaeignaréttarins skipað í öndvegi og minni áhersla lögð á almannasjónarmið.

Þetta fyrirkomulag hefur alla tíð síðan verið í fullu gildi hér á landi. Og þrátt fyrir ýmsar nýjar takmarkanir vegna t.d. almennra skipulags- og umhverfisreglna, má segja að víðtækur eigna- og umráðréttur íslenskra landeiganda yfir vatnsföllum á landi þeirra hafi jafnvel styrkst í sessi eftir því sem tíminn hefur liðið.

Einar_Arnorsson-vatnalogin-frumvarp

Íslensku Fossalögin komu til endurskoðunar nokkrum árum eftir setningu þeirra. Á tímabili benti ýmislegt til þess að í þetta sinn yrði mögulega farin nokkuð áþekk leið eins og Norðmenn höfðu farið. En þegar til kom varð niðurstaðan sú að komið var á skipan sem er ólík þeirri sem er í Noregi.

Aðalhöfundur vatnalagafrumvarpsins var Einar Arnórsson, lagaprófessor, en hann studdist m.a. við starf Fossalaganefndar Alþingis. Í íslensku Vatnalögunum nr. 15/1923 er mælt svo fyrir að rétturinn til að nýta vatn til raforkuframleiðslu tilheyri landeiganda og er sá réttur algerlega ótímabundinn. Þessi regla veitir landeiganda víðtækan rétt yfir vatninu og nýtingu þess og hefur hún gilt hér alla tíð síðan. Það myndi ekki breytast við gildistöku nýju Vatnalaganna nr. 20/2006, sem samþykkt voru á Alþingi í mars 2006 (en hafa enn ekki tekið gildi en þau hafa nú verið numin úr gildi og tóku aldrei gildi). Grundvallarskipanin um eignarétt að vatni á Íslandi er því óbreytt frá því sem fastsett var árið 1923.

Með setningu íslensku Vatnalaganna árið 1923 var sem sagt með ótvíræðum hætti tekið af skarið um það að á Íslandi gildir sú regla að landeigendur eigi ótímabundinn rétt til að hagnýta það vatn sem á landareign þeirra finnst eða um hana rennur, þ.m.t. orkunýtingarrétt. Engar takmarkanir voru settar á þennan rétt m.t.t. eignarhalds á virkjunum sem byggðar yrðu. Og í réttarframkvæmd hér á landi á þeim tíma sem liðinn er frá setningu Vatnalaganna 1923 hafa íslenskir dómstólar jafnan staðfest eignarrétt landeigenda að vatnsorku, m.a. þegar vatnsföll hafa verið tekin til virkjunar. Og að þarna sé tvímælalaust um að ræða eignarréttindi landeigenda sem njóta verndar skv. eignaréttarákvæðum 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.

Norway-national-day

Því má segja að sjónarmið einkaeignaréttar vegna vatnsréttinda hafi á 20. öldinni fengið mun meiri meðbyr hér á Íslandi heldur en í Noregi. Er þó norskur réttur þekktur fyrir sterkan einkaeignarétt; t.d. mun sterkari en í rétti flestra annarra Evrópuríkja þar sem sjá má meiri einkenni Rómrréttar, þess efnis að vatnsréttindi séu fyrst og fremst almannaréttindi.

Reyndar er það svo að þrátt fyrir ólíka löggjöf um meðferð vatnsréttinda í Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar er staðan núna - næstum heilli öld eftir að skipan þessara mála í þessum tveimur löndum var ákveðin - sú að í báðum löndunum er yfirgnæfandi hluti allrar raforkuframleiðslu í höndum hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga). Engu að síður er augljós munur á. Nýleg einkavæðing fyrirtækis á borð við HS Orku hefði t.a.m. ekki verið möguleg í norska vatnsaflsiðnaðinum vegna takmarkana í norskum lögum á aðkomu einkaaðila að virkjanarekstri.

Hjemfall reglan afnumin í upphafi 21. aldarinnar 

Á síðasta áratugi 20. aldar tóku Norðmenn, rétt eins og Íslendingar, upp nánara samstarf við Evrópusambandið (ESB). Þá er átt við gerð Samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Í aðdraganda samningsins létu norsk stjórnvöld kanna það sérstaklega hvort aðild Noregs að EES kallaði á einhverjar breytingar á fyrirkomulagi virkjunarleyfa og eignarhaldi á norskum vatnsaflsvirkjunum. Niðurstaða þeirrar fræðilegu athugunar var sú að svo væri ekki og Norðmenn myndu því áfram geta notað hjemfall-regluna óbreytta.

EFTA-court-building-luxembourg

En jafnskjótt og EES-samningurinn gekk í gildi tók að bera á gagnrýni á hjemfall-fyrirkomulagið og fram komu athugasemdir þess efnis að það væri ósamrýmanlegt ákvæðum EES-samningsins. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði brátt formlega athugasemd við fyrirkomulagið og sagði það stríða gegn EES-réttinum. Norðmenn þráuðust við og málið endaði fyrir EFTA-dómstólnum.

Norsk stjórnvöld töpuðu málinu og þar með varð ljóst að ef Noregur ætlaði að halda áfram að vera innan EES yrði að gjörbreyta skilyrðunum í tengslum við  virkjunarleyfi og rekstur vatnsaflsvirkjana í Noregi. Eftir nokkrar vangaveltur ákváðu norsk stjórnvöld að falla frá þeirri aldarlöngu framkvæmd sinni að setja hjemfall sem skilyrði virkjunarleyfa. Það varð þó alls ekki til þess að auka aðgang einkaaðila að norska vatnsaflsiðnaðinum. Þvert á móti!

Því í stað hjemfall-reglunnar tóku Norðmenn upp það einfalda fyrirkomulag að nú fá einkaaðilar engin ný virkjunarleyfi í Noregi (nema þegar um smávirkjanir er að ræða en sú heimild hefur alltaf verið til staðar).  Þetta bann er algilt um allar stærri virkjanir (þ.e. stærri en 4.000 hö sem jafngildir um 3 MW) og þess vegna engar horfur á að einkaaðilar verði umsvifameiri í hinum gríðarstóra norska vatnsaflsiðnaði.

norge-vannkraft-2.jpgJafnræðissjónarmið EES-dómstólsins urðu sem sagt til þess að lokað var á nær allar fjárfestingar einkaaðila í norska vatnsaflsiðnaðinum. Svona er nú veröldin oft skrítin og kannski mætti segja að þarna hafi EES-löggjöfin bitið í eigið skott.

Það er engu að síður mikill uppgangur í byggingu smávirkjana á vegum einkaaðila í Noregi. Það kemur til vegna þess hversu raforkuverð til framleiðenda í Noregi hefur hækkað mikið síðustu árin. Raforkuframleiðsla er sem sagt orðin miklu arðbærari en áður var og þess vegna eru nú tækifæri til að fjármagna og byggja litlar virkjanir sem áður þóttu óhagkvæmar. Þær mega þó ekki vera stærri en 4.000 hö (um 3 MW), þ.e. þegar um einkaaðila er að ræða. Já - þannig er fyrirkomulagið í Noregi.

 


Orkumál Evrópu

Orkubloggið vekur athygli lesenda sinni á ráðstefnu sem Arion banki, Orkustofnun og UK Trade & Investment halda n.k. fimmtudag 31. maí. Ráðstefnan ber yfirskritina Orkumál Evrópu - tækifæri fyrir íslensk orkufyrirtæki?

Charles Hendry-UK-Energy-Climate-Minister

Charles Hendry, orkumálaráðherra Bretlands, er einn fyrirlesaranna. Meðal annarra sem flytja erindi eru Odd Håkon Hoelsæter, fyrrum forstjóri norska Statnett, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets og Guðni Jóhannesson, forstjóri OS.

Þarna tala einnig tveir breskir orkusérfræðingar; þeir Robert Lane frá lögfræði- og ráðgjafafyrirtækinu CMS Cameron McKenna og Iain Smedley frá Barclays Capital.

Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra og starfandi iðnnaðarráðherra, setur ráðstefnuna. Fundarstjóri verður Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arin banka.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og dagskrá má sjá hér á vef Arion banka.


Bakú

Í tilefni af því að Júróvsjón-keppnin hefst í Bakú í Azerbaijan í kvöld, ætlar Orkubloggarinn að leyfa sér að rifja hér upp tvær færslur sem tengjast Bakú. 

Baku-oul-donkeys-smallBakú er bæði skemmtileg og falleg borg. Þó svo sum úthverfin séu nokkuð sérstök - eins og ljósmyndin hér til hliðar gefur til kynna. En myndina tók bloggarinn út um glugga á leigubíl, á leiðinni út á flugvöll vorið 2010 (vel að merkja bað ég leigubílstjórann sérstaklega um að aka ekki stystu leið útá völl, heldur fara gegnum olíuúthverfin). Já - það væri aldeilis magnað ef þetta liti svona út t.d. uppi í Elliðaárdal eða í Grafarvoginum.

Þarna við Bakú hefur allt verið löðrandi í olíu í meira en hundrað ár. Í því sambandi má minna á eldri færslu á Orkublogginu um upphaf azerska olíuævintýrisins.

Einnig er freistandi að vísa hér á stutta ferðasögu, frá því Orkubloggarinn sótti Bakú heim eldgosavorið 2010. Er það sem gerst hafi í gær! Og ég sakna Bakú og langar afar mikið að koma aftur á þessar slóðir.


Gasöldin gengin í garð?

Á undanförnum örfáum árum hafa orðið hreint ótrúleg umskipti í bandaríska orkugeiranum. Sem sumir vilja jafnvel lýsa sem sannkallaðri orkubyltingu.

Græna byltingin umbreyttist í gasæði 

US_Natural-gas-prices_1998-2012

Það varð ekki alveg sú bylting sem margir bjuggust við. Fyrir um fjórum árum, um það leyti sem Orkubloggið hóf göngu sína, virtist blasa við að endurnýjanleg orka væri að verða mál málanna vestur í Bandaríkjunum. Bæði alríkið og fylkin juku fjárstuðning sinn og margvíslegar skattaívilnanir og niðurgreiðslur til handa fyrirtækjum sem fjárfestu í grænni orku.

Þetta bar margvíslegan árangur. Vindorkuiðnaður tók að blómstra víða um landið og gamli olíurefurinn T. Boone Pickens tilkynnti um áætlanir sínar að byggja stærsta vindorkuver Bandaríkjanna suður í Texas. Etanólið virtist ætla að sigra samgöngugeirann og rafbílatækni tók miklum framförum.

Sólarorkuiðnaðurinn blómstraði líka þar vestra og fjölmargir framleiðendur sólarsella (PV) spruttu upp og urðu eftirsóttir á hlutabréfamörkuðum. Og íslenski bankinn Glitnir varð meðal þeirra fyrirtækja sem stuðluðu að endurvakningu bandaríska jarðvarmaiðnaðarins.

Já; það er stutt síðan endurnýjanleg orka virtist mál málanna þar vestra (og reyndar um nær allan heim). Samt er það svo að nú lítur út fyrir að það sé hvorki lífmassi, vindur né sól sem er sigurvegarinn í harðri baráttunni í bandaríska orkugeiranum. Sigurvegarinn er miklu fremur gamla góða jarðefnaeldsneytið! Þó ekki olía eða kol. Heldur jarðgas.

Nýja orkuauðlindin: Shale Gas 

US_Natural-gas-production_2004-2011

Ævintýralegur uppgangurinn í bandaríska gasiðnaðinum gerðist fremur hægt og hjótt  - a.m.k. fyrst í stað. Á sama tíma og bandarísk stjórnvöld og bandaríski kapítalisminn föðmuðu græna orkugeirann, var stille og roligt að byggjast upp nýr kolvetnisiðnaður vestur á sléttum gamla olíufylkisins; Texas. Þar tókst flinkum mönnum að finna hagkvæma leið til að nálgast gríðarlegt magn af þunnum gaslögum sem liggja inniklemmd í grjóthörðum sandsteininum djúpt undir sléttum Texas. Og brátt fór jarðgasið frá þessum nýju uppsprettum að streyma útá markaðinn.

Fyrst í stað voru ekki margir sem veittu þessu sérstaka athygli. En eftir því sem velgengni frumkvöðlafyrirtækjanna jókst vöknuðu orkurisarnir til vitundar um hagkvæmni þessara geysilegu gaslinda. Allt í einu varð shale-gas á allra vörum. Hófst nú mikið kaupæði, þar sem bæði var slegist um frumkvöðlafyrirtækin í shale-gas tækninni og sérhverja landspildu þar sem slíkt gas væri mögulega að finna. Allir vildi vera með í gasæðinu og meira að segja kreppan vestra dró ekkert úr áhuganum á að fjárfesta í shale-gas.

Rétt eins og þegar olíuævintýrið geysaði í Texas á fyrri hluta 20. aldar hefur bandaríska gasæðið nú í upphafi 21. aldarinnar skapað fjölda nýrra dollara-milljónamæringa. Mestu tiðindin eru þó þau að Bandaríkin eru allt í einu orðin sjálfum sér nóg með jarðgas og hafa þar með verulega styrkt stöðu sína sem orkuframleiðandi. Það er meira að segja svo að nýjustu athuganir bandaríska orkumálaráðuneytisins benda til þess að Bandaríkjamenn eigi gnægð af gasi til næstu 100-200 ára! Það er engu líkara en að gasöldin sé að ganga í garð.

Verðfall á gasi 

US-Natural-gas-price_2007-2012

Og hverjar eru afleiðingarnar af stóraukinni gasvinnslu innan Bandaríkjanna? Jú; aukið framboð af gasi þýðir auðvitað lægra verð. Frá árinu 2008 hefur verð á jarðgasi lækkað jafnt og þétt. Og nýverið fór það undir skitna 2 USD pr. milljón BTU (BTU er orkueining og milljón BTU samsvarar um þúsund rúmfetum af gasi).

Það er til marks um umskiptin að fyrir einungis tveimur árum síðan var verðið fyrir umrætt magn af bandarísku jarðgasi um 6 USD eða næstum þrefalt hærra en núna. Og fyrir fjórum árum var verðið næstum 14 USD/mmBTU og var þvi um sex-sjö sinnum hærra en nú um stundir!

Oil-versus-Natural-gas_prices_1986-2012

Mestu umskiptin á bandarísku orkumörkuðunum felast þó í því að tengslin milli verðs á jarðgasi og hráolíu virðast skyndilega hafa rofnað með öllu. Það er engu líkara en að bandaríska jarðgasið sé allt í einu farið að lifa sjálfstæðu efnahagslífi.

Orkuinnihald hráolíutunnu annars vegar og milljón BTU af jarðgasi hins vegar er u.þ.b. 6:1. Þess vegna mætti ætla að verðið á hráolíu og jarðgasi ætti að endurspegla þennan mun. Þ.e. að hráolíutunnan ætti að kosta sex sinnum meira en milljón BTU af jarðgasi. Sögulega hefur hlutfallið þarna þó almennt verið á bilinu 8-12 á móti 1. Þetta sést t.d. vel á grafinu hér að ofan þar sem hlutfallið frá árinu 1986 var lengst af um 10:1.

Oil-versus-Natural-gas_prices_2007-2011

Í marga áratugi gátu þeir sem áttu viðskipti með gas og/eða olíu nánast gengið að því sem vísu að verðhlutfallið þarna á milli væri nánast fasti. Eða u.þ.b. tíu á móti einum með sveiflum sem almennt voru innan við 20%.

Þegar shale-gasið tók að flæða á markaðinn á allra síðustu árum fór að bera á því að jarðgas og hráolía væru að missa taktinn og verðbilið væri að aukast. Þ.e. gasið varð hlutfallslega miklu ódýrara en áður. Einhverjar slíkar sveiflur voru svo sem ekkert nýtt. Því, eins og fyrr sagði, hafa alltaf verið þarna nokkrar sveiflur og þá ekki síst vegna þess að ekki er jafn auðvelt að geyma gas eins og olíu.

Natural-gas-prices-in-us-europe-japan

En þegar líða tók á árið 2009 má segja að bandaríski gasmarkaðurinn hafi hreinlega rifið sig lausan. Og nú er svo komið að í fyrsta sinn í sögunni virðist sem verðtengingin á milli gass og olíu hafi rofnað með öllu - a.m.k. í bili.

Jarðgasið er nú margfalt ódýrara en hráolía. Með því að kaupa gas fær kaupandinn þess vegna miklu meiri orku heldur en með kaupum á olíu. Fyrir örfáum vikum var munurinn þarna orðinn svo mikill að jarðgas var orðið allt að fimm sinnum ódýra heldur en olían (þ.e. í stað hins almenna verðhlutfalls á bilinu 8-12 var hlutfallið komið upp í 50). Samhliða hefur svo bandarískt gas líka orðið miklu ódýra en gas á Evrópu- og Asíumörkuðum.

Aukið gasframboð - lægra raforkuverð 

EIA-2012_US-Electricity-generation-by-fuel_1990-2035

Þetta mikla framboð og lága verð á gasi í Bandaríkjunum hefur ýmsar afleiðingar. Bæði olía og gas eru jú einfaldlega orkugjafar, sem geta að verulegu leyti leyst hvorn annan af hólmi. Þegar gasverð lækkar svo mjög, myndast hvati til að skipta yfir í gas hvarvetna þar sem menn nýta olíu. Þeir sem enn nýta olíukyndingu skipta yfir í gasið. Díseltrukkum er breytt til að geta gengið fyrir gasi. Meira að segja kolaiðnaðurinn fær að finna fyrir þessum verðlækkunum á jarðgasi - sem birtist í því að vestra er kolaorkuverum nú nánast raðlokað á sama tíma og gasorkuverum fjölgar.

Og nú hefur hið ótrúlega gerst; orðið er raunhæft að Bandaríkin verði útflytjandi að fljótandi gasi (LNG). Nýlega hófust framkvæmdir við fyrstu bandarísku LNG-vinnslustöðina fyrir slíkan útflutning. Loks má nefna að kannski verður ódýrt bandarískt jarðgas til þess að það verða bandarísk flugfélög sem taka upp tilraunir Qatar Airways með að fljúga breiðþotum á gasi í stað flugvélabensíns!

US_Electricity-Wholesale-Prices_2010-2011

Áþreifanlegasta  afleiðing þessarar miklu verðlækkunar á gasi í Bandaríkjunum er lágt raforkuverð. Þegar jarðgas er orðið svo ódýrt sem raun ber vitni kostar eldsneyti til að framleiða 1 MWst einungis um 16-20 USD. Það merkir að gasorkuverum nægir nú sennilega oft að fá um 40-45 USD/MWst til að standa undir fjárfestingunni og skila viðunandi arðsemi (þ.e. þegar miðað er við bæði breytilegan OG fastan kostnað gasorkuvers).

Já; um þessar mundir er gas einfaldlega ódýrasti raforkugjafinn í Bandaríkjunum. Það á sinn þátt í því að þessa dagana eiga ekki aðeins sum bandarísk kolaorkuver í vandræðum, heldur þrengir nú einnig vægast sagt mjög að bandarískum sólar- og vindorkuverum. Heildsöluverð á raforku sumstaðar í Bandaríkjunum hefur jafnvel verið að fara vel undir 40 USD/MWst og á einstaka svæðum ennþá neðar. Hér er vel að merkja ekki bara verið að tala um örskammar verðdýfur í miklum rigningum á mestu vatnsaflsvirkjanasvæðunum, heldur meðalverð á raforku í heildsölu yfir margra mánaða tímabil og jafnvel heilt ár.

Veikir mikið gasframboð samkeppnisstöðu Landsvirkjunar?

Gas-shale-rigs-1

Afleiðingin af lágu raforkuverði í Bandaríkjunum skapar ekki bara erfiðleika fyrir bandarísk kola-, vind- eða sólarorkuver. Afleiðingarnar teygja sig langt út fyrir þeirra eigin landsteina.

Þegar bandarískum gasorkuverum nægir að fá u.þ.b. 40-45 USD/MWst, eiga stóriðjufyrirtæki á sumum svæðum Bandaríkjanna kost á því að kaupa raforku í miklu magni á verði sem er t.d. ansið nálægt því það sama og Landsvirkjun er að bjóða nú um stundir. Landsvirkjun býður nú nýja 12 ára raforkusölusamninga á 43 USD/MWst.

Lágt gasverð og þar með lágt raforkuverð í Bandaríkjunum getur haft bein áhrif á iðnaðaruppbyggingu á Íslandi og annars staðar í heiminum. Landsvirkjun hefur það að vísu umfram bandarísku gasorkuverin að bjóða umrætti verð til 12 ára. Vestra verða raforkukaupendur að taka áhættuna af raforkuverði framtíðarinnar. Vegna 12 ára binditímans eru samningar Landsvirkjunar því væntanlega áhugaverðir. Fyrirtæki sem vilja tryggja sér örugga raforku á hagstæðu verði til sæmilega langs tíma, ættu að sýna tilboði Landsvirkjunar áhuga - jafnvel þó svo viðkomandi fyrirtæki séu að framleiða vörur fyrir Bandaríkjamarkað.

Það er engu að síður svo að verðmunurinn þarna er orðinn það lítill, að nú um stundir hlýtur að vera við  ramman reip að draga í samkeppni íslenskra raforkuframleiðenda um nýja raforkukaupendur. A.m.k. gagnvart fyrirtækjum sem hentar að staðsetja sig í Bandaríkjunum.

Eru Bandaríkin að verða besta staðsetningin fyrir stóriðju?

US_Gas-shale-basins-1

En er þetta lága verð á bandarísku jarðgasi og lága raforkuverð þar vestra ekki bara tímabundið? Er ekki augljóst að nú um stundir er einfaldlega offramboð af gasi í Bandaríkjunum og brátt muni markaðurinn leita jafnvægis og verðið á bæði gasi og raforku hækka á ný?

Hvað það verður, veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá. Á endanum hlýtur þó orkuverð að ná jafnvægi, þ.a. tiltekið magn orku í Bandaríkjunum kosti nálægt það sama hvort sem orkan kemur frá t.a.m. gasi, kolum eða olíu. Vandinn er bara sá að kristallskúlan segir manni því miður ekki um það hversu lengi markaðurinn haldi áfram að vera svona bjagaður né hvernig eða hversu hratt leiðréttingin gerist!

US_Natural-gas-futures-price-2012

Það virðast vera nokkuð skiptar skoðanir um hvernig þetta muni gerast. Sumir álíta (kannski eðlilega) að stutt sé í að gasverð hækki og olíuverð lækki. Sérstaklega hljóti gasið að hækka og því sé rétt að vera long í gasi fremur en að vera short í olíu. Aðrir spá því aftur á móti að enn geti verið nokkuð langt i land með að gasverð fari upp - og til skemmri tíma muni það jafnvel lækka ennþá meira og allt niður í 1,5 USD/mmBTU. Það muni valda miklum gjaldþrotum í gasvinnslu-iðnaðinum og þess vegna sé nú kjörið tækifæri að sjorta gasvinnslufyrirtæki!

US_Natural-gas-production_1990-2035

Þegar spáð er í verðþróun á bandarísku jarðgasi er svolítið freistandi að taka mark á framtíðarsýn bandaríska orkumálaráðuneytisins (þ.e. upplýsingaskrifstofu ráðuneytisins; EIA). Þar á bæ hafa menn geysigóðar upplýsingar um gas í jörðu og er líklega hvað best treystandi til að setja fram hlutlausar skoðanir.

Skemmst er frá því að segja að hjá EIA virðast menn nú orðnir fullvissir um að lengi enn verði mikið framboð af gasi á hagstæðu verði. Og þess vegna muni raforkuverð í Bandaríkjunum almennt haldast fremur lágt lengi enn. Ekki bara næstu örfáu árin, heldur til langrar framtíðar. Þar er talað um að sennilega verði meðalverð á raforku víða í Bandaríkjunum nákvæmlega ekkert hærra eftir tíu ár en nú er. Og svo verði líka eftir 20 ár og líka eftir aldarfjórðung! 

US-EIA-Electricity-prices-normal-retail_2012-2035

Þeir sem treysta þessum spám EIA eru vísir til að telja Bandaríkin einhverja bestu staðsetningu fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Þetta gæti mögulega dregið úr áhuga ýmissra  stórra raforkukaupenda á að koma til t.d. Íslands. Lágt raforkuverð vestra gefur slíkum fyrirtækjum a.m.k. augljóslega tilefni til að setja pressu á íslensku orkufyrirtækin til að semja um mun lægra orkuverð en þau kannski óska sér. Kannski er þetta einmitt ein ástæða þess að ekkert hefur gengið að ljúka hér samningum um nýjan kísiliðnað?

Mun aukið gasframboð í Bandaríkjunum valda lækkandi raforkuverði í Evrópu? 

LV-HA-2011-EvropuverdAllir lesendur Orkubloggsins ættu að kannast við það að raforkuverð víðast hvar í Evrópu hefur hækkað verulega síðustu árin. Og er orðið ansið mikið hærra en t.d. víðast hvar í Bandaríkjunum. Og margir eru að spá ennþá meiri hækkunum í Evrópu á næstu árum.

EF umræddar spár EIA um raforkuverð í Bandaríkjunum reynast réttar hlýtur að koma að því að evrópsk stóriðja fari að hugsa sinn gang alvarlega og jafnvel færa sig vestur um haf. Í þessu sambandi er vert að minna á spá Pöyry um hratt hækkandi raforkuverð í Evrópu, sem komið hefur fram í nokkrum kynningum Landsvirkjunar undanfarin misseri (sbr. grafið hér að ofan sem er úr kynningu Landsvirkjunar og má sjá á vef fyrirtækisins).  Þessi spá Pöyry virðist helst byggja á stefnu Evrópusambandsins um að stórauka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Vind- og sólarorka er jú dýrari en að nota kol, gas eða kjarnorku og þess vegna logískt að raforkuverð í t.d. Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi hljóti að hækka umtalsvert á næstu árum og áratugum. Ef löndin standa við áætlanir sínar og stefnu ESB.

Vandinn er bara sá að eftir því sem verðmunurinn á raforku milli Bandaríkjanna og Evrópu eykst, verður meiri hvati fyrir orkufrekan iðnað að færa sig frá Evrópu til Bandaríkjanna. Slíkt myndi draga úr raforkueftirspurn í Evrópu og þar með minnka verðþrýstinginn á evrópskum raforkumörkuðum.

Shale-gas-rig-Lebien-Poland

Þannig gæti lágt verð á jarðgasi í Bandaríkjunum bæði hægt umtalsvert á iðnaðaruppbyggingu á Íslandi OG dregið úr verðhækkunum á raforku í Evrópu. Þar að auki er shale-gasvinnsla nú að fara af stað á gamla meginlandinu. Aukist gasframboð af þeim sökum umtalsvert í Evrópu, myndi það eitt og sér geta lækkað raforkuverð í álfunni. Og þar með á ný aukið samkeppnishæfni evrópsk raforkuiðnaðar, t.d. gagnvart Íslandi. Það er sem sagt alls ekki gefið að raforkuverð í Bandaríkjunum né Evrópu hækki mikið næstu árin - þó svo það sé vissulega mögulegt.

Hvað sem öllu þessu líður, þá stendur Ísland samt vel að vígi til lengri tíma litið. Af þeirri einföldu ástæðu að íslensk orka kemur frá ódýrum endurnýjanlegum auðlindum. En þróunin undanfarið á gasmörkuðunum vestra segir okkur samt að skynsamlegt sé að stilla væntingum okkar í hóf. Og sýna varfærni gagnvart spám um hækkandi raforkuverð - bæði gagnvart Bandaríkjunum og Evrópu. Það kann ennþá að vera nokkuð langt í það að veruleg tækifæri skapist til að auka arðsemi umtalsvert í raforkuvinnslunni á Íslandi. Sú aukna arðsemi er langhlaup, sem krefst bæði þolinmæði og þrautseigju.


Íslensk raforkukauphöll

Nú síðsumars 2012 munu hefjast kauphallarviðskipti með íslenska raforku.

Þetta eru talsverð tímamót. Raforkumarkaðurinn hérlendis hefur í nokkur ár verið frjáls, þ.e. frjáls verðlagning á raforku og kaupendum verið frjálst að velja hvaðan þeir kaupa rafmagnið. Þetta fyrirkomulag er sjálfsagt öllum kunnugt. Sum ef ekki flest raforkusölufyrirtækjanna hafa reynt að nýta sér þetta viðskiptafrelsi til að laða að sér nýja viðskiptavini og auka viðskipti sín. Sbr. t.d. sjónvarpsauglýsingar Orkusölunnar um að kaupa rafmagnið þaðan. Og fá það sem þau hjá Orkusölunni kalla "nýtt og ferskt rafmagn".

ISBAS-slide-5

Þessu fyrirkomulagi, sem felur í sér að neytendur velja sér hvaðan þeir kaupa rafmagnið, var komið á í tengslum við aðild Íslands að EES-samningnum. Tilgangurinn er m.a. sá að auka samkeppni milli raforkuframleiðenda.

Það er sem sagt frjáls samkeppni á íslenska raforkumarkaðnum. Engu að síður er þessi samkeppni vissum takmörkunum háð. Framleiðendum og öðrum seljendum raforku hefur t.a.m. verið sniðinn þröngur stakkur gagnvart því að eiga viðskipti sín á milli (heildsöluviðskipti).

Seljendur raforku hafa fyrst og fremst haft úr eigin framleiðslu að moða. Og t.d. haft litla möguleika til að koma til móts við aukna eftirspurn, svo sem vegna nýrra viðskiptavina, nema þá með því að auka eigin framleiðslugetu (sem getur kallað á nýja virkjun). Vissulega eru raforkuviðskipti frjáls og þ. á m. milli raforkuframleiðenda, þ.a. að sjálfsögðu er ávallt mögulegt að raforkuframleiðendur eigi heildsöluviðskipti sín á milli. Engu að síður hafa slík viðskipti verið háð fremur gamaldags og þunglamalegu fyrirkomulagi. Þau eru að mestu ef ekki öllu leyti bundin við langtímasamninga og raforkufyrirtækin hafa haft takmarkaða möguleika til að kaupa raforku með skemmri fyrirvara.

Í tilvikum þar sem raforkufyrirtæki hefur áhuga á heildsöluviðskiptum með skömmum fyrirvara (t.d. til að selja áfram til viðskiptavina sinna) hefur starfsfólkið þurft að hringja eða senda öðrum framleiðanda tölvupóst með fyrirspurnum um það hversu margar kWst verði til reiðu á þeim tíma sem áhugi er á viðskiptum. Og síðan hafa samband við næsta raforkuframleiðandi til að kanna hvort betri kjör bjóðist þar.

Að sumu leyti líkist þetta því að sá sem vilji kaupa sér nokkra hrúta þurfi að ráfa milli fjárhúsa. Núverandi fyrirkomulag á heildsölumarkaði með raforku skapar ýmsar hindranirnar og hefur óhjákvæmilega þær afleiðingar að samkeppni á raforkumarkaðnum verður lítt virk. Ekki aðeins er framkvæmdin á heildsöluviðskiptunum þunglamaleg, heldur veldur fyrirkomulagið því að verðmyndunin verður fremur óljós.

ISBAS-slide-6

Almennt séð er núverandi fyrirkomulag raforkuviðskipta í heildsölu líklegt til að halda aftur af samkeppni. Ef aftur á móti raforkuviðskipti færu fram í kauphöll lægi ávallt fyrir hvaða verð væru í boði og ávallt væri a.m.k. tiltekið lágmarksframboð af rafmagni til taks (vegna viðskiptavakakerfis líkt og gerist t.d. á hlutabréfamarkaði). Þá myndu allir viðskiptaaðilar sitja við sama borð og auknar líkur verða á því að best reknu fyrirtækin njóti ávaxtanna og nái að vaxa enn frekar.

Einnig gætu þá raforkuframleiðendur með einföldum hætti keypt raforkuna af öðrum, fremur en að framleiða hana sjálfir, þegar þeim hentar svo. Og raforkukauphöll myndi skapa þann möguleika að til kæmu milliliðir sem sérhæfa sig í kaupum og sölu á raforku. Þar er vel að merkja ekki átt við markað með hreina fjármálagjörninga; í raforkukauphöllinni yrði einungis boðið upp á viðskipti með beinharða raforku (það sem á ensku kallast physical electricy excgange).

Núverandi fyrirkomulag raforkumarkaðarins hefur sennilega einkum verið óheppilegt fyrir minni vatnsaflsfyrirtæki, sem hafa yfirleitt úr lítilli miðlun að spila og eru mjög háð sveiflum í framleiðslu sinni. Norðlenska fyrrtækið Fallorka er dæmi um slíkt fyrirtæki, þar sem framleiðslan sveiflast verulega eftir árstíðum og veðrinu almennt. Vilji fyrirtækið selja meiri raforku til neytenda en sem nemur lágmarksframleiðslugetu fyrirtækisins, þarf Fallorka oft að eiga aðgang að raforku annars staðar frá. Og þá er mikilvægt að framboð sé fyrir hendi og verðmyndun sé skýr.

Fallorka gæti auðvitað að einhvejrju leiti leyst málið með hefðbundnum langtímasamningum við t.d. Landsvirkjun. En til að mæta sveiflum og geta uppfyllt skyldur sínar gagnvart viðskiptavinum sínum væri væntanlega mjög æskilegt fyrir fyrirtækið að eiga aðgang að skipulögðum heildsölumarkaði. Þá er átt við markað þar sem sem flestir og helst allir kaupendur og seljendur raforku í heildsölu á Íslandi mætast nafnlaust á jafnræðisgrundvelli, rétt eins gerist á t.d. hlutabréfa- eða skuldabréfamarkaði í kauphöll - og setja þar inn kaup- og/eða sölutilboð á rafmagn.

ISBAS-slide-3

Slíkt kauphallarfyrirkomulag með raforku hefur ýmsa kosti. Með skipulögðum heildsöluraforkumarkaði í kauphöll verður verðmyndun á raforku miklu gleggri, fyrirtækjum yrði gert auðveldara að mæta óvæntum sveiflum og allir myndu sitja við sama borð. Þar að auki tryggir kauphallarfyrirkomulagið öruggt uppgjör á öllum samningum.

Kauphallarfyrirkomulagið er líklegt til að auka samkeppni og verða til hagsbóta bæði fyrir raforkunotendurna og vonandi flest raforkufyrtækin. Kauphöllin ætti að hafa þau áhrif að best reknu raforkufyrirtækin spjari sig best og þar með aukist möguleikar þeirra til vaxtar. Það þyrfti ekki að gerast með byggingu nýrra virkjana, heldur einfaldlega með því að viðkomandi fyrirtæki verða stærri viðskiptaaðili á raforkumarkaðnum.

Þarna kunna t.a.m. að vera umtalsverð tækifæri fyrir vel rekin minni raforkufyrirtæki, sem ættu sum hver að geta aukið markaðshlutdeild sína umtalsvert. Og þar með styrkt samkeppni á raforkumarkaðnum. Slíkt hefði augljósa kosti fyrir neytendur t.d. núna þegar Orkuveita Reykjavíkur hefur verið að stórhækka raforkuverð sitt (vegna mislukkaðra fjárfestinga og undarlegrar fjármögnunarstefnu fyrirtækisins á árunum fyrir efnahagshrunið).

landsnet-logo

Almennt séð eykur raforkukauphöll sveigjanleika í raforkuviðskiptum. En það eru ekki bara skynsamir raforkuframleiðendur og neytendur sem geta notið góðs af kauphöll með raforku. Flutningsfyrirtækið Landsnet hefur einnig tækifæri til að nýta sér slíkan skipulagðan heildsölumarkað. Vegna mögulegra bilana og flutningstapa í raforkukerfinu þarf Landsnet ætíð að eiga aðgang að umtalsverðu aukamagni af raforku. Fram til þessa hefur aðgangur að þeirri orku verið tryggður með samningum til eins árs i senn. En með tilkomu kauphallar með raforku opnast sú leið fyrir Landsnet að kaupa a.m.k. hluta þeirrar orku á markaði kauphallarinnar með miklu skemmri fyrirvara.

Auðvitað er ekki öruggt að þar með þurfi Landsnet að greiða lægra verð en ella fyrir raforkuna sem þarf til að mæta flutningstapi eða bilunum. En með þessu eykst svigrúm Landnets til að halda slíkum kaupum í lágmarki. Og þar með skapast tækifæri til að ná fram meiri hagkvæmni í rekstri, sem ætti að geta skilað sér í lægri útgjöldum neytenda.

Íslenska raforkukauphöllinn fer af stað nú í lok sumars. Til að byrja með verður þar einungis um að ræða viðskipti innan dagsins (intra day trading) og þá talað um ISBAS. Það mun ekki standa til að bjóða upp á spot-viðskipti; a.m.k. ekki til að byrja með. Slík viðskipti eiga sér stað daginn áður (þ.e. raforkan er afhent daginn eftir viðskiptin) og myndast þá markaðsverð fyrir hvern klukkutíma fyrir sig. Til að slíkur spot-markaður sé raunhæfur er þörf á mjög tíðum viðskiptum og talsvert mikilli veltu. Þær upplýsingar sem hafa komið fram um íslensku raforkukauphöllina fram til þessa, benda til þess að beðið verði með að koma á fót spot-markaði uns reynsla er komin á ISBAS.

Nord-Pool-Spot-logo

Fyrirkomulagið á ISBAS styðst einkum við fyrirmyndir frá norræna raforkumarkaðnum; Nord Pool Spot. Þar er boðið upp á tvær megingerðir samninga; annars vegar s.k. Elspot-samninga og hins vegar Elbas-samninga. Elspot er uppboðsmarkaður með raforku sem er til afhendingar daginn eftir, þar sem fram kemur markaðsverð fyrir hvern klukkutíma fyrir sig. Elbas er aftur á móti raforkumarkaður sem líkist meira staðgreiðsluviðskiptum, þar sem unnt er að kaupa raforku í gegnum kauphöllina til afhendingar allt niður í klukkutíma fyrirvara. ISBAS mun einmitt verða ámóta markaðsfyrirkomulag eins og Elbas.

Íslenska raforkukauphöllin hefur verið i undirbúningi í mörg ár og má líklega rekja þá vinnu allt aftur til ársins 2005. Það var a.m.k. allt tilbúið í sumarlok 2008 og búið var að ákveða opnun ISBAS þá um haustið. En þá skall bankahrunið á, sem skapaði mikla óvissu í efnahagsmálum og Landsnet tók þá skynsamlegu afstöðu að fresta ISBAS.

isbas_logo

Það er auðvitað óvíst hvernig takast mun til með þessa íslensku raforkukauphöll. Íslenski raforkumarkaðurinn utan hinna umfangsmiklu stóriðjusamninga er afar lítill (einungis um 3 TWst). Til að markaðurinn virki eðlilega, er algerlega nauðsynlegt að raforkuframleiðendurnir hérna sinni þessu verkefni af skyldurækni og áhuga. Og ekki má búast við of miklu svona fyrst í stað.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að það tók norræna raforkumarkaðinn Nord Pool Spot þó nokkur ár að ná þroska. Hann á rætur sínar að rekja til aukins frelsis í raforkuviðskiptum sem tekið var upp í Noregi um 1990 . Fyrstu árin óx þessi skipulagði raforkumarkaður rólega og ýmisr spáðu þvi jafnvel að þetta myndi aldrei ganga upp. 

En reynslan varð góð og og í dag fara rúmlega 70% af öllum raforkuviðskiptum viðkomandi markaðssvæðis í gegnum Nord Pool Spot! Nord Pool Spot er hvorki meira né minna en stærsta raforkukauphöll heims og er reyndar fyrirmynd flestra nýrra kauphalla þessu sviði. Þar má nefna bæði raforkukauphallir í Bretlandi, á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Norðmennirnir hjá Statnett, sem fyrstir komu að uppbyggingu þessa kerfis, geta því verið afar stoltir af árangrinum.

Rétt eins og Nord Pool Spot er í eigu norrænu raforkudreifingarfyrirtækjanna, þá verður íslenska raforkukauphöllinn sérstakt fyrirtæki í eigu Landsnets. Viðskiptin munu öll eiga sér stað rafrænt í gegnum heimasíðu markaðarins (sem væntanlega verður www.isbas.is).

Island-raforkuframleidsla-storidja-almenn-notkun-2010

Sumir hafa eflaust efasemdir um að svona markaður geti gengið hér á landi, einfaldlega vegna þess hversu stór hluti allrar raforkuframleiðslunnar hér er bundinn í langtímasamningum (við stóriðjufyrirtækin). Hér verður líka að hafa í huga hversu gríðarstórt hlutfall af raforkuframleiðslunni hérlendis er í höndum einungis eins fyrirtækis. Samtals framleiðir Landsvirkjun hátt í ¾ hluta allrar raforku í landinu. Og meira að segja þó að stóriðjunotkunin sé undanskilin, er markaðshlutdeild Landsvirkjunar mjög mikil eða á bilinu 60-65% af allri almennri notkun.

Til samanburðar má nefna að á Nord Pool Spot er enginn einn aðili með meira en 20% markaðshlutdeild. Stofnun ISBAS er því veruleg áskorun. En ef vel tekst til gæti svo farið að smám saman muni hluti af raforkuviðskiptum stóriðjunnar hér á landi færast yfir í kauphöllina. Þá gæti jafnvel myndast grundvöllur fyrir spot-markað. 

Það eru a.m.k. spennandi tímar í vændum á íslenskum raforkumarkaði - og þá ekki aðeins vegna Rammaáætlunar og hugmynda um sæstreng. Og það er með ólíkindum að íslenskir fjölmiðlar skuli ekki hafa sýnt tilvonandi ISBAS markaði meiri athygli. Vonandi verður þetta hádegis-innlegg Orkubloggsins þennan milda mánudag til þess að a.m.k. einhverjir lesendur átti sig betur á því hvernig raforkumarkaðurinn hér mun mögulega þróast á næstu misserum og árum.

--------------- 

[Myndirnar hér í færslunni eru fengnar úr kynningum sem aðgengilegar eru á vef Landsnets og vef Orkustofnunar, en NPS-lógóið er að sjálfsögu fengið af vef NordPoolSpot].


Landsvirkjun gerð að almenningshlutafélagi?

Undanfarið hafa hugmyndir um breytingar eignarhaldi í íslenska orkugeiranum verið talsvert í umræðunni.

Arnar-Sigmundsson-1

Ein hugmyndin er sú að nýtt orkufyrirtæki, með aðild Orkuveitu Reykjavíkur og íslenskra lífeyrissjóða, verði stofnað í kringum Hverahlíðarvirkjun. Einnig hafa komið fram hugmyndir um að Landsvirkjun taki upp verkefnafjármögnun (sbr. síðasta færsla Orkubloggsins þar um). Og jafnvel að Landsvirkjun verði gerð að almenningshlutafélagi og hluti fyrirtækisins verði seldur til lífeyrissjóða eða eftir atvikum til annarra einkaaðila.

Eins og alkunna er, þá eru helstu orkufyrirtæki landsins alfarið í eigu hins opinbera. Síðan síðla árs 2006 hefur  Landsvirkjun verið að fullu í eigu ríkisins, en fyrir þann tíma áttu Reykjavíkurborg og Akureyrarbær líka í fyrirtækinu. Orkuveita Reykjavíkur er að mestu leyti í eigu Reykjavíkurborgar (með nokkur nágrannasveitarfélög sem meðeigendur). Hitaveita Suðurnesja var líka lengst af í eigu ríkisins og sveitarfélaga á Suðurnesjum. 

Síðan kom að því um mitt ár 2007 að Hitaveita Suðurnesja var einkavædd [hér er hugtakið einkavæðing látið ná yfir það þegar opinber rekstur er hlutafélagavæddur og viðkomandi fyrirtæki selt að hluta eða í heild til einkaréttarlegra aðila]. Þriðjungshlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja var þá seldur til Geysis Green Energy. Í kjölfarið var svo Hitaveitunni skipt upp í HS Veitur og HS Orku (desember 2008) og enduðu þessar tilfæringar með því að einkavæðingin náði einungis til HS Orku. En HS Veitur voru áfram í opinberri eigu. Þar er Reykjanesbær með stærsta eignarhlutann, en OR á þar einnig umtalsverðan hlut.

asgeir-margeirsson-gge.jpg

Í dag er HS Orka að stærstu leyti í eigu kanadíska almenningshlutafélagsins Alterra Power - í gegnum sænskt eignarhaldsfélag. Fyrir nokkru minnkaði kanadíska fyrirtækið reyndar hlut sinn í HS Orku. Það gerðist þegar Jarðvarmi slhf - nýtt samlagshlutafélag í eigu íslenskra lífeyrissjóða - keypti sig inn í HS Orku. Í dag á Jarðvarmi þriðjungshlut í HS Orku.

Vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar og OR munu bæði sveitarfélagið og reykvíska orkufyrirtækið vera áhugasöm um að selja hlut sinn í HS Veitum. Það er því vel hugsanlegt að næsta einkavæðin í íslenska orkugeiranum verði ekki í raforkuframleiðslu, heldur í framleiðslu og dreifingu á heitu og köldu vatni. Sem er athyglisvert, því víða um heim er einkavæðing á vatnsveitum jafnvel ennþá eldfimari pólítískt séð heldur en einkavæðing í raforkuframleiðslu. 

Og sem fyrr segir er núna líka rætt um að huga beri að aðkomu einkaaðila að virkjanaverkefnum á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Og einnig er uppi sú hugmynd að Landsvirkjun verði gerð að almenningshlutafélagi.

helgi-magnusson-samtok-idnadarins.jpgÍ desember s.l. (2011) mátti t.a.m. sjá fréttir þar sem þeir Arnar Sigmundsson, stjórnarform. Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fiskvinnslustöðva, og Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, lýstu ágæti þess að Landsvirkjun yrði skráð á hlutabréfamarkað. Og að lífeyrissjóðir yrðu meðeigendur ríkisins að þessu langstærsta orkufyrirtæki landsins. Þannig myndu "allir græða"; lífeyrissjóðirnir kæmu peningum í vinnu, ríkissjóður fengi peninga í kassann og fjármögnun Landsvirkjunar sögð verða tryggari.     

Skömmu áður hafði þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, viðrað svipaðar hugmyndir og undir það tóku fleiri Samfylkingarmenn. Hér má líka nefna nýlega grein Magnúsar Halldórssonar, blaðamanns á Fréttablaðinu, þar sem hann nefnir þá leið að ríkið selji íslenskum lífeyrissjóðum t.d. 40% hlut í Landsvirkjun. Ekki síst í þeim tilgangi að styrkja eignastöðu lífeyrissjóðanna eða öllu heldur veita þeim gengisvörn (verðmæti Landsvirkjunar hverju sinni ræðst mjög af þróun USD og álverðs). Á sama tíma myndi salan styrkja lausafjárstöðu ríkisins. Sem mögulega yrði nýtt til að ráðast í skynsamlegar opinberar framkvæmdir og/eða lækka skatta og þannig örva atvinnulífið.

Margir sjá sem sagt einkavæðingu Landsvirkjunar sem góðan kost og eftir atvikum einnig einkavæðingu OR. Þar með er þó ekki endilega verið að segja að hið opinbera eigi alveg að fara út úr raforkuframleiðslunni. Þvert á móti virðast flestar þessara hugmynda ganga út á það, að hið opinbera verði áfram stór eignaraðili að orkufyrirtækjunum og jafnvel meirihlutaeigandi.

Þessa umræðu um einkavæðingu stóru íslensku orkufyrirtækjanna má líklega að einhverju leyti rekja til skýrslu sem þeir hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson unnu nýverið fyrir fjármálaráðuneytið. Skýrslan sú fjallar um arðsemi af orkusölu til stóriðju á Íslandi, en á hana var einmitt minnst í síðustu færslu Orkubloggsins. Þar setja þeir Ásgeir og Sigurður fram þá hugmynd að Landsvirkjun (og önnur íslensk orkufyrirtæki í opinberri eigu) taki upp verkefnafjármögnun og að Landsvirkjun verði gerð að almenningshlutafélagi. Það sé farsælasta leiðin til að auka arðsemi Landsvirkjunar.

Asgeir-Jonsson-1Orkubloggið hefur nefnt að erfitt geti reynst að taka upp verkefnafjármögnun við byggingu virkjana hér á Íslandi - a.m.k. nú um stundir. En hvað með hinn þáttinn í hugmyndum þeirra Ásgeirs og Sigurðar? Væri skynsamlegt að einkavæða Landsvirkjun? Og það jafnvel sem fyrst? Myndu allir græða á því að fyrirtækið verði skráð á markað og einhver hluti þess seldur til einkaaðila?

Ekki treystir Orkubloggarinn sér til að gefa einhlítt svar við þeirri spurning. Það skal þó nefnt, til að alls sannmælis sé gætt, að bloggarinn er almennt velviljaður því að dregið sé úr beinni þátttöku hins opinbera í atvinnulífinu. En að ríkið og/ eða sveitarfélög eigi þar með að selja frá sér orkufyrirtækin er samt alltof stórt mál til að afgreiða það eingöngu á einhverjum prinsippum um almenna kosti ríkisrekstrar og einkarekstrar. Þetta hlýtur að skoðast út frá afar breiðu hagsmunamati, þar sem hagsmunir almennings eiga að vera í fyrirrúmi.

Nefna má að nær öll helstu raforkufyrirtækin á Norðurlöndunum eru ekki á markaði (a.m.k. ekki ennþá) og eru ýmist að stærstu leyti eða öllu leyti í ríkiseigu. Það á bæði við um norska Statkraft (100% í eigu norska ríkisins), sænska Vattenfall (100% í eigu sænska ríkisins) og danska Dong Energi (þar á danska ríkið um 77%, en afgangurinn er að mestu leyti í eigu tveggja samvinnufélaga sem eru í eigu viðskiptavinanna). Meira að segja finnska almenningshlutafélagið Fortum, sem er stærsta raforkufyrirtæki Finnlands, er að meirihluta í eigu finnska ríkisins.

Það er sem sagt svo að finnska Fortum er hið eina af stóru norrænu raforkufyrirtækjunum sem gert hefur verið að almenninghlutafélagi. Statkraft, Vattenfall og Dong eru aftur á móti öll rekin sem opinber fyrirtæki - a.m.k. enn sem komið er. Fyrir nokkrum árum stefndu dönsk stjórnvöld að því að skrá Dong á markað, en danska ríkið skyldi þó áfram vera meirihlutaeigandi. Af þessari einkavæðingu Dong varð þó ekki, af því markaðsaðstæður þóttu óhagstæðar og voru hugmyndir um einkavæðingu Dong settar í salt.

Fortum-operations-2011

Án þess að fara að draga sérstakar ályktanir af eignarhaldinu á Vattenfall, Statkraft, Dong og Fortum, þá er samt athyglisvert hversu ríkið er þarna í öllum tilvikum umsvifamikið. Finnska Fortum er hið eina þessara raforkufyrirtækja sem er almenningshlutafélag (síðan 1998). Finnska ríkið hefur engu að síður haldið meirihlutanum í Fortum og á nú rétt tæplega 51% í fyrirtækinu. Þess vegna má kannski helst finna fyrirmynd að einkavæðingu Landsvirkjunar (þar sem íslenska ríkið yrði stór hluthafi) í finnska Fortum?

Fortum er reyndar ansið hreint ólíkt Landsvirkjun. Auk stærðarmunarins er Fortum afar umsfvifamikið í kjarnorku og hefur vaxið hratt utan Finnlands. Fyrirtækið stendur í miklum fjáfestingum erlendis og þá ekki síst í Rússlandi. Þar í landi framleiðir Fortum nú þrisvar sinnum meiri raforku en öll raforkuver á Íslandi framleiða til samans. Einkavæðingin á Fortum skömmu fyrir aldamótin var einmitt gerð samhliða því að fyrirtækið fór mjög að horfa til erlendra markaða.

us_hydro-power-ownership-2006.png

Í þessu sambandi er líka athyglisvert að að í vöggu einkaframtaksins - Bandaríkjunum - er um 70% alls virkjaðs vatnsafls í eigu hins opinbera. Þar er ekki um að ræða neitt smáræði, heldur heil 55.000 MW. Þar á meðal eru nokkrar af stærstu vatnsaflsvirkjunum veraldarinnar. Af einhverjum ástæðum hafa bandarísk stjórnvöld - hvort sem er alríkisstjórnin og stofnanir hennar eða einstök fylki - forðast aðkomu einkaaðila að þessum virkjunum.

Það er sem sagt svo að hið opinbera - hvort sem er í Skandinavíu eða Bandaríkjunum - er afar fastheldið á orkufyrirtæki og þó alveg sérstaklega orkufyrirtæki sem byggja mikið á vatnsafli. Enda eru vatnsaflsvirkjanir almennt langhagkvæmasta leiðin til að nýta endurnýjanlega orku. Og það vill einmitt svo til að Landsvirkjun er ennþá nánast alfarið vatnsaflsfyrirtæki; um 96% raforkuframleiðslu Landsvirkjunar kemur frá vatnsafli.  

Það blasir sem sagt ekki við að skandínavísku raforkufyrirtækin gefi okkur það fordæmi að skynsamlegt sé að einkavæða Landsvirkjun. Og slíkt fordæmi er ekki einu sinni að finna í bandarísku vatnsaflsfyrirtækjunum. Enda er það svo að í skýrslu sinni vísa þeir Ásgeir og Sigurður alls ekki til skandínavískra eða bandarískra raforkufyrirtækja til stuðnings þvi að einkavæða Landsvirkjun. Þvert á móti virðast þeir einkum leita fyrirmyndar að slíkri einkavæðingu Landsvirkjunar í einu af stærstu olíuvinnslufyrirtækjum Evrópu. Sem er norski olíu- og gasrisinn Statoil.

Statoil-platform-Troll-A

Orðrétt er haft eftir Ásgeiri (leturbreyting er Orkubloggarans): „Ég vil skoða hvernig eignarhaldi Statoil er háttað. Þar er hugsunin sú að ríkið haldi utan um auðlindirnar með því að eiga meirihlutann í fyrirtækinu, en á sama tíma er reynt [að] hafa eins mikið aðhald í starfsemi félagsins og hægt er, en á sama tíma geti fyrirtækið fjármagnað sig á markaði sjálfstætt og sé ekki með ríkisábyrgð og hafi ýmislegt aðhald að markaðnum. Það næst að einhverju leyti með hlutafélagavæðingu."

Jú - Statoil er vissulega farsælt félag og er líka almenningshlutafélag - með norska ríkið sem langstærsta hluthafann með rétt tæplega 71% hlut. Statoil er sem sagt rekið sem algerlega sjálfstætt fyrirtæki, sem verður að fjármagna sig á markaði án nokkurra beinna afskipta norska ríkisins. Og nýtur auðvitað ekki ríkisábygðar. Kannski þarna sé að finna áhugaverða fyrirmynd fyrir Landsvirkjun?

Statoil-operation-countries-2

Gallinn er bara sá, að það sjónarmið að sambærileg skipan á eignarhaldi Landsvirkjunar eins og er hjá Statoil muni leiða til aukinnar arðsemi hjá Landsvirkjun, stenst vart skoðun. Þarna er um að ræða gjörólíkan rekstur. Risastórt olíufyrirtæki eins og Statoil starfar í rekstrarumhverfi sem er afar ólíkt því sem gildir um raforkufyrirtæki sem byggir framleiðslu sína að mestu á vatnsafli. Vissulega eru bæði fyrirtækin á orkumarkaði. En olíuleit og -vinnsla er allt annar bissness en raforkuframleiðsla og þó einkum og sér í lagi þegar um lítt áhættusöm vatnsaflsfyrirtæki er að ræða.

Statoil-Tar-Sands-Canada

Orkubloggaranum er líka hulið hvað Ásgeir Jónsson á við með því að segja að reynt sé að "hafa aðhald" í starfsemi Statoil. Þó svo það kunni að vera freistandi að líta á Statoil sem krúttlegt og nettlega rekið norskt orkufyrirtæki, þar sem bæði er hugað að hagsmunum norsku þjóðarinnar og leitast við að hámarka arðsemina, þá er staðreyndin sú að þarna er einfaldlega á ferðinni alþjóðlegur olíurisi. Statoil er í olíustússi út um allar trissur; er með starfsemi í um 40 löndum og er t.a.m. umfangsmikið í löndum eins og Aserbaijan, Alsír og Líbýu. Þetta er geysilega áhættusamur bisness, þar sem fyrirtækin svífast stundum einskis til að komast yfir bestu bitana um veröld víða. Þau beita jafnvel mútum, eins og staðfest hefur verið í nokkrum dómsmálum vegna olíuvinnslu Statoil í þróunarlöndunum. Statoil tekur líka þátt í gríðarlega áhættusömum verkefnum utan við strendur Angóla og Brasilíu og er orðið nokkuð stór aðili í einhverri mest mengandi olíuvinnslu veraldar; í kanadíska olíusandinum. Aðhald?

Hér má líka nefna að þegar Statoil var breytt í almenningshlutafélag árið 2001 var tilgangurinn fyrst og fremst sá að gera fyrirtækinu auðveldara að vaxa erlendis. Gera það að alþjóðlegu olíuvinnslufyrirtæki sem myndi ekki aðeins starfa í norsku lögsögunni eða Norðursjó, heldur um veröld víða. Það að vísa til Statoil í tengslum við hugmyndir um einkavæðingu Landsvirkjunar er þess vegna kannski ekki alveg rökrétt.

Petoro-Cash-flow_2001-2011

Þar að auki má nefna að meirihlutaeign norska ríkisins í Statoil hefur ekkert með það að gera að "halda utan um auðlindirnar", eins og Ásgeir orðar það. Utanumhald norska ríkisins á norsku olíuauðlindunum er ekki í höndum Statoil, heldur fer þetta fram í gegnum norska olíumálaráðuneytið og sérstaka stjórnsýslustofnun sem svipar til Orkustofnunar. Auk þess mætti þarna nefna hlutverk norska ríkisfyrirtækisins Petoro (sem ekki er á markaði). Hinn mikla arð Norðmanna af olíuauðlindunum er einmitt miklu fremur að rekja til ríkisfyrirtækisins Petoro heldur en eignarhalds norska ríkisins í Statoil, en Petoro er umfangsmikill hluthafi í vinnsluleyfum á norska landgrunninu.

Þeir Ásgeir og Sigurður hefðu að ósekju mátt rökstyðja það aðeins betur af hverju gera beri Landsvirkjun að almenninghlutafélagi við núverandi aðstæður - og af hverju Statoil sé góð fyrirmynd. Það er líka miður að þeir létu alveg hjá líða að gera hinn minnsta samanburð, né ræddu þeir mismunandi rök með og á móti einkavæðingu raforkufyrirtækja í vatnsaflsiðnaðinum. Orkubloggarinn fær ekki betur séð en að einu rökin sem þeir félagarnir nefna fyrir einkavæðingu Landsvirkjunar, séu þau að stjórnendur fyrirtækisins standi frammi fyrir freistnivanda - sem geti leitt til óarðbærra virkjanaframkvæmda. Má ekki einfaldlega leysa úr því með þeim hætti að íslenska ríkið hætti að ábyrgjast lán fyrirtækisins? Til að framkvæma það eitt og sér þarf enga einkavæðingu.

Með þessum ábendingum eða athugasemdum er Orkubloggarinn vel að merkja ekki að taka afstöðu gegn hverskonar einkavæðingu í íslenska raforkugeiranum. Alls ekki. Þvert á móti þá hefur bloggarinn áður viðrað hér á Orkublogginu þá skoðun sína að skynsamlegt geti verið að fá einkafjármagn að takmörkuðu leyti að bæði Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. En það þarf að gerast á réttum forsendum. Að gera það með vísan til verkefnafjármögnunar eða að Statoil sé áhugaverð fyrirmynd eru varla sterk rök fyrir einkavæingu Landsvirkjunar.

Þá stendur eftir spurningin hvort aðkoma íslenskra lífeyrissjóða að Landsvirkjun nú um stundir sé skynsamlegur kostur? Til að skapa sjóðunum gengisvörn, koma fé þeirra í vinnu við rekstur og uppbyggingu virkjana og auka lausafé hjá hinu opinbera. Almennt má vafalaust telja fjárfestingu lífeyrissjóða í vatnsafli skynsamlega, því þar er oft á ferðinni fremur áhættulítill rekstur sem til lengri tíma skilar bærilegri arðsemi. Stjórnendur íslensku lífeyrissjóðanna eru þó varla svona spenntir fyrir þeirri Landsvirkjun, sem fram til 2011 hafði að meðaltali skilað einungis að meðaltali 2% arðsemi af eigin fé. Miklu fremur hljóta stjórnendur lífeyrissjóðanna að líta til þess að á undanförnum misserum hefur Landsvirkjun kynnt möguleikann á því að stóraauka arðsemi fyrirtækisins á næstu 15 árum eða svo. Sbr. einnig skýrsla GAMMA um mögulega stóraukna arðsemi Landsvirkjunar á komandi árum.

LV-framkvaemdastjorn-2011

Það vill svo til að Landsvirkjun virðist vera að skila nokkuð góðum rekstri þessi misserin, er að skila arði til ríkisins, er að greiða niður skuldir og virðist almennt séð vera á prýðlegri siglingu. Og gangi umræddar hugmyndir um að stórauka arðsemi Landsvirkjunar eftir, er augljóst að vermæti fyrirtækisins mun aukast mjög frá því sem nú er.

Það er líka svo að EF eigandi Landsvirkjunar, þ.e. íslenska ríkið, hefur trú á umræddri framtíðarsýn stjórnenda fyrirtækisins, þá hlýtur ríkið að fara afar varlega í einkavæðingu fyrirtækisins nú. Og þess í stað einfaldlega veita stjórnendum Landsvirkjunar svigrúm til að koma stefnumörkun sinni í framkvæmd. Þess vegna er kannski ótímabært að ræða um einkavæðingu Landsvirkjunar nú um stundir.


Verkefnafjármögnun íslenskra virkjana

Nú um stundir er talsvert rætt um um verkefnafjármögnun og aðkomu lífeyrissjóða (og etv. fleiri einkaaðila) að opinberu orkufyrirtækjunum.

Asgeir-Jonsson-2Þessa umræðu má m.a. rekja til skýrslu sem þeir hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson unnu nýverið fyrir fjármálaráðuneytið. Skýrslan sú, sem nálgast má á vef ráðuneytisins, fjallar um arðsemi af orkusölu til stóriðju á Íslandi. Þar leggja höfundarnir til að allar nýjar virkjanaframkvæmdir Landsvirkjunar (og annarra íslenskra orkufyrirtækja í opinberri eigu) verði verkefnafjármagnaðar. Og í framhaldinu verði opinberu orkufyrirtækin gerð að almenningshlutafélögum, þ.e. að hlutafélögum sem skráð verði á markað.

Skýrsluhöfundarnir segja að arðsemi af raforkusölu til stóriðju á Íslandi hafi fram til þessa verið afar lítil. Og að raforkuframleiðsla Landsvirkjunar hafi ekki skilað beinni auðlindarentu. Ef einhver slík renta hafi á annað borð myndast þá hafi hún a.m.k. ekki runnið til orkufyrirtækisins, heldur til orkukaupendanna - í formi lægra orkuverðs. Þar er stóriðjan lang fyrirferðamest. Því má segja að niðurstaða þeirra Ásgeirs og Sigurðar sé í reynd sú, að það séu fyrst og fremst eigendur stóriðjufyrirtækjanna sem njóti auðlindarentunnar af orkunýtingu á Íslandi. Sem er auðvitað ekki alveg nógu gott og mikilvægt að eigendur orkufyrirtækjanna (hið opinbera) njóti hennar í ríkara mæli.

Skýrsluhöfundar segja að hin lága arðsemi af rafmagnssölu Landsvirkjunar til stóriðju myndi tæplega standa undir þeim kröfum um ávöxtun sem gerðar eru til orkuframleiðslufyrirtækja á frjálsum markaði úti um heim. Þeir telja mikilvægt að bæta þarna úr og að ekki verði ráðist í nýjar virkjanaframkvæmdir hér, nema tryggt sé að arðsemiskrafan verði í samræmi við það sem myndi gerast á markaði. Þ.e. að arðsemiskrafan hækki umtalsvert. Og til að svo megi vera sé mikilvægt að gera ákveðnar breytingar á Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum í opinberri eigu.

Hverahlid-borhola

Breytingarnar sem þeir Ásgeir og Sigurður leggja til eru annars vegar að allar nýjar virkjanaframkvæmdir verði verkefnafjármagnaðar og hins vegar að opinberu orkufyrirtækjunum verði breytt í almenningshlutafélög. Þetta sé tryggasta leiðin til að auka arðsemi í raforkuframleiðslunni á Íslandi. Orðrétt lýsa þeir þessu þannig (leturbreyting er Orkubloggarans):

Höfundar leggja til að unnið verði að því að breyta Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum í opinberri eigu í almenningshlutafélög og leggja beri áherslu á verkefnafjármögnun nýrra framkvæmda. Það felur í sér að framkvæmdir séu fjármagnaðar af eigin verðleikum en skatttekjur íslenska ríkisins séu ekki lagðar að veði þegar orkumannvirki eru byggð.

Þarna er í reynd um tvö atriði að ræða. Annars vegar að allar nýjar virkjanaframkvæmdir verði reistar sem alveg sjálfstæð verkefni, þ.e. verkefnafjármagnaðar í stað þess að lán til framkvæmdanna séu tekin af Landsvirkjun með ríkisábyrgð. Og hins vegar að Landsvirkjun verði breytt í almenningshlutafélag. Tillaga þeirra Ásgeirs og Sigurðar merkir því væntanlega að byrja eigi á að því að setja allar nýjar virkjanaframkvæmdir í verkefnafjármögnun - uns búið verður að afnema ríksiábyrgðina og gera Landsvirkjun að almenningshlutafélagi. Að breyttu breytanda gildir hið sama um Orkuveitu Reykjavíkur.

Budarhalsvirkjun-Hordur-kynning

Í skýrslunni er að finna nokkrar röksemdir fyrir þessari tillögu. Þar segir m.a. eftirfarandi (leturbreyting er Orkubloggarans)i:  "Á meðan ríkið ábyrgist fjárfestingar orkufyrirtækja verður alltaf hætta á að stjórnendur þeirra freistist til þess að leggja í fjárfestingar sem ekki ganga upp á frjálsum markaði." Skv. þessu er freistnivandi stjórnenda Landsvirkjunar ein helsta ástæða þess að skýrsluhöfundar leggja til verkefnafjármögnun nýrra virkjana

En er verkefnafjármögnun íslenskra orkufyrirtækja skynsamleg og raunhæf? Rétt er að árétta að með verkefnafjármögnun er átt við að hver og ein virkjun yrði fjármögnuð sem afmarkað verkefni. Þar sem einungis viðkomandi verkefni er lagt að veði vegna fjármögnunarinnar (þ.e. tekjustreymið vegna raforkusölu frá virkjuninni, en þar yrði væntanlega um að ræða langtímasamning við stóriðjufyrirtæki eins og t.d. álver). Í stað þess að Landsvirkjun (OR) taki viðkomandi lán með tilheyrandi ríkisábyrgð (ábyrgð borgarsjóðs í tilviki OR).

Við fyrstu sýn kann þessi hugmynd um verkefnafjármögnun opinberu orkufyrirtækjanna að líta nokkuð vel út. Tilgangurinn er jú að lágmarka hættuna á því að ný virkjunarverkefni séu lítt arðbær og fjarlægja ábyrgð skattborgaranna vegna fjármögnunar virkjanaframkvæmda. Enda hefur Orkubloggarinn verið talsmaður þess að afnema ríkisábyrgð og ábyrgð Reykjavíkurborgar vegna Landsvirkjunar og OR. En er þetta í raun mögulegt þegar á reynir? Er í raun og veru unnt að fjármagna stóra vatnsafls- eða jarðvarmavirkjun á Íslandi með þessum hætti?

Stefan_Petursson_1Í þessu sambandi má vitna til nokkurra ára gamalla ummæla Stefáns Péturssonar, sem þá var fjármálastjóri Landsvirkjunar og er nú framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka. Í umræðu sem varð upp úr aldamótunum síðustu um fyrirkomulagið í íslenska orkugeiranum benti Stefán á að þó svo hugmyndir um verkefnafjármögnun virkjanaframkvæmda hljómi oft vel, sé þetta vart raunhæfur kostur. Rökin eru sú að til að verkefnafjármögnun sé raunhæf þurfi ávöxtunarkrafa verkefnisins að vera miklu hærri en verið hafi við byggingu virkjana á Íslandi. Og til að svo megi vera þarf raforkuverðið auðvitað að vera talsvert mikið hærra en ella (annars stæði verkefnið eitt og sér ekki undir arðsemiskröfunni).

Að mati Stefáns yrði afleiðing þess að taka upp verkefnafjármögnun líklegast sú að hér yrði engin ný vatnsaflsvirkjunvirkjun byggð. Það var vel að merkja fyrir rúmum áratug síðan sem hann setti þetta sjónarmið fram. En Orkubloggarinn er á því, að þrátt fyrir að raforkuverð í heiminum hafi almennt hækkað umtalsvert frá aldamótum, sé hætt við að afar erfitt yrði að fjármagna nýjar íslenskar stórvirkjanir með verkefnafjármögnun. Sérstaklega jarðvarmavirkjanir, því í jarðvarmanum er áhættan almennt umtalsvert meiri en í vatnsaflinu

Hverahlid-OR-rainbowÞað er a.m.k. varla sannfærandi að á sama tíma og hægt gengur að laða nýja raforkukaupendur til Íslands, sé unnt að taka upp verkefnafjármögnun við byggingu nýrra virkjana hér á landi! Mun raunhæfara er að líta á aukna arðsemi Landsvirkjunar og annarra íslenskra raforkuframleiðenda sem langhlaup. Í því langhlaupi er mikilvægt að treysta stjórnendum fyrirtækisins til að smám saman ná að hækka raforkuverð í nýjum samningum í samræmi við skýra stefnu Landsvirkjunar þar um. Til framtíðar er vafalaust skynsamlegt að stefna að því að afnema ríkisábyrgðina vegna Landsvirkjunar. En að gera slíkt núna er varla rétta tímasetningin, heldur fyrst og fremst hagfræðilegar vangaveltur.


Pútín, Gunnvör, Gennady og Þorbjörn

Vladimir Pútín var nýverið kosinn forseti Rússland á ný. Samkvæmt nýlegri breytingu á rússnesku stjórnarskránni hefur hann nú færi á að sitja tvö sex ára samliggjandi kjörtímabil og vera forseti Rússlands 2012-2024. Sem þá myndu bætast við átta ára forsetatíð hans árin 2000-2008.

Gunvor-logo

Þetta hefur gefið sumum tilefni til að rifja upp kenningar um tengsl Pútíns við svissneska olíu- og hrávörurisann Gunvor Group. Fyrirtækið sem er hvorki meira né minna en eitt hið allra stærsta í olíuviðskiptum heimsins og gæti brátt orðið með árlegar tekjur upp á 100 milljarða dollara.

Einkum og sér í lagi er Gunnvör með yfirburðarstöðu í olíuviðskiptum Rússlands. Það er til marks um geggjuð umsvif fyrirtækisins, að það er nú sagt höndla með um þriðjung af allri þeirri olíu sem flutt er út frá Rússlandi. Þarna er ekki um neitt smáræðis magn að ræða, enda er Rússland stærsti olíuútflytjandi heimsins með um 7,4 milljónir tunna á dag (Saudi Arabía flytur nú út um 6 milljón tunnur daglega).

Há markaðshlutdeild Gunnvarar með rússnesku olíuna er mikilvægur liður í gríðarlegri veltu fyrirtækisins. Á síðasta ári (2011) voru tekjur Gunnvarar um 80 milljarðar USD - sem samsvarar rúmlega 10 þúsund milljörðum ISK! Og hreinn hagnaður fyrirtækisins á umræddu ári er talinn hafa verið öðru hvoru megin við einn milljarð USD. Um það er þó allt á huldu því Gunvor er einkafyrirtæki og mætti kannski kallast sannkallað leynifélag.

Aðeins þrjú fyrirtæki í heiminum eru með meiri veltu á hrávörumörkuðum veraldarinnar en Gunvor. Þar eru fremst í flokki svissneska Glencore og hollensk-svissneska Vitol, með árlega veltu upp á ca. 190 og 300 milljarða USD árið 2011. Í þriðja sæti er svo hollenski hrávörurisinn Trafigura, sem var með um 120 milljarða USD í tekjur árið 2011. Bæði Glencore og Trafigura eru vel að merkja afsprengi hrávörubraskarans alræmda, Marc Rich. Vitol byggir aftur á móti á ennþá eldri grunni og er jafnaldri Orkubloggarans (stofnað árið 1966).

Glencore_fog

Það er ekki síst hátt olíuverð síðustu árin sem hefur verið öllum þessum fjórum hrávörufyrirtækjum alger gullnáma - og skýrir svakalega miklar tekjur og hagnað fyrirtækjanna. Og öll hafa þessi fyrirtæki átt það sameiginlegt að vera í eigu og stjórn einungis örfárra manna. Þau hafa líka átt það sameiginlegt að vera hulin þykkri og leyndardómsfullri þoku - vegna þess að allt þar til í sumar sem leið (2011) voru þetta allt einkafyrirtæki. Nú hefur Glencore aftur á móti verið skráð sem almenningshlutafélag og fyrir liggur að markaðsverðmæti þess í dag nemur um 45 milljörðum USD.

En í dag höldum við okkur við Gunvor. Með hliðsjón af markaðsverðmæti Glencore er kannski ekki fjarri lagi að verðmæti Gunvor nú um stundir sé u.þ.b. 20 milljarðar USD. Þess vegna er óneitanlega athyglisvert að eignarhaldið á Gunvor er nær alfarið í höndum einungis tveggja manna!

gennady-timchenko-1

Þetta eru Armeninn (eða Finninn) Gennady Timchenko (f. 1952) og Svíinn Torbjörn Törnqvist (f. 1953). Samtals er eignarhlutur þeirra tveggja í Gunvor 90%, sem skiptist jafnt þeirra á milli. Afgangurinn (10%) skiptist svo milli annarra helstu lykilstjórnenda fyrirtækisins. Á tímabili var þriðji maðurinn stór hluthafi í Gunvor, með um 20%, en nafn hans hefur ávallt verið á huldu. Törnqvist hefur lýst því yfir að þeir Timchenko hafi keypt hann út fyrir fáeinum árum og um sé að ræða bissnessmann frá St. Pétursborg sem vilji fá að vera í friði og kæri sig ekki um að vera gefinn upp. En þeir eru margir sem hafa áhuga á að vita hver þessi dularfulli Pétursborgari er.

Rekstrarfyrirkomulagið og eignarhaldið á Gunnvöru er með þeim hætti að fyrirtækið er með aðalskrifstofu sína í Genf í Sviss. Þessi svissneska Gunvor er svo í eigu eignarhaldsfélags, sem skráð er til heimilis í Hollandi (Gunvor International BV). Það hollenska félag mun svo vera í eigu eignarhaldsfélags sem skráð er á Kýpur (Gunvor Cyprus Holding Ltd.) og er sagt vera hin raunverulega endastöð. Skv. upplýsingum sem sjá má í fjölmiðlum er það félag þó í eigu annars félags sem nefnist EIS Clearwater Advisors, sem er með heimilisfesti á Bresku Jómfrúreyjum. Í reynd er þó eignarhaldið jafnvel ennþá flóknara og þar virðast m.a. koma við sögu félög með heimilisfesti í hinni alræmdu svissnesku smáborg Zug (þar sem t.d. bæði Glencore og Actavis eru með aðalstöðvar sínar) og líka fyrirtæki í Liechtenstein. Að sögn Törnqvist er þó samsteypan öll gerð upp og skattlögð í gegnum félagið á Kýpur.

Torbjörn-Törnqvist-2

Báðir eru þeir Timchenko og Törnqvist með mikla reynslu úr olíubransanum. Þeir félagarnir eru sagðir hafa kynnst upp úr 1990, en Törnqvist hafði þá lengi verið í ýmsu viðskiptastússi með olíu. Hann er hagfæðimenntaður frá sænskum háskóla og starfaði á sínum tíma m.a. fyrir BP. Timchenko lagði aftur á móti stund á verkfræði við háskólann í Leníngrad. Að því búnu starfaði hann eitthvað í stjórnsýslunni og varð síðar leiðandi í þeim kerfisbreytingum í rússneska olíuiðnaðinum, sem áttu sér stað á síðustu árum Gorbchev's í embætti aðalritara Sovétríkjanna.

Á þeim árum varð Timchenko einn af aðalstjórnendum olíuútflutnings-fyrirtækis í Leníngrad, sem nefndist Kirishineftekhimexport. Þetta var einn af mikilvægustu olíuútflytjendum Sovétríkjanna á síðustu árum sovéska ríkisins og var alfarið í eigu ríkisins. Í gegnum Kirishineftekhimexport kom Timchenko á fót samstarfi við finnsk fyrirtæki um olíuútflutning frá Rússlandi og segja má að þar hafi hann tekið fyrstu skrefin að þeim gríðarlegu olíuviðskiptum sem Gunvor átti síðar eftir að stunda.

Kirishineftekhimexport óx hratt. Og við einkavæðingu sovéskra ríkisfyrirtækja í kjölfarið á falli Sovétríkjanna 1991 vildi svo skemmtilega til að Timchenko varð meðal helstu hluthafanna í fyrirtækinu. Einkavæðingin átti sér stað 1994 og á örskömmum tíma varð Timchenko vellauðugur maður.

Gunvor-homepage

Árið 1997 stofnuðu þeir Törnqvist og Timchenko svo Gunvor, sem skyldi sérhæfa sig í verslun með olíu og þá ekki síst rússneska olíu. Þá var Timchenko reyndar kominn með finnskan ríkisborgararétt og því eru þessir ljúflingar í reynd norrænir bræður okkar Íslendinga. Báðir sinna þeir nú störfum sínum á vegum Gunnvarar frá aðalstarfsstöðinni í Genf, en henni komu þeir a fót árið 2003. Þar situr nú um hálft hundrað starfsmanna við tölvurnar - með glimrandi útsýni út á Genfarvatn - og sinna olíuviðskiptum um veröld víða. Ásamt rúmlega fimm hundruð öðrum starfsmönnum á skrifstofum Gunvor í Singapore, Dubai og víðar um heiminn.

Það magnaðasta við Gunvor er kannski sú staðreynd að um aldamótin 2000 hafði varla nokkur maður utan Pétursborgar heyrt um þetta lauflétta fyrirtæki. Það hefur á einungis fáeinum árum vaxið úr nánast engu um aldamótin 2000 og í einhverja mestu peningavél olíuviðskipta heimsins. Sem fyrr segir stofnuðu þeir Timchenko og Törnqvist Gunnvöru árið 1997. Og af einhverjum ástæðum tókst fyrirtækinu á örfáum árum í upphafi 20. aldar að ná til sín um þriðjungi af öllum olíuútflutningsviðskiptum Rússlands!

Oil_Putin

Kannski eru þeir Timchenko og Törnqvist einfaldlega svona snjallir kaupsýslumenn og með svona svakalega góð sambönd í olíuveröldinni. En margir vilja meina að þetta hefði aldrei geta gerst nema með beinni aðkomu forseta Rússlands. En forseti Rússlands 2000-2008 var Vladimir Pútín (sem þá sat sem forseti í tvö 4ra ára kjörtímabil).

Sumir hafa talið sig sjá ýmis merki um náin tengsl milli Timchenko og Pútíns frá Pétursborgar-árunum á 9. og 10. áratug liðinnar aldar. M.a. að þeir hafi báðir starfað innan KGB í Leníngrad og áfram átt gott samstarf eftir fall Sovétríkjanna. Kenningin segir sem sagt að Pútín sé í reynd aðili að Gunvor - og að hugsanlega hafi fyrirtækið skilað honum mörgum milljörðum USD inn á leynireikninga. Og með ýmsum öðrum leynitekjum sé Pútín nú búinn að komast yfir um 40 milljarða USD, sem geri hann að fimmta auðugasti manni veraldarinnar.

Sögur af þessu tagi hafa ekki aðeins gengið ljósum logum manna á meðal í viðskiptalífinu, heldur hafa t.d. þekktir fjölmiðlar eins og Financial Times og Wall Street Journal fjallað um meint tengsl Pútíns við Gunnvöru. Og þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að a.m.k. eitthvað hljóti að vera til í þessu. M.a. með þeim rökum að annars væri hreinlega útilokað að eitt fyrirtæki, sem þar að auki er í eigu útlendinga (Timchenko er í dag finnskur ríkisborgari og Törnqvist er jú Svíi), gæti náð svona tökum í olíuviðskiptum Rússlands.

putin_gunvor

Allir hafi þeir þremenningarnir þvertekið fyrir minnstu tengsl Pútín's við Gunvor. Opinbera sagan er sú að Gunvor geti einfaldlega þakkað frábæran árangur sinn því að þeir Timchenko og Törnqvist hafi verið á hárréttum tíma inni í Rússland, þegar allt var þar í upplausn á fyrstu árunum eftir fall Sovétríkjanna. Þeir hafi náð að nýta þekkingu sína á olíuviðskiptum og ýmis sambönd sín í geiranum til að að rífa olíuviðskipti Rússlands út úr svartamarkaðsbraski 10. áratugarins - og komið skipulagi á viðskipti með rússneska olíu. Þetta hafi gerst án nokkurrar sérmeðferðar af hálfu forseta Rússlands eða rússneskra stjórnvalda.

Þessu til stuðnings vísa þeir félagarnir m.a. til þess að undanfarið hafi markaðshlutdeild Gunnvarar með rússneska olíu farið minnkandi - vöxtur fyrirtækisins sé miklu fremur á olíumörkuðum utan Rússlands. Nýlega gerði Gunvor t.a.m. risasamning við stjórnvöld í Negeríu um olíuútflutning þaðan. Einnig nefna þeir þá staðreynd að þeir séu í samstarfi við um tug af stærstu bönkum heimsins, þar sem þeir njóti lánstrausts upp á milljarða USD. Og hver einasti dollar sem komi inn á reikninga fyrirtækisins sé skoðaður af gagnrýnum augum þaulvanra bankamanna, sem gangi úr skugga um að allt sé með felldu. Þetta segja þeir að staðfesti að ekki sé vott að spillingu eða leynimakki að finna í rekstri Gunnvarar.

Ekki ætlar Orkubloggarinn að kveða upp úr með það hvort árangur Gunnvarar tengist að einhverju leyti spilltu viðskiptaumhverfi eða sé bara tær viðskiptasnilld. En það er staðreynd að fljótlega eftir stofnun fyrirtækisins jukust olíuviðskipti Gunnvarar með hreint ævintýralegum hraða. Ekki síst eftir aldamótin, þegar Pútin var orðinn forseti Rússlands. Skyndilega var þetta agnarlitla og óþekkta fyrirtæki, Gunvor, komið með aðalskrifstofu sína suður í Genf og orðið helsti milliðurinn í olíuútflutningi frá Rússlandi. Það varð ekki síst vatn á myllu Gunnvarar þegar rússneska ríkið eignaðist risaolíufélagið Yukos í kjölfar handtökunnar á Michail Khodorkovsky síðla árs 2003. Og stærstur hluti olíuflutninga og viðskipta með olíu frá olíuvinnslusvæðum Yukos (sem nú varð hluti af rússneska ríkisolíufélaginu Rosneft) færðist til Gunnvarar.

Yukos-Khodorkovsky-prison

Þetta hafði geysilega þýðingu fyrir Gunvor. Því Yukos hafði sjálft séð um mest allan olíuútflutning sinn, sem var mjög stór hluti af olíuútflutningi Rússlands. Um sama leyti seldi milljarðamæringurinn Roman Abramovich rússneska olíurisann Sibneft til rússneska ríkisins og þar fékk Gunvor líka samning um að sjá um olíuútflutninginn. Þarna á árunum 2003-4 blés sem sagt byrinn heldur betur í segl Gunnvarar og augljóst að fyrirtækið var a.m.k. ekki í ónáð hjá æðstu mönnum í Kreml.

Allt þetta brambolt ýtti undir sögusagnir um að lykilaðilinn í þessum tilfæringum öllum væri Pútín sjálfur og hans nánustu samstarfsmenn. Sem þarna hefðu náð að byggja upp skipulag sem tryggði þeim tekjur upp á milljarða dollara á nokkrum árum. Hvað sem slíkum sögum líður, þá hefur Gunvor áfram gert það gott í rússneska olíuútflutningnum. Og bæði náð samningum við TNK-BP og ríkisfyrirtækið Gazprom Neft (olíuarm gasrisans Gazprom) um að flytja út olíu frá þessum risaframleiðendum.

Á örskömmum tíma í upphafi 21. aldarinnar jókst hlutdeild Gunnvarar í útflutningi rússneskrar olíu úr fáeinum prósentum og í um 35%. Þar með komust eigendur fyrirtækisins í einu vetfangi í hóp auðugustu manna heims. Þeir félagarnir Timchenko og Törnqvist eru nú hvor um sig nú metnir á allt að 9 milljarða USD. Og áhrif þeirra í rússnesku viðskiptalífi virðast sífellt vera að aukast, t.d. með uppkaupum á nokkrum mikilvægustu fyrirtækjum Rússlands.

Torbjörn-Törnqvist-1

Kannski er þessi árangur bara eins og önnur góð viðskiptaævintýri, þ.e. sambland af útsjónarsemi, dugnaði og heppni. Þeir Timchenko og Törnqvist virðast a.m.k. vel metnir af mörgum málsmetandi mönnum og lausir við hvers konar hvítflibba-kusk, þrátt fyrir tortryggna fjölmiðlamenn. Kannski voru þeir bara réttir menn á réttum stað á réttum tíma. Og tengsl þeirra við Pútín ekkert annað og meira en það að þeir Timchenko og Pútín munu hafa verið í sama júdó-klúbbnum í St. Pétursborg á tíundar áratug liðinnar aldar. Kannski kemur Pútín hvergi nærri Gunnvöru og árangur fyrirtækisins bara árangurinn af mikilli vinnu og dugnaði með smá heppni í bland?

Gunvor Group er í dag vel að merkja ekki bara í olíuviðskiptum. Fyrirtækið á nú gríðarlegar eignir í formi risastórra olíubirgðastöðva, olíuhreinsunarstöðva, olíuhafna, járnbrauta, oliuleiðslna, olíuskipa og annars búnaðar sem kemur að góðum notum við flutninga og viðskipti með bæði hráolíu og afurðir hennar. Þessar eignir eru bæði í Rússlandi og fjölmörgum öðrum löndum. Gunvor er sem sagt einfaldlega á örskömmum tíma orðinn afar mikilvægur player í efnahagslífi heimsins.

Gunvor-home-page-map

Og fyrirtækið virðist enn vera að þenjast út um veröld víða. Þar má t.d. nefna samstarf Gunnvarar við aðra góða Svía; nefnilega ljúflingana hjá Lundin Petroleum. Þar er um að ræða olíuvinnslu og -sölu frá olíulindum í rússneska hluta Kaspíahafisins. Sem kallast Lagansky-svæðið og er talið hafa að geyma allt að 450 milljónir tunna af olíu. Já - Gunvor Group er líklega bara rétt að byrja. Og kannski verður Pútín forseti Rússlands næstu 12 árin. Veröldin er svo sannarlega skemmtileg - og raunveruleikinn margfalt æsilegri en nokkur skáldskapur. Það er ekki síst olíunni að þakka.


Norska olíuævintýrið framlengt

Árið sem leið (2011) var gott ár fyrir norska olíuiðnaðinn. Olíuverð var hátt; meðalverðið á olíumörkuðum heimsins yfir árið var meira að segja hærra en nokkru sinni i sögunni. Það er gott bæði fyrir norska Statoil og norska ríkiskassann.

to_polar_pioneer.jpg

Einnig gekk afar vel í olíuleitinni á norska landgrunninu. Samtals fundust rúmlega tveir tugir nýrra olíulinda innan norsku lögsögunnar á árinu. Þar má nefna góðan árangur Norsaranna sjálfra í Barentshafi. Þar fann norska Statoil nefnilega stórar olíulindir, sem sagðar eiga að geta skilað 150-400 milljón tunnum af olíu. Sem þykir bara ansið gott í bransanum í dag.

Umrætt svæði í Barentshafinu hefur verið nefnt Srugard. Það var flotpallurinn Polar Pioneer frá Transocean sem skilaði Statoil þessum prýðilega árangri. Og jafnvel þó svo svæðið sé nokkuð langt frá landi (meira en 100 sjómílur) er hafdýpið þarna þó ekki nema 370 m. Vinnslan verður því væntanlega barnaleikur og mun örugglega skila bæði vinnslufyrirtækjunum og norska ríkinu miklum hagnaði.

skrugard_havis_map.gifOg það er skammt stórra högga á milli hjá Statoil í Barentshafi þessa dagana. Því nú fyrir einungis örfáum vikum fundu norsku skotthúfurnar - nú á flotpallinum Aker Barents - aðra mjög myndarlega olíulind þarna norður í rassi. Lindin sú er nefnd Havis og er sögð hafa að geyma ígildi 200-300 milljóna tunna af vinnanlegri olíu.

Þessi laglegi olíuskrúðgarður í norsku lögsögunni í Barentshafi liggur skammt norðan gassvæðanna myndarlegu, sem kennd eru við Mjallhvíti og Golíat. Núna er sem sagt orðið ljóst að hafsbotninn undir Barentshafi er alls ekki bara gas, heldur er þarna líka að finna glás af olíu. Þar með geta væntanlega flestir verið sammála um að norska olíuævintýrinu er hvergi nærri lokið og að heimskautasvæðin eiga eftir að skila Norðmönnum geysilegum verðmætum.

Ævintýrið þarna norður í Barentshafi er vel að merkja bara rétt að byrja. Og þessi góði árangur bendir til þess að norska olíuævintýrið eigi eftir að standa miklu lengur en menn bjuggust við.

Þessi góðu tíðindi norðan úr Barentshafi eru samt ekki stóru fréttirnar af norska landgrunninu. Það magnaðasta sem gerðist á landgrunni Noregs árið 2011 var nefnilega hinn geggjaði olíufundur Svíanna hjá Lundin Petroleum - og það í sjálfum Norðursjónum!

elephant-water.jpgHjá Lundin hafa menn ávallt trúað því að Norðursjórinn sé hvergi nærri þurrausinn. Og að þar megi jafnvel finna það sem fólk í olíubransanum kallar fíl. Þ.e.a.s. olíulind sem býr yfir meira en milljarði tunna af vinnanlegri olíu.

Og viti menn; það er nákvæmlega það sem gerðist nú hjá Lundin Petroleum í Norðursjó. Þarna virðist vera um að ræða sannkallaða risalind. Áætlað er að hún muni skila á bilinu 1,7-3,3 milljörðum tunna af olíu! Þetta er sem sagt margfaldur fíll. Og hvorki meira né minna en ein af allra stærstu olíulindunum sem fundist hefur í norsku lögsögunni. Gæti jafnvel slegið út draumadrottninguna Ekofisk.

norway-oil-fields-largest.pngÞetta eru svo sannarlega frábærar fréttir af Norðursjónum. Segja má að hafsbotninn þarna sé orðinn eins og gatasigti eftir hálfrar aldar olíuboranir og stanslausa 40 ára vinnslu - en samt virðist enn vera hægt að finna glás af olíu. Það er líka skemmtilegur bónus að þarna er hafdýpið einungis rúmlega hundrað metrar og olían aðein um 2 km undir hafsbotninum. Þetta verður því líklega afar hagkvæm vinnsla. Til samanburðar má nefna að úti á djúpi Mexíkíóflóans eru menn að bora allt að 5-6 km undir hafsbotninn á 2-3ja km hafdýpi!

johan_sverdrup-norge.jpg

Ljúflingarnir hjá Lundin Petroleum sitja ekki alveg einir af þessum herlegheitum. Olíulindin nýfundna þarna í Norðursjó nær nefnilega inn á tvö leitarsvæði - sem kölluð hafa verið Avaldsnes & Aldous Major South. Lundin Petroleum er stærsti hluthafinn á þeim hluta svæðisins sem kallaðist Avaldsnes. Þar við hliðina hefur Statoil verið að stússa með sama dýrðarárangrinum. Talan 1,7-3,3 milljarðar tunna er áætluð olía á svæðunum báðum. Þessi svæði voru svo reyndar umskýrð núna í janúar 2012 og er allt svæðið í heild nú kennt við norska stjórnmálamanninn Johan Sverdrup (sem var uppi á 19. öld og var m.a. í fararbroddi að koma á þingræði í Noregi). Og nú þurfa Statoil og Lundin Petroleum að stilla vel saman strengi til að ná að sötra sem allra mest upp af svarta gullinu upp úr öðlingnum Jóhanni Sverdrup.

avaldnes_aldous_barrel.pngÞað er í reynd með ólíkindum að menn séu að ramba á svona nokkuð í Norðursjónum enn þann dag í dag. Fyrir fyrirtæki eins og Lundin Petroleum er þetta líkt og risastór lóttóvinningur. Enda fagnaði fyrirtækið þessu mjög. Og hlutabréfaverðið í Lundin tók hressilegt risastökk upp á við jafnskjótt að fréttir bárust af þessum risafundi.

Það er sem sagt ekki nóg með að Barentshafið ætli að reynast Norðmönnum gjöfult nýtt kolvetnissvæði, heldur er enn verið að finna risastórar olíulindir í sjálfum Norðursjónum. Það er líka athyglisvert að nú virðast norsk stjórnvöld vera að fara af stað með einhverja mestu olíuleit innan norsku lögsögunnar. Því verið er að opna fjölda nýrra svæða fyrir olíuleit og hefur annað eins ekki sést í næstum tuttugu ár. Norðmenn sjá tækifærin blasa við og skyndilega eru áhyggjur þeirra um að stutt kunni að vera eftir af olíuævintýrinu horfnar sem dögg fyrir sólu.

greenland-oil-licenses.jpgNorðmenn virðast m.a. ætla að setja allt á fullt við Jan Mayen. Og á sama tíma eru grænlensk stjórnvöld einnig að undirbúa olíuleitarútboð á fjölda nýrra svæða. Þar má nefna áhugaverð leitarsvæði út af SV-strönd Grænlands. Svo virðist líka sem brátt komi að opnun mjög spennandi leitarsvæða á hafísslóðunum út af NA-Grænlandi. Þarna við NA-Grænland er vel að merkja um að ræða landgrunn sem bandaríska landfræðistofnunin (USGS) segir að hafi að geyma stóran hluta heimskautaolíunnar! Þetta eru því ákaflega spennandi tímar hér á Norðurslóðum.

Það liggur í augum uppi að þjónustu við þessi olíuleitar- og vinnslusvæði framtíðarinnar í Norðurhöfum verður ekki sinnt frá austurströnd Grænlands né frá Jan Mayen. Þarna gæti Ísland orðið í algeru lykilhlutverki. Umsvifin í olíuðnaðinum eru ekkert smáræði og ef/þegar olíuvinnsla hefst út af Jan Mayen og NA-Grænlandi mun það hafa gríðarleg áhrif á þau byggðarlög sem verða helstu þjónustusvæðin. Í þessu sambandi geta menn skoðað hvað gerðist t.d. í Aberdeen á Skotlandi, Stavanger í Noregi eða í St. Johns á Nýfundnlandi, þegar olíuiðnaðurinn setti niður fót sinn þar í nágrenninu.

arctic-oil-drilling-1.jpgÞó svo fólk hafi eðlilega mismunandi skoðanir um ágæti olíuiðnaðar á Norðurslóðum, er augljóst að hann mun skapa Íslandi ýmis efnahagsleg tækifæri. Þess vegna er svolítið sérkennilegt að þeir sem helst virðast vera að huga að þessum tækifærum á Íslandi, séu fáeinir sveitarstjórnarmenn í nágrenni Langaness (tengist reyndar fyrst og fremst Drekasvæðinu). Bæði íslensk stjórnvöld og íslenskar menntastofnanir ættu að leggja stóraukna áherslu á að byggja hér upp víðtæka þekkingu á flestu því sem lýtur að kolvetnisiðnaðinum. Þarna væri t.d. upplagt tækifæri fyrir hvort sem er Háskólann í Reykjavík eða Háskóla Íslands að sérhæfa sig. Þ.e. bæði á sviði grænnar orku- OG olíubransans. Þess sjást því miður lítil merki enn sem komið er.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband