Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Mögulegar 30 TWst árið 2025

Ósjaldan hefur verið minnst á það hér á Orkublogginu, að íslensku orkulindirnar séu mesta auðlind þjóðarinnar. Í því sambandi er athyglisvert, að nú er mögulega að fara í hönd mesta virkjunartímabil Íslandssögunnar. Um yrði að ræða 15 ára tímabil, með mikilli en jafnri fjárfestingu þar sem raforkuframleiðsla Landsvirkjunar yrði allt að tvöfölduð. Að því gefnu m.a. að arðsemissjónarmið verði uppfyllt og að uppbyggingin samrýmist umhverfis- og náttúrverndarsjónarmiðum.

Þarna er vísað til þeirrar hugmyndar Landsvirkjunar að árið 2025 - eftir einungis tæp 15 ár - verði framleiddar 30 TWst af raforku árlega á Íslandi. Og að sú orka verði mestöll seld langt umfram kostnaðarverð og þá með miklum hagnaði. Landsvirkjun hefur kynnt rökstudda hugmynd þess efnis að hagnaðurinn af sölu á öllu þessu rafmagni, í formi skatt- og arðgreiðslna til ríkisins, gæti hlutfallslega jafnast á við það sem norski olíusjóðurinn skilar Norðmönnum. Þarna kunna sem sagt að vera á ferðinni gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir fyrir íslensku þjóðina - til langrar framtíðar.

hordur_arnarson.jpg

Sumir hafa gripið á lofti það eitt, að það sé nú stefna Landsvirkjunar að tvöfalda raforkuframleiðslu sína og það á næstu 15 árum. Í reynd hefur þó forstjóri Landsvirkjunar í kynningum og viðtölum ítrekað sagt að fyrirtækið hafi engan áhuga á að virkja bara til að virkja. Aftur á móti vill Landsvirkjun auka hagnaðinn af raforkusölunni, bæta þannig fjárhagsstöðu fyrirtækisins og skila meiri arði til eigandans (ríkisins). Þetta er forgangsatriðið og virðist ljóst að nýjar virkjanir verða ekki reistar af hálfu Landsvirkjunar nema þær uppfylli skilyrði um stóraukna arðsemi. 

Forstjóri Landsvirkjunar hefur einnig lagt áherslu á það, að stefna fyrirtækisins skuli samrýmast Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Landsvirkjun er því bersýnilega meðvituð um að Alþingi markar fyrirtækinu rammann um hvar komi til greina að virkja. Þar að auki ætti fólk etv. að hafa í huga, að í ljósi sögunnar má gera ráð fyrir að núverandi forstjóri Landsvirkjunar sé talsvert meðvitaðri um náttúruvernd og umhverfissjónarmið heldur en forverar hans.

lv-raforkusala_1966-2010_2.jpg

En setjum virkjanahugmyndir Landsvirkjunar í samhengi við þá raforkuframleiðslu sem nú á sér stað á Íslandi og skoðum aðeins hvaðan orkan á að koma. Í dag nemur raforkuframleiðslan hér samtals um 17 TWst árlega. Þar af framleiðir Landsvirkjun rúmlega 12 TWst. Til að heildarframleiðslan verði 30 TWst þarf því að auka raforkuframleiðslu á Íslandi um tæpar 13 TWst, sem er rétt rúmlega öll sú raforka sem Landsvirkjun framleiðir í dag!

Til samanburðar má nefna að Kárahnjúkavirkjun, þ.e. Fljótsdalsstöð, framleiðir um 4,6 TWst árlega. Þetta yrði sem sagt MJÖG mikil aukning á raforkuframleiðslu á Íslandi og það á tiltöllega stuttu tímabili. Skv. kynningu Landsvirkjunar á nýliðnum ársfundi fyrirtækisins, myndi hlutur Landsvirkjunar í þeirri aukningu verða um 11 TWst. Landsvirkjun myndi þá fara úr því að framleiða rúmar 12 TWst og í um 23 TWst árlega. Sem sagt næstum því tvöföldun á raforkuframleiðslu fyrirtækisins - og hugsanlega yrði allt viðbótaraflið byggt upp á einungis 15 árum.

lv-ha-2011-virkjanir-03-2.jpg

Gert er ráð fyrir að af þeim 11 TWst sem þarna myndu bætast við framleiðslu Landsvirkjunar á næstu 15 árum, komi 7,3 TWst frá fjórtán nýjum virkjunum. Og að heildarfjárfesting vegna þeirra muni jafngilda á bilinu 4,5-5 milljörðum USD. Slík fjárfesting, ásamt tilheyrandi iðnaðaruppbyggingu fyrirtækja sem verða notendur orkunnar, myndi valda miklum umsvifum og hagvexti. Í þessu sambandi talar Landsvirkjun um 15 ára hagvaxtarskeið, sem verði drifið áfram af uppbyggingu iðnaðar og mjög arðsamra orkumannvirkja. Og arðsemin verði til þess að koma í veg fyrir niðursveiflu í kjölfar þessara umfangsmiklu framkvæmda. Samkvæmt þessu verður því um að ræða sjálfbæra orkuvinnslu - bæði í umhverfislegu og fjárhagslegu tilliti.

Sumar þessar 14 nýju virkjanir Landsvirkjunar, sem standa eiga undir framleiðslu á 7,3 TWst árlega, yrðu á nýjum virkjanasvæðum, en aðrar á svæðum sem nú þegar eru nýtt. Að auki eru svo 3,7 TWst, sem kæmu frá öðrum virkjunum á vegum Landsvirkjunar, sem hafa enn ekki verið tilgreindar. Þ. á m. yrðu, skv. kynningu Landsvirkjunar, mögulega vindorkuver og jafnvel sjávarorkuvirkjanir. Loks virðist gert ráð fyrir því í þessari framtíðarsýn, að raforkuframleiðsla annarra orkufyrirtækja fari úr núverandi 5 TWst og í um 7 TWst. Þannig að árið 2025 verði heildarframleiðsla raforku á Íslandi, sem fyrr segir, orðin um 30 TWst í stað þeirra 17 TWst sem nú er. Allt er þetta þó háð margvíslegri óvissu og fyrirvörum. Og talan 30 TWst er auðvitað enginn fasti, heldur bara viðmiðun eða ein hugmynd um hvernig sjá má virkjanauppbyggingu á Íslandi fyrir sér.

Þær fjórtán nýju virkjanir sem Landsvirkjun sér möguleika á að reisa á næstu 15 árum og með þeim framleiða samtals 7,3 TWst árlega, eru eftirfarandi (sjá má nánari upplýsingar um þessa virkjanakosti á pdf-skjölum á vef Rammaáætlunar, þar sem vatnsaflsvirkjanir og jarðvarmavirkjanir eru tilgreindar í sitt hvoru lagi, sbr. einnig yfirlitskort):

1)   Þeistareykjavirkjun (jarðvarmavirkjun).

2)   Krafla (ný jarðvarmavirkjun við Kröflu).

3)   Bjarnarflag (ný jarðvarmavirkjun við Bjarnarflag).

4)   Hólmsárvirkjun í Hólmsá.

5)   Búðarhálsvirkjun í Tungnaá.

6-8)   Holtavirkjun, Hvammsvirkjun og Urriðafossvirkjun í Þjórsá.

9)   Búrfellsvirkjun í Þjórsá (ný virkjun við Búrfell).

10)  Skrokkölduvirkjun við Hágöngulón.

11)  Hágönguvirkjun (jarðvarmavirkjun í nágrenni Hágöngulóns).

12-14)  Fannalækjarvirkjun, Gilsárvirkjun og Kolkuvirkjun í Blöndu.

Þessir 14 virkjanakostur eru væntanlega þeir sem Landsvirkjun telur að séu bæði hagkvæmir og þess eðlis að líklegt sé að þokkalega pólítísk sátt náist um þá. Því miður er ekki tilgreint í upplýsingum frá Landsvirkjun af ársfundinum hversu stór hver virkjun myndi verða. En við lauslega athugun sýnist Orkubloggaranum að samanlagt afl þessara fjórtan virkjana gæti verið nálægt 1.000 MW og þá ekki ólíklegt að ársframleiðsla þeirra yrði í kringum þær 7,3 TWst sem er talan sem Landsvirkjun hefur tilgreint.

Skv. þessum hugmyndum er EKKI gert ráð fyrir að virkja ýmsa kosti sem sumir myndu kannski telja hagkvæma, en eru afar umdeildir út frá t.d. umhverfis- og nattúruverndarsjónarmiðum. Þar mætti nefna háhitasvæðin í Vonarskarði (sem reyndar þykja álitlegur virkjunarkostur skv. drögum að Rammaáætlun!) og jarðhitinn í Kerlingafjöllum og við Torfajökul. Og þarna er ekki heldur að finna neina virkjun í Jökulsá á Fjöllum, né í Skjálfandafljóti eða jökulánum í Skagafirði.

lv-ha-2011-virkjanir-02-2.jpg

Hvaða virkjunarstaðir koma að lokum til álita verður vel að merkja í höndum löggjafans og stjórnvalda. Á þessu stigi er því væntanlega eðlilegast að líta á umræddar hugmyndir Landsvirkjunar sem tillögur eða ábendingar. Sumum kann reyndar að þykja það að ætla að reisa allar þessar virkjanir á einungis 15 árum vera ansið hröð uppbygging. En af hálfu Landsvirkjunar er bent á að ef ráðist yrði í þessar framkvæmdir myndi það geta gerst mjög jafnt og þétt yfir allt tímabilið. Og að einfalt yrði að hægja á framkvæmdaferlinu, ef of mikill hiti væri að færast í efnahagslífið. Það er nefnilega enginn virkjanakostanna mjög stór; m.ö.o. ekkert í líkingu við Kárahnjúkavirkjun.

Landsvirkjun hefur í kynningum sínum lagt ríka áherslu á að það sé alls ekki verið að ráðast í framkvæmdir framkvæmdanna vegna. Heldur skuli allar framkvæmdir fyrirtækisins byggjast á rekstrarlegum forsendum og að miðað verði við arðsemiskröfur sem eru langt umfram það sem tíðkaðist áður fyrr hjá Landsvirkjun. Þar að auki mun fyrirtækið auðvitað miða allar sínar áætlanir við niðurstöðu Rammaáætlunar. Það er því í reynd Alþingi sem mun setja rammann um virkjanastefnu Landsvirkjunar.

lv-ha-2011-virkjanir-04-2.jpg

Til eru þeir sem hrökkva í kút við að sjá hugmyndir um svo sórfelldar virkjanaframkvæmdir. Enda er fyrri reynsla af aðdraganda virkjanaframkvæmda hér á Íslandi ekkert sérstaklega góð. Það er t.d. vart hægt að kalla það annað en misbeitingu á pólítísku valdi þegar þáverandi umhverfisráðherra snéri niðurstöðu Nátturuverndar ríkisins um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar. Vonandi er tími slíkra vinnubragða liðinn. Kynning Landsvirkjunar á framtíðarsýn fyrirtækisins er metnaðarfull og að mati Orkubloggarans nokkuð lituð bjartsýni - sérstaklega með tilliti til þróunar raforkuverðs. En þetta er um margt athyglisverð og jákvæð framtíðarsýn. Og nú er eðlilegt að fram fari opinská umræða um þessar humyndir í þjóðfélaginu, núna þegar Rammáætlunin fer loksins að verða tilbúin.

Við þurfum að bíða enn um sinn til að sjá hvernig þeirri vinnu reiðir af. En ef niðurstaðan verður nálægt þeim hugmyndum sem Landsvirkjun hefur sett fram, er kannski ekki fráleitt að segja sem svo að nú fyrst fari í hönd raunveruleg iðnvæðing á Íslandi, þar sem byggðastefna, kjördæmapot og fyrirgreiðslupólítík verða víðs fjarri. Það er vel.

--------------------------------------------------

[Glærurnar þrjár hér að ofan eru úr kynningu Landsvirkjunar á ársfundi fyrirtækisins fyrr í apríl og eru þær teknar af vefsvæði Landsvirkjunar].


Gamalt stórveldi í orkuþurrð

uk_primary_energy_prod_con.png

Er ekki alveg upplagt að Orkubloggið beini sjónum að Bretlandi í færslu dagsins? Svona með atburði helgarinnar í huga. Og skoði hvernig orkutölfræðin spáir heldur illa fyrir Bretunum.

Iðnbyltingin (bresku kolin) og síðar aðgangur að hrávörum nýlenduþjóðanna gerðu Bretland að stórveldi. Eftir að nýlendurnar fengu sjálfstæði (flestar á 7. áratugnum) varð það Bretum til happs að um sama leyti fannst olía í Norðursjó. Og allt fram undir aldamótin 2000 var Bretland orkustórveldi, þökk sé olíunni og gasinu úr iðrum Norðursjávar-landgrunnsins.

uk-energy-balance_1970-2009-1.png

Gríðarlegar kolvetnisauðlindirnar ollu því að mestallan 9. og 10. áratuginn framleiddi Bretlandi meiri orku en þjóðin notaði. Var m.ö.o. nettóútflytjandi að orku - og var það allt fram til 2003.

En nú er hnignunin hafin. Olíuframleiðsla Breta náði toppi 1999 og gasvinnslan toppaði skömmu síðar. Breska þjóðin er ekki lengur orkusjálfstæð og mun þurfa að flytja æ meira inn af gasi og olíu. Í dag kemur mest af þessum kolvetnisinnflutningi frá Noregi, en einnig frá löndum eins og Alsír og Líbýu. Bretland er sem sagt orðið nettóinnflytjandi að orku og allar horfur á að á næstu árum og áratugum verði breska þjóðin sífellt háðari innfluttum orkugjöfum.

Ennþá er Bretland þó í góðri stöðu miðað við næstum öll önnur aðildarríki ESB. Og þessi vaxandi innflutningsþörf væri sossem ekki vandamál ef markaðsverð á olíu og gasi væri lágt. En kaldhæðni örlaganna hagaði því svo, að einmitt um það leyti sem Bretland framleiddi og flutti út meiri olíu og gas en nokkru sinni, var verð á þessum afurðum í botni. Og árin sem Bretland hefur orðið æ háðara innfluttu eldsneyti/orkugjöfum hefur olíuverð hækkað hratt. Þarna er því kominn nýr og risastór útgjaldaliður fyrir bresku þjóðina - og kostnaðurinn mun að öllum líkindum vaxa hratt á næstu árum.

uk-energy-balance_1970-2009-2.png

Sem fyrr segir voru vatnaskilin í orkusjálfstæði Bretlands um aldamótin 2000. Árið 2008 var svo komið að útgjöld Breta vegna umræddrar innflutningsþarfar voru um 15 milljarðar punda. Lækkandi olíuverð 2009 bættu stöðuna aðeins það árið, en 2010 rauk kostnaðurinn aftur upp og útlitið framundan er ekki bjart.

Þetta eru vel að merkja útgjöld sem ekki voru til staðar fyrir einungis örfáum árum síðan - þegar Bretar þvert á móti voru nettóútflytjendur að orku og orkuiðnaðurinn skapaði þeim miklar útflutningstekjur. Og vegna þess hversu olíulindunum í bresku lögsögunni fer hratt hnignandi, má búast við að orkuinnflutningur Breta margfaldist á næstu árum. Og það þrátt fyrir stórfelldar fjárfestingar í vindorkuverum og bjartsýni þeirra um að geta fljótlega beislað sjávarfallaorku til rafmagnsframleiðslu.

uk-energy-balance_1970-2009-value.png

Svo skemmtilega vill til að Bretar eru nú um 185 sinnum fleiri en Íslendingar og eitt breskt pund kostar í dag einmitt um 185 ISK. Samsvarandi útgjöld fyrir Íslendinga væru því að þurfa að borga u.þ.b. 15 milljarða ISK á ári fyrir innflutta orku. 

Í reynd erum við að borga miklu meira fyrir innflutta orkugjafa. Skv. Hagstofu Íslands eru það nú um 55 milljarðar ISK árlega! Bretar myndu því kannski segja sem svo, hvern fjandann Orkubloggarinn sé að derra sig. En í reynd er staða Íslendinga í orkumálum til framtíðar allt önnur og miklu betri heldur en Breta. Ástæða mikils eldsneytisinnflutnings Íslendinga er m.a. vegna íslenska fiskiskipaflotans, sem er jú mjög umfangsmikill og er notaður til að framleiða útflutningsvörur. Þess vegna er þetta viðráðanlegt fyrir Íslendinga. 

uk_trade-balance_energy_1998-2009.png

Og öfugt við Íslendinga standa Bretar nú frammi fyrir því að þurfa að flytja inn æ meiri orku. Orkubloggarinn hefur séð spár þess efnis að strax árið 2013 verði kostnaður Breta vegna innfluttra orkugjafa orðinn á bilinu 25-50 milljarðar punda allt eftir því hvernig olíuverð þróast. Og færi svo áfram hratt vaxandi.

Þó svo að upphæðin sem þarna er nefnd sé miklu minni og jafnvel ekki nema hálfdrættingur á við það sem við Íslendingar erum að eyða í innflutt eldsneyti þessa dagana (þegar tekið er tillit til fólksfjölda) er þetta samt stórmál fyrir Breta. Staða Bretlands í orkumálum er svona ámóta eins og ef við Íslendingar sæjum fram á að bæði vatnsaflið og jarðvarminn væri senn að verða uppurið.

uk-coal-plant-drax-selby_north-yorkshire-england.jpg

Menn geta rifist um það hvort þeir sem segja að Bretland stefni beint í þjóðargjaldþrot séu ruglukollar, svartsýnisálfar eða raunsæismenn. En það er staðreynd að Bretland stendur frammi fyrir miklum vanda í orkumálum.

Við Íslendingar erum hins vegar í þeirri ákjósanlegu stöðu að eiga miklar orkulindir, sem ekki aðeins eru endurnýjanlegar heldur munu mögulega að umtalsverðu leyti leysa innflutt eldsneyti af hólmi í framtíðinni. Orkan í vatnsföllum Íslands og iðrum jarðar (og prótínið sem svamlar í sjónum umhverfis Ísland) eru auðlindir sem gera það að verkum, að Íslendingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni. Hvað sem Icesave líður!

 


Ferðasaga frá Bakú

Azerbaijan er einhver mesti olíuspútnik nútímans.

azerbaijan_oil_production_and_consumption_2010.gif

Þannig gengur tíminn í hringi. Fyrir heilli öld síðan voru svæðin kringum höfuðborgina Bakú í Azerbaijan einmitt vettvangur mikil olíuævintýris. Þar urðu sænsku Nóbelbræðurnir og nokkrir innlendir olíubarónar auðugustu menn veraldar og Bakú var þá ein mesta glæsiborg veraldarinnar.

Og núna þegar olíufyrirtækin eru komin með borpalla langt útá Kaspíahafið er þarna hafið nýtt og ekki síður æsilegt olíuævintýri. Tugmilljarðar USD streyma nú til Azerbaijan í formi fjárfestinga í olíuvinnslu. Þar að auki er gríðarlegt magn af gasi þarna að finna, sem í framtíðinni kann að streyma um langar gasleiðslur alla leið vestur til Evrópusambandsríkjanna.

azerbaijan_baku_oil_pollution.jpg

Engan ætti því að undra, að það var sannkölluð draumaferð fyrir Orkubloggarann að sækja Azerbaijan heim, en það var fyrir nánast sléttu ári síðan (apríl 2010). Ekki var síst "skemmtilegt" að líta þar augu einhver menguðustu svæði jarðar, þar sem jarðvegurinn er gegnsósa af olíudrullu eftir hundrað ára vinnslu.

Einhverjir lesendur Orkubloggsins hafa kannski gaman af að lesa ferðapistil um þessa heimsókn til Azerbaijan - jafnvel þó svo þar sé ekki mikið fjallað um orkumálin. Þá sögu má sjá hér á endurminningabloggi Orkubloggarans.

 


Græningjar fagna

graeningjar-fagna.jpgGræningjar voru að vinna mikinn kosningasigur í þýska sambandsfylkinu Baden-Württemberg. Tvöfölduðu fylgi sitt í þessu mikla hægrivígi; fengu rúmlega 24% og eru nú næststærsti flokkurinn á fylkisþinginu í Stuttgart.

Margir eru á því að þar hafi umræðan um þýsku kjarnorkuverin skipt sköpum. Það hefur reyndar lengi verið mikil andstaða við kjarnorkuver í Þýskalandi og í kjölfar kjarnorkuslyssins í Chernobyl 1986 stefndu þýsk stjórnvöld að því að mjög yrði dregið úr notkun kjarnorku í landinu. Um aldamótin voru meira að segja sett lög sem gerðu ráð fyrir því að því að síðasta kjarnorkuverinu í Þýskalandi yrði lokað árið 2021.

germany-anti-nuclear.jpgEn það var svo á síðasta ári (2010) að ríkisstjórn Angelu Merkel ákvað að slá þeim áformum á frest. Enda er ekkert áhlaupaverk að ráðast í að loka öllum kjarnorkuverum í Þýskalandi. Þýskaland þjáist af miklu orkuósjálfstæði og ekki á það bætandi að þurfa t.a.m. að flytja inn ennþá meira af rússnesku gasi til að fullnægja orkuþörf þjóðarinnar.

Í síðustu færslu Orkubloggsins var einmitt minnt á þá staðreynd að þýsku kjarnorkuverin framleiða á hverju ári um 140 TWst - sem er um átta sinnum meira en öll sú raforka sem framleidd er í öllum virkjunum á Íslandi. Jafnvel stórþjóð eins og Þjóðverjar myndu lenda í margvíslegum vandræðum við að taka þvílíkt afl úr sambandi. Og það er athyglisvert að hvorki meira né minna en 60% raforkunnar sem notuð er í Baden-Württemberg kemur frá kjarnorkuverum! Og þarna er vel að merkja ekki um að ræða neitt smáfylki, heldur búa þar heilar 11 milljónir manna.

nuclear-power-atlas-world-map.jpgHér til hliðar er skemmtileg mynd sem sýnir umfang kjarnorkunnar í heiminum. Þarna má m.a. sjá hversu mjög dró úr byggingu kjarnorkuvera eftir miðjan 9. áratug liðinnar aldar (Chernobyl!). Og hversu gríðarlega mörg kjarnorkuver Kína og Indland hafa áform um að reisa á næstu árum og áratugum.

Það er fremur hæpið að kjarnorkuslysið í Japan muni breyta miklu um þær áætlanir. En skammtímaáhrifin af slysinu gætu orðið veruleg - kansnki ekki síst í vestrænum stjórnmálum. Þessa dagana er a.m.k. gaman hjá Græningjunum í Þýskalandi.

 


Kjarnorkuver á undanhaldi?

japan-nuclear-plants-3.jpg

Alvarleg óhöpp í kjarnorkuverum eru afar sjaldgæf. Og kjarnorkuver eru þokkaleg ódýr leið til að framleiða raforku. Og þau losa engar gróðurhúsalofttegundir.

Þess vegna hafa kjarnorkuver af mörgum þótt einhver besti kosturinn til raforkuframleiðslu. Enda eru allmörg ríki með áætlanir um að byggja mikinn fjölda nýrra kjarnorkuvera á næstu árum og áratugum. Orkubloggið hefur áður sagt frá metnaðarfullum kjarnorkuáætlunum Kínastjórnar. Og í Japan, þar sem kjarnorkan stendur undir um fjórðungi allrar raforkuframleiðslunnar, hafa stjórnvöld haft þá stefnu að hlutfall kjarnorkunnar í raforkuframleiðslu landsins hækki úr núverandi 27% í 40% fyrir 2017! Og að árið 2030 verði hlutfall kjarnorkunnar orðið 50%.

japan_electricity_generation-2009.png

Þetta eru stórhuga áætlanir hjá Japönum. Þær hafa m.a. orðið til af þeim sökum að Japan er svo gífurlega háð innflutningi á bæði gasi og kolum - og auðvitað líka á olíu. Kjarnorkan skapar Japönum meiri fjölbreytni í raforkuframleiðslu og ný kjarnorkuver eru raunhæfasta leiðin fyrir japönsku þjóðina að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og forðast mengun vegna kolefnisbruna. Já - kjarnorkan hentar Japönum jafnvel þó svo þeir þurfi að flytja inn eldsneytið í kjarnorkuverin (úranið). 

Þess vegna hafa Japanir veðjað á kjarnorkuna. Jafnvel þrátt fyrir þá nöturlegu staðreynd að engin þjóð þekkir betur skelfilegar afleiðingar kjarnorkunnar (þegar tveimur kjarnorkusprengjum var varpað á Japan í ágúst 1945).

nuclear-power_europe-2009-map.gif

Kjarnorkan sem orkugjafi átti blómaskeið á 7. og 8. áratugum 20. aldar. En eftir það dró mjög úr byggingu kjarnorkuvera. Ekki síst í Bandaríkjunum, en ástæða þess að kjarnorkan missti meðbyr var m.a. óhappið í kjarnorkuverinu á Þriggja mílna eyju árið 1979. Og eftir slysið 1986 í Chernobyl í Úkraínu (sem þá var hluti af Sovétríkjunum) jókst andstaða við kjarnorkuver víða í Evrópu. Fyrir vikið hafa mörg kjarnorkuríki í Evrópu stefnt að því að fækka kjarnorkuverum. Þar má t.d. nefna Svíþjóð og Þýskaland.

Sum ríki hafa aftur á móti haldið fullri tryggð við kjarnorkuna. T.d. hefur Frakkland gengið svo langt að framleiða um 75-80% allrar raforku sinnar með kjarnorku. Og kjarnorka stendur undir stórum hluta allrar raforkuframleiðslunnar í mörgum öðrum löndum Evrópu og hefur t.a.m. verið furðu lítið umdeild í Finnlandi, sem hefur verið að auka þýðingu kjarnorkunnar í raforkuframleiðslunni.

germany-nuclear-plants.png

Þrátt fyrir nokkuð mikla andstöðu almennings við kjarnorkuver víða um lönd, má segja að sú andstaða hafi veikst þegar athygli fólks beindist að hlýnandi loftslagi - sem mögulega stafar einkum af bruna á kolum, olíu, gasi. Gott ef sumir voru ekki farnir að tala um kjarnorku sem græna orku! Bara vegna þess að kjarnorkuver losa ekki gróðurhúsalofttegundir - og þrátt fyrir margvíslegan og mikinn vanda sem getur fylgt geislavirkum úrgangi frá kjarnorkuverum. Þar að auki olli efnahagsvöxturinn í Asíu því að kjarnorkan fékk sífellt meiri athygli sem góður orkugjafi.

En svo varð jarðskjálftinn við Japan og enn á ný urðu kjarnorkuver ógnvaldur. Ennþá er ekki útséð hvernig fer með kjarnorkukljúfana í Fukushima og þetta atvik er sérstaklega ógnvænlegt þegar haft er í huga þéttbýlið á svæðinu (kjarnaverið er t.a.m. einungis um 200 km frá tugmilljónaborginni Tokyo). Ekki skrítið þótt á ný hafi blossað upp mikil andstaða gegn kjarnorkuverum og að stjórnvöld víða um hinn kjarnorkuvædda heim kippi að sér kjarnorkuhendinni.

En er raunhæft að við getum án kjarnorkunnar verið? Krafan um að loka kjarnorkuverunum virðist hvað háværust í Þýskalandi. Af allri raforkuframleiðslu þar í landi stendur kjarnorkan undir á bilinu 25-30%. Þýsku kjarnorkuverin framleiða á hverju ári um 140 TWst - sem er um átta sinnum meira en öll sú raforka sem framleidd er í öllum virkjunum á Íslandi. Jafnvel fyrir fjölmenna þjóð eins og Þjóðverja, er ekki neitt smámál að taka svo mikið afl úr sambandi (samanlagt afl þýskra kjarnorkuvera er um 21 þúsund MW - afl allra íslenskra virkjana er um 2.600 MW).

nuclear-evening.jpg

Öll sú orka myndi þá þurfa að koma annars staðar frá. Þetta myndi auðvitað ekki gerast á einni nóttu. Lausnin gæti verið að auka innflutning á gasi og á t.d. einum áratug væri hægt að reisa þúsundir og jafnvel tugþúsundir MW af nýjum vindrafstöðvum (í dag er uppsett afl þýskra vindorkuvera um 26 þúsund MW, sem geta sennilega framleitt jafn mikla raforku eins og ca. 7 þúsund MW kjarnorkuver). Og svo mætti bæta við slatta af sólarorkuverum. Og kannski líka nýjum kolaorkuverum!

Þetta væri hægt. En þessu myndi fylgja gríðarlegur kostnaður. Þrátt fyrir allt, þá er kjarnorkan miklu ódýrari orkugjafi heldur en vindorka og margfalt ódýrari en að virkja sólarorku. Þar að auki hefur kjarnorkan þann kost að vera yfirleitt mjög áreiðanlegur orkugjafi, meðan bæði sól og vindur eru óvissir raforkugjafar og þurfa að geta stuðst við æpandi mikið varaafl.

nuclear_wind_1070905.jpg

Því miður er engin góð lausn borðleggjandi. Þjóðverjar vilja forðast að verða enn háðari því að kaupa gas frá Rússum. Og vilja minnka stórlega losun gróðurhúsalofttegunda. Það er vandséð hvernig uppfylla á slík markmið ef loka á þýskum kjarnorkuverum í stórum stíl.

Það er vægast sagt afar hæpið að endurnýjanlegir orkugjafar geti þar orðið allsherjarlausn. Til þess er kjarnorkan einfaldlega of stór og mikil umfangs. Og jafnvel þó svo þetta kunni að vera fræðilega mögulegt yrði kostnaðurinn svimandi. Eftir raforkuverðhækkanir síðustu ára er hæpið að almenningur sé tilbúinn að kyngja miklum hækkunum í viðbót bara til að losna við kjarnorkuverin.

Samskonar sjónarmið eiga við um Japan og flest önnur ríki sem nýta kjarnorku. Ætli menn að gera alvöru úr þeim orðum sínum að minnka notkun kjarnorku umtalsvert og þá helst með endurnýjanlegum orkugjöfum, þá verður það afar kostnaðarsamt. Kannski svo dýrt að almenningur muni snúast á sveif með kjarnorkunni - þrátt fyrir áhættuna, sem nýting kjarnorkunnar skapar.

japan-nuclear-plants-child.jpg

Orkubloggarinn er á því að EF slysið í Fukushima hefur þegar náð hámarki, muni það ekki hafa miklar langtímaafleiðingar á orkustefnu ríkja. En EF slysið á eftir að verða mun alvarlegra og veruleg geislun frá verinu berist til stórborga í Japan, yrði það mikið högg fyrir fylgjendur kjarnorkuvera. Sú atburðarás virðist þó á þessari stundu fremur ólíkleg. Vonandi hafa Japanir náð tökum á ástandinu í Fukushima. Og vonandi mun atburðurinn hafa þau jákvæðu áhrif, að rannsóknir og þróun á endurnýjanlegri orkuvinnslu verði stórefldar um allan heim.

Ríki heims þurfa að huga miklu meira að endurnýjanlegum orkugjöfum og sem flest ríki ættu að stefna í átt að orkusjálfstæði - ekki bara í orði heldur á borði! Kannski fara íslensk stjórnvöld loksins að hlusta á hvatningar Orkubloggsins - og byrja bráðum af alvöru að huga að því að skapa hér kjöraðstæður fyrir fyrirtæki sem t.d. vinna að framleiðslu á grænu eldsneyti og þróun sjávarorkutækni. Með sitt mikla vatnsafl og jarðvarma er Ísland kjörinn staður fyrir rannsóknir, þróun og framleiðslu á slíkri tækni. Þetta gæti meira að segja verið besta tækifærið í endurreisn íslensk efnahagslífs.

 


Spenna við Flóann

oil-graph-200-usd.jpg

Margir olíuspekúlantar biðu spenntir eftir föstudeginum sem leið (11. mars 2011). Vegna þess að skyndilega höfðu margir veðjað á að olíutunnan ryki upp. Í 150 USD eða 200 eða þaðan af meira!

Ástæða þess að menn gerðust svo djarfir fyrir helgina að spá æpandi miklum verðhækkunum á olíu, var að boðað hafði verið til víðtækra mótmæla gegn stjórnvöldum í Saudi-Arabíu og áttu þau að fara fram s.l  föstudag. Á ensku var talað um day of rage og sumir töldu þetta geta leitt til óeirða sem myndu trufla olíuframboð frá Sádunum. Eða a.m.k. valda því að markaðurinn færi af taugum og taka til við að hamstra olíu.

oil-collapse-2.jpg

Þar að auki hafa þegar orðið einhverjar ryskingar í austustu héruðum Saudi-Arabíu. Það vill svo til að þar býr mikið sjítum, sem eru afar ósáttir við yfirstéttina sem allt eru súnnítar, eins og flestir íbúarnir í landinu. Þar brást lögreglan hart við og skaut á fólk. Og þó svo mótmælin þarna virðast hafa verið kæfð niður, eru menn alls ekki rólegir. Þarna í austurhluta landsins liggja nefnilega margar stærstu og mikilvægustu olíulindir heimsins; ofurlindir eins og Manifa, Khurais og risinn Ghawar.

En föstudagurinn varð ekki sá ófriðardagur í Saudi-Arabíu eins og sumir höfðu búist við. Kannski varð jarðskjálftinn rosalegi við Japan til þess að dreifa huga fólks. Eða kannski hafði stjórnvöldum tekist að hræða fólk - eða jafnvel kaupa sér frið með nýju loforði Sádakonungs um 36 milljarða dollara fjárframlög til ýmissa verkefna. Ekki veitir af í landi þar sem atvinnuleysi ungs fólks er um 40%!

En stjórnvöld í Riyadh   ættu kannski ekki að fagna sigri of snemma. Stór hluti þjóðarinnar er löngu búinn að fá yfir sig nóg af einræðisstjórninni, sem með harðri hendi hefur haldið öllum umbótaöflum niðri. Þar að auki gæti ein allra minnsta þúfan orðið til þess að velta hlassinu. Þar er átt við nágrannaríki Sádanna; smáríkið Bahrain

bahrains-oil-importance_1068631.jpg

Bahrain á sér merkan sess í olíusögunni því fyrsti olíubrunnurinn á Arabíuskaganum var einmitt grafinn í sandinum í Bahrain (það var 1935). Í dag framleiðir Bahrain einungis um 40 þúsund olíutunnur á dag og skiptir því sáralitlu máli þegar rætt er um olíuframboð í heiminum. En Bahrain er eins og eyja í Súnnítahafi Arabíuskagans. Þar eru um 7/10 allra íbúanna sjítar, en öll valdastéttin eru súnnítar. Súnnítarnir eru lítt spenntir fyrir því að deila peningum og völdum með þorra þjóðarinnar og þarna á milli er því talsverð spenna. Sem gæti blossað upp núna þegar almenningur í öðrum Arabaríkjum hefur risið upp gegn ofríki þaulsetinna valdhafa. Og slíkar óeirðir gætu smitast yfir landamærin til Saudi-Arabíu.

us_navy_5th-fleet.jpg

Vert er líka að hafa í huga að líklegt er að sjítarnir í Íran styðji trúbræður sína í Bahrain - hvort sem er opinberlega eða með undirróðri - og hvetji til uppreisnar gegn súnnítastjórninni. Inní þetta blandast bandarískir hernaðar-hagsmunir, því mikilvægasta flotahöfn bandaríska sjóhersins við Persaflóann er í Bahrain. Og allar fyrrnefndar risalindir Sádanna eru rétt handan við landamæri Bahrain að Saudi-Arabíu. Bahrain er því sakleysisleg púðurtunna, sem gæti haft all svakalegar afleiðingar ef hún springur.

 


Vesturlandahræsnin

libya-oil-exports.jpg

Líbýa er einn stærsti olíuútflytjandinn í Afríku. Er þar í hópi með Alsír, Angóla og Nígeríu. Þess vegna varð mörgum hér í Westrinu um og ó þegar óeirðir breiddust út þarna í ríki Gaddafi's. Truflun á olíuútflutningi frá Líbýu er miklu stærra efnahagslegt mál heldur en vesenið í Túnis eða Egyptalandi. Því olían stjórnar jú öllu.

Truflunin á olíuútflutningi frá Líbýu skýrir líka að miklu leyti þann svakalega verðmun sem undanfarið hefur verið á olíu á mörkuðum sitt hvoru megin Atlantshafsins. Í Bandaríkjunum er allt fljótandi í svarta gullinu þessa dagana og allar birgðageymslur að verða stútfullar. Olían frá olíusandinum í Kanada og nýju vinnslusvæðunum kennd við Bakken í Dakota stútfylla nú tankana í Cushing, Oklahóma. En í Evrópu er menn með böggum Hildar vegna minnkandi olíuframboðs frá Líbýu.

gaddafi-looking-up.jpg

Fyrir vikið kostar olíutunna á Lundúnamarkaði nú sem samsvarar rúmum 116 USD, meðan sama magn af olíu kostar einungis 105 USD á Nymex. Þetta er meiri munur en flestir olíusvolgrarar muna eftir. Hreint magnað. Maður ætti kannski að leigja nokkra dalla og sigla með fáeina farma frá Mexíkóflóanum og austur til olíusoltinnar Evrópu?

En það er ekki bara að Evrópa kaupi mikið af olíu frá Líbýu.  Líbýa er ekki aðeins mikilvægur olíuútflytjandi; landið býr nefnilega yfir langmestum olíubirgðum af Afríkuríkjunum öllum (sbr. stöplaritið hér að neðan sem sýnir vinnanlega olíu í jörðu). Þetta er einmitt helsta ástæðan fyrir ótrúlegum sleikjuskap og undanlátsemi Vesturlandaleiðtoganna gagnvart Gaddafi í gegnum tíðina.

libya-2010_african_oil_reserves.gif

Það er ekki eins og menn hafi verið að komast að því núna á þorranum eða góunni á því Herrans ári 2010 að maðurinn sé fauti. Í Líbýu hafa andstæðingar Gaddafi's iðulega horfið sporlaust og alþekkt er hvernig Líbýa hefur í áratugi stutt hryðjuverkastarfsemi hingað og þangað um heiminn.

Sumum var reyndar nóg boðið þegar farþegaþota PanAm var sprengd í loft upp af líbýskum terroristum yfir Skotlandi  skömmu fyrir jólin 1988. En olían er bara meira virði en svo að menn væru að erfa þetta of lengi við kallinn. Bresk stjórnvöld leyfðu sprengjumanninum að trítla úr bresku fangelsi og vera fagnað sem þjóðhetju við komuna til Trípólí; höfuðborgar Líbýu. Að baki lá díll Breta við Gaddafi um að BP fengi að leika sér í olíuiðnaði Líbýu.

gaddafi-blair-1.jpg

Olían verður bersýnilega ekki metin til mannslífa - a.m.k. ekki í augum breskra stjórnvalda. Einræðisherrar í olíuríkjum þykja einfaldlega hið besta mál, svo lengi sem þeir eru liðlegir til að flytja út olíu og leyfa olíufyrirtækjum Vesturlanda að koma þar að vinnslunni. Þá er allt fyrirgefið; jafnvel hryðjuverk og fjöldamorð.

Vesenið núna er í reynd ekki tilkomið út af því að þegnar Gaddafi's risu upp gegn honum. Ástæðurnar fyrir hörðum víðbrögðum Vesturlandaleiðtoganna eru miklu fremur að vegna uppþotanna í landinu er bæði olíuframleiðslunni í Líbýu ógnað og aukin hætta á að Gaddafi fleygi enn á ný erlendum olíufélögum út úr landinu. Þess vegna spretta ráðamenn Vesturlanda nú skyndilega fram og fordæma Gaddafi í hópum - eins og 40 ára harðstjórn hans sé eitthvert nýabrum.

gaddafi-brown.jpg

En öllum er þeim í reynd skítsama um líbýsku þjóðina. Málið er einfaldlega að þarna þarf að komast á jafnvægi hið fyrsta - svo við hér í Evrópu getum áfram drukkið svarta blóðið frá Líbýu truflunarlaust.

 


Gasið í Egyptalandi

absim1.jpg

Síðustu vikurnar hefur Orkubloggarinn að sjálfsögðu fylgst spenntur með atburðunum í N-Afríku. Þegar maður var snáði voru sögurnar af Faraóunum með því mest spennandi sem maður las. Ekki var síður skemmtilegt að lesa um Aswan-stífluna, sem reist var í Egyptalandi á árunum 1960-70. Og um það hvernig risavaxnar fornminjarnar sem hefðu farið á kaf í uppistöðulónið voru sagaðar í sundur á vegum UNESCO og fluttar út fyrir lónstæðið. 

Stíflan við Aswan hefur fyrst og fremst það hlutverk að stýra rennsli hinnar miklu Nílar. En að auki er þarna virkjun í ánni upp á meira en 2.000 MW. Þegar ráðist var í þessar framkvæmdir þýddi það rafvæðingu sem á þeim tíma náði til um helmings egypsku þjóðarinnar. En í dag stendur raforkan frá Aswan einungis undir um 15% af raforkuþörf Egypta. Sem er til marks um þá gríðarlegu fólksfjölgun, sem orðið hefur í Egyptalandi eins og svo mörgum öðrum þróunarríkjum.

Þrátt fyrir að egypska lýðveldið sé orðið nærri 60 ára hafa einungis þrír forsetar ríkt yfir landinu á þessum tíma (ef við leyfum okkur að sleppa fyrsta forsetanum sem sat einungis í eitt ár). Þessir þrír voru Nasser (1956-70) sem þjóðnýtti Súez-skurðinn, Sadat (1970-81) sem samdi frið við Ísrael og svo Mubarak (1981-2011).

sadat-mubarak.jpg

Þarna er í reynd um að ræða eina samfellu, því bæði Sadat og Mubarak höfðu áður verið varaforsetar. Mubarak varð forseti landsins þegar Sadat var myrtur 1981 (myndin hér til hliðar mun hafa verið tekin örfáum andartökum áður en skothríðin buldi á Sadat; Mubarak slapp lítið særður). Sadat var hataður af mörgum leiðtogum annarra Arabaríkja fyrir friðarsamningana við Ísrael og um skeið var Egyptalandi vísað úr Arababandalaginu. En í staðinn varð Egyptaland einn helsti bandamaður Vesturlanda í Arabaheiminum. 

Mubarak viðhélt hinum kalda friði við Ísrael og þar með vinskap við Bandaríkin. Þrátt fyrir þjóðþing og lýðræði að nafninu til, var hann í reynd nær einráður; einræðisherra sem ríkti í skjóli "neyðarlaga" með aðstoð hersins og lögreglunnar. Hann hafði verið í forsetaembættinu í um þrjá áratugi nú þegar egypska þjóðin sagði hingað og ekki lengra og Mubarak mátti segja af sér með skömm.

egypt_petroleum-net.png

En það er vandséð að lýðræði eins og við skiljum það hugtak komist á í Egyptalandi. Og það blasa risavaxin vandamál við þjóðinni. Hún er afar fjölmenn - um 80 milljónir manna - og stór hluti hennar býr við sára fátækt. Opinberar tölur um atvinnuleysi segja það vera um 10%, en skv. sumum heimildum er það miklu meira. Verðbólga er einnig mikil; um 15% skv. tölum hins opinbera.

Við þetta bætist svo að Egyptar eru ekki lengur sjálfum sér nógir um olíu. Þó svo Egyptaland sé verulegur olíuframleiðandi - einn af þeim stærri í Afríku - er nú svo komið að framleiðslan stendur ekki lengur undir olíuþörf þessarar fjölmennu þjóðar.

Fyrir um 15 árum náði framleiðslan um milljón tunnum á dag, en slefar nú varla í 600 þúsund tunnur vegna hnignandi olíulinda. Það er nánast sama magn eins og þjóðin notar og því blasir við að senn muni olían ekki lengur skila Egyptum útflutningstekjum. Þvert á móti mun þessi fátæka þjóð senn þurfa að flytja inn olíuafurðir. Og keppa um þær á heimsmarkaði við okkur í vestrinu og aðra sem munu alltaf vera tilbúnir að yfirbjóða Egypta og aðrar snauðar þjóðir.

egypt_small.png

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Undanfarin ár hafa fundist miklar gaslindir út af óshólmum Nílar. Egyptaland hefur fyrir vikið stóraukið gasframleiðslu sína og útflutning á gasi. Svo gæti farið að landið verði einn af mikilvægustu gasbirgjum Evrópu. Löngu orðið tímabært að ESB tengist N-Afríkuríkjunum nánari böndum.

Einn af allra nýjustu gasvinnslu-samningunum sem egypsk stjórnvöld gerðu var nettur samningur við BP og þýska RWE upp á 9 milljarða USD. Undir hann var párað um mitt síðasta ár (2010). Og svo má ímynda sér hvort eitthvað lítilræði af þessum milljörðum dollara hafa runnið inn á reikninga í eigu Mubarak's í einhverjum ónefndum banka í ónefndu landi?

 


Álverskórinn syngur enn

Í vikunni sem leið bárust þær fréttir að Landsvirkjun og HS Orka hafi samið um raforkusölu til kísilverksmiðju, sem rísa á við Helguvík. Því miður er fólk samt ennþá að gæla við að álver Norðuráls muni taka þar til starfa - þó svo allir viti að það merkir að orka frá hundruðum MW verði þá seld álverinu á spottprís og með svo til engri arðsemi fyrir orkufyrirtækin.

kisilver-undirritun.jpgÞeir sem eru heitastir fyrir álveri í Helguvík hafa lítinn áhuga á arðsemi af raforkusölunni. Rétt eins og sumir þingmenn vilja að ríkisstjórnin taki ráðin af Landsvirkjun, sem "leiki lausum hala", horfa sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum eingöngu á störfin og umsvifin í kringum sjálfa framkvæmdabóluna. En til allrar hamingju eru orkufyrirtækin hér smám að færast frá því að vera byggðastefnutæki stjórnvalda, yfir í það að leggja áherslu á að auka arðsemi í raforkuvinnslunni. Þar hefur Landsvirkjun haft frumkvæði - og hefur nú sýnt að þar á bæ er svo sannarlega verið að fylgja eftir nýrri stefnu fyrirtækisins.

Vert er að geta þess að Orkubloggarinn er enginn andstæðingur álvera - þó svo hann álíti komið nóg af þeim á Íslandi. Og til eru þeir sem vilja ganga mun lengra í að draga úr raforkusölu til álvera á Íslandi. Í þessu sambandi má rifja upp athyglisvert viðtal sem Egll Helgason átti við Gísla Hjálmtýsson í Silfri Egils fyrir um ári síðan. Viðtalið má sjá í tveimur hlutum á YouTube (fyrirsagnirnar þar eru reyndar útí hött):

 

Og hér er seinni hluti viðtalsins við Gísla: 

 

 


Olían á þrotum?

Í vikunni sem leið fór sú frétt sem eldur í sinu um heimsbyggðina, að miklu minna af olíu sé í jörðu en menn ætluðu. Í fréttinni fólst nánar tiltekið að Sádarnir hafi stórlega ofmetið olíulindir sínar - um allt að 40%! Í reynd sé olían þar því hátt í helmingi minni en menn hafi talið.

Fréttin birtist upphaflega á vef Guardian og heimildin var Wikileaks-skjölin frá bandarískum stjórnvöldum; nánar tiltekið einhver memo frá ræðismanni Bandaríkjanna í Riyadh. Fréttastofur og fjölmiðlar um allan heim tóku andköf; átu fréttina upp hver eftir öðrum og báru hana áfram gagnrýnislaust sem einhver stærstu tíðindin úr Wikieaks-skjölunum. 

sadad_al-husseini.jpg

En allir sem nenntu að lesa fréttina ráku fljótt augu í nafn, sem fékk bæði Orkubloggarann og aðra orkubolta þessa heims til að glotta. Heimildin fyrir þessari "stórfrétt" var nefnilega maður að nafni Sadad al-Husseini. Sem áður var einn af framkvæmdastjórum Saudi Aramco og þykir því af einhverjum ástæðum sjálfkrafa af sumum vera örugg heimild - en er í reynd afar umdeildur. Enda haggaði þessi "stórfrétt" ekki við olíumörkuðunum.

Það má vel vera að Al-Husseini sé vel meinandi. En í reynd eru þetta allt saman tómar getgátur. Og þar að auki alls ekki ný tíðindi. Al-Husseini hefur í mörg ár verið ötull boðberi þess að olían í hinni heilögu jörð Allah sé ekki eins mikil eins og sumir vonist eftir. Frétt Guardian var m.ö.o. eldgömul og sjálfur hefur Al-Husseini flutt fjölda fyrirtlestra og veitt viðtöl um nákvæmlega þetta sama, allt frá árinu 2004. En bandaríski ræðismaðurinn í Riyadh virðist fyrst hafa frétt af þessari kenningu hans í samtali við Al-Husseini árið 2007. Og stökk þá til og sendi skýrslu heim til Washington. Skýrslu sem er óttalegt bull, en er nú allt í einu orðin heimsfrétt. Svolítið hjákátlegt. 

Umrædd Wikileaks-skjöl voru sem sagt gamlar fréttir. Þar að auki er innihaldið tómar getgátur sem lítið hafa með staðreyndir að gera. Auk þess sem bandarísku sendiráðsmennirnir virðast ekki hafa skilið hvað átt er við með grundvallar-hugtökum eins og proven reserves og oil in place. Sic.

peak-oil-apocalypse.jpgSvolítið dapurlegt að sjá hvernig menn stukku á fréttina gagnrýnislaust. Meira að segja Financial Times sló þessu upp sem meiriháttar frétt. En varð brátt að birta viðauka um að þetta væri reyndar ekkert sérstaklega merkilegt og að þarna væru í reynd engar nýjar upplýsingar á ferðinni. Orðrétt segir núna um þetta á vef FT (leturbreyting er Orkubloggarans):

Update: I'll leave the blog below in tact, but really I should point out that the reason the oil price hasn't moved is that the person quoted in the Wikileaked cable, Sadad al Husseini, is a well-known peak oil theorist who has said this in public many times before.

Nú standa sem sagt fjölmiðlarnir - a.m.k. þeir sem vilja láta taka sig alvarlega - sveittir við að árétta að fréttin byggði á misskilningi og að getgátur eru ekki staðreyndir. Það á ekki bara við um Financial Times, heldur líka New York Times - og eflaust fleiri.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband