Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
13.1.2010 | 08:05
Olíuhreinsun á tímamótum?
Spekúlantar geta endalaust hagnast á olíunni. Í dag er hugsanlega ein farsælasta leiðin til þess, sú að sjorta bandarísk olíuhreinsunarfyrirtæki.

Það fer a.m.k. ekkert á milli mála að olíuhreinsunar-iðnaðurinn hjá hinum alræmdu olíusvolgrurum westur i Bandaríkjunum, er í tómu veseni þessa dagana. Þar má með sanni segja að skjótt skipist veður í lofti. Einungis örfá ár eru síðan flestir "sérfræðingar" voru sammála um að til lengri tíma litið myndi notkun á bensíni og díselolíu vaxa jafnt og þétt þar vestra. Jafnvel til eilífðarnóns. Þó svo einhver hiksti myndi af og til verða í efnahagslífinu, myndi ávallt verða meiri og meiri þörf á fljótandi eldsneyti úr hráolíu. Sífellt meira myndi þurfa af bæði bensín og díselolíu.
Það var m.ö.o. svo, að sérhverjum manni þótti það vera augljóst að Bandaríkin þyrftu að styrkja enn frekar afkastagetu sína í olíuhreinsun. Þess vegna gerðu bandarísk stjórnvöld allt sem þau gátu til að liðka fyrir nýjum olíuhreinsunarstöðvum. Olíuhreinsun var einfaldlega talin vera skotheldur bissness, þar sem ekki væri hægt að tapa.

Á síðara kjörtímabili Bush var opinber stuðningur við uppbyggingu nýrra olíuhreinsunarstöðva í algleymingi. Og þó svo Bush væri líka velviljaður etanólinu, trúðu menn að það væri hreinlega ekki hægt að byggja nógu margar bandarískar olíuhreinsunarstöðvar. Það var líka talið vera mikilvægt til að stuðla að auknu orkusjálfstæði Bandaríkjanna.
Reyndar leit á tímabili út fyrir að góð rök væru að baki þessari olíuvinsamlegu orkustefnu Bush og félaga. Efnahagslífið var á blússandi ferð og menn töldu víst að það myndi kalla á aukna eftirspurn eftir eldsneyti. En í reynd stóð eftirspurn eftir fljótandi eldsneyti að mestu í stað eftir 2005, þrátt fyrir hagvöxtinn.
Og nú hefur framtíðarsýnin gjörbreyst eins og hendi væri veifað. Tækniframfarir og breytt neyslumynstur fólks tók völdin af spám sérfræðinganna og olíustefnu bandarískra stjórnvalda. Eftirspurn eftir bifreiðaeldsneyti í Bandaríkjunum hefur hreinlega hrapað síðustu misserin. Fyrir vikið er nú hverri olíuhreinsunarstöðinni á fætur annarri lokað þar vestra, allt frá New Jersey til Kaliforníu.
Það virðist lítil von um betri tíð með blóm í haga í olíuhreinsuninni. Jafnvel þrátt fyrir að efnahagslífið komist auðvitað aftur á skrið einhvern daginn, óttast margir í olíuhreinsunar-iðnaðinum að nú sé runnin upp ögurstund. Vöxtur í bifreiðaeign pr. fjölskyldu virðist kominn að endamörkum og fólk leitar í sparneytnari bíla. Þó svo kreppan muni ekki vara að eilífu, telja nú margir að bensínnotkun í Bandaríkjunum hafi einfaldlega náð hinu endanlega sögulega hámarki!

Hvort það er raunin eður ei verður barrrasta að koma í ljós. Best að fullyrða sem minnst um svo dramatískar orkuspár. En við þetta bætist síaukinn þrýstingur um hærra hlutfall etanóls í bandarískt bensín. Það mun gera olíuhreinsunarstöðvunum ennþá erfiðara að viðhalda stöðu sinni - hvað þá að bæta hana.
Í dag er afkastageta bandarísku olíuhreinsunarstöðvanna sennilega a.m.k. 5-10% of mikil. Árið 2008 féll bensínnotkun um nærri 3,5% frá árinu áður, sem er mesta fall milli ára síðan 1965! Eftirspurn eftir díselolíu féll ennþá meira eða um næstum 7% og hafa menn ekki séð slíkt síðan í kringum 1980. Og allt bendir til þess að neyslan vestra árið 2009 hafi verið ennþá minni en 2008.
Aftur á móti eru horfur á aukinni eftirspurn eftir etanóli. Obama-stjórnin leggur mikla áherslu á endurnýjanlega orku og grænt eldsneyti. Olíuhreinsunar-iðnaðurinn virðist öngvan vin eiga. Svartálfarnir þar á bæ eru líka dauðhræddir um að "kommarnir" í Washington DC muni brátt leggja nýja skatta á kolefnislosun. Sem verði ekki aðeins til þess að minnka bensínnotkun enn frekar, heldur líka gera bandarísku olíuhreinsunarstöðvunum erfiðara að keppa við ódýrari hreinsistöðvar erlendis. Þar að auki er búist við hertum mengunarreglum, sem muni skila ennþá sparneytnari bílum og minnka bensínnotkun í Bandaríkjunum ennþá meira.

Já - græna byltingin virðist hafa yfirtekið Bandaríkin hægt og hljótt. Afleiðingin er sú að sumar olíuhreinsunarstöðvar hafa dregið verulega úr framleiðslu sinni og öðrum hefur beinlínis verið lokað! Meðan nýjar olíuhreinsunarstöðvar spretta nú upp víðsvegar um heiminn - í löndum eins og Saudi Arabíu, Indlandi og Kína - virðist allt á niðurleið í þessum bransa í Bandaríkjunum.
Árið 2008 voru bandarísku stöðvarnar einungis keyrðar á um 85% afköstum, sem er lægsta hlutfall þar í landi í heil 20 ár. Á nýliðnu ári (2009) lítur út fyrir að þetta neikvæða met hafi verið slegið á ný og afköstin séu aðeins um 75%! Þegar haft er í huga, að stutt er síðan hver einasta olíuhreinsunarstöð þar vestra var keyrð á yfir 90% afköstum, er augljóst að ekki er mikið um bros núna hjá mönnum í þessum iðnaði.

En neyðin kennir naktri konu að spinna. Fyrirtæki sem reka olíuhreinsunarstöðvar leita nú logandi ljósi að etanólfabrikkum til kaups. Aðlögunarhæfni bandaríska kapítalismans er aðdáunarverð og sennilega munu flestir koma þarna standandi niður.
Sú stefna að færa sig yfir í etanólið hefur t.d. verið áberandi undanfarið hjá Valero, sem er stærsta olíuhreinsunarfyrirtæki Bandaríkjanna. Þar á bæ hafa menn ekki aldeilis misst móðinn og eru óhæddir við að veðja á etanólið.
Þegar og ef Bandaríkjaþing afgreiðir löggjöf um E15 blöndu mun allt sem tengist etanóli einfaldlega rjúka upp í verði. Og fyrst að Valero virðist tilbúið að veðja á etanólið, er freistandi að draga þá ályktun að lobbýisminn muni virka og E15-staðall verða að veruleika. Jafnvel fyrr en seinna.
Það allra skemmtilegasta við samdráttinn í bandarísku olíuhreinsuninni er kannski það, að þetta kann að skapa Íslendingum athyglisvert viðskiptatækifæri. Orkubloggarinn hefur áður talað fyrir þeim möguleika, að hér verði framleidd íslensk lífhráolía. Vegna þess að það er sennilega besti og skynsamasti kosturinn til að framleiða innlend verðmæti úr íslenskri orku

Dýrasti bitinn í slíkri iðnaðaruppbyggingu felst sjálfsagt í því að koma upp olíuhreinsunarstöðvum. En þær verða einmitt nær örugglega á brunaútsölu í Bandaríkjunum á næstu árum. Þess vegna er hreinlega upplagt að Íslendingar grípi nú tækifærið og kaupi a.m.k. einn slíkan eðalgrip þar vestra - og flytji heim. Með þá stefnu að íslenska þjóðin verði fyrsta algerlega orkusjálfstæða þjóð veraldar; framleiði bæði allt sitt rafmagn OG allt sitt eldsneyti með hægkvæmum og þokkalega umhverfisvænum hætti. Spurningin er bara hvort fyrsta lífhráolíu-hreinsunarstöðin eigi að verða staðsett í útjaðri Keflavíkur, Grindavíkur eða Húsavíkur?
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2010 | 13:10
Orkubloggið á Facebook

Ein leið til að rifja upp færslur af Orkublogginu, er að vera með blogginu á Fésbók. Þar getur fólk líka sett inn sínar eigin hugleiðingar, myndir og annað sem Facebook býður upp á.
10.1.2010 | 03:13
Funheitt grjót
Talsverð tímamót urðu nýverið í stefnu Ástrala í orkumálum.
Þessi 20 milljón manna þjóð framleiðir um 90% af rafmagninu sínu með kolum og gasi. Lengi vel var maður að nafni John Howard þar við stjórn og sá gaf bæði skít í allt umhverfishjal og gróðurhúsatal. En nýverið varpaði ástralska þjóðin hinum litlausa Howard loks fyrir borð og nýja stjórnin hefur kúvent orkustefnu Ástralíu. Og sett sér það takmark að á næstu tíu árum verði framleiðsla á endurnýjanlegri raforku margfölduð.

Í dag framleiða Ástralir einungis um 10% raforku sinnar með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þar um að ræða ca. 15 þúsund GWh árlega; álíka mikið eins og öll raforkuframleiðsla á Íslandi er núna. Samkvæmt nýlegri samþykkt ástralskra stjórnvalda á ársframleiðslan á grænu raforkunni að vera orðin 60 þúsund GWh eftir einn áratug, þ.e. árið 2020.
Gangi það eftir er áætlað að þá muni hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap Ástrala hafa tvöfaldast (úr 10% í 20%). Og til að þetta markmið náist, þarf að fjórfalda framleiðslu á endurnýjanlegri raforku á einungis tíu árum. Dágóð viðbót það.
Ástralir ætla sér sem sagt að bæta 45 þúsund GWh af grænni orku inn á kerfið hjá sér. Sem að meðaltali þýðir 4.500 nýjar grænar gígavattstundir á hverju ári - næstu tíu árin. Í reynd mun dreifingin auðvitað ekki verða svo jöfn. Þetta mun kalla á fjölmargar nýjar virkjanir, sem verður bæði fjárfrekt og tímafrekt að koma upp. Gert er ráð fyrir að megnið af þessari nýju raforku frá endurnýjanlegum orkugjöfum muni byrja að streyma á ástralska raforkumarkaðinn eftir nokkur ár og svo fara hratt vaxandi á síðari hluta tímabilsins.
Til að setja þessi 45 þúsund GWh í eitthvert samhengi, má nefna að Kárahnjúkavirkjun framleiðir um 4.600 GWh á ári. Þ.a. Ástralir ætla sér á næstu tíu árum að reisa virkjanir sem framleiða u.þ.b. tífalt það magn af rafmagni sem kemur frá Kárahnjúkavirkjun. Það er fjárfesting upp á eina Kárahnjúkavirkjun á ári.

Til að framleiða 45 þúsund grænar GWh á ári þarf ansið hreint margar nýjar virkjanir. Vandamálið er bara að Ástralir hafa fyrir löngu síðan nánast algerlega fullnýtt vatnsaflið sitt í fjalllendinu í austanverðu landinu (ónýttir möguleikar eru aftur á móti fyrir hendi á Tasmaníu). Þar að auki hafa langvarandi þurrkar í Ástralíu valdið því að rafmagnsframleiðsla vatnsaflsvirkjananna þar hefur heldur farið minnkandi síðust árin. Það verða því ekki nýja vatnsaflsvirkjanir sem munu skila Áströlum þessum tugþúsundum gígavattstunda. En hvaðan á þá allt þetta nýja ástralska rafmagn að koma? Frá sólinni? Eða vindorkuverum?

Ástralir hafa svolítið verið að fikta með vindorkuna og í dag framleiða áströlsku vindrafstöðvarnar u.þ.b. 1% af rafmagninu í landinu. En þó svo sum svæði í Ástralíu henti prýðilega fyrir vindorkuver, þá er hæpið að vindurinn í Ástralíu geti skilað því að framleiða tugi þúsunda "nýrra" gígavattstunda á ári, eftir aðeins tíu ár.
Þar að auki er vindorkan afar sveiflukennd og því myndi þurfa hreint æpandi magn af uppsettu afli til að framleiða allt þetta rafmagn með vindorkuverum. Til að framleiða 45 þúsund GWh af rafmagni árlega með vindrafstöðvum í Ástralíu, þarf uppsett afl líklega að vera ca. fjórum sinnum meira en ef um væri að ræða "íslenskar" virkjanir (þ.e. vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir). Þess vegna álíta áströlsk stjórnvöld að vindorka geti aldrei orðið nema tiltölulega hógær hluti af lausninni. Finna þarf leið sem ekki krefst jafn mikils uppsetts afls og gefur stöðugri og tryggari raforkuframleiðslu.
Spurning hvort sólarorkan sé þá betri kostur? Sólarspeglaver (CSP) með þeim möguleika að geyma orkuna (hitann) í saltlausn eru ennþá einungis á tilraunastigi. Og þó svo sólarselluver (PV) séu vel þekkt tækni þá er slík rafmagnsframleiðsla ennþá svakalega dýr og bundin við það að sól sé á lofti. Þess vegna telja áströlsk stjórnvöld augljóst að þó svo bæði vindur og sól muni skila einhverjum hluta af þessum 45 þúsund GWh árið 2020, verður að finna stóru lausnina annars staðar.

Það magnaða er að nú horfa Ástralir til orku sem við Íslendingar þekkjum svo prýðilega vel. Jarðvarmans! Að vísu er engin eldvirkni í Ástralíu og þar er þvi ekki að finna háhita í því formi sem við þekkjum svo vel hér á Íslandi. Þess vegna hefur líka ennþá ekki ein einasta jarðvarmavirkjun verið byggð í Ástralíu, að undanskilinni lítilli 120 kW virkjun í Birdsville í Queensland, sem nýtir lághita.
En nú hefur komið í ljós að þokkalega stutt undir yfirborði ástralska meginlandsins má víða finna mjög heitt berg (s.k. hot rocks). Þarna leynist sem sagt mikill hiti; nokkur hundruð gráða heitt berg. Þetta er mun meiri varmi en gengur og gerist á öðrum svæðum í heiminum og mun það stafa af miklu magni af úrani, þóríni og fleiri geislavirkum efnum sem finnast í óvenju miklu magni í berggrunni Ástralíu. Það má kannski lýsa þessu þannig, að "hægfara kjarnaklofnun" hafi í gegnum tíðina hitað upp þetta ævagamla berg. Jarðlögin þar fyrir ofan eru þeirrar gerðar að virka sem dúndrandi einangrun og þess vegna hefur svo mikill hiti byggst þarna upp. Gárungarnir lýsa þessari gríðarlegu uppsöfnuðu varmaorku í ástralska berginu, sem grænni geislavirkni. Skemmtilegt.
Til að komast í 250 gráða heitt berg eða jafnvel enn heitara þarf reyndar að fara hressilega djúpt. En þó svo jafnvel þurfi að bora niður á 3-5 km dýpi, er það ekki mikið meira en nú er verið að gera hér á Hellisheiðinni. Þar eru menn komnir með reynslu af því að fara vel niður fyrir 3 km línuna, þ.a. tæknilega yrði þetta ástralska megadýpi ekki algert nýjabrum í jarðhitabransanum. Það er sem sagt fullkomlega raunhæft að nýta megi þetta óvenjulega jarðfræðilega fyrirbæri suður í Ástralíu til að fá allt að 200 gráða heita gufu til að knýja jarðhitavirkjanir.
Undir hinu þurra yfirborði þessa risastóra lands leynist mikið neðanjarðarvatnakerfi. Hitann og vatnið sem þarna leynist engum til gagns er upplagt að nýta til að búa til gufuafl í anda íslenskra háhitavirkjana. Þá er einfaldlega borað í bergið og vatninu dælt þangað niður í ofsalegan hitann. Hugsanlega kann þróunin sem hefur orðið í háþrýstitækninni í bandaríska gasiðnaðnum, að flýta enn frekar fyrir uppbyggingu hagkvæmra og afkastamikilla ástralskra jarðhitavirkjana. Menn tala um að sumar virkjanirnar verði hundruð MW (til samanburðar þá er afl Kröfluvirkjunar um 60 MW og þar er nú talað um að bæta 150 MW við).

Hitinn í ástralska berginu er svo mikill að ekki verður einu sinni þörf á að dæla upphituðu vatninu upp á yfirborðið. Þegar vatnið kemur ofaní 200-300 gráðu heitt bergið mun það sjálft brjótast upp af miklum krafti í formi gufuafls. Getur varla orðið einfaldara.
Þessi aðferð hefur auðvitað fengið athygli víðar en í Ástralíu. Rannsóknir á að nýta þennan djúpa jarðhita, sem finna má víða um heim, hafa t.d. lengi átt sér stað í Bandaríkjunum. Núna eru t.d. eigendur Google að skoða möguleika á að ráðast í svona verkefni þar vestra - eru mjög spenntir fyrir þessari tækni. En Ástralía virðist njóta þess forskots að heldur styttra sé þar niður í nægjanlega mikinn hita (jafnvel allt að 30-50% grynnra en í Bandaríkjunum). Auk þess getur vinnsla af þessu tagi haft netta jarðskjálfta í för með sér og þess vegna er gott að geta gert þetta í nokkurri fjarlægð frá þéttbýli. Það er auðvelt í ástralska dreifbýlinu!

Orkubloggarinn þekkir bærilega vel til í Ástralíu og hefur fylgst náið með jarðhitaþróuninni þar; ekki síst rannsóknum hjá vinum sínum á áströlsku rannsóknastofnuninni CSRIO. Þó svo löngu væri vitað að mikill varmi sé í ástralskri jörð, var hugmyndin um ástralska háhitavirkjun lengi vel aðeins fjarlægur draumur og nánast útópía. Ekki síst vegna þess að Ástralir eiga gríðarlegar kolanámur og ekki voru fyrir hendi pólitískir hvatar til að farið yrði útí nýja og dýrari orkutækni í landinu. Að sumu leyti var ástandið þarna svipað eins og gagnvart vindorkunni hér á Íslandi; hugsanlega er mikið af virkjanlegri vindorku hér en ennþá er enginn pólitískur vilji til að gera þær rannsóknir sem þörf er á til að geta metið þetta.
Nú hefur á skömmum tíma orðið gjörbreyting á stöðu jarðvarmans í Ástralíu. Á síðustu árum hefur jarðhitinn skyndilega orðið ein helsta von Ástrala til að auka hlutfall endurnýjanlegrar raforku og draga úr ofuráherslu á kolaorkuna. Stjórnvöld hafa stofnað sérstaka sjóði upp á nokkur hundruð milljónir ástralíudollara, til að kosta rannsóknir og þróun jarðhitavirkjana, sem geta nýtt funheitt bergið. Fyrir vikið hafa nú sprottið upp mörg jarðhitafyrirtæki suður í Ástralíu, sem vilja ná í sneið af þessari fínu köku. Talið er að á næstu tveimur áratugum muni verða fjárfest fyrir ca. 3-3,5 milljarða ástralíudollara bara í jarðhitaverkefnum. Sem er talsvert, þegar haft er í huga að í dag fer ástralíudollarinn nálægt því að jafngilda einum bandaríkjadal.

Hin nýja jarðhitastefna ástralskra stjórnvalda hefur hugsanlega gert Ástralíu að einum áhugaverðasta kostinum fyrir fyrirtæki með þekkingu og reynslu á hönnun og byggingu jarðvarmavirkjana. Ekki síst fyrirtæki sem kunna að höndla háhitagufu. Þó svo bæði ESB og Bandaríkin bjóði upp á ýmsa möguleika í jarðhitanum og spennandi tækifæri kunni t.d. líka að leynast á Arabíuskaganum, í Kína, Indónesíu, Rómönsku-Ameríku og jafnvel víðar, er funheitur berggrunnur Ástralíu kannski albesta tækifærið fyrir t.d. íslenska jarðvarmaþekkingu.
9.1.2010 | 11:24
"Frakkað" í New York
Þeir kalla það fracking. Þetta hugtak er notað yfir nýja vinnslutækni í gasiðnaðinum vestur í Bandaríkjunum.

Fracking er dregið af nafnorðinu fracture, sem er sprunga eða brestur. Fullu nafni kallast þetta hydraulic fracturing. Þessi vinnsluaðferð felst í því að ryðja sér leið inní grjóthörð sandsteinslög, með því að beita háþrýstivatni; gjarnan blönduðu sandi og ýmsum efnum sem gera þrýstibununa ennþá öflugri. Þannig má brjótast þvers og kruss í gegnum sandsteininn, til að komast inn í þunn gaslögin sem þar liggja inniklemmd og þvinga gasið út og upp á yfirborðið.
Ekki var fyrr búið að finna upp á þessari vinnsluaðferð vestur í Texas, en til varð slanguryrðið fracking í gasiðnaðinum. Sú aðferð að beita sandblönduðu vatni undir háþrýstingi sem borunaraðferð, er reyndar fjörgömul. En það er alveg nýtt að nota þessa tækni við að nálgast gas.

Upp á ástkæra ylhýra mætti kannski tala um brotvinnslu. Nema háþrýstitækni sé nærtækara hugtak. Brotvinnsla er samt kannski meira lýsandi; þessi aðferð við gasvinnslu veldur nefnilega litlum jarðskjálftum þegar vatnið brýtur sér leið í gegnum sandsteininn. Orsakar sem sagt bresti í jarðskorpunni, ef svo má segja. Kannski vilja samt einhverjir óþjóðhollir barrrasta nota lauflétt slangur og búa til íslensku sögnina að "frakka".
Þó svo horfur séu á að þunnildisgasið verði jafnvel lausn á orkuvanda Bandaríkjanna til langrar framtíðar, þá er þetta umdeild vinnsluaðferð. Reyndar standa tveir afskaplega ólíkir hópar saman í andstöðu gegn háþrýstiaðferðinni. Annars vegar er fólk sem horfir til umhverfisverndar og vill alls ekki að Bandaríkin halli sér enn og aftur að kolefniseldsneyti. Og segja háþrýstitæknina þar að auki bæði sóun á vatni og skemmi líka vatnsból vegna mengunar sem fylgi vinnslunni. Hins vegar er svo kolaiðnaðurinn, sem segir þessar háþrýstiboranir stórhættulegar og það verði að stöðva þessa vitleysu eins og skot áður en alvarlegur jarðskjálfti verði. Hér má hafa í huga að meira framboð af gasi er jú ekki til þess fallið að hækka verð á kolum!

Það að sækja þunnildisgasið með háþrýstitækninni er sem sagt ekki nein sáttaleið þarna vestra. En þessi gasvinnsla gæti slakað á þeirri spennutreyju sem Bandaríkin eru í vegna innfluttrar orku. Þar að auki er þetta nýja gasævintýri mjög atvinnuskapandi. Pólitíkusarnir hallast því margir á sveif með því að þunnildisgasið verði sótt - sem allra fyrst og sem allra mest. Jafnvel undir Central Park í New York.
Í Bandaríkjunum heyrir flest það sem lýtur að vatnsbúskap landsmanna undir Umhverfisstofnun Bandaríkjanna (EPA). En það að nota háþrýstivatn í gasvinnslu fellur samt ekki undir alríkislög. Eftirlit með þessum háþrýstiborunum er nefnilega í höndum fylkjanna. Ástæðan fyrir því fyrirkomulagi er sögð vera sú, að gasiðnaðurinn hafi ekki viljað sæta takmörkunum vatnsverndarlöggjafarinnar. Og hafi náð sínu fram með massífum lobbýisma í Washington DC, þegar Bandaríkjaþing samþykkti vatnsverndarlöggjöfina Safe Drinking Water Act árið 2005. Og stjórnvöld í Texas og fleiri fylkjum virðast hafa takmarkaðan áhuga á því að leggja stein í götu þess að háþrýstivinnslan breiðist út. Þess vegna hefur þessum nýja gasvinnsluiðnaði stundum verið lýst sem paradís fjárfesta utan marka laga og réttar.
Orkubloggið hefur áður greint frá því að það er hreinlega allt að verða vitlaust í þunnildisgasinu þarna fyrir vestan. Nú er ævintýrið að breiðast út frá Texas og fleiri fylkjum Suðurríkjanna. Nýjasta svæðið þar sem háþrýstitæknin er að fara á fullt er sjálft New York fylki.

Austurstrandarliðið í Nýju Jórvík hefur nokkrar áhyggjur af möguleikum neikvæðum fylgifiskum háþrýstitækninnar. Þar lítur fólk m.a. til þess að frá því þessi nýja tækni ruddi sér til rúms í Texas hafa þar á stuttum tíma mælst fleiri jarðskjálftar en næstu þrjá áratugi á undan. Ekki stórir skjálftar, en samt nóg til að titringurinn valdi mönnum áhyggjum.
Að auki er lítt vitað hvaða göróttu efnum gasleitarfyrirtækin blanda í vatnið, til að gera það áhrifameira í að brjótast gegnum sandsteininn. Vitað er að þar er um að ræða alls konar vafasamt glundur og margir hafa áhyggjur af því að þetta geti mengað vatnsból í nágrenni vinnslusvæðanna. Sumir álíta hreinlega að þetta skyndilega gasæði geti valdið einhverju mesta umhverfistjóni í sögu New York borgar!
Það er óneitanlega frekar kjánalegt, að miklu strangari reglur gilda um olíu- og gasleit t.d. djúpt útí Mexíkóflóa heldur heldur en gildir um það að stunda gasvinnslu með háþrýstivatnsborunum í miðjum stórborgum. Þess vegna hljóta senn að verða settar ítarlegri og strangari reglur um vinnslu af þessu tagi.

Talið er að allt að 40-60% af sand- og efnablönduðu háþrýstivatninu verði eftir í berginu og jarðlögum, þrátt fyrir uppdælingu. Hverjum manni ætti að vera augljóst að ekki er hægt að una við óvissuna og mengunarhættuna sem þetta kann að skapa. Vandamálið er bara að í hugum pólitíkusa er auðlindanýting einfaldlega oft meira spennandi en umhverfisvernd. Enda eru styrkirnir frá gasvinnslufyrirtækjunum í kosningasjóðina líklega umtalsverðir. Þess vegna lítur út fyrir að XTO og aðrir í þunnildisgasbransanum geti áfram "frakkað" á fullu án mikilla afskipta stjórnvalda.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2010 | 00:18
Codexis
Það er tímabært að Orkubloggið snúi sér á ný að því sem máli skiptir. Orkunni og auðlindum náttúrunnar!
--------------------
Hér undir miðnættið ætlar Orkubloggarinn að byrja á því að láta hugann reika til þess tíma þegar stjórnvöld óttuðust eitthvað sem kallað var "Aldamótavandinn". Og fólst í því að tölvukerfi um veröld víða myndu ganga af göflunum þegar árið 2000 rynni upp.
Það virðist ríkt í eðli manna að þurfa bæði að hafa eitthvað að óttast - og hafa eitthvað að trúa á. Um aldamótin var það líftæknin sem þótti mest spennandi af þeim veðmálunum sem í boði voru. Í dag eru margir helstu líftæknigúrúarnir búnir að finna sér annað skemmtilegt átrúnaðarmál. Sem eru nýjar leiðir í að framleiða fljótandi lífmassaeldsneyti fyrir tilstilli líftækninnar.

Líftæknin getur nýst með ýmsum hætti við að framleiða lífrænt fljótandi eldsneyti. Nýlega sagði Orkubloggið t.d. frá áætlunum fóstbróður Kára Stefánssonar hjá Synthetic Genomics um að nýta örverur í þessum tilgangi. Enn fleiri fyrirtæki eru að þróa aðferðir til að framleiða etanól úr sellulósa (beðmi) - í stað þess að nota korn eða sykurreyr eins og gert hefur verið í áratugi.
Vandamálið við sellulósann er að ná að brjóta niður fjölliðurnar í sellulósanum með viðunandi kostnaði. Fjölmargar tilraunir hafa verið gerðar í þessum tilgangi. Nú síðast hafa menn verið að horfa til þess að nota örverur eða lífræna hvata (ensím). Hér á landi munu t.d. hafa farið fram tilraunir með að nota hitakærar örverur í þessu sambandi. Enn sem komið er hafa allar slíkar vísindarannsóknir því miður skilað heldur fátæklegum árangri. Samt er mikil bjartsýni um að lausnin sé rétt handan við hornið og brátt opnist flóðgáttir af ódýru og hagkvæmi lífefnaeldsneyti, sem ekki muni keppa við fæðuframboð.

Eitt þeirra fyrirtækja sem telur sig hafa lausnina er bandaríska Codexis. Nú eru horfur á að Codexis verði senn skráð á Nasdaq. Og verði þar með fyrsti nýi fulltrúi lífmassaeldsneytisins á þessum virðulega verðbréfamarkaði í meira en þrjú ár.
Rétt eins og það að fjárfesta í Decode og öðrum líftæknifyrirtækjum, þá er annarrar kynslóðar lífmassaiðnaður hvorki fyrir hjartveika né taugaveiklaða. Einungis fáein fyrirtæki í þessum nýja eldsneytisbransa hafa hætt sér útá hlutabréfamarkaðinn og þess í stað flest sótt fjármagnið til áhættufjárfesta. En kannski er að verða breyting þar á. Fyrir fáeinum dögum hóuðu snillingarnir hjá Codexis í menn hjá Nasdaq og vilja bjóða þar 100 milljón dollara hlutafé.
Codexis ætlaði sér reyndar upphaflega að fara í hlutafjárútboð haustið 2008. En ákveðið var að doka aðeins við, sökum þess að nokkur órói virtist vera á fjármálamörkuðunum. Fáeinum dögum síðar féll Lehman Brothers, þ.a. það var kannski eins gott að Codexis staldraði við. Menn voru ekki beint í miklum fjárfestinga-fíling þessa æsilegu haustdaga árið 2008, þegar bankageiri veraldarinnar riðaði til falls.

En nú á sem sagt að kýla á þetta. Þeir sem vilja vera með í þessu spennandi dæmi hjá Codexis verða meðeigendur í fyrirtæki sem nú þegar hefur varið tugum milljóna dollara í að þróa tæknina. Og hefur sjálft Shell með sem stóran hluthafa.
Það er vissulega ekki sjálfgefið að þeir sem skrá sig fyrir hlutafé í Codexis græði á öllu saman. Þegar maður rennur í gegnum þær ljúfu 840 blaðsíður sem skráningarlýsingin er, hljómar þetta ekki beint eins og ævintýri með öruggum góðum endi. Á móti kemur að spennan hlýtur að koma adrenalíninu af stað - og það er auðvitað miklu skemmtilegra en að þjást af einhverri leiðinda áhættufælni. Hér er smá dæmi úr þessari bráðskemmtilegu lesningu sem skráningarlýsing Codexis er (leturbreyting hér):

"The development of technology for converting sugar derived from non-food renewable biomass sources into a commercially viable biofuel is still in its early stages, and we do not know whether this can be done commercially or at all... There are no commercial scale cellulosic biofuel production plants in operation. There can be no assurance that anyone will be able or willing to develop and operate biofuel production plants at commercial scale or that any biofuel facilities can be profitable... Fears of genetic engineering could pinch the company; and there might not be enough feedstock to turn into biofuels".
Og loks - af því Codexis er auðvitað til húsa á San Francisco svæðinu eins og flest önnur bandarísk spútnikfyrirtæki síðustu ára og áratuga - eru hugsanlegir hluthafar minntir á það að þetta getur allt saman einn daginn hrunið til grunna í orðsins fyllstu merkingu: "Our headquarters is located in the San Francisco Bay Area near known earthquake fault zones and is vulnerable to significant damage from earthquakes"!
Þetta er sem sagt bara fyrir alvöru töffara. Sem Íslendingar flestir auðvitað eru. Orkubloggarinn getur a.m.k. vart beðið með að senda nokkra snjáða dollarana þarna vestur til Frisco. Codexis!
7.1.2010 | 08:40
Ólafur Ragnar í BBC
Ólafi Ragnari tókst nokkuð vel að eiga við hákarlinn Jeremy Paxman í Newsnight.
Orkubloggarinn hefur ætíð verið mikill aðdáandi breskrar fréttamennsku eftir námsdvöl sína í London fyrir margt löngu. En viðtalstæknin sem Paxman beitir er svolítið sérkennileg; spurningarnar oft leiðandi og fela í sér lúmskar rangtúlkanir. Sjálfum þykir bloggaranum sem Paxman eigi stundum erfitt með að hlusta á viðmælendur sína og fari gjarnan yfir það fína strik sem aðskilur góða ágenga fréttamennsku og dónaskap.
Og það er auðvitað erfitt fyrir Breta að skilja ríki, sem byggja stjórnskipun sína á ritaðri stjórnarskrá. Slíkt grundvallaratriði lýðræðisins er í raun ekki til í Bretland. Hvað um það; viðtalið má sjá á YouTube:
Og hér er annað viðtal við Ólaf Ragnar - á Bloomberg. Ólafur virkar svolítið pirraður á bullinu í fréttakonunni, sem virðist lítið vita um fyrri Icesave-lögin:
Viðskipti og fjármál | Breytt 8.1.2010 kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.1.2010 | 09:43
Icesave-lögin hin síðari
"Íslendingar ætla ekki að greiða skuldir sínar".
Þessi fullyrðing birtist nú í fjölmiðlum um allan heim. Og er til komin vegna ákvörðunar forseta Íslands að vísa nýju Icesave-lögunum um ríkisábyrgð til þjóðaratkvæðagreiðslu. Komi til þess að lögin verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem virðist mjög líklegt þegar litið er til skoðanakannana, taka gildi fyrri Icesave-lög frá því í sumar. Sama yrði uppi á teningnum ef Alþingi dregur nýju Icesave-lögin til baka (með því að fella þau úr gildi líkt og gert var með Fjölmiðlalögin).

Í fyrri Icesave-lögunum tók Ísland á sig að greiða Icesave-skuldirnar. Með tilteknum fyrirvörum. Það er því einfaldlega alrangt að Ísland hafi hafnað því að taka á sig ábyrgð vegna Icesave-skulda hins einkarekna Landsbanka Ísland. Þvert á móti eru fjórir mánuðir liðnir síðan hér tóku gildi lög þess efnis; lög nr. 96/2009. Þar segir í 1.g.r.:
Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgðin tekur til höfuðstóls lánanna eins og hvor um sig mun standa að sjö árum liðnum frá undirritun samninganna, 5. júní 2016, auk vaxta af lánsfjárhæðinni, með þeim fyrirvörum sem fram koma í lögum þessum og gildir til 5. júní 2024.

Staðreyndin er sem sagt sú að ákvörðun forsetans snýst ekki um hvort greiða eigi Icesave-innistæðurnar eða ekki. Alþingi er löngu búið að samþykkja ríkisábyrgð vegna þessara innistæðna. Málið snýst einfaldlega um það hvort eðlilegt er að íslenska þjóðin taki á sig nánast óútfylltan tékka vegna þessara innistæðna. Ekkert er vitað hversu mikið mun fást upp í þetta af eignum Landsbankans. Það er heldur ekkert vitað hvernig efnahagsmál munu þróast á komandi árum. Það var ekki einu sinni full vissa um að innistæðutryggingakerfið eigi við þegar allsherjar bankahrun verður, líkt og varð hér á landi. Þess vegna var bæði eðlilegt og skynsamlegt að tilteknir fyrirvarar yrðu á greiðsluskyldu vegna Icesave-innistæðnanna.
Í sumar sem leið varð breið samstaða um það á Alþingi að veita ekki ótakmarkaða ríkisábyrgð vegna Icesave-innistæðnanna. Þess vegna voru settir í lögin ákveðnir fyrirvarar. Þar sem m.a. var litið var til þess að greiðslur skyldu taka tillit til efnahagsþróunar. Einnig var þar gert ráð fyrir þeim möguleika að þar til bærir dómstólar myndu geta fjallað um það hvort reglur um innistæðutryggingar gildi að fullu þegar kerfishrun verður á fjármálamarkaði, eins og hér varð.

Að mati Orkubloggsins voru þetta sjálfsagðir fyrirvarar. Þeir miðast við það að málefnið heyri undir úrlausn lögmætra dómstóla. Þeir miðast líka við það að forðast sé að stofna þjóðríki í gjaldþrot vegna slíkrar greiðsluskyldu.
Bretar og Hollendingar vildu aftur á móti ekki ganga að þessum sjálfsögðu og eðlilegu hlutum. Þar með var ekki aðeins allri sanngirni ýtt til hliðar og efnagaslífi þjóðarinnar til langrar framtíðar stefnt í voða, heldur einnig hafnað að mark sé takandi á íslenskum dómstólum. Þar að auki bendir flest til þess að Bretar hafi misbeitt stöðu sinni til að hafa óeðlileg áhrif á bæði Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og ýmis aðildarríki ESB til að einangra Ísland. Þar er bersýnilega fyrst og fremst verið að líta til hagmuna kröfuhafa og meingallaðs innistæðutryggingakerfis ESB, á kostnað íslensks almennings sem ekkert hafði með einkafyrirtækið Landsbanka Íslands að gera.
Þessi ömurlegu vinnubrögð breskra stjórnvalda eru í algerri andstöðu við það sem kallast geta eðlileg nútímasamskipti evrópskra lýðræðisríkja. Það er algerlega fráleitt að Ísland geti gengið að því að taka á sig skuldbindingar sem geta gert íslenska ríkið gjaldþrota og um leið afsalað sér þeim rétti að leita eftir bindandi niðurstöðu dómstóla um lögmæti þessarar samningsniðurstöðu, sem hefur verið þröngvað upp á ísland.
Þess vegna hefði Alþingi aldrei átt að afgreiða nýju Icesave-lögin. Og þess vegna var sjálfsagt mál að forseti Íslands vísaði þessu máli til þjóðarinnar.
Þar að auki voru fyrirvararnir í fyrri Icesave-lögunum einfaldlega til mikillar fyrirmyndar. Þeir ættu að vera leiðarljós í að breyta vinnubrögðum alþjóðlegra lánastofnana gagnvart skuldsettum þjóðríkjum. Í stað þess að þjóðir séu "aðstoðaðar" með lánveitingum sem byggjast á kverkataki, væri nær að alþjóðasamfélagið breytti um vinnubrögð og að slíkir efnahagslegir fyrirvarara yrðu einfaldlega venjubundin viðmiðun í flestum svona lánasamningum. Það er tímabært að fjármálaumhverfi veraldar þurfi að taka tillit til þess að peningar eigi ekki að stjórna öllu. Því miður skilja gömlu nýlenduveldin Bretland og Holland ekki slík sjónarmið, enda með langa sögulega reynslu af því að arðræna þjóðir í krafti ofbeldis.

Misskilningur og vanþekking á málinu veður nú uppi í erlendum fjölmiðlum. Það er vissulega slæmt. En við getum ekki miðað ákvarðanir okkar við slíkt rugl. Þetta mál þarf að leysa eins og aðrar milliríkjadeilur milli siðaðra þjóða. Þar sem bæði er gætt að sanngirni og tillit tekið til þess að niðurstaðan sé í samræmi við lög og rétt.
Framtíð íslensku þjóðarinnar má ekki ráðast af taugaveikluðu kosningabrölti breskra stjórnmálamanna, ótta sumra íslenskra stjórnmálamanna um pólitískt ofbeldi erlendra ríkja, né vanþekkingu fáfróðra blaðamanna sem helst virðast vilja búa til æsifréttir. Orkubloggarinn vill ítreka orð sín í síðustu færslu hér á Orkublogginu og hvetja til þess að þaulvanur sáttasemjari komi að því að leysa þessa alvarlegu milliríkjadeilu. Kannski ætti Ólafur Ragnar að bjalla í Bill Clinton! Þetta mál snýst nefnilega um meira en bara peninga - þetta snýst líka um mannleg gildi og það að taka tillit til náungans.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.1.2010 | 08:19
Blessar Guð Ísland?
Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

Þannig segir í 26. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. Mun forseti Íslands staðfesta Icesave-lögin? Eða mun hann hafna því? Og lögin verða borin undir þjóðaratkvæði?
Alþingi samþykkti umrætt frumvarp eftir mikla og nokkuð ítarlega umfjöllun. Varla er hægt að segja að þar hafi gerræði ráðið ríkjum. Engu að síður virðist mjög stór hluti þjóðarinnar vilja að málið komi til þjóðaratkvæðagreiðslu - og þar með má segja að myndast hafi "gjá milli þings og þjóðar". Samkvæmt því má kannski álykta sem svo að til að vera samkvæmur sjálfum sér hljóti forsetinn að synja lögunum um staðfestingu sína.
Lögin fela í sér ríkisábyrgð á skuldbindingum Íslands vegna milliríkjasamnings sem gerður var við Breta og Hollendinga um uppgjör á Icesave (í gegnum Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta). Sumir kunna að telja óeðlilegt að forsetinn bregði fæti fyrir milliríkjasamning. Ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar gera reyndar engan mun á því hvað um er fjallað í lögum, þegar kemur að staðfestingi forseta eða synjun. Af orðum þessarar stjórnarskrárgreinar má vera augljóst að forsetinn hefur vald til að synja lögunum um staðfestingu sína og þar með skjóta þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Meðan stjórnarskráin er þannig úr garði gerð að forsetinn getur hafnað að staðfesta lög og vísað þeim í þjóðaratkvæði, er ekkert óeðlilegt við þá leið. Það er vissulega afar óvenjulegt að slíkt gerist; fjölmiðlalögin alræmdu eru eina dæmið fram til þessa. En þessi Icesave-lög eru heldur ekki neitt venjulegt mál! Í reynd er ómögulegt að segja hversu mikið muni fást uppí Icesave með eignum Landsbankans. Þetta er því í reynd mjög óáþreifanleg skuldbinding og gæti mögulega orðið þjóðinni afar þungbær, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Í grein í Guardian í gær er talað um að það geti tekið heila kynslóð Íslendinga að greiða skuldirnar sem ríkissjóður er að sökkva í. Í huga Orkubloggarans er málið sáraeinfalt: Einkafyrirtækið Landsbankinn safnaði innlánum undir merkjum Icesave, með loforði um óvenju háa vexti, til að afla fjár til að geta mætt skuldbindingum sínum. Þetta skilaði bankanum miklu fjármagni, en reyndist engu að síður ekki lausn á vanda Landsbankans. Bankinn fór í þrot.
Þó svo aðalörsök þess að svo fór fyrir Landsbankanum, hafi verið glæfralegur rekstur stjórnenda bankans, áttu bresk stjórnvöld líka þátt í atburðarásinni. Þau lögðu sitt af mörkum til að koma ekki aðeins Landsbankanum - heldur öllu íslenska bankakerfinu - fram af hengifluginu. Með því að beita s.k. Hryðjuverkalögum.
Það má vel vera að bankarnir hafi algerlega verið komnir að fótum fram. Og það getur vel verið að Íslendingar geti sjálfum sér um það kennt að hafa í gegnum tíðina kosið yfir sig óhæfa Alþingismenn - og þar með einnig tryggt að hér var allt eftirlit með fjármálalífinu í skötulíki. Það var líka vafasamur gjörningur hjá íslenskum stjórnvöldum að tryggja að fullu innstæður í íslenskum bankaútibúum hér á landi, en telja sig geta hlaupist undan sambærilegri skuldbindingu gagnvart Icesave og öðrum bankainnistæðum í útibúum Landsbankans erlendis.
Orkubloggarinn er þeirrar skoðunar að þetta réttlæti samt ekki að hroðalegum skuldum einkafyrirtækisins Landsbankans vegna Icesave, verði velt yfir á íslensku þjóðina. Hér hrundi heilt bankakerfi. Slíkar efnahagslegar hamfarir valda því, að mati Orkubloggarans, að íslensk stjórnvöld eru í fullum rétti til að grípa til sértækra aðgerða og hafna ábyrgð vegna Icesave. Bretar eru ekki með hreinan skjöld og þrátt fyrir ömurlegt getuleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart því að tryggja að íslenska fjármálakerfið myndi ekki lenda í slíkum ógöngum, hljóta neyðarréttarsjónarmið að koma hér til skoðunar.
Naumur meirihluti þingmanna ákvað fyrir nokkrum dögum að ríkið taki á sig ábyrgð vegna Icesave í þeirri mynd sem nú hefur verið samþykkt. Um þessa niðurstöðu er mikill ágreiningur meðal þjóðarinnar. Hugsanlega er um að ræða gríðarlega þunga skuldabyrði - vegna einkafyrirtækis sem almenningur hafði ekkert með að gera. Þess vegna þykir Orkubloggaranum sjálfsagt að þjóðin fái að kjósa um þetta mál. Úr því Alþingi gat ekki ákveðið slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, hlýtur forseti Íslands að grípa hér inní og vísa málinu til þjóðarinnar.
Þar með væri forsetinn ekki að taka neina afstöðu. Hvorki með né á móti ríkisstjórninni, né með eða á móti Icesave-samningnum. Hann væri aðeins að inna af hendi sjálfsagða skyldu sína sem þjóðhöfðingi; að leyfa þjóðinni að tala í þessu gríðarlega mikilvæga máli.
Það er samt augljóslega erfitt fyrir Ólaf Ragnar Grímsson að fara þannig gegn vilja ríkisstjórnarinnar; þessarar fyrstu vinstristjórnar í sögu íslenska lýðveldisins. Það væri vatn á myllu andstæðinga ríkisstjórnarinnar og klíkunnar sem hvað harðast hefur barist gegn Ólafi Ragnari. Þess vegna er kannski ólíklegt annað en að hann staðfesti lögin.
Engu að síður kann að vera að forsetinn láti andstöðu stórs hluta þjóðarinnar við lögin verða sitt leiðarljós. Og synji þeim um staðfestingu.
Ef til þess kemur er mikilvægt að vel verði hugað að því að þjóðin gangi vel upplýst til kosninga um þessa löggjöf. Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar væri mikilvægt að kynna með vönduðum hætti hvaða afleiðingar niðurstaðan muni líklega hafa. Fólk þarf að fá góðar upplýsingar til að geta tekið afstöðu til þess hvort skynsamlegra sé að undirgangast Icesave-samninginn með ríkisábyrgð eða að því sé hafnað. Síðari kosturinn kann að hafa alvarlegar pólitískar afleiðingar fyrir samskipti Íslands við önnur ríki og mikilvægt að kjósendur geti áttað sig á hverjar þær kynnu að verða. En lokaorðið um þetta mál á að vera hjá íslensku þjóðinni.
Loks má minnast þess hvernig fór um fjölmiðlafrumvarpið. Segjum nú að svipað gerist með þetta Icesave-frumvarp. Segjum sem svo að forsetinn synji um staðfestingu. Þá gæti ríkisstjórnin einfaldlega dregið frumvarpið til baka, eins og gert var við fjölmiðlafrumvarpið. Og gefið viðsemjendum sínum kost á að ganga að fyrri Icesave-samningnum, með þeim fyrirvörum sem þar er að finna og um varð víðtæk samstaða á Alþingi. Það væri kannski eðlilegasta niðurstaðan úr því sem komið er.

Orkubloggarinn lýsir sig algerlega mótfallinn nýja frumvarpinu, sem Alþingi var að afgreiða. Og vonast svo sannarlega til þess að forseti Íslands taki sig til og geri sitt til að þjóðin fái að sýna hug sinn gagnvart því. Íslenska þjóðin á að fá að eiga lokaorðið um gildistöku þessara ólaga.
3.1.2010 | 11:24
Kon Tiki og Te Papa
Á þeim tugum fermetra af veggjaplássi, sem bækur þekja hér á heimili Orkubloggarans, eru nokkrir kilir í sérstöku uppáhaldi. Einn þeirra er lúinn kjölurinn á ferðabók norska ævintýramannsins Thor's Heyerdahl um Kon Tiki leiðangurinn.

Þetta er íslensk þýðing eftir Jón Eyþórsson frá árinu 1950 og ber titilinn Á Kon Tiki yfir Kyrrahaf. Fáar ef nokkrar bækur las bloggarinn sér til meiri ánægju sem krakki. Og les hana ennþá af og til - á nokkurra ára fresti.
Ástæða þess að þessi ævintýraleiðangur frá árinu 1947, þegar Heyerdahl sigldi við fimmta mann á balsaflekanum Kon Tiki frá Perú til Suðurhafseyja, er rifjaður upp hér í dag, er sú að nú á jóladag lést síðasti eftirlifandi leiðangursmaðurinn.
Sá var Norðmaðurinn Knut Haugland. Þó svo Heyerdahl sé auðvitað þekktastur áhafnarmeðlimanna um borð í Kon Tiki - og Svíinn Bengt Danielsson sennilega sá sem næstmesta athygli hlaut af Kon Tiki-förunum - er saga Haugland ekki síður sérstök og merkileg.

Haugland var á sinum tíma mikil andspyrnuhetja og tók m.a. þátt í því að sprengja upp þungavatnsbirgðirnar í Rjukan. Það skemmdarverk kom hugsanlega í veg fyrir að þýska nasistastjórnin næði að búa til kjarnorkusprengju fyrstir þjóða. Reyndar er í dag talið að Þjóðverjarnir hafi ekki haft yfir nægu þungavatni að ráða til að smíða kjarnorkusprengju. En hetjurnar frá Þelamörk tryggðu það a.m.k. að Hitler ætti ekki séns á slíku gjöreyðingarvopni.
Það er fastur liður í hvert sinn sem Orkubloggarinn kemur til Osló, að sigla út á Bygdöy og heimsækja skemmtilegu söfnin þar. Ekki aðeins Kon Tiki safnið, heldur líka Víkingaskipasafnið og svo auðvitað skipið hans Friðþjófs Nansen; Fram. Nú fer að verða tímabært að drífa sig brátt aftur til Osló, því stráksa mínum, 8 ára, langar að sjá á dýrðina sem pápi er búinn að lýsa svo vel.
Það er sérkennilegt þetta aðdráttarafl, sem gömul skip hafa. Orkubloggarinn minnist t.d. skemmtilegrar heimsóknar um borð í rússneskt seglskip í Reykjavíkurhöfn í sumar sem leið og í gamlan dísil-kafbát frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar á safni í Svíþjóð. Til að magna áhrifin þar, glumdu bæði vélarhljóð og drunur frá djúpsprengjum um bátinn og sjaldan hefur bloggarinn upplifað meiri innilokunarkennd heldur en þarna inni í kafbátnum. Sem þó var uppi á þurru landi!
Það er sorglegt að fiskveiðiþjóðin hér í norðri skuli ekki hafa komið sér upp myndarlegu siglinga- og sjóminjasafni. Þar sem öll siglinga- og fiskveiðisaga Íslendinga væri rakin, með gripum og skipum frá bæði árabátatímanum, skútuöldinni og upphafi togaraútgerðar. Slíkt safn gæti bæði verið geysilega fræðandi fyrir æsku landsins og spennandi áfangastaður fyrir ferðafólk. Það hefði kannski verið nær að ráðast frekar í byggingu á slíku siglinga- og sjávarminjasafni, heldur en að fara útí þessa Hörpuvitleysu.

Rakin fyrirmynd að myndarlegu íslensku siglinga- og sjóminjasafni hefði verið hið flotta Te Papa Tongarewa suður í Wellington á Nýja Sjálandi. Sem reyndar er þjóðminjasafn en leggur mikla áherslu á náttúru Nýja Sjálands og samskipti mannsins við hana í gegnum tíðina.
Maoríarnir hafa einmitt búið álíka lengi á Nýja Sjálandi, eins og við Íslendingar hér á Klakanum góða (Maoríarnir komu líklega til hins óbyggða Nýja Sjálands e.h.t. á tímabilinu 800 til 1200 - og áttu mera að segja sína Sturlungaöld eftir að þeir höfðu útrýmt Móafuglinum snemma á 16. öldinni og fór að skorta fæðu). Sjaldan ef nokkurn tímann hefur Orkubloggarinn komið á skemmtilegra safn, en einmitt Te Papa í Windy Wellington. Nema ef vera skyldu söfnin á Bygdöy hinni norsku!

Það er hálf nöturlegt til þess að hugsa, að Íslendingar skuli aldrei hafa gerst landkönnunarþjóð. Þ.e.a.s. viðhaldið forvitni sinni eftir þjóðveldið og landafundi Leifs heppna og félaga.
Rétt eins og Íslendingar, þá voru Norðmenn lengi vel sárafátæk bændaþjóð. Noregur öðlaðist ekki sjálfstæði fyrr en árið 1905 - um það leyti sem Íslendingar fengu heimastjórn. Engu að síður náðu Norðmenn fljótt miklum árangri í bæði uppbyggingu iðnaðar og að seilast til áhrifa á Norðurslóðum. Og eignuðust hetjur eins og Roald Amundsen og Fridtjof Nansen.

Það munaði reyndar minnstu að Noregur næði líka austurhluta Grænlands undir sig, stuttu eftir nýfengið sjálfstæði. Hinni þrautreyndu dönsku stjórnsýslu tókst þó að verja tilkall Danmerkur til alls Grænlands - og fá viðurkenningu þar um frá hinum einsleitna nýlendudómstól Þjóðabandalagsins.
Norskir landkönnuðir sigruðu aftur á móti sjálft breska heimsveldið í kapphlaupinu um Suðurpólinn og áttu glæstar könnunarferðir um bæði Grænlandsjökul og ísbreiður Norðurhjarans. Fyrir vikið ráða Norðmenn nú yfir bæði Jan Mayen og njóta víðtækra réttinda yfir Svalbarða.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2010 | 00:29
Trúarbrögð og heimsendaspár

Olíuframleiðsla í heiminum hefur aukist jafn og þétt. Mannkynið hefur í meira en hundrað ár þurft sífellt meiri olíu til að knýja samgönguflotann og efnahagskerfið. Ávallt hefur verið unnt að mæta eftirspurninni. Í þau tvö skipti sem borið hefur á ónógu framboði (1973 og 1979) var það í bæði skiptin vegna mikils óróa tengdum Persaflóa-svæðinu og eingöngu um skammtíma vandamál að ræða.
Engu að síður er það auðvitað svo að hver einasta olíulind tæmist smám saman, jafnóðum og olíunni er dælt upp. Hingað til hefur jafnan verið hægt að snúa sér að nýjum lindum þegar hinar fyrri fara að slappast. En ef - eða kannski öllu heldur þegar - að því kemur að ekki verður lengur unnt að finna nógu margar nýjar lindir til að taka við þeim sem tæmast, hlýtur að draga úr olíuframleiðslu.
Þó ber að hafa það í huga, að það er alls ekki útilokað að hámark olíuframleiðslu veraldarinnar muni ekki koma til af því að framleiðslan geti ekki mætt eftirspurninni. Heldur muni ástæðan einfaldlega verða sú að eftirspurn eftir olíu staðni - eða taki jafnvel að minnka. Vegna nýrra orkughafa og nýrrar tækni. Þá myndi um leið draga úr framleiðslunni hjá olíuríkjunum, til að forðast offramboð og verðfall. Þar með hefði olíuframleiðsla náð hámarki - vegna þess einfaldlega að eftirspurnin hefði náð hámarki.

Olíuframleiðslan árið 2009 verður talsvert minni en metárið 2008. Þó telja fæstir að hámarki olíueftirspurnar hafi verið náð. Olíuframleiðslan muni þurfa að vaxa á ný, þegar efnahagslífið tekur að hjarna við. Og þá telja sumir að framleiðslan geti jafnvel ekki annað eftirspurninni. Það myndi augljóslega hafa alvarlegar afleiðingar um allan heim. Umframeftirspurn eftir olíu myndi fjótlega þrýsta verðinu upp og þá gæti hátt olíverð virkað sem bremsa hagvöxt.
Sá tímapunktur þegar olíuframleiðsla heimsins nær toppi er á ensku nefnt Peak Oil. Almennt er þetta hugtak eingöngu notað yfir þann framleiðslutopp þegar framleiðslan mun ekki lengur geta annað eftirspurninni.
Ef aftur á móti olíuframleiðsla toppar og svo dragi úr henni, einfaldlega vegna minni eftirspurnar, er ekki um að ræða hið klassíska Peak Oil - heldur er þá gjarnan talað um Peak Demand. Munurinn er sá, að þá skapar toppurinn ekki umframeftirspurn.
Slík þróun olíueftirspurnar myndi eiginlega gjöreyðileggja hin dramatíska svartsýnisspádóm Bölmóðanna, sem trúa á hið sótsvarta Peak Oil. Samt gæti auðvitað komið að því síðar, að olíuframleiðsla næði ekki lengur að standa undir eftirspurninni. Þá yrði í reynd komin upp samskonar staða eins og fram til þessa hefur fyrst og fremst verið tengd Peak Oil. Að upp komi viðvarandi framboðs-skortur á olíu með þeim afleiðingum að olíuverð hækki mjög og valdi mögulega mikilli kreppu. En er þetta raunveruleg hætta?

Fram til þessa hefur ávallt verið unnt að mæta olíueftirspurn veraldar án vandræða. Með örstuttri undantekningu í tengslum við Súez-deiluna 1973 og 1979 vegna valdaráns klerkanna í Íran.
Og þrátt fyrir marga svartsýnisspádóma um olíuskort - ekki aðeins síðustu árin heldur með reglulegu millibili í hundrað ár - er ennþá fátt ef nokkuð sem bendir til þess að skortur verði á olíu næstu áratugina - eða jafnvel ennþá lengur.
Það er nefnilega gríðarlega mikið til af olíu. Enn er af mikilli olíu að taka á Persaflóasvæðinu og víðar þar sem hefðbundin olíuvinnsla á sér stað. Þar að auki eru góðar líkur á að vinna megi nokkur hundruð milljarða tunna af olíu úr olíusandinum í Kanada og Venesúela. Jafnvel miklu meira; sumir segja eitt þúsund milljarða tunna bara í Kanada. Sem sagt eina trilljón tunna af olíu - sem slagar vel í alla þá olíu sem heimurinn hefur notað síðustu hundrað árin! Og þetta er bara olíusandurinn.
Þá er ótalið olíugrýtið (oil shale) vestur í Kólórado og víðar í Bandaríkjunum. Sem líklega er annað eins magn eins og olíusandurinn. Samtals erum við husanlega að tala um nokkur þúsund milljarða tunna af olíu úr olíusandi og olíugrýti (til samanburðar þá hefur heimurinn fram til þessa dags notað samtals u.þ.b. 1,2-1,3 þúsundir milljarða olíutunna).
Þetta yrði ekki umhverfisvæn olía - en nógu ódýr til að mæta olíuþörf mannkyns langt inn í framtíðina. Ef og þegar hnignun verður viðvarandi í hefðbundnu olíuframleiðslunni, er því líklega af nógu öðru að taka.
Loks væri unnt að framleiða óhemju magn af olíu úr kolabirgðum veraldarinnar. Vissulega hvorki grænt né vænt, en allt gerir þetta hina svartsýnu Peak Oil kenningu ótrúverðuga. Það er miklu líklegra að draga fari úr olíuframleiðslu af þeirri einföldu ástæðu, að menn snúi sér að öðrum orkugjöfum - af eigin frumkvæði!

Samt er fullt af skynsömu og vel menntuðu fólki óþreytandi við að boða yfirvofandi Peak Oil; olíuskort með tilheyrandi himinháu olíuverði og efnahagskreppu. Í huga Orkubloggarans byggir slíkur boðskapur á fátæklegum rökum. Og er meira í takt við trúarbrögð en vísindi.
Þar með er bloggarinn ekki að fullyrða að þetta muni aldrei gerast. Þvert á móti mun olíuframleiðsla (eða olíueftirspurn) auðvitað einhverntíma ná toppi - og það jafnvel fyrr en seinna. En sé litið til staðreynda, lært af fortíðinni og skoðað hvaða möguleikar eru í olíuvinnslu, er bara afskaplega ólíklegt að svarsýnisspárnar um alvarlegar efnahagslegar afleiðingar Peak Oil gangi eftir. Ekki útilokað - en ólíklegt.