Marcus Wallenberg & Elkem

Nú í vikunni bárust fréttir af því að Kínverjar hafi keypt hið fornfræga iðnfyrirtæki Elkem í Noregi. Sem m.a. á járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Elkem var brautryðjandi í því að byrjað var að nýta vatnsaflið í Noregi í upphafi 20. aldar. Í dag ætlar Orkubloggið að staldra við þá sögu.

rjukan-hydro-plant.jpg

Fyrstu virkjanirnar í Noregi voru byggðar á 19. öldinni, en það var fyrst eftir aldamótin 1900 að norska raforkuvæðingin fór af stað fyrir alvöru. Þar voru fyrst og fremst á ferðinni einkafyrirtæki. Og það eru þessi gömlu fyrirtæki sem í dag heita nöfnum eins og Norsk Hydro, Yara og Elkem. Öll þessi fyrirtæki eiga sem sagt um aldarlanga sögu að baki. Öll eru þau norsk en eru um leið stór á alþjóðavettvangi og öll eiga þau rætur að rekja til erlends fjármagns.

Það voru m.ö.o. ekki norskir peningar sem lögðu grunninn að þessum þekktu norsku iðnfyrirtækjum. Heldur þýskir, breskir, franskir og sænskir fjárfestar. Og grunnurinn að umræddum fyrirtækjum var lagður með virkjun norsku vatnsfallanna í byrjun 20. aldar - þar sem einkaframtakið var allsráðandi. 

sam_eyde_car.jpg

Norska ríkið var þá með litla burði til að standa í slíkum fjárfestingum. Þar með er þó ekki sagt að Norðmenn hafa bara verið áhorfendur. Þvert á móti var það norskur athafnamaður, Sam Eyde, sem var drifkrafturinn í stofnun þessara fyrirtækja. Auk þess sem Eyde sá tækifærin í vatnsaflinu, nýtti hann sér tækniþekkingu og uppgötvanir norsku vísindamannanna Carl Wilhelm Søderberg og Kristian Birkeland til að koma á fót nýjum iðnfyrirtækjum í Noregi.

Athyglisvert er að þrátt fyrir að það væru fyrst og fremst einkaaðilar sem virkjuðu norsku vatnsföllin í upphafi, þá tryggðu norskir stjórnmálamenn að norsku vatnsorkuverin myndu í fyllingu tímans verða eign norska ríkisins. Allt frá árinu 1906 var farið að beita því skilyrði að enginn fékk virkjanaleyfi nema skuldbinda sig til að afhenda norska ríkinu virkjunina endurgjaldslaust að ákveðnum tíma liðnum.

rjukanfossen_2.jpg

Sam Eyde var samtíðarmaður Einars Benediktssonar. En Eyde var lagnari en Einar Ben við að laða til sín erlent fjármagn - og gat að auki boðið peningamönnum aðgang að merku norsku hugviti! Þetta var upphafið að nokkrum stærstu og öflugustu iðnfyrirtækjum Evrópu í dag. Til urðu áburðarframleiðandinn Det Norske Aktieselskap for Elektrokemisk Industri  (í dag kallað Elkem) og orkufyrirtækið Norsk Hydro-Elektrisk Kvælstofaktieselskab (síðar nefnt Norsk Hydro og enn síðar bara Hydro). Síðar var sérstakt fyrirtæki stofnað um áburðarframleiðsluna á vegum Norsk Hydro og kallast það Yara International. Yara er einn allra stærsti áburðarframleiðandi heimsins í dag.

Þessi þrjú fyrirtæki starfa á ólíkum sviðum. Elkem er í dag einkum þekkt fyrir framleiðslu á kísilafurðum fyrir sólarsellur, Yara er sem fyrr segir í áburðarframleiðslu og Norsk Hydro er í dag fyrst og fremst álbræðslufyrirtæki eins og Alcoa eða Rio Tinto Alcan.

Á þeim hundrað árum sem liðin eru frá því Sam Eyde keypti virkjunarréttinn að Rjukanfossinum (sbr. myndin hér að ofan) hafa bæði Elkem og Hydro auðvitað farið í gegnum miklar sveiflur og allskonar dramatík. Í fyrstu voru þau bæði alfarið í einkaeigu og var sænska Wallenberg-fjölskyldan þar í fararbroddi. Síðar eignaðist norska ríkið Norsk Hydro, en það er í dag eigandi að rétt um 35% hlut. Sömuleiðis á norska ríkið nú 35-40% hlut í Yara.

orkla-logo.png

Elkem er líka löngu komið úr höndum Wallenberganna og var nú síðast í eigu norska fjárfestingafyrirtækisins Orkla. Nú í vikunni gerðist það svo að öll Elkem-samsteypan nema raforkuframleiðslan, var seld til kínverska fyrirtækisins National Bluestar Group. Sem kunnugt er, er járnblendiverksmiðjan á Grundartanga einmitt í eigu Elkem og fylgir hún með í kaupunum. Raforkuframleiðsluhluti Elkem - Elkem Energi - var aftur á móti undanskilinn í viðskiptunum við kínverska Bluestar og er því ennþá í eigu norska Orkla.

elkem-logo-2_1053331.jpg

Öll þessi þrjú fyrirtæki - Elkem, Yara og Norsk Hydro - hafa aðalstöðvar sínar í Noregi, en eru með framleiðslu um allan heim. Þess má geta að Orkla á afar merka sögu að baki; rætur fyrirtækisins liggja í rekstri koparnámu í Syðri-Þrándarlögum á 17. öld. Um aldamótin 1900 hellti Orkla sér svo í byggingu rafknúinna járnbrauta og það var þá sem sænska Wallenberg-fjölskyldan varð helsti eigandi Orkla. Já; Wallenbergernir voru hreinlega allstaðar!

Aðaleigandi Orkla í dag er norski auðmaðurinn Stein Erik Hagen, en fjölskylduauður hans skapaðist upphaflega í matvörukeðjunni Rimi á 8. áratug liðinnar aldar. Orkla er skráð í norsku kauphöllinni, rétt eins og líka gildir um Yara og Norsk Hydro. Orkla eignaðist meirihluta í Elkem árið 2005 og fyrirtækið allt árið 2009, en Elkem var afskráð af markaði 2005. Hagen er nú sagður ætla að einbeita sér að neytendavörum og mun það vera ein helsta ástæðan fyrir sölunni á Elkem.

markus-wallenberg-painting.jpg

Það sem er þó kannski athyglisverðast í þessu öllu saman, er sú staðreynd að öll þessi fyrirtæki eiga upphaf sitt og uppgang að þakka fjárfestingum auðkýfingsins Marcus Wallenberg. Wallenberg kom að stofnun bæði Norsk Hydro og Elkem. Og hann var virkur í stjórn fyrirtækjanna allt fram til ársins 1942, en þá var hann orðinn rétt tæplega áttræður.

Marcus var ekki aðeins lykilmaður við fjármögnun fyrirtækjanna; í næstum fjóra áratugi  átti hann tvímælalaust mestan þátt allra í árangursríkri starfsemi þeirra. Og þá ekki síst að koma þeim klakklaust í gegnum kreppuárin.

Svo virðist sem Einari Ben hafi ekki komið til hugar að tala við Wallenberg, þegar hann leitaði fjárfesta til að virkja Þjórsá. A.m.k. kom aldrei til þess að Einari tækist að láta drauma sína rætast um byggingu stórvirkjana og iðnvæðingu á Íslandi. En EF Marcus Wallenberg hefði fengið áhuga á Íslandi má velta fyrir sér hvort hér væru þá til stórfyrirtæki á sviði orku og stóriðju, sem nú myndu starfa um allan heim?

oslofjorden_bispevika.jpg

Á fallegum síðsumardegi í september sem leið (2010) sat Orkubloggarinn, ásamt öðrum landa, á fundi með tveimur þaulreyndum framkvæmdastjórum Hydro í höfuðstöðvum fyrirtækisins við kyrrlátan Oslófjörðinn. Og þegar menn voru að ljúka fundinum stóðst bloggarinn ekki mátið, að spyrja þessa gömlu jaxla hvort andi Sam Eyde svifi þarna enn yfir vötnum?

Þeir svöruðu því til að starfsfólk Hydro væri vissulega meðvitað um Eyde - en að það væri þó miklu fremur Marcus Wallenberg sem væri mönnum þarna innblástur. Það virtist ekkert vefjast fyrir þessum gegnheilu sósíal-demókratísku Norsurum að viðurkenna það að nokkrar helstu grundvallarstoðirnar í norsku atvinnulífi séu að miklu leyti sænskum kapítalista að þakka! 

Það er einnig athyglisvert að innan Elkem virðast menn mjög sáttir með eigendaskiptin og aðkomu Kínverja. Nú á föstudaginn sem leið fékk Orkubloggarinn t.a.m. tölvupóst frá forstjóra eins af fyrirtækjunum innan Elkem-samsteypunnar, þar sem sá hinn sami hafði á orði að nú sæi Elkem fram á bjartari tíma. Kínverjarnir séu nefnilega miklu áhugasamir um nýtingu sólarorku heldur en Orkla var - og að þeir muni vafalítið ætla sér að efla kísilframleiðslu Elkem enn frekar.

elkem-world.png

Staðreyndin er samt sú að Elkem mun ekki mikið lengur fá raforkuna í Noregi á því gjafverði sem lengi hefur verið. Nýverið seldi Elkem virkjanir í sinni eigu í Noregi (virkjanir sem hvort sem er voru að nálgast lok nýtingartímans) og þegar núverandi langtímasamningar Elkem renna út (upp úr 2020) er flest sem bendir til þess að verksmiðjur Elkem muni þá smám saman hverfa frá gamla heimaríkinu. Til annarra landa sem bjóða hagstæðara raforkuverð. Og það án tillits til þess hver á fyrirtækið.

Það er reyndar mögulegt að Elkem muni þá horfa til Íslands sem góðrar staðsetningar fyrir kísiliðnaðinn sinn. Stóra spurningin er bara hvaða raforkuverð þeir treysta sér til að borga? Verð sem væri jafnvel 40-60% hærra en álbræðslurnar hér borga, kann að vera áhugavert fyrir Elkem. Kannski verst hvað þeir eru orðnir góðu vanir í Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

takk fyrir skemmtilegt og fróðlegt innlit í norska iðnaðarsögu :)

Óskar Þorkelsson, 16.1.2011 kl. 09:19

2 identicon

Sæll og takk fyrir samantekt - skýrt og skorinort, en ég er ekki sammála þér í að starfsfólk Hydro líti á Wallenberg sem stærri frumkvöðul að stofnun Hydro en Sam Eyde. Ég átti þess kost að vinna við skipulag og framkvæmd 100 ára afmælis Hydro á árunum 2004 og 2005. Ég gróf mig igegn um sögu þessa merka félags og bjó meðal annars um tíma í gömlu admin húsunum sem Hydro á í bæði Rjukan og í Notodden. Það var engin vafi af hvað mér fannst að allir þeir mörgu sem ég kynntist talaði við á þessu ferli mínu litu á Sam Eyde sem aðal frumkvöðul og primus motor í uppafi og á fyrstu árum félagsins.

Sigurjon Einarsson (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 09:59

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Þarna var vel að merkja bara um að ræða skoðun tveggja gamalla jálka, sem kannski alls ekki endurspegla skoðun starfsfólksins almennt. En munum að Sam Eyde var á sínum tíma bolað útúr stjórn Hydro. Wallenberg og fleirum þótti karlinn erfiður.

Ketill Sigurjónsson, 16.1.2011 kl. 13:04

4 identicon

Flott færsla hjá þér, afar áhugavert.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 18:54

5 identicon

Flott færsla. Er diggur lesandi eftir að hafa rekist á bloggið hjá þér fyrir tilviljun. Áhugaverðar pælingar sem alltaf.

Hjalti R (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 23:54

6 Smámynd: Gústaf Níelsson

Áhugaverð samantekt hjá þér Ketill,en hefur saga þessara fyrirtækja ekki verið skráð?

Kann að vera að sömu "sveitakallasjónarmiðin" og nú eru ríkjandi (vonandi tímabundið á Íslandi) hafi komið í veg fyrir orkunýtingu á Íslandi fyrr en varð?

Hins vegar hef ég engan sérstakan áhuga á því að kommúnistaríkið Kína beini sjónum sínum til Íslands, þótt sumir aðrir kunni að láta því vel.

Gústaf Níelsson, 16.1.2011 kl. 23:58

7 identicon

Úr því verið var að minnast á Einar Ben og hans orkumálasögu þá er ekki úr vegi að rifja dálítið upp. Á tímum Einars Benediktssonar skálds, og annarra frumkvöðla í orkumálum var önnur stefna uppi, þá var litið á raforkuframleiðslu  sem gróðatækifæri einkaaðila.  Þetta gerbreyttist þegar Franklin D. Roosvelt bandaríkjaforseti notaði það tækifæri sem orkunýtingin bauð upp á til að rífa Bandaríkin upp úr kreppunni miklu. Aðferðin var einföld. Ríkið byggði virkjanir út um allt og seldi raforkuna á almennan markaði á kostnaðarverði. Iðnaðurinn tók stórstígum framförum og með þetta fyrir augunum tóku flest Evrópuríki upp sömu stefnu. Ríkisorkurisarnir í Evrópu litu dagsins ljós. Orkufrek iðnfyrirtæki höfðu í öndverðu byggt eigin orkuver og héldu því áfram, en smám saman minnkaði bygging orkuvera á þeirra vegum en í staðinn fengu þau  raforku á verði sem tók tillit til lægri dreifingarkostnaðar og lengri nýtingartíma þeirra en annarra notenda. En einn galli var á þessu. Þegar gamlar verksmiðjur voru lagðar niður sat orkusalinn eftir með sárt ennið og oftar en ekki töluvert tap. Því var í upphafi stóriðjuvæðingar á Íslandi mörkuð sú stefna að selja raforkuna í stóriðju á kostnaðarverði með litlu álagi, en fá í staðinn kaup­tryggingu sem grípa mátti til ef orkukaup hættu. Þetta reyndist gæfuspor enda hefur í stóriðju­rekstri hér, varla fallið úr einn einasti dagur meðan erlendis er allt aðra sögu að segja. Samkeppnishæft verð til stóriðjunnar fékkst auðveldlega í byrjun með því að byggja stærri virkjanir sem framleiddu ódýrt á hverja orkueiningu og seldu inn á almennan markað. Þá þurfti almenningur ekki að sætta sig við dýrari orku frá smærri virkjunum. Þessi samnýting orkuvera gekk mjög vel meðan almenni markaðurinn var af sömu stærðargráðu og stóriðjan. Hefur verið sýnt fram á að orkuverð til almennings á Íslandi hefur verið hóflegt  og í raun lækkað vegna þessa. Annað mál er það að þessari sögu lýkur með byggingu Kárahjnúkavirkjunar. Þetta eru íslensk stjórnvöld bara ekki búin að skilja heldur skilgreina sína orkustefnu út frá trúarkreddum sem aldrei hafa átt neina stoð í raunveruleikanum

Jónas Elíasson (IP-tala skráð) 18.1.2011 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband